Tuesday, January 31, 2006

 

Allt er vænt......

sem vel er grænt. Skráningarstofa hefur komist að niðurstöðu. Nýi jeppinn Hösmaga er grænn. Þetta vissi Hösmagi áður. Nefndi vagninn flöskugrænan. Nokkuð dökkgrænn. En nú er ég alveg viss um litinn. Þessi glæsikerra er nefnilega Vinstri græn. Að sjálfsögðu. Hvað annað?
Ég var að skoða almanakið mér til dundurs. Janúar nánast lokið. Febrúar, mars og apríl. Og þá glaðnaði nú heldur yfir Fiskihrelli. Þrjátíu dagar þar eins og jafnan áður. En vinnudagarnir eru einungis 16. Það eru sem sagt 5 laugardagar, 5 sunnudagar, skírdagur, föstudagurinn langi, 2. í páskum og sumardagurinn fyrsti. Blátt áfram unaðslegur mánuður. Lítið um páskahret í seinni tíð. Meira en líklegt að Fiskispillisskelfihrellir bregði sér til veiða. Og þá er nú vissara fyrir stóru urriðana að vara sig. Sannarlega ástæða til að óttast Herconinn í höndunum á þessum gamla veiðiref. En bíðum nú aðeins. Sé að það er spáð 8 stiga hita á laugardaginn kemur. Gott færi á að ná úr sér hrollinum og reyna nýju kerruna almennilega. Líklega þjóðráð. Sjáum hvað setur. Þeir eru orðnir heldur linir við bloggið fóstbræðurnir. Öðrum er nú vorkunn. Föðurhlutverkið er stórt hlutverk. Og skáldið líklega önnum kafið líka við andlega framleiðslu. Sé þó að hann kíkir á blogg Hösmaga og finnst vænt um kommentin. Bestu kveðjur krúttin mín, ykkar Hösmagi.

Saturday, January 28, 2006

 

Loft.

Hér er nú íslenskur vetur eins og ég vil hafa hann. Snjórinn að mestu horfinn og nánast vor í lofti. Bendir til áframhaldandi hlýinda og stutt í febrúar. Gott. Í einum af pistlum mínum í fyrra sagði ég frá gamla kommanum í Hveragerði sem eignaðist nýjan Rússajeppa. Hann fór með varadekkið inní stofu og hleypti úr því svo hann gæti teygað að sér hið heilnæma sovéska fjallaloft. Ekki flökraði nú að mér að gera þetta þegar ég eignaðist nýja jeppann minn. Finnst nú heldur ekki neitt sérlega vænt um þá Bush og Rumsfeld. Hef þó síður en svo nokkuð horn í síðu bandarísku þjóðarinnar svona almennt séð. En á föstudaginn kviknaði eitthvert ljós í mælaborðinu sem ég kunni ekki að meta. Þar stóð: Spare low pressure. Hvað er nú þetta? Velti þessu fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að það væri of lágur þrýstingur á einhverju vara- eitthvað. Gekk samt rólegur til náða. En úr þessu varð að fást skorið. Og þá var auðvitað nærtækast að tala við Hörð. Yfirráðgjafa minn og sérfræðing í bílamálum. Ekki enn lagt fyrir hann neitt í slíkum málum sem hann hefur ekki getað leyst. Samanber þegar hann opnaði Grána á nótæm þegar Húdíníarnir hjá löggunni höfðu fullyrt að það væri ómögulegt. Okkur þótti reyndar báðum með ólíkindum að bíllinn kvartaði um of lítið loft í varadekkinu. En við létum á þetta reyna. Bættum tveim pundum við. Og viti menn, ljósið hvarf eins og dögg fyrir sólu. Tölvutæknin lætur sem sé ekki að sér hæða. Það svona jaðrar við að manni finnist þetta heldur og mikið af því góða. En það er auðvitað grábölvað að koma að loftlausu varadekki ef það springur á bílnum. Ég er svona rétt almennilega búinn að prófa vagninn. Held helst að kanarnir hafi ruglast eitthvað í ríminu og sett þotuhreyfil í bílinn. Menn hafa spurt mig hvað ég hafi við 330 hestöfl að gera. Ég hef svarað því til að þetta sé svona álíka og með koníakið. Mjög gott að eiga það þó ég noti ekki mikið af því. Tel þó að koníak sé bara meinhollt í hæfilegu magni. Gott að geta notað hestöflin þegar á þeim þarf að halda. Minn nýi Green Highlander segir sem sagt ekki ha þegar stigið er á bensíngjöfina. Veit alveg hvað honum ber að gera. Og þetta er sönn lífnautn manni með bíladellu, einkum og sér í lagi ef löggan er í hæfilegri fjarlægð. Hösmagi er alsæll með nýja bílinn sinn. Hlakkar til veiðiferða til fjalla í sumar. Skáldið á Gotlandi hafði áhyggjur af að þetta væri of fínn bíll til að hann fengist að láni. Ég hlakka líka til að sýna því nýja vagninn. Meðstjórnandinn í Hösmaga ehf hlýtur nú að fá einhver hlunnindi því kaupið er lágt. Bestu kveðjur til ykkar úr vorblíðunni, ykkar Hösmagi með elnandi bíladellu.

