Wednesday, May 31, 2006

 

Álfurinn indæli.

Þegar ég átti leið í Bónus um síðustu helgi voru þar í anddyrinu tvær ungar meyjar að selja álfa fyrir SÁÁ. Ágætt að leggja þessu lið með einum þúsundkalli. Ég stillti álfinum upp við eldhúsvaskinn. Í morgun fékk hann nýtt hlutverk. Raikonen er heillaður af þessari veru. Hefur nú flengst með hana fram og aftur um íbúðina og inn og út um gluggann. Jafnvel flískúlurnar eru nú hjóm eitt. Mér datt nú ekki kisi í hug þegar ég fjárfesti í þessari veru annars heims. En þetta dýr er alls góðs maklegt svo þetta er bara frábært. Og þessi álfur er örugglega með miklu hærri greindarvísitölu en álfarnir sem nú eru að leggja á ráðin um helmingaskipti í bæjarstjórninni. Vond er nú þeirra vitleysan en ég óttast að verri verði skynsemin. Vinstri grænir stóðust prófið. Og það sem meira er. Samfylkingin líka að nokkru leyti. En barborgararmærin verður sennilega tilkippileg. Kannski ekki sætasta stelpan á ballinu en Eyþór getur örugglega notast við hana. Þetta er bara í samræmi við mellustandið á framsóknarmaddömunni um allt land þessa dagana.Alltaf klár og til þjónustu reiðubúinn.

Grasveðrið heldur áfram. Hitastigið við tveggja stafa tölu. Styttist í helgarfrí. Aukafrídagur á mánudag. Góð veðurspá næstu daga svo það er bara bjart framundan. Reyndar nokkuð þung fjárhagsleg mánaðamót hjá Hösmaga. Hefst þó allt saman og sólskinið áfram í sálinni. Og fýlan út af kommenti skáldsins horfin. Orðið líft hér innandyra á ný. Og Raikonen enn á öðru hundraðinu með álfinn. Pési vinur hans lætur sér fátt um finnast og dormar í stólnum að venju á þessum tíma sólarhringsins. Fjallið hulið þoku og hugsar sitt. Vona að áfarnir sem búa þar geti komið vitinu fyrir aðra tregari álfa. Kannski er það vonlítið. Ykkar Hösmagi hugsandi um álfa og engla....... og og og kannski saxa líka.

Tuesday, May 30, 2006

 

Vætutíð.

Hann rignir nokkuð þétt í morgunsárið. Hitinn um 7 gráður. Þetta mun vera kallað grasveður. Hlýnar meira í dag. Þá verður enn meira grasveður. Það er þó ljóst að allur gróður verður seinni til nú í ár eftir óvenjukaldan og þurran maí. Engin ástæða til að kvarta því sumarið er örugglega skammt undan. Þá verður gott að éta brauð og iðka leiki. Nú þarf að huga að græjunum. Stangir, línur og hjól. Og allt hitt. Túburnar og maðkurinn, önglar, sökkur, nælur og spænir. Tíminn er svo fljótur að líða að það er einsgott að fara að gera þetta allt klárt. Fæ örugglega leyfi til að kíkja í garðinn hjá Immu minni. Þar eru stórir ormar uppi í vætutíð að næturþeli. Imma er líka góð til áheita. Það hefur margsannast. Hún heitir reyndar Ingibjörg og er móðir fyrrum sambýliskonu minnar, Grétu. Báðar ágætar.

Stutt varð í viðræðum S og D hér í gær. Gæti endað með því að Eyþór og skósveinarnir lappi uppá föllnu maddonnuna með barborgurum. Kannski við hæfi eins og dæmin sýna víða um landið. Við bíðum átekta. Kannski fáum við allstaðar vondar bæjarstjórnir. Það er kannski ekkert skrítið úr því Vilhjálmur Vilhjálmsson er orðinn sósíalisti. Alveg er það yfirgengilegt hvað sumir eru lunknir að hafa algjör endaskipti á öllum sköpuðum hlutum. Ekki síst sannleikanum. Litli, ljóti trúðurinn í kastljósi sjónvarpsins í gær var gott vitni um það. Guð hjálpi Reykjavík næstu 4 árin. Kveðjur úr vætunni, ykkar Hösmagi.

 

Svikin loforð.

Ég hálflofaði að leggja pólitísk skrif á hilluna um sinn. Eftir að hafa fengið 2 comment á morgunbloggið get ég þó ekki orða bundist. Ósköp eru sumir eitthvað tens. Óhróður og fleira fínerí heitir það. Og tryggð við Sjálfstæðisflokkinn. Menn verða nú að horfa á hlutina í samhengi. Allan þennan mánuð hefi ég lýst afrekum síðustu bæjarstjórnar. Undrar einhvern að ég efist um nýjan meirihluta með þetta sama lið innanborðs. Þeir töpuðu 3 fulltrúum af 7. Það kalla ég nú afhroð. Og það vita það nú allir sem þekkja mig að ég hef aldrei elskað sjálfstæðisflokinn sérlega heitt og því síður hægt að tala um tryggð í því sambandi. Vildi einfaldlega láta reyna á hvort hægt væri að búa til betri bæjarstjórn. Kannski var það borin von frá upphafi. Eftir innkomu þessa Messíasar sem kom svífandi þöndum vængjum. Ég varaði við honum strax. En íhaldið hér bar ekki gæfu til að sjá í gegn um hann. Enda sumir farnir að sjá það að hann er farinn að þvælast fyrir þeim. Virðist heldur ekki muna í dag það sem hann sagði í gær. Og að eigin sögn lenti hann bara í smá "óhappi" Líklega öllum öðrum að kenna en honum sjálfum. Komist hann til áhrifa í næstu bæjarstjórn er spá mín sú að hann verði ekki langlífur þar. Ef svo yrði skal ég viðurkenna að Árborgurum séu allar bjargir bannaðar. Það er einfaldlega satt og rétt sem ég sagði um hann í upphafi. Sá sem ekki getur stjórnað sjálfum sér getur ekki stjórnað heilu bæjarfélagi. Og ég er lika fullviss um það að vinstri grænir selja ekki íhaldinu sálu sína fyrir baunadisk frekar en föllnu maddonnunni. Og ef fer sem horfir að íhaldið taki annanhvorn fallkandidatinn uppí til sín er kannski best að hugleiða það sem konan sagði í sjónvarpinu í gær að hún væri að hugsa um að segja sig úr þjóðfélaginu. Við skulum þó vona að óhamingu Árborgar verði ekki allt að láni. Ykkar Hösmagi, hálfdaufur í dálkinn eftir ómaklega gagnrýni.

Monday, May 29, 2006

 

Spár.

Sumar spár mínar rætast. Skælbrosandi frammari komin uppí hjá íhaldinu í Reykjavík. Skil vel konuna í sjónvarpinu í gærkvöldi sem einfaldlega langaði til að segja sig úr þjóðfélaginu. Frammarinn fékk orkuveituna til að leika sér að. Þá getur Vilhjálmur gert allt sem honum sýnist. Við skulum bara vona að þeim takist ekki að eyðileggja höfuðborgina alveg á þessu kjörtímabili.
Ekki veit ég hvað er að gerast hér á Selfossi. Það er þó jákvætt að viðræður B S og V eru sagðar á viðkvæmu stigi. Þýðir væntanlega að kröfur vinstri grænna standa eitthvað í föllnu madonnunni.Enda er það dauðadómur yfir vinstri grænum hér ef þeir gefa of mikið eftir. Þá er miklu betra að reyna samstarf við sjálfstæðisflokkinn. Og eðli málsins samkvæmt hefði átt að byrja þar. Bæjarstjórnin fékk einfaldlega falleinkunn og engin endurnýjun varð á efstu mönnum á listum B og S. Þreytt fólk á að hvíla sig.
Maí brátt á enda runninn. Hitastigið enn fremur lágt en þó grænkar nú nokkuð ört þessa daga. Og næsti mánuður er mánuður hinn björtu nátta. Og vertíðarbyrjunar. Kannski læt ég loks verða af því að velta mér allsberum uppúr dögginni á Jónsmessunótt. Gæti best trúað að það magnaði upp sálina. Og gerði kroppnum gott að auki. Og örugglega gott fyrir mátt veiðigyðjunnar. Sem svo oft hefur staðið með mér við þessa indælu iðju. Ég er ekki að halda því fram að ég hafi neina náðargáfu á þessu sviði. En margan fiskinn hef ég fengið á krókinn eftir að hafa farið eftir hugboði. Einhverskonar hvísli í eyrað. Þetta yljar manni oft á köldum vetrarnóttum. Enga á ég nú konuna hvort eð er. Reyndar ágætlega sáttur við það. Þegar hugurinn er í jafnvægi, þú hlakkar til að vakna á morgnana, ferð glaður á fætur og tekur til verka er ekki yfir neinu að kvarta. Fátt er erfiðara en vera ósáttur við sjálfan sig. Megi þessi bjarti og fagri maídagur færa ykkur gleði og lukku. Ykkar Hösmagi.

Sunday, May 28, 2006

 

Miðnæturkyrrð.

