Friday, September 30, 2005

 

Gnauð.

Norðanvindurinn gnauðar á glugganum. Og myrkrið er svart. En hér í Ástjörn vaka vinir tveir. Tveir rauðhausar, Urriðaskelfir og Raikonen. Sá síðarnefndi smjattandi eftir að hafa lokið við nætursöltuðu ýsuna frá því í gær. Líklega réttnefndur Smjattpatti. Fékk hana í sárabætur fyrir hagamúsina. Október genginn í garð. Og kaldasti september í manna minnum liðinn. Held nú samt að þetta verði enginn fimbulvetur. Ég sá viðtal við fréttastjóra Fréttablaðsins í sjónvarpinu í gærkvöldi. Hann sagði m.a. að það væri árás á tjáningar- og prentfrelsi að mega ekki birta einkatölvupóst fólks. Ef brotist væri inn hjá mér og afritum ástarbéfa minna væri stolið og þau síðan birt væri það líkast til árás á prentfrelsi ef ég reyndi að koma í veg fyrir það. Kannski hefði eitt bréfið verið til Jónínu einstæðu. Eins gott fyrir þjóðina að fá að lesa það. Eru menn raunveralega slegnir algjörri siðblindu? Geta menn réttlætt þjófnaðinn með því að telja að fréttagildið skipti svona miklu máli?Og að þjófurinn birti bara það sem honum þóknast og þegi yfir öðru? Mér finnst að ólyktin af þessu öllu saman fylli loftið. Hvað yrði sagt um hnefaleikara sem ynni lotuna á því að sparka í punginn á andstæðingnum. Líklega bara andskoti töff.
Raikonen hefur engar áhyggjur af þessu. Situr hér á borðinu og malar. En ég segi nú bara eins og skáldið góða. Finnst ykkur ekki Esjan vera sjúkleg. Og Akrafjallið geðbilað. Sæl að sinni, krúttin mín, ykkar Hösmagi.

Wednesday, September 28, 2005

 

Nýtt gæludýr?

Aftur komið frost. Gott að viðra sig aðeins í kælunni. Ferska loftið gott með morgunvindlinum. Hleypti gæludýrinu út sömu erinda nema það er alveg laust við nikótínfíknina. Settist við tölvuna, kíkti á moggavefinn og las tölvupóstinn. Varð fljótlega var við kisa og þótti hann nokkuð búralegur á svipinn. Við nánari athugun kom í ljós að hann hafði borið inn lifandi hagamús og sannarlega sá ég það nú hvernig hægt er að leika sér eins og köttur að mús. Þar sem mér varð ljóst að þetta nýja dýr yrði varla heimilisdýr hér á bæ króaði ég það af, kom yfir það handklæði og fjarlægði það héðan. Vonandi í eitt skipti fyrir öll. En þau eru búin að vera ámátleg hljóðin í kisa mínum. Hann leitar og leitar og horfir á mig rannsakandi augum. Grunar mig örugglega um græsku. Skil þetta afarvel þar sem ég er veiðimaður sjálfur. Minnir mig á gamla daga. Í sænska húsinu með kettinum Hösmaga hinum horska. Kom inn með skógarþröst og geymdi hann bak við skáp í stofunni. Eftir mikinn eltingarleik við fuglinn tókst undirrituðum að fanga hann í handklæði og hann flaug fljótlega á vængjum sínum út í himingeiminn. En Hösmagi varð afar sár við fóstra sinn. Eftir að ég hleypti honum úr prísundinni á salerninu leitaði hann um alla íbúð. En fuglinn var sem sé floginn. Og fóstri var sökudólgurinn. Hann fyrirgaf að sjálfsögðu. Það er auðvitað mikil dyggð að fyrirgefa. Jafnt vinum sínum sem óvildarmönnum. Það tókust sættir með okkur Hösmaga og við héldum áfram að elska hvorn annan. Sé hann kannski síðar á hinum eilífu veiðilendum. Bestu kveðjur, Fiskihrellir.

Tuesday, September 27, 2005

 

Fnykur.

