Thursday, April 30, 2009

 

Pattstaða.

Það er sérstakt, að eftir að SF og VG náðu hreinum meirihluta í kosningunum, er komin upp pattstaða í stjórn þeirra. Það er sorglegt og slæmt. Ef flokkarnir leysa ekki ágreining sinn í dag verður hvor þeirra um sig að fara aðrar leiðir. Forystufólk beggja flokka segir reyndar að ekkert liggi á því flokkarnir hafi traustan meirihluta.Verkefnin sem bíða eru þó svo brýn að það má ekki eyða tíma í deilur sem virðist ekki vera hægt að leysa. Það er a.m.k. lágmarkskrafa að tekið verði til óspilltra málanna við lausn þeirra. Annars er ég að fá pólitískan leiða. Nenni varla að eyða orðum að þessu meira að sinni. Gleðin yfir falli íhaldsins er að verða blendin. Það yrði hroðalega slæm niðurstaða ef sigur stjórnarflokkanna kallaði á atbeina íhaldsins vegna innbyrðis deilna þeirra. Kannski kallar þetta ástand á nýjar kosningar. Kosningar sem kölluðu fram skýrari afstöðu fólks um hvort sækja eigi um ESB aðild eða ekki.
Kimi sefur. Með óvenjugljáandi feld. Þetta nýja íslenska fóður virðist gera honum gott. Mér finnst þetta frábært, einkum og sérílagi þegar við þurfum að spara gjaldeyri sem aldrei fyrr. Við íslendingar höfum áður staðið í erfiðum aðstæðum. Það er mikilvægt að nota frjóa hugsun til að vinna okkur út úr núverandi vanda. Það er vel hægt og vonandi næst samstaða um það.
Það er aukadagur í næstkomandi helgi. Veðurspáin ekkert sérstök og Ingólfsfjall með hvítan koll eftir nóttina. Það getur þó varla verið langt í alvöruvor og sumar. Ég ætla að hlakka til dásemda veiðiskapar og útiveru og gleyma pólitíkinni næstu daga.Á sunnudaginn ætla ég með Ingu systur minni og fleira góðu fólki uppí Haukadal. Gróðursetja þar nokkrar plöntur í lundi Gunnars frænda míns. Það er líka nóg að starfa heima fyrir. Nokkur framtöl eftir og alltaf þarf að halda í horfinu innandyra.Ég eignaðist 5 kíló af humri í gærkvöldi og ætla að gera okkur Dýra gott í munni á morgun. Svo er rakið að eiga humar til grillunar í Veiðivötnum og við önnur góð tækifæri í sumar. Kistan er nú sneisafull af mat. Nú kaupi ég bara mjólk, kaffi, brauð og viðbit. Og svo auðvitað lífdrykk minn nú um stundir, Coka Cola. Það er bara bjart yfir mér og dýrinu mínu. Við sendum bestu kveðjur með von um að friður ríki í hjörtum vina okkar, ykkar Hösmagi.

Monday, April 27, 2009

 

Eftirþankar.

