Monday, May 15, 2006

 

Dómgreindin.

Eyþór Arnalds hefur talað. Viðtal í kastljósi sjónvarpsins í gærkvöldi. Fullur iðrunar. Eða hvað? Ég taldi nú ekki hve oft hann talaði um dómgreindarleysi. Mörgum sinnum allavega. Hann var alltaf að hugsa um að hringja í lögguna. En dómgreindarleysið kom í veg fyrir það. Og það var að sjálfsögðu áfengið sem var sökudólgurinn. Og hann var nú ekki viss um að hafa verið á leiðinni austur þegar hann var stöðvaður í Ártúnsbrekkunni. Hann sagðist hafa góða dómgreind þegar hann væri ófullur. Væntanlega hefur hann verið það í þessu viðtali. Í mínum augum er þetta aumlegt yfirklór. Það sjá það flestir sem eru með nokkurnveginn óbrenglaða dómgreind að hann var bara að stinga af. Og ætti auðvitað að viðurkenna það. Listi sjálfstæðismanna hér væri miklu skárri ef Eyþór lýsti því yfir að hann myndi ekki skipta sér af honum næstu 4 árin. Og það er illt til þess að vita að dómgreindarleysi hans geti orðið til þess að meirhlutinn haldi velli. Framsóknarmennirnir sem ætluðu að kjósa íhaldið hugsa nú sinn gang. Og fleiri en þeir. Þegar menn virðast ekki skilja að þeir hafi skandaliserað er ekki von á góðu. Samlíking Sigga sænska um skemmda ávöxtinn virðist vera laukrétt. Nóg um Eyþór Arnalds að sinni.
Bláa vespan er með kúnstir. Búinn að vera í athugun í höfuðstaðnum í hálfan mánuð. Mun hafa gengið þar eins og klukka. En um leið og hún var komin austur var það sama uppá teningnum.Stundum í gang og stundum ekki. Líklega er nú skýring á þessu. Það er liturinn. Þessi heiðblái litur íhaldsins. Sem ég ruglaðist á og lit himinblámans. Kaupunum var rift í gær og nú er Hösmagi vespulaus maður á ný. Rauða vespan er enn í bílskúrnum. Skila henni væntanlega í dag. Ætla að skoða mál kínversku vespunnar betur. Alls ekki sáttur við vespuleysi. En það er ólíklegt að ég fari á kjörstað í vélhjóli. Kannski fer ég bara á grænni treyju á reiðhjólinu Faxa. Prýðis farartæki af gerðinni Icefox. Er það ekki heimskautarefur? Sé bara til.
Hér ríkir næturkyrrð. Þoka á fjallinu góða niður fyrir miðjar hlíðar. Raikonen í rannsóknarleiðangri og Pési vinur hans sefur hér í stólnum á móti mér. Mann- og kattlífið gengur sinn gang. Og við þrír ófullir með þokkalega dómgreind. Þurfum ekkert að hringja á lögguna. Friðsamir og löghlýðnir. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online