Thursday, June 29, 2006

 

Hægviðri.

Föstudagur og sæmilegasta veður.Indælt helgarfrí að vinnudegi loknum. Veiði í fyrramálið. Hæfilegar væntingar. Nú hafa veiðst 14 laxar í Ölfusá og 35% yfir 10 pundum. Besta byrjun í ánni í áraraðir. Undanfarin ár hefur undirritaður ekki veitt lax í júnímánuði. Hyggst vera við laxveiði í 11 daga í júli, auk Veiðivatnareisu. Ef ég veiði ekki nokkra fiska alla þessa daga mega allir hundar heimsins heita í höfuðið á mér. Líklega kólnar aðeins til morguns. Samt þokkaleg spá og nýju vöðlurnar fá væntanlega eldskírnina á morgun. Kominn tími á æskrímið sem hefur reynst mér ákaflega gjöful túpa. Abdúllah reykir, æskrím étur hann, er ekki sál hans skrýtin vítahringur. Bara góð tilfinning fyrir morgundeginum.
Þvælingur á undirrituðum í gær. Fór austur að Lambafelli undir Eyjafjöllum að skoða lítið gistiheimili. Fornfrægt hús úr Hafnarfirði, rúmlega aldargamalt. Var ekki frá því að hafa heyrt óm af nið aldanna í salnum á efri hæðinni. Snoturt og vinalegt hús sem forðað var frá niðurrifi og fékk nýtt hlutverk í fallegri sveit. Eftir hádegið skrapp ég svo niður á strönd að líta eftir Stokkseyringum. Þeir undu glaðir við sitt með draugunum í gamla frystihúsinu. Heilmikið framundan í dag og Hösmagi tekur deginum fagnandi.
Einhvernveginn hafa fjölmiðlar þefað uppi verðandi hollvinafélag Ingólfsfjalls. Það er gott. Vísir.is, Fréttablaðið og í gær hringdi kona frá Glugganum. Ég fullvissa Sigga sænska um að hann verður stofnfélagi hvar sem hann verður staddur í veröldinni á stofnfundi félagsins. Ég er sannfærður um að þeir verða nokkuð margir. Vonandi náum við einhverjum árangri. Helst vildi ég fá einhverja bæjarstjórnarmenn með okkur. Efast nú ekki um Jón Hjartarson, fulltrúa vinstri grænna. Mun kanna þetta betur er líður á sumarið. Sem sagt gott, ykkar Hösmagi.

Wednesday, June 28, 2006

 

Mannvit.

Mikið af því í framsóknarflokknum núna. Nýi spámaðurinn er svo þrútinn af mannviti að það hálfa væri meira en nóg. Skyldan kallar og hann er til þjónustu reiðubúinn. Svik á kosningaloforðum eru nú í þágu unga fólksins. Og Jónína styður hann þó fjöldinn allur af flokksfólki hafi sagt henni að þeir vilji hana. Og hún hefur ekki " tekið afstöðu til sjálfs síns" Mjög vitræn yfirlýsing. Guðni segist vilja frið um náttúruna. Og að stóriðjustefna Álgerðar verði endurskoðuð. Ég býð Guðna velkominn í flokk vinstri grænna þegar framsókn gefur öndina endanlega frá sér. Líklega er Guðni einn eftir af gömlu framsóknarkommunum sem nokkuð var til af hér á árum áður. Það skásta úr þessari tímaskekkju sem framsókn er nú orðin. Ef menn halda að Jón Sigurðsson muni bjarga framsókn held ég að þeir séu á villigötum. Sextugur framtíðarleiðtogi, þrunginn visku og með rökfestuna á hreinu. Svik eru auðvitað ekki svik í augum slíks manns. Margir eru þeir nú orðnir, Messíasarnir. Og hálmstráin einnig sem gripið er til svo lækna megi uppdráttarsýkina í þessum aldna stjórnmálaflokki. Helsjúkum af siðblindu og spillingu þó foringjarnir telji sig vera hreinar meyjar. Nú á að reyna að bjarga því sem bjargað verður fyrir þingkosningarnar á næsta ári. Hætt er þó við að vopnin snúist í höndunum á mönnum sem ekkert hafa lært og engu gleymt. Þegar valdasýkin ein ræður för er ekki von á góðu. Jafnvel uppskurður á hræinu myndi ekki breyta neinu. Segi menn svo að ég sé svo heltekinn af veiðidellu að ég megi ekki vera að því að koma höggi á þennan verðandi ná.

Súld. Jaðrar við rigningu. Vonandi verður stytt upp í fyrramálið þegar Siggi vinur minn vaknar. Sólskin í kortunum á sunnudag. Og hitastigið svona þolanlegt þó mikið vanti uppá dásemdirnar í skandinavíu. Af gömlum vana mun ég þrauka sumarið af hér heima. Enda þoli ég rigningu enn. Jafnvel slagveður. Gjafir veiðigyðjunnar mun ég þiggja með þökkum. Sá sem hefur upplifað Veiðivötnin í 27 gráðum í miðjum ágúst verður bljúgur yfir gjöfum þeirra. Í 600 metrum yfir sjávarmáli.Ekki blær á vanga. Og hinn þungi niður Ölfusár mun duna áfram. Þrátt fyrir tal um sífellt skítaveður á þessu útnáraskeri. Kannski er ég bara svona mikill útnári sjálfur. Og líður bara stórvel. Bestu kveðjur til allra og megi gyðjurnar vera ykkur ljúfar og góðar, ykkar Hösmagi.

