Tuesday, July 31, 2007

 

Hangikjöt.

Ég er að sjóða hangikjöt. Rúllu sem varð afgangs um síðustu jól. Verður andskoti gott með flatkökum Gríms í Veiðivötnum. Við munum ekki svelta feðgar og langfeðgar. Enda venjan sú að birgðirnar séu ríflegar. Kannski eru það bara pönnukökurnar sem vantar. Nema ég geri tilraun í kvöld. Nú vantar bara góða konu á þennan bæ. Ef ég tek upp þráðinn þar sem frá var horfið í síðasta pistli þá átti ég ágætan sunnudag við elfuna góðu. Það bættust 3 laxar við sumaraflann sem varð því samtals 14 stykki. Það er þó líklegt að ég reyni fyrir mér einhverntíma í ágúst. En æfintýri sunnudagsins var stóri fiskurinn í Klettsvík. Það var eiginlega bæði skemmtilegt og sorglegt í senn. Ég ákvað að reyna aðra aðferð við rennsli færisins en venjulegt er. Útí strengnum tók laxinn færið. Ég fann strax að hér var stórlax á ferð. Það hófst heilmikil barátta milli hans og veiðimannsins. Ég sá fiskinn flatan í yfirborðinu og áætlaði stærð hans svona á bilinu 16 til 20 pund. Þegar fiskurinn hafði tekið nokkrar rokur og leikurinn stóð sem hæst heyrðist skyndilega hár smellur. Línan söng í sundur og fiskurinn hvarf á braut með öngul, sökku og 20-30 metra af línunni. Þetta er það versta sem hendir nokkurn veiðimann.Ef fiskurinn hefði losnað af króknum hefði þetta einungis verið skemmtileg minning um fisk sem hafði betur. En ég skildi illa við þennan konung fiskanna. Kannski er hann merktur dauðanum eftir átökin. Það er lítið við þessu að gera en þetta hryggir alla góða veiðimenn. Svona atvik verða til að minna mann enn betur á nauðsyn þess að yfirfara veiðarfærin vel og reglulega. Þetta hefur hent mig áður en sem betur fer mjög sjaldan. Það fer ný og traust lína á hjólið í dag. Verð í fríi frá hádegi. Margt að gera við undirbúning veiðiferðar.
Hildur skar hár og skegg Hösmaga í gærkvöldi. Það er margt spjallað hjá rakaranum. Og það er einsætt að meirihluti bæjarstjórnarinnar er ekki hátt skrifaður hjá þorra fólks hér á staðnum. En það virðist ekki skipta hann hinu minnsta máli. Bæjarstjórinn glennir sig í Séð og heyrt og er á leið í barnsburðarleyfi. Svo sem ágætt út af fyrir sig. Nú er Ingólfur, gamla litla vinalega húsið við brúarsporðinn, horfinn á braut. Ég myndi sætta mig við það ef næsta skref yrði að jafna Hótel Selfoss við jörðu. Gamla götumyndin af Selfossveginum var unaðurinn sjálfur miðað við óskapnaðinn sem þar er nú. Þessi meirihluti bæjarstjórnarinnar, rúinn öllu trausti, ætlar sér að halda eyðileggingariðju sinni til streitu. Enginn þessara bæjarfulltúa mun verða endurkjörinn. En það er lítil huggun í því ef þeim tekst ætlunarverk sitt. Enginn ærlegur borgari þessa sveitarfélags getur kosið þessa fábjána aftur. Þeir heyra ekki og þeir sjá ekki. Þeim er gjörsamlega alls varnað. Þeir reiða hrokann í þverpokum en vitið er einhverstaðar víðs fjarri.
Skömm þeirra má ekki gleymast.

Norðangjóla og 10 gráður. Við Kimi hressir og gæslukonan kemur á morgun. Sú hin sama og gætti hans í fyrra. Gott mál. Við sendum ykkur bestu kveðjur á þessum fyrsta degi ágústmánaðar. Megi hann færa ykkur gleði, ykkar Hösmagi.

Saturday, July 28, 2007

 

Svali.

