Wednesday, April 30, 2008

 

Dýri.

Ég kalla nú kisa minn stundum Dýra. Það minnir mig líka á Dýra prúðuleikara. Dásamleg sögupersóna, og nú verð ég að fara að grafa upp bolinn góða sem ég keypti á Mallorca 1992 með flennistórri mynd af honum. Dýri minn þrífst vel af þurrmatnum frá Whiskas. Túnfiskur, kjúklingur og nautakjöt. Rétt fyrir áramótin kostaði eitt og hálft kíló af þessari fæðu 395 krónur. U.þ.b. 263 kr. pr. kg. Ég keypti 2ja kg. pk. í Bónus á laugardaginn var á 798 kr. Kgverð kr. 399. Mér blöskraði þessi hækkun hjá lágvöruverðsversluninni. Sé þó ekki eftir aurunum í mat handa dýrinu mínu. Svo fór ég í Nóatún í gær. Þar tók nú enn verra við. Tvennskonar umbúðir. Eitt kíló á 689 kr. Fjögurra kílóa poki á 1899 kr. eða 475 kr. kg. Ég ætla að hringja í neytendastofu í dag. Svona kúnstir þurfa rannsóknar við. Það er skuggalegt hvað hefur verið að gerast á matvörumarkaði hér að undanförnu. Þó heimsmarkaðverð hafi farið hækkandi og krónan lækkað verða hækkanirnar ekki skýrðar með því einu. Kaupmenn virðast spila á þetta í skjóli þess hvað margir eru ómeðvitaðir um verð á vöru þegar keypt er inn. Undirritaður býr einn með Dýra og er nú frekar neyslugrannur.Hef að auki þokkalegar tekjur. Láglaunamaður með stóra fjölskyldu verður heldur betur var við hækkanirnar. Enda kjarasamningar á leið í uppnám. Ráðherrarnir þegja. Ráðleysisherrarnir. Kannski rætist spá völvunnar um að stjórnin hrökklist frá fyrir áramót. Það væri góð gjöf til þjóðarinnar. Það myndi þó laga eitthvað ef þetta fílabeinslið reyndi að hugsa um hag almennings. Láta draumóra um öryggisráðið róa. Þetta fólk er algjörlega úti á þekju og uppí rjáfri.Valdasýkin elnar með hverjum deginum og áþján almennings vex að sama skapi í kjölfarið. Mig undrar ekki að unga fólkið hugsi sér til hreyfings. Burt frá þessu stjórnlausa skeri. Gamli veiðirefurinn mun þrauka hér áfram. Ég set tappa í eyrun þegar snillingarnir sem nú stjórna landinu láta ljós sitt skína. Ég ætla að hætta hér svo minni hætta sé á fjölmælum.

Svalann leggur inn um gluggann. Rokið er þó á undanhaldi og ég teysti á góða spá fyrir morgundaginn. Þegar línur mínar strengjast á morgun verða hugsanir um Sollu og Geira víðsfjarri. Bestu óskir til allra krútta, ykkar Hösmagi.

Monday, April 28, 2008

 

Fílabein.

Nú er verðbólgan að nálgast 12%. Þau Solla og Geiri hafa engar áhyggjur af því.Þetta sé bara smákúfur sem hjaðni strax aftur.Ríkisstjórnin hefur engar áhyggjur. Gerir ekkert. Þetta kemur henni ekkert við. Og það síðasta sem þessu fólki dytti í hug væri að leggja niður skottið og flýja af hólmi. Sem þó væri það besta fyrir okkur.Þessi ríkisstjórn er hrein áþján. Valdasýki Ingibjargar Sólrúnar verður okkur dýrkeypt. Það er nákvamlega sama hvar er borið niður. Fagra Ísland er löngu sokkið, enda ekki sjófært í upphafi. Stóriðjuhraðlestin á blússandi ferð. Öryrkjar og gamalmenni sitja á hakanum þrátt fyrir loforð SF um allt annað. Það sannast æ betur að allt sem ég hef sagt hér um þennan flokk er rétt. Algjörlega hugsjónalaus moðsuða.Bara fá að sitja að völdum. Forystuliðið sjaldnast á landinu. Veltir sér í vellystingum praktuglega í útlöndum. Margir kjósendur flokksins eru sem betur fer að átta sig á mistökum sínum. Bæði einlægir umhverfissinnar sem létu blekkjast og fjöldamargir aðrir. Ekki heyrist stuna frá SF vegna aðgerða heilbrigðisráðherrans. Hann mun fá frið til að eyðileggja heilbrigðiskerfið að vild sinni. Hvað varðar SF um aldraða, öryrkja og sjúklinga, ef við bara komumst í öryggisráðið.SF varðar líka lítið um hag íslenskra heimila. Skuldir þeirra hækkuðu um tugi milljarða króna nú í apríl. Hvernig væri nú að kippa sumum liðum út úr neysluvísitölunni? A.m.k. í bili.Af hverju eiga skuldir hins bíllausa að hækka um tugi eða hundruð þúsunda á einum mánuði af því eldsneytisverð hækkar? Mannsins, sem hjólar eða gengur til vinnu. Það ætti frekar að verðlauna slíkt fólk en að refsa því. Þetta eru þó svo hreinir smámunir fyrir foringja SF, sem trónir í fílabeinsturninum með gaurnum sem ekki tókst að ná í sætustu stelpuna á ballinu og varð því að gera sér ISG að góðu, að það tekur því varla að nefna þá.Af hverju eru stjórnmálin svona? Hvernig stendur á því að aldrei skuli vera hægt að treysta orðum stjórnmálaforingjanna? Það er vegna þess að meirihluti þeirra hefur þá hugsjón eina að moka nógu miklu undir rassgatið á sjálfum sér. "Hvað varðar mig um þjóðarhag" var einu sinni sagt. Það á vel við um kverúlantana sem nú stjórna þessu volaða skeri. Ég var einungis nokkra mánuði í stjórnmálaflokki. Það var bitur reynsla. Sumir hafa sagt við mig að ég hefði átt að vera þar áfram og berjast þar. Fletta rækilega ofan af sýndarmennskunni og tækifærispólitíkinni. Kannski er það rétt, en ég hafði ekki geð í mér til þess.Ég ætla að halda áfram á sömu braut. Standa við skoðanir mínar og skjóta á þá sem hlaupast undan merkjum. Ómerkinga, sem aldrei mun verða hægt að treysta.Fari þeir allir í fúlan pytt.