Tuesday, January 24, 2006

 

Góði dátinn Cherokee.

Hláka og logn. Miðvikudagur og lífið gengur sinn gang. Flunkunýr Cherokee sestur að í bílskúrnum. Gráni mun þjóna öðrum framvegis. Örugglega dyggur þjónn nýs eiganda eins og hann var Hösmaga. Nýja glæsikerran er flöskugræn að lit. Með öllum búnaðinum sem Fiskihrellir var að útlista um daginn. 5,7 lítra V-8 Hemi vélin, skrið- og spólvörnin og allt hitt. Ekin 187 kílómetra. Og Hösmagi er sáttur með verk gærdagsins. Draumurinn orðinn að veruleika og þráhyggjan á braut. Og hann hefur lagt blátt bann við tóbaksnautn innanborðs í nýja vagninum. Ef SS langar í vindil verður hann að kveikja í honum í hæfilegri fjarlægð. Ég ætla nú samt ekki að hafa það eins og Árni Böðvarsson. Þegar ég bjó á Nýja Stúdentagarðinum í dentíð var Árni garðprófastur. Sem sannur sósíalisti átti hann austantjaldsbifreið. Tékkneskan Skóda. Honum fannst greinilega afar vænt um þennan kommavagn. Bíllinn var geymdur á stæðinu framan við húsið. Áður en Árni gekk til náða fór hann ævinlega út á stæðið til að huga að þessum dýrgrip sínum. Gekk í kringum hann og strauk honum blíðlega. Ekki sá ég hann mynnast við bílinn en best gæti ég trúað að hann hafi gert það. Og þetta var vel hirtur bíll. Ef skítablettur setti sig á bifreiðina var hann óðara strokinn burt. Ég ætla líka að hugsa vel um minn Grín Hælander. Skítur verður ekki liðinn. Bón og sápa ævinlega tiltæk. Smurolía og leðurfeiti. Krómgljái og lavander. Ég sótti bílinn seinnipartinn í gær. Ágætur dagur 24. Systir mín yngri átti afmæli. Það var eiginlega komið myrkur og líklega hefur enginn séð til mín er ég ók nýja vagninum heim. Ég hlakka til birtunnar í dag. Þá getur fólk séð Fiskihrelli á nýja bílum sínum. Dáðst að lögmanninum. Eða bara hneykslast svolítið. Hvorttveggja skemmtilegt. Annars á þessi bíll alls ekki að vera stöðutákn. Bara draumurinn sem rættist. Afburðagóður ferðavagn jafnt að sumri sem vetri. Og nú þarf ekki að skipta um bíl næstu árin. Sem sagt asskoti gott bara. Þeir Fiskihrellir, Laxaspillir, Urriðaskelfir og Raikonen biðja allir að heilsa, ykkar glaði og einlægi Hösmagi.

Sunday, January 22, 2006

 

Hrygna.

Sunnudagur. Letidagur eins og hjá Helgu. Að mestu haldið mig við rúmið mitt góða. Ráðið krossgátur og dormað á milli. Mér gengur ekkert að kommentera á blogg annara. Ætla því að óska nafna mínum hjartanlega til hamingju og móðurinni að sjálfsögðu líka. Tek undir að þær eru flottar. Ég var víst voðalega ljótur þegar ég fæddist. Svakalega feitur. Og höfuðleðrið einhverjum númerum of stórt svo lítið sást í augun. 11 pund að þyngd. Sem sagt tveim pundum þyngri en hrygnan þeirra Sigga og Gunnhildar. En spikið rjátlaðist nú af mér. Og það tognaði úr mér. Eins og flestir vita er ég nú bara hávaxinn, spengilegur og fjallmyndarlegur. Skeggið varð að vísu grátt á þrem mánuðum fyrir margt löngu. Eykur bara virðuleikann. Og kvenhylli mín er alltaf jafnmikil. Þar er þó hængur á því náttúran hefur dofnað. Kannski kemst ég einhverntíma á 3ju náttúruna og verð alveg voðalegur skjortejæger. Aldrei að vita.
Bílagenið er enn að. Alltaf að spá og spekúlera. Tveir í takinu. Annar flöskugrænn en hinn hvítur. Einhvernveginn er ég nú hrifnari af þeim dökka. Og það er annaðhvort að drífa í þessu í vikunni eða hætta alveg að skoða uppboðsvefinn. Þetta er náttúrulega bilun eins og sagt er. En það er líka mörg bilunin í mannskepnunni og þessi ekkert verri en hinar. Rauðbröndótta letidýrið sefur hér á dýnu. Pælir hvorki í hestöflum, DVD eða GPS. Hefur fóstra sinn fyrir sig einan þessa helgina eins og flestar aðrar. Kærar kveðjur frá okkur báðum, ykkar Hösmagi.

