Thursday, September 28, 2006

 

Betrun.

Undirritaður horfði með öðru auganu á kastljós sjónvarpsins í gærkvöldi. Fylgdist af athygli með viðtalinu við Ómar Ragnarsson og fleiri vegna tímamótaatburða við Kárahnjúkavirkjun. Mesta glapræðis í sögu þjóðarinnar. Æ fleiri eru nú að átta sig á hvað gerst hefur. Samfylkingin komin með nýtt stefnumál. Fagra Ísland skal það vera. Nú er þessi flokkur skyndilega orðinn umhverfissinnaður. Flokkurinn sem studdi frumvarpið um þessa virkjun. Gæti það hugsast að nú eigi að snúa við blaðinu af því kosningar eru framundan? Ingibjörg útbrunna sagði á sínum tíma að hún vildi ekki setja fótinn fyrir þetta mál. Þegar fréttamaður spurði hana um hvort hið nýja slagorð væri trúverðugt í ljósi fyrri afstöðu svaraði hún því einvörðungu á þann veg að batnandi manni væri best að lifa. Að sjálfsögðu snilldarsvar hjá þessum kulnaða vúlkan. Þessar sjónhverfingar munu ekki skila miklu. Umhverfissinnar láta ekki villa sér sýn. Þeir munu kjósa rétt. Við munum vinna þetta stríð að lokum.
Það voru fleiri viðtöl í þessum þætti. Við mann sem gerði smámistök. Það er búið að leiðrétta þau. Hann er nú miklu betri maður en áður. Hann elskar meira að segja þjóðina heitar en sjálfan sig. Enda stritað fyrir hana alla sína ævi. Og verður líka miklu betri þingmaður en áður. Aldeilis flott viðbót við allt mannval íhaldsins hér í Suðurkjördæmi. Ég er farinn að velta því fyrir mér hvort ég sé staddur í miðju leikriti eftir Dostojevskí. Ekki svo að skilja að mér sé ekki sama um velferð íhaldsins hér. Það er ekki minn flokkur. En ég kenni í brjósti um margt ágætt fólk sem ég þekki og styður þennan flokk. Þetta er þeirra vandi en ekki minn. Nú hefur Atli Gíslason, lögmaður orðið við áskorunum að fara í framboð fyrir VG hér í kjördæminu. Ég þekki hann persónulega frá gamalli tíð úr lagadeildinni. Umhverfissinni, heiðursmaður og mannvinur. Kannski finnst einhverjum pólitískum andstæðingum hans þó einn ljóður á ráði hans. Hann hefur nefnilega aldrei verið dæmdur í tugthús. Og það gæti háð honum við að verða betri maður.
Kveðjur úr næturkyrrðinni, ykkar Hösmagi.

Wednesday, September 27, 2006

 

Flís í auga.

Flestir kannast við máltækið um þann sem sér flísina í auga náungans en ekki bjálkann í sínu eigin auga. Þetta kemur sennilega aldrei skýrar í ljós en þar sem loft er lævi blandið og menn eru að fara á taugum. Hösmagi hefur oft talað um rólyndi hugans í þessum pistlum. Hvað það sé mikilvægt. Ef það er ekki til staðar fylgir því ónotakennd og vanlíðan. Og hættan sem liggur í leyni undir þeim kringumstæðum er sú, að menn hætti að hugsa rökrétt. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Það er til dæmis að hluta til skýringin á að Hösmagi villtist á krössgötunum á dögunum. Sem betur fer komst hann af villigötunum í tæka tíð. Hugsar nú ráð sitt að nýju og gefur því tíma enn um sinn. Hefur lengi haft ákveðið lífsmottó sem ætið hefur komið sér vel ef eitthvað bjátar á. Þraukaðu, og þú munt sigra. Haltu ró þinni og vandamálin leysast.
Hér er enn haustblíða. Við Raikonen snemma á fótum sem oftast áður. Það hljóp einhver lurða í undirritaðan eftir vinnu í gær. Skárri nú og ætla að lufsast til starfa á eftir. Október að nálgast og síðustu dátarnir í Keflavík eru á heimleið. Það eru út af fyrir sig merkileg tíðindi. Kveðjur til ykkar allra, ykkar Hösmagi.