Kominn mánudagur og þjóðin hefur kosið. Íhaldið fékk ærlegan skell þó hann hefði mátt vera enn meiri. SF og VG hafa þokkalegan meirihluta á þingi. Saga til næsta bæjar. En strax í gær kom í ljós að það er mjög óvíst um samstarf þessara flokka. VG jók fylgi sitt um yfir 50%. Það gerði flokkurinn einnig 2007 og er nú kominn með 14 þingmenn í stað 5 fyrir 2 árum. SF hefur minna fylgi nú en 2003. Þetta eru blákaldar staðreyndir. Það er sorglegt hvernig úrslit þessara kosninga eru túlkuð af hörðustu fylgismönnum ESB. Af hverju má ekki fara lýðræðislega að þessu eldheita deilumáli?Það er alls ekki sjálfsagt að sækja um aðild og það er líka fráleitt að kanna ekki bestu leiðina til þess. Þingflokkar SF og VG þinga í dag. Spá mín er sú, þrátt fyrir afgerandi vinstri sigur, að það verði afar erfitt að mynda ríkisstjórn. Það varð ljóst eftir þáttinn með forustumönnum flokkanna í gærkvöldi. Jóhanna sagðist hafa marga kosti til stjórnarmyndunar. Hún hefur stillt VG upp að vegg þrátt fyrir að það er fyrst og fremst fylgisaukning þess flokks sem nú hefur orðið til þess að í fyrsta sinn í sögunni er möguleiki á 2ja flokka vinstristjórn. Nú eru mörg gífurlega brýn verkefni framundan. Samt kemst ekkert annað að hjá SF en að sækja strax um ESB aðild. Lettland hefur verið 5 ár í ESB og enn eru mörg ár í evruna hjá þeim. Á Spáni er nú 17% atvinnuleysi og spánverjar leita að leiðinni til baka. Það er mjög auðveld leið til að kanna kosti og galla við aðild án þess að sækja um hana strax. Það á að ná lýðræðislegri sátt um aðferðina en ekki að æða áfram í blindni.Klisjan um að við verðum að kanna hvað í boði er með umsókn er eins og útslitinn geisladiskur.Í fyrsta lagi vitum við það í stórum dráttum og í öðru laga er hægt að komast að raun um það án umsóknar. Þessi mál munu skýrast í dag og næstu daga. Það þarf að leggja ofstækið á báða bóga til hliðar. Það væri mikill óvinafagnaður ef þessi sögulegu úrslit kosninganna klúðruðust. Það er þó því miður veruleg hætta á því.

Það er geysilega fallegt veður. Frekar svalt en sólin skín. Við Kimi hressir að venju eftir letilíf helgarinnar. Afmælisdagur Gunnars frænda míns sæla og ég ætla að skreppa til systur minnar að áliðnum degi. Vonandi fer að styttast í arfablíðu. Reiðhjólið Faxi er klárt í bílskúrnum og Herconinn að verða ansi óþolinmóður.Bestu kveðjur frá rauðliðunum, ykkar Hösmagi.

Thursday, April 23, 2009

 

Sumarkoma.