Monday, January 16, 2006

 

Jafnvægi.

Sloppinn úr snörunni. Þurfti reyndar að greiða gjald fyrir að vera skorinn niður. Aftur gnegg og kumr á stallinum. Í bili a.m.k. Hösmagi er til alls vís sem fyrr. Ef þú átt þér draum lætur þú hann rætast ef þú getur það. Ef þig dreymir bara um large lætur þú ekki small nægja.Svo einfalt er það nú. Martröðin að baki og jafnvægi í sálinni á ný. Ágætt bara.
Enn bætti í snjóinn í gær. Svalirnar að verða kaffullar. Varla hægt að opna út. Og Raikonen botnar ekkert í þessu. Nýjasta fæðan hans er hákarl. Og reyndar súr hvalur líka. Ég fékk mér af hákarlinum í fyrradag. Át hann með skeið uppúr krukkunni. Kötturinn var fljótur að renna á lyktina. Og þegar hann fékk ekki meira sleikti hann skeiðina. Þjóðlegur köttur.
Þarf að skreppa uppí hrepp í fyrramálið. Á eindrifa Opel án vetrardekkja. Fúlt. Það stendur vonandi til bóta síðar á árinu. Mikilvægt að komast leiðar sinnar í mínu starfi. Þessi janúar ætlar að verða svipaður og sá síðasti. Snjór og hálka. Lítið annað að gera en þrauka. Þorinn að byrja. Góa, birta og bjartar nætur áður en varir. Og veiði. Gamli veiðirefurinn sáttur. Ný æfintýri á næsta leiti. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Saturday, January 14, 2006

 

Sic transit...

gloria mundi. Enginn lottóvinningur í gærkvöldi. Og ég sem var alveg viss um að nú væri komið að mér. Vinningurinn gekk ekki út svo ég fæ bara meira þegar dregið verður næst. En kannski bregðast krosstrén aftur. Miði er möguleiki. Einn á móti 502.000 Raikonen með röndótt skott er nú sofnaður hér á borðinu. Ánægður að sjá fóstra sinn eftir rannsóknarleiðangra beggja. Hann hefur engar áhyggjur. Varðar lítið um lottó. Svolítill ylur, stroka eftir baki og eitthvað að éta er nóg fyrir lítið dýr.
Nafni minn kann ekki að meta kónginn. Voðalegt er að heyra þetta. Eða hvað? Líklega er bara skárra að hafa forseta en kóng. Þá er þó möguleiki á skiptum. Og minni hætta á úrkynjun. Kóngar og drottningar eru bara úrelt þing. Leifar frá fortíðinni. Lengst af vandamál að finna passandi maka. Minnir mig á spakleg orð gamals vinar. Hann var að tala um ákveðna ætt. Reyndar ætt konu sinnar. Og sagði: Þetta ríður allt hvað öðru og hvað undan öðru. Það verður auðvitað að hafa í huga að fátt er mikilvægara en að blanda rétt. Þessvegna er þetta kóngaslekti meira og minna í ólagi. Og ekki einu sinni punt að því. Sumir hafa voða gaman af að fylgjast með þessu. Lesa allt sem skrifað er um liðið. Ég er ósköp glaður yfir að pabbi var ekki kóngur.
Vetur lætur á sér kræla. Snjór yfir öllu og 7 stiga frost. Planið hér framan við blokkina leiðinlegt yfirferðar.Bóndadagur á föstudaginn. Tók forskot á sæluna í gær. Svið, súr lifrarpylsa, hrútspungar, hangikjöt, rófustappa og hvalur. Reyndar keypti ég örlitið af hákarli líka. Gleymdi hreinlega að smakka á honum. En þetta fór ágætlega í maga. Og þó var ekkert sterkara en kók notað til að renna þessu niður. Sennilega endar það þó svo að þessi siður leggst af. Unga fólkið vill frekar éta pitsur og hamborgara. Talar um skemmdan mat. Og kann ekki einu sinni að meta almennilegan ost. Komst í alveg skuggalega góðan ost í vikunni. Danskur að uppruna. Unga frúin á fasteignasölunni fussar og sveiar. Heldur fyrir nefið og kallar mig Sigga myglu. Ef hún sest inná kaffistofuna nota ég tækifærið og fæ mér bragð af þessu ljúfmeti. Man reyndar þá tíð að ég var á hennar aldri. Blöskraði alveg framferði mágs míns og fleiri er þeir úðuðu í sig gráðosti. Reiknaði fastlega með að þeir yrðu fárveikir af þessum óþverra. En þeir voru bara alveg bráðhressir áfram. Við skulum bara éta það sem okkur finnst gott og láta hitt eiga sig.
Frændi minn, Pjetur Hafstein Lárusson, kom hér við í gær. Fór brott harla glaður með Gleðileikinn í poka. Lofaði að beru skáldinu kveðju hans. Sæl að sinni, ykkar Hösmagi.

