Saturday, May 06, 2006

 

Vor í lofti.

Líklega er vorið endanlega gengið í garð. Sól og 9 gráður í morgunsárið. Spáð 15-17 stigum næstu daga.Hösmagi æfintýralega hress eftir morgunkaffi og útiveru. Fjör að færast í kosningabaráttuna. Ingibjörg útbrunna var hér í gær að dreifa blómum. Allt má nú reyna. Og skeifuGeir var hér líka að heilsa uppá gamlingjana á Ljósheimum. Kannski fær íhaldið eitt atkvæði út á hann. Og svo kemur rúsínan í pylsuendanum í dag. Dóri sjálfur. Vonandi hefur staðfestan ekki bilað eftir að kanarnir tilkynntu brottförina. Ég held reyndar að hann lappi nú ekki mikið uppá framsóknarfjósið hér. Mér sýnist stutt í að það hrynji. Myndi ekki syrgja útför framsóknarflokksins hér á staðnum þann 27. maí n.k. Og bæjarstjórnin verður að grenja áfram fram í næstu viku. Þorlákshafnaríhaldið afgreiddi ekki erindið um áframhaldandi hryðjuverk gegn fjallinu í þessari viku. Bíður enn um sinn. Það er ótrúlegt að loksins þegar Selfyssingar fá tækifæri til að hafa áhrif gegn þessum náttúruspjöllum skuli þeir nota þau með þessum hætti. Ég efast meira að segja um að íhaldið hér hefði mígið svona á sig. En þetta er bara í samræmi við stjórn þessa fólks á kjörtímabilinu. Og það stærir sig af verkum sínum. Sjálfumgleðin geislar af þessu liði. Ég skora á hvern einasta kjósanda hér í sveitarfélaginu að rassskella allan hópinn í kosningunum. Hann er hvort eð er með brækurnar á hælunum svo það auðveldar verkið.

Ósköp notalegt að eiga nú aftur 2ja daga frí. Er á lokasprettinum í skattinum. Vikan búin að vera nokkuð annasöm. Skemmtilegur dagur í gær. Seldi 74 ára gamalt hús á Bakkanum. Skoðaði húsið á þriðjudaginn var og það fór á netið á miðvikudaginn. Þá byrjaði ballið. Eins og ég hafði reyndar á tilfinningunni. Ásett verð 11,7 milljónir. Þetta hús er kjallari, hæð og rishæð. Öll gólfefni, innréttingar og lagnir ónýtt. En þarna voru líka góðir bógar. Og þeir urðu til þess að það var slegist um húsið. Það seldist fyrir 13,8 milljónir. Ég gerði lítið annað í gær. Boðin komu hvert af öðru og loks stóðu hjón af höfuðborgarsvæðinu uppi sem hæstbjóðendur. Eg er sannfærður um að brátt mun þetta gamla og vinalega hús verða með helstu glæsivillum þessa fornfræga verslunarstaðar. Prýða þessa gömlu götumynd Eyrargötunnar enn frekar. Þrátt fyrir að vera orðinn hluti af sveitarfélaginu Árborg mun Eyrarbakki vonandi halda sérkennum sínum sem lengst. Og það er alltaf jafn indælt að koma niður á strönd. Stokkseyri er ágæt líka. Við Selfyssingar eigum að vera stoltir af þessum byggðakjörnum og gleyma þeim ekki. Styðja alla góða uppbyggingu þar og veita aukinni þjónustu til íbúanna. Þeir hafa fullan rétt á henni.

Raikonen kominn inn úr blíðunni. Fær að ganga sjálfala um helgar. Útþráin er slík að nú í vikunni dúndraði hann sér fram af svölunum. Líklega er hann alls ekki með hérahjarta eins og ég var að tala um um daginn. Og nú er að verða tímabært að ræsa vélfákinn og bregða sér smárúnt í blíðunni. Ykkar Hösmagi, lukkulegur á laugardegi.

Comments:
Eg tek undir thetta med Eyrarbakka og Stokkseyri. Thad eru fallegir baeir og sveitinni til soma. Eg man tho ad vidhorfid var ekki alltaf svona til thessara nagrannabaeja hja sumum Selfyssingum i gamla daga - eda var andudin kannski eingongu bundin vid Hveragerdi? Allavega, bestu kvedjur i islenska vorid hedan ur griska vorinu, sbs
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online