Thursday, May 31, 2007

 

Guðfaðirinn.

Lagði það á mig að hlusta á formenn stjórnmálaflokkanna í sjónvarpinu í gærkvöldi. Sé reyndar eftir að hafa ekki þraukað eftir Guðfríði Lilju. Samkvæmt bloggurum á mbl. ku hún hafa haldið góða ræðu. Kemur mér ekki á óvart. Sömu bloggarar segja Steingrím reiðan og fúlan eftir eigin "afleiki" að undanförnu. Það sannast hér hið fornkveðna. Sannleikanum verður hver sárreiðastur. SF með formanninn í broddi fylkingar kennir honum um svik SF við eigin stefnu og hún hafi ekki átt annan kost í stöðunni en að þjóna íhaldinu til sængur. Þetta er auðvitað svo fáránleg della að það er ekki nokkru lagi líkt. Stóri flokkurinn, mótvægið við íhaldsöflin, svíkur eigin kosningaloforð áður en byrjað er á dodoinu undir sænginni. Og allt VG að kenna. Sannleikurinn er allt annar. Það sjá flestir sem hafa nokkurnveginn óbrenglaða dómgreind. Það er búið að benda á ýmislegt sem nánast staðfestir að þetta samstarf var í raun komið á laggirnar fyrir kosningar. Það voru reyndar öfl innan sjálfstæðisflokksins sem vildu lofa ISG að dingla í snörunni. Þau urðu undir svo hún slapp með skrekkinn. Það var sagður góður andi í viðræðum flokkanna um stjórnarmyndun. Hún var þessvegna mjög auðveld enda ISG reiðubúin að fórna hverju sem var fyrir lífgjöfina og ráðherrastól. Þannig tókst henni um leið að fresta óhjákvæmilegu uppgjöri í eigin flokki. Eru menn strax búnir að gleyma því að SF undir hennar forustu tapaði 14% af fyrra fylgi sínu þrátt fyrir fádæma illa séða ríkisstjórn íhalds og framsóknar. Það eru auðvitað vinstri græn sem urðu sigurvegarar í þessum kosningum. Og það er næsta víst að sigurinn hefði orðið enn stærri ef ekki hefði komið til annað framboð umhverfisvina. Kannski er hægt að telja einhverjum úr SF, Framsókn og Sjálfstæðisflokki trú um að Steingrímur Sigfússon beri höfðuðábyrgð á núverandi ríkisstjórn. Raunverulegir vinstrisinnar, umhverfisvinir og aðrir þeir sem vilja róttækar breytingar í íslenskum stjórnmálum sjá í gegn um svona kúnstir. Það er augljóst slíku fólki að ISG er nú að reka síðasta naglann í kistu SF sem mótvægisflokk við íhaldsöflin. Við þurfum þó væntanlega að bíða nokkuð eftir jarðarförinni. Þangað til getur formaður SF hallað sér makindalega í ráðherrastólnum. En hætt er við að eftir næstu kosningar verði SF svona á stærð við Alþýðuflokkinn gamla þegar verst lét hjá honum. Það verða nöturleg eftirmæli um hinn (hugum)stóra hugsjónaflokk jafnaðarmanna. Og allt bölvuðum rokknum frá Gunnarsstöðum að kenna.

Sumarið er komið yfir sæinn. Hitinn í tæpar 18 gráður í gær. Júní byrjaður og ég var að skrifa reikninginn fyrir maí. Gott að geta greitt öll útgjöldin um þessi mánaðamót.Hítin er stór og gleypir feginn við. Olíumafían hækkar stöðugt bensínverðið á meðan gengið sígur. Var ekki einhver að tala um samráð hérna um árið? Nú er það smálúr fram að vinnu og helgin að renna í hlað. Kærar kveðjur frá okkur rauðhausliðum, ykkar Hösmagi.

Wednesday, May 30, 2007

 

Dostojevskí.

Mér hefur stundum fundist sem ég væri staddur í miðju leikriti eftir þetta rússneska skáld. Flestar persónurnar eru í sínum hugarheimi og víðs fjarri raunveruleikanum. Einfaldlega snarbilaðar. Þessi tilfinning kom yfir mig á fundi í gærkvöldi. Sjaldan hef ég upplifað álíka fáránleika. Ég ætla ekki að sinni að tíunda þessa upplifun nákvæmlega. Geri það ef til vill síðar. Kannski sannaðist fyrir mér gamla máltækið að svo lengi læra menn sem þeir lifa. Nema náttúrlega þeir sem aldrei læra neitt. Það voru þó ekki allir jafn geggjaðir á fundinum. Mér fannst nokkrir upplifa veru sína þarna á svipaðan hátt og ég sjálfur. Einn hafði t.d. orð á því að völd spilla sumu fólki. Allt of mörgu reyndar. Ég skora hér með á Jón Hjartarson bæjarfulltrúa VG í Árborg að segja af sér strax. Og þó fyrr hefði verið.

Hitinn komst í nákvæmlega 17° hér í gær. Yndislega fallegur og góður dagur. Nóg að gera á vinnustað og undirritaður ákaflega sáttur að loknu dagsverki. Tilhlökkunarefni að hitta skáldið sem nú er á heimleið ásamt heitkonu sinni. Fjallaþráin eykst um allan helming þegar veðrið breytist svona til batnaðar. Á eftir að kanna ástand vega inní Laugar. Margar góðar minningar af þessum slóðum og allt of langt síðan þær hafa verið kannaðar aftur. Níundi eða tíundi júní væru góðir til slíkrar farar. Tæpar 4 vikur í fyrsta laxveiðidag minn í Ölfusá. Einn af indælustu mánuðum ársins að byrja á morgun. Mánuðurinn þar sem birtan vinnur fullnaðarsigur á myrkrinu. Þegar ég kom heim út næturgöngunni var mér fagnað að venju. Og það var bón í litlum augum. Án þess að nokkuð væri sagt. Ég vissi strax hvað til míns friðar heyrði. Teygði mig í rauðan poka í frystihólfinu og hitaði upp hluta af innihaldinu í örbylgjunni. Þetta tók nú ekki langan tíma en sá sem beið var óþolinmóður. Nokkur mjá meðan horft var á skálina snúast í ofninum. Síðan meira mjá og mal að auki. Það vantaði bara að sagt væri: Þú ert andskoti góður kall fóstri. Það er sem sagt allt óbreytt á milli okkar Kimi. Vináttan fölskvalaus sífellt til staðar. Við sendum ykkur öllum bestu morgunkveðjur, ykkar Hösmagi.

