Monday, February 27, 2006

 

Fjallið eina.

Ingólfsfjall hefur löngum þótt fallegt fjall. Mörgum gömlum Selfyssingur svíður sárlega undan meðferðinni á fjallinu. Það er reyndar í öðru sveitarfélagi þó við teljum það eina höfuðprýði staðarins. Skemmdarverkin á fjallinu eru skólabókardæmi um gróðahyggjuna. Þessa sterku hvöt sumra manna til að verða ríkir hvað sem það kostar. Eyðilegging á fallegri náttúru skiptir þá nákvæmlega engu máli. Og þeir vísa á bug öllum tillögum sem hugsanlega gætu skert gróðann. Þetta er svona allsstaðar á landinu. Það sýnir álæðið sem geysað hefur hér í áratugi. Og bæjarstjórarnir fyrir norðan keppast nú við að skora á Alcoa að koma til sín. Enda guðsríkið líklega álfurstanna. Gott fyrir þá að vefja skammsýnum íslendingum um fingur sér. Hvort eð er búið að útiloka þá á flestum öðrum stöðum í heiminum. Hér er nóg af mönnum sem glaðir myndu virkja miguna úr ömmu sinni ef hægt væri að framleiða ál úr orkunni frá þeirri gömlu. Og raula stef úr gamalli vísu: Þegar ömmu verður mál þá búum við til ál. Fari þeir allir í fúlan pytt. Ég hef nokkrum sinnum gengið á Ingólfsfjall. Oftast upp Djúpadal þar sem aðalskemmdarverkin eru stunduð. Þegar upp er komið eru ca. 4-5 km inná Inghól. Þaðan er geysilegt útsýni. Fjallið er þar 552 m yfir sjávarmáli. Minnisstæðasta gangan þangað er sú síðasta, 27. júní 1998. Með skáldinu mínu og frænda okkar, systursyninum og skógfræðingnum Gunnari. Hann lést af slysförum 8 dögum síðar. Aldrei verður mér litið til fjallsins góða án þess að minnast þessa ljúfa vinar. Veðrið var einstakt, sól og heiðríkja, og útsýnið óhemjufagurt. Meðan við sátum og átum af nesti okkar sagði Gunnar skopsögur eins og honum var lagið. Einkanlega af norðmönnum. Og ískrandi hláturinn heyrist enn. Sagt er að tíminn lækni öll sár. Svo er þó alls ekki. Hann hjálpar okkur til að sætta okkur við orðinn hlut. Nú lifir minningin um stórbrotinn frænda og yndislegan vin. Og tíminn heldur áfram. Þungur niður hans dunar stöðugt. Og þegar við yfirgefum sviðið mun fjallið eina standa áfram. Ef gróðahyggjan verður ekki búin að klára það. Nú eldar af morgni. Er á leiðinni niðrí Selvog í morgunsárið. Raikonen liggur hér endilangur á borðinu og dormar. Það er ró yfir okkur báðum. Megi dagurinn færa ykkur gleði, ykkar einlægur Hösmagi.

Sunday, February 26, 2006

 

Dumbungur.

Dimmt yfir. Grillir í fjallið og hitastigið 1 gráða. Svo sem bærilegt meðan ekki snjóar. Þau gerast nú torráðin kommentin frá skáldinu. Kanski er þetta gáta sniðin fyrir aldraðan föður. Eða bara upphafið að þjóðlagi. Svona eins og í vísunni eftir þjóðskáldið þjóðlega.

Hundurinn galar, hrúturinn frýs,
hesturinn malar og vælir.
Samfylkinguna sauðurinn kýs
og seinheppni asninn kælir.