Friday, January 13, 2006

 

Að þjóna sannleikanum.

Jónas hefur sagt af sér. Hálfdapurlegur endir hjá þessum ágæta penna. En það er auðvitað miklu dapurlegra að stór hópur fólks virðist tilbúinn að kaupa sorprit á borð við DV. Ég hef ekki mikla trú á að DV breytist mikið við afsögn Jónasar. Það mun halda áfram að velta sér upp úr drullunni. Þjóna sannleikanum. Stórasannleika.Meðan til er fólk sem nærist á óförum náungans mun svona rit seljast. Fólk sem bíður eftir að heyra eitthvað misjafnt um Jón og Gunnu. Fólkið sem aldrei les Halldór Laxness. Og þessi hópur mun verða til áfram. Því miður. Einu sinni voru hjón hér á Selfossi sem ævinlega gengu til náða um kvöldmatarleytið á laugardögum. Stilltu vekjaraklukkuna á hálf tvö. Fóru á fætur og héldu á bíl sínum að skemmtistöðunum á staðnum. Komu sér fyrir og fylgdust með liðinu koma út. Kannski var einhver von að þau sæu Helga fara heim með Gunnu sem var gift Jóni. Það yrði dásamlegt að geta smjattað á því með sunnudagssteikinni. Þetta fólk kaupir örugglega DV. Líklega miklu sjúkara sjálft en blessað fólkið sem DV er að fjalla um alla daga. Það er auðvitað ákaflega leiðinlegt að Jónas skuli enda ferilinn með þessum hætti. Óvægin þjóðfélagsgagnrýni hans mun þó lifa. Hér á árum áður var hann slyngur með pennann. Ég dáðist oft að leiðurunum sem hann skrifaði þá. Greypti á ýmsum kýlum og það sveið undan. Svona svipað og Magnús Kjartansson. Þessvegna er þetta leiðinlegur endir. Að ljúka störfum útataður í eigin drullu. Nóg um það að sinni.
Sjöþúsundasti Árborgarinn fæddist í fyrradag. Mynd af þessum unga Eyrbekkingi í fangi bæjarstjórans á sudurland.is. Litla gamla þorpið mitt að verða að bæ. Þenst út til allra átta. Og ekkert bendir til annars en að þessi þróun haldi áfram. Við þurfum bara nýja bæjarstjórn. Best væri að núverandi bæjarfulltrúar fengju allir hvíldina. Þó ekki þessa endanlegu. En þeir eru allir voðalega brattir með sig. Ánægðir með afrek sín og snilldarverk. Og alltaf er verið að breyta skipulaginu í ráðhúsinu. Skipurit á skipurit ofan. Samt er ekki hægt að fá einföldustu upplýsingar. Nema þá með harmkvælum eftir dúk og disk. Yfirstjórn bæjarins lítur ekki á sig sem þjóna íbúanna. Miklu frekar sem drottnara. En þetta eru bara valdasjúkir aumingjar í skipulögðu kaosi. Fari þeir allir í fúlan rass eins og Hannes.
Kattatríó leikur nú í stofunni hjá mér. Það eru þeir Raikonen, Baltasar Kormákur og Pési. Úti er myrkur og kyrrð. Fiskihrellir sötrar kaffi yfir blogginu og hefur það bara nokkuð gott. Gott að eiga 2 frídaga í rólegheitum og geta pælt örlítið í tilverunni. Bestu kveðjur til ykkar allra, ykkar einlægur Hösmagi.