Hitinn í 5 gráður. Sólin er komin upp og smátt og smátt hlýnar. Í dag, sunnudag 29., er síðasti planaði laxveiðidagur hjá Hösmaga gamla. Krækti í einn í gær og var sáttur við það. Ekki að sjá mikla fiskför um ána en veðrið var dásamlegt. Smá austanandvari og logn á milli. Það væri svo sem ósköp indælt ef hægt væri að vekja hunterinn í dag. Laxinn er ólíkindatól og aldrei að vita hvað kann að gerast. Nú fara menn brynjaðir ullara og vöðlum til veiða. Eftir afrek næstliðinnar viku er ég nokkuð sáttur við árangurinn í sumar. Hugurinn kominn hálfa leið í Veiðivötn. Leggjum í hann á fimmtudag og nú er að vona að veðrið verði hagstætt.
Ég vaknaði hálfdasaður í morgun. Það er lýjandi að standa við veiði í 12 klukkutíma. Ber mig þó ágætlega og held hress að árbakkanum rétt fyrir sjö. Svo verður ágætt að leggja sig í hléinu og búa sig undir endasprettinn. Það er þó nóg af lausum dögum í ánni í ágúst og aldrei að vita nema þráðurinn verði tekinn upp aftur. Kimi situr nú hér í glugganum og horfir heimspekilega út í sólskinið. Hann ætlaði bókstaflega að éta fóstra sinn í gærkvöldi. Fagnaði mér ógurlega með kúnstum og háværu mali. Ekki afráðið með félagsskap fyrir hann meðan ég verð í Veiðivötnum. Það verður allavega einhver sem lítur við og heilsar upp á rauða dýrið. Það er mikil tilhlökkun til Veiðivatnafarar. Þar er gott að vera í heillandi náttúru. Ef menn vilja fræðast um þetta svæði, spendýr, fugla, fisk og jarðfræði er fróðlegt að kíkja á veidivotn.is. Ágætur vefur sem Örn Óskarsson hefur umsjón með. Fréttir af veiði og myndir líka. Nóg að sinni. Sólskinskveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Wednesday, July 25, 2007

 

Enn af sumartíð.

Staðviðrið heldur áfram. Miðvikudagur og lífið gengur sinn gang eins og Steinn orðaði það. Í gærkvöldi hafði veiðst 121 lax úr Ölfusá hér á Selfossi. Nokkrir ágætir sjóbirtingar að auki. Það eru líka göfugir fiskar. Veiðimenn eru sáttir. Hörmungarveiði víða á landinu. Ef veður breytist skyndilega og fer að rigna verður mikil laxaveisla víða um land. Það mun þó litlu breyta fyrir okkur hér. Þó Ölfusá sé nú verulega vatnsminni en á venjulegu sumri er rennsli hennar stöðugt og gott. Undirritaður á 2 veiðidaga eftir. Þeir eru um næstu helgi. Ég er þegar nokkuð sáttur við afla sumarsins en lengi getur maður á sig blómum bætt. Einhvernveginn verð ég að galdra fram ánamaðka. Reyndar skollin á skúr rétt í þessum töluðum orðum. Aldrei að vita nema hægt verði að kíkja út um lágnættið. Hitti skáldið mitt og Helgu sem snöggvast. Þau voru að koma úr Suðursveit og með þeim var kötturinn Loki. Orðinn virðulegt gamalketti, 14-eða 15 ára. Hrikalegur hlunkur og mjög vandur að virðingu sinni. Líklega sannur hefðarköttur. Rólegt yfir öllu í dag. Komst þó á Stokkseyri fyrir hádegið og skrepp uppí Grímsnes á eftir. Áforma tiltektir heimafyrir í kvöld. Það er nú heldur lítið lið í kisa mínum við þá iðju. En einhvernveginn hverfur ekki ryk og skítur af sjálfu sér. Eins og ég hef sagt áður þarf ég að magna mig uppí í sérstakt hugarástand fyrir störf af þessum toga. Svíf svo á skýjum að verkum loknum. Gott að virða óhroðann aðeins fyrir sér úr hægindastólnum. Svo er bara að rjúka til og djöflast eins og vitlaus maður. Og ef ekki tekst að magna sig upp á eftir þá er bara að slaka á og sofa í drullunni í nótt. I morgen er det atter dag. Þannig gengur þetta nú á heimili gamals karls sem býr einn með ketti sínum. Og Kimi lætur sér fátt um finnast. Ánægður með tilveruna, mat sinn og veiðilendurnar. Úff. Bestu kveðjur að sinni, ykkar Hösmagi.

Monday, July 23, 2007

 

Sumarveisla.

