Monday, January 29, 2007

 

Skjálftavirkni.

Það er titringur á hinni pólitísku skjálftavog þessa dagana. Nú ætti það að vera ljóst þeim sem ekki vissu áður hvað frjálslyndi flokkurinn er. Aðallega nokkrir utanveltubesefar sem ekkert erindi eiga í íslenska pólitík. Eftir svokallað flokksþing um helgina stendur ekki steinn yfir steini. Flokkurinn bara rjúkandi rústir. Ekki harma ég það. Eina hættan því samfara er að það gæti orðið vatn á myllu framsóknar. Það væri nokkuð dýrt ef sjónarspil tveggja stjórnarandstöðuflokka yrði til þess að stjórnin héldi velli. Í hvert skipti sem formaður samfylkingarinnar opnar munninn á almannafæri minnkar fylgi hennar. Það mælist nú vart 2/3 þess sem var í síðustu kosningum. Spá mín hefur kannski ræst fyrr en ég bjóst við. Samfylkinguna skortir nánast allt. Í fyrsta lagi stefnu og hugsjónir. Í öðru orðinu er talað um stóra flokkinn sem á að vera valkostur gegn Sjálfstæðisflokknum. Í hinu orðinu daðrar Ingibjörg við þennan sama flokk í Mogganum. Að nokkru er þetta sama veiran og hrjáir framsóknarflokkinn. Veira valdasýkinnar. Það bendir flest til að spá mín um frama Ingibjargar sé rétt. Hún mun aldrei verða forsætisráðherra. Skákmaður sem leikur af sér hverjum manninum á fætur öðrum nær ekki árangri á skákborðinu. Hann á bara einfaldlega engan séns. Menn uppskera eins og sáð er til.Auðvitað hefði undirritaður óskað eftir því að niðurstaða kosninganna í vor hefði leitt til myndunar vinstri stjórnar. Velferðarstjórnar sem hefði tekið til eftir núverandi stjórnarflokka. Eftir því sem hægt er. Því miður sýnist ekkert slíkt vera í kortunum. Þessvegna tala ég um næstbesta kostinn. Stjórn VG og sjálfstæðisflokks. Kannski ekki neitt óskabarn en örugglega það langskásta fyrir þjóðina. Málefnasamningur slíkrar stjórnar verður að vera pottþéttur. Ég tel enga hættu á að VG verði hækja íhaldsins. Vegna þess að flokkurinn mun aldrei selja sig fyrir baunadisk eins og framsókn. Og með þennan núverandi foringja í SF er sá flokkur tilbúinn í hvað sem er fyrir völd. Það getur svo sem ýmislegt gerst fram að kosningum. Von mín er sú að VG muni enn bæta í fylgið. Fleiri og fleiri vinstri menn eru að koma heim úr eyðimerkurgöngunni í SF. En við skulum vera þess minnug að ef stjórnin heldur velli verðum við áfram á kafi í mykjuhaugnum. Það má alls ekki gerast.

Hlýi fasinn er enn við völd í veðurfarinu. Það styttir veturinn og gerir allt bærilegra. Hösmagi enn með pestarfjandann. Þó skárri nú en í gær.Raikonen á ferðinni út og innum gluggann og unir hag sínum vel að venju. Göngutúrar undirritaðs liggja niðri í þessu ástandi. Hlakka til breytinga þar á. Gaman væri nú ef við gætum sagt í kvöld: Þar lágu danir í því. Ég er hæfilega bjartsýnn. Allt getur gerst en ég ætla ekki að leggjast í sút þó við töpum. Dagsformið mun ráða hér eins og oftast. Metnaðurinn virðist til staðar og ég vona að sjálfsögðu að við komumst í úrslit. Það væru söguleg tíðindi. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

 

Ónýtt drasl.