Sunday, September 24, 2006

 

Fugl sorganna.

Einhver sagði einhverntíma að þó fugl sorganna fljúgi yfir höfuð þér sé óþarfi að leyfa honum að byggja hreiður þar. Það sama gildir um fugl depurðarinnar, sem stundum flögrar hjá. Mér finnst þetta nú nokkuð spaklegt. Og enn eru lægðir og hæðir á ferðinni. Bæði veðurfarslega og í óeiginlegri merkingu. Þessi endalausa bylgjuhreyfing. Sumir ætla þó að það séu bara hæðir. En þeir munu sannfærast að lokum. Við komumst ekki undan því.
Ég var að horfa á fréttir af kjördæmisþingi litla feluflokksins í gærkvöldi. Véfréttin frá Bifröst hvatti fólk til að standa saman. Spilaði líka litlu plötuna um þjóðlegheitin og nauðsynina á að litli flokkurinn yrði til áfram. En það hlustuðu ekki allir. Til stóð að setja upp framboðslista með sama klíkuhættinum og áður. En þá fóru hirðar Kristins Gunnarssonar á stjá. Voguðu sér að stinga uppá að skráðir flokksfélagar fengju allir að hafa áfhrif. Og það verður niðurstaðan. Það mun allt loga í illdeilum undir niðri í þessu litla flokki. Áfram eins og verið hefur. Uppdráttarsýkin verður ekki læknuð með þeim aðferðum sem notaðar eru. Það er löngu búið að taka gröfina.
Gott haustveður þessa helgina. Hösmagi hefur verið að dunda sér. Þreif allan bílaflotann í gær. Logn, sól og sæmilega hlýtt svona miðað við september. Krossgöturnar eru enn á sínum stað. Ætla að vera þar enn um sinn og sjá hvað verður. Óvissuástand er alltaf slæmt. Þegar rósemi hugans nær yfirtökunum á ný munu hlutirnir leysast af sjálfu sér. Ég þakka danska nafna góða kveðju. Meira síðar, ykkar Hösmagi.

Wednesday, September 20, 2006

 

Þögnin.

Sæl á ný. Það var nú ólíklegt að Hösmagi gæti þagað endalaust. En honum finnst sjálfum mjög gott að hlusta á þögnina eina annað slagið. En það er auðvitað alltaf sama sagan. Ef maður þegir of lengi byrja sumir að kvarta. Það er nátturlega mjög ljúft út af fyrir sig. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Ég var að tala um krossgötur um daginn. Og svartar þokur er sigldu yfir ský. Og að mikilvægt væri að taka rétta kúrsinn er á krossgötur kæmi. Þessar krossgötur voru þú lúmskari en aðrar. Undirritaður villtist sem sé og varð að berjast við forynjur. Honum tókst að snúa þær niður hverja af annari og er nú komin á sömu götur á ný. Svörtu skýin horfin að sinni. Og jafnvel sér til sólar á milli. Allavega er Hösmagi byrjaður að brosa aftur. Gera að gamni sínu jafnvel. Kaldhæðnin hugsanlega á leiðinni líka. Þá hætta sennilega sumir að kvarta. Læt nægja að sinni. En framsóknarmenn og aðrir sem héldu að þessi eiturtunga væri þögnuð munu verða fyrir vonbrigðum. Því lofa ég. Ykkar Hösmagi, eftir normalbrauð með spæjó.

Wednesday, September 06, 2006

 

Grunurinn staðfestur.

Ég var að kvarta. Stundum verður fólk nú að fá að vera í þessari deild.Kannski er nú líka stundum gott að bæra ekki á sér. Og mínir dyggustu lesendur þeir nafni minn og MS. hafa báðir látið heyra í sér. Gleður gamlan bloggara að sjálfsögðu. Ég var nú reyndar að frétta að MS væri kominn til fyrirheitna landsins. Vona samt að hann verði ekki handgengi þeirra Bush og félaga þegar hann snýr til baka klyfjaður fötum á nýja erfingjann. Allt er þetta bara dásamlegt. En Hösmagi er að hugsa sinn gang. Þó svartar þokur sigli yfir ský er á hann ekki þvi að gefast upp.Raikonen mjög ráðsnjall sem stendur. Það lagar. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi

Tuesday, September 05, 2006

 

Kaflaskil.