Enn er íslenska sumarið að sanna hvað það getur verið indælt. Hér var 19 gráðu hiti í gær og nú í morgunsárið eru hér 13 stig þrátt fyrir þokuslæðing á fjallinu góða. Í síðustu viku var ég að lýsa tilhlökkun minni með komandi veiðidaga. Þegar síðast frettist var staðan 7-4 fyrir Kimi. Fimmtudagurinn leið tíðandalitill. Gott veður á föstudagsmorgni. Mættur í Víkina vel fyrir 7. Það sást ekki sporður né uggi. Á hádegi var ég nú að hugsa um að gefa þessu frí. En minnugur þess að þolinmæðin er mikilvæg og gefur stundum hélt ég áfram. Þegar 4 mínútur lifðu af veiðitímanum komu launin. Sjöpundari renndi sér á öngulinn og enn hafði staðan lagast. 7-5. Það var ljúft að leggja sig og sofna eftir matinn. Seinni vaktin á efra svæðinu byrjaði kl. 4. Ég var eins og ræsir með skeiðklukku. Færið rann í ána á slaginu. Og laxinn tók eftir 2 sekúndur. Þetta skeður stundum þarna. Laxinn beið bara eftir mér nákvæmlega þar sem ég reiknaði með honum. Svo leið smástund. Annar svangur á ferð og ég hafði jafnað metin. Klukkan hálffimm sá ég haus kíkja uppúr stengnum fyrir neðan mig. Ég sigtaði út stefnuna og hann lét einnig blekkjast. Magagleypti orminn. Þessi föstudagur hafði nú gefið Hösmaga gamla 4 laxa og nú var Kimi orðinn undir í veiðikeppninni. 7-8. Það sem mér fannst einkennilegast var að hunterinn bærði ekki á sér. Ég hefði svo sem verið til í fleiri fiska. En var mjög slakur og sáttur við frábærlega góða veiði. Dagur leið að kvöldi við góða útiveru. Það var sæll og ánægður veiðimaður sem sofnaði fljótt þegar heim var komið. Laugardagsmorguninn lofaði góðu. Sama blíðan og áin rann áfram með sínum þunga nið. Ég hélt á sömu mið og daginn áður. Klukkan var 7 en nú var hann ekki við. Svo minntist ég þess að hafa séð fisk lyfta sér um leið og ég yfirgaf svæðið kvöldið áður. Ég fór að þreifa fyrir mér. Svolítið óhefðbundið. Fljótlega fann ég hreyfingu. Bölvaði silungstittinum sem sífellt eyðileggur ánamaðkinn á vissum stað. En svo varð þetta ákveðnara. Falleg hrygna á bakkanum skömmu síðar. Ég skipti svo um svæði við annan veiðimann. Kembdi Miðsvæðið með spún og túpu. Ekkert líf að því er virtist. Fékk mér af nesti mínu, vindil og kíkti svo í Víkina. Þar var einn kominn á land. Þegar ég kom í Klettsvík klukkan hálfellefu sáum við fisk. Veiðifélaginn sagði mér að taka hann. Önnur hrygna. 10-7 fyrir gamla veiðirefinn. Kimi fagnaði mér samt ákaflega við heimkomuna. Víkin var svo líflítil alla seinni vaktina. Það var bara allt í lagi. Sumarveislan stendur sem hæst. Tjaldur, lómur, endur og kría. Einn og einn lax að sýna sig og veðrið himneskt. Hvers getur útivistarmaður og náttúruunndandi óskað sér frekar. Svo halda dásemdirnar áfram um næstu helgi. Veiðivötnin á fimmtudag í næstu viku. Himbriminn bíður og fagnar vinum sínum.

Kimi Raikonen komst ekki í mark í formúlunni í gær. Þessi auma fíatdrusla gafst upp á miðri leið. Við nafni hans þrælspældir og fúlir. Svona smástund. En gleðin ríkir hér í Ástjörn. Gleðin yfir sumardýrðinni og því að fá að njóta hennar. Það eina sem vantar uppá til að fullkomna hana er að fábjánameirihlutinn hrökklist frá völdum. Skemmdarvargarnir sem allir eru heillum horfnir. Skyldi annars nokkur heili vera í þessu liði? Ég er farinn að efast um það.

Við Kimi sendum ykkur öllum sumarkveðjur. Sáttir við tilveruna og vinskapurinn ekki minni en áður. Ykkar Hösmagi.

Thursday, July 19, 2007

 

Væta.