Tuesday, May 29, 2007

 

Sól og ostur.

Nú klukkan 20:30 er sól enn hátt á lofti. Hitinn fór í 15,4 gráður hér í dag og það er nú hæsti hiti ársins. Held að þetta hlýja loft sé að þrýsta sér hingað frá Rússlandi. Gamli komminn í Hveragerði, sem ég sagði einhverntíma frá hérna, hefði orðið glaður ef hann væri ofanjarðar. Sá sem hleypti úr varadekkinu af Rússajeppanum inní stofu. Að vísu er nú Snorrabúð stekkur þar eystra. Bara Pútín og mafían. En mér er sama hvaðan þetta hlýja loft kemur. Allir orðnir hundleiðir á kuldaskítnum hér að undanförnu.
Í gamla daga fór ég oft í mjólkurbúðina í MBF. Einhvernveginn lögðust þessar ferðir af. Þar er nú meira úrval af ostum en í öðrum búðum hér austan heiðar. Ég hef verið nokkuð sáttur við Ísbúann sem fæst í Nóatúni. Nokkuð bragðmikill og góður ostur. En svo frétti ég að búðin í MBF lumaði á frábærum osti. Það er gamle Ole, danskur að uppruna. Svo ég leit þar inn á leið heim úr vinnu í dag. Þar gaf á að líta. Ég nánast slefaði af að sjá þessa dýrð. Þarna var gamli Óli, sem hlýtur að vera stolt þessarar verslunar. Og ég fékk að smakka áður en ég keypti. Þetta er unaðslegt lostæti. Keypti mér allstórt stykki og brá ekki einu sinni þegar ég heyrði verðið. 2.200 kr. kílóið. Svona tvöfalt verðið á Ísbúa. Ég hugsaði nú bara að maður væri að kaupa allskonar kjötálegg fyrir hærra verð. Þessi gamli ostur er sérlega bragðgóður. Sterkur vel og líklega betra að borða hann eftir vinnu en fyrir. Ég skar þykka sneið af þessari mjólkurafurð og bútaði hana niður. Svo hófst bara sælkerakvöld. Osturinn bráðnar í munni. Líklega hægt að éta yfir sig af honum eins og flestu öðru. En ég ætla alltaf að eiga bút í ísskápnum. Fá mér svona bragð annað slagið. Ég ætla aftur í þessa búð og fá að smakka fleiri osta. Ostaframleiðslunni hér hefur fleygt fram. Geysigott framboð á góðum ostum. Gamli Óli hlýtur líka að vera óhemjugóður í sósu. Ég verð líklega að fara að experimenta.
Raikonen stunginn svefnþorni. Og gamli Hösmagi gengur reyndar brátt til sængur. Svona eins og ein krossgáta áður en ég velt útaf. Með sól í sinni og ost í maga. Bestu góðviðriskveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, May 28, 2007

 

Bati.

Ég hélt á tímabili í gær að ég yrði að skera hausinn af mér til að losna við verkinn. Við minnstu hreyfingu var eins og verið væri að sarga með hníf innan úr hausnum. Það var hreinlega farið að síga verulega í mig. Ég þraukaði og lagði það ekki á mig að reyna að ná sambandi við doktor. Minnugur þess að yfirleitt læknast maður af sjálfu sér. Einhvernveginn tókst mér að sofna. Vaknaði snemma að venju og viti menn: Allt annað líf. Veit reyndar af þessu enn en trúi að mér sé að snarbatna. Kannski klemmd taug eða bólgnir hálsvöðvar. Horfi nokkuð björtum augum fram á daginn. Það er bara ágætt að láta minna sig á það annað slagið að góð heilsa er ekki sjálfgefin. En, sem sagt, stálsleginn Hösmagi við tölvu sína. Nú hefur hlýnað talsvert og hitinn náði 12 gráðum í gær. Ládauður sjór á Eyrarbakka þegar ég kíkti í fjöruna í gær. Ósköp notalegt að vera í fríi í dag og veiðifiðringurinn gerir vart við sig. Það er ákaflega góðs viti. Sé til á eftir. Svo sem ekki langt í Tangavatn á grænu þrumunni. En það er að styttast í heimkomu skáldsins og vötnin sunnan Tungnaár bíða. Laugarnar og Kirkjufellsvatn. Innan við mánuður í laxinn og áin er nú geysifalleg eftir kælu undanfarinna daga. Ég hef svo sem lítið lagt mig eftir að veiða lax á flugu. Flest sumur liðið án þess ég hafi reynt það. Ég ætla að gefa henni séns í sumar. Kominn tími til eftir að hafa stundað laxveiðar í hálfan fjórða áratug. Alltaf jafn skemmtileg iðja. Þessi unaðslegasti tími ársins er runninn upp einu sinni enn. Sannarlega hlakkar undirritaður til komandi bjartra daga. Áin, sem ég er alinn upp við og vötnin á hálendinu bíða. Endur og Himbrimar og lyktin ljúfa þegar landið angar. Vellíðunarkennd með góðan bata og hugurinn í góðu jafnvægi.Unaðslegt.

Raikonen utandyra nú. Ekki amalegt fyrir lítið dýr að spóka sig í blíðunni. Þrjú kíló af rækjum í frystinum. Aldrei að vita nema fóstri verði hupplegur á þessum indæla degi. Það er allavega víst að mér finnst kisi minn alls góðs maklegur. Við sendum ykkur okkar albestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Sunday, May 27, 2007

 

Heljarslóð.

Stríðið í Írak heldur áfram. Af fullu brjálæði sem fyrr. Hvað skyldu margir deyja á hvítasunnudag?

Er Johnny kom heim af heljarslóð
á hlaðinu gömul kona stóð
og sagði; Ég orðin er ellimóð,
en eitthvað mér sýnist þú breyttur.

Við lúðrablástur og bumbuslátt
þú brytjaðir fjölda manns í smátt,
og fyrir það var þér hossað hátt.,
en hví ertu svona breyttur?

Ó, hvar eru augun blá og blíð,
sem brostu við mér forðum tíð,
er heiman þú fórst og hélst í stríð?
Æ, hví ertu svona breyttur?

Og hvar eru þínar hendur tvær,
og hvar er þinn fótur og þínar tær?
Og hvar er nú hlátur þinn hár og skær?
Æ, hví ertu svona breyttur?

Hvað gerðu þeir við þitt glæsta hár,
sem gljáði og skein eins og hrafnsvængur blár?
Og hvers vegna er kúpa þín hvít sem nár?
Æ, hví ertu svona breyttur?