Gleðilegt sumar, krúttin mín kær. Það var nú ekki sumarlegt að kíkja út í morgun. Mugga, og Ingólfsfjall alhvítt. En veturinn er að baki og nú er það beina brautin framundan. Tveir dagar í kosningar og málin að skýrast. Ég kom við hjá VG í gær. Það jaðraði við að ég hrykki öfugur út úr dyrunum. Það var sem sé meistarinn mikli sem blasti við fyrstur manna. Hann er sem betur fer ekki á framboðslistanum svo ég fer á kjörstað. En það er alveg öruggt að VG fær ekki mitt atkvæði í næstu sveitarstjórnarkosningum. Ætla ekki að verðlauna núverandi bæjarfulltrúa fyrir "vel unnin störf". Nóg um pólitíkina í dag.
Í síðustu viku brá ég mér í bíltúr uppí Gímsnes. Á Lancelot hinum bláa. Ekki í frásögur færandi og leiðangurinn gekk ágætlega. Ég lagði vagninum fyrir framan bílskúrinn. Daginn eftir neitaði þessi rennireið að vakna. Ég hringdi í Hörð eftir hádegið. Hvað annað? Hann kom svo eftir vinnu og komst að því að kveikjan sendi ekki neista niður í kertin svo það kviknaði ekki í bensínblöndunni. Daginn eftir fór ég sérstaka ferð í bæinn og fékk notaða kveikju í Vöku. Snillingarnir þar létu mig hafa kveikju sem passaði ekki. Daginn eftir fórum við Maggi í Tangavatn. Þangað hringdi Hörður bílameistari og var búinn að finna gamlan Lancer út á túni niðri í sveit. Hann fékk kveikjuna úr honum. En Lancelot var áfram andvana. Hörður svaf á þessu dularfulla máli um nóttina. Eftir vinnu á þriðjudag fórum við í sveitina og sóttum tölvuna úr vagninum sem lagt hafði verið. Í henni er heilinn sem stjórnar kveikjunni. Hörður var snöggur að skipta um og nú fór Lancelot að mala eins og Rakonen í dyngju sinni. Hann hafði semsagt orðið fyrir snögglegri heilabilun við bílskúrinn í Ástjörn 7. Eins gott að það henti ekki Hösmaga sjálfan. Gamli Lancerinn er með stóra sál eins og flestir mínar bílar um dagana. Nú á ég varakveikju og get örugglega fengið restina af þeim gamla í túnfætinum í Villingaholti. Ég mun líka þekkja galdramanninn góðkunna áfram. Það er nú ekki ónýtt þegar þarf að notast við gamla og lúna vagna.
Eiturbyrlarinn minn átti afmæli í fyrradag. Hann hafði fengið gott að borða hjá Boggu sinni en það var öllu verra með púlarana. Æ. æ. Og mér sem er svo nákvæmlega sama um ensku knattspyrnuna. Kannski bara einn af örfáum. Svo verð ég líka bráðum eini íslendingurinn sem ekki er á facebook.Fyrr um daginn var ég í málflutningi í héraðsdómi Suðurlands. Djöfull var ég nú myndarlegur í lögmannaskikkjunni.Held að mér hafi tekist nokkuð vel upp og ég fái góða niðustöðu í málið á morgun.
Ég er glaður í dag og mér sýnist Kimi vera það líka. Eigum hvorn annan að. En það er líka fleira sem gleður hjarta gamals veiðimanns. Ljúfar minningar rifjuðust upp fyrir skömmu. Fiturönd á lambalundum og heitt handklæði eftir baðið í dögginni á Jónsmessunótt. Það sem aldrei hefur komið fyrir áður skeður örugglega í sumar. Nú er fjallið aftur orðið autt upp í miðjar hlíðar. Sumarið er að koma. Ástarkveðjur frá okkur Dýra, ykkar Hösmagi.

Sunday, April 19, 2009

 

Suðaustan 14 metrar.

Það er hlaupinn vorgalsi í Kára. Það þýtur í laufi og öðru hvoru þeytist regn um loftið. Við Kimi höfum haldið okkur innandyra að mestu leyti. Letin ráðið ríkjum og ég hef verið í einskonar móki. Við Magnús brugðum okkur í Tangavatn í gær. Vissir um tengsl við urriða. Vatnið var alveg dautt. Við Herconinn grétum báðir. Þetta er í raun mjög dularfullt. Frúin sagðist nýlega hafa sleppt 150 fiskum í vatnið. Örfáir veiðst. Það vakna að sjálfsögðu illar grunsemdir. Mér finnst alls ekki fráleitt að alíensarnir hafi komist uppá bragðið. Varla hverfur fiskurinn bara rétt si sona. Hver sem skýringin er mun ég ekki ergja mig og mína góðu veiðistöng á Tangavatni á næstunni. Rækjunen naut góðs af afgangsbeitunni. Gæddi sér á nýkeyptri úrvalsrækju af stærstu gerð. Nú er Whiskas fóðrið liðin tíð. Nú er það Icelandpet. Ný íslensk framleiðsla sem er miklu ódýrari og virðist vera gæðavara. Hráefnið að mestu íslenskt og Kimi úðar þessu í sig. Gott í kreppunni og sparar gjaldeyri. Ófétið hætt að láta sjá sig. Ég er nokkuð viss á skýringunni. Þetta óféti er sjálfstæðisköttur. Það er hellingur af ófétum í þeim flokki. En kötturinn hefur það þó fram yfir mannskepnurnar að hann skammast sín og þorir ekki að láta sjá sig. Að minnsta kosti fram yfir kosningar. Hins vegar gengur Árni Johnsen hér ljósum logum. Fús til starfa fyrir okkur aumingjana. Ekki alldeilis amalegt. Allskonar spilverk að auki og náhirðin klappar. Árni ætlar eins og Þorgerður að "klára dæmið". Það er þó ekki ljóst hvað þessi klárun merkir. Nærtækast er þó að álykta að íhaldið hafi ekki alveg verið búið að ganga frá þjóðfélaginu en nú eigi að ljúka við það. Það vil ég ekki og sem betur fer bendir flest til þess að dæmdir og ódæmdir þjófar verði úti í kuldanum að kosningum loknum. Það kemur í ljós bráðlega. Krúttkveðjur frá okkur Rækó, ykkar Hösmagi.