Um daginn fékk undirritaður einhverja slæmsku í aðra löppina. Varð draghaltur og hægri ökklinn bólgnaði upp. Eins og oft áður ákvað ég að láta þetta lagast af sjálfu sér. Og það gerði það á nokkrum dögum. S.l. fimmtudagsmorgun var ökklinn orðinn svona á ný. Ég fór í apótekið og keypti mér sokk, kæligel og voltaren emulgel sem ku vera allra meina bót. Svo hringdi ég á spítalann og fékk tíma þar í dag. Var heima hálfan fimmtudaginn en dragnaðist til starfa á föstudag. Löppin fór að lagast á laugardag. Og enn betri í gær. En þá komu nýjar hremmingar yfir Hösmaga garminn. Heimsvaldaflensan birtist á ný. Ekkert day nurse og skáldið mitt víðsfjarri.Svefninn er nú besti læknirinn ef fólki tekst að sofa. Í hálfleik í leik spánverja og króata slökkti ég á sjónvarpinu og skreið undir sæng mína. Var svo rænulaus til miðnættis.Engin matarlyst en kókið ágætt. Dró mig svo aftur í bælið og svaf til morguns. Svona til að geta hringt í vinnuna og boðað forföll. Svaf svo enn til kl. 13. Þung spor upp úr fletinu til að hitta doktorinn. Líklega svolítið grínagtugur náungi. Sagði nú nánast að ég væri orðinn gamall og lélegur. Svona allt að því ónýtt drasl. Ég hlyti að hafa misstigið mig og löppin væri bara svona. Sagði mér að ég skyldi bara hringja í heimilislækninn næst þegar löppin klikkaði. Og flensan gengi yfir. Það er ég reyndar viss um að hún gerir. Var að vakna aftur eftir indælan svefn.Og það styttist í að ég dragi mig enn til bælis. Með eldhúsrúlluna með mér. Stöðugt nefrennsli eins og það er nú geðslegt. Ég ætla að sýna þessum grínara á spítalanum að það sé víðsfjarri að ég sé orðinn alónýtur. En einhvernveginn finnst mér að ég hefði eins getað sleppt för minni inná þessa stofnun.Borgaði aðgangseyri en fór bónleiður til búðar. Eins og Skarphéðinn forðum. Sem betur fer eru ekki líkur á að ég smiti Raikonen af pestinni. Leikur við hverja kló sína og heldur sig nálægt fóstra sínum. Ég vona að ég komist til starfa á morgun. Ætla þó ekki að hætta á neitt og reyna að losna við flensuskrattann. Klukkan langt gengin 6 og enn smáskíma.Styttist í vorið og allt sem því fylgir. Birtuna, veiðiskapinn og fyrirheitna landið. Og þá er eins gott að vera ekki húsbóndagrænmeti.Ónýtt drasl. Ef eitthvað er öruggt þá er það það að Hösmagi rís upp frá dauðum eins og jafnan áður. Á margt ógert enn. Læt duga að sinni og sendi ykkur öllum góðar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Wednesday, January 24, 2007

 

Hin nýja stétt.

Eftir einkavæðingaræði ríkisstjórnar íhalds og framsóknar undanfarin ár hefur orðið til ný stétt manna hér á landi. Manna, sem hafa margar milljónir í mánaðarlaun. Sumir tugmilljónir. T.d. eigendur og forstjórar fyrrum ríkisbankanna sem afhentir voru á gjafverði. Og reyndar Glitnis líka. Þar er forstjóri Bjarni Ármannsson. Mjög snyrtilegur ungur maður. En það er eins og þetta lið hugsi allt á svipuðum nótum. Telur sig vera velgjörðarmenn almúgans á Íslandi. Það sést á auglýsingunum, m.a. Þeir sjá um þetta allt fyrir okkur. Gull og grænir skógar fyrir almúgamanninn. En ef betur er að gáð eru þetta verstu okurstofnanir á landinu. Enda sýna afkömutölur þeirra það. Bjarni sagði nýlega að færa ætti orkugeirann í hendur einkaaðila. Nokkuð drengilega mælt. Enda voru bankarnir færðir þessum sömu aðilum á silfurfati. Þeir draugsi og nagarinn hafa bókstaflega klakið út svona fuglum. Svo sagði Bjarni líka að ákvarðanir um fjárfestingar ætti að taka út frá forsendum fjárfesta. Mannanna sem helst ekki borga tekjuskatt. Og þeir sem greiða bara fjármagnstekjuskatt losna við nýja nefskattinn hennar Þorgerðar. Þetta er í raun allt ein sorgarsaga. Einn þessara manna varð 50 ára fyrir nokkrum dögum. Hann fékk Elton John til að skemmta gestum sínum undir dinnernum. Þessi maður var í svokölluðum S hópi. Hópi nokkurra valinkunnra heiðursmanna draugsins. Fengu gamla Búnaðarbankann fyrir nánast ekkert. Þarna var líka Finnur Ingólfsson. Þið kannist kannski við þann mann? Þetta eru mennirnir sem eiga að erfa landið. Kannski að þeir eigi eftir að eignast Landsvirkjun, Ríkisútvarpið og ýmislegt annað sem enn tilheyrir almenningi að nafninu til. Ef þessi stefna fær að verða við lýði áfram verðum við sauðirnir bara ánauðugir þrælar hinnar nýju stéttar. Ríkisstjórn og Alþingi hreint aukaatriði. Ánauðin er reyndar byrjuð fyrir löngu. Við sem erum að borga okurvextina borgum fyrir Elton John þegar hann kemur og syngur í afmælum þessara nýju lénsherra hér. Sumir þeirra gefa til menningar og líknarmála af lítillæti sínu. Á milli þess sem þeir kaupa fótboltalið í útlöndum. Og ganga allir á guðsvegum. Hvar annarsstaðar? Framsýnir menn þeir nagarinn og draugsi.