Monday, June 26, 2006

 

Veiðiveður.

Blankalogn og dumbungur. Varla veður fyrir Sigga sænska. Indælt fyrir undirritaðan sem ætlar til veiða kl. 7. Er að vona að einn bíði eftir mér. Helst af stærri gerðinni. Stórstreymi nýliðið, áin frábærlega falleg og öll skilyrði hin bestu. En stundum dugar það nú ekki til. Ekkert veiðist ef fiskinn vantar. Trúi því að hann taki strax kl. 7. Svo er líka gott að vera í fríi að auki. Þá er hægt að láta líða úr sér í hléinu. Hverfa um stund inní draumalandið og safna kröftum til mikilla afreka þegar á daginn líður. Nú hafa veiðst 2 laxar sem eru yfir 10 pund á þyngd. Það eru rúm 28%. Í fyrra var hlutfallið innan við 1%. Vona svo sannarlega að þetta sé vísbending um það sem koma skal í sumar.
Ég varð fyrir hálfgerðum vonbirgðum af því tjallarnir komust í 8 líða úrslit. Skítheppnir og mættu detta út næst. Þá voru Ítalir heppnir að skora eftir alrangan dóm um vítaspyrnu. En mínir menn, Þjóðverjar, eru enn í góðum málum. Hef trú á að þeir leggi Argentínu. Þá þarf bara að ryðja 2 liðum úr vegi og titillinn er þeirra. Annars er ég nú enginn sérstakur áhugamaður um þessa íþrótt. Reyni samt að fylgjast með eftir bestu getu. En fer ekki úr límingunum þó mitt lið vinni ekki.
Það má eiginlega segja að nú sé gúrkutíð. Ekkert sérstakt að gerast. Og hugmyndasmæðin er slík að þó leitað sé í hugarfylgsnunum kemur ekkert upp sem vert að að tala um. Maður nennir ekki einu sinni að koma höggi á framsókn lengur. Já, aumt er það orðið. Njótið dagsins krúttin mín, ykkar Hösmagi í veiðihug.

Sunday, June 25, 2006

 

Vertíðin.....

byrjaði á laugardaginn. 60 ára afmælisopnun í Ölfusá. Ekki tókst nýja bæjarstjóranum að sýna snilld sína. En mér sýnist hann þannig vaxinn að hann eigi eftir að gera það síðar. Kaffi, rúnnstykki og stór laxaterta frá Guðna bakara. Þegar leið á daginn voru svo sumir að laumast í bjór og púrtara. Undirrituðum tókst í 5. sinn að krækja í fyrsta laxinn. Það var um hádegisbil sem lítil laxastelpa stóðst ekki feitan orm úr garðinum á Mánavegi. Alltaf kitlar þetta nú hégómagirnina örlítið. Komst ekki hjá því að vera myndaður með laxinn þó ég hefði kosið að hafa hann svolítið stærri. En lax er lax og hann bragðaðist afbragðsvel í gærkvöldi. Soðinn með kartöflum og smjöri. Undir kvöldið bættust svo 3 laxar við og tveir í gær. Byrjunin er því betri nú en undanfarin ár. Það veit vonandi á gott. Held aftur til veiða á morgun og síðan n.k. laugardag. Nú súldar hann aðeins í bili og hitinn um 10 gráður. Kannski gefur hann sig til í dag.
Það voru 2 bráðungir veiðimenn sem kræktu í laxana 2 í gær. Sannarlega ánægjulegt og líklegt að veiðibakterían hafi endanlega heltekið þá báða. Ekki sú versta sem hægt er að smitast af.

Eftir þessa veiðihelgi tekur djobbið við klukkan 9. Veiðifrí á morgun og 2ja daga frí í næstu viku. Lífið verður því bara hrein dásemd á næstunni. Það er að vísu svo að veðrið spilar ætið mikla rullu hér á norðurhjara. En kúnstin er sú sama og áður. Klæða sig í samræmi við veðurfarið. Vöðlurnar verja bæði fyrir kulda og regni. Svo er það ullarinn og góð úlpa. Gamli Gráskeggur er semsagt nokkuð hress með tilveruna og ætlar sér að rótonum upp í júlí. Með baráttukveðju, ykkar Hösmagi.

Thursday, June 22, 2006

 

Áfangi.