Tuesday, April 14, 2009

 

Vorhugur.

Páskunum er lokið og nú er að koma að vorinu. Samkvæmt spám verður tveggja stafa hitatala á mælunum frá fimmtudegi og fram yfir helgi.Það er ekki nokkur vafi á að Herconinn sleppur úr prísundinni í bílskúrnum einhvern næstu daga. Hann á líka mikið verk fyrir höndum við línustrengingar í sumar. Í höndunum á Hösmaga gamla sem lengi hefur elskað þessa veiðistöng. Því miður hefur framleiðslu á þessum stöngum verið hætt. Frábær íslensk framleiðsla sem mikil eftirsjá er að. Kannski væri lag nú að byrja aftur. Ég yrði nánast lens ef eitthvað kæmi fyrir þetta eftirlæti mitt. Prófa kannski smáauglýsingu í Mogganum. Hér er nú dumbungur og hitastigið í kringum 6 gráður. Við Kimi hófum morgunverkin nokkuð snemma. Hann lenti aðeins í ófétinu í gærmorgun. Flýði í skjól fóstra síns með skottið óvenjudigurt. Við höfum haft sæmilegan frið fyrir þessum óvelkomna gesti og ég var farinn að vona að hann væri fluttur útí Hveragerði. Skyldi hitastigið á kaffinu vera komið uppfyrir 32°þar? Ég efast um það. Þessi staður er aðallega byggður íhaldsmönnum svo það er ekki á góðu von. Aumingja blessað fólkið.

Nú eru bara 11 dagar til þingkosninga. Málþóf íhaldsins um stjórnarskrárbreytingar mun væntanlega halda áfram fram eftir vikunni.Það mun ekki gagnast því neitt. Ömurð FLokksins er átakanleg. Jafnvel harðir öfgamenn náhirðarinnar eru farnir að efast.Ekkert bendir til annars en pólitískrar einsemdar þessa fyrrum langstærsta flokks þjóðarinnar. Hann er gegnrotinn af spillingu sem ekki er hægt að fela lengur. Fnykurinn af hræinu svo yfirþyrmandi að það hálfa væri mikið meira en nóg.Nú bíðum við bara. Það þarf ekki að segja mikið meira. Íhaldið sér sjálft um urðun sína þann 25. Bestu kveðjur frá okkur rauðskotti, ykkar Hösmagi.

Saturday, April 11, 2009

 

Rós í hnappagatið.