Baugsmál efst á baugi enn um sinn. Farsinn tekur daglega á sig nýjar myndir. Fólk ber harm sinn á torg. Kona, einstæð 3ja barna móðir, sem átti 200 milljónir flæktist inní mestu skítafjöldkyldu heimsins og varð bara allt í einu gjaldþrota. Hefndarhugurinn stjórnar framhaldinu. Og tölvupóstur Jóns og Gunnu er galopinn öllum sem hann vilja lesa. Launráð hér og launráð þar. Það er auðvitað megnasta skítalykt af þessu öllu. Innviðir viðskiptaþjóðfélagsins koma í ljós. Baráttan um auðinn. Í þeirri baráttu er allt leyfilegt. Og yfirnagarinn ber enn hausnum við steininn. Síðast í gærkvöldi. Baugur gín yfir öllu. Verslun og fjölmiðlum. Ég hélt að við ættum ríkisútvarpið ennþá. Og Morgunblaðið á lífi líka. Ég þekki þá Baugsfeðga ekkert. Örugglega harðir naglar í viðskiptum. Allt of harðir fyrir gamla Kolkrabbann sem aldrei hefur þolað samkeppni af nokkru tagi þó á yfirborðinu hafi verið talað fjálglega um einkaframtak og viðskiptafrelsi. En almenningur kaupir auðvitað kaffi og mjólk þar sem þessar vörur eru ódýrastar. Ekki lái ég honum það og geri það að sjálfsögðu líka. Nornaveiðarnar munu halda áfram a.m.k. enn um sinn. Sá sem hefur setið einn að kökunni þolir ekki að aðrir fari að narta í hana. Við fylgjumst með framvindunni. Hér sit ég og get ekki annað sagði Marteinn Lúther forðum.
Raikonen úti að hnusa af golunni. Orðinn köttur og þó alls ekki hættur að vera kettlingur. Flískúlurnar enn afskaplega skemmtilegar. Elskar þær heitar enn önnur leikföng. Verður hálfsárs á föstudaginn. Hrútur eins og Helga Soffía. Og hvernig er það annars. Er litla Edinborgarfjölskyldan alveg hætt að blogga? Með bestu kveðjum frá okkur fósturfeðgum, ykkar Hösmagi.

Friday, September 23, 2005

 

Fýkur yfir hæðir.........

og frostkaldan mel. Haustið er komið.Hitastigið svona í kringum núllið megnið af sólarhringnum.Skæni á pollum allan daginn þar sem ekki nýtur sólar. Menn byrjaðir að velta bifreiðum sínum á Hellisheiði. Einkennilegt hvað margir bílstjórar eru ómeðvitaðir um árstíðirnar á Íslandi. Og svo nota tryggingafélögin tækifærið og hækka iðgjöldin. Þeir vinir, Raikonen og Baltasar Kormákur, byrjuðu sín daglegu áflog snemma morguns. Eru nú að hnusa af kælunni úti. Áhyggjulausir af tilveru sinni og annara. Ég var nú að láta mér detta í hug að renna í Ölfusá í dag. Hún er nú vel tær eftir að kólna tók. En líklega hef ég mig ekki í það. Lágt hitastig en þó ágætisveður. Lokað fyrir veiði 28. september svo það eru síðustu forvöð. Nóg að taka ákvörðun um þetta eftir hádegi.Nú segir Gallup að íhaldið vinni borgina að nýju. Fái 9 fulltrúa, Samfylking 4 og VG 2. Framsókn og frjálslyndir núlleraðir. Sjálfur hef ég trú á að þetta muni breytast. Reyndar ekki viss um að Framsókn ranki neitt við sér enda gott að losna við hana. Hinsvegar er Ólafur Magnússon frjálslyndi hinn ágætasti maður. Umhverfissinni og lætur ekki kúga sig til hlýðni. Mættu vera fleiri slíkir í pólitíkinni. Tíminn leiðir þetta allt í ljós. Vinni íhaldið borgina fá kjósendur annað tækifæri að 4 árum liðnum. Baugsmálið tröllríður öllum fjölmiðlum enn. Og hinn eftirlýsti ríkislögreglustjóri náðist í Þýskalandi í gær. Voðalega sár yfir því að menn skuli gagnrýna hann og störf lögreglunnar. Eins og við mátti búast. Enda liggur fyrir að þessi rannsókn hófst einungis vegna kæru Jóns Geralds Sullenbergers. Kannski tilviljun að lögmaður hans á þeim tíma var Jón nokkur Steinar Gunnlaugsson, einkavinur Davíðs Oddssonar. Sá sem nú situr í hæstarétti sem næstur mun tala í þessu máli. Sér væntanlega sóma sinn í því að víkja úr dómnum vegna fyrri aðkomu að málinu. Svo er þar líka Ólafur Börkur. Hann og Davíð eru systkinasynir. Það hlýtur að vera alger tilviljun að 2 nýjustu dómarar réttarins skuli báðir svo nátengdir nýja yfirnagaranum. Eða hvað? Spyr sá sem ekki veit. Mér telst nú svo til að þetta sé pistill nr. 80 frá því ég skrifaði nokkur orð í Lögmannasundi fyrir jólin í fyrra. Reikna nú ekki með að margir lesi þessi skrif. Held því sjálfsagt áfram enn um sinn. Meðan ég hef gaman af því sjálfur og hef ekkert þarfara að gera. Með kveðju úr morgunkyrrðinni, ykkar Hösmagi.