Thursday, January 12, 2006

 

Martröð.

Það síðasta sem Hösmagi sagði hér í gær var að gamall veiðirefur væri glaður í sinni. Það var satt þá. Svo fór sá hinn sami til vinnu sinnar. Og uppgötvaði fyrir tilviljun eina að hann hafði gert stór mistök. Leit enn einu sinni á draumavagninn. Lífsstílinn margumtalaða. Þá kom í ljós að ekki var allt með felldu. Óþægindatilfinning náði tökum á þessum gamla fiskimanni. Vel þekkt frá gamalli tíð. Og sumir draugar ganga aftur aftur. Draumurinn orðinn að martröð. Kannski raknar úr þessu í dag. Draumavagninn er þó fyrir bí í augnablikinu. Nú er eina von Hösmaga að hann sleppi fyrir horn eins og svo oft áður. Nái aftur hugarró sinni og jafnvægi í sálinni sem er mikilvægara en flest annað. Í dag er föstudagurinn 13. Þykir víst ekki gott. En mér hefur alltaf líkað vel við föstudaga. Aðventu helgarinnar. Og dálæti mitt á tölunni 13 þekkja þeir sem þekkja mig. Það rætist vonandi úr. Meira síðar, ykkar Hösmagi.

Wednesday, January 11, 2006

 

Lífsstíll.

Aftur og nýbúinn. Minnir mig á auglýsinguna um kexið eða snakkið. Ef maður smakkaði á því varð ekki hætt. Passaði mig á að kaupa það ekki. Ég skipti um skoðun í fyrradag. Keypti mér draumajeppann á netinu. Örugglega vafasöm fjárfesting. Það er ekki pointið eins og Siggi, Helga og hin myndu segja.Bílagenið er samt við sig. Líka stundum vafasöm fjárfesting að kaupa sér brennivín. En við gerum það nú samt. Við viljum brauð og leiki. Við erum einfaldlega þannig. Sumir vilja fara af skerinu oft á ári. Flatmaga á sólarströndum og hella í sig. Aðrir vilja sífellt vera að slá golfkúlur. Drepa laxa og silunga. Eða vera á djamminu allar helgar. Ég hef ekki lengur fyrir öðrum að sjá en sjálfum mér og Raikonen vini mínum. Hvorugur sérlega þurftarfrekur. Kennarinn, lyfjafræðingurinn og skáldið orðin sjálfbær. Nýí vagninn kostaði 27.900 dollara. Og svona annað eins þegar hann verður kominn til landsins. Er í Pittsburg hjá Martinautogallery. Fer svo landleiðina til Norfolk og þaðan með skipi. Ég get sem sagt aftur farið að hlakka til jólanna. Óvinum einkabílsins finnst þetta óumræðilega fáfengilegt. En það verður sannarleg lífsnautn hjá mér að prófa nýja vagninn. Með 330 hestöfl undir vélarhlífinni, skriðvörnina og farþegana í bíó í aftursætinu. Og Freddy á fullu að brjótast til frelsis. Hreinn unaður eins og ég segi við sjálfan mig þegar ég fæ 5 eins. Alveg silfurtær unaður. Svona er þetta. Lífsstíll okkar er mismunandi. Hugsið ykkur bara ef við værum öll eins. Skelfing væri lífið þá leiðinlegt fyrir alla.Ég heyrði viðtal við nokkra fótboltafana um daginn. Einn hefur farið 60 sinnum til Englands að horfa á Arsenal spila. Annar elti eitthvert lið til austurevrópu. Sólarhringurinn kostaði yfir 200.000 Þetta er lífsstíllinn hjá þeim. Það er þeirra mál. Kannski myndi þeim finnast ég vera óttalegur fábjáni að láta drauminn um þennan jeppa rætast. Við skulum láta drauma okkar rætast ef við getum það. Hverjir sem þeir eru. A.m.k kosti ef uppfylling þeirra skaðar ekki aðra.
Hláka í bili en frost aftur framundan. Birtir hægt og bítandi. Styttist í Þorra og svo kemur anganin af nýju vori. Birta og ylur. Ölfusá mun halda áfram að streyma fram og Veiðivötnin enn á sínum stað. Gamli veiðirefurinn er nokkuð glaður í sinni. Ykkar Stórfiskaspillir, Hösmagi.

 

Blaðið og biskupinn.