Kannski fleira verði ort um öll hin dýrin. Og dýrbítinn, þennan með refslegu augun. Vildi ekki verða á vegi hans á fáfarinni götu þegar tekið er að skyggja. Færi með veggjum og reyndi að troða mér inn á næstu krá. Eins og hin þjóðskáldin öll. Hafa löngum unað þar hag sínum bærilega, líkt og íslensku aríarnir í Edinborg sem drukku allar tegundir áfengis af bestu lyst.
Sum ykkar hafa spurnir af svokölluðum leiðandi spurningum. Mjög gott að nota þær þegar ekki fæst skýr niðurstaða strax. Eins og barnið sem sá glæp ásýndar. Yfirheyrandinn vildi vita hver hefði framið hann. Það var dimmt og barnið sá ekki glöggt til glæpamannsins. Þá var bara spurt hvor það hefði verið, lögmaðurinn eða presturinn. Sem betur fer fyrir mig var það prestskrattinn. Hann var auðvitað settur beint í gapastokkinn og er þar enn. Eins er það hér á Urtufossi. Umdeild tillaga um 16 hæða turnspírur við brúarsporðinn hefur verið í umræðunni. Og þar er ekki spurt hvort fólk vilji að þeir rísi eða ekki. Sporgöngumenn skýjaklúfanna spyrja einfaldlega hvort turnarnir eigi að vera 16 hæða eða ekki nema 15 hæða. Mjög snjallt. Allir vilja þessa stórfenglegu turna. Eiga ekki annara kosta völ. Ég hitti einn fyrrum allaballa í síðustu viku. Hann spurði hvað væri frétta úr pólitíkinni. Einn þessara nytsömu sakleysinga sem flykkst hafa í samfylkinguna. Hann er voða hrifinn af skýjakljúfum kratans frá Vestmannaeyjum. Þegar ég lýsti efasemdum mínum um turnana spurði hann hvort ég vildi heldur hafa þá á hliðinni. Sem sé mörg lágreist hús. Ég sagðist bara ekki sjá neina nauðsyn á að byggja íbúðarhúsnæði á þessum stað. Þetta er hvort eð er bara smáskiki. Svona mátulegt pláss fyrir nokkrar smáverslanir, krár, listvinahús, tré, blóm og fleira í þeim dúr. Það heyrist lítið af framboði vinstri grænna. Kanski erfið fæðing. Kannski býð ég mig bara fram sem óháður ( sem ég hef ætíð verið). Lýsi því yfir að ég vilji ekki sjá þessa turna. Fæ örugglega mörg atkvæði út á það. Yrði kannski bara bæjarstjóri og fengi voða fína skrifstofu og mikið kaup. Ekki veitir nú af eftir allar fjárfestingarnar. Og ég yrði góður bæjarstjóri. Grjótharður í horn að taka. Eins og stálið frá Krupp. Enginn geðlurða eins og Bastían sem lét glæpahyski vaða uppi. Stela vínarbrauðum, pylsum og svoleiðis. Ætla að láta staðar numið nú en skrifa harðorðan pistil þegar ég verð búinn að koma mér fyrir í nýja stólnum. Eða jafnvel fyrr. Með baráttukveðjum, ykkar Hösmagi.

Sunday, February 19, 2006

 

Góa.

Þorri hefur kvatt og Góa boðið góðan dag. Kyrrðin ríkir ein og ekki bærist hár á höfði. Hitastigið einar 4-5 gráður og ekkert í spilunum sem boðar miklar breytingar. Mér kemur bara veiðistöng í hug. Svona upphafið af þessum árlega vorfiðringi. Og sá er nú ekki aldeilis grár. Ef litur er á honum er hann örugglega grænn. Svona eins og græna þruman sem stendur nú á stalli sínum í bílskúrnum. Samkvæmt pistli Helgu Soffíu eru aríarnir komnir heim. Líklega hefði undirritaður sómt sér vel í einhverri af sérsveitum 3ja ríkisins. Ljós yfirlitum og nokkuð hávaxinn. Kannski orðið ágætur SS foringi. En það var farið að halla undan fæti hjá þessum sveitum þegar undirritaður var í heiminn borinn. Líklega gott fyrir 3ja ríkið og ekki síður fyrir undirritaðan. Prófkjöri íhaldsins hér lokið. Og Eyþór brosir útí bæði. Hvað sem segja má um Eyþór er alveg ljóst að íhaldið er í sókn hér í Árborg. Kannski er það nú ekkert undarlegt eftir samstjórn frammara og samfylkingar undanfarin ár. Ég ætla að spá í úrslitin í vor. Framsókn fær 2, samfylking 2, íhaldið 4 og vinstri grænir 1. Gæti orðið athyglisverður meirihluti sem hugsanlega tæki á umhverfis - og skipulagsmálum. T.d. komið í veg fyrir þessa 2 sextán hæða turna sem reisa á við brúarsporðinn. Yfirgengilega heimskuleg hugmynd.Verður vonandi mokað yfir hana í eitt skipti fyrir öll. Nóg skemmdarverk unnin nú þegar. Nýi meirihlutinn á að verða þjónn íbúanna er ekki drottnari. Á að taka á hagsmunamálum fólksins en ekki standa fyrir skemmdarverkum og skipulögðu kaosi. Skyjakljúfarnir geta verið ágætir á Manhattan. Við skulum bara vera sátt við fjallið, brúna, ána og annað gott sem við höfum. Og þegar búið verður að sprengja hótelið í frumeindir sínar mun fegurðin ríkja hér ein. Kveðjur frá mér og litla fóstursyninum, ykkar Hösmagi, kannski svolítið herskár í morgunsárið.