Það er fremur svalt hér í morgunsárið. Sól þó komin á loft. Líklega verð ég einn að störfum á Bakka í dag. Forstjórinn veikur og skrifstofustjórinn flúinn til útlanda.Þar ætlar hann að éta ódýran kjúkling. Og linsoðin egg.Reginmunur á því og andskotans trosinu hér. En samkvæmt spánni verður hlýtt og bjart á fimmtudaginn. Þá geri ég allt eins ráð fyrir að hreyfa Herconinn. Gæti farið svo að línur mínar strengdust.Aldeilis tími til kominn eftir langt hlé. Við Kimi, léttfetinn ljúfi, sendum ykkur bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

 

Skógarferð.

Fyrir margt löngu fór ég í skógarferð á reiðhjóli. Þessir farkostir eru þarfaþing í góðu veðri. Einkum og sérílagi þar sem landslag er slétt og lítið um brekkur. Logn er líka ákjósanlegt þegar reiðhjólið er dregið fram. Umferðarreglur verður að virða og hjólið verður að vera í góðu ástandi og búið venjulegum staðalbúnaði slíkra farartækja. Mér varð hált á að ekki var allt í lagi með Faxa í þetta skiptið. Hellisskógur er friðsæll og góður reitur til útiveru. Það er gott að bregða sér upp með Ölfusá og njóta kyrrðar á þessum ágæta stað. En það má ekki brjóta lögin hér frekar en annarsstaðar. Löggan sem stoppaði mig og tók mig tali var reyndar óvopnuð.Ekki einu sinni gasbrúsi né kylfa. Svarta bókin var meðferðis. Það vantaði ljós á hjólið. Sekt kr. 1000. Glitauga vantaði aftan á þennan ágæta hjólhest.. Annar þúsundkall.Enginn barki í handbremsunni og enn þynntist í veskinu. Þegar þarna var komið sá ég mann koma gangandi eftir veginum. Ég greip tækifærið. Byrjaði að hlæja og benti lögga á þennan mann. Hann þyrfti sannarlega að taka á beinið. Þarna væri feitt á stykkinu og aldeilis fengur fyrir ríkissjóð. Löggi áttaði sig lítið á þessu og braut heilann ákaft. Hann spurði mig loks hvað ég sæi athugavert við þennan friðsama borgara. Það er augljóst. Þú sektar hann stórt því hann vantar allt hjólið.
Skilningsbros flæddi um andlitið og hann lagði léttstígur af stað í átt til kauða. Ég var snöggur að forða mér. Útundan mér sá ég vörð laganna í óðaönn að skrifa í svörtu bókina. Nú er langt um liðið og Faxi í toppstandi í bílskúrnum.

Kimi Raikonen hefur nú tekið afgerandi forustu í Formúlunni. Ég lagði nú ekki í að gerast áskrifandi að Sýn þó formúlan flyttist þangað. Læt mér nægja að fylgjast með í blöðum og á netinu. Við nafni hans erum að sjálfsögðu sælir með þessa stöðu. Þessi ágæti finni er að sanna það fyrir alþjóð hver sé langbesti ökuþórinn í formúlunni.
Ágæt helgi er á enda og nú eru fáir eftir á frestlistum skattstjórans. Það var gluggaveður hér í gær, svo ég brá mér í Kópavog til systur minnar og mágs. Afmælisdagur Gunnars frænda míns. Notalegt spjall yfir góðum veitingum að venju. Enn bíður Herconinn í skúrnum. Annar aukafrídagur í vikunni og það mun hlýna aftur. Kannski munu línur mínar strengjast fljótlega. Bestu kveðjur úr vorbirtunni, ykkar Hösmagi.

Thursday, April 24, 2008

 

Ömurð.

