Monday, August 16, 2010

 

Langt blogghlé.

Ég hef vanrækt þessa ágætu síðu lengi. Eiginlega skömm að því.Stundum gleymir maður börnunum sínum og það er að sjálfsögðu miður. Síðan síðasti pistill var ritaður hefur margt á dagana drifið.Og sem betur fer flest jákvætt. Heilsan er góð eins sumarið hefur einnig verið. Ég fór í segulómun 5. júlí og hitti svo krabbameinslækninn þann 13.Þá hafði æxlið enn minnkað og ég fer svo næst í ómun þann 27. september. Ég get ekki beðið um meira að svo stöddu. Líðanin ágæt og verkjatöflurnar eru bara í skápnum. Ég hef sannarlega unað glaður við mitt í sumar. Búinn að veiða 16 laxa úr Ölfusá og kom úr geysivelheppnaðri Veiðivatnaför á fimtudaginn var.Töfrar Veiðivatnanna óbreyttir.Við feðgar og langfeðgar veiddum óhemju vel. Slatta af bleikju og 141 urriða.Veðrið var líka dásamlegt svo það var ekkert sem skyggði á lífið og tilveruna.Held að við höfum allir komið heim endurnýjaðir á sál og líkama. Ég hef oft sagt það áður að rólyndi hugans er ofar öllu hjá mér. Það hjálpar líka til að halda hinni líkamlegu heilsu í lagi. Ég finn líka nálægð þess góða í kringum mig. Verndarenglarnir hugsa um sína. Og samvistirnar við kisa minn eru líka alltaf ljúfar.Hann varhúsvörður hér í 2 sólarhringa í Veiðivatnatúrnum. Ósköp kátur þegar fóstri birtist á ný. Lítið dýr á heimili getur gefið einstæðingi heilmikið. Það er sem sé allt gott af Hösmaga gamla. Nokkrir veiðidagar eftir enn þó blóminn úr sumrinu sé liðinn. Að áliðnum slætti er nærri aldimmt á kvöldin. Ég kvíði þó ekki haustinu eða komandi vetri. Gangrimlahjólið snýst með gamalkunnum hætti. Ég ætla að þegja um pólitíkina í þetta sinn. Lofa þó engu um framhaldið. Líður reyndar orðið langbest þegar hún er ekki á dagskrá. Við Kimi biðjum að heilsa ykkur öllum, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online