Saturday, February 11, 2006

 

Vísbendingar.

Ég hef stundum haldið því fram að a.m.k. kosti sumir vinstri menn muni vitkast. Samkvæmt allmörgum skoðanakönnunum bendir margt til þess að það sé að ganga eftir. Samfylkingin tapar fylgi um allt land og vinstri grænir mælast með mjög aukið fylgi. Formannaskiptin í Samfylkingunni hafa alls ekki aukið fylgi hennar. Enda Ingibjörg Sólrún eins og kulnaður vúlkan.Og stefnuleysið samt við sig. Evrópubandalagið er draumurinn. Og markaðsvæðing heilbrigðiskerfisins. Púnktum og basta. Og framsókn að syngja svanasönginn. Athyglisvert að sjá niðurstöður könnunar í norðausturkjördæmi. Einu höfuðvígi framsóknar með Álvalgerði í frontinum. Þar fá frammarar 15% en höfðu 34. Steingrímur fær 25%, Samfylkingin tapar en íhaldið í sókn. Það er að vísu rúmt ár í næstu þingkosningar. Margt getur breyst. Imba Solla segist vera langhlaupari og spyrja skuli að leikslokum. En einhvernveginn segir mér svo hugur að langhlauparinn sé orðinn þreyttur nú þegar og muni ekki hressast að ráði. Gott ef hann kemst í mark. Það er aldrei von á góðu þegar dómgreindin bregst fólki. Og ég ætla, eins og Dóri litli, að gerast spámaður. Ingibjörg Sólrún mun aldrei verða forsætisráðherra. Sem betur fer fyrir þjóðina. Annars er ég orðinn ógurlega leiður á öllum prófkjörunum. Ekki friður til að lesa blöðin á netinu fyrir blikkandi frambjóðendum. Að auglýsa eigið ágæti. Kjósið mig af því ég er svo klár. Ég hef svo mikla reynslu sem ég ætla að vera svo góður að láta nýtast þér. Það versta við prófkjörin er subbuskapurinn sem einkennir þau. Verður til þess að besta fólkið vill ekki koma nálægt þeim. Og peningausturinn yfirgengilegur stundum. Kannski viljum við bara lýðræði peninganna. Eins og í USA. Hver einasti þingmaður þar er múltimilli. Ekki einn einasti fátækur maður á þar minnstu möguleika. Þar eru það ekki mannkostirnir sem telja heldur aurarnir. Sem betur fer er það nú ekki svo hér enn. En þær verða margar krónurnar sem skipta um eigendur í prófkjöri samfylkingarinnar í Reykjavík um helgina. Og það aulalegasta við þetta prófkjör er að þar mun íhaldið ráða úrslitum. Mér hefur alltaf fundist það heimskulegt að láta þá sem ekki munu kjósa lista ráða vali fólks á hann. Líklega skil ég ekki blessað lýðræðið sem í því felst.Vegir þess eru órannsakanlegir. En þó allsstaðar nálægt.
Lambakóngurinn minn tvítugur í dag. Vona að sem allra flestir afar séu jafnánægðir og Hösmagi.Þessi nafni minn er ljúfmennskan uppmáluð og svo hefur það alltaf verið. Sendi honum einlægar kveðjur á afmælisdaginn. Og móðurinni einnig sem varð enn virðulegri frú í gær. Frétti af henni að grilla kjöt í hesthúsinu í gærkvöldi. Og góðmetinu hefur örugglega verið skolað niður með góðum drykk. Vonandi hefur hefur þó búsinu ekki verið hellt í hrossin eins og þegar undirritaður hellti séníver í hrossið norður á Auðkúluheiði á fallegri vornótt fyrir 40 árum. Og eigandanum fannst nóg um því hann vildi láta hella í sjálfan sig. Ógleymanleg nótt eins og fleiri bjartar voraldarnætur sem landið okkar hefur gefið mér. Nóg blaðrað að sinni. Með hyljagrænum kveðjum, ykkar Hösmagi.

Tuesday, February 07, 2006

 

Morgunkaffi.