Á mínum bæ var lífið ágætt síðasta dag vetrar. Og ekki spillti morguninn á fyrsta degi sumarsins. Indælis vorveður þó dimmt sé yfir. Við Kimi alveg sérlega hressir í morgun. En ég er nú samt ekki hress með atburði gærdagsins við Rauðavatn. Því miður eru nú mótmæli vörubílstjóranna ekki nógu vel skipulögð. Þeir hafa líka misst samúð margra að undanförnu af því aðgerðirnar bitna harðast á þeim sem síst skyldi. En það var ömurlegt að horfa á aðgerðir lögreglunnar gegn þessum mönnum. Mér sýndust þær nánast stjórnlausar. Piparúði og kylfur. Gas, gas, gas, æpti einn laganna vörður. Bæði Frankeinstein og Drakúla hefðu verið stoltir af þeim manni. Þetta er nýi herinn dómsmálaráðherrans. Her, sem telur öll meðul leyfileg. Og ráðherrann sjálfur lýsti því fjálglega yfir að lögreglan hefði " brugðist hárrétt við". Það kom svo sem ekki á óvart því hann er enn í kaldastríðinu. Hvað sem fólki kann að finnast um mótmæli vörubílstjóra held ég að enginn vilji horfa upp á svona vinnubrögð lögreglunnar.Það er líka vitað að sterk öfl þrýsta á að lögreglan hefji vopnaburð. Fyrst rafbyssur svona til að prufa sig áfram og síðan venjuleg skotvopn.Við skulum vera á varðbergi, fylgjast með og mótmæla hástöfum þegar tilefni er til. Við vitum vel hvaða skoðanir dómsmálaráðherrann hefur á mótmælendum. Þeir eru ekki mikilst virði eða hátt skrifaðir hjá honum. Það var líka annar ráðherra í fréttunum í gærkvöldi.Heilbrigðisráðherrann, sem var í stuttbuxnadeild Flokksins fyrir margt löngu. Við vitum hvaða hugsjónir hann hefur. Einkavæða allt sem mögulegt er í heilbrigðisgeiranum. Hann er mjög snjall við endaskipti á staðreyndum. Nýlega tilkynnti hann vaktabreytingar í starfi skurðhjúkrunarfræðinga. Breytingar, sem meðal annars lækkuðu laun þeirra. Þetta eru nær eingöngu konur. Þær hafa flestallar sagt upp störfum. Ég styð þær heilshugar. Svo lýsir hann því yfir í gær að hann sé viss um að þær mæti til vinnu 1. maí. Annað væri að tefla lífi sjúklinga í tvísýnu.Sumir menn eru leiknir í grjótkasti úr glerhúsinu. Það er þessi maður sjálfur sem teflir öryggi sjúklinga í hættu með framferði sínu. Það er eins og einhver veirusýking hrjái alla ráðherra íhaldsins og reyndar hina líka. Um suma má segja að betra sé illt að gera en ekki neitt. Og hinir hafa lagst í ferðalög. Þeir eru stikkfrí í Kína eða ábúðarmiklir í Afganistan. Þessi ríkisstjórn er ömurðin ein. Störf hennar svona álíka mikil og viturleg og núverandi borgarstjórnar. Líklega væri best að hugsa ekkert um þetta ástand. Og vera ekki að minnast á það heldur. Samt lifir maður enn í voninni um að það komi sá dagur að maður þurfi ekki að skammast sín fyrir stjórnarherrana. Því miður bendir ekkert til þess að hann sé á næstu grösum.

Lyklaborðið við tölvuna neitaði að hlýða í morgun. Illt í efni í skattiðjunni.Ég sá lika fyrir mér bloggstopp. Ég lét daga til fulls. Þreif Lancerinn og dundaði við svona hitt og þetta. Undir hádegi fór ég vinnustað og hitti Árna Vald á náttsloppnum. Hann var að vinna í bókhaldi sínu. Hann átti lyklaborð í grænum poka sem ætlaður var undir fiskimjöl. Það var alveg eins og mitt af gerðinni Dell. Hann gaf mér það og ég hélt heim fremur sporléttur. Ég skipti um lyklaborð en ekkert gerðist. Þá hringdi ég í tölvumanninn góða. Ég endurræsti tölvuna en henni varð ekki þokað. Þá slökkti ég á henni. Kveikti aftur og viti menn. Það varð ljós. Kannski á ég bara varalyklaborð í góðu lagi. Ég óska ykkur öllum gleðilegs sumars og megi þessi dagur færa ykkur gleði.
Kveðjur frá mér og lúrandi Léttfeta, ykkar Hösmagi.

Tuesday, April 22, 2008

 

Vetur er úti.

Veturinn kveður í kvöld og sumarið tekur við á miðnætti. A.m.k. samkvæmt almanakinu. Einhver var að tala um nýjan kuldaskít um mánaðamótin en hann varir varla lengi úr þessu. Við Kimi höfum stungið saman nefjum og báðir búnir að viðra okkur aðeins. Í bili er ég stopp við pappírsiðjuna. Kengur í kerfinu því tölvan finnur ekki pdf. skjölin með framtölum fyrra árs. Ef þetta lagast ekki hringi ég í tæknideildina hjá ríkisskattstjóra. Þar er alveg ágætisfólk sem hefur sjaldséðan eiginleika meðal ríkisstarfsmanna. Til þjónustu reiðubúið. Það er meira en hægt er að segja um þennan starfshóp almennt. Ég er löngu hættur að tala við skattyfirvöld hér á suðurlandi.Það hefur aldrei verið til neins. Ekkert nema leiðindin og mín alkunna geðprýði í stórhættu. Ég hef skrifast á við þetta embætti í nokkra áratugi. Mér brá því verulega fyrir 2 árum þegar beðist var afsökunar í bréfi til eins af mínum skjólstæðinum. Ég hélt að heimsendir nálgaðist. Svo frétti ég stuttu síðar að allt liðið hefði verið sent á samskiptanámskeið. Þetta hefur örugglega reynt mikið á þetta blessaða fólk sem hefur unnið á þessu embætti. En það lærði þó smávegis. Flestum verður okkur á í messunni þó sum okkar eigi erfitt með að viðurkenna það. Ég er þakklátur fyrir að eiga auðvelt með þetta. Það er mér einfaldlega ljúft og fyllir mig vellíðan að biðjast afsökunar ef þess er þörf. Og stundum hef ég orðið að gera þetta í mínu daglega starfi þó ég hafi ekki átt neina sök á því sem úrskeiðis fór. Sumt fólk er bara ekki alltaf áttað eða með á nótunum.