Búið að rigna nokkuð í morgun. Kærkomin væta fyrir skrælþurra jörð. Undirritaður man nú ekki eftir jafnlöngum sólskins- og góðviðriskafla í veðurfarinu. Hann hefur sannað mér enn og aftur að íslenskir góðviðrisdagar á þessum árstíma eru betri en annarsstaðar í veröldinni. Ég varð að mæta til brauðstrits í morgun. Veiðifrí í gær og það verður indælt að slökkva á vinnutölvunni kl. 5. Nýjar væntingar til morgundagsins. Dagurinn í gær lagðist ákaflega vel í mig í fyrradag. Svaf svo óvenjumikið og í gærmorgun vissi ég að vel að eitthvað skemmtilegt myndi gerast. Það var reyndar orðið sólarlaust þegar ég kom að ánni rétt fyrir 7. Veiðfélagarnir komu síðan fljótlega og við renndum færum okkar. Fyrir framan stólinn lyfti sér fallegur smálax. Það var góðs viti. En hann virtist ekki kæra sig um orminn Harðarnaut. Meðengisorminn. Það leið klukkutími. Færið mitt á flugreki niður strauminn þegar einhver óvenjulegur titringur kom á það. Laxinn hafði rennt gómsætinu niður í maga. Líklega hefur það verið á sekúndunni átta. Hann var sprækur og sterkur en varð nú að játa sig sigraðan. Nýgenginn 8 punda hængur. 7-3 fyrir Raikonen. Á sekúndunni 10 endurtók sagan sig. Annar hængur lét blekkjast. Hann var 3,2 kg. 7-4 fyrir köttinn. Fleiri urðu nú ekki laxar mínir og veiðifélaganna á fyrri vaktinni. Og efra svæðið virtist algerlega líflaust á seinni vaktinni. Ég var ánægður og sáttur með góða veiði og indæla útiveru við fljótið sem ég er fæddur og uppalinn við. En smeykur er ég um að áin mín sé ekki par sæl með fyrirætlanir meirihluta bæjarstjórnarinnar. Hinn alræmda fábjánameirihluta. Megi hann aldrei þrífast. Nóg var nú lagt á umhverfi hennar með Hótel Selfossi. Þessari viðurstyggð bygginarlistarinnar. Hvenær skyldu vitibornar verur verða kosnar í bæjarstjórn Árborgar? Vonandi kemur nú einhverntíma að því. Með veiði- og sumarkveðjum frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Sunday, July 15, 2007

 

Sumarblíða.

Sama blíðan enn. Hitinn hefur náð tæpum 20 gráðum nú marga daga í röð.Við rauðhausar snemma á rjátli að venju. Veiðidagur fjölskyldunnar var í Ölfusá í gær. Fullt af fólki að reyna fyrir sér og nokkrir fiskar komu á land. Þetta er hefð til nokkurra ára og afar vinsælt. Ekki amalegt veðrið heldur enda fólk léttklætt við þessa skemmtilegu iðju. Dæmi eru um að þessi dagur hafi smitað fólk alvarlega af veiðibakteríunni. Fólk sem aldrei áður hafði haldið á veiðistöng. Nú eru Magnús minn og eldri synirnir í Veiðivötnum. Sennilega er vargurinn í essinu sínu þar núna. Ég ætla að halda mig við ágúst. Þá er mesti vindurinn farinn úr þessari plágu. En hún er auðvitað nauðsynleg fyrir urriðann. Ég neyðist til að vera í brauðstritinu í dag og á morgun. Góðar væntingar til miðvikudagsins enda vel birgur af þessum líka fína ánamaðki. Það er eina beitan sem eitthvað gagnar þessa dagana. Kunningi minn plataði þá upp með gervirigningu á laugardaginn. Hann var búinn að tína eina 25 þegar ég kom uppúr miðnættinu og bætti 95 við. Stórríkur maður allt í einu því flestir eru í hallæri í öllum þurkinum. Nú er bara að sjá í hvernig skapi veiðigyðjan verður. KRingar drulluðust þó við að ná jafntefli í síðasta leik.

Allt mallar við það sama í bæjarstjórninni. Það virðast álög á okkur Selfyssingum að velja vondar bæjarstjórnir. Þessi er reyndar sú sama og beið afhroð í síðustu kosningum. Heldur áfram á sömu braut. Fábjánahátturinn blívur. Og yfirfábjáninn sem ég reyndar lofaði að nefna ekki á nafn framar hjálpar uppá það sem vantar. Með sama áframhaldi mun íhaldið ná hreinum meirihluta hér næst. Þessi skipulagstillaga er svo fráleit að það er ofvaxið skilningi vitiborinna manna hvernig meirihlutinn ætlar að knýja hana fram. Frá horni Kirkjuvegar að Tryggvatorgi verður 5 hæða samfelldur steinmúr. Gegnt brúarsporðinum mun blasa við 34 metra hár reður.Skagandi uppí loftið svo meirihlutinn komist í betra tæri við almættið. Bæjargarðurinn tekin undir fleiri blokkir. Og umferðaröngþveitið mun ná nýjum hæðum. Það er fólkið hér á staðnum sem á að fá að ráða hvernig nýr miðbær verður byggður upp. Þessi tillaga er einungis sniðin að hámarksgróða utanbæjarbesefans sem nú stjórnar meirihluta bæjarstjórnarinnar. Þetta er auðvitað svo svívirðilegur skandall að engu tali tekur. Besefinn kallar okkur, sem berjumst gegn vitleysunni, örfáa úrtölumenn. Hann ætti að halda sig í höfuðborginni og láta okkur í friði. Við skulum sameinast í baráttunni gegn þessu ofbeldi. Það er ekki von á góðu þegar valdasýki og fábjánaháttur leggjast á eitt.