Ekki veit ég hvernig á því stendur að mér tekst ekki að kommentera á blogg annara nú um stundir. Helga mín sagði að úr því enginn væri með eða á móti þegði hún bara. Einhvernveginn er það nú svo að við viljum örugglega öll fá viðbrögð við spekinni. Og þvælunni líka. Um DV er bara eitt að segja. Yfirgengilegt ógeð. En það má margt ræða um biskupinn. Kirkjunnar mönnum er nokkur vandi á höndum nú um stundir. Einkum eftir nýtt lagafrumvarp um réttindi samkynhneigðra. Lengst af dró ég niður í útvarpinu ef ég heyrði í Herði Torfasyni eða Páli Óskari. Löngu hættur því þó ég kunni alls ekki að meta þá sem listamenn. Hinsvegar hækka ég ef ég heyri í Freddy Mercury eða Elton John. En það eru margar hliðar á þessu máli eins og öðru. Í mínum augum geta tveir karlmenn aldrei orðið hjón. Og ekki tvær konur heldur. Við verðum að minnsta kosti að breyta merkingu orðsins fyrst. Ég er nú ekki mikill trúmaður en þó hangið í þjóðkirkjunni. Gekk í borgaralegt hjónaband á sínum tima og látið presta skíra og ferma krakkana mína. En er enhverju jafnrétti náð með því að gera tvo homma að hjónum? Varla telur nokkur maður ástina vera eingöngu fólgna í kynlífi. Án þess ég hafi nokkurntíma haft neitt á móti því. Ég á nokkra gagnkynhneigða vini. Á ég þá ekki að hafa sama rétt til að giftast einhverjum þeirra þó ég vilji ekki sofa hjá þeim? Fá þessi sömu réttindi sem samkynhneigðir krefjast. Erfðarétt, rétt til ættleiðingar og skattalegt hagræði. Hvað með gömul systkyni upp í sveit? Ein eftir á óðali feðranna. Finnst vænt hvoru um annað og vilja sama rétt og samkynhneiðir telja sjálfsagðan. Mér finnst nú ekkert undarlegt þó biskupinn sé í nokkrum vanda staddur. Hinsvegar hef ég aldrei kunnað að meta þennan biskup. Kannski ekki verrri en einhver annar. Og svo glottir hann þegar talað er um grafalvarlega hluti. Þó held ég að nokkuð sé snúið útúr orðum hans. Hvað gerum við við gamla hluti þegar nýir koma í staðinn? Við hendum þeim á ruslahaugana. Gamla merking orðsins hjónaband fer beint á haugana og ný merking kemur í staðinn. Fyrir mér er þetta ekki flóknara en þetta. Hommar og lessur eru síst verra fólk en við hin. Alls góðs makleg. En ef við breytum fornum gildum verðum við að skera allt þjóðfélagið upp. Vera tilbúin að hlusta á nýja minnihlutahópa. Mig til dæmis ef ég vil fá að giftast gagnkynhneigðum vini mínum. Og gömlu systkynin á óðalssetrinu. Við skulum allavega sýna hvert öðru eins mikið umburðarlyndi og langlundargeð og hægt er. Ég sagði stundum við vinkonu mína og fyrrum sambýliskonu, sem varð stundum nokkuð tíðrætt um Guð, að ég væri í fínu sambandi við hann. Við vissum hvor af öðrum en létum hinn í friði svona dagsdaglega. Ég er sannfærður um að hið góða kærir sig ekkert um þessa endalausu tilbeiðslu. Aðalatriðið er að breyta rétt gagnvart náunganum og þá farnast okkur betur.
Pistilinn skrifaði postulinn Hösmagi. Og ef hann fær engin viðbrögð þá þegir hann bara eins og Helga.

Sunday, January 08, 2006

 

Örflaga.

Kötturinn Raikonen hefur nú fengið örflögu í eyrað. Einskonar strikamerki sem auðvelt er að lesa. Vegalaus heimilisdýr hér á staðnum eru færð á dýraspítala sem er hér norðan ár. Þar lesa þeir af og hringja í eigandann. Bráðsniðugt. Og svo hefur verið komið í veg fyrir að kisi minn góður fjölgi sér. Hann liggur nú hér endilangur á borðinu og lygnir aftur glyrnum sínum. Stálhress.