Nú braust sólin skyndilega gegnum skýjahuluna. Það er norðangola og hitinn við 5 gráður. Kimi að skjótast innum gluggann og gæðir sér nú af döllum sínum.Þar er þó enginn Bónuslakkrís sem er nýjasta uppáhaldsfæða þessa dýrs. Ég þarf hvort eð er að kíkja við í Bónus þegar störfum lýkur í dag. Það er vorhugur í okkur báðum. Veiðieðlið einnig sprelllifandi. Ég hef nú ekki enn bleytt öngul á þessu ári. Það styttist í það enda hléið orðið lengra nú en nokkru sinni undanfarna 3 áratugi.Síðasta kast var í Ónefndavatn 13. ágúst í fyrra. Þegar ég sofnaði með stöngina í fanginu. Erfiðir dagar og vikur tóku við. Þá var gott að eiga góða að. Það gleymist mér ekki.Sagt er að kötturinn eigi 9 líf og ég held að það eigi við um mig líka. Búinn með nokkur, en nóg eftir samt. Sannarlega er ég lukkunnar pamfíll að geta horft björtum augum fram á komandi daga. Björtu næturnar framundan bæta allt upp. Rólyndi hugans hefur tekið völdin á ný og þá eru flestir hlutir auðveldir viðfangs. Bestu kveðjur, krúttin mín kær, ykkar Hösmagi.

Sunday, April 20, 2008

 

Ball í Skúlagarði.

Eftir pistilskrif morgunsins fór Hösmagi í sauðaeftirlit í vorblíðunni. Allt svona nokkurnveginn með kyrrum kjörum. Raikonen fagnaði mér við heimkonuna og sefur nú í baðvaskinum. Það hefur skeð áður. Ég lagði mig reyndar líka. Það varð til þess að ég komst í nirvana. Dreymdi milli svefns og vöku. Talaði við fólk, m.a. skáldið mitt.Varði íbúðalánasjóð sem einhver var að skammast út í. Og svona hitt og þetta annað. Kaffið löngu uppdrukkið og mig langar ekki í meira. Svo leit ég um öxl. Stundum var ákaflega skemmtilegt að vera ungur. Þá munaði mann lítið um að vaka eina vornótt og slarka smávegis. Síðla sumars 1964 hóf ég störf hjá Orkustofnun. Fór norður í land. Svarfaðardalur, Akureyri og Mývatnssveit. Þá fór ég líka á fyrsta ballið í Skúlagarði í Kelduhverfi. Nærri aldimmt á kvöldunum þeim. Þetta varð tíðindalítið ball en Negrita rommið var nokkuð gott. Þegar ballinu lauk löbbuðum við 2ja km leið heim í Laufás. Það var komið frost og við á nælonskyrtum.Ég varð veikur um nóttina. Við morgunverðarborðið sagði Björn bóndi: Já, morgnarnir er margir og menn eru timbraðir oft. Honum hefur ekki litist á uppburðarlita rauðhausinn. Í Kelduhverinu hétu karlmenn þá varla annað en Björn og Þórarinn. Kannski er það svo enn. Við héldum á brott og skoðuðum Dettifoss. Ég var hraustur í þann tíð en skalf allan daginn. Sennilega verið með 40 stiga hita.Við komum til Akureyrar seint að kvöldi og daginn eftir fórum við að mæla í Svarfaðardal. Þá var ég orðinn hress og um kvöldið vildi Ragnar klára rommið. Það rann ljúflega niður í okkur báða. Árið eftir vorum við aftur á ferðinni í Kelduhverfinu. Stórdansleikur í Skúlagarði og nú hafði birtan völdin. Þetta var þrumuball. Þá tíðkaðist að dubba bændur uppí löggur um helgar. Þetta var nokkuð velborgað aukadjobb og kærkomið fátækum sauðfjárhirðum. Ég man sérstaklega vel eftir einum. Það var Guðmundur á Ærlæk. Hann var með þessa hluti alveg á hreinu. Ég heyrði hann rökstyðja fyrir vini sínum hversu bráðnauðsynlegt væri að hafa ball um hverja helgi. Höfuðrök Guðmundar voru þessi: "Það safnast þá ekki í punginn á strákunum nema eina viku í einu". Þessi heimspeki sauðfjárbónda á hjara veraldar er örugglega ekki verri en mörg önnur speki.
Við hittum stelpur frá Húsavík á þessu balli. Þær vildu fá okkur með sér heim. Okkur fannst það þjóðráð. Mágur minn ágætur hafði keyrt okkur á ballið en gisti hjá Birni bónda eins og árið áður. Þetta var nú löngu fyrir daga GSM. Nokkuð liðið á bjarta nóttina og nú var ekki staður né stund til að pæla í morgundeginum.Við héldum til Húsavíkur og það varð mikil veisla í ónefndu húsi við Garðarsbraut. Á þessum tíma var ég frjáls maður. Sumir kölluðu það að vera laus í festum því ég átti vinkonu sunnan heiða. Hún var ekki í huga mér þessa skemmtilegu nótt fyrir 43 árum. Eftir hádegi daginn eftir gátum við náð sambandi við Freystein mág minn og hann sótti okkur til Húsavíkur klukkan 4. Við kvöddum meyjarnar með tárvotum augum, heitum kossum og mikilli blíðu. Ég hef ekki séð þær síðan og nú er fennt yfir nöfn þeirra. En mér fannst bara skemmtilegt að rifja þetta upp.Ævintýri Hösmaga voru rétt að byrja.Ég starfaði hjá OS 10 sumur. Mikil ferðalög og mörg sveitaböll.

Nú eru aðeins eftir skaflar í dýpstu giljum Ingólfsfjalls.Þeir eru á hröðu undanhaldi. Og nú kíki ég á Herconinn. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Saturday, April 19, 2008

 

Vorkoma.