Við Kimi sendum ykkur öllum bestu góðviðriskveðjur, ykkar Hösmagi.

Saturday, July 14, 2007

 

Rjúpa....

og staur. Flestir kannast við máltækið að rembast eins og rjúpan við staurinn. Það gerði undirritaður í gær. Stritaði lengi við að reyna að lokka fisk á öngulinn. Ákallaði góðar vættir, hafði í heitingum og beitti blíðmælgi og bölvi á víxl. Svo bað ég Hildiþór um að hengja einn á krókinn fyrir mig. Það klikkaði líka. Sennilega er þetta KRingum að kenna. Það eiginlega getur ekki annað verið. Veður var geysigott. Snilld mín við þessa iðju alkunn. Enginn árangur samt sem áður. Meira að segja átti ég nokkra þrælspræka ánamaðka. Bara allt tómur bömmer. En koma tímar, koma ráð. Ég gefst ekki upp. Ég held að það hafi verið skákmeistarinn Tchigorín sem aldrei gaf skák. Lét andstæðinginn frekar máta sig. Sagði sem rétt var að hann hefði aldrei unnið skák með því að gefa hana. Hann krækti stundum í vinning og jafntefli úr gjörtöpuðum skákum af því andstæðingurinn fór einfaldlega á taugum. Ég horfi bara bjartsýnn fram á veginn að venju og átti mjög góða útiveru við fljótið mitt í gær. Tek hann strax í Víkinni á miðvikudaginn kemur. Lancerinn minn er nú 15 vetra gamall. Eftir að hafa gert honum aðeins til góða er hann nú kominn með fulla skoðun. Um daginn var ég að hugsa um að senda hann í endurvinnslu og kaupa annan snattara. En þetta er bifreið með sál og gamli vagninn hvíslaði að mér að við ættum samleið lengur. Malar nú eins og köttur og ætlar að halda þjónustunni við eiganda sinn áfram. Eigendur öllu heldur því skáldið er meðeigandi. Veðrið ljúft að venju. Smávæta birtist úr loftinu í morgun en hún er nú ekki í veðurkortunum svo langt sem augað eygir. Kannski verður vökvað fyrir mig í dag svo möguleiki verði að ná sér í orma. Meðal maðkadorgara eru ormarnir nú sem gull og gersemar. Nokkrir dagar í næsta veiðidag svo kannski er smávon. Sjálfsvirðingin má ekki bíða hnekki. Hugleiðingar um lækkandi lukkustig verður að blása út af borðinu. Annars er voðinn vís. Allt glatað. Ef þú missir trúna á sjálfan þig sem veiðimann er eins gott að pakka saman. Kapút og basta. Hösmagi karlinn er ekki þannig karakter. Dreymdi ekki einu sinni illa í nótt. Á eftir að galdra marga upp það sem eftir lifir sumars. Engar efasemdir um það. Kimi úti að hnusa. Hann varð ákaflega glaður þegar fóstri hans birtist heima í gærkvöldi. Hann hafði ekkert fengið heldur. Bestu kveðjur frá báðum, ykkar Hösmagi.

Thursday, July 12, 2007

 

Föstudagurinn 13.

Einhverjir með hnút í maganum í dag. Gamla goðsögnin um óheilladag plagar suma. Þetta er fallegur dagur. Sólin löngu komin hátt á loft. Hiti 11,3 gráður með norðangjólu. Við Kimi löngu vaknaðir og hann virðir nú tilveruna fyrir sér úr glugganum. Við skáldið mitt áttum ágætan dag við fljótið á miðvikudaginn var. KR tapaði í bikarkeppninni daginn áður. Mér tókst ekki að landa fiskinum sem ég hafði þó náð að lokka á krókinn. Einhvernveginn var ég alveg slakur yfir því. Þessi fallegi smálax sá bara við mér og tókst með harðfylgi og klókindum að snúa sig af önglinum. Hugsanlega verður hann aftur á ferðinni næsta sumar. Þá orðinn 12-14 pund að þyngd. Skáldið krækti í 2 laxa sem voru ekki eins heppnir og frændi þeirra. Ljómandi fallegir smálaxar sem hækkuðu aflatölu sumarsins um ca 7%. Nú hafa veiðst 40 laxar úr Ölfusá á þessu sumri. Bara þokkalegt miðað við aðstæður og veiði í öðrum og dýrari fljótum. Ég er hæfilega bjartsýnn á gengi mitt í dag. Ég ætla að hlúa sérstaklega að geðprýðinni. Minnugur skítagusunnar sem við skáldið mitt fengum í fyrra frá manni sem þá veiddi með okkur. Hann verður líka að veiðum í dag. Einn af þeim sem ætti annaðhvort ekki að stunda þessa iðju eða stunda hana einn með sjálfum sér. Hann á eitt veiðileyfi og á því nákvæmlega sama rétt og við veiðifélagar hans. En ekkert umfram það. Ég ætla að segja honum það ef á þarf að halda. Vona bara hið besta og að dagurinn verði jafn ljúfur að kvöldi og hann er nú. Svo spillir ekki að 2ja daga frí er framundan. Fimm dagar til að magna sig upp fyrir næsta veiðidag. Miðvikudaginn 18.
Og svo aftur 20. og 21. Ljúft og aftur ljúft. Ég tók eftir því rétt í þessu að Kimi var að djöflast í ryksugubarkanum. Eða það hélt ég. En það reyndist nú vera afrakstur næturverkanna sem hann var að kæta sig yfir. Staðan er sem sagt orðin 7-2 fyrir köttinn. Grrrrrrrrr. Ég verð bókstaflega að laga stöðu mína í dag. Og loka keppinautinn bara inni. Ég veit svo sem að ég hef ekki brjóst í mér til þess. Þessu hlýtur að fara að linna. Allar græjur tilbúnar í grænu þrumunni. Klukkan langt gengin í 6 og áin streymir fram. Geymandi leyndardóma dagsins sem opinberast smátt og smátt. Við veiðidýrin hér í Ástjörn sendum ykkur öllum ljúfar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, July 09, 2007