Þó að Fiskihrellir sé nú aðallega að þessum skrifum sjálfum sér til ánægju þá saknar hann nú kommentanna. Bloggfríi Helgu lokið eða hvað? Og skáldið þegir. Hösmagi er nú að hugsa ráð sitt. Pestargemlingur í bili. En samt sem aður reiknar hann nú ekki með því að geta þagað til lengdar. Það verður að skýrast síðar. En eins og fyrirsögnin gefur til kynna eru kannski kaflaskil í lífi Hösmaga um þessar mundir. Heldur þó enn ró sinni enda er það það mikilvægasta af öllu. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Friday, September 01, 2006

 

Alvarleg augu.

Geir Hallgrímsson hinn sæli leit oft alvarlegum augum á hlutina. Það gera þau utanríkisráðherrann og litla gamalmennið einnig. Viðtal við bæði í sjónvarpinu í fyrrakvöld. Viðbrögð þeirra og annara sem ábyrgð bera á Kárahnjúkasvindlinu eru með ólíkindum. Það er auðvitað mannlegt að verja eigin gerðir. Valgerður neitaði að rökræða málið við formann vinstri grænna. Útvarpsstjóri hefur staðfest það. Viðtalið var því ekkert viðtal. Bara eintal. Og ráðherrann notaði tækifærið í leiðinni til að ná sér niðri á Steingrími og öðrum sem andæfa ólýðræðislegum vinnubrögðum. Og svo ber hún enga ábyrgð því það voru bara undirsátar í ráðuneytinu sem ákváðu hvað menn fengju að vita og hvað ekki.Íslendingum er ekki alls varnað í pólitískum efnum. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun er VG með nærri tvöfalt fylgi flokks þeirra Valgerðar og gamalmennisins. Ég vona að þetta mál verði í brennidepli áfram. Smátt og smátt mun fólk átta sig á hvað gerst hefur. Og nú hefur útreikningurinn sýnt að arðsemin hefur minnkað um 33%. Og því miður eiga enn verri staðreyndir eftir að koma í ljós. Þingmenn vinstri grænna bera enga ábyrgð á Kárahnjúkavirkjun. Það gera allir þingmenn stjórnarflokkanna og meirihluti þingmanna samfylkingar. Ömurlegt var að sjá viðtalið við einn þeirra í sjónvarpinu. Þetta var einn af gömlu krötunum úr Alþýðubandalaginu sáluga. Hann studdi virkjunarfrumvarpið og sagðist mundu hafa stutt það þó hann hefði haft upplýsingarnar úr skýrslu Gríms Björnssonar. Við skulum íhuga vandlega hvernig við verjum atkvæðinu í næstu þingkosningum. Og við skulum líka hugleiða vel skilgreiningar sumra manna á lýðræðinu. T.d. Þorsteins Pálssonar, fyrrum þingmanns sunnlendinga. Þjóðin kýs Alþingi og Alþingi kýs stjórn landsvirkjunar. Þessvegna er vilji landsvirkjunar að sjálfsögðu vilji þjóðarinnar. Ég er farinn að halda að þingræðið sé hreinlega mjög ólýðræðislegt. Það getur margt breyst á 4 árum. Líka á einu ári eða nokkrum mánuðum. Rangar, skaðlegar og mjög ólýðræðislegar ákvarðanir eru teknar með þeim rökum að þjóðin hafi kosið Alþingi til þessara verka. Verka, sem enginn hafði grun um að upp kæmu. Ég er ekki að efast um lagalegan rétt. En siðferði margra stjórnmálamanna er nú bágborið svo ekki sé meira sagt. Það er að sannast á hverjum degi um þessar mundir.

Haustlegt að verða. Síðasti veiðidagur á morgun. Og ef til vill kaflaskil á öðrum sviðum hjá Hösmaga. Tíminn sker fljótlega úr því. Hann mun hugsa ráð sitt næstu daga. Stundum erum við á krossgötum. Þá er nauðsynlegt að staldra við og átta sig á hvert halda skal. Og mikilvægast af öllu er að halda ró sinni svo við töpum ekki áttunum. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online