Það þekkja víst flestir þennan söng. Textinn er Jónasar Árnasonar. Sá maður hataði stríð eins og ég. Stuðningur yfirnagarans og draugsins er öllum kunnur. Við erum á lista yfir hinar vígfúsu þjóðir. Vígfúsu. Hugleiðið það. Fús til að drepa saklaust fólk.Brjálaðir menn komu þessu af stað á upplognum forsendum. Og svo halda menn því fram að að þetta hafi verið rétt " miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir" Gott og vel. Nú vita allir betur. Samt má ekki taka okkur af þessum lista. Það væri þó táknrænt innlegg okkar í baráttu fyrir friði. Jafnframt því að biðja írösku þjóðina afsökunar.
Hvað skyldi ISG oft hafa lofað því í ræðu og riti að þetta yrði gert ef SF kæmist til áhrifa? Og það er móðgun við almenna skynsemi að réttlæta svikin með því að halda því fram að VG hefði gefið eftir í þessu máli fyrir ráðherrastóla. Mönnum eins og nafna mínum ekki sæmandi. Fyrstu skref SF á ríkisstjórnarveginum lofa ekki góðu. Legg til að fáninn um Fagra Ísland verði dregin niður til hálfs. Eða tekinn niður og pakkað niðurí skúffu.

Sama staðviðrið. Kalt á nóttunni en þokkalegt yfir hádaginn. Við Kimi búnir að vera lengi á rjátli. Einhver andskotinn að plaga mig í hálsvöðvunum. Meira en lítið.Þarf að fara mér hægt ef ég lít um öxl. Verkinn leggur upp í haus við minnstu hreyfingu. Held þó að leifarnarar af heilabúinu séu þar enn. Við fósturfeðgar sendum ykkur öllum góðar kveðjur úr bjartviðrinu, ykkar Hösmagi.

Thursday, May 24, 2007

 

Asnaeyru.

Það er með ólíkindum hvernig sumir geta látið teyma sig á eyrunum. Í dag tekur ný ríkisstjórn SF og íhaldsins við völdum hér. Og það er sorglegt að áður en þetta gerist er SF farin að svíkja kosningaloforðin. Við verðum áfram á morðlistanum. Sameiginleg yfirlýsing ISG og Geirs um sút yfir því sem nú er að gerast skiptir engu. Þetta lá svo sem í augum uppi fyrir vitiborðið fólk. Morðlistinn og mennirnir sem komu okkur á hann eru nú tabú hjá SF, enda meinti hún ekkert með þessu. Fagra Ísland er líka fokið út í veður og vind. Helguvík og Húsavík.Sama álsálin í SF og íhaldinu. Það var líka vitað. Umhverfisvinirnir sem kusu SF sitja nú með sárt ennið. Þeir geta þó einungis kennt sjálfum sér um. Allt of eyrnastórir á kjördag. Það var nú svona nokkurnveginn öruggt fyrir kosningar að SF og VG myndu ekki ná meirihluta á þingi. Hrun framsóknarflokksins var fyrirséð. Hann var bara einfaldlega úr leik að kosningum loknum. Svo grípur SF töfrasprotann og segir að Steingrímur hafi komið í veg fyrir vinstri stjórn með því að vera vondur við framsókn. Þetta er auðvitað svo fjarri öllu velsæmi í pólitík að ekki nokkru tali tekur.
Hitt er vitað að hluti af VG var tilbúinn til að fara í stjórn með íhaldinu. En bara á öðrum forsendum en SF. Allir áframhaldandi stóriðjudraumar hefðu verið frystir. Og menn hefðu látið reyna á morðlistann. VG hefði ekki látið nægja að fella nokkur kródódílatár yfir ástandinu þar núna. Það er mér fullkunnugt um frá forustu flokksins. Sem betur fer eru ekki allir tilbúnir að selja hugsjónir sínar og sannfæringu fyrir völd. Og það er miklu fleira slæmt við þessa nýju ríkisstjórn. Örlög Íbúðalánasjóðs virðast ráðin eftir að SF afhenti hann Árna Matt. Lyklarnir að heilbrigðisráðuneytinu komnir í hendur eins helsta frjálshyggjupostula íhaldsins. Þess verður ekki langt að bíða að afleiðingarnar verði almenningi ljósar. Hafi menn haldið að stefnuyfirlýsingin frá í gær boðaði betri tíð í margvíslegum baráttumálum vinstra fólks voru þeir á villigötum. Þetta verður allt komið í ljós þegar sumarið er liðið.

Enn er kalt þó veðrið sé fallegt. Kveðjur frá okkur Kimi húsverði, ykkar Hösmagi.

Wednesday, May 23, 2007

 

Ný stjórn.

Ný ríkisstjórn er að taka við völdum. Verður vonandi skárri en sú sem er að kveðja. Hinn nýi umhverfisráðherra kaus gegn Kárhnjúkavirkjun á sínum tíma. Vona að hún standi vaktina vel og ég óska henni velfarnaðar í starfi. Það á að vísu eftir að gera málefnasamninginn opinberan. Kannski hefur nýi utanríkisráðherrann umboð og þor til að taka okkur af lista hinna morðóðu þjóða? Og biðja um leið írösku þjóðina afsökunar. Þann hluta hennar sem enn lifir. Líklega best að sleppa frekari hugleiðingum um stefnuna , uns plaggið verður birt eftir hádegi í dag. Ljóst er þó að við eigum von á frekari einkavæðingu í heilbrigðisgeiranum. Það er ekki tilhlökkunarefni. En ekki mun ég sakna Sturlu úr samgönguráðuneytinu. Hef aldrei skilið veru hans þar. En mér hefur alltaf fundist svolítið vænt um Jóhönnu. Treysti henni vel í félagsmálum og öðrum velferðarmálum og vonandi tekst henni að laga ástandið í þeim efnum. Allt mun þetta skýrast á næstu vikum. Það er nauðsynlegt að vel takist til og ég ætla ekki að mála skrattann á vegginn fyrirfram. Allir verða að fá sín tækifæri, en ég hefði viljað vinstrisinnaðri ríkisstjórn. Einkum stjórn, sem hefði tekið af skarið í umhverfismálum. Einn harðasti stuðningsmaður stóriðjustefnunnar í SF er nú orðinn ráðherra. Það er ekki góðs viti. Hefði nú heldur viljað sjá varaformanninn í stjórninni. En hann á víst að passa flokkinn meðan Solla heimsækir vinkonur sínar í dana- og svíaveldi. Og vini sína í Brussel. Vonandi betur talandi enska tungu en fráfarandi utanríkisráðherra.
Nú getur Véfréttin sagt af sér. Búið spil barasta og heldur stutt gaman. Erfiðir tímar framundan hjá leifunum af framsóknarflokknum. Hann sleikir nú kaun sín eftir sögulegt afhroð í kosningum.Kannski ber fólkið, sem enn er þarinnanstokks, gæfu til að snúa við blaðinu. Horfa í eigin barm og hætta að kenna öðrum um ófarir flokksins. Hætta að trúa á drauga og komast aftur til meðvitundar.