 

Skot.

Það lifnaði yfir Ölfusá í gær.Langbesti veiðidagur sumarsins þó hitinn hafi komist í 22,3 gráður. Að kvöldi 8 júli höfðu veiðst alls 15 laxar. Þrettán bættust við í gær. Hösmagi vonar að laxinn haldi áfram að ganga. Veiðidagur á morgun þann 11 og skáldið verður með mér. Svo ætla ég mér að sjálfsögðu stóra hluti föstudaginn 13. Sumir hafa ótrú á föstudeginum 13. Það á ekki við um mig. Bjartsýnn að venju og ég ætla mér að galdra upp laxa.
Aðalfundur Miðbæjarfélagsins var í gær. Ekki fjölmenni en þó viðunandi mæting miðað við árstíma og veður. Blankalogn og 2o stiga hiti þegar fundurinn hófst. Ég óska nýrri stjórn velfarnaðar og hvet hana til dáða í baráttunni við meirihlutann í bæjarstjórninni. Mín skoðun er reyndar sú að þó þessi hörmungartillaga fari í gegnum kerfið muni þessi ósköp aldrei verða að veruleika. Menn munu einfaldlega reka sig á veggi. Það bætir þó ekki hlut fábjánanna sem nú mynda meirihluta í bæjarstjórn Árborgar. Fulltrúar SF og framsóknar eru að reyna að klóra yfir eigin skít frá síðasta kjörtímabili. Þá átti VG engan bæjarfulltrúa. Fengu svo einn kjörinn í síðustu kosningum. Hann er nú yfirfáviti í meirihlutanum. Ég bið alla Árborgarbúa afsökunar á að hafa kosið þetta fífl. Og ég skora á forustu flokksins að reka það úr flokknum strax. Kannski á hann enn nokkra fylgismenn í eigin flokki. Þeir eru þó örugglega ekki margir. Það er illt að þurfa að segja sig úr stjórnmálaflokki sem maður hefur enn fulla trú á. Ég varð þó að gera það til að vera ekki í sama flokki og Jón Hjartarson. Hann virðist hafa smeygt sér inn í bæjarstjórnina á alröngum forsendum og stundar þar nú ábyrga stjórnsýslu eins og hann kallar það. Sem felst aðallega í óafturkræfum skemmdarverkum á þessum fallega bæ. Ég lýsi á hann algeru vantrausti og óska þess sannarlega að við Árborgarar munum aldrei aftur kjósa hans líka til ábyrgðarstarfa fyrir okkur. Ég ætla ekki að minnast á þennan doktor Glapráð framar.

Smágjóla og hiti 12 stig.Þoka á fjallinu góða og sólarlaust. Við Kimi í rólegheitunum heimavið að venju. Það spillti nú ekki aldeilis helginni hjá okkur að nafni hans kom aftur fyrstur í mark á Fíatinum. Hressir með það og vonum hið besta með framhaldið. Það verður fiðringur í vinnunni í dag. Hugurinn við fljótið mitt góða og mikil tilhlökkun til morgundagsins. Sem sagt gott. Með bestu sumar, veiði- og góðviðriskveðjum frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Friday, July 06, 2007

 

Veiðikeppni ?