Það verða kosningar hér í vor eins og annarsstaðar. Það er eiginlega ömurlegt fyrir gamlan, innfæddan Selfyssing að flestir kostir í kosningunum eru slæmir. Hér situr nú ein ömurlegasta bæjarstjórn á landinu. Gjörsamlega höfuðlaus her. Og árangurinn eftir því. Voða ánægðir með 16 hæða turnana sem nokkrum snillingum datt í hug að byggja við brúarsporðinn. Þetta eru 4 samfylkingarmenn og 3 frammarar. Íhaldið hefur svo 2 fulltrúa. Það ætti sannarlega að vera lag fyrir vinstri græna að bjóða fram góða menn. Þó mér sé í nöp við núverandi bæjarstjórn vil ég nú ekki kalla þá ógæfu yfir íbúana hér að fá Eyþór Arnalds sem bæjarstjóra. Þeir eru að vísu fleiri sem þykjast útvaldir til forystu. Skólamaður að norðan sem hefur átt erfitt uppdráttar í eigin flokki og svo fyrrum yfirútfararstjóri Kaupfélags Árnesinga. Þegar komið var að skuldadögum hjá KÁ var útfararstjórinn að vísu flúinn frá borði. Eins og hinar rotturnar þegar skipið sekkur.Von mín er sú að vinstri grænir nái góðum árangri og myndi meirihluta með Samfylkingunni. Gæti best trúað að hægt yrði að koma vitinu fyrir kratagreyin með öflugu aðhaldi frá vinstri. Skipulags- og umhverfismál þarf að taka hér föstum tökum. Slysin hér eru nú þegar orðin alltof mörg. Nefni 3 dæmi. Hótelið, þessi óskaplegi óskapnaður sem nú hefur teygt sig nær alveg að kirkjudyrunum. Svartur skítahaugur sem minnir á fangabúðir úr breskum bíómyndum frá 1950. Jafnaldrar mínir, lýðveldistrén í Tryggvagarði, voru höggvin burt svo klastra mætti viðbót við gamla barnaskólann minn til norðurs. Áður hafði verið byggt lágreist fjós við hann til suðurs. Og gamli hóllinn við Arnberg var að hálfu sprengdur í loft upp. Og tilgangurinn? Ný bensínstöð mafíunnar sem lítur út eins og geimstöð úr Startrek. Þessir vesalingar sem hafa stjórnað þessu bæjarfélagi undanfarin ár hafa nákvæmlega engan metnað af neinu tagi. Kannski er ég viðkvæmari fyrir þessum hlutum af því ég er fæddur hér á árbakkanum. Þar sem hótelið stendur nú. Hugsanlega við barinn á neðri hæðinni. Ég ætla að vona að nýtt fólk komi að stjórn þessa sveitarfélags eftir næstu kosningar. Ekki gamlir útfarastjórar. Og ekki heldur músikalskir fallkandidatar sem ekki var hægt að nota í Reykjavík.Ég vona að Selfoss og litlu þorpin við ströndina megi halda einhverju eftir fyrir ágangi skyjaglópanna. Sé að vísu ekki eftir gamla sláturhúsinu sem íhaldið plantaði niður í miðju þorpi fyrir margt löngu. Þó illskárra en hugmynd snillinganna hvort sem þeir eru frá Apaplánetunni eða Vestmannaeyjum.Sæl að sinni, krúttin mín, ykkar einlægur Hösmagi.

Friday, January 06, 2006

 

Djúpu lægðirnar.

Það blæs og rignir. Sem betur fer er hitastigið nokkrar gráður yfir núllinu. Annars væri hér blindbylur. Lægðirnar koma eins og af færibandi hver af annari. Kannski svona dæmigert haustveður sem verður að teljast viðunandi í janúar. Lægðirnar minna mig á gamla og góða vísu sem einu sinni fyrir margt löngu var ort um þau Jón Eyþórsson og Theresíu Guðmundsdóttur, sem bæði voru veðurstofustjórar. Höfundurinn er held ég örugglega Egill Jónsson, kenndur við Húsavík.

Þar sem þau bauka bæði
er blautt og úrkomugnægð.
Hann er með háþrýstisvæði
en hún er með djúpa lægð.

Snilldarferskeytla. Ef einhverjum finnst eitthvað dónalegt hér á ferð er sá hinn sami bara dónalegur í hugsun. Þessi vísa er gott dæmi um hvað ferskeytlan getur verið skemmileg. Enda varð vísan strax landsfræg og lifir enn á vörum margra. Það er sem sagt blautt og úrkomugnægð hér nú um stundir. Var jafnvel að hugsa um Tangavatn í dag. Reikna þó tæplega með að úr verði.
Það varð lítið úr að ég rotaði jólin í gær. Sofnaði fyrir kvöldmat og vaknaði við gælur dýrsins ljúfa um eittleytið. Útsofinn að sjálfsögðu. Gerir ekkert til. Frí í fyrramálið og rólegheit heimavið. Svona í framhaldi af vísunni góðu ætla ég að segja ykkur smásögu af samskiptum mínum, bréflegum, við ónefnda frú. Við skrifuðumst á og margt var þar í hálfkæringi og hálfkveðnum vísum. Einu sinni sagði ég frúnni að ég væri á leið til Reykjavíkur að kaupa mér nýjar dýnur í rúmið mitt. Hún sagði að sig undraði það ekki. Áklæðið væri komið í öreindir sínar af mikilli notkun. Gaf svona ýmislegt í skyn um lífernið hér á bæ. Ég sendi henni strax þessa vísu.