Nóttina fyrir lægðarkomuna á þriðjudaginn var hér 6,9 gráðu frost. Í gær var hitinn 10,9 gráður. Sveiflan er því 17,8 gráður og það er nú nokkuð hér á norðurhjara.Þetta er eins og vítamínsprauta fyrir gamla veiðirefi. Að vísu hefur kvefið látið á sér kræla en það eru bara smámunir einir. Sálin komin á flug og vinnugleðin í hámarki. Ég er vel á undan áætlun í ritsmíðunum til skattmanns. Hér verður ekki látið staðar numið fyrr en skrifborðið hefur verið karað skínandi hreint. Ég var sannarlega sæll er ég gekk til sængur minnar í gærkvöldi. Nokkrir krossar höfðu bætst á listann. Gluggar og hurðir opnar og vorblæinn lagði í gegn. Kisi alsæll á rjátlinu. Ég fór til að skola rykið af grænu þrumunni og það var löng biðröð á þvottaplaninu. Samkvæmt veðurspánni verður svipuð tíð áfram og líkur á 10 stiga hita á sumardaginn fyrsta. Þá verða örugglega margir í golfi.Það er tími brauðs og leikja framundan. Tími hinnar nóttlausu voraldar veraldar er genginn í garð. Þegar bjart verður orðið ætla ég í bílskúrinn. Nú þarf að huga að Herconinum, önglum, hjólum og línunum sem munu verða strengdar í sumar. Nákvæmlega eins og segir í kommenti skáldsins: Já, megi allir stangartaumar strengjast, og stundirnar við ána að nýju lengjast.
Það er logn hér nú. Kaffið bragðast alltaf betur í góðu veðri. Raikonen er utanhúss og hnusar af vorinu. Hösmagi ætlar fljótlega að fara að dæmi hans. Það styttist í birtuna þó klukkan sé aðeins 4. Fimm tíma svefn er mér meira en nóg þegar svona viðrar á þessum árstíma. Þegar ég kem heim aftur ræðst ég á næstu möppu. Innihald hennar lendir á Hellu áður en haninn galar öðru sinni. Við Kimi sendum ykkur bestu kveðjur úr blíðu vorsins, ykkar Hösmagi.

Tuesday, April 15, 2008

 

Zippó.

Ég hef lengi átt benzínknúinn Zippókveikjara. Eignaðist þann fyrri 1989. Sá hinn sami hafði margt kálið sopið. Fylgt mér við hversdagleg störf og nokkuð oft komið með mér á barinn. Þannig gekk það í 15 ár. Á leið í 40 ára stúdentsafmæli mitt hvarf þetta ágæti úr lífi mínu. Ég veit ekki hvert það fór.Svona eftirá að hyggja hafa mér dottið aliensarnir í hug. Þeir reyndust saklausir með seinni Zippóinn. Þennan sem lenti í þvottavélinni eins og ég sagði frá hér einhverntíma.Hann er nú hér á borðinu hjá mér. Fólk kvartar nú yfir háu eldsneytisverði á bílana sína.Það rokkar nú á bilinu 145-150 kall fyrir hvern lítra. En það er nú lítið miðað við samskonar orkugjafa á Zippó. Við kveikjarinn og ég urðum benzínlausir í fyrradag. Kveikjarabenzín er selt á litlum 125 ml brúsum. Og verðið? Fimmhundruðfjörutíuogþrjárkrónur. Fjögurþúsundþrjúhundruðfjörutíuogfjórarkrónur pr. lítra.Dýrt er nú tárið í Ríkinu en nær þó ekki þessum himinhæðum. Ég fæ Hörð í að finna lausn á þessu. Að koma bílabensíni á Zippóinn. Þá fengi ég 30 brúsa á verði eins.Kannski er bílabenzín ekki sætasta stelpan á ballinu, en það gerir sama gagn eins og maðurinn sagði. Það er ævilöng ábyrgð á Zippó. Gildir reyndar ekki ef hann glatast. Hann er nokkuð dýr í innkaupum. Líklega svona merkjavara eins og Boss. Zippo never fails segja kanarnir. Það á sem sagt alltaf að kvikna á honum þegar steinhjólið er strokið.Mér tekst það nú ekki alltaf.
Fyrir margt löngu var landkönnuður á ferð í hinni myrku Afríku. Hann var með Zippó í vasanum. Inní alsvörtustu myrkviðunum hitti hann fólk úr ókunnum þjóðflokki. Hann var viss um að þetta fólk hefði aldrei kynnst menningu annara. Eftir að hafa messað yfir liðinu dró hann Zippóinn upp úr vasanum og hélt honum í greip sinni. " Nú ætla ég að sýna ykkur kraftaverk". Snerti steinhjólið og loginn stóð út úr hnefanum. Hann beið eftir viðbrögðum frá hinum menningarsnauðu. Og það stóð ekki á þeim. " Þetta er sannarlega kraftaverk. Við höfum aldrei áður séð kvikna á Zippó í fyrstu tilraun" Það væri sennilega affarasælast að hætta að reykja. Þó stálið sé hart er það líka mjúkt. Notalegt að velta volgum Zippó í hönd sér. Minn núverandi Zippó er úr hertu stáli. Það er gult, blátt og fjólublátt. Sannarlega thing og bjútí sem verður æ til yndis.
Lægðin kom í gær. Ég minntist á 10 gráður. Þær urðu 12,9. Raikonen alveg friðlaus í nóttinni. Vakti fósturföður sinn með látum. Blíðulátum reyndar. Hefur verið á rjátlinu inn og út um gluggann. Vorið er komið. Við sendum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, April 14, 2008

 

Húdíni og farsíminn.