Það er margt að skýrast vegna styrkja til stjórnmálaflokkanna.Ef árið 2006 er tekið eitt og sér og aðeins teknir styrkir sem eru hálf milljón og þar yfir fær íhaldið rúmar 80 milljónir. SF 45, framsókn 33 og VG 1 milljón. Styrkirnir til sjallanna, SF og framsóknar eru aðallega frá bönkunum og útrásarvikíngunum. Þaðan kemur ekki ein einasta króna til VG. Þetta gefur VG rós í hnappagatið frá mér. VG varð 10 ára um daginn. Frá stofnun hefur bókhaldið verið opið og enginn feluleikur í fjármálunum. Hvað skyldi íhaldið hafa fengið á þessum 10 árum? Örugglega mörg hundruð milljónir. Mörg hundruð milljónir af peningunum sem glæpalýðurinn stal frá okkur. Og SF og framsókn hafa fengið tugi milljóna úr sömu hendi. Þetta er engin smörklípa heldur óumdeilanleg staðreynd. Það er gott að vera ekki í neinum vafa hvernig ég kýs eftir hálfan mánuð. Flokkinn, sem hefur hreinan skjöld og ber enga ábyrgð á óstjórninni, spillingunni og sukkinu sem viðgengist hefur undanfarin ár. Farsælast væri að hann yrði stærstur flokkanna að kosningum loknum. Á þessu er ég eins og hrútur. Harður í horn að taka.
Það er yndislegt veður þó hitastigið sé innan við 3 gráður. Nokkuð bjart og nánast logn. Tangavatn kemur í hugann. Kannski bíður það uns við fáum 2ja stafa tölu á hitamælinn. Ég vaknaði klukkan 6 í morgun. Þó undarlega hljómi er það óvenjuseint. Kaffi að venju og samneyti við Dýra. Við erum báðir svolítið rauðir en þó grænir um leið. Ég held svo áfram að fylgjast með hinum dramatíska sjónleik sjáLfstæðisFLokksins. Þessi ömurð er að ná hámarki. Fyrrum framkvæmdastjóri segist vita hverjir sníktu 55 milljónir út úr FL group og Landsbankanum.Kannski ekki rétt að kalla það sníkjur þegar mútuþegar fara á stúfana. En það hentar ekki að segja frá því strax. Það þarf að plotta pínulítið fyrst. Hvítþvo sem flesta áhrifamenn FLokksins ef einhver leið er til þess. Kannski væri hægt að klína þessu á skúringakonuna í Valhöll. Því hefur allavega verið lýst yfir af mörgum foringjunum að þeir hafi ekkert komið að málinu. En keisarinn er allsber. Kviknakin ofurspilling skín af flestum forustumönnum FLokksins. FLokksins, sem þjóðin mun senda útí myrkrið þegar við hin tökum á móti vorinu. Bestu kveðjur frá okkur vinunum, ykkar Hösmagi.

Friday, April 10, 2009

 

Lambasteik.

Mér áskotnaðist lambalæri um daginn. Lærið var ættað úr Selvoginum.Það er dulúðug sveit með sterka strauma. Gæti verið arfleið Eiríks í Vogsósum. Hann vissi lengra nefi sínu og er kunn sagan þegar hann festi ungan svein á hross sem hann hafði bannað pilti að ríða. Stráksi var ráðagóður og skar setuna úr buxunum og komst af hrossinu. Eiríkur sá að þetta var mannsefni og gerði gott úr öllu saman. Ingibjörg systir mín lánaði mér emilerað eldunarbox um daginn. Ég ákvað að gera tilraun í eldamennskunni. Fyrst kryddaði ég lærið að neðanverðu með salti og frönsku sveitakryddi. Snéri því svo, saltaði aðeins, og hellti olívuolíu yfir. Síðan kom meira sveitakrydd og að lokum reyksalt, Hicory. Lokið á, boxið inní ofninn og svo var kynnt á 200°. Eftir 70 mínútur kíkti ég í boxið. Þetta leit vel út. Kartöflurnar fóru í pott og ég lækkaði kyndinguna í 150°. Að tuttugu mínútum liðnum slökkti ég á ofninum. Lærið leit sérlega vel út. Hæfilega brúnt og ekki spillti ilmurinn. Ég er að springa úr monti yfir þessu verki. Lærið reyndist sérstaklega ljúffengt á bragðið og vel meyrt og safaríkt. Að sjálfsögðu réðist ég fyrst á hækilinn ásamt þrem þunnum sneiðum. Rauðar íslenskar og rabarbarasulta. Ég er enn pakksaddur af þessum dásamlega veislumat og hér eftir kvíði ég ekki fyrir að elda lambalæri. Harðfiskurinn bíður kvöldsins og ég ætla að lofa vini mínum að rífa vel í sig með mér.
Ég er nýkomin heim úr bíltúr. Þruman gljáandi græn eins og vinstra vorið sem er í nánd.Kíkti á bátana í höfninni í Þorlákshöfn og ók síðan upp Ölfus, í Hveragerði og heim á Selfoss. Drakk kaffi hjá Grétu og svo beint á netið þegar heim kom. Raikonen sofandi í húsbóndastólnum í stofunni. Það var vel við hæfi. Nú fylgist maður með hvað næst gerist í tagedíu íhaldsins. Þetta er sannarlega leikhús fáránleikans. Dostojevskí bliknar í samanburðinum. Það er ekki hægt að höndla þetta. Öll sund eru lokuð og engin leið fær til að ljúga sig frá skömm spillingarinnar. Og hin fræga kosningamaskína íhaldsins mun ekki duga í þetta skipti. Fnykurinn er hrikalegur og norðangolan nær ekki að koma honum burt. Þetta er bara bráðskemmtilegt.
Dýri var að skila sér inn. Hann er nú með fésið á kafi í harðfiskinum. Mikið mal bráðum. Bestu kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Thursday, April 09, 2009