Nýr veðurfasi með hlýindum eftir frostakafla. Systir mín yngri 65 ára í dag. Sendi henni bestu óskir mínar. Og glæsivagninn er eins árs. Nákvæmlega ár siðan Hösmagi renndi í hlað hér í Ástjörninni, hálffúll yfir að enginn tæki eftir sér á þessari einstöku glæsibifreið. Hún hefur sannarlega staðið undir væntingum þetta ár sem liðið er. Og mun gera áfram. Nóg kveðið að sinni, kærar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Saturday, January 20, 2007

 

Sauðkind.

Sauðkindin Laufey neitaði að taka sjötta sætið á lista framsóknar í NA kjördæmi. Það gerði þó ekkert til því það eru sauðir í 4 efstu sætunum. Heimild mín fyrir þessu er sjálfur Baggalútur og hann lýgur aldrei frekar en Mogginn. Sauðkindin er nokkuð merkilegt dýr. M.a. er hún þakin svokallaðri ull og það er nú aldeilis flott þegar skáld fá áhuga á prjónlesi. Svo er mjög gott að éta hana. Það sannaðist vel í gjarkvöld. Undirritaður át portvínslegnar lundir. Besti matur sem hann hefur bragðað í mörg ár. Bökuð kartafla, ofnsteiktur laukur og hvítlaukur ásamt salati. Hösmaga fannst vænt um kokkinn áður og enn meira á eftir. Svo má náttúrlega ekki gleyma sviðunum, slátrinu, lifrarpylsunni, kótelettunum, lærissneiðunum og nefndu það bara. Ég segi nú ekki annað en, hvar værum við ef ekki væri sauðkindin.
Þorrinn byrjar sem sagt vel. Hrútspungar, hangikjöt, bringukollar. Sauðkindin enn og aftur. Svo spáir hann þíðu og blíðu í framhaldi af þessu indæla morgunveðri. Hösmagi hefur að venju hnusað af góða veðrinu en kokkurinn ljúfi sefur. Og Raikonen tók þátt í veisluhöldunum. Hann fékk rækjur á sinn disk. Það er nú eiginlega í stíl við nafnið. Rækjunen. Hljómar mjög vel. Hann er nú að kanna snjóalög hér utandyra, fullur orku af þessu sjávargóðgæti.
Þeir ætla að telja atkvæðin í prófkjöri framsóknar hér í dag. Þetta var nú svolítið sérstakt prófkjör. Hafnfirðingar gátu t.d. gengið í framsóknarfélag Selfoss og kosið Guðna. Eða Hjálmar spakvitra. Og Bjarna hinn þjóðlega. Ísfirðingar og Dalvíkingar gátu þetta líka. Ég var beðinn um að ganga í framsóknarflokkinn svo ég gæti líka tekið þátt í mannvalinu mikla. Ég sagði sem var að ég væri ekki framsóknarmaður. Það væri nokkuð alkunn staðreynd. En það skipti engu. Ég gat bara sagt mig úr flokknum þegar ég væri búinn að vera flokksbundinn í mínútu og hefið krossað við rétta fólkið.
Mér varð þó ekki þokað neitt. Lýðræðið er skrýtið víðar en í Írak. Líklega hef ég ekki nægan pólitískan þroska til að skilja að ekkert sé eðlilegra en að ég taki þátt í uppröðun á lista flokks pólitískra andstæðinga minna. Sem ég hef verið að spá hægfara hjartaáfalli að undanförnu. Og ekki farið að gráta neitt yfir afleiðingum þess. En svona er þetta. Sumir skilja aldrei nokkurn skapaðan hlut. Alltaf við sama heygarðinn. Hafa ekki rétta sýn á hið eina og sanna lýðræði.
Hösmagi er alveg óvenjulega hress og kátur í dag. Rósemi hugans við völdin. Og mikil vellíðan eftir yndislegt kvöld dagsins í gær. Hann þarf sannarlega ekki að kvarta yfir tilverunni í dag. Þegar bjart verður ætlar hann að líta eftir fyrirheitna landinu, sem nú er snæviþakið. Og kokkurinn góði fer með honum. Sannarlega tilhlökkunarefni. Megi sama gleði hríslast um ykkur öll, krúttin mín kær, ykkar Hösmagi, auðmjúkur og ástfanginn.