Ég keypti mér farsíma árið 1998.Afburðatæki af gerðinni Nokia. Einhver tala fyrir aftan nafnið.Kannski 3210. Síðla árs 2006 varð skjárinn óskýr. Daufur í dálkinn. Ég fór í símabúð og þeir sögðu þetta góða endingu og ég skyldi bara kaupa nýjan síma. Þeir áttu nettan Nokia síma sem mér leist nokkuð vel á. Keypti hann og málið var leyst. Mér þótti ákaflega vænt um gamla rauða símann. En það var erfitt við að eiga þegar allt var horfið af skjánum. Þegar heim kom setti ég þann rauða inní skáp í eldhúsinu. Sá svarti var vel nothæfur nema allir hringitónarnir voru leiðinlegir í meira lagi. Og tæknimaðurinn ég gat ekki staðið í tilfæringum við að fá nýja hringitóna. Ég saknaði fúgu Bachs mjög og kannski hefði ég getað fengið hana einhvernveginn í nýja símann. Tíminn leið. Dag nokkurn fyrir skemmstu kom Hörður bílameistari hingað til mín.Ég man ekki hvernig það atvikaðist en Hörður tók gamla góða Bach með sér. Ég kom aðeins við hjá honum á laugardaginn var. Þar lá sá rauði á eldhúsborðinu. Var eiginlega búinn að gleyma honum. Ég hef áður líkt Herði við Harry Húdíni sem flestir kannast við. Töframanninn snjalla. Hann hefði örugglega opnað Grána við Tangavatn um árið eins og Herði tókst þó lögreglan segði það útilokað. Og Hörður var búinn að eiga við Rauð gamla. Skjárinn var orðinn skýr að nýju.Hann var lika fullhlaðinn svo nú var bara að setja spjaldið úr Surti í Rauð. Það tókst fljótt og vel. Ég bað Hörð að hringja í mig. Það fór um mig fagnaðarhrislíngur. Gamla góða fúgan lét undursamlega vel í eyrum.Nú er Surtur í eldhússkápnum og gamli Rauður hefur gengið í endurnýjun lífdaga. Það er eins og ég hafi endurheimt gamlan og góðan vinskap eftir langan aðskilnað. Ég hef oft minnst á snilli Harðar við bíla.Honum er fleira til lista lagt. Hann svona dedúaði aðeins við gripinn. Herti á þessu og slakaði á öðru og það varð ljós. Ég var bæði léttstígur og upp með mér þegar ég hélt til vinnu í morgun. Mér þótti eiginlega mjög miður að enginn skyldi hringja í mig í vinnuna í dag. Eftir vinnu hélt ég heimleiðis og hélt áfram við ritgerðina til skattyfirvaldanna. Ég hafði ekki setið hér lengi þegar fúgan hljómaði á ný. Á hinum enda línunnar var Hörður. Það var vel við hæfi. Smáerindi við lögmanninn og síðan almennt spjall. Gott að þekkja svona karakter.

Flestir veiðimenn vita að það má aldrei óska öðrum góðrar veiði. Það hefur komið fyrir að þetta hefur verið sagt við mig þegar ég hef haldið af stað með Herconinn. Þá hefur reynt á geðprýðina. Í síðustu viku heyrði ég nýtt orðatiltæki sem þýðir í raun það sama. Ég vil láta segja það við mig næst þegar ég fer til veiða. "Megi línur þínar verða strengdar". Eða þandar allt eins. Líklega er þetta enskt orðatiltæki sem einhver góður maður hefur snúið á íslensku. Næsta sumar ætla ég að hlusta á Bach með línur mínar strengdar.
Við Kimi förum að halla okkur. Lægðin góða kemur í nótt. Hitastigið gæti vel hækkað um 10 gráður. Það er ljúf tilhugsun. Bestu kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Sunday, April 13, 2008

 

Morgunstund...

gefur gull í mund. Við Kimi vöknuðum nokkuð snemma í morgun. Mér brá í brún þegar ég kom fram í stofu og leit út um gluggann.Það snjóaði. Það snjóar enn og mér sýnist kominn svona 15 cm jafnfallinn snjór. Þetta er bara svindl. Vona að hlýja lægðin sem búist er við á þriðjudaginn fari ekki eitthvað annað. Dýrið hafði engan áhuga á útiveru. Ekki ég heldur. Hann fékk sér að éta og ég hitaði kaffi. Vindill og nokkur teningsköst með kaffinu. Nóg af pappírum enn svo ég réðst til atlögu. Og merkilegt nokk,litli nagarinn nennti ekki einu sinni að ráðast að skrifborðinu og hefur sofið hér fyrir aftan mig í allan morgun. Ég hef ekki slegið nein vindhögg. Hef lokið við 2rekstrarskýrslur og er nú nokkuð drjúgur með mig. Í gamla daga, þegar ég iðjaði miklu meira á þessu sviði en núorðið, var þetta líka alltaf langdrýgsti tíminn til starfa. Engin truflun af síma eða heimsóknum. Þá var þetta allt unnið á pappír og gífurleg vinna að vélrita hvern einasta staf. Ég hef nú stundum lýst tækniþekkingu minni hér áður. Sannkallaður auli á því sviði. Kann tæplega á farsíma. Bara að hringja og svara. Mér leist mjög illa á byltinguna sem varð við tilkomu netsins. Var viss um að mér tækist aldrei að telja fram til skatts með þessum hætti. En raunin hefur orðið önnur. Kannski ekki sá færasti, en samt skotgengur þetta. Vinnusparnaðurinn er gífurlegur, því nú fer hvert einasta framtal sem ég geri um netið. Ég og kúnninn högnumst báðir á rafrænunni. Og ég á eftir að krossa við fleiri í dag. Maður nennir ekki einu sinni í bíltúr í svona tíðarfari. Hvað þá að maður hugsi til fjalla með veiðistöng.
Ég var reyndar við sömu iðju í gærkvöldi. Hafði sjónvarpið nægilega hátt stillt til að geta hlustað á söngkeppni framhaldsskólanna. Mörg mjög skemmtileg gömul lög og söngurinn ótrúlega góður hjá mörgum. Þetta var bara hið ljúfasta kvöld og við Rækjunen héldum sáttir til náða. Og enn grillir ekki í Ingólfsfjall fyrir ofankomunni. Ég segi nú bara: Hættu, og það strax. Samt líður mér prýðisvel og nú er það bara brauð og reyktur silungur. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Friday, April 11, 2008

 

Orðhengilsháttur.