Eftir að hafa sofið frá klukkan hálf fimm í gær vaknaði undirritaður um miðnætti. Útsofinn að sjálfsögðu. Nóttin framundan. Gerir svo sem ekkert til því ég á enn verk að vinna hér heimafyrir. Kisi kátur utandyra. Ekkert varð af stangveiði um helgina. Hafði einhvernveginn ekki þrek eða nennu til þess. Nú eru bara 4 vikur í að reynt verði við þann silfraða í Ölfusá. Áin er nú óvenjufalleg, lítil og silfurtær. Og nú þarf brátt að ryðja frystikistuna fyrir nýjar birgðir. Ákveðinn í að láta flaka fiskinn jafnóðum í sumar. Þá er hann aðgengilegri og ést betur. Hef trú á að veiðin gangi vel í sumar. Og nú hef ég rýmra frí en nokkurn tímann áður á starfsævinni. Ef til vill verður hægt að kanna Arnarvatnsheiðina. Aldrei komið þar en heyrt af henni margar sögur. Sögur um veiði og náttúrufegurð. Örugglega gott að vera þar í góðu veðri. Svo skýtst ég ínní Veiðivötn í eftirlitsferð snemma sumars eins og í fyrra. Gott að sýna nýja vagninum Vötnin. Hann á örugglega eftir margar ferðir þangað inneftir. Síðan eru það líka fornar slóðir sem vert væri að kanna. Landmannalaugar og Kirkjufellsvatn. Ekkert heyrt af því árum saman. Fyrir 27 árum lenti ég þar í brjáluðum fiski. Fengum 261 bleikju á einum sólarhring. Þá var nú hunterinn í essinu sínu. Lunginn úr sunnudeginum fór í aðgerð í bílskúrnum hjá Ingvari í Sportbæ. Sá kemur við sögu í Radíó Selfoss. Eins og fleira ágætt fólk. Og það er orðið æði langt síðan ég hef öslað austur fjallabak. Kominn tími á það.
Lágnættið nálgast. Langar þó alls ekki að leggja mig aftur. Væri þó óhætt því Jón Marteinsson er víðs fjarri. Helvítis pjakkurinn sem notaði tækifærið þegar nafni hans Grindvikíngur lét sér renna í brjóst. Stal Skáldu. Sem sagt ekki gott. Meira kaffi og svo heldur lífið áfram. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

 

Festina lente.

Upphafleg spá Hösmaga reyndist að lokum rétt. Meirihlutinn féll, íhaldið með 4 og VG 1. Ég sá á vefnum að fulltrúi VG ætlar í viðræður við fallkandidatana. Held hann ætti nú að flýta sér hægt í þeim efnum. Við Árborgarar felldum einfaldlega meirihlutann. Nú er tækifærið að gefa þeim fríið sem ég hef verið að tala um. Þetta er sama fólkið. Ekki það að ég telji þetta ekki ágætisfólk. Það ætti bara að taka sér eitthvað annað fyrir hendur en stjórna þessu bæjarfélagi. Það sýnir reynslan frá síðasta kjörtímabili. Ef fulltúi VG ætlar að styðja þetta lið til að halda völdum verða kröfur hans að vera ákaflega skýrar. Gjörbreytt stefna í umhverfis- og skipulagsmálum, tiltekt í ráðhúsinu og ótalmargt annað. Enn ljósi punkturinn í þessu yrði sá, að Eyþór Arnalds myndi aldrei komast til áhrifa í bæjarstjórn Árborgar. Við skulum sjá hvað setur. En ef fulltúi VG líður gamla meirihlutanum að ráða stefnunni geta vinstri græn sparað sér ómakið við að bjóða fram í næstu sveitarstjórnarkosningum hér í Árborg. Úrslitin í höfuðborginni eru nú bæði góð og slæm. Íhaldið náði ekki meirihluta en exbé maðurinn laumaðist að lokum bakdyramegin inn. Og nú er hættan sem ég benti á um daginn fyrir hendi. Bjóði íhaldið þessum sveini með sér mun hann þiggja það. Getur þá hámað í sig af stallinum eins og hann lystir. Það yðri ákaflega slæmt fyrir borgarbúa.Líklega er nú orðið nóg bloggað um pólitíkina í bili. Líklegt samt að skotið verði inn orði ef svo ber undir.
Veðrið er nú prýðisgott hér. Þokkalegt hitastig, búið að rigna og nú hefur glaðnað til. Held að laufum trjánna hafi fjölgað síðan í gær. Gaman að fá þá fóstbræður báða í nýju samtökin. Og einkadóttirin hefur óskað eftir inngöngu. Hugsa að þetta verði fjölmenn samtök sem vonandi ná einhverjum árangri. Stofnun svona félags er áfangi út af fyrir sig. Fær örugglega marga til að hugsa um blessað fjallið. Það er alltaf góð byrjun. Byrjunin á hugarfarsbreytingunni sem nauðsynleg er. Og flokkspólitíkin verður víðsfjarri í þessum samtökum.
Hösmagi beið eftir helstu úrslitum kosninganna í gær. Vaknaði þó snemma eins og jafnan. Nú verður ágætt að líða inní draumalandið aftur. Formúlan á hádegi. Þýski skósmiðurinn aftastur í rásröðinni. Kemur alls ekki á óvart því mér fannst einsýnt í gær að hann beitti brögðum. Vona að sjálfsögðu að Raikonen gangi vel. Bestu óskir, ykkar Hösmagi.

Friday, May 26, 2006

 

Friðsæld.

Þokkalegt veður. Smágjóla og hitinn tæp 6 stig. Ekki svo slæmt svona snemma morguns. Raikonen óvenjuaðgangsharður við fóstra sinn um miðja nótt. Frí í dag hvort sem er. Legg mig bara seinnipart dagsins og fylgist svo með kosningasjónvarpi í rólegheitum. Margir alvöruvinstrimenn virðast vera að átta sig. Því miður er stóri flokkurinn sem kallar sig ranglega vinstriflokk með nánast sömu stefnu og íhaldið í nær öllum málefnum sveitarfélaganna. Og enginn flokkur nema vinstri grænir virðist meðvitaður um hvað raunveruleg umhverfisstefna snýst um. Það sáu þeir sem fylgdust með kastljósinu í gær. Hér á Selfossi hafa meirihlutaflokkarnir tíundað hvað þeir hafi lagt mikið fé í hin ýmsu mál á liðnu kjörtímabili. Engu er líkara en þetta fé hafi komið uppúr vösum bæjarfulltúanna sjálfra og við eigum að kjósa þá í þakklætisskyni. Þeir hafa bruðlað með fé til handónýtrar stjórnsýslu. Hvert skipuritið ofan á annað og ekkert virkar. Svo seldu þeir rafveituna burt. Hægt að búa til ný skipurit fyrir aurana. Og allt skipulag hér í bænum miðast við að verktakarnir geti náð sem auðfengnustum gróða á sem allra skemmstum tíma. Þetta er nú liðið sem nú má varla vatni halda yfir stjórnvisku sinni og sínu eigin ágæti. Og þetta er liðið sem tók þátt í ákvörðun um áframhaldandi óhæfuverk gegn Ingólfsfjalli. Hélt sérstaka bænastund á bæjarstjórnafundi svo halda mætti eyðileggingu fjallsins áfram. Við skuldum refsa þessum flokkum í dag. Gefa þeim tíma næstu 4 árin til að ná áttum. Þá gætu þeir hugsanlega orðið samstarshæfir. Ég ætla nú að búa áfram hér í Árborg. En það er svo sannarlega ekki vegna núverandi bæjarstjórnar heldur þrátt fyrir hana. Látum þetta liðna kjörtímabil verða okkur víti til varnaðar. Gefum þessum brókarhælum öllum frí.
Ég er enn að hugsa um Tangavatn. Reyni að magna mig uppí að fara með flugustöngina. Og Herconinn sem varaskeifu. Fyrir mann sem er nú enginn snillingur með flugustöngina er ágætt að vaða út í mitt vatn eftir grynningunni. Þá slítur þú ekki fluguna af í grjótinu fyrir aftan þig. Og svo er alltaf möguleiki að hann taki í bakkastinu. Það hefur víst oft komið fyrir. Það er nú líka það skemmtilega við veiðiskapinn að sannleikurinn um hann er miklu lygilegri en allar lygasögurnar sem sagðar eru. Ó þú yndislega veiðigyðja. Sannarlega elska ég þig. Og þeirri ást týni ég aldrei meðan andinn höktir enn í vitunum. Bestu kveðjur krúttin mín öll. Ykkar Hösmagi, hugsandi um stóra urriða.

Thursday, May 25, 2006

 

Vikulok.

Veðrið er nú bærilegra en undanfarna daga. Hitinn komst í 12 stig í gær og nú er hér sólskin og 4 gráður. Verður líklega bara ágætt í dag. Á kosningadaginn fyrir 8 árum var ég að veiða í Tangavatni. Man eftir að ég rótaði honum upp. Kannski væri upplagt að skreppa á morgun ef svo heldur fram sem horfir með veður. Eftir frídag í gær fannst mér vera mánudagur í morgun. Dásamlegt að hafa föstudag og 2ja daga frí framundan.
Spennan enn fyrir hendi í borgarstjórnarkosningum. Ánægjulegt að eins og er er íhaldið með 7. En það sem verra er er að exbé maðurinn er kominn inn. Þokkalegt ef hann verður í oddaaðstöðu. Þó er spá mín sú, að verði þetta niðurstaðan, muni íhaldið mynda meirihluta með vinstri grænum. Það yrði nokkuð athyglisvert þó það sé ekki nein óskaniðurstaða. En þetta skýrist síðar. Kosningarnar eru líka spennandi hér. Ómögulegt er að spá fyrir um niðurstöðuna. Finnst þó nokkuð líklegt að vinstri grænir nái inn manni en það er langt frá að vera öruggt. Vona að meirihlutinn falli. Hann á svo sannarlega ekki annað skilið. Það er líka eina vonin til þess að hér verði breytt um stefnu til hins betra. Það getur þó orðið erfitt að hreinsa upp sumt sem þessi meirihluti hefur skilið eftir sig.
Ég hefi viðrað hugmyndina um hollvinasamtök Ingólfsfjalls lítillega. Henni hefur verið vel tekið. Staðráðinn í að láta verða af þessu innantíðar. Freysteinn mágur minn er sérfræðingur í jarðfræði fjallsins. Þarf að heimsækja hann fljótlega og ræða málin. Þá hef ég loforð um ljósrit af u.þ.b. 130 úrklippum úr blöðum sem varða skemmdarverkin á fjallinu. Verður fróðlegt að lesa þau skrif. Viss um að margir vilja vera með. Og sem betur fer eru nú til andstæðingar hryðjuverkanna í öllum stjórnmálaflokkunum. Menn þurfa ekki að sýna flokksskírteini við inngöngu í þessi samtök. Einungis að hafa vilja til að vernda fjallið með öllum tiltækum ráðum.Það verður ekkert árgjald. Frjáls framlög fyrir útlögðum kostnaði. Þetta verður góður félagsskapur. Ókeypis inn og allir velkomnir eins og þar stendur.
Sama kyrrðin hér árla dags. Fuglar himinsins á sveimi hér yfir. Þeir Pési og Raikonen að snudda hér í kringum mig að venju.Og annað tíðindalítið hér af austurvígstöðvunum. Kveð að sinni, ykkar Hösmagi.