Wednesday, January 17, 2007

 

Þroski.

Maðurinn með ofurheilann hefur enn tekið til máls. Um drápið á Saddam. Þetta var mikilvæg aftaka. En hálfgert klúður samt. Forsætisráðherra Íraks er ekki starfi sínu vaxinn. Jafnvel svo að ýmsum blöskra aðfarirnar. En Bush er ánægður með réttarhöldin. Líklega sérlega glaður yfir að lögfræðingarnir sem Saddam voru skipaðir voru myrtir hver af öðrum. Mátulegt á þá fyrir að vera að þvælast þarna. Skemma fyrir uppbyggingu lýðræðisaflanna. En allt þetta stendur til bóta. Írösk stjórnvöld eiga eftir að þroskast talsvert. Við skulum bara vona að það komi að því að þau nálgist þroskastig mannsins með ofurheilann. Geti tekið fólk af lífi með stæl. Engin hefndarmorð og píslarvætti.
Hvenær skyldi koma að því að bandarísk stjórnvöld læri eitthvað? Það er kannski lítil von til þess meðan þessi maður gegnir æðsta embætti þjóðarinnar. Það er þó ánægjulegt að þeim bandaríkjamönnum fækkar sem styðja hann. En það munu margir ungir bandaríkjamenn falla til einskis áður en valdatíma hans líkur. Og enn fleiri saklausir borgarar á mörgum stöðum í heiminum. Og það fáránlegasta af þessu öllu er að hér á Íslandi eru margir sem hafa stutt allt sem þessum ofurheila dettur í hug. Og gera enn og munu halda áfram að styðja þessa sérkennilegu uppbyggingu lýðræðisins.
Uppbyggingu sem felst aðallega í að brenna, sprengja, myrða og eyðileggja sem mest.Eins og ég var að segja um daginn er ekki hægt að sigra í svona stríði. Þó Saddam og helstu samstarfsmenn hans hafi verið kverkaðir er ástandið margfalt verra en það áður var. Því miður eru engin merki um stefnubreytingu bandaríkjamanna varðandi Írak. Of margir munu berja hausnum við steininn meðan þessi snillingur þeirra ræður för. Að lokum munu þeir snauta heim aftur. Þeir sem ekki falla. Sagan endurtekur sig eins og svo oft áður. Við skulum láta aðrar þjóðir útkljá sín mál án þess að skipta okkur sífellt af því hvernig þær gera það. Megi friður vera með ykkur í dag, ykkar Hösmagi.

Tuesday, January 16, 2007

 

Hinsta smurningin ?