Þessi pistill verður nú ekki eins og snilldin sem hvarf út í eterinn í gærmorgun. En ég ætla að endursegja nokkur orð af honum.Álverið í Helguvík rís bráðlega. Stóriðjuhraðlestin er komin á fullt skrið aftur. Það breyttist ekkert þó SF skriði uppí til íhaldsins í stað framsóknar. SF á Akureyri hefur krafist álvers á Bakka við Húsavík. Það kemur næst á eftir Helguvík. Fagra Ísland var aldrei annað en kosningabrella. Allt of margir umhverfissinnar sáu ekki í gegnum þessa hugarsmíð Dofra Hermannssonar og léðu SF atkvæði sitt í síðustu kosningum. Ég skrifaði marga pistla um SF og fagra Ísland fyrir kosningarnar. Flest sem ég sagði hefur gengið eftir. Markmið SF var einungis að komast til valda. Kosningaloforð er auðvelt að svíkja. Stólarnir eru mjúkir og ferðalögin indæl. Boðskapur SF fyrir kosningar var sá
að gera ætti heildstæða athugun og áætlun um náttúruvernd. Hvað skyldi alfriðað og við hverju mætti kannski hreyfa og nýta. Stóriðjustopp uns þeirri vinnu væri lokið.Nú segir Dofri að Helguvík hafi verið "í pípunum". Ekki hægt að koma í veg fyrir hana. Bakki hefur líklega verið farinn að kíkja inní rörin líka. Það ömurlegasta hjá SF í vörn sinni fyrir svikum á kosningaloforðum eru hugleiðingar um VG og Steingrím Sigfússon. Hann myndi hafa gert þetta allt líka ef hann hefði fengið að njóta yls íhaldsins að kosningum loknum. Réttlætir það svik SF nú? Hver pistillinn af öðrum frá SFliðum og viðtöl í sjónvarpi ganga helst út á þessa rökleysu. Dofri var í kastljósi í vikunni. ISG í öðru. Þegar þeim var bent á staðreyndir um málflutninginn fyrir kosningar og síðan á það sem nú er að gerast var það afgreitt með nánast einu orði. Orðhengilsháttur. Það er allt í lagi hjá SF að míga yfir kosningaloforð af því Steingrímur hefði örugglega gert það líka. Pistill nafna míns sænska frá 4. apríl er nokkuð gott dæmi um það sem ég er að segja.
Þetta land er nú stjórnlaust í efnahagsmálum. Ríkisstjórnin gerir ekkert. Ráðherrarnir á flækingi með einkaþotum út um allar heimsgrundir.Það myndi líklega redda öllu ef við komumst í öryggisráðið. Það virðist skipta ráðherrana meira máli en að það stefni í fjöldagjaldþrot margra íslenskra heimila. Yfirnagarinn hækkaði enn stýrivextina í gær. Þeir eru nú hvergi hærri í heiminum öllum. Verðbólgan stefnir í 15% um næstu áramót. Ég held að hagfræðiprófessorinn sem var í fréttunum í gær hafi rétt fyrir sér. Hann sagði nánast að það þyrfti að moka öllu þessu liði musterisins út strax og fá hæfa menn í staðinn. Ég held að það sama gildi raunar um landstjórnina.
Við Kimi, sem er nú voðalegur nagari eins og musterisriddarinn, erum nokkuð brattir í morgunsárið. Veður allgott en vorið er þó ekki komið enn. Síðasti dagur vinnuvikunnar í dag og heimavinnan gengur nokkuð vel.Sæki veiðikortið kl. 6, síðan í klippingu hjá Hildi og svo meiri heimavinna. Bestu kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Wednesday, April 09, 2008

 

Ææ.

Því miður. Langur pistill hvarf frá mér út í eilífðina. Verð hreinlega að skrifa hann aftur seinna. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Sunday, April 06, 2008

 

Köld fegurð.

Ég er að koma úr Klettsvíkinni. Þar hef ég nú oft komið áður. Veðrið er geysifagurt í dag.Glampandi sól en hiti nýkominn rétt yfir frostmarkið. Mér datt í hug að líta á Ölfusá. Sjaldan eða aldrei séð hana svona tæra. Ég fór fyrst að Hrefnutanga og leit yfir breiðuna. Snéri við og staldraði við á Miðsvæðinu. Þar blasti við forsmánin sem nokkrir misvitrir menn stóðu fyrir fyrir nokkrum árum. Eyðilögðu besta spænissvæði árinnar með því koma fyrir grjóthnullungum í tugatali út í ánni. Þetta skemmdarverk var ekki borið undir félagsmenn. Þegar ég sá þessi hervirki fyrst trúði ég vart mínum eigin augum. Hélt hérumbil að ég væri kominn með deleríum tremens. En það gat bara engan veginn staðist miðað við lífernið. Ég fyrirgef þennan verknað aldrei. Krafðist þess á síðasta aðalfundi stangveiðifélagsins að grjótið yrði fjarlægt. Sumir tóku undir með mér. Aðallega Páll Árnason, einn reyndasti veiðimaður árinnar, sem þekkir ána best af öllum núverandi félögum. Líklega veitt í henni í yfir 50 ár. Sá sem lagði til grjótið og tólin til að koma því í ána vildi bara meira grjót. Ég sagði hreinlega ekki meira en hugsaði mitt. En það var virkilega gaman að sitja í Lögmannshlíðinni smástund nú um hádegisbilið. Sjá botninn nákvæmlega. Og hugsa um öll ævintýrin sem ég hef upplifað á þessum yndislega stað. Það yljaði sannarlega þó ég hafi aldrei áður setið þarna í svona kulda. Ég hugsaði mér líka gott til glóðarinnar næsta sumar. Ég fæ veiðikortið mitt á föstudaginn og hef pata af því að ég fái þá daga sem ég bað um. Það er mikið gleðiefni af því margir nýir félagar bættust við á aðalfundinum. Veiðihugurinn er enn til staðar hjá gamla veiðirefnum.
Ég held vitrænunni áfram. Hreinsaði vel til hér á kontórnum og Raikonen sefur nú á nýviðruðu teppinu frá Sölva og Helgu. Einn kross kominn á listann og von á miklu fleirum í dag. Sem sagt ágætt, með bestu kveðjum, ykkar Hösmagi.