Það hefði einhverntímann verið sagt að nú væri fallegt veður til að skapa. Gamla sveitaþorpið, sem nú er orðið að bæ, er að vakna í glaðasólskini. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Monday, May 21, 2007

 

Köld birta.

Nú er sól komin hátt á loft. Blankalogn en kuldinn flæðir inn um ljórann hans Kimi. Og langtímaspáin á svipuðum nótum. Ég ætla að vona að skáldið mitt og heitkona hans komi með suðræna hlýju með sér um mánaðamótin. Mér kæmi ekki á óvart að Frostastaðavatn væri ísilagt núna. Kannski förum við bara með nafar með okkur og leggjumst í dorgveiði. Það er allavega tilhlökkunarefni að komast í Landmannalaugar. Þaðan er stutt í Kirkjufellsvatn , þar sem skáldið veiddi fyrsta fisk sinn á stöng og ég hef sagt frá áður. Lítill strákur varð ákaflega sár föður sínum fyrir að sleppa fiskinum í vatnið aftur. Tók þó brátt gleði sína aftur og sættist við föðurinn þegar hann hafði fengið nokkra fiska. Ég á góðar minningar frá þessum slóðum þó langt sé um liðið. M.a. annars var mjög skemmtilegt þegar brennivínsflöskuna rak á land við lappirnar á okkur þar sem við sváfum í svefnpokum milli steina í fjöruborði Kirkjufellsvatns. Og innihaldið rann ljúflega niður um kverkarnar. Það voru Skaftfellingar að veiðum hinumegin við vatnið. Þeir höfðu misst flöskuna fyrir borð úr bát sínum og það var svona rétt mátulegt borð á henni. Þannig maraði hún í rólegheitunum til okkar Ingvars skókaupmanns og Árna Erlingssonar, Laugarbakkajarls. Við hittum svo þessa ágætu Skaftfellinga þegar leið á daginn og þeir urðu glaðir yfir að brennivínið hafði ekki farið til einskis. Rekinn hafði gagnast góðum mönnum. Það væri skemmtilegt að reyna fyrir sér aftur í þessu fallega vatni. Það liggur á mörkum Rangarvalla- og Skaftafellssýslu. Báðar sýslurnar telja sig eiga vatnið og ég held að ekki sé enn búið að skera úr í þeirri deilu.

Allt við það sama í pólitíkinni. Og Véfréttin virðist enn eygja von. Hún ætlar ekki að segja af sér fyrr en endanlega er búið að mynda nýja álstjórn. Formlega er hún enn ráðherra. Kannski gæti Geir orðið leiður á kossaflensinu. Eða Solla. Véfréttin er enn fús til starfa fyrir þjóðina.
Þjóðhyggjan enn í fyrirrúmi. Hagsæld og hagsbætur. Sumu fólki virðist alls varnað. Andskotans della er þetta. Enn og aftur sannast það sem ég hef sagt hér oft áður. Það er ekki mark takandi á einu einasta orði forystumanna framsóknarflokksins. Þeir eru öllu trausti rúnir og ættu að snúa sér að öðru en stjórnmálum. Bestu kveðjur frá okkur rauðliðum, ykkar Hösmagi.

 

Grámi.

Hálfgrámóskulegur mánudagur. Frostið 7 stig á Þingvöllum í fyrrinótt. Ingólfsjall hvítt niður undir rætur. Lauk nokkrum verkum hér heima um helgina og allt á að verða klárt og kvitt fyrir mánaðamótin. Einn veðurspámaðurinn á moggablogginu spáir rigningarsumrinu mikla, 2007. Fari hann í rass og rófu með spár sínar. Ég spái allavega góðu veðri á veiðidögum í byggð og til fjalla. En fiðringinn vantar meðan þessi kuldaskítur varir. Líklega er bara betra að fá aðeins harðari vetur gegn blíðara sumri.
Ekki er ný ríkisstjórn orðin að veruleika enn. Af fréttum skilst mér að nú eigi að fara að skipta ráðuneytunum milli flokkanna. Og menn velta nú fyrir sér nafni á þessa stjórn. Er nokkur þörf á því. Véfréttin opinberaði enn hugmyndaauðgi sína með því að kalla hana Baugsstjórn. Hvernig væri nú að þessi formaður segði af sér og léti okkur í friði? Auðveldast væri reyndar að leggja flokkinn niður. Þ.e.a.s. það litla sem eftir er af honum. Það er engin þörf fyrir flokkinn lengur. Gjörspilltur og hugsjónalaus. Svo tala foringjarnir um trúnaðarbrest og æsa sig upp í fjölmiðlum. Hvernig væri að líta í eigin barm og skammast sín? Þó ég kvíði verkum tilvonandi stjórnar er það mikið fagnaðarefni að losna við framsóknarflokkinn úr landsstjórninni. Og nú hefur einnig verið tryggt að Árni Johnsen verður gerður áhrifalaus með öllu á þingi. Eins og hann verðskuldar. Því miður fyrir okkur umhverfissinna urðu úrslit kosninganna ekki hagstæðari en raun bar vitni. VG jók þó fylgi sitt um nærri 60%. Það hefði nú einhverntíma þótt nokkuð gott.Við munum að sjálfsögðu halda baráttunni áfram. Baráttunni gegn umhverfisafglöpunum. Og ekki mun veita af ef væntanleg stjórn verður að veruleika. Stóriðjusinnarnir í SF eru allt of margir. Þeir munu verða glaðir en margir sem ljáðu SF lið munu verða fyrir vonbrigðum. Við bíðum eftir plagginu. Það verður væntanlega opinbert bráðlega.

Við Kimi vorum óguðlega snemma á fótum. Bættum það svo upp með værum fegurðarblundi undir morgunsárið. Þegar ég vaknaði aftur svaf dýrið endilangt með alla skanka teygða. Líklega svona um 1 metri á lengd. Hann tekur nú við húsvarðarhlutverkinu meðan ég vinn fyrir mat okkar. Sendum öllum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Wednesday, May 16, 2007

 

Af Nýjagarði.