Wednesday, May 24, 2006

 

Villigötur.

Það er ömurlegt þegar maður sér fyrrum samherja sína í bæjarpólitíkinni láta hafa sig í það að vitna um ágæti núverandi bæjarstjórnar. Samherja sem risu upp gegn öllu flokksvaldi 1978 og aftur 1982. Þeir eru á villigötum og hafa nú lagt hugsjónir sínar á hilluna fyrir drauminn um stóran flokk. Stóran, hugsjónasnauðan og valdasjúkan flokk. Er þetta ágæta fólk algjörlega búið að týna áttum? Það hlýtur að vera. Sem betur fer erum við þó enn nokkur, sem ekki látum villa okkur sýn. Trúum enn á að hægt sé að breyta um stefnu hér. Erum ekki ánægð með öll afreksverkin sem núverandi meirihlutaflokkar hafa unnið síðustu 4 árin. Ég hef talið þetta allt saman upp áður. Miðjuhneykslið, skipulagsmálin, fjallið og önnur umhverfismál, hið ónýta og rándýra stjórnkerfi o.s.frv. Þar stendur ekki steinn yfir steini. Flennistórt blað frá samfylkingunni barst inní forstofuna í gær. Myndir af mörgum úr hallelújakórnum. Og meðlimirnir vitna hver af öðrum. Og gömlu félagarnir eru nú sammála Sigurjóni Erlingssyni fyrrverandi foringja úr Alþýðubandalaginu sáluga. Sem var þó bara bæjarfulltrúi framsóknarkratanna sem öllu réðu í flokknum í gamla daga. Ég er sannarlega ánægður með sjálfan mig að hafa ekki kosið hann. En Bergþór minn sem nú er genginn missti aldrei sjónar á markinu. Og Iðunn komin heim aftur. Stoltur af þeirri góðu konu í heiðurssæti V listans. Nú á endaspretti kosningabaráttunnar hef ég komist að einu. Fáir, ef nokkur, mun ganga jafnákveðinn að kjörborðinu og undirritaður. Valkostirnir hafa aldrei verið jafnskýrir.

Allt við það sama í veðurkortunum. Strekkingur og 0 gráður. Jafnvel Raikonen nennir ekki að vera úti. Eltist við stráin smástund en flýði svo inní hlýjuna til fóstra síns. Verst að mega ekki taka hann með sér á kjörstað. Hann kysi örugglega rétt. Með fóstra sínum og fjallinu. Ekki rammvilltur eins og sumir áhangendur I og M lista forðum daga. Vonandi rata þeir út úr þokumyrkrinu um síðir.
Hyggst nota frídaginn til að ljúka við 2 síðustu framtölin í ár. Ekkert gaman að halda til stangveiða í þessu tíðarfari. Þrátt fyrir gjóluskrattann úti ríkir hér kyrrð og friður. Ég bið að heilsa ykkur að sinni, ykkar Hösmagi, ákaflega staðfastur nema bara svolítið öðruvísi en Dóri.

Tuesday, May 23, 2006

 

Ritgleði.

Þó Hösmagi sé nú ritglaður þessa dagana er nú óþarfi að þrykkja út sama pistlinum tvisvar. Eitthvert smáólag á vefnum og það er nú skýringin. Bið forláts. Smá viðbót samt. Fékk glóðvolgt komment frá nafna mínum og býð hann hjartanlega velkominn sem stofnfélaga í hið nýja óstofnaða hollvinafélag. Best væri auðvitað að halda stofnfundinn uppá Inghól. En líklega verður hann nú haldinn hér niðri á láglendinu. Viss um að margir aldnir Selfyssingar vilja vera með. Gott að hafa fengið Sigurð Ólafsson sem bandamann í baráttunni. Og svona til viðbótar frásögninni af símtalinu við íhaldsmanninn. Ég spurði hann sérstaklega um afstöðu sjálfstæðismanna til títtnefndra hryðjuverka. Hann tjáði mér að stefnan væri skýr. Hún væri í bæklingnum sem borinn hefði verið í hvert hús nýlega. Ég hef nú hent þessu jafnóðum sem hverju öðru rusli. En viti menn. Bæklingurinn var hér á bókahillunni. Og stefnan? Ekki orð um Ingólfsfjall. Þar er talað um nægt lóðaframboð, heildstæð miðsvæði í þéttbýliskjörnum, götur og gangstéttar. Reyndar minnst á að standa vörð um fuglafriðlandið. Kanski eru það bara vinstri grænir sem telja umhverfisstefnu meira en að éta lífrænt ræktaða grænmetið og laga gangstéttar. Þeir hafa einir skýra og tæra stefnu varðandi fjallið góða. Vernda það og verja með kjafti og klóm. Eins og ég hef sagt áður blasir fjallið við héðan úr kontórnum mínum. Mér sýnist brúnin örlítið léttari á því núna. Eftir tvo morgunpistla. Takk fyrir kommentið nafni minn góður, Hösmagi, alveg ígulgrænn í morgunsárið.

 

Kalt sólskin.

Sami kuldinn með aðeins minna roki. Vona að hlýrra verði þegar skáldið og Helga birtast 7. júní. Líklega orðin óvön svona veðri. En svona er nú að vera bóhem á suðrænum ströndum þegar við hin skjálfum í ullaranum hér á ísaköldum slóðum. Hlakka til að sjá ykkur krakkar mínir.
Frambjóðandinn sem lofaði að vera góði strákurinn eftir að hafa skandaliserað stendur að sjálfsögðu ekki við loforðið. Mætir óboðinn í afmæli, á vinnustaðafundi o.s.frv. Það liggur við að ég vorkenni íhaldinu yfir vandræðaganginum á því. Foringinn hefur ekkert lært og mun ekki gera það. Og það virðist enginn í þessum flokki hér á staðnum geta tekið af skarið. Enda margir sem verja foringjann staðfastlega. Finnst allt óhróður sem þó er sannleikurinn einber. En skemmdir ávextir verða aldrei nýir aftur. Ef íhaldið vildi halda foringjanum frá ætti því að vera það í lofa lagið. Hvernig væri nú að útbúa hengirúm milli tveggja ljósastaura og lofa honum að hvíla sig í því. Svona fram yfir kosningar a.m.k.
Ég uppgötvaði í gær að það er aukafrídagur á morgun. Jesúsi að þakka. Sagður hafa stigið upp til himna þennan dag fyrir margt löngu. Alltaf leggst sumum þrælum eitthvað til. Það versta er að geta ekki liðkað Herconinn almennilega. Finnst einhvernveginn að það sé kominn fiðringur í stöngina. En ég verð að trúa því staðfastlega að það rætist úr. Margt getur breyst á einum mánuði. Mér var að detta í hug í gær að stofna félag. Hollvinafélag Ingólfsfjalls. Það er í rauninni skömm að það skuli ekki hafa verið stofnað fyrir löngu. Við höfum sofið á verðinum. Ég líka skal ég viðurkenna. Höfum horft á hryðjuverkin áratugum saman án teljandi mótmæla. Við skulum kanna efnistöku annarsstaðar. Ef vel væri unnið væri möguleiki á að eyðileggingunni yrði sjálfhætt. Veski Kjarrbóndans hlýtur að vera orðið nógu bólgið. Reynum að rísa gegn þessu ofbeldi gegn aðalsmerki fegurðarinnar hér. Sem formaður umhverfisnefndarinnar sér ekki. Kannski ekki von því hann er barborgari. Og yfirbarborgarinn hefur ekki aðrar fréttir 4 dögum fyrir kosningar en mánaðargamla tilkynningu um góðverk sitt. Lækkun fasteignagjalda. Í guðanna bænum, gefum þessu liði hvíldina sem það á skilið eftir öll góðverk kjörtímabilsins. Mjög öflugur stuðningur við vinstri græna er besta skrefið í þá átt. Veit að Ingólfsfjall er mér sammála.
Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