Thursday, September 22, 2005

 

Þensla.

Í dag, 23. september 2005, er nákvæmlega eitt ár frá því undirritaður festi kaup á þessari ágætu íbúð sem ný hýsir okkur Raikonen.Finnst það raunar hálfótrúlegt. Það er einkennilegt þjóðfélag sem við lifum í hér á Íslandi. Og mótsagnakennt. Ungt fólk kaupir sér íbúð og slær lán fyrir nærri öllu kaupverðinu. Þetta er mjög reglusamt fólk. Það reykir ekki og bragðar ekki áfengi. Svo dettur fjármálaráðherranum í hug að hækka brennivínið. Það er auðvitað inní neysluvísitölunni. Og hún hækkar. Lánið er bundið henni og lánið sem hið unga og reglusama fólk var að taka hækkar um tugi þúsunda um leið. Á þetta að vera svona? Auðvitað ekki. Við erum bara í vítahring meðan verðtryggingin er notuð sem eina úrræðið í efnahagsmálum. Hækkunin á neysluvísitölunni undanfarið ár er reyndar langmest vegna hækkunar á íbúðaverði.Kjarasamningar í uppnámi. Stjórnvöld virðast aldrei læra neitt af reynslunni. Allra síst þau sem nú eru við stýrið. Líklega best að hafa það eins og ég hef það. Láta hverjum degi nægja sína þjáningu og kippa sér ekki upp við smámuni. Eða bara eins og Loðvík fjórtándi sagði.
Það lafir meðan ég lifi. Það kemur að því að íbúðaverð hætti að hækka. Og auðvitað getur það lækkað líka. Hvað gerist þá ef fólk hefur tekið 100% lán fyrir íbúðinni eins og margt ungt fólk hefur gert? Það verður að föngum í sínu eigin húsnæði. Ef það vill selja íbúðina og flytja sig um set þá þarf að borga með henni. Upphæð lánsins sem er verðtryggt er orðin meiri en verð íbúðarinnar. Það er eitthvað meira en lítið að í efnahagsmálum þjóðar þar sem þetta getur gerst.Vonandi kemur að því að heilsufarið í efnahagsmálum verði það gott að verðtryggingin verði afnumin.

Það verður fróðlegt að sjá hvað Hæstiréttur gerir í Baugsmálinu. Ég ætla ekkert að spá neinu um það. En allt er þetta hið undarlegasta mál. Og búið að kosta okkur skattgreiðendur mikið fé. Ég tek nú ekki undir raddir um að Davíð hafi sigað lögreglunni á þá Baugsfeðga. En auðvitað vita allir um hug hans til þeirra. Lögreglan líka. Ég leyfi mér því að efast um að þessi rannsókn hefði farið af stað ef þeir hefðu verið þessum núverandi yfirnagara þóknanlegir. Kannski hef ég rangt fyrir mér. Efast þó mjög um það. Með kveðju, ykkar Hösmagi.

Tuesday, September 20, 2005

 

Miðnæturmessa.

Klukkan bara rúmlega miðnætti. Raikonen gafst