 

Þorparastrik.

Einhver bölvaður þorpari hefur kjaftað frá. Nóg var nú erfitt ástandið hjá Flokknum.30 millur frá Jóni Ásgeiri og Hannesi og svo 25 til viðbótar frá Björgólfi. Ég hef reyndar einn sterklega undir grun. Sumum kann að finnast það langsótt. Ég á við krossberann. Honum er auðvitað alveg sama nú.En haldiði að hann hafi gleymt skömmum Geirs um daginn? Það er auðvitað spaugilegt að þessi styrkur, sem er ekkert annað en mútur, skuli koma frá FL group. Baugsfyrirtækinu.Hvorugur af framkvæmdastjórum Flokksins kannast við neitt. Undarlegt að verða ekki var við 55 millur inná tékkheftinu. Hundurinn sagði ekki ég, kötturinn sagði ekki ég en svo hringdi Geir og sagði það var ég. Hér gildir lögmál Murpys. Ef eitthvað getur farið úrskeiðis þá gerir það það. Það þarf mann án skilningarvita til að trúa Geir. Hann er hættur í pólitík og greindin ekki meiri en svo að hann trúir að með því að segja það var ég séu allir hinir stikkfrí. Hirðfífl náhirðarinnar blogga nú hvert um þvert um málið. Óperusöngvarinn sem ætlaði sér að verða þingmaður sunnlendinga segir að þessar upplýsingar komi núverandi stjórnvöldum vel. Og spyr hvort það sé tilviljun. Ýjar að "leka" frá skattinum. Það góða við þessar féttir er að það er engin leið að ljúga sig frá þeim. Flokkurinn hefur verið staðinn að verki. Rétt fyrir kosningar. Flokkurinn sem kennt hefur öðrum um hvernig komið er. Hið rétta andlit hans blasir við öllum nema þeim hörðustu í náhirðinni. Spillingin berstrípuð. Spillingin, sem hirðin hefur talið vonda menn vera að klína á hann. Sumir hirðmannanna segja líka að allir hinir hafi þegið styrki. Nú séu reglur til um þessa hluti og það sé nóg. Best væri auðvitað að allir flokkarnir legðu spilin á borðið. Siv vafðist eitthvað tunga um tönn þegar minnst var á þetta í þættinum úr Hafnarfirði í gær. Við könnumst sum við spillinguna á þeim bænum.Og það er hálfundarlegt að styrkir til SF voru u.þ.b. 22 miljónir samtals fyrstu 5 ár aldarinnar en 45 milljónir árið 2006. Ef farið er inná vg.is má sjá ársreikninga vinstri grænna frá 2003 til 2008. Þar eru nú ekki háar tölur. Það nýjasta er að einn íhaldsmaðurinn heldur því fram að ESB fjármagni SF. Þessar dylgjur eru nú ekki svaraverðar enda settar fram til að reyna að dreifa athygli fólks. Það sem gera þarf er fá bókhald allra fokkanna uppá borðið strax og eins langt aftur í tímann og mögulegt er.
Í dag var birt ný könnun. Samkvæmt henni fá SF og VG 40 þingmenn. Þar munar mest um að VG tvöfaldar þingmannatölu sína. Þetta er könnun en ekki úrslit kosninga. En það er ljúft að hugsa til þess að könnunin var gerð áður en þorparinn kom upplýsingunum um millurnar á framfæri. Íhaldið er alveg á rassgatinu. Þar skulum við hafa það sem lengst.
Við Kimi hefum það fínt á þessum upphafsdegi páskahátíðar. Ætli við fáum okkur ekki harðfisk á föstudaginn langa. Mjög við hæfi á þeim degi. Hálfgerð kalsarigning og voða gott að halda sig í rólegheitum innan dyra. Ég hef nú lokið við allar bækurnar um Mmm Precious Ramotswe. Mjög skemmtileg lesning. Ég er hreinlega stundum staddur á verkstæðinu. Spíttmótora kann ég vel við. Við félagarnir sendum ykkur bestu óskir um gleðilega páska. Ykkar Hösmagi.