 
Sami kuldinn með aðeins minna roki. Vona að hlýrra verði þegar skáldið og Helga birtast 7. júní. Líklega orðin óvön svona veðri. En svona er nú að vera bóhem á suðrænum ströndum þegar við hin skjálfum í ullaranum hér á ísaköldum slóðum. Hlakka til að sjá ykkur krakkar mínir.
Frambjóðandinn sem lofaði að vera góði strákurinn eftir að hafa skandaliserað stendur að sjálfsögðu ekki við loforðið. Mætir óboðinn í afmæli, á vinnustaðafundi o.s.frv. Það liggur við að ég vorkenni íhaldinu yfir vandræðaganginum á því. Foringinn hefur ekkert lært og mun ekki gera það. Og það virðist enginn í þessum flokki hér á staðnum geta tekið af skarið. Enda margir sem verja foringjann staðfastlega. Finnst allt óhróður sem þó er sannleikurinn einber. En skemmdir ávextir verða aldrei nýir aftur. Ef íhaldið vildi halda foringjanum frá ætti því að vera það í lofa lagið. Hvernig væri nú að útbúa hengirúm milli tveggja ljósastaura og lofa honum að hvíla sig í því. Svona fram yfir kosningar a.m.k.
Ég uppgötvaði í gær að það er aukafrídagur á morgun. Jesúsi að þakka. Sagður hafa stigið upp til himna þennan dag fyrir margt löngu. Alltaf leggst sumum þrælum eitthvað til. Það versta er að geta ekki liðkað Herconinn almennilega. Finnst einhvernveginn að það sé kominn fiðringur í stöngina. En ég verð að trúa því staðfastlega að það rætist úr. Margt getur breyst á einum mánuði. Mér var að detta í hug í gær að stofna félag. Hollvinafélag Ingólfsfjalls. Það er í rauninni skömm að það skuli ekki hafa verið stofnað fyrir löngu. Við höfum sofið á verðinum. Ég líka skal ég viðurkenna. Höfum horft á hryðjuverkin áratugum saman án teljandi mótmæla. Við skulum kanna efnistöku annarsstaðar. Ef vel væri unnið væri möguleiki á að eyðileggingunni yrði sjálfhætt. Veski Kjarrbóndans hlýtur að vera orðið nógu bólgið. Reynum að rísa gegn þessu ofbeldi gegn aðalsmerki fegurðarinnar hér. Sem formaður umhverfisnefndarinnar sér ekki. Kannski ekki von því hann er barborgari. Og yfirbarborgarinn hefur ekki aðrar fréttir 4 dögum fyrir kosningar en mánaðargamla tilkynningu um góðverk sitt. Lækkun fasteignagjalda. Í guðanna bænum, gefum þessu liði hvíldina sem það á skilið eftir öll góðverk kjörtímabilsins. Mjög öflugur stuðningur við vinstri græna er besta skrefið í þá átt. Veit að Ingólfsfjall er mér sammála.
Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, May 22, 2006

 

Hryssingur.

Andskoti er hann leiður núna. Hávaðarok og hitastigið rétt yfir frostmarki. Kannski verð ég bráðum sammála Sigga sænska um veðrið hér og hafi allt á hornum mér af þeim sökum.Kominn 23. maí og allt við það sama í kortunum. En kannski er nú plús við þetta allt. Við íslendingar fögnum gífurlega þegar blíðan brestur á. Sem mun að sjálfsögðu gerast. Svona þegar þar að kemur. Ég er búinn að hafa kisa minn fyrir rangri sök. Hélt hann væri óttalegur auli. Gæti ekki lært að fara inn og út um glugga. Auðvitað var þetta ekki rétt. Ég skildi stundum eftir opnar dyrnar á morgnana svo kisi kæmist nú örugglega inn aftur úr rannsóknarleiðöngrum sínum. Líklega er það nú ekki mjög varlegt. Hér gengu þjófar hús úr húsi fyrir skömmu og stálu því sem þeir náðu til. Vonandi nær löggan þessum skálkum og tekur ærlega í þá.
Ég ætla uppí Hreppa nú í morgunsárið. Á nýja farkostinum fasteignasölunnar. Suzuki jimmy. Búinn að prófa hann aðeins. Fyrir mann með bíladellu er einn stór ókostur við að eiga jafnfrábæran vagn og Jeep Grand Cherokee. Allir aðrir vagnar verða bara prump. Mér líkar þó alltaf prýðisvel við litla Lanca. Traustur og seigur. Ég sá einn notaðan Toyota Land Lúser í morgun. Til sölu á einni bílasölunni. Og verðið? 7.690.000 Ég held það hljóti að vera eitthvað meira en lítið að í heilabúi þess sem kaupir slíkan vagn. Nema hann sækist sérstaklega eftir eiginleikum hestakerrunnar. Og nú verður Hörður minn líklega sár við mig. Þessi sem hefði orðið skæðasti bílþjófur landsins ef hann hefði lagt það fyrir sig. Minn yfirbílreddari og bjargvættur þegar eitthvað fer úrskeiðis. Hitti hann í gær og þá var hann á leið að athuga með kínversku vespuna. Hlakka til að frétta af því. Og þær kínversku hljóta bara að vera rauðar. Svo má líka athuga hvort Piaggio eru fáanlegar hér. Mér finnst eiginlega hálftómlegt í bílskúrnum eftir að ég skilaði rauðu Vento vespunni.
Borgarfulltúinn sem ræður framtíð Reykjavíkur næstu 4 árin rokkar nú milli flokka. Er hjá íhaldinu eins og er. Það getur allt gerst. Mín von er að skiptingin verði 6 6 2 og 1. Kannski óskhyggja. En kannski líka traust á dómgreind Reykvíkinga. Þetta verður allt ljóst aðfaranótt þess 28. Vona það besta. Ingólfsfjall enn brúnaþungt. Sem von er. Það á þó enn nokkra vini. Og vonandi fjölgar þeim ört á næstu dögum. Verði þeir nógu margir er enn von til þess að þróuninni verði snúið við. Hryðjuverkunum verði hætt. Fjallið nái aftur kröftum sínum og dularmagni.
Góðar kveðjur úr vindhryðjunum, ykkar Hösmagi.

Sunday, May 21, 2006

 

Sólskin...

í hjarta. Hösmagi vaknaði óhemjuhress í morgunsárið. Með sólskin í hjarta og nýra og með fulla dómgreind. Það er að vísu 2ja stiga frost úti. Bjart og kyrrt. Senn tekur ný törn við í vinnunni. Ásettur dagur og ég ætla að gófla upp aurum fyrir firmað. Nú er íhaldið byrjað að hringja. Það heitir víst maður á mann. Sá sem hringdi í mig þekkir mig lítillega. Hefur eflaust pata af áliti mínu á núverandi bæjarstjórn. Hann sagði mér að strika Eyþór ábyrga út af listanum. Við slitum samtalinu glaðir í bragði. Aðalatriðið er allavega það sama hjá báðum. Að senda þessa bæjarstjórn í frí næstu 4 árin. Vonandi tekst okkur það. Samkvæmt Gallup er allt í járnum í höfuðborginni. Verðum bara að vona að atkvæðaskiptingin verið ekki íhaldinu hliðholl. Reglurnar gera það að verkum að einn flokkur á möguleika á hreinum meirihluta með svona vel liðlega 40% atkvæða á bak við sig. Sennilegt er að Ólafur Magnússon frjálslyndur verði í oddaaðstöðu. Gamall íhaldsmaður sem rakst illa í flokki sínum. Umhverfissinnaður og að ég held hinn vænsti maður. Við bíðum bara átekta. Ef svo slysalega vildi til að aðstoðarmaður Dóra næði kosningu er ekki að efast um að hann skriði undir íhaldssængina. Það yrði slæmt fyrir Reykvíkinga.
Eftir pistil gærdagsins um ljósastaurana kom mér allt í einu í hug ljóðið um manninn með hattinn.

Maðurinn með hattinn
stendur upp við staur.
Borgar ekki skattinn
af því hann á engan aur.
Og í framhaldinu kom mér í hug staka. Eins og ykkur er kunnugt eru jólasveinarnir hálfgerðir fuglar. Til alls vísir einkum þegar dómgreindarbrestur skellur á.

Á austurleið var Giljagaur
göróttum fylltur miði.
Ekki lítinn ljósastaur
látið gat í friði.

Með sólskinskveðju frá mér og þeim félögum Kimi Raikonen og Pétri Högnasyni, ykkar Hösmagi.

 

Ljósastaurar.

Oft á kvöldin
hafa svo margir
gengið um
með ljósastaura undir hendinni
án þess að
sjá ljósglætu.

Þetta ljóð er eftir Stefán Hermannsson. Alltaf þótt það nokkuð gott. Kannski hefur umræðan um ljósastaurana á Hellisheiði og fleiri staura orðið til þess að skyndilega rifjaðist þetta ljóð upp. Vona þó að að þessir þjóðþrifahlutir séu ekki í útrýmingarhættu. Svo á þetta ákaflega vel við um þá sem halda því fram að ekkert útsýni sé á Selfossi. Þeir virðast ganga um í myrkri sumar og vetur. Sjá ekki skóginn fyrir trjám. Eða bara alls ekkert. Og bera heldur ekki við dómgreindarskorti. Þeir eru bara svona. Við skulum öll bera góðan hug til ljósastauranna. Og sérstaklega skulum við gæta að okkur ef við fáum okkur í glas og dómgreindarbrestur skellur á.
Aðgát skal líka höfð í nærveru ljósastaura.

Hér er nú bara norðan bál og 5 gráður. Við frostmark í nótt. Orðinn soldið leiður á þessu. En það verður að þrauka það af sér. Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga eins og skáldið sagði. Smálífsmark enn með Helgu Soffíu. Vona að skáldið mitt sé líka við góða heilsu þó lítið fréttist. Kannski gamla sagan að engar fréttir séu góðar. Og það má nú kannski fyrr rota en dauðrota. Undirritaður virðist eiga bágt með að láta dag líða án þess að láta ljós sitt flæða yfir veröldina. Svona eins og ljósastaur á dimmri nóttu. Það verður þó vonandi fyrirgefið á efsta degi.

Rokkararnir frá Finnlandi unnu keppnina í gær. Aldrei þessu vant horfði ég á þessa keppni til enda og var mjög glaður með úrslitin. Þetta var svona millivigtarrokk. Og lagið bara þrælgott. Og var ekki við hæfi að Sylvía Nótt hlyti 13. sætið í undanúrslitum. Það er hvort sem er til svo mikið af liði sem skilur ekki brandara og hlær alltaf á vitlausum stöðum. Nú ætla ég út í Bónus og kaupa mér nokkra Freyjustaura. Góðar óskir á þessum kalda en bjarta sunnudegi, ykkar Hösmagi.