Framsókn ætlar að halda prófkjör hér í suðurkjördæmi á laugardaginn. Guðni Ágústsson hefur verið nánast sjálfkjörinn foringi flokksins hér undanfarin ár. Þegar fyrrverandi formaður flokksins framdi opinbert pólikískt harakiri í fyrra ætlaðist hann til að Guðni færi að dæmi hans. En Guðni kærði sig ekki um það. Vildi lengra líf en lét nú samt ekki verða af því að láta sverfa til stáls um formanninn.Mér er svo sem sama hvernig þetta prófkjör fer. Guðný reyndar miklu fallegri en Bjarni. Hjálmari var sigað á Guðna. Það þarf að koma burt þeim síðasta sem enn er með snefil af gömlu hugsjónunum. Ég held að úr því sem komið er skipti úrslitin engu. Flokkurinn er að deyja. Það er enginn grundvöllur fyrir hann lengur. Engar hugsjónir. Slagorðið um þjóðlega umbótahyggju er bara prump. Hlægilegt og fáránlegt í ljósi staðreyndanna. Eina hugsjón flokksins er valdabröltið. Sitja að kjötkötlunum með áhrif langt umfram kjörfylgi með aðstoð íhaldsins. Flokkurinn fær að vísu oftast meira fylgi í kosningum en í skoðanakönnunum. Sennilega vegna þess að fólk skammast sín fyrir að viðurkenna stuðning við flokkinn. Og einnig vegna þess að þar á bæ er til nóg af aurum. Finnur Ingólfsson á örugglega fyrir Visa reikningnum um hver mánaðamót. Kosningarnar í vor eru mikilvægar. Nánast öruggt að ríkisstjórnin fellur. Ef Samfylkingin kemst ekki í ríkisstjórn eru dagar Ingibjargar Sólrúnar taldir í pólitík. Það eru skiptar skoðanir í sjálfstæðisflokknum hvert halda skuli þegar ríkisstjórnin fellur. Þeir eru margir þar sem aldrei munu fyrirgefa Ingibjörgu að hafa fellt íhaldsmeirihlutann í borginni á sínum tíma. Og margir orðnir leiðir á þvælunni um evrurna og evrópusambandið. Sjálfum líst mér illa á samstjórn SF, VG og populistanna hjá frjálslyndum. Held að sú stjórn yrði ekki langlíf. Tel að langbesti kosturinn verði samstjórn íhaldsins og vinstri grænna. Þar eru tveir flokkar sem vita nákvæmlega hvar þeir hafa hvorn annan. Stóriðjustefnunni yrði ýtt til hliðar. Og við yrðum tekin af lista hinna staðföstu þjóða. Mistökin viðurkennd og afsökunar beðist. Þetta byggist þó á því að VG komi mjög sterkur út úr kosningunum. Skilaboðin verða að vera mjög skýr. Allir sannir vinstri menn á landinu verða að vera meðvitaðir í kosningunum. Láta sannfæringu sína ráða. Það gildir um marga sem enn eru í SF og þónokkra sem enn eru í Framsóknarflokknum. Látum ekki villa okkur sýn eins og henti alltof marga síðast. Og við skulum ekki láta persónulegan metnað fyrrum borgarstjórans í Reykjavík skipta nokkru máli. Við getum komist vel af án evrópusambandsins. Og við getum stöðvað hryðjuverkin gegn náttúrunni. Við skulum gera það og kjósa VG í vor. Það er eina raunhæfa leiðin til að snúa við af brautinni sem fetuð hefur verið alltof lengi. Með kveðju frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Thursday, January 11, 2007

 

Fleiri morð.