Á árunum 1965-1969 bjó ég á Nýja-stúdentagarðinum við Háskóla Íslands. Eins manns herbergi, kjallari og 3 hæðir. Í herbergjunum var svefnsófi, skrifborð og stóll. Kannski voru stólarnir 2. Fataskápur og mundlaug.Svo var íbúð í kjallarnum fyrir svokallaðan garðprófast. Svona einskonar húsvörð. Held að þetta hafi verið ólaunað starf nema ekki þurfti að borga leigu fyrir íbúðina. Meðan ég dvaldi þarna var lengst af garðprófastur Árni Böðvarsson cand. mag. og svo Gunnar Björnsson, nú sóknarprestur hér á Selfossi. Prýðisnáungar, báðir tveir.Þarna var ágætt að vera. Stutt í skólann, miðbæinn, súlnasalinn á Sögu á laugardagskvöldum og Astrabar í sama húsi á sunnudögum. Steinsnar í Háskólabíó. Salerni og þvottahús á hverri hæð og lítið eldhús.
Ýmsar sögur gengu meðal háskólanema um lífernið og tilveru íbúanna í þessu húsi. Og ekki allar parfallegar. M. a. heyrði ég um mjög sérstakt hátterni Laugvetninga. Þeir væru svo latir og ódannaðir. Nenntu ekki fram á salernið fyrir smámuni. Migu einfaldlega í vaskinn. En sumir voru nú skárri en aðrir. Þeir skrúfuðu frá, létu renna, tæmdu svo blöðruna og létu renna smástund á eftir. Í öðrum flokki voru þeir sem migu bara án nokkurra tilfæringa og létu renna aðeins til málamynda á eftir. Og svo þeir alverstu. Migu bara í vaskinn. Punktum og basta. Ekkert að ómaka sig með því að skrúfa frá krana. Ég skemmti mér ágætlega yfir þessu. Við vorum þarna nokkrir Laugvetningar og létum okkur þessar sögur í léttu rúmi liggja. Það var stundum glatt á hjalla á Nýja Garði. Veigar stundum teygaðar ótæpilega og öldurhúsin stunduð af kappi. Held þó að við höfum ekkert verið verri en annað ungt fólk á þessum árum. Tilefni til skemmtana og drykkju svona viðlíka og nú á dögum. Einn norðanstúdent spurði mig einu sinni hvort það væri rétt að ég hefði sérstakt embætti hjá Laugarvatnsstúdentum. Sem fælist í því að finna verðug tilefni til að detta íða. Mér fannst þetta svo sniðugt að ég sagði honum að þetta væri hárrétt. Ég hefði verið talinn með næga hugmyndaauðgi til finna stöðug tilefni til að fá sér í glas. Og stæði mig frábærlega í þessu djobbi. Mér fannst ég sjá vott af öfund skína af andliti hans. Var bara andskoti upp með mér af þessu. Einhvernveginn tókst okkur Laugvetningum nú samt að ljúka prófum frá þessum ágæta skóla. Ég býst heldur ekki við að nokkur okkar hafi migið í mundlaugar Nýja Garðs. En það getur meira en verið að ég hafi nú verið seigur við að finna tilefni til fagnaðar þó ég hefði ekkert kjörbréfið til þess. Það var allavega blásið til ölvunar annað slagið.

Enn heyrist lítið frá þeim Jóni og Geir. Því meira af kjaftasögum í gangi. T.d. um leyniviðræður VG og íhaldsins. Það eru örugglega fleiri að tala saman en Jón og Geir, Gissur, Héðinn og Njáll. Við bíðum og sjáum hverju fram vindur. Bestu kveðjur úr blíðunni eftir smá úrfelli, ykkar Hösmagi.

Monday, May 14, 2007

 

Afleiðingar.

Andvaraleysi hefur stundum vondar afleiðingar. Hættan virðist vera að aukast á að stjórnin sitji áfram. Yfirlýsingar Guðna, Valgerðar og Véfréttarinnar eru algjörlega innihaldslausar. Fíknin í valdastólana hefur ekkert minnkað. Og það er slæmt að Íslandshreyfingin bjargaði stjórninni. Eins og áður finnst mér vænt um Ómar Ragnarsson og sannarlega hefði ég kosið hann sem bandamann á þingi í baráttunni gegn álstefnunni. Og það er rétt hjá honum að þröskuldurinn fyrir að fá þingmann er of hár. En Ómar vissi þetta fyrir og ekki tjáir að tala um ólýðræðislegar reglur. Þeim verður vonandi breytt. Stjórnin lafir á einum þingmanni. Ekki vildi ég vera ráðherra í stjórn sem ætti allt sitt undir dæmdum þjófi. Vilduð þið það? Svo ætlar Véfréttin mikla að kalla til slatta af varamönnum inn á þing svo hinir kjörnu geti verið ráðherrar í rólegheitunum. Og við borgum brúsann. Þá getur framkvæmdastjóri þingflokks framsóknarmanna spókað sig sem þingmaður og Bjarni Harðar sprett úr spori á nýjum glæsivagni ráðherra. Vanur að hafa hestöflin í klofinu eins og Siv litla.Ráðamenn framsóknar átta sig ekki enn á ástæðunum fyrir fylgishruni flokksins. Botna ekkert í að fá ekkert út úr öllum góðverkunum meðan Sjálfstæðisflokkurinn fitnar eins og púkinn á fjósbitanum. Og hversvegna skyldi þetta vera svona? Það er vegna þess að þeir vita ekki hvað spilling er. Hún virðist vera orðin inngróin í flokkinn. Allt leyfilegt og ofur eðlilegt ef framsóknarmaður á í hlut. Formaðurinn náði ekki kjöri. Og ráðherrann í hinu Reykjavíkurkjördæminu kolféll í kosningunum. Hvar á byggðu bóli annarsstaðar en hér myndi slíku fólki detta í hug að sitja áfram að völdum? Auðvitað hvergi nokkursstaðar. Ég sagði það hér á blogginu fyrir kosningar að næðu ríkisstjórnarflokkarnir að halda 32 þingmönnum myndu þeir halda áfram. Þetta virðist orðin staðreynd. Og það staðfestir að ekki er orð að marka af því sem forustumenn framsóknarflokksins segja. Við getum átt von álverum í Helguvík, Húsavík, Þorlákshöfn, Skagafirði og jafnvel víðar. Til " hagsbóta" fyrir þjóðina eins og páfagaukurinn þrástagast á. Verðbólgan heldur áfram. Biðlistarnir styttast ekki. Fleiri einkavinir framsóknar munu geta velt sér upp úr illa fengnum auði. Keypt fleiri jarðir og fleiri hross. Líklega erum við enn stödd í leikriti eftir Dostojevskí. Því miður. Jarðarför öldungsins verður frestað um sinn þó búið sé að taka gröfina. Vilji þjóðarinnar segja þeir. En ef grannt er skoðað hafnaði 51,7% þjóðarinnar þessu fólki. Kusu aðra flokka. Það er óumdeilanleg staðreynd.