Friday, May 19, 2006

 

Frost.

Klukkan 5 í nótt var hitastigið hér mínus 0,7 gráður. Lítið í kortunum sem boðar hlýrra loft. Finnst nú eiginlega að kominn sé tími á hærra hitastig. Það er líklega bara í pólitíkinni sem hitastigið er við hæfi. Samkvæmt nýjustu könnun detta tveir samfylkingarfulltrúar og einn framsóknarmaður. Ég hef nú reyndar orðið á tilfinningunni að hætta hafi skapast á því að framsókn snúi sér að íhaldinu eftir kosningar. Því miður hefur reynslan sýnt að samstarf þessara flokka laðar það versta fram í þeim báðum. Ég ætla að vona að forysta íhaldsins hér láti ekki glepjast. Þeir sem vilja breytingar á bæjarstjórninni krefjast þess að báðir flokkarnir í núverandi meirihluta fái frí í 4 ár. Allt annað eru bara svik við kjósendur. Drengstauli úr röðum íhaldsins hér lýsti draumum sínum um þetta samstarf í gær. Vonandi er óskhyggja hans órarnir einir. Við verðum að bíða og sjá hvað setur.
Ég hefði sennilega farið á silungsveiðar í dag ef það væri ekki svona djöfull kalt. Tek það bara rólega heima við og nýt helgarinnar. Þær eru nú alltaf fljótar að líða. Pési mathákur heldur uppteknum hætti og lúrir hér í stólnum á móti mér. Raikonen að rannsóknarstörfum utandyra að venju. Bæjarbúar flestir enn í bælum sínum og kyrrðin ríkir. Hösmagi hefur lokið við ilmandi kaffið og hyggst nú leggja sig aftur. Kannski dreymir hann eitthvað fallegt. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Thursday, May 18, 2006

 

Játning.

Undur og stórmerki hafa gerst.Einn frambjóðenda exbé listans eða lista Barborgara eins og ég hef kallað hann hefur játað að vera framsóknarmaður. Þetta gerði hann á einum sunnlenska vefnum. Á myndinni var ekki hægt að sjá hvort hann gerði þetta kinnroðalaust. Hann er nú svolítið rauðbirkinn svo erfitt er að sjá það. En svo virðist sem þetta sé heiðarlegur kjarkmaður. Annar frambjóðandi á sama lista skrifar líka á vefinn. Um umferðaröngþveitið á Selfossi. Á vissum álagstímum komast ekki nógu margir viðskiptavinir hans yfir brúna. Og ekki nógu hratt. En hann hefur lausnina. Breikka Austurveginn og fækka gangbrautum verulega. Blikkkýrin í öndvegi sem fyrr. Það kemur reyndar ekki fram í þessari ritsmíð hvort höfundurinn sé framsóknarmaður. Kannski laumukommi eða eitthvað þaðan af verra. Ósköp hlýtur að vera erfitt að vera í framboði þegar ekki má nefna stjórnmálaflokkinn sem grunaður er um að standa fyrir því. Það verður líklega að hafa sömu aðgát hér og gagnvart sjallagreyunum sem eiga svo bágt núna. Svei þessum andskotum sem eru að gantast með grafalvarlega hluti. Eins og að Árborg verði nefnd upp. Túborg. Og hættulegt sé að lýsa upp Hellisheiði því ljósastaurarnir geti orðið fyrir einhverjum.Sem eru á leið heim til sín að næturþeli. Og jafnvel með skerta dómgreind. Þetta svona jaðrar við guðlast. En svona eru sumir voðaleg kvikindi.
Enn er kominn föstudagur. Vikan búin að vera nokkuð annasöm á vinnustað. Enda nokkur forföll hjá genginu. En allt hefst þetta. Það er munur að hafa Hösmaga í vinnu hjá sér. Kraftmikinn starfsmann í fremstu röð eins og það yrði orðað í samfylkingunni.
Og Magnús minn hefur afneitað framsókn. Gott að hann getur sagt kinnroðalust að hann hafi aldrei kosið framsóknarflokkinn. Ég hreinlega verð að biðjast forláts á að hafa haldið þessu fram.Öll skulum við láta sannfæringu okkar og hugsjónir ráða þegar við komum í kjörklefann.Látum ekki blekkja okkur til annars.
Norðaustanáttin er köld. Veðrið þó þokkalegt. Gjóla og sólskin. Mér sýnist brún Ingólfsfjall vera dálítið þung í dag. Gæti trúað að fjallið hefði sál og hugsi bæjarstjórninni þegjandi þörfina. Ég ætla að standa með Ingólfsfjalli í kosningunum. Megi dagurinn færa ykkur gleði, ykkar Hösmagi.

Wednesday, May 17, 2006

 

Stóru orðin.

Í gær var enn miði í forstofunni. Kraftmikill stjórnmálamaður í fremstu röð. Annar maður á lista samfylkingarinnar að lýsa eigin ágæti. Hefur staðið við stóru orðin og nú er það ábyrgt framhald. Ég ætla sannarlega að vona að hann verði dæmdur af verkum sínum í komandi kosningum. Mynd af honum og frúnni og svo nýr loforðalisti á bakhliðinni. Sátt um nýjan miðbæ, þróttmikil uppbygging í strandþorpunum og markviss uppbygging gömlu gatnanna. Hvað var þessi þróttmikli maður að gera á síðasta kjörtímabili? Hann lét gömlu göturnar í friði. Nánast öll þjónusta við gömlu þorpin hefur lagst af.Hann krafðist þess með félögum sínum að hryðjuverkunum gegn Ingólfsfjalli yrði haldið áfram. M.a. segja umhverfisnefnd Árborgar með 3ja mann framsóknar í forsæti var sniðgengin. Það mátti ekki einu sinni kanna efnistöku á öðrum stöðum. Hann er sama marki brenndur og hin í meirihlutanum. Virðist lifa í draumaheimi. Telur að umhverfisstefna sé nánast bara að sópa göturnar og éta lífrænt ræktað grænmeti. Látum ekki þetta lið stritast við að sitja áfram. Gefum þeim sem flestum frí. Kjósum fólk sem er meðvitað um umhverfi sitt. Tilbúið til þess að koma á skilvirku stjórnkerfi. Laga til í skólamálunum.Fólk sem vill þjóna okkur bæjarbúum en ekki drottna yfir okkur. Komum í veg fyrir 16 hæða turna og 7 hæða blokkir.
Sólin skín glatt á okkur Raikonen. Og aðra sem hér eru vaknaðir. Svolítil gjóla og hitastigið 3-4 gráður. Ég svaf af mér framboðsfundinn í fyrrakvöld. Frétti nú smávegis af honum í gær. M.a. að forystumaður vinstri grænna hefði hvatt fólk til að njóta vorsins. Njóta lífsins svona yfirleitt og fara varlega í umferðinni. Sumir íhaldmennirnir urðu bálvondir. Þetta var auðvitað persónuleg árás á foringja þeirra. Hann fór nefnilega ekki nógu varlega í umferðinni. Ósköp virðast sumir eiga bágt. Aðgát skal höfð í nærveru sjálfstæðismanna nú um stundir. Með bestu kveðju frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Tuesday, May 16, 2006

 

17.maí

Nú eru 10 dagar til kosninga. Og þjóðhátíðardagur norðmanna. Aldrei skilið þvæluna um frændur okkar Norðmenn. Ég vil alls ekki vera neitt skyldur þeim. Enda örugglega tengdari írskum þrælum og jafnvel konungum. Kannski Melkorku. Frekjan í norðmönnum á sér engin takmörk. Einkum í þjóðréttarmálum. Samt eru þetta bara sveitalubbar. Vona samt að þeir fái sem flestir að taka í höndina á kónginum í dag. Lengra er víst varla hægt að komast í upphefðinni. Og svo ættu þeir að fá sér ærlega í ranann.
Hér er nú einskonar milliveður. Ákaflega kyrrt en hitastigið alltaf undir 10 gráðum. Svo sem ekkert til að kvarta yfir. Og birtan enn að aukast. Rétt rúmur mánuður í þann silfraða. Samt vil ég fá hærra hitastig. Ég tók smá lokasprett á rauðu vespunni í gærmorgun. Niður að Sandvík og heim aftur. Í ullarpeysu og úlpu. Var samt skítkalt þegar heim kom. Nú er hún aftur komin til Bílanausts og Hösmagi vespulaus. Leggst nú undir feld og ræð ráðum mínum. Finnst líklegt að ég verði brátt vespueigandi á ný. Það er eiginlega nauðsynlegt sem umhverfissinni. Svona til að halda andlitinu sem Cherokeeeigandi. Jeppinn er að vísu búinn góðum mengunarbúnaði. Og nú er búið að kaupa lítinn Suzuki Jimmy jeppa fyrir fasteignasöluna. Svona míniútgáfa af jeppa. Á nú reyndar eftir að prófa hann. Og því verður ekki neitað að eftir að Hösmagi eignaðist eðalvagninn verður allur samanburður erfiður. Unaðslegasti vagn sem ég hef ekið um mína daga.
Og Maggi minn ætlar ekki að kjósa flokkinn sem þolir ekki nafn sitt lengur.Það er góð framför. Kannski verður hann bara ábyrgur kjósandi í framtíðinni. Er virkilega einhver eftir sem Björn Ingi höfðar til? Þessa arftaka Finns Ingólfssonar, holdgerfings framsóknarmennskunnar. Einhverju ógeðfelldasta fyrirbæri íslenskrar stjórnmálasögu.Vonandi fáir. Oj.
Hætti nú áður en grænu bólurnar verða fleiri.
Nú hefur Þórunn Jóna gerst hershöfðingi íhaldsins hér. Svona í bili a.m.k. Tel víst að hún eigi eftir að standa sig. Var bara ánægður með svör hennar um afreksverk Eyþórs. Kannski hún verði bara næsti bæjarstjóri. Það er allavega eitt sem hún hefur langt fram yfir Einar Njálsson og Snorra Finnlaugsson. Miklu fallegri fætur. Það sem nú skiptir okkur Árborgara öllu er að fella meirihlutann í bæjarstjórnininni. Þeir sem ómögulega geta kosið vinstri græna kjósa Þórunni Jónu. Þá hefst þetta. Með næturkveðju, ykkar Hösmagi.