Nú ætlar Bush að senda 20.000 hermenn til Íraks. Til viðbótar við þá sem eftir eru. Yfir 3.000 bandaríkjamenn fallnir. Í nafni frelsis og lýðræðis. Aldeilis munur fyrir aðstandendur þeirra. Mæður, feður og eiginkonur. Og eiginmenn. Þeir hafa fallið fyrir foringjann.Það er fallegt og göfugt hlutverk. Sagan endurtekur sig enda skeggið skylt hökunni. Hitler var viss um að Rússar myndu fagna honum sem frelsara þegar hann sendi hersveitir sínar inn í Sovétríkin. Bush og Rumsfeld voru sömu skoðunar varðandi Írak þó herforingjar þeirra væru á öðru máli. Það eru að sjálfsögðu til Kvislingar meðal flestra þjóða. Hitler átti t.d. trygga aðdáendur á Íslandi þegar síðari heimsstyrjöldin brast á. Sem hefðu fagnað komu þjóðverja hingað á undan bretunum. Ég held að Styrmir ætti að hringja í Bush. Reyndar óvíst um árangur. Nú er kaninn byrjaður að myrða óbreytta borgara í Sómalíu. Í nafni baráttunnar gegn hryðjuverkamönnum. Hvað kallar ærlegt fólk þessa iðju bandaríkjamanna? Fórnir í þágu góðs málstaðar? Ég kalla þetta morð og hryðjuverk. Sem mun ekki skila öðru en enn meira hatri. Það er ekki hægt að vinna svona stríð. Það sannaðist eftirminnilega í Víetnam. Þar biðu bandaríkjamenn herfilegan ósigur í baráttunni við eina fátækustu bændaþjóð veraldar. Og þeir munu ekki ríða feitum hesti frá glæpaverkum sínum í Írak. Verkum, sem þeir, draugurinn og nagarinn kalla uppbyggingu. Og Þorgerður Katrín og mörg önnur gáfnaljós taka undir.Hún er stundum einkennileg túlkunin á lýðræði og frelsi. Brennisteinsfnykurinn gýs upp. Þessi sem Hugo Chaves nefndi. Verkamannaforinginn breski ætlar að kalla suma hermenn sína heim áður en hann gefur stjórnina á bretaveldi frá sér. Ábyrgð hans á eyðileggingunni og morðæðinu verður þó jafnmikil og áður. Og nöfn nagarans og draugsa hafa verið endanlega skráð í íslandssöguna. Og líklega verða þeir stoltir af verkum sínum allt til hins síðasta. Sem betur fer eru nú allmargir íslendingar á öndverðum meiði. Þó ekki væri það vegna annara saka, sem þó eru ærnar, eiga ríkisstjórnarflokkarnir skilið herfilega útreið í komandi kosningum. Vonum bara að ósigur þeirra verði sem allra stærstur. Með vetrarkveðju, ykkar Hösmagi.

Monday, January 08, 2007

 

Grámi.

Jólin hafa kvatt og hinn grái hversdagsleiki tekið við. Nokkur kuldi í veðurkortunum svo langt sem augað eygir. Hvít slæða yfir landinu en færð víðast hvar ágæt. Styttist í hákarlinn, hrútspungana og meira hangikjöt. Steinbítinn eldrauðan svo lýsið lekur út um munnvikin. Það er toppurinn sjálfur hjá Hösmaga. Bókstaflega ótrúlegt ljúfmeti. Þó unga fólkið lifi nú orðið margt af pizzum og hamborgurum, pasta og öðru skyndifæði er þó nokkur hópur sem étur þorramatinn. Sumir hafa hátt um að það sé bara snobb að éta eitraðan og skemmdan mat. En einhvernveginn lifðu forfeður okkar á þessu meiri hluta ársins. Engar frystikistur í den. Við erum nánast að drukkna og kafna í mat alla daga. Ég hugsa stundum út í heim þegar ég sit að kræsingum. Misskiptingin verður til þess að margir eru sísvangir alla tíð. Og margir svelta til bana. Það er auðvitað skelfilegt í heimi sem býr yfir miklu meiru en við getum torgað. Og ríku þjóðirnar eru tregar til að hjálpa hinum. Enda byssa oft betri en brauð að því er virðist. Svo eru að koma kosningar hér. Matarskatturinn lækkar korteri áður. Þá verður hægt að éta enn meira fyrir sama pening. Það er ekki að spyrja að þessu blessaða fólki sem nú stjórnar þessu útskeri. Ekkert nema manngæskan.Næstu mánuðina. En verkin tala frá fyrri tíð. Og það er fleira matur en feitt kjöt. Því miður eru hér alltof margir á fátæktarmörkum. Á sama tíma hafa vildarvinir ríksstjórnarinnar eignast bestu mjólkurkýr þjóðarinnar á tombóluverði.
Ríkið má alls ekki eiga neitt sem gefur arð. Allt á að einkavæða vegna klisjunnar um að ríkið eigi ekki að vasast í því sem einstaklingurinn getur gert. Það er þó margsannað að öll þjónusta verður dýrari eftir einkavæðingu. Og hún minnkar líka. Það sannast best á Símanum. Og bankarnir eru orðnir mestu okurstofnanir landsins. Nýju eigendunum hefur tekist að finna margar nýjar matarholur. Segi kannski meira frá því seinna.

Hösmagi er hress á nýju ári. Þraukar Þorrann og Góuna eins og venjulega. Vorið kemur, skógrækt, veiði, kosningar, útivera með góðu fólki og fleira skemmtilegt. Ný ríkisstjórn sem verður betri en sú er nú situr. Það er líklega mesta tilhlökkunarefnið. Með kveðju frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Friday, January 05, 2007

 

Hinir staðföstu.