Saturday, April 05, 2008

 

Helgin..

byrjaði vel. Vitrænan úr síðasta pistli hefur gengið eftir.Rétt fyrir starfslok í gær hringdi Hörður bílameistari og bauð mér aðstoð við þrif grænu þrumunnar.Hann vissi að tjaran, saltið og ótrúleg drulla á bifreiðinni var farin að leggjast á sál mína. Hann á að sjálfsögðu fínar græjur til slíkra verka. Háþrystidælu, blöndunarkút og nóg af vatni. Ég var fljótur að skipta um föt. Nú er græna þruman skínandi eins og ég vil hafa hana. Það er alveg sama um hvaða bílavandræði er um að ræða. Hörður leysir allt. Og ég hef sagt það áður að það er gott að þekkja slíkan mann. Ég var reyndar nokkuð dasaður í gærkvöldi og varð því ekki mikið úr verki. Sofnaði seint og illa og vaknaði snemma. Gat þó sofnað aftur og var bara brattur þegar Ingibjörg systir mín hringi klukkan hálfellefu. Drattaðist framúr og hitaði mér kaffi.Sólin skein en hitinn undir núllinu. Einhvernveginn stóð pappírvinna í mér svo þá var bara að grípa í annað aðkallandi. Ruslið út úr húsinu.Nýskúruð forstofa, baðherbergi og svefnherbergi.Og að sjálfsögu skipt um öll rúmföt. Öll búsáhöld skínandi hrein eins og eldhúsið sjálft. Græna þruman fínpússuð í sólarljósinu. Síðan réðst ég til atlögu við bílskúrinn. Tveir pokar af allskonar rusli út úr honum. Tilfærsla á hlutum og gólfið sópað. Græna þruman er örugglega ánægð á stalli sínum núna. Og Hösmagi er bara nokkuð drjúgur með sig eftir daginn. Og hlakkar til morgundagsins. Það verður áfram úr nægu að moða. Pappír og meiri pappír.Hringja í þennan og hringja í hinn. Boð í kvöldmat hjá Pjetri frænda í Hveragerði.Kimi hefur fylgst nákvæmlega með öllu athæfi fóstra síns í dag. Hann er orðinn vanur þvottavélinni en flúði út á svalir þegar ryksugan var gangsett.Hann er kúnstugur að mörgu leyti. Hann hefur aldrei komið inní bílskúrinn. Klúkir í nágrenninu og kemur svo þjótandi um leið og ég kem út úr skúrnum.Það má sennilega búast við þéttari pistlum hér á Hösmagabloggi á næstunni.Það gerist oftast þegar svartir draugar eru kveðnir niður. Ég ætla að þessu sinni að senda börnunum mínum alveg sérstakar kveðjur. Ég veit að þau verða ánægð með þennan pistil. Við Kimi biðjum að heilsa að sinni. Ykkar Hösmagi.

Thursday, April 03, 2008

 

Vitræna.

Hösmagi hefur verið nokkuð vitrænn í kvöld. Það er mjög notalegt að krossa við frestlistannn hjá skattstjóranum fyrir hvert framtal sem hann viðurkennir að hafa móttekið. Dagur, klukkutími, mínúta og sekúnda. Sjö krossar síðan ég kom heim úr hinu daglega striti. Mér brá reyndar aðeins áðan þegar tölvumúsin kipptist við. En áttaði mig nú fljótlega á örsökinni. Raikonen hafði kippt í snúruna.Sennilega ekki ánægður með að vera rekinn niður af skrifborðinu. Alltaf jafniðinn við pappírana. Ég er nú sífellt að fást við pappíra en langar samt ekki til að naga þá.
Vorið lætur bíða eftir sér. Næturfrost flestar nætur en svona þolanlegt hitastig yfir hádaginn. Hellisheiði var ófær af snjó í morgun. Það eru ansi mörg ár síðan það hefur gerst í aprílmánuði. Lítið annað að gera en þrauka þetta af sér. Mér dettur varla veiðistöng í hug um þessar mundir. En það breytist brátt ef ég þekki sjálfan mig rétt.
Síðasti dagur vinnuvikunnar á morgun. Og helgin verður notuð til vitrænna hluta. Svona nokkurskonar garðræktunar. Bráðagóð iðja svona inná milli. Við Kimi förum nú að halla okkur. Reyndar sé ég að hann er hér afvelta á gamla stólnum. Við sendum ykkur bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Tuesday, April 01, 2008

 

Nýtt lífsmark.

Lítil bloggiðja að undanförnu. Þetta gerist nú annað slagið.Annatími framundan þó það sé nú rólegt hér á Bakka. Við erum svona fiskarnir. Latir og draumlyndir inná milli. Nú er bara törn í skattinum og ég verð að djöfla eins miklu frá mér og hægt verður næstu daga eftir of langt slugs. Nú skín sólin glatt og hitastigið um 5 gráður. Ég sá 18 gráður í Barselóna einhverntímann í dag. Bestu kveðjur í bili frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online