Monday, May 15, 2006

 

Dómgreindin.

Eyþór Arnalds hefur talað. Viðtal í kastljósi sjónvarpsins í gærkvöldi. Fullur iðrunar. Eða hvað? Ég taldi nú ekki hve oft hann talaði um dómgreindarleysi. Mörgum sinnum allavega. Hann var alltaf að hugsa um að hringja í lögguna. En dómgreindarleysið kom í veg fyrir það. Og það var að sjálfsögðu áfengið sem var sökudólgurinn. Og hann var nú ekki viss um að hafa verið á leiðinni austur þegar hann var stöðvaður í Ártúnsbrekkunni. Hann sagðist hafa góða dómgreind þegar hann væri ófullur. Væntanlega hefur hann verið það í þessu viðtali. Í mínum augum er þetta aumlegt yfirklór. Það sjá það flestir sem eru með nokkurnveginn óbrenglaða dómgreind að hann var bara að stinga af. Og ætti auðvitað að viðurkenna það. Listi sjálfstæðismanna hér væri miklu skárri ef Eyþór lýsti því yfir að hann myndi ekki skipta sér af honum næstu 4 árin. Og það er illt til þess að vita að dómgreindarleysi hans geti orðið til þess að meirhlutinn haldi velli. Framsóknarmennirnir sem ætluðu að kjósa íhaldið hugsa nú sinn gang. Og fleiri en þeir. Þegar menn virðast ekki skilja að þeir hafi skandaliserað er ekki von á góðu. Samlíking Sigga sænska um skemmda ávöxtinn virðist vera laukrétt. Nóg um Eyþór Arnalds að sinni.
Bláa vespan er með kúnstir. Búinn að vera í athugun í höfuðstaðnum í hálfan mánuð. Mun hafa gengið þar eins og klukka. En um leið og hún var komin austur var það sama uppá teningnum.Stundum í gang og stundum ekki. Líklega er nú skýring á þessu. Það er liturinn. Þessi heiðblái litur íhaldsins. Sem ég ruglaðist á og lit himinblámans. Kaupunum var rift í gær og nú er Hösmagi vespulaus maður á ný. Rauða vespan er enn í bílskúrnum. Skila henni væntanlega í dag. Ætla að skoða mál kínversku vespunnar betur. Alls ekki sáttur við vespuleysi. En það er ólíklegt að ég fari á kjörstað í vélhjóli. Kannski fer ég bara á grænni treyju á reiðhjólinu Faxa. Prýðis farartæki af gerðinni Icefox. Er það ekki heimskautarefur? Sé bara til.
Hér ríkir næturkyrrð. Þoka á fjallinu góða niður fyrir miðjar hlíðar. Raikonen í rannsóknarleiðangri og Pési vinur hans sefur hér í stólnum á móti mér. Mann- og kattlífið gengur sinn gang. Og við þrír ófullir með þokkalega dómgreind. Þurfum ekkert að hringja á lögguna. Friðsamir og löghlýðnir. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Sunday, May 14, 2006

 

Kvaðratrót.

Hálfgrámóskulegt í morgunsárið. Indælisveður samt sem áður og hitastigið um 5 gráður. Blankalogn og gott að viðra sig. Nú tekur vinnan við á ný eftir algjöra letihelgi. Það var eins og ég hefði verið stunginn svefnþorni í gær. Eftir fótabaðið. Lagði siggið og líkþornið í bleyti. Líklega gætum við almennt ekki öll nógu vel að fótum okkar. Eins og þeir eru nú óhemjulega mikilvægir.Sem betur fer eru mínar lappir þó mjög vel nothæfar ennþá.
Þessi pistill er sá 169 í röðinni frá því ég byrjaði á þessari iðju útí Edinborg. Þetta er að sjálfsögðu mjög merkileg tala. 13x13. Mætti halda að ég væri með óstöðvandi þörf fyrir að láta ljós mitt skína. Fæ reyndar ekki mörg komment. Það er þó alltaf mjög skemmtilegt. Sennilega held ég áfram þó ég fái engin komment. Kannski er þetta bara hluti af lífsnautninni. Bara þakklátur skáldinu fyrir að hafa komið mér á bragðið.
Ég sagði hér um daginn að illt væri að fá mann fyrir bæjarstjóra sem ekki gæti einu sinni stjórnað sjálfum sér. Ekki datt mér í hug að þessi ummæli sönnuðust svo áþreifanlega eins og nú hefur gerst. Og það er ekki mikil vörn í því að segja að þetta hafi aldrei komið fyrir áður. Máltæki kerlingar hefur enn sannað sig: Það sem aldrei hefur komið fyrir áður getur alltaf komið fyrir aftur. Þetta hefur svo sem hent margan góðan manninn. En það er jafnslæmt fyrir það. Við skulum bara vona að batnandi manni sé best að lifa og ég óska Eyþóri Arnalds velfarnaðar í öllu sem hann á eftir að taka sér fyrir hendur.
Ró yfir tilverunni. Og hugarróin er einnig í góðu lagi. Það sem undirrituðum er líklega enn mikilvægara en allt annað. Einkum og sérílagi eftir reynsluna af annari líðan. Nú er líka í garð genginn yndislegasti árstíminn. Margt skemmtilegt og ljúft í vændum. Kannski ætlar frú Hatseput að gæta Raikonens þegar við feðgar höldum í Veiðivötnin í júlí. Viss um að það mun fara vel á með þeim. Hún er hvort eð er einskonar amma hans. Gott mál. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

 

Hvað gerist ?

Samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins fellur meirihlutinn hér í Árborg. Þetta er sem sé mjög jákvæð könnun að því leyti. Ég var reyndar löngu búinn að spá því að sjallar fengju 4 og vinstri grænir einn. Þetta er að sjálfsögðu ekki óskaniðurstaða. Gott hefði verið að þurrka framsóknarflokkin algjörlega út. En þetta er gamalt framsóknarbæli og líklega ekki von til þess. Og ef vinstri grænir hlaupa strax í fangið á þessu þreytta liði úr gamla meirihlutanum, án þess að róttækar breytingar verði gerðar á stefnunni, eru þeir búnir að vera hér til frambúðar. Ég vil sjá vinstri græna mynda meirihluta með sjálfstæðismönnum. Gera traustan og góðan málefnasamning. Vegna oddaaðstöðunnar er hægt að gera miklar kröfur. Skilyrðislausa kröfu um nýja stefnu í umhverfismálum. Koma á skilvirku kerfi í ráðhúsinu. Taka menntamálin til gagngerrar endurskoðunar. Tryggja farsæla lausn þeirra fyrir íbúana á ströndinni. Ef íhaldið gerir kröfu um pólitískan bæjarstjóra er vel hægt að samþykkja Snorra Finnlaugsson. Versti ljóðurinn á íhaldslistanum er auðvitað foringinn, Eyþór Arnalds. Ef honum er haldið á mottunni getur þetta vel gengið. Og ef aðrir fara út af sporinu þá er auðvelt að slíta samstarfinu. Ef lagt er af stað af fullum heilindum er ég viss um að þessi meirihluti getur gert góða hluti. Vonum bara það besta.
Sérlega fallegt veður þessa dagana. Nokkuð kalt á nóttunni en sæmilegt á daginn. Fór á þorpsmarkað á Eyrarbakka í gær. Keypti mér ekta silfurbaug fyrir 1.500 kr. Ýmsar uppákomur hér í tilefni Vors í Árborg. Keypti líka nýja hleðsluborvél í Húsasmiðjunni. Hægt að nota hana eins og slípirokk. Ætla að gera litla Lanca svolítið til góða. Hreinsa burtu ryðið, grunna og sprauta svo yfir. Gengur alltaf eins og klukka og þjónar mér vel. Og eðaljeppinn Cherokee er alltaf jafn unaðslegur. Kannski er aðalmunurinn á bandarísku jeppunum og þeim japönsku sá, að það fer miklu betur um fólk í þeim fyrrnefndu. Þessvegna er mér óskiljanlegt hvað margir kaupa Toyota Land Lúser. Mér er reyndar nákæmlega sama. Verði þeim að góðu. Einn starfsmaður fasteignasölunnar á nýja Subaru Trebica bifreið. Mjög ánægður með hana. En hann hlýtur að hafa afar sérstætt fegurðarskyn. Bíllinn er eins og nashyrningsrassgat að aftanverðu og úldinn þorskhaus að framan. Mér verður næstum flökurt á að horfa á þetta japanska sköpunarverk. En japanir geta vel hannað gott útlit á bílum. Það sannar Nissan Murano sem er sérlega fallegur vagn. Og örugglega góður líka.
Kaffið uppurið og líklega nóg kveðið að sinni. Ætla að njóta dagsins í rólegheitum. Formúlan í dag og Raikonen byrjar í 9. sæti. Tekst vonandi að vinna sig upp. Þá verðum við nafni hans glaðir. Sá hinn sami er nú nýtur veðurblíðunnar utandyra. Skottið mitt sem ætíð er til yndis. Bestu kveðjur til allra bloggara, líka þeirra sem mér finnst nú orðið helvíti linir, ykkar Hösmagi.

