Wednesday, May 31, 2006

 

Álfurinn indæli.

Þegar ég átti leið í Bónus um síðustu helgi voru þar í anddyrinu tvær ungar meyjar að selja álfa fyrir SÁÁ. Ágætt að leggja þessu lið með einum þúsundkalli. Ég stillti álfinum upp við eldhúsvaskinn. Í morgun fékk hann nýtt hlutverk. Raikonen er heillaður af þessari veru. Hefur nú flengst með hana fram og aftur um íbúðina og inn og út um gluggann. Jafnvel flískúlurnar eru nú hjóm eitt. Mér datt nú ekki kisi í hug þegar ég fjárfesti í þessari veru annars heims. En þetta dýr er alls góðs maklegt svo þetta er bara frábært. Og þessi álfur er örugglega með miklu hærri greindarvísitölu en álfarnir sem nú eru að leggja á ráðin um helmingaskipti í bæjarstjórninni. Vond er nú þeirra vitleysan en ég óttast að verri verði skynsemin. Vinstri grænir stóðust prófið. Og það sem meira er. Samfylkingin líka að nokkru leyti. En barborgararmærin verður sennilega tilkippileg. Kannski ekki sætasta stelpan á ballinu en Eyþór getur örugglega notast við hana. Þetta er bara í samræmi við mellustandið á framsóknarmaddömunni um allt land þessa dagana.Alltaf klár og til þjónustu reiðubúinn.

Grasveðrið heldur áfram. Hitastigið við tveggja stafa tölu. Styttist í helgarfrí. Aukafrídagur á mánudag. Góð veðurspá næstu daga svo það er bara bjart framundan. Reyndar nokkuð þung fjárhagsleg mánaðamót hjá Hösmaga. Hefst þó allt saman og sólskinið áfram í sálinni. Og fýlan út af kommenti skáldsins horfin. Orðið líft hér innandyra á ný. Og Raikonen enn á öðru hundraðinu með álfinn. Pési vinur hans lætur sér fátt um finnast og dormar í stólnum að venju á þessum tíma sólarhringsins. Fjallið hulið þoku og hugsar sitt. Vona að áfarnir sem búa þar geti komið vitinu fyrir aðra tregari álfa. Kannski er það vonlítið. Ykkar Hösmagi hugsandi um álfa og engla....... og og og kannski saxa líka.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online