Tuesday, April 07, 2009

 

Tölurnar.

Það er alkunna hvað Hösmagi unir sér við talnakúnstir. Áhugi minn á tölum er örugglega meðfæddur og ég man varla eftir mér nema teljandi alla skapaða hluti. Ég reiknaði út um daginn að þann 30. mars urðu Helga Soffía og Raikonen fertug.Það var bara einföld samlagning. En afmæli geta að sjálfsögðu orðið utan afmælisdaga. Þannig hef ég komist að því að þann 16. september n.k. verðum við Dýri 7tugir. Samanlagður líftími 70 ár. Mér finnst eiginlega við hæfi að stefna á veislu þennan dag. Einskonar karnival til heiðurs okkur fósturfeðgum. Uppskeruhátið fyrir veiðiskap og önnur afrek Hösmagaættarinnar á árinu 2009. Er þetta ekki alveg rakið? Það yrði ýmislegt góðgæti á borðum og eitthvað gott til að skola því niður. Ég ætla allavega að hugleiða þetta vel.
Hér er nú veður kyrrt og fremur milt. Kimi var að lauma sér út um gluggann í annað sinn í morgun. Hösmagi fór líka snemma út. Hið daglega sauðaeftirlit hefur sinn gang. Jörðin er alauð en nokkrir skaflar eru eftir í efstu hlíðum Ingólfsfjalls.Ég sé líka hluta af Búrfellinu þar sem óðalið liggur undir norðurhlíðinni. Mér finnst vænt um þessa spildu og vonandi get ég átt hana áfram. Þó áætlanir hafi breyst er draumurinn um kærleikskotið ekki horfinn. Glæpahyskið sem stal öllu sem hægt var að stela af þjóðinni er enn ósnert. Og dæmdur þjófur klæmist á texta Magnúsar Ásgeirssonar úr ræðustól Alþingis. Félegt, eða hitt þó heldur. Allt bendir þó til breytinga. Vonandi komum við sem flestum þjófunum fyrir í tugthúsinu. Upp á vatn og þrumara eins og í gamla daga. Það væri líka athugandi að taka upp ný vinnubrögð á ýmsum sviðum. Mér dettur VÍS í hug. Þetta gamla tyggingafélag merarfinns lánaði nafna mínum Einarssyni 75 milljónir milli jóla og nýárs. Þetta var miskunnarverk eins og fólk hlýtur að sjá. Vínkjallarinn í sumarhöllinni ókláraður og eitthvað vantaði víst uppá baðherbergin 5. En ég verð nú að segja eins og er að ég ætla ekki að breyta um tryggingafélag. Ég mun gráta það þurrum tárum þó þessi nafni minn verði að láta vatn og rúgbrauð duga um tíma. Hann er eins og flestir hinna víkinganna. Blindur, heyrnarlaus og samviskulaus. Það er gustukaverk að taka svoleiðis karaktera úr almennri umferð.