Jafntefli KR á fimmtudagskvöldið dugði mér í gær. Tókst að krækja mér í litla hrygnu sem átti leið um Ölfusá að morgni dags. Aðeins 12 laxar hafa nú veiðst og menn eru ekki alveg nógu hressir. En þetta er þó enn verra víðast hvar annarsstaðar. Ég get varla kvartað með 16,66% aflans. En eitt er þó ekki nógu gott. Raikonen hinn rauðbröndótti virðist halda að við séum í keppni um það hvor veiði meira. Staðan er nú 5 gegn 2 fyrir köttinn. Ekki mjög skemmtilegt að koma fram í morgun. Fiður hist og her og lík á svölunum. Búinn að þrífa gólf, baðkar og sturtubotninn. Morðinginn er nú úti að leita að næsta fórnarlambi. Ef leitin ber árangur verður hann rassskelltur. Kannski gæti bjalla um hálsinn bjargað einhverju. Þetta er orðið meira en kappnóg. Eðlið er samt við sig. Móðir Hösmaga míns, alsvarta dýrsins, sem bjó með mér í Sænska húsinu, var bara 4ra mánaða þegar hún færði mér fyrstu veiði sína. Ekkert nema stoltið og svo bölvaði ég bara. Kunni ekki að meta fenginn sem hún lagði við fætur mér. Svona bitnar nú vanþakklæti heimsins á smælingjunum.

Mér hefur nú dottið í hug að renna inní Veiðivötn í dag. Svona í skoðunar og kurteisisheimsókn. Veðrið indælt, blankalogn og hlýtt, þó sólarlaust sé. Kannski hægt að nota tímann til annara og þarfari hluta en alltaf toga Vötnin í mann. Svo verður laxaveisla í kvöld. Smálaxinn úr Ölfusá er sérlega bragðgóður. Og mér sýnist þessi 4ra punda hrygna vera í góðum holdum. 2 kg. og 56 sentimetrar að lengd. Ég hlakka bara til. Líklega eru nú ekki komnar nýjar kartöflur á markað. Athuga það þó á eftir. Smjör og tómatar, jafnvel eitthvað fleira gott meðlæti.
Sá morðglaði skálkur, Kimi, kominn inn aftur. Með öngul sinn í afturendanum. Það er nú gott. Það er voðalega erfitt að vera fúll og reiður við þá sem manni finnst vænt um. Og malið, þetta skemmtilega brakandi búkspil, er alltaf jafnnotalegt. Kærar kveðjur frá okkur rauðliðum, ykkar Hösmagi.

Thursday, July 05, 2007

 

Deyfð.

Enn er dauft yfir laxveiðinni. KR náði jafntefli í gær svo ég er nú ekki úrkula vonar um árangur á morgun. Það verður allavega indæl útivera við Ölfusá 6. júlí anno domini 2007. Hér var bæjarstjórnarfundur í gær. Meirihlutinn samþykkti að auglýsa nýja miðbæjarskipulagið. Hetjan mikla, Jón Hjartarson, Vinstri grænn, stjórnaði fundi. Sjónvarpið var mætt á staðinn og ætlaði að fylgjast með. En myrkraverk þola ekki dagsljósið. Lýðræðisvinurinn rak sjónvarpsmenn á dyr. Ég hélt nú að við hér austanfjalls og aðrir landsmenn mættum fá að fylgjast með því sem er að gerast í málefnum Árborgar. En fulltrúi VG er á öðru máli. Og leifarnar af gömlu bæjarstjórninni jarma í sama kórnum. Eg verð bara að segja það eins og er að ég hef megna andstyggð á þessu fólki. Og því miður tel ég ekki miklar líkur á að það taki athugasemdir íbúanna við nýju tillöguna til greina. Þó hún sé svo arfavitlaus að engu tali tekur. Valdhrokinn er yfirgengilegur. Miðbærinn á fyrst og fremst að vera fyrir fólkið sem býr hér. Og vera aðlaðandi fyrir gesti okkar. Þeim sjónarmiðum hefur meirihluti bæjarstjórnarinnar algerlega vikið til hliðar. Ef fram fer sem horfir verður þessi fallegi og friðsami staður eyðilagður til framtíðar. Hefur þetta fólk enga sómatilfinningu? Er það algjörlega svipt allri siðferðiskennd? Mér verður einfaldlega flökurt af þessu. Ábyrgðin er mikil og enn er tími til að láta af þessum ósköpum, setjast niður og semja um málið.

Hitinn hér komst í 20,6° í gær. Þrumuveður á Hellisheiði, Skeiðum og víðar. Allt þurrt enn á ánamaðkaslóðum. Kannski rignir hann í kvöld? Kanna málið þegar ég kem heim úr Haukadalsskógi. Bestu kveðjur frá mér og yfirkettinum í Ástjörn 7, ykkar Hösmagi.