Enn erum við íslendingar í hópi hinna staðföstu þjóða. Og danir. Staðfastir í að koma á lýðræði í öðrum heimshlutum. Írak t.d. Lýðræði sem felst í því að myrða, brenna, sprengja og eyðileggja. Koma vitinu fyrir vitleysinga. Og allar aðferðir leyfilegar. T.d. óhefðbundnar aðferðir við yfirheyrslur fanga. Sem tákna það eitt að pyntingar eru notaðar á hvern þann sem okkur þóknast að taka höndum. Danir afhenda bandarískum hermönnum fanga í Afganistan. Svo hægt sé að pína þá að vild. Allir vita hvað gert hefur verið í Írak. T.d. í Abu Grab fangelsinu. Þar fengu úrhrökin sem ekki var hægt að nota heima í Guðs eigin landi ærinn starfa. Mennirnir sem reknir höfðu verið vegna grimmdar og kvalalosta. Allt eru þetta verk á okkar ábyrgð meðan við dönsum með þessu glæpahyski. Þessvegna er svo óhemjumikilvægt að breyta um stefnu í utanríkismálum. Skyldu þeir sem persónulega hnýttu íslensku þjóðina aftaní Rumsfeld og companý aldrei fá neina bakþanka? Afturgangan og litli nagarinn? Það skiptir kannski minnstu. Það á að slíta þennan hlekk strax. Viðurkenna staðreyndir. Hætta vangaveltum yfir hvort rétt hafi verið " samkvæmt því sem þá lá fyrir" að verða hluti hinna vígfúsu. Biðja írösku þjóðina afsökunar. Þetta var röng ákvörðun. Bandaríkjamenn, Bretar og aðrir sem réðust á þessa fjarlægu þjóð höfðu engan rétt til þess. Og þetta glæpsamlega athæfi sem við tókum þátt í mun alltaf varpa rýrð á okkur sem sjálfstæða og friðsama þjóð. Ef nógu sterkar breytingar verða í næstu þingkosningum eigum við möguleika á að breyta til betri vegar. Og jafnvel hjá rótgróna íhaldinu kviknar á daufri týru. Styrmir Gunnarsson ritstjóri Moggans virtist komin á þá skoðun í Kastljósi sjónvarps fyrir áramótin að líklega væri affærasælast að kanarnir hættu að skipta sér af málefnum annara þjóða og kæmu sér heim til sín. Það tók hann að vísu marga áratugi að átta sig á svona einfaldri staðreynd. Við skulum samt vona að það viti á betri tíð. Með kveðju úr suddanum, ykkar Hösmagi.

Thursday, January 04, 2007

 

Vettvangur.

Ég var að lesa pistil Sigga danska um Draumalandið. Mér sýnist við vera óvenjulega sammála í þessum efnum. Og það er rétt athugað að sumt sem gert hefur verið í mótmælaskyni við áldelluna á undanförnum árum hefur bara virkað eins og lélegur brandari. Þjóðrembupólitíkin hefur löngu gengið sér til húðar. Ég hef nú talið mig ljóðelskan um dagana. En það er auðvitað fáfengilegt að þylja ættjarðarljóð yfir atvinnumótmælendum uppá hálendi. Kannski hefur Andri Snær gert okkur vinstri grænum mikinn greiða með bók sinni. Nú er það ekki svo að allir sem nú hafa áttað sig þurfi að kjósa lista vinstri grænna. Aðalatriðið er að sjálfögðu að breyta stefnunni. Stjórnarflokkarnir eru báðir útataðir vegna hryðjuverkanna gegn íslenskri náttúru. Og það sem verra er að við seljum raforkuna á spottprís. Og ekki er það nú beinlínis trúverðugt hið nýja slagorð SF, Fagra Ísland. Formaðurinn segir að batnandi fólki sé best að lifa. Það má taka undir það. En hann sá nú ekki ástæðu til " að setja fótinn fyrir þetta mál" á sínum tíma. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ber fulla ábyrgð á tilurð Kárahnjúkavirkjunar. Hún sér núna að vinstri menn snúa sér til trúverðugari flokks í þessum efnum. Þá er reynt að flagga nýjum fánum. Mín gamla spá um að vinstri menn átti sig er að ganga eftir. Það er helst hér í Suðurkjördæmi sem virkjunarflokkarnir halda velli. Samkvæmt spám eru íhald og framsókn hér með samanlagt 54% atkvæða. Samfylking með heilmikið en vinstri grænir 11%. Það er hinsvegar afar athyglisvert að í norðausturkjördæmi hafa vinstri grænir 27% atkvæða samkvæmt sömu spá. Það er einmitt kjördæmið sem Kárahnjúkavirkjun er í. Það er virkilega gott ef hugarfarsbreyting verður hjá fólki varðandi stóriðjustefnuna. En við skulum vera á varðbergi. Jafnvel Geir Haarde segir nóg komið í bili. En það kann að breytast eftir kosningar. Þessvegna verðum við að fella þessa ríkisstjórn. Koma henni endanlega fyrir kattarnef. Gefa öllum álfurstum frí. Endanlega hvíld. Og sannarlega er brýn nauðsyn að breyta um stefnu í utanríkismálum. Hætta að éta allt hrátt frá CNN. Skilja okkur frá morð- og eyðileggingaræðinu í Írak. Ég bíð og vona. Ég ber að vísu ekki persónulega ábyrgð á núverandi stjórnvöldum á Íslandi. En ég er íslendingur og verð auðvitað að skammast mín fyrir þetta fólk eins og margir aðrir ærlegir landar mínir. Við skulum valta yfir þetta lið svo ekki standi steinn yfir steini. Nóg kveðið að sinni, kærar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Wednesday, January 03, 2007