Kærar kveðjur frá okkur vinstri rauðgrænum, ykkar Hösmagi.

Monday, April 06, 2009

 

Veröld Hösmaga.

Það er gott að vita til þess, að bloggi ég ekki í nokkra daga, skuli einhver taka eftir því. Veröld mín er söm og áður. Alsgáður og nokkuð hress. Barasta fjallhress svona ámóta og Dýri. Hann sækir nú fast að láta hleypa sér út á morgnana. Það er merki um að það er tekið að vora. Sem er ákaflega ljúft. Páskar að ganga í garð og og veiðifiðringurinn gerir vart við sig. Herconinn bókstaflega mændi á mig í bílskúrnum í morgun. Ég fullvissaði þessa veiðistöng um að hún skyldi vera við öllu búin. Þarf að hringja í Magga og huga að Tangavatnsför. Margir frídagar á næstunni Af spánni að dæma verður sæmilega hlýtt og þurrt næsta laugardag og alveg rakið að athuga málið.Nú er verið að massa framstuðarann á grænu þrumunni. Mér finnst voðalega ljótt að nudda sér utan í svona fínan vagn og stinga svo af frá glæpnum. Í rauninni eins og þjófnaður því ég verð að draga upp veskið og borga. Ég myndi lesa þeim seka pistilinn vissi ég hver hann væri.Og skæfi ekki utanaf því.
Formenn stjórnmálaflokkanna voru í kastljósi á föstudaginn.Ég var nokkuð hissa á hve hinn nýi formaður sjálfstæðisflokksins var slappur. Hugmyndafátæktin áberandi.Lausnin í atvinnumálum ný álver í Helguvík og á Bakka. Gjafarafmagn frá Landsvirkjun sem er nánast gjaldþrota eftir Kárahnjúka. Álverð í lágmarki. Væri ekki nær í bili að veiða meiri þorsk. Hundrað þúsund tonn af þorski gefa 40 milljarða. Þó vísindastofnanir séu ágætar verðum við líka að hlusta á sjómennina. Þó mikill ágreiningur sé milli VG og SF um evrópubandalagið er ég samt viss um að þessir flokkar munu starfa saman að kosningum loknum. Og SF mun alls ekki setja VG stólinn fyrir dyrnar út af þessu máli. Jóhanna lýsti því líka yfir að ekki yrði sótt um aðild strax eins og Dagur fullyrti. Það verður að hafa hemil á ofsatrúarfólkinu. Bæði þeim sem telja að allar okkar raunir gufi upp við aðildarumsókn og hinna sem berjast gegn málinu af einhverskonar þjóðrembingshætti.Það eru allir stjórnmálaflokkar klofnir í þessu efni og þjóðin þar með. Ég vona sannarlega að VG muni vinna þann sigur í kosningunum sem allt bendir til. Það eru allt of margir vafagemlingar í samfylkingunni. Verði sigur vinstri grænna nógu stór eru miklu meiri líkur á að réttlætið nái fram að ganga í samfélaginu. Unga fólkið sér þetta best. Það er ánægjuleg staðreynd í veröld Hösmaga.

Ég ætla í afmæli í dag. Fyrrum sambýliskona mín, Gréta, er fimmtug. Ég var einu sinni yfir mig ástfanginn af henni. Nú hefur góð vinátta orðið aðalatriðið. Það er gott. Við vinstri rauðir sendum öllum vinum góðar kveðjur. Og kjósið nú rétt, skinnin mín, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online