Saturday, May 13, 2006

 

Atkvæðin

Það hefur lengi verið lenska hjá stjórnmálaflokkum að telja kjósendur einungis vera atkvæði. Ekki fólk með langanir, hugsjónir, vonir eða þrár. Einkum á þetta við um stóru flokkana. Þeir halda því fram að atkvæði greidd öðrum kunni að "falla dauð". Við búum við hlutfallskosningar og óhjákvæmilega nýtast ekki öll atkvæði til fulls. Fyrir síðustu alþingiskosningar hamraði samfylkingin á því að ekki mætti kjósa vinstri græna. Þá féllu atkvæði dauð og kröftum vinstri manna væri dreift. Því miður virtist þessi áróður hrífa. Hef meira að segja illan grun um að dóttir mín, þó skynsöm sé, hafi látið blekkjast af þessu villuljósi. Eldri sonur minn er nú svo óábyrgur í stjórnmálum að hann er vís til að kjósa íhaldið ef þannig liggur á honum. Og flokkinn sem þolir ekki lengur nafnið sitt. Ég hef reyndar líka grun um að skáldið hafi ekki kosið rétt í síðustu kosningum. En þetta þýðir alls ekki að ég hafi minnsta vilja til að segja börnum mínum fyrir verkum. Þau gera upp við sína sannfæringu eins og ég við mína. Og það mun örugglega aldrei henda mig að kjósa gegn sannfæringu minni. Margir hafa í gegnum tíðina kosið íhaldið af því það hefur löngum verið stærsti flokkurinn. Össur hefur lengi haldið því fram að samfykingin " ætti að vera " 40% flokkur. Þvílík steypa. Og sementið í henni handónýtt. Menn eiga ekki að kasta skoðunum sínum og hugsjónum á haugana til að gera einhvern flokk stóran. Það er reyndar að verða gömul tugga hjá mér að samfylkingin er algjörlega hugsjónalaus moðsuða. En hún er jafnsönn ennþá. Við skulum einfaldlega kjósa eins og hjartað slær. Ef við gerum það ekki munu enn fleiri atkvæði falla dauð eins og sagt er. Ef gott veður verður á kjördag ætla ég á vespunni á kjörstað. Íklæddur íslenska þjóðbúningnum. Haldiði að ég verði ekki voða flottur þannig? Og auk þess ætla ég að kjósa rétt. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Thursday, May 11, 2006

 

Svartur dagur.

Í gær var gamli lokadagurinn. Vetrarvertíðarlok. Sjómenn fengu sér margir ærlega í ranann á þessum degi í gamla daga. Sem þeir áttu sannarlega skilið. Íhaldið í útgerðarstaðnum Þorlákshöfn notaði tækifærið og leyfði áframhaldandi eyðileggingu á Ingólfsfjalli. Kannski hafa þeir fengið sér í ranann á eftir að loknu vel unnu verki. Og meirihlutinn í bæjarstjórn Árborgar sennilega líka. Honum varð að ósk sinni eftir að hafa lagst á hnén og ákallað íhaldið í Þorlákshöfn. Grátbeðið það að halda áfram að eyðileggja eitt af aðalsmerkjum fegurðarinnar á Selfossi. Engin Beluga vottun. Það er nefnilega ekki hægt að éta fjallið. Ég er fæddur á árbakkanum með brúna og fjallið fyrir augunum. Hef orðið að þola það undanfarana áratugi að horfa uppá afskræmingu þessa mjög svo merkilega og fallega fjalls. Sem betur fer eru margir Selfyssingar sammála mér um þessa fyrirlitlegu meðferð á fjallinu. Við verðum öll að standa saman í kosningunum. Aðeins einn flokkur stendur einhuga gegn eyðileggingunni. Komist hann til áhrifa er hægt að halda baráttunni áfram og reyna að fá þessari ákvörðun hnekkt. Efnahagslegu áhrifin eru mjög ýkt. Af hverju ráðast ekki Reykvíkingar á Esjuna?Hún er við bæjardyrnar en þeir sækja grúsina í Lambafell. En hér eru það bara krónurnar sem telja. Versti sjúkdómur íslendinga um þessar mundir, græðgin, hefur unnið áfangasigur. Komum í veg fyrir lokasigurinn. Snúum vörn í sókn og björgum því sem enn er hægt að bjarga. Stuðningur við vinstri græna er skref í áttina. Við skulum hafa það Varnarborg í stað Barborgar.
Skæni á pollum í morgun. Sólin skín glatt á fjallið mitt. Líka á svöðusárið stóra. Þar sem ég sit við tölvu mína sé ég það ekki. En ég veit nákvæmlega í huganum hvernig það lítur út. Þriðji maður á lista Barborgara hér lýsti því yfir í fyrra að gott væri að fá turnana við brúarsporðinn af því hér væri ekkert útsýni. Líklega í flokki þeirra blindu hér. Vonandi er þetta ekki einu sinni baráttusæti á listanum. Lista sem skammst sín svo fyrir nafnið á flokknum sínum að ekki má nefna það. Gefum þessu liði frí. Þá hefur það tíma til að fara héðan og sjá eitthvað.
Raikonen lagstur eftir útiveruna. Hann hefur örugglega komið auga á fjallið. Gæti best trúað að hann kynni ekki að meta hryðjuverkin gegn því. Sammála mér. Við mótmælum báðir. Ykkar Hösmagi, hálfhnuggin í morgunsárið.

Wednesday, May 10, 2006

 

Smáhlé...

á bæjarpólitíkinni. Mætti tveimur framsóknarmönnum í gær. Báðir sanntrúaðir og staðfastir eins og Dóri. Fannst þeir líta mig hornauga. Kannski lesið síðasta bloggið mitt. Lét mér það í réttu rúmi liggja. Ekki er það mér að kenna að þeir eru framsóknarmenn. Kannski bara fæddir svona, karlagreyin.
Hitastigið hefur nú fallið aftur í fyrra horf. Sex gráður og vatnsgola. Kragi eftir miðju Ingólfsfjalli. Ósköp kyrrlátt samt sem áður. Hugsa að vespan fái að hafa það náðugt í skúrnum í dag. Í gærmorgun fór ég rúnt austur Flóaveginn. Það var blankalogn. En þegar þú ert kominn á 50 km hraða er hávaðarok á vespunni. Ég hyggst fjárfesta í vatnsheldum vindgalla mér til varnar á þessum ólma gæðingi. Nítró, fyrirtækið sem flytur inn þessar vespur, hefur nú ekki undan. Nú er bið fram í júlí eftir svona grip. Mér finnst líklegt að bensínverðið hafi hér mikil áhrif. Auk þess eru þetta lipur og létt farartæki. Taka lítið pláss og hægt að leggja þeim nánast hvar sem er. Ef þú átt ekki bílskúr geturðu í mörgum tilfellum kippt vespunni inní forstofu á nóttunni. Samkvæmt skráningarskírteini bláu vespunnar er hún 70 kg að þyngd. Jeppinn unaðslegi 2.145 kg. Eins og ég minntist á um daginn finnst mér gott samræmi í þessum farartækjum. Nóg afl í báðum. Vespan kemst ýmislegt sem jeppinn kemst ekki og öfugt.
Sé að tækniþekking Hatseputar hefur vaxið. Fékk comment á Barborgarabloggið. MS líklega viðriðinn málið. Og að sjálfsögðu sendi ég frúnni myndina af mér klofvega á þeirri rauðu.

Elsku hjartans merin mín
mjúk og góð til reiðar.
Óðum vex mín ást til þín
undir mér þú skeiðar.

Svona yrkja menn þegar þeir verða ástfangnir af rauðum merum.

Svo datt mér allt í einu í hug það sem Ragnar í Smára sagði einu sinni: Lofið framsóknarmönnum að koma til mín en bannið þeim það ekki því þeirra er smjörlíkið.

Ástarkveðjur krúttin mín, ykkar Hösmagi.

Tuesday, May 09, 2006

 

