Friday, May 26, 2006

 

Friðsæld.

Þokkalegt veður. Smágjóla og hitinn tæp 6 stig. Ekki svo slæmt svona snemma morguns. Raikonen óvenjuaðgangsharður við fóstra sinn um miðja nótt. Frí í dag hvort sem er. Legg mig bara seinnipart dagsins og fylgist svo með kosningasjónvarpi í rólegheitum. Margir alvöruvinstrimenn virðast vera að átta sig. Því miður er stóri flokkurinn sem kallar sig ranglega vinstriflokk með nánast sömu stefnu og íhaldið í nær öllum málefnum sveitarfélaganna. Og enginn flokkur nema vinstri grænir virðist meðvitaður um hvað raunveruleg umhverfisstefna snýst um. Það sáu þeir sem fylgdust með kastljósinu í gær. Hér á Selfossi hafa meirihlutaflokkarnir tíundað hvað þeir hafi lagt mikið fé í hin ýmsu mál á liðnu kjörtímabili. Engu er líkara en þetta fé hafi komið uppúr vösum bæjarfulltúanna sjálfra og við eigum að kjósa þá í þakklætisskyni. Þeir hafa bruðlað með fé til handónýtrar stjórnsýslu. Hvert skipuritið ofan á annað og ekkert virkar. Svo seldu þeir rafveituna burt. Hægt að búa til ný skipurit fyrir aurana. Og allt skipulag hér í bænum miðast við að verktakarnir geti náð sem auðfengnustum gróða á sem allra skemmstum tíma. Þetta er nú liðið sem nú má varla vatni halda yfir stjórnvisku sinni og sínu eigin ágæti. Og þetta er liðið sem tók þátt í ákvörðun um áframhaldandi óhæfuverk gegn Ingólfsfjalli. Hélt sérstaka bænastund á bæjarstjórnafundi svo halda mætti eyðileggingu fjallsins áfram. Við skuldum refsa þessum flokkum í dag. Gefa þeim tíma næstu 4 árin til að ná áttum. Þá gætu þeir hugsanlega orðið samstarshæfir. Ég ætla nú að búa áfram hér í Árborg. En það er svo sannarlega ekki vegna núverandi bæjarstjórnar heldur þrátt fyrir hana. Látum þetta liðna kjörtímabil verða okkur víti til varnaðar. Gefum þessum brókarhælum öllum frí.
Ég er enn að hugsa um Tangavatn. Reyni að magna mig uppí að fara með flugustöngina. Og Herconinn sem varaskeifu. Fyrir mann sem er nú enginn snillingur með flugustöngina er ágætt að vaða út í mitt vatn eftir grynningunni. Þá slítur þú ekki fluguna af í grjótinu fyrir aftan þig. Og svo er alltaf möguleiki að hann taki í bakkastinu. Það hefur víst oft komið fyrir. Það er nú líka það skemmtilega við veiðiskapinn að sannleikurinn um hann er miklu lygilegri en allar lygasögurnar sem sagðar eru. Ó þú yndislega veiðigyðja. Sannarlega elska ég þig. Og þeirri ást týni ég aldrei meðan andinn höktir enn í vitunum. Bestu kveðjur krúttin mín öll. Ykkar Hösmagi, hugsandi um stóra urriða.

Comments:
Ég var að lesa mér til um Arnarvatnsheiði á síðu Laxár og það hljómar spennandi. Heldurðu að græna þruman hafi það þangað uppeftir (segja fært fyrir jeppa og jepplinga)?

Annars mega vinstri grænir vinna fyrir mér. Sumt í mér hallast til þeirra hvort eð er þótt íhaldssemin sé stundum til óþurftar. Bestu kveðjur, SBS
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online