Þó dimm ský grúfi nú yfir í pólitíkinni skín sólin glatt. Andvari og nokkrar + gráður. Aukafrídagur í vikunni. Hún verður fljót að líða því nóg er að gera. Landið grænnkar þokkalega þó hitastigið sé fremur lágt. Þó illa horfi í landsstjórninni skulum við verja landið með kjafti og klóm. Það verður fróðlegt að fylgjast með Draugabjarna þegar Landsvirkjun byrjar að drekkja Skeiðunum. Kannski fáum við annan fund við Urriðafoss. Ég og ástfólgna dýrið mitt sendum ykkur bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Sunday, May 13, 2007

 

Slys.

Ekki átti það fyrir þjóðinni að liggja að fella ríkisstjórnina. Hún er að vísu nokkuð löskuð eftir kosningarnar og skútan varla sjófær á eftir. Formaður framsóknar liggur í valnum. Ætti að sjálfsögðu að segja af sér strax. Sjaldan hef ég orðið vitni að öðrum eins aulagangi hjá frambjóðanda í þingkosningun. Spá mín um að hann verði eini formaður flokksins sem aldrei verður þingmaður hefur rætst. En það er samt enn stórhætta á ferðum. Valdasýkin er söm og áður þrátt fyrir herfilega útreið. Árangur áfram ekkert stopp. Árangur í að skara eld að eigin köku, einkavæðingu og álverksmiðjum.Ég hef enga trú á að stjórnarandstaðan geti endurhæft framsóknarflokkinn kæmi sú staða upp að þeir tækju hann með sér í stjórn. Eina von umhverfissinna nú er næstskásti kosturinn. Ríkisstjórn VG og íhaldsins. Hún hefði 5 sæta þingmeirihluta og það ætti að duga nokkuð vel. Þá yrði Landsvirkjun áfram í eigu þjóðarinnar og náttúran fengi grið í bili. Nú á VG orðið þingmenn í öllum kjördæmum landsins. Fylgi flokksins jókst um ríflega 60%. SF telur sig hafa unnið varnarsigur. Missti 2 þingmenn og það er nú tæplega viðunandi. Það verður ekki séð að þjóðin vilji nýta sér " sögulegt tækifæri" á að Ingibjörg Sólrún verði verkstjóri í nýrri ríkisstjórn. Daðrið við Brusselmafíuna er ein af orsökunum. Þar eru VG og íhaldið nokkuð sammála. Við verðum líklega að bíða í nokkra daga og sjá hvernig málin þróast. Úr því sem komið er væri langaffærasælast að þessir 2 sigurvegarar kosninganna tækju höndum saman. Kannski gæti það líka orðið til þess að framsóknarflokkurinn gæti endurhæft sjálfan sig.Það virðist þó borin von með núverandi forustu.

Bjart veður og gjóla. Köld gjóla. Vonandi fer að hlýna. Skáldið á heimleið og græna þruman í startholunum fyrir Frostastaðavatn og Landmannalaugar í byrjun júní. Eldri sonurinn verður með í för og sannarlega hlakka ég til. Þrátt fyrir mislynd veður í pólitíkinni ætla ég að njóta sumarsins. Ölfusárlax og Veiðivatnaurriði. Framtíðarlandið á Syðri-Brú væntir mín og ég þess. Raikonen virðist slakur yfir úrslitum kosninganna. Hin góða vinátta okkar blómstrar sem áður.Kosningarækjur í gær og restin í dag. Látum hverjum degi nægja sína þjáningu sem fyrr. Við sendum ykkur góðar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Tuesday, May 08, 2007

 

Lokadagur framundan.

Samkvæmt gömlum blöðum var lokadagur vertíðar þann 11. maí. Daginn eftir á að verða lokadagur ríkisstjórnar íhalds og framsóknar. Besta leiðin til þess er að kjósa VG. Eins og staðan er nú samkvæmt könnun Capacet Gallup tvöfaldar VG þingmannatölu sína. Það er nú túlkað með ýmsum hætti. Allir flokkar nema VG og Sjálfstæðisflokkurinn eru undir kjörfylgi sínu í síðustu kosningum. Eftir að hafa nýséð kjördæmaþátt í sjónvarpinu fékk ég enn eina sönnun þess að allir flokkar, sem nú eiga fulltrúa á þingi vilja áframhaldandi rauslahauga frá nýrri stóriðju, að VG undanskildum. Sá flokkur er trúr stefnu sinni og er ekki með nein undanbrögð. Hvorki á Húsavík né annarsstaðar. Allir sem vilja víkja stóriðjustefnununni til hliðar verða að kjósa VG. Og falli ríkisstjórnin mun það verða VG sem á þar stærstan þátt. Hinir stjórnarandstöðuflokkarnir standa í stað eða missa þingsæti samkvæmt nýju könnuninni. Enda hamast nú framsóknarflokkurinn á VG eins og naut í flagi. Ég efast um að þjóðin hafi upplifað jafn ómálefnalega baráttu áður. Vonandi verða þessi vinnubrögð til að fækka fylgisfólki framsóknar enn meira. Og það gæti gert gæfumuninn við að koma þessari afleitu ríkisstjórn frá völdum. Kannski var við því að búast að aftur drægi sundur með VG og SF.Ég hef áður sagt að mikilvægt sé fyrir vinstra fólk og umhverfisvini að láta ekki villa sér sýn. Agentar SF hringja nú með skipulögðum hætti í fólk sem það grunar um stuðning við VG. Hafa fáu gleymt frá síðustu kosningum. Þeim væri nær að reyna fyrir sér á annan hátt. Mikilvægast er auðvitað að þessir flokkar standi einarðlega saman um það sem þeir eru sammála um. Og láti annað liggja milli hluta. Við fellum ekki ríkisstjórnina á þennan hátt. Við þurfum að vinna fylgi frá stjórnarflokkunum en ekki hvor frá öðrum. Ýta öfund, persónulegum metnaði og illdeilum til hliðar. Þannig gæti ætlunarverk okkar tekist.
Það á eftir að kjósa og telja uppúr kössunum. Ég verð lokaður inni kl. 17 á kjördag með yfirkjörstjórn Suðurkjördæmis og fleira góðu fólki. Losna klukkan 22 þegar kjörfundi lýkur. Svolítið spennandi. Kannski verð ég að hafa nikótínjórturleður með mér. Mikilvægast af öllu er að fella stjórnina. Það gæti vel tekist. Og þungamiðjan verður stuðningurinn við VG. Verði sigur græna flokksins nógu stór verður varla fram hjá honum gengið. Þá gæti landið og náttúra þess brosað á ný. Og svona í leiðinni skal það upplýst að Hösmagi á orðið slóð á Moggablogginu. Kannski ekki langlífa. hosmagi.blog.is

