Sunday, May 21, 2006

 

Ljósastaurar.

Oft á kvöldin
hafa svo margir
gengið um
með ljósastaura undir hendinni
án þess að
sjá ljósglætu.

Þetta ljóð er eftir Stefán Hermannsson. Alltaf þótt það nokkuð gott. Kannski hefur umræðan um ljósastaurana á Hellisheiði og fleiri staura orðið til þess að skyndilega rifjaðist þetta ljóð upp. Vona þó að að þessir þjóðþrifahlutir séu ekki í útrýmingarhættu. Svo á þetta ákaflega vel við um þá sem halda því fram að ekkert útsýni sé á Selfossi. Þeir virðast ganga um í myrkri sumar og vetur. Sjá ekki skóginn fyrir trjám. Eða bara alls ekkert. Og bera heldur ekki við dómgreindarskorti. Þeir eru bara svona. Við skulum öll bera góðan hug til ljósastauranna. Og sérstaklega skulum við gæta að okkur ef við fáum okkur í glas og dómgreindarbrestur skellur á.
Aðgát skal líka höfð í nærveru ljósastaura.

Hér er nú bara norðan bál og 5 gráður. Við frostmark í nótt. Orðinn soldið leiður á þessu. En það verður að þrauka það af sér. Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga eins og skáldið sagði. Smálífsmark enn með Helgu Soffíu. Vona að skáldið mitt sé líka við góða heilsu þó lítið fréttist. Kannski gamla sagan að engar fréttir séu góðar. Og það má nú kannski fyrr rota en dauðrota. Undirritaður virðist eiga bágt með að láta dag líða án þess að láta ljós sitt flæða yfir veröldina. Svona eins og ljósastaur á dimmri nóttu. Það verður þó vonandi fyrirgefið á efsta degi.

Rokkararnir frá Finnlandi unnu keppnina í gær. Aldrei þessu vant horfði ég á þessa keppni til enda og var mjög glaður með úrslitin. Þetta var svona millivigtarrokk. Og lagið bara þrælgott. Og var ekki við hæfi að Sylvía Nótt hlyti 13. sætið í undanúrslitum. Það er hvort sem er til svo mikið af liði sem skilur ekki brandara og hlær alltaf á vitlausum stöðum. Nú ætla ég út í Bónus og kaupa mér nokkra Freyjustaura. Góðar óskir á þessum kalda en bjarta sunnudegi, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online