Monday, July 02, 2007

 

Góðviðri.

Hitinn kominn í 18 gráður og sólin skín. Þrælar þurfa þó að sitja innan dyra til kl. 17. Og ánamaðkarnir langt oní jörðinni. Kannski kemur regnið loksins á fimmtudaginn. Hösmagi hyggur gott til glóðar á föstudag. 3ji veiðidagurinn og nú er bragðið komið á tunguna. Gæti best trúað að hunterinn vaknaði upp.
Helgin búin að vera róleg og indæl. Og það brutust út fagnaðarlæti í Ástjörninni í gær. Hösmagi sagði vei og Kimi sagði mjá mjá. Loksins þegar fiatdruslan nafna hans virkaði var ekki að sökum að spyrja. Það var sem sagt Kimi Raikonen sem sigraði í franska kappakstrinum í gær. Við nafni hans fögnuðum báðir. Vonandi er þessi hægláti og hógværi Finni búinn að finna taktinn að nýju. Mótið er líklega u.þ.b. hálfnað svo hann á enn góða möguleika. Hvernig sem fer á hann allavega 2 góða stuðningsmenn hér. Eða mann og stuðningskött.
Græna þruman komin í 13.013 km. Það er nokkur vegalengd. Mér sýnist þó að hún muni duga næsta aldarfjórðunginn ef vel verður hugsað um hana. Og hvað skyldi Hösmagi þá verða gamall. Ekki nema 88. Vonandi enn við veiðiskap, kvennafar, vindla og vodka í hófi. Kærar kveðjur að sinni, ykkar Hösmagi.

Sunday, July 01, 2007

 

Vísindin....

efla alla dáð. Og láta ekki að sér hæða. Þetta gekk allt eftir í gær. Nafni minn ágætur reyndist sannspár. Laxinn kom. Eftir sigur KR á FRA M. Veðrið var ágætt í gær þó sólarlaust væri hér austan Hellisheiðar. Dauft yfir ánni í gærmorgun. Einkadóttirin kom í heimsókn ásamt sinni einkadóttur eftir hádegið. Afadrottningunni sjálfri. Það var að sjálfsögðu indælt. Klukkan var nokkuð gengin í 5 þegar ég hélt að ánni á ný. Fljótlega setti veiðifélagi minn í fisk. En fiskurinn hafði betur og slapp af króknum. Hann hafði tekið ánamaðk en ég renndi túpunni góðu því maðkur er nú mikið fágæti eftir allan þurkinn. Sumir veiðimenn eru öðruvísu en aðrir. Þessi félagi vildi endilega gefa mér nokkra orma. Átti hann þó ekki mikið af þeim og var aftur á leið í veiði í dag. Margir hefðu nú lúrt á orminum eins og ormur á gulli. Ég mun alltaf kunna þessum ágæta Eyrbekkingi bestu þakkir. Nú, nú. Ég beitti ormi á öngul. Og viti menn. Rétt fyrir framan stólinn virtist færið skyndilega fast. Ég tók á því og þá var tekið í á móti. Laxinn hafði rennt lostætinu beint oní maga. Mér tókst að lempa þessa fallegu hrygnu upp með berginu og inní víkina. Nýgengin 9 punda hrygna, silfurbjört og falleg. Nú verð ég að tala varlega og vel um KRinga. Vona að þeir vinni næsta leik líka. Koma svo, KRingar. Veiðifélaginn fékk laun fyrir gjafmildi sína. Hann náði einnig að landa laxi. Laxinn hans var 2,2 kg., hængur, alveg tilvalinn til að setja beint í pottinn í gærkvöldi. Við yfirgáfum ána sælir og ánægðir með veiði okkar. Það má veiða hér frá 7-13. Þá er hlé til kl. 16 og menn skipta um svæði. Og menn veiða til kl. 22.Gengið á móti okkur náði einum laxi svo þetta varð bara ágætur dagur. Það var sportveiðimaðurinn Hösmagi sem hafði völdin í gær. Hunterinn lét ekkert á sér kræla. En það er hætt við að dráparinn hefði vaknað af blundi ef ég hefði strax náð öðrum laxi. Þetta var bara sérlega indælt. Síðasti dagur júnímánaðar var því afskaplega ljúfur. Allur júlímánuður eftir með 8 veiðidögum. Og Veiðivötnin 2.-4. ágúst. Verst hvað brauðstritið truflar mann við þessa skemmtilegu iðju. Þó það sé svo sem ágætt líka. Við Kimi erum geysihressir að vanda. Lognið er algjört. Alskýjað og líklega gott veiðiveður. Við sendum veiðikveðjur til ykkar allra, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online