Enn albjart um tíuleytið. Púðinn undir kot kærleikans gæti orðið staðreynd í næstu viku. Lagði drög að því dag. Það er fleira spennandi en kosningar. Verða annars ekki allir fegnir þegar þær verða afstaðnar? Sumarkveðjur frá rauðhausunum róttæku, ykkar Hösmagi.

Sunday, May 06, 2007

 

Velferð.

Forustumenn stjórnarflokkanna stæra sig af góðri efnahagsstjórn og velferð. Þrástagast á að kaupmáttur almennings hafi aukist um 50 eða 75%. Átta dögum fyrir kosningar er samið við tannlækna um ókeypis tannvernd fyrir 3-12 ára börn. Það á að eyða biðlistum og byggja hjúkrunarheimili. Kjósið okkur svo við getum haldið áfram að vera svona góðir við ykkur. En verk þessara flokka tala sínu máli. Ójöfnuður þegnanna hefur stóraukist. Og einkavinirnir velta sér upp úr illa fengnu fé. Peningum, sem þessir flokkar hafa stolið frá okkur og afhent " réttum" mönnum. Skuldir heimilanna hafa vaxið með stjarnfræðilegum hraða. Og verðtryggingin malar gull fyrir bankana sem voru nánast gefnir. Ég er með íbúðarlán frá Landsbankanum. Það stóð í 10.309.905 kr. nú um mánaðamótin. Þann 15. maí greiði ég 45.072 kr. af þessu láni. Og eftirstöðvar eftir greiðslu verða kr. 10.362.113 Lánið hækkar sem sagt um 52.208 kr. við að greiða af því. Mér sýnist þurfa að endurskoða kaupmáttarútreikninga þeirra Geirs og Véfréttarinnar. Það eru líka yfir 5.000 fátæk börn á Íslandi. Á sama tíma halda þjófsnautarnir uppá afmælin sín og veislan kostar 100 milljónir. Losum okkur við þessa andskota á laugardaginn. Eins og staðan virðist nú getur orðið mjótt á mununum. Og við skulum ekki gleyma því að að það er kosið um fleira en velferðina. Hryðjuverkin gegn náttúrunni verður að stöðva. Og þar er einungis hægt að treysta á VG. Ef VG mun ekki eiga aðild að næstu stjórn er voðinn vís í þeim efnum. Allt of margir fylgja stóriðjustefnunni. Ekkert annað kemst að. Og fréttamenn þráspyrja frambjóðendur VG um hvað eigi að koma í staðinn. Á hverju lifðum við áður en álverin komu til? Á hverju lifa Danir í dag. Þeir reka engin álver. Komast nú bærilega af sýnist manni. Við getum þróað okkar atvinnuvegi svo vel að nóg verði handa öllum ef rétt verður spilað. Það má byrja á að vinda ofan af kvótakerfinu.Allur okkar smærri atvinnurekstur er í spennitreyju vegna stefnu stjórnarflokkanna. Meðan rafmagnið er selt á spottprís til erlendra auðhringa verða litlu fyrirtækin sem eru að byggja sig upp að greiða upp í 22% vexti til einkavina ríkisstjórnarinnar. Og Guðni heldur áfram að baka við olíuelda af því hann á bara kost á rafmagni á 20földu verði miðað við Alcan. Það er við hæfi að forustumenn stjórnarflokkanna hæli sjálfum sér af árangrinum. Vinstri sinnað fólk verður nú að leggjast á árar þessa daga sem eftir eru. Hvert atkvæði getur ráðið úrslitum. Og eina örugga leið umhverfissinna er að kjósa VG. Íslandshreyfingin er andvana fædd. Hjálpar einungis íhaldinu og litla flokknum sem við skulum jarða endanlega á laugardaginn. Flokkinn, sem einu sinni hafði hugsjónir en er nú bara orðinn að stórslysi í þjóðfélaginu. Öxin og jörðin geyma hann best.

Nú er hann norðlægur. Geysifallegt og bjart veður en hitinn bara 4 gráður. Ætla í Grímsnesið á eftir. Bekkjarbróðir minn ágætur úr ML hringdi í mig í gær. Orðinn nágranni minn við Búrfell og var að leita góðra ráða. Og landið mitt bíður. Þessi síhækkandi höfðstóll gleði og ánægju. Gæti orðið stórveisla í Kærleikskoti áður en sjötugsafmælið rennir í hlað. Harðákvðinn í að koma púðanum á sinn stað fyrir haustið. Vinir og vandamenn velkomnir í skógrækt.Raikonen malar hátt. Nammidagur í dag. Rækjur frá nýdæmdum manni. Jafngóðar fyrir því. Við rauðliðar sendum ykkur vinstri grænar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Thursday, May 03, 2007

 

Skynsemin.