 

Þjóðleg umbótahyggja.

Þessi gamla lumma er enn komin upp á borðið. Nú er það Bjarni Harðarson sem talar. Bjarni reynir nú hið vonlausa. Það, að komast á þing fyrir framsóknarflokkinn. Það vantar allt þjóðlegt í samfylkinguna og vinstri græna. Og ekkert þjóðlegt í íhaldinu heldur. Nema náttúrlega að þjóna því til borðs og sængur eins og framsókn hefur gert síðustu árin. Þetta er nú gamalkunnug aðferð við að reyna að leyna staðreyndum. Þeim staðreyndum að framsóknarflokkurinn hefur kastað öllum gömlu góðu gildum sínum fyrir róða. Kárahnjúkavirkjun er sérlega góð. Kemur m.a. í veg fyrir að ýmis efni berist til sjávar og eitri fiskinn í sjónum. Og landið undir lóninu verður áfram til staðar og hægt að tæma lónið og endurheimta landið þegar framsókn þóknast. Og Bjarni er nú afskaplega þjóðlegur. Hefur til dæmis verið að markaðssetja drauga undanfarin ár. Tröll og álfa. Ég er líklega ekki nógu þjóðlegur. Daðra jafnvel við vinstri græna sem flestir eru laumukommar að villa á sér heimildir. Illa innrættir andskotar sírífandi kjaft.En ef betur er að gáð eru þjóðlegheit framsóknar fólgin í ólæknandi valdasýki. Bitlingastefnunni og áráttunni við að hjálpa íhaldinu við að gefa eignir þjóðarinnar. Hafa margföld völd miðað við kjörfylgið. Raða á garðann eins og 6% maðurinn í höfuðborginni. Þetta kalla þeir þjóðlega umbótahyggju.
Við þurfum að hreinsa ærlega til í pólitíkinni hér á landi. Skera báða ríkisstjórnarflokkana. Og jarða framsóknarflokkinn endanlega. Það væri ákaflega þjóðleg umbótahyggja. Og það er næsta víst að ríkisstjórnin mun falla í næstu kosningum. En það er nú bara hálfur sigur. Miklu skiptir hvernig til tekst með nýja ríkisstjórn. Það verður hörð barátta framundan og mjög erfitt að spá í spilin. Mín von er sú að vinstri grænir verði næststærsti flokkurinn að kosningum loknum. Það er engin goðgá að ætla að svo verði. Og þá verður lag til að mynda stjórn sem breytir um stefnu. Meiri von til þess að hinn smái fái uppreisn. Að við fáum að standa upprétt og lítt vígfús. Nema til að murka lífið úr öllu óréttlæti íhalds og framsóknar. Fram bræður það dagar nú senn. Með bestu kveðjum á nýju ári, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online