x barborg

Nýr snepill í forstofunni í gær. Var lengi að átta mig á hver væri að heiðra mig með þessum græna lit. Á forsíðunni stendur exbé. Á bakhliðinni framsókn til framtíðar. Og inni pésanum á flug með framsókn. Sá svo að þetta var stefnuskrá B listans í Árborg. x barborg. Þess er vandlega gætt í bæklingnum að nefna ekki nafn Framsóknarflokksins. Þar er ekki getið um framsóknarmenn. Exbé skal það heita hjá barborgurum. Líklega eru þeir orðnir smeykir við fælingarmáttinn sem nafnið á þessum flokki veldur í hugum þjóðarinnar. Vissara að breiða yfir nafn og númer eins og bretarnir í landhelginni í dentíð. Minnir mig á heimsókn til Hallberu ömmu minnar á Ljósheima árið 1959. Þá var gamla konan 99 ára. Stálhress andlega en líkaminn þreyttur. Þá voru nýafstaðnar kosningar og amma fór að spyrja mig um úrslitin. Þó ég hefði ekki kosningarétt þá fyrir æskusakir vissi ég allt um úrslitin. Alþýðuflokkurinn fékk svona marga þingmenn, Framsóknarflokkurinn svona marga, Sjálfstæðsiflokkur heilmarga og Alþýðubandalagið afganginn. Alþýðubandalagið spurði gamla konan. Hvað er það? Ég tjáði henni að það væri kosningabandalag sósíalista og ýmissa vinstri manna. Og þá mælti amma mín þessi spaklegu orð: Alltaf eru þeir að skipta um nafn þessir ólukkans kommúnistar. Og nú er það bara exbé hjá framsóknarmaddömmunni. Þetta er mjög áberandi í Reykjavík. Þar er framsóknarflokkurinn algjört bannorð. Eins og hér í Barborg. Líklega hefur einhver sálfræðingur lagt þetta fyrir. Menn gætu glapist á að greiða þessu framboði atkvæði sitt af slysni. Því miður er það svo að margir eru nú ekki vel upplýstir um stjórnmálaflokkana. Þeir sanntrúuðu villast að sjálfsögðu ekki. En hinar villuráfandi sálir gætu ef til vill slysast til að kjósa bara exbé. Þjóðarsátt um flugvöll á Lönguskerjum. Eða Lönguvitleysu sem stundum var spiluð í gamla daga. Nú hefur framsóknarflokkurinn yfirgefið sitt eigið húsnæði hér á staðnum. Komnir í gamla Goggabíó eða Dverginn. Búið að mála allt. Og einnig yfir nafn og númer flokksins. Þetta er nú aldeilis nútímakosningabarátta. Ég ætla nú samt að vona að fólk sjái í gegnum þetta. Þetta eru bara gömlu framsóknarlummurnar. Búið að velgja þær upp. Það má þó samfylkingin eiga að hún kannast þó enn við nafn sitt. Og hinir flokkarnir einnig. Við skulum minnast þess í kosningunum þann 27. að eini flokkurinn sem enga ábyrgð ber á núverandi bæjarstjórn eru Vinstri grænir. Annar fulltrúi íhaldsins greiddi t.d. atkvæði með meirihlutanum í Miðjuhneykslinu. Hinn á bara heiður skilinn fyrir að hafa verið einn á móti þessum hrikalega afleik. Þetta er svona svipað og að leika drottningunni beint ofaní riddarann. Eða halda menn virkilega að þeir Frans, Einar El og félagar hafi látið plata sig. Þeim einfaldlega tókst að snúa á alla sauðina í bæjarstjórnininni nema þennan eina Vökustaur. Hann fær pre frá mér fyrir það. Of þeir sem vilja koma þessari bæjarstjórn fyrir ætternissstapa eiga bara 2 kosti. Vinstri græna eða íhaldið. Annan mjög góðan og hinn minna góðan. Þetta velkist ekkert fyrir mér. Kveðjur úr næturkyrrðinni, ykkar Hösmagi, harðari en nokkru sinni.

Monday, May 08, 2006

 

Metnaður.

Þegar undirritaður kom heim úr vinnu í gær var blað í forstofunni. Litprentað og myndskreytt. Stefnuskrá Samfylkingarinnar hér. Þar kennir margra grasa. Og mörg eru þar gullkornin. M.a. segir þar að samfylkingin hafi mótað hér metnaðarfulla umhverfisstefnu. Er hægt að hafa öllu meiri endaskipti á hlutunum? Fellst metnaðurinn í ákalli til Þorlákshafnar um að halda áfram hryðjuverkunum gegn fjallinu.? Líklega. Íþróttamannvirki, menningarhús, félagsmiðstöðvar, háskóli og þar fram eftir götunum. Korteri fyrir kosningar lækka fasteignagjöldin. Þetta er allt saman ótrúverðugt. Það sannar ferill þessa fólks undanfarin 4 ár með framsókanmaddömuna sér til fulltingis. Og stjórnkerfi þessa sveitarfélags er eitt allsherjar kaos. Rándýr yfirbygging. Hvert skipuritið ofan á annað. Og ekkert virkar. Hvergi á landinu er jafnerfitt að afla upplýsinga um einföldustu hluti. Og þessi kosningasnepill er eitt alsherjarhúrrahróp um afrek bæjarfulltrúanna undanfarin ár. Sjálfsánægjan flæðir úr hverjum bókstaf. Hér vill ungt fólk búa af því samfylkingin stjórnar. Og gamalt fólk væntanlega líka. Ég er reyndar fæddur hér á árbakkanum. Hef búið hér lengst af og mun líklega deyja hér einnig. Vona að samfylkingin verði ekki alveg búin að klára Ingólfsfjall áður. Ég tek undir með sjálfstæðismönnum um að breytinga sé þörf. Það er knýjandi nauðsyn á að losna við þessa bæjarstjórn. En ég auglýsi eftir stefnu íhaldsins í umhverfismálum.
Stefna vinstri grænna er ljós. Eina flokksins sem treystandi virðist í þessum málum. Hver sem niðurstaða kosninganna verður mun góð útkoma vinstri grænna verða þessu sveitarfélagi til góðs. Aðhald er nauðsynlegt. Sagan sýnir að íhaldið er varasamt. Það er þó ljóst að meirihluti myndaður af vinstri grænum og sjálfstæðismönnum er miklu betri kostur en liðið sem nú stjórnar bænum. Sendum það í langt frí. Lofum þeim að liggja í draumalandinu og hugsa um afrek sín undanfarin 4 ár. Fjallið og kaosið í ráðhúsinu. Miðjuna og síðasta afleikinn í skákinni við hana.

Djöfull held ég að ég hafi verið flottur á rauðu vespunni í gær. Blátt áfram unaðslegt að líða um göturnar á þessu farartæki í blíðunni. Þó er nú Tryggvagatan enn sama torleiðið. Kannski má Siggi Kalla vera að því að laga hana á næsta kjörtímabili? Vonandi. Bestu kveðjur til ykkar allra úr vornóttinni, ykkar einlægur Hösmagi.

 

21,4°

Samkvæmt veðurstöðinni á Reynivöllum. Rauða vespan hálfstynur hér utan við fasteignasöluna. Og allir hér innandyra hálfdasaðir. Magnþrota og latir. Að vísu hefur einhverjum hér í sveitadeild þessa sveitarfélags dottið í hug að nýta góðviðrið. Hland- og mykjufnyk leggur nú yfir okkur Selfyssinga. Ekki til bóta í þessari mollu. Líklega er þetta nú nærri einstakt í maímánuði. En hann kólnar aftur. Það er víst alveg öruggt. Sem sagt gott, Hösmagi.

Saturday, May 06, 2006

 

Vor í lofti.

Líklega er vorið endanlega gengið í garð. Sól og 9 gráður í morgunsárið. Spáð 15-17 stigum næstu daga.Hösmagi æfintýralega hress eftir morgunkaffi og útiveru. Fjör að færast í kosningabaráttuna. Ingibjörg útbrunna var hér í gær að dreifa blómum. Allt má nú reyna. Og skeifuGeir var hér líka að heilsa uppá gamlingjana á Ljósheimum. Kannski fær íhaldið eitt atkvæði út á hann. Og svo kemur rúsínan í pylsuendanum í dag. Dóri sjálfur. Vonandi hefur staðfestan ekki bilað eftir að kanarnir tilkynntu brottförina. Ég held reyndar að hann lappi nú ekki mikið uppá framsóknarfjósið hér. Mér sýnist stutt í að það hrynji. Myndi ekki syrgja útför framsóknarflokksins hér á staðnum þann 27. maí n.k. Og bæjarstjórnin verður að grenja áfram fram í næstu viku. Þorlákshafnaríhaldið afgreiddi ekki erindið um áframhaldandi hryðjuverk gegn fjallinu í þessari viku. Bíður enn um sinn. Það er ótrúlegt að loksins þegar Selfyssingar fá tækifæri til að hafa áhrif gegn þessum náttúruspjöllum skuli þeir nota þau með þessum hætti. Ég efast meira að segja um að íhaldið hér hefði mígið svona á sig. En þetta er bara í samræmi við stjórn þessa fólks á kjörtímabilinu. Og það stærir sig af verkum sínum. Sjálfumgleðin geislar af þessu liði. Ég skora á hvern einasta kjósanda hér í sveitarfélaginu að rassskella allan hópinn í kosningunum. Hann er hvort eð er með brækurnar á hælunum svo það auðveldar verkið.

Ósköp notalegt að eiga nú aftur 2ja daga frí. Er á lokasprettinum í skattinum. Vikan búin að vera nokkuð annasöm. Skemmtilegur dagur í gær. Seldi 74 ára gamalt hús á Bakkanum. Skoðaði húsið á þriðjudaginn var og það fór á netið á miðvikudaginn. Þá byrjaði ballið. Eins og ég hafði reyndar á tilfinningunni. Ásett verð 11,7 milljónir. Þetta hús er kjallari, hæð og rishæð. Öll gólfefni, innréttingar og lagnir ónýtt. En þarna voru líka góðir bógar. Og þeir urðu til þess að það var slegist um húsið. Það seldist fyrir 13,8 milljónir. Ég gerði lítið annað í gær. Boðin komu hvert af öðru og loks stóðu hjón af höfuðborgarsvæðinu uppi sem hæstbjóðendur. Eg er sannfærður um að brátt mun þetta gamla og vinalega hús verða með helstu glæsivillum þessa fornfræga verslunarstaðar. Prýða þessa gömlu götumynd Eyrargötunnar enn frekar. Þrátt fyrir að vera orðinn hluti af sveitarfélaginu Árborg mun Eyrarbakki vonandi halda sérkennum sínum sem lengst. Og það er alltaf jafn indælt að koma niður á strönd. Stokkseyri er ágæt líka. Við Selfyssingar eigum að vera stoltir af þessum byggðakjörnum og gleyma þeim ekki. Styðja alla góða uppbyggingu þar og veita aukinni þjónustu til íbúanna. Þeir hafa fullan rétt á henni.

Raikonen kominn inn úr blíðunni. Fær að ganga sjálfala um helgar. Útþráin er slík að nú í vikunni dúndraði hann sér fram af svölunum. Líklega er hann alls ekki með hérahjarta eins og ég var að tala um um daginn. Og nú er að verða tímabært að ræsa vélfákinn og bregða sér smárúnt í blíðunni. Ykkar Hösmagi, lukkulegur á laugardegi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online