Þeir Bjarni og Guðni segja nú báðir að kjósendur eigi að láta skynsemina ráða og kjósa framsókn. Þeir hafa greinilega tileinkað sér öfugmælasmíði Véfréttarinnar. Páfagauksins, sem étur orðrétt upp speki fjármálaráðherrans. Og svo kvarta sauðir framsóknar yfir að menn fari að hlægja. En auðvitað eru þessir frambjóðendur framsóknar fyrst og fremst hlægilegir. Og um leið er málflutningur þeirra umkvunarverður. Þeir klifa á sömu lyginni daginn út og daginn inn. Hæla sér af því hvað framsóknarflokkurinn hafi gert fyrir þjóðina undanfarin 12 ár. Berja hausnum við steininn og grátbiðja kjósendur um stuðning. Það þarf þó ekki að nefna nema nafn Finns Ingólfssonar til að sjá hvað hæft er í fullyrðingum þeirra um góðverk flokksins á þjóðinni. Þeir hafa losað flokkinn við allt sem þjóð og landi gæti komið til góða. Eftir stendur spillingin ein. Bitlingar og kjötbitar. Og bara bestu bitarnir úr pottinum. Ekkert er okkur nauðsynlegra nú en að losa okkur við þennan flokk. Helst í eitt skipti fyrir öll. Ég tek ekki mark á einu einasta orði þessara manna. Það er löngu vitað að Sjálfstæðisflokkurinn vill selja Landsvirkjun. Einkavæða fyrirtækið. Afhenda það réttum aðilum. Spor framsóknar í einkavinavæðingunni eru mjög skýr. Hvað varð um Búnaðarbankann? Landsbankann og Símann? Skynsemi Bjarna, Guðna og allra hinna felst í því að halda að við séum öll eintóm fífl. Þau eru að vísu allt of mörg hér í kjördæminu. Því miður. Trúðar og dæmdir stórþjófar eiga trúnað nokkuð margra hér. En ekki minn og vonandi á ég mörg skoðanasystkyni hér. Það er mjög raunhæfur möguleiki á að VG geti náð inn 2 mönnum hér. Það hefst ef við notum raunverulega skynsemi. Ekki skynsemi framsóknar. Rísum upp og kyssum ekki á vöndinn.

Yndislegt vorveður. Ég ætlaði austur í Landbrot í dag. Því miður var verkið blásið af í gær. Þessi leiðangur hefði nú aldeilis ekki verið amalegur á svona fallegum degi. Nokkuð líflegt á vinnustað þessa dagana og þá er nú tilveran miklu betri. Helgarfrí kl. 5 í dag og það er notaleg tilhugsun.Kannski þarf ég að sparka aðeins í sjálfan mig til að ljúka ýmsum verkum hér heimafyrir. Taka sprett og klára þau. Nýi Canon prentarinn svínvirkar. Þurfti smáaðstoð frá góðum manni í næstu blokk. Tækniverkið er ekki mín sterkasta hlið. Blátt áfram ótrúlegur auli í svoleiðis gangverki. Við Kimi sendum kveðjur. Svíþjóð, Spánn, Danmörk. Og hvar sem þið eruð nú öll, krúttin mín. Ykkar Hösmagi, án dómgreindar framsóknarmanna.

Tuesday, May 01, 2007

 

Stálvargatól.

Góð stund hjá VG. Söngur, kaffi og gott með því. Og Atla mæltist vel að venju. Sagði nánast allt sem segja þurfti á 10 mínútum. Og það var eins og ég vaknaði af gömlum draumi. Með svolítinn móral. Fyrirheit mitt frá því í fyrra var nú ekki gleymt. Margt orðið til þess að ég hef ekki enn staðið við það. En nú verður ekki beðið heilt ár enn. Fjallið mitt blasir við mér á hverjum einasta degi. Og djöfulgangurinn gegn því heldur stöðugt áfram.

Nú fara véldrekar válega um dal og hlíð,
vinda til björgum og svifta til hólum.
Ingólfsfjall hrópar: Æ, hlíðin mín er svo fríð.
Hvað er til varnar gegn stálvargatólum?

Þetta er erindi úr kvæðinu Náttúra Íslands eftir Jón Óskar. Tileinkað íslenskum náttúruverndarsinnum. Ég ætla að láta þetta verða að brýningu. Gott að taka þá ákvörðun á þessum baráttudegi. Bestu kveðjur, Ykkar Hösmagi.

 

Lúsifer.

Nú hefur Ásta Möller, þingmaður íhaldsins, lýst því yfir að skálkurinn á Bessastöðum ætli að ráðast gegn lýðræðinu að loknum kosningum. Sá hinn sami og réðst gegn þingræðinu þegar Davíð Oddsson ætlaði að þröngva fjölmiðlalögunum upp á þjóðina. Það eru bara sum ákvæði stjórnarskrárinnar sem henta sjálfstæðisflokknum. Og það voru bara bjálfar sem komu þessum kverúlant suður á Álftanes. Þessum Lúsifer sem sífellt er tilbúinn til illra verka gegn lýðræði og þingræði.Hinsvegar er aldrei minnst á það að þessi sami Davíð Oddsson kom i veg fyrir að þjóðin fengi að kjósa um lögin. Það var honum ekki að skapi og ákvæðið í stjórnarskránni þjónaði ekki tilgangi íhaldsins í það skiptið. Þetta er lýðræði íhaldsins kviknakið. Brjóta stjórnarskrána þegar það hentar flokknum og væna aðra um einræðistilburði. Við þurfum alls ekki fólk á borð við Ástu Möller á Alþingi. Enda rann hún af hólmi eftir að hafa lofað viðtali um málið á Stöð 2. Ég ætla ekki að halda uppi neinum vörnum fyrir Ólaf Ragnar Grímsson. Enda engin þörf á því. Skítlegt eðli er sjúkdómur sem ekki er hægt að lækna.En sjálfstæðismönnum ferst ekki að tala um lýðræði. Fólk er vonandi ekki búið að gleyma hinni sérstöku ást þeirra draugsins og nagarans á lýðræðinu þegar þeir gerðu íslendinga meðseka í morð- og eyðileggingaræðinu í Írak. Algjörlega á skjön við íslensk lög. Og fyrirbærið sem nú situr í stól utanríksiráðherrans lætur sitt ekki eftir liggja. Tíu mínútum fyrir kjördag er hún að undirrita samninga og viljayfirlýsingar um meira hernaðarbrölt. Án nokkurs samráðs við utanríkismálanefnd fremur en fyrri daginn. Nú eiga íslendingar í fyrsta sinn að stjórna stríðsleikjum. Skyldi vera búið að sauma búninginn á Björn Bjarnason? Gamla máltækið um glerhúsið og grjótkastið á greinilega vel við enn. Mikið verður gaman þegar við tökum upp aðra stefnu eftir að hafa komið þessari ríkisstjórn fyrir ætternisstapa.

Rækjunen sefur í baðvaskinum. Fékk gommu af lostætinu í tilefni dagsins. Hösmagi hefur látið sér duga að naga hænsnfugl síðan í gær. Báðir arfaslakir yfir tilverunni. Dimmt yfir en vorveður áfram. Ætla að skreppa af bæ á eftir og hlusta á nokkra baráttusöngva úr söngsmiðju VG. Atli heldur hátíðarræðu. Kannski verður eitthvað gott með kaffinu. Hátíðarkveðjur frá rauðhausunum, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online