Rúbín hátíðarsælkerakaffi. Fann það í hanskahólfinu á Lancernum í gær. Þar var líka eintak af Gleðileiknum, 2 bensínnótur og fleira smálegt. Ég hugsaði með mér að best væri að prófa þetta kaffi, sem skáldið af einhverjum ástæðum hafði skilið eftir i bílnum. Hellti uppá og uppgötvaði í framhaldinu að sykurlaust var á heimilinu. Flestir eru nú hættir að nota sykur í kaffið. En ekki ég. Leitaði vandlega í öllum skápum. Mundi eftir að síðast þegar sykurlaust varð fann ég kandís sem er fjári góður í kaffi. En hann var uppurinn með öllu. Sé ég þá allt í einu poka hálffullan af súkkilaðifylltum Ópalbrjóstsykri. Skellti ca. 10 hnullungum í fantinn og hellti svo kaffinu ofan á þá. Hrærði í og bætti slatta af rjóma út í. Og viti menn. Þessi hunangsblanda. Ætla nú samt að kaupa venjulega sykur í dag. Þetta varð sem sagt alveg himneskur morgundrykkur. Meira að segja Raikonen þurfti að hnusa af fantinum. Einu sinni var ég að lýsa því hvað gott væri að hafa púðursykur og rjóma í kaffi. Gömul kerling sem á hlýddi kúgaðist og gretti sig ógurlega af tilhugsuninni um þennan viðurstyggilega smekk. Gæti snú samt best trúað að hún hefði komist á bragðið. Eins og þegar ég hellti spænska spíranum yfir lakkrísbrjóstsykurinn hér um árið. Skuggalega góður drykkur. Og áhrifaríkur að auki. En ég er orðinn svo óttalegur reglumaður nú um stundir að ég læt mér kaffi og vindil nægja. En ef einhver þyrstur á leið hér við í Ástjörninni þá er ýmislegt til sem vætir kverkarnar og lífgar sálarylinn.T.d. vodka, koníak, whyskí og svokallaður eyrnamergur. Skelfilegur í fyrsta sinn en venst nokkuð vel. Þótti góður í den til að koma heilastarfseminni í lag í slæmum timburmönnum. Eða eins og gamli maðurinn sagði: Margt er mannanna bölið og misjafnt er drukkið ölið. Det er nu det.
Vetrartíðin er nú bara þokkaleg hér. Mínus 6°á Celcíus og nánast logn. Nýja bifreiðin gljáandi eins og smaragður eftir tjöruþvott og bón í gær. Og Lancerinn fær smánudd og slökun líka. Þjónar mér óhemjuvel og gengur alltaf eins og listaklukkur eiga að gera. Sannar að Japönum er nú ekki alls varnað þó undirritaður sé nú lítt hrifinn af japanskri framleiðslu.

Nú styttist í aðalfund stangveiðifélagsins. Veiðileyfi fyrir komandi sumar. Mörg. Og árangurinn vonandi eftir því. Og svo eru það Veiðivötnin. Minni skáldið á Bryndísi vinkonu okkar. Eindagi 28. febrúar. Annars ættu fátæk skáld að fá frítt svona annaðhvert ár. Væri það ekki gott framlag bænda til menningarinnar? Það finnst mér. Með sukkulaðifylltum kveðjum, ykkar fiskimaður, Hösmagi.

Monday, February 06, 2006

 

Tóm tjara.

Það versta við svona gott tíðarfar hér er andskotans tjaran sem verður til úr malbikinu á vegum og strætum. Talið er að maður spæni upp 2,7 gr. af tjöru við að aka 1 km á nagladekkjum.Töluvert sest á bílana og hitt verður svifmengun sem m.a. sest að í lungunum á fólki. Reyklausum jafnt sem reyksóðum. Nýja glæsikerran mín er orðin útötuð í tjöru. Bíladellukarli eins og undirrituðum finnst það afleitt. En fleiri hliðar eru nú á nöglunum. Að mínu mati veita þeir falskt öryggi. Geta líka virkað eins og skautar við viss skilyrði. Loftbóludekkin og harðkornadekkin hafa sannað gildi sitt. Þessvegna höfum við enga afsökun lengur fyrir því að aka um á negldum hjólbörðum. Valda bara mengun og óþarfa eyðileggingu á samgöngukerfinu.Við eigum að hætta að nota þá. Jafnvel þó að allir hafi ekki skrið- og spólvörn eins og glæsifákurinn minn.
Siggi sænski hefur orðið fyrir vonbrigðum með Jónas. Eins og fleiri. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort allt sé réttlætanlegt í nafni tjáningarfrelsis. Er ekki gamla máltækið að oft megi satt kyrrt liggja enn í fullu gildi? Þessar myndir af Múhameð spámanni hafa nú þegar valdið miklum vandræðum. Eyðileggingu og dauða og ekki séð fyrir endann á því. Ég sé ekki að heimurinn sé neitt betri eftir birtingu þessara mynda. Og mér finnst þetta sanna það sem ég hef lengi haldið fram. Ekkert hefur eyðilagt meira fyrir mannkindinni en trúarbrögðin. Þær eru margar styrjaldirnar sem háðar hafa verið í nafni þeirra. Og þar eru öll meðul leyfileg. Sagan sannar það.Stóri sannleikur er slæmur sannleikur. Og því miður mun hann verða það áfram. Og það er dapurlegt að menn eins og Jónas Kristjánsson skuli halda því fram að islam sé vond trú og allt hitt eitthvað skárra. Við skulum bara vera góð. Það er óþarfi að gera grín að því sem náunga okkar er kært. Við eigum ekki að segja klámbrandara að hvítasunnumönnum viðstöddum. Tjáningarfrelsið er að sjálfögðu afar mikilvægt. En við eigum ekki að nota það til óhæfuverka.Gætum okkar.
Hér er nú kyrrð. Þorrinn aðeins að minna okkur á tilveru sína. Hitinn nokkuð undir frostmarki en enginn snjór. Hænufetunum fjölgar þétt í átt til birtunnar. Lífið gengur sinn gang. Tjöruþvottur framundan. Kannski til þess eins að safna upp meiri tjöru. Líklega sama sagan og með okkur. Við höldum áfram að fara í sturtu. Varla friður hér til skrifta lengur. Raikonen með rautt skott kominn heim aftur og krefst athygli fóstra síns. Biðjum báðir að heilsa. Ykkar Hösmagi.