Úrskurðarnefnd skipulagsmála hefur nú bannað að hreyfa við brún Ingólfsfjalls. Það er áfangasigur. Nefndin fær pre frá mér fyrir snögg vinnubrögð. Mér er sagt að verktakarnir hafi hamast sem óðir væru nú síðustu daga. Ég magna allar góðar vættir til að stöðva þá alveg. Þar sem sólin glampar nú á brún fjallsins sýnist mér allt vera léttara. Fyrr eða síðar munum við fá fjallið friðlýst. Fyrr vonandi.
Klukkan 9 í fyrramálið mun nýi bæjarstjórinn kasta agni fyrir laxinn í Ölfusá. Þetta er alltaf spennandi. Kaffi og rúnnstykki í boði félagsins í tilefni afmælisins. Undirritaður verður á bakkanum að fylgjast með. Reyni svo fyrir mér á sunnudaginn og aftur á þriðjudaginn. Svolítið merkilegur dagur 27. júní. Þá veiddi ég minn fyrsta lax fyrir 33 árum. Afmælisdagur föður míns sæla. Á 85 ára afmælisdegi hans 1987 fékk ég 5 laxa. Þeir voru 6, 13, 14, 16 og 18 punda. Sannarlega eftirminnilegur dagur. Nú virðist stóri laxinnn orðinn afar sjaldgæfur. Af þessum 16 sem ég veiddi í fyrra náði enginn 10 pundum. Er samt viss um að sá stóri taki hjá mér í sumar. Trúi því staðfastlega. Þá er maður líka kominn hálfa leið. Ekki er ég þó að vanþakka smærri fiskinn. Lofa veiðigyðjuna fyrir allar hennar gjafir. Allt klárt í veiðitöskunni. Hnýtti nýja tauma í gærmorgun, maðkarnir í fötunni og æskrímið hans Sölva míns tilbúið í slaginn. Veðurspáin hin besta svo þetta getur ekki verið öllu betra. Svo er bara að sjá hvort " hann sé við".
Líklega eru fáir í blogginu þessa dagana. Sem von er á þessum árstíma. Engin komment á mitt blogg lengi. Ritgleðin er þó enn til staðar. Og tilefnið ekki ávallt stórt. Kannski er þetta bara áráttuþráhyggja sem ég ætti að losa mig við. Reka endahnútinn á blaðrið. Þessi pistill er númer 200 og nú er nákvæmlega eitt og hálft ár síðan ég byrjaði hjá skáldinu og Helgu útí Edinborg. Heilmikið á daga drifið síðan og gangrimlahjólið heldur áfram að snúast.

Bestu kveðjur til ykkar allra á þessum indæla morgni, ykkar Hösmagi.

Wednesday, June 21, 2006

 

Black fingernail.

Það er hálfgert óstand á Hösmaga garminum þessa dagana. Á mánudaginn varð hann sér úti um svarta nögl á löngutöng hægri handar og rauðan bendifingur þeirrar vinstri. Tókst með einhverjum óútskýrðum hætti að skella skottlokinu á litla Lanca á báðar lúkurnar. Vogrís hefur látið á sér kræla í hægra auga og í gær helltist gigt yfir karlgreyið. Kannski hin stífa norðanátt sem veldur þessu. Á ekkert segularmband eins og sumir nota við þessu. Það verður að standa þetta allt af sér svo hægt sé að þræla áfram fyrir kapitalistana. Hösmagi staðráðinn í að halda ró sinni þrátt fyrir þessar hremmingar.
Áin er bara nokkuð efnileg núna. Þokkalega hrein og lækkandi eftir rigningarnar. Verður líklega kjörvatn þegar veiði hefst á laugardaginn. Kannski að nýi bæjarstjórinn sýni snilld sína. Hann er sagður kjarnakvenmaður. Fjórum sinnum hefur undirrituðum tekist að veiða fyrsta lax sumarsins úr ánni. Það er að sjálfsögðu óhemjulega skemmtilegt. Og einu sinni var koníak í verðlaun. Það rann ljúflega niður kverkarnar en entist þó fram á haust.Í seinni tíð er Hösmagi reyndar orðinn andskoti linur við veigarnar. Alltaf er þó nóg til á heimilinu enda gestir fáir. Heimilislimirnir halda sig aðallega við vatn og kóka kóla.Og lífdrykkinn kaffi. Þegar nóg er að starfa er ekki tími til að drekka áfenga drykki. Það hefur reynst Hösmaga ærinn starfi að drekka og þá er ekki timi til annara hluta. Og að auki er kaupið ekki hátt við drykkjuna. Hún verður því að víkja fyrir öðru. Sama kyrrðin yfir öllu hér. Raikonen hefur lagt sig aftur eftir nokkra útiveru.Býst nú við að halda til starfa klukkan 9 þrátt fyrir auman skrokk. Styttist í dásemdir helgarinnar við útiveru og veiði. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi, hlaðinn kaunum.

 

Sumartíð.

Held að sumarið hafi komið í nótt. Sól er nú hátt á lofti eftir rigningu í gær. Þegar ég sá í gærmorgun að farið var að rigna lagðist ég á bæn um að hann héldi áfram í allan gærdag. Ég hafði klúðrað allri maðkatínslu og vertíðin að bresta á. Fór snemma að sofa og lét klukkuna hringja kl. 11. Um miðnættið laumaðist ég svo í garðinn til Immu og þar gengu öll áform mín eftir. Var fljótur að næla mér í nógu marga orma fyrir fyrstu veiðidagana. Ég lagði mig svo aftur þegar heim kom og dreymdi að ég væri búinn að veiða 2 laxa. Það er greinilegt að hugurinn stendur til stórræða. Veiði 2 daga í júní og 11 í júlí, auk 2ja daga í Veiðivötnum. Júlí verður því örugglega indæll mánuður. Þarf heldur ekki að stressa mig á vinnu þessa daga. Það er sem sé bjart framundan í þessum efnum hjá undirrituðum. Það er afmælishátið hjá stangaveiðifélaginu á laugardaginn. Og áin opnuð um leið. 60 ár frá stofnun þessa ágæta félagsskapar. Hef verið félagi í 32 ár. Því miður hef ég ekki töluna á fiskunum sem ég hef veitt úr Ölfusá. Þeir eru þó nokkuð margir. Mest hef ég fengið 23 laxa á einu sumri og í fyrra krækti ég í 16 laxa úr fljótinu góða. Hef verið að kíkja eftir þeim silfraða undanfarna daga en ekki orðið var við hann enn. Kæmi þó ekki á óvart að eitthvað skemmtilegt gerðist á sunnudaginn. Þeir sem lesa bloggið mitt geta búist við veiðibloggi á næstunni. Læt þá kannski litla flokkinn með björtu framtíðina í friði rétt á meðan. Enda ekki fallegt að vera sífellt að berja á lítilmagnanum. Og jafnvel undir beltisstað stundum. En því verður vonandi sjálfhætt bráðlega. Það eru ekki miklar líkur á að þetta lifandi lík hjarni við. Erfidrykkjan á næsta leiti. Og syrgjendur fáir. Kærar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Sunday, June 18, 2006

 

Töfrar.