Raunamædd er rekkjan mín
rifnar dýnur, það er að vonum.
Heldur betur það hefnir sín
að hamast svona á mörgum konum.

Frúin varð klossmát. Ekki vil ég halda því fram að vísan sé sama snilldin og vísan hans Egils. En ég var bara asskoti ánægður með hana samt. Svona smásól í allri rigningunni. Ég heyri að storminn hefur lægt. Raikonen úti í rannsóknarför. Og það dagar áður en við er litið.

Bráðum dagar, rósin rjóð,
rennur í burtu húmið.
Við skulum bara vera góð
og verma saman rúmið.

Bestu kveðjur, ykkar einlægur Hösmagi.

Monday, January 02, 2006

 

Olíumafían.

Gleðilegt nýár.Bensínið hækkaði í gær. Um eina krónu og fimmtíu aura. Nákvæmlega uppá eyri hjá stóru félögunum þremur. Þetta er aldeilis samkeppni. Búið að sekta þessa mafíu fyrir samráð. En sektirnar renna ekki til þeirra sem brotið var á. Ríkissjóður fékk aurana til að greiða með baunkunum og símanum. Og til að hækka kaupið hjá Dóra og félögum. Þeir sem stolið var frá fá að sjálfsögðu ekkert. Enginn veit með vissu hve mikla peninga þessi mafía hafði af almenningi með þessum ólögmætu aðgerðum. Og það eru félögin sem eru sektuð. Hvað með mennina sem stóðu fyrir þessum stórfellda þjófnaði? Þeir eru auðvitað stikkfrí. Í fyrra var manngarmur dæmdur í mánaðar fangelsi fyrir að hnupla einu kjötlæri. En stórþjófarnir eru ósnertanlegir. Auðvitað á að ákæra þessa fugla. Félag hefur engan sjálfstæðan vilja. Ekki er hægt að dæma félag í tugthús. En forstjórarnir hefðu sannarlega gott af að skreppa austur á Eyrarbakka. Og dvelja þar innandyra um stund. Engin hætta á að fjölskyldur þeirra færu á vonarvöl á meðan. Í tugthúsið með þessa andskota því þar eru þeir vel geymdir.

Nýja árið gekk í garð með smásnjókomu. Og miklum sprengingum. Svo miklum að svifmengun var 1800 míkrógrömm í rúmmetra. Heilbrigðismörkin eru 50 mikrógrömm. Og skátagreyin í Hveragerði kveiktu óvart í öllu galleríinu innanhúss. Áttu fótum fjör að launa. En við viljum brauð og leiki áfram. Og ljósadýrðin er vissulega mikil og falleg. Árið byrjaði vel á vinnustað. Mér tókst að selja 2 hús á fyrsta vinnudegi ársins. Hress og ferskur eftir góð áramót með vini mínum Raikonen. Hann hélt sig reyndar að mestu undir rúminu þegar skothríðin var í hámarki. Leikur nú aftur við hverja kló sína. Einhvernveginn hef á á tilfinningunni að þetta verði mér gott ár eins og það nýliðna. Vonandi verður það þannig fyrir sem allra flesta. Það smábirtir og fyrr en varir gerir veiðihugurinn vart við sig. Vissara að vera duglegur að klára birgðirnar frá síðasta ári.Ekki þýðir að safna þessu ljúfmeti upp í stórum stíl. Og dóttla hafði orð á því við mig jólin að koma með í veiði. Sannfærður um að hún yrði ekki hótinu skárri en bræður hennar ef hún kynntist fílingunni við að "vera meðann á". Sjáum hvað setur. Undirritaður var nú farinn að nálgast þrítugt þegar hann veiddi fyrsta laxinn. Margir silungar lágu þá í valnum. Og það hefur sýnt sig að kvenfólkið getur ánetjast þessari indælu dellu ekki síður en pungrotturnar. Voðalegt orð pungrotta. En við verðum víst að sitja uppi með þetta karlagreyin. Með bestu óskum héðan úr næturkyrrðinni, ykkar alltaf síeinlægi Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online