Friday, February 03, 2006

 

Sjón er sögu ríkari.....

segir máltækið. Í vikunni skrapp undirritaður niður á strönd. Alltaf gott að anda að sér þaralyktinni og kíkja til sjávar. Ég var sendur til að verðmeta hús sem stendur við götu sem heitir Bakarísstígur. Svolítið skemmtilegt nafn á götu. Húsið er nr. 4a og er byggt árið 1910. Fremur lágreist timburhús, en vinalegt og í nokkuð góðu ástandi. Þetta hús hefur greinilega sál. Gæti vel trúað að þar væri hægt að hlusta á nið aldanna eins og Þórbergur forðum í Bergshúsi. Eigandi hússins er rithöfundurinn Sjón. Sigurjón B. Sigurðsson. Hann var einn heima á bænum er mig bar að garði. Fartölvan opin á litlum kontór. Þarna situr þessi verðlaunahöfundur og skrifar. Ég snobba hvorki uppávið eða niður. En það var gaman að hitta þennan mann. Viðræðugóður og þægilegur. Og auðvitað varð ég að koma því að að ég ætti skáld. Sjón kannaðist við piltinn og bar mig bera honum kveðju sína til Gotlands. Sagðist hafa verið í Visby í fyrra og lét ákaflega vel af staðnum. Ætli eyjabúar kunni ekki best við sig á eyjum. Ísland, Bretlandseyjar, Gotland og Rhodos. Vestmannaeyjar og Mallorka. Gæti best trúað að erfiðara sé að fá inspírasjónir á miðju meginlandinu. Ég þorði nú ekki eða vildi ekki spyrja skáldið hvað hann væri að skrifa. Við komumst að því seinna.
Voðalega finnst mér fólk vera vont við hann Viggó greyið. Það var alveg rétt hjá honum að þessir dómaraskrattar voru afleitir. Ég hef mikið álit á Viggó sem þjálfara. En ég hef ekki mikið álit á honum sem venjulegum manni. Hann hefur margsinnis sýnt að hann getur ekki stjórnað sjálfum sér almennilega. En hann baðst þó afsökunar eftir að hann skandaliseraði í fluginu í fyrra. Það er meira en stjórnmálamennirnir gera. Dettur Halldór í hug. Aldrei mun hann biðja okkur afsökunar á að gerast félagar bandittanna í hópi hinna staðföstu þjóða. Það væri nær að hann segði af sér en Viggó ræfillinn. Aldrei hefur nokkur íslenskur sjórnmálamaður sagt af sér eftir að hafa skandaliserað opinberlega á fylleríi. Og eru þó mörg ærin tilefni til þess. Það er auðvitað fyrir neðan allar hellur að stjórnarherrarnir skuli komast upp með hvað sem er. Allt ferlið í einkavæðingu ríkiseignanna á undanförnum árum er eitt allsherjarreginhneyksli. Og finnst mönnum bara allt í lagi að Dóri hafi gert sjálfan sig að múltimilla með kvótakerfinu. Líklega sumum. Leikreglur bananalýðveldisins eru einfaldar og skýrar.
Enn rignir. Hiti 6°. Við Raikonen snemma á fótum sem fyrr. Höfum það báðir alveg þrælfínt. Helgin rétt að byrja og við erum báðir búnir að viðra okkur í vætunni. Sannarlega góð tíð á miðjum Þorra. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online