Brá mér inní Veiðivötn í gær. Eftirlits- og skoðunarferð væri hægt að kalla það. Og töfrar Veiðivatnanna eru enn þeir sömu og jafnan áður. Dásamlegt að koma þar í gær í miklu indælisveðri. Urriðaveiðin hefur farið hægt af stað en nokkuð veiðst af vænni bleikju. Tók gamlan vin með mér og við rifjuðum ýmislegt upp á leiðinni. Pólitíkin að mestu gleymd en þó varð undirritaður að koma nokkrum höggum á framsóknarflokkinn. Flokkinn með björtu framtíðana í augum formannsins þó hann sé bara rjúkandi rústir.
Á hádegishæðinni fyrir sunnan Fossvötnin bærðist ekki hár á höfði. Útsýni ægifagurt og gott að gera þar stans. Samlokur, kók og maltöl. Og að sjálfsögðu vindill á eftir. Ók að Ónefndavatni og þar voru 2 menn að veiða á staðnum mínum. Vona að þeir hafi nú ekki alveg klárað allt upp. Eftir tveggja tíma yfirreið um Vötnin héldum við aftur til byggða. Þegar heim var komið var Green Highlander bókstaflega útklíndur í dauðum flugum. Það verður ærið verk að ná þessu af. Framnúmerið, sem er venjulega hvítt, er svart nú. Hvimleiður á öllum sviðum bévaður vargurinn. Skáldið og Helga litu hér aðeins við seinnipartinn og voru á leið á Þingvöll. Flugustöngin meðferðis. Þau héldu svo för sinni áfram á litlu Rauðku. Lancerinn skilinn eftir á Selfossi. Held að Raikonen þekki þau orðið og var hinn kátasti með heimsóknina. Þjóðhátíðardagurinn leið hratt. Var meira og minna í draumalandinu og lá svo í leti þess á milli. Hafi Svíagreyin eygt von um nægilega stóran sigur á okkur í handboltanum þá slokknaði hún endanlega undir lok leiksins. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem Svíar komast ekki á HM í handbolta. Við skulum vona að við höfum endanlega gengið af svíagrýlunni dauðri. Bravó fyrir Alfreð Gíslasyni og liðinu hans.
Baráttudagur kvenna í dag. Ef ég ætti bleika skyrtu færi ég í hana í dag. Nota þá rauðu í staðinn. Þær eru nú alltaf alls góðs maklegar stelpurnar. Morgunróin yfir öllu hér og Raikonen steinsefur hér í stólnum. Fjallið íbyggið og vonar það besta. Með sumarkveðjum, ykkar Hösmagi.

Thursday, June 15, 2006

 

Berr er hverr......

at baki nema sér bróður eigi. Ég var að lesa málefnasamning íhalds og framsóknar hér í Árborg. Ósköp finnst mér hann nú þunnur á vangann. Og umhverfismálin felast í nægu lóðaframboði og flokkun sorps. Svo á að laga gömlu göturnar og gangstéttarnar. Kannski verður hringt í Sigga Kalla svona einu sinni á kjörtímabilinu útaf Tryggvagötunni. Það verður verkefni verkefnastjóra umhverfismála sem nýi meirihlutinn ætlar að ráða. Ég ætla þó alls ekki að gefa frat í nýja bæjarstjórn strax. Óska henni velfarnaðar í störfum. Við fylgjumst með henni, styðjum hana til góðra verka og veitum henni aðhald. Fyrst útilokaði hún fulltrúa VG frá því að eiga áheyrnarfulltrúa í bæjarráði. Svo sáu þessir vinir lýðræðisins að sér. Nonni fær að fylgjast með. Í mínum huga hefðu markmiðin þurft að vera miklu skýrari og ákveðnari. Hvað um stjórnsýslu bæjarins? Miðjuna, önnur umhverfismál en lóðir, gömlu göturnar og sorpið? Ég lýsi eftir afstöðu nýja meirihlutans til námuvinnslunnar í Ingólfsfjalli. Og neita að taka til greina afsakinir um að hún sé í öðru sveitarfélagi. Er nýi meirihlutinn sammála dellunni um að kostnaður við hvern húsgrunn hækki um 2 milljónir ef grúsin verður sótt annað? Miklu fleiri spurningar síðar.
Enn að spá í Veiðivötnin á morgun. Litlar líkur á sól en kannski verður þokkalegt veður samt sem áður. Og ekki kvíði ég að missa af hátíðarhöldum hér. 5-6 kórum með 10 lög hver og nokkur aukalög. Fyrr má nú syngja en kafkyrja. Og skeifuGeir í stað Dóra staðfasta. Álíka áhugaverðir. Og ástandið hjá framsókn batnar dag frá degi. Sókn hafin í gær. Og framtíðin ákaflega björt í dag.Ósköp finnst mér að þetta fólk sé nú úti á þekju og uppí rjáfri. Og viðskiptaráðherrann nýi er þrunginn af yfirburðaþekkingu á þjóðlífinu. Á öllum sviðum. Þessi nýja ríkisstjórn mun ekki gera neitt skynsamlegt. Sem stendur er landið stjórnlaust. Eða verra en það. Verðbólgan meira en þreföld við það sem hún hefur mest verið s.l. 20 ár. Þetta þyddi t.d. að það kostaði mig 222.000 krónur að búa í íbúðinni minni í maí.Og ríkisstjórnarflokkarnir munu hugsa um það eitt að reyna að bæta vígstöðu sína fyrir komandi kosningar. Ekkert virðist þó í spilunum sem bendir til að framsóknarmaddaman hressist. Hangir nú á annari lúkunni á grafarbakkanum. Það kallar hún sjálf bjarta framtíð. Það er nú aldeilis raunsæi. Miðað við hugsjónaleysi og valdasýki Samfylkingarinnar með Sollu stirðu í fararbroddi sé ég næstu ríkisstjórn verða stjórn íhalds og vinstri grænna. Örugglega það skásta í stöðunni nema samfylkingin taki upp á því að hafa stefnu í einhverju öðru en afstöðunni til EBE. Get tekið undir með Steingrími að við þurfum velferðarstjórn.Við skulum afnema verðtrygginguna. Kannski í áföngum. Breyta fiskveiðistefnunni og hætta einkavinavæðingunni, sem hefur valdið okkur meira tjóni en allt annað frá upphafi landnáms. Það er líka til millivegur í því að tína fjallagrös og að koma upp álveri á hverju krummaskuði.Kannski gerast kraftaverk.
Kærar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Wednesday, June 14, 2006

 

Nú er úti......

veður vott. Green Highlander þurr og hlýr í bílskúrnum en aumingja Rauðka litla köld og blaut úti. En svona er nú ranglæti heimsins. Eins og sannast á framsóknarflokknum. Allir að argast útí hann og koma á hann höggi. Og það gæti endað illa. Innviðirnir grautfúnir, gamla samvinnuhugsjónin steindauð og lítið annað að en að bíða eftir dánartilkynningunni. Undirritaður ætlar þó ekki að mæta í jarðarförina. Mun bara fagna hér heima.
Las í gær grein eftir Jón Orm á vísi.is Hugleiðingar hans um caliber þingmanna. Forna aðferð um val á forustumönnum, m.a. hlutkesti. Jón Ormur er ágætur penni og margt gott sem hann segir. Og meðalmennskan hjá íslenska þingmanna- og ráðherraliðinu er alþekkt. Sumir telja sig betur fallna til að stjórna en aðrir. Svo leggst valdasýkin í ættir að auki. Sumir þingmannasynirnir byrja að halda framboðsræður um leið og þeir geta staðið í lappirnar. Yfir hrossum útí haga eða kýrrössum í fjósi. Það er kannski ljótt að segja það en hjá allt of mörgum er þetta bara valdasýki, forræðishyggja og heimska. Græðgi og eiginhagsmunir í fyrirrúmi. Okkur myndi farnast betur ef fleiri vel greindir hugsjónamenn væru á þingi.Því miður eru þeir flestir að fást við aðra hluti.
Og nú er litla frekjudollan Álgerður komin í utanríkismálin. Lætur skeifuGeir um kanann. Þetta verður auðvitað skárra því nú blaðar hún aðallega erlendis og við sleppum því betur. Og svo er þetta líka voða leiðinlegt með hana Sigríði Önnu. Litlu puntudúkkuna sem átti bara rétt eftir að klára öll góðu málin í umhverfisráðuneytinu. Íhaldskerlingagreyin flestar hágrátandi yfir þessari svívirðu. En þetta er bara í samræmi við annað. Ranglætið virðist ekki eiga sér nokkur takmörk í þessari veröld. Jónína skælbrosandi yfir eigin upphefð. Bara að brosið frjósi ekki í næstu þingkosningum. Og Maggi litli brosir líka. Trausti vinurinn músíkalski. Held hann hefði betur haldið sig þar.
Ég er farinn að halda að þeir skoðanabræður mínir, Steingrímur og Hjörleifur lesi bloggið mitt. Hjörleifur talar um harakiri Halldórs og Steingrímur að framsókn hafi breitt yfir nafn og númer. Kannski er þetta nú alls ekki svona. Miklu líklegra að hér sé hinn andlegi skyldleiki á ferðinni.En ég hefi sannfrétt að nokkrir íhaldsmenn lesi þessa pistla. Það fannst mér vera góðar fréttir. Ekki þurfa heilbrigðir læknis við eins og máltækið segir. Ég les líka margt eftir fólk sem ég er algjörlega ósammála. Við skulum hafa það hugfast að allir eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljósi. Og við skulum líka hafa það hugfast að það er ljótt að gera öðrum upp skoðanir. Rífum bara kjaft áfram og látum ekki kúga okkur. Jafnvel þó við lendum á svarta listanum hjá þeim Bush og co.

Við Kimi sendum ykkur kveðjur úr rekjunni, ykkar Hösmagi.

Monday, June 12, 2006

 

Rauðka.

Sumarið 59 var ég í síld á Siglufirði. Stúaði mjöli í 100 kg. strigasekkjum. Þrælavinna frá 7 á morgnana til miðnættis Verksmiðjan hét Rauðka.Sofnaði á kvöldin áður en hausinn lenti í koddanum. Og angandi af mjöli. Þetta var þó heilmikið ævintýri og gott fyrir ungan pilt að kynnast þessum atvinnuvegi.
Ég keypti mér enn einn bílinn í gær. Ég nefni hann Rauðku. Rauður Toyota Corolla. Borgaði lítið verð fyrir þennan vagn. Hann er með dráttarkúlu, geislaspilara og svo fylgdu honum 11 dekk og 9 felgur. Vélin 1300 rúmsentimetrar og aflið 80 hestöfl. Held að hann sé bara nokkuð góður. Eyðir einhverjum dverg af eldsneyti og lipur og léttur í akstri. 5 gírar áfram og einn afturábak. Öfugt við ítölsku skriðdrekana sem höfðu einn áfram og 5 afturábak. Sem stendur hefur skáldið sameign okkar feðga, Lancerinn. Rauðka er reyndar svolítið upplituð að utanverðu en er voðalega fín að innan. Hún kemur í stað vespunnar bláu sem neitaði alveg að ganga austan Hellisheiðar. Vespudraumurinn er þó alls ekki úr sögunni. Við skulum sjá til hvað framtíðin ber í skauti sér.
Uppstytta nú eftir mikla rigningu í gær. Og hitastigið snarféll með norðanáttinni og er er nú 2,9°á Celcíusi. Svo fer hann víst að rigna aftur á morgun. Er þó að vonast eftir sæmilegu veðri þann 17. Ekkert gaman að fara í Veiðivötnin í slagveðri. Tólf dagar í fyrsta laxveiðidaginn og fiðringurinn byrjaður. Hef góða tilfinningu fyrir sumrinu. Eins og jafnan áður. Og nú verð ég í fríi alla mína veiðidaga. Voða gott að leggja sig í hléinu og sleppa alveg við kontórinn. Fremur rólegt yfir fasteignasölunni sem stendur. Vextir hækkandi og verðbólgan yfir 16%. Og ríkisstjórnin yfirmáta ánægð með verk sín. Og eftirlaunaráðherrunum fjölgar stöðugt. Og nú geta þeir Davíð og Dóri farið að naga blýantana saman. Það er ömurlegt að Seðlabankinn skuli vera hvíldarheimili fyrir þessa menn. Dóri ku vera menntaður í bókhaldi. Væntanlega hæfari öðrum mönnum í þetta starf. Það skiptir þó auðvitað engu í þessu sambandi. Flestir stjórnmálamenn halda því fram að reynsla þeirra sé svo merkileg að þeir séu öðrum hæfari til allra vellaunaðra starfa. Auðvitað er þetta bara firra. Sumir þeirra kunna ekki annað en maka krók sinn. Sitja við pottana og éta bestu bitana. Plotta sín á milli um auðinn og völdin. Landlægur sjúkdómur margra stjórnmálamanna hér. Ég ætla nú ekki að nefna holdgervinginn einu sinni enn. Merarkónginn sjálfan. Sannarlega ógeðfelld mannherfa.
Kaldur strókur inn um gluggann. Sól hátt á lofti enda stutt í Jónsmessubaðið. Bestu óskir til ykkar á þessum fallega morgni, ykkar Hösmagi.

Saturday, June 10, 2006

 

Gleðiefni.

Landvernd hefur kært veitingu starfsleyfis til námuvinnslu í Ingólfsfjalli til úrskurðarnefndar skipulagsmála. Gott að líf er enn í Landvernd. Rökstuðningur íhaldsins í Þorlákshöfn er líka fyrir neðan allar hellur. Það fékk reyndar aðstoð hjá flokksbræðrum nafna míns Ólafssonar við þessa samþykkt. Líklega fáir vinstri grænir í Höfninni. Ég hef trú á að einhverntíma náist nú að stöðva þessa eyðileggingu. Enn hljóta að vera til góðar vættir. Og hollvinasamtökin munu krefjast friðlýsingar á fjallinu. Ekkert annað kemur til greina. Víkjum þessari blindu peningjahyggju til hliðar og verndum þetta fallega fjall.

Rekja áfram. Nokkuð hlýtt og bændur geta farið að slá svona í kringum þann 20. Og sigurganga framsóknarflokksins er hafin að nýju. Hvernig er þetta eiginlega með hann Dóra staðfasta? Þetta er auðvitað bara brandari. Aumingja karlinn virðist um það bil að glata glórunni. Það er einfaldlega ekki pláss fyrir þennan flokk lengur. Fólk er að átta sig á því og þróunin mun halda áfram. Vondu karlarnir munu halda áfram að berja framsóknarflokkinn. Koma á hann höggi. Vonandi slá þeir ekki fyrir neðan beltisstað. Það er nú ekki fallegt að sparka í liggjandi hræ. Og ekki bara liggjandi. Það má eiginlega segja að flokkurinn sé bókstaflega alveg á rassgatinu. Í andarslitrunum. Jörðum hann bara og krossum svo yfir.

Rólegheit framundan í dag. Formúlan um hádegi á Silverstone. Læt mér fréttirnar duga frá Þýskalandi. Mínir menn byrjuðu vel með sigri á Kosta ríka. Vonandi gengur þeim vel í framhaldinu. Sem sagt, heilmikið um brauð og leiki þessa dagana. Með kveðju úr þokudrunganum, ykkar Hösmagi.

Tuesday, June 06, 2006

 

Regnið þétt......

til foldar fellur, fyrir utan gluggann minn. Það þekkja flestir seinnipartinn af vísunni. Sannkallað maðka- og grasveður. Vona nú að hann stytti upp svona einhverntímann fyrir haustið. Helga og skáldið væntanleg í dag frá landi stóru ormanna. Hvað skyldu þau tolla lengi við klakann? Þetta er auðvitað góður tími til að koma heim. Þ.e.a.s árstíminn. Landið virðist algjörlega stjórnlaust og annar stjórnarflokkurinn að leysast upp í öreindir sínar. Og Finnur steinhissa á að allir féllu ekki í stafi. Guðni nokkuð kokhraustur að vanda. Af hverju skyldi hann líka þurfa að fremja harakiri eins og formaðurinn staðfasti. Allur skrípagangurinn í kringum framsóknarflokkinn þessa dagana er bara spaugilegur fyrir okkur sem erum ekki á þessu vitfirringahæli. Menn vega þarna hvern annan í bróðerni. Mín spá er sú að illa gangi að sameinast um forystusauð fyrir þessa þokkalegu hjörð. Vegvillta af valdasýki og spillingu. Kannski er það verst að Finnur verður ekki formaður. Þá hefði jarðarförin endanlega verið afráðin.Og meðan sirkusliðið misstígur sig æðir verðbógan upp með stjarnfræðilegum hraða. Það verður ærið verk fyrir okkur vinstri menn að vinna þegar þessi ríkisstjórn gefur upp öndina. Því fyrr því betra. Það er enn möguleiki á að koma í veg fyrir að bankarnir hirði þúsundir íbúða af ungu fólki. Í það stefnir ef þessi helmingaskiptastjórn situr öllu lengur. Leggjumst á eitt um að koma henni burtu.

Bubbi 50 í gær. Ég óska honum til hamingu. En einhvernveginn er ég búinn að fá nóg í bili. Af þessum 6 stefum í 600 útgáfum. Það er svo með tónlistina eins og margt annað að of margar fjólur í of litlum garði verða bara þreytandi. Ég er þó alls ekki að gera lítið úr Bubba sem listamanni. Vildi samt geta kveikt á útvarpi og sjónvarpi án þess að þurfa bara að hlusta á hann. Óska honum velfarnaðar og endurnýjunar í tónsmíðunum. Kannski getur hann farið að ríma líka.

Regn og þokubakkar á fjallinu. Sé ekki fugla himinsins. Kettir hálfslappir. Drungi yfir mannlífinu. Dimmt en það birtir. Öfugt við litla flokkinn sem neitar að kannast við nafn sitt. Mínar bestu kveðjur úr drunganum, ykkar Hösmagi.

Monday, June 05, 2006

 

Naflaskoðun.

Samkvæmt Hjálmari Árnasyni ætla framsóknarmenn nú að skoða naflann á sér. Það er nú sennilega öllum hollt að staldra við og líta í eigin barm. Sorgarsaga þessa gamla flokks á sér auðvitað nærtækar skýringar. En forustumennirnir skilja ekki ástæðurnar. Finnst bara að allir séu vondir við flokkinn og ef hann er gagnrýndur er bara verið að koma höggi á hann eins og þeir nefna það. Í gamla daga var hluti af flokknum svokallaðir framsóknarkommar. Nokkuð róttækir samvinnumenn sem var illa við hersetuna. Þeir eru ýmist dauðir eða farnir úr flokknum. Flokknum sem síðustu áratugi hefur einungis fylgt hentistefnunni. Með formann sem dró okkur í stríðið í Írak. Formann sem búinn er að lifa eftir helmingaskiptareglum íhalds og framsóknar. Hann fékk t.d. Búnaðarbankann en íhaldið Landsbankann. Og svo eru hugmyndir um að gera Finn Ingólfsson að formanni. Líklega margar merarnar sem sá maður hefur eignast með helmingaskiptareglunni. Merar, jarðir og lausa aura. Halda menn að breytingar verði til hins betra ef hann tekur við. Ekki kemur mér það til hugar. Ekki ætla ég að ráðlegga framsókanarmönnum eitt eða neitt. Nema þá kannski að breiða ekki yfir nafn og númer eins og þeir gerðu svo rækilega í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. Ef eitthvað er verulega ógeðfellt í stjórnmálum landsins nú er það framsóknarmennskan.Best væri auðvitað ef þeir legðu þetta fyrirbæri niður.

Búið að rigna heilmikið. Líklega komið maðkaveður. Vil nú helst alltaf hafa orminn nýtíndan. Nú eru nákvæmlega 20 dagar í laxinn. Sumir geyma nú bara ormana í ísskápnum hjá sér. Ég ætla allavega að athuga þetta í kvöld. Túban og spúnninn eru reyndar afar skemmtileg veiðarfæri. En það er nauðsynlegt að hafa maðkinn með. Í ána, maðkur, eins og maðurinn sagði.
Heimsótti systur mína og mág í gær. Hann varð 65 ára og kræsingar miklar á borðum að venju. Hafði vit á að borða lítið áður en ég fór og kom svo vel saddur heim um kvöldmatarleytið. Alltaf ljúft að heimsækja þau góðu hjón. Þarna voru líka hin systkyni mín 2. Við erum nú orðin 270 ára en bara öll nokkuð spræk ennþá.
Kveð að sinni, ykkar Hösmagi.

Saturday, June 03, 2006

 

Ó blessuð bæjarstjórn.

Spáin gekk eftir. Brúðkaupið var í gær. Engu skal ég spá um þessa sambúð. Óska þó brúðhjónunum velfarnaðar og vona að samfarir þeirra verði góðar eins og hjá Njáli og Bergþóru forðum. Og ég ætla líka að vona að fyrsta verkið verði að taka vel til í ráðhúsinu. Við skulum gefa nýrri bæjarstjórn frið svona fyrsta kastið. En fylgjumst með henni. Gagnrýnum hana ef þörf verður á. Mín skoðun er sú að sæmilegur friður verði í eitt ár. Tæplega mikið lengur. Sjáum til.
Samkvæmt fréttavefjum er talað um að nú skuli leiða FinnIngólfsson fram sem foringja framsóknarflokksins. Ég vissi nú að illa er komið fyrir þessum flokki. En ég reiknaði nú ekki með að menn væru endanlega búnir að tapa glórunni. Ég myndi ekki kaupa notaðan bíl af Finni Ingólfssyni. Þó ég sé nú ekki sérlega hrifinn af Dóra staðfasta væri ég þó alls óhræddur að kaupa notaðan vagn af honum. Þetta er þó á sinn hátt fagnaðarefni. Tortímingaráráttan er algjör og gangi þetta eftir kemur að því að flokkurinn fær ekki einn einasta þingmann kjörinn. Holdgervingur alls þess versta í flokknum mun sjá um að setja legsteininn á leiðið. Megi flokkurinn hvíla í friði.
Logn og sólskin á staðnum. Og fólk er strax léttklætt að morgni dags. Hitastigið rétt við 2ja stafa töluna og útlit fyrir arfablíðu í dag.
Hér á borðinu hjá mér liggur rit sem mér áskotnaðist í fyrradag. Ingólfsfjall - náttúrudjásn á Suðurlandi. Þetta rit ætla ég að drekka í mig. Guðmundur Kristinsson fyrrum bankagjaldkeri, fræðaþulur og sjálfstæðismaður vandar hryðjuverkasamtökunum ekki kveðjurnar. Ég ætla að vitna í Guðmund síðar. Læt duga að sinni að hann undrast skammsýnina, misþyrmingarnar og blygðunarleysi eyðileggingaraflanna. Telur að þessi óafturkræfu umhverfissjöll fái þungan dóm hjá komandi kynslóðum. Þetta er allt satt og rétt hjá Guðmundi. Það er til nóg af góðri möl hér í nágrenninu. Guðmundur nefnir marga staði. Allar hinar nýkjörnu sveitarstjórnir hér á svæðinu ættu nú að leggjast á eitt og stöðva þessi eyðileggingaröfl. Það yðri veglegur minnisvarði um framsýni á því herrans ári 2006.

Rauðbrönddótta dýrið var að smeygja sér inn um gluggann. Heilsaði fóstra sínum með virktum, fékk sér að éta og þrífur nú feld sinn og klær í baðvaskinum Og svo er bara að lygna aftur glyrnunum og fá sér smá morgunlúr. Undirritaður ætti líklega að gera slíkt hið sama. Með kveðju frá okkur og Ingólfsfjalli, ykkar Hösmagi.

Thursday, June 01, 2006

 

Rífandi gangur.

Samkvæmt nýjustu fréttum er rífandi gangur í viðræðum sjálfstæðisflokksins og stelpunnar af ballinu. Ekki veit ég hvort Eyþór er nálægur. Kæmi það þó ekki á óvart því hann virðist eiga það sameiginlegt með guði almáttugum. Og vilji framsóknarmadömmunar er alveg kýrskýr. Eða svona eins og segir í gömlum húsgangi:

Uppí rúmið ætlar sér
unaðsstunda njóta fljótt.
Sómafljóðið sýnist mér
svæsna hafa brókarsótt.

Svo er bara að sjá hvort hjónabandið verði farsælt. Það er stundum ekki nóg að tilhugalífið sé þróttmikið. Sumum fer að leiðast að hjakka sífellt í sama farinu. Nú hefur Dóri litli boðað til neyðarfundar í flokknum sínum. Aðeins ár í þingkosningar og útlitið ekki alveg nógu gott. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvað tekið verður til bragðs. Það eru svo voðalega margir vondir við framsóknarmenn núna. Hver um annan þveran að " koma höggi á framsóknarflokkinn". Ljúga uppá hann óeðlilegum og vondum verkum í nýafstaðinni kosningabaráttu. Þetta kom berlega í ljós í kastljósinu í gærkvöldi. Smölun. Rútufarmar af fátækum pólverjum. Sem eiga að hafa rifist yfir að einn fékk 5 þúsund kall en hinir bara 3 þúsund. Jafnvel niður í þúsundkall. Auðvitað má ekki mismuna fólki svona gróflega. Gróa á Leiti hefur nú aldrei verið talin til sérstakrar fyrirmyndar. En má ekki tékka á þessu. Þetta er nú ekki fallegt ef satt er. Mörg er búmannsraunin og kannski verða raunirnar miklar ef farið yrði ofan í saumana á þessu.

Nú er veðrið aðgerðalítið eins og sagt er. Smágola og 7 gráður. Grasbalar að verða vinstri grænir.Kettir á stjái hér í kring og enn rólegt yfir mannlífinu. Svo kviknar dagurinn og tilhugalífið heldur áfram af gífurlegum sprengikrafti eftir hvíld næturinnar. Kannski verður bara brúðkaup þegar á daginn líður. Ykkar Hösmagi, með höfugan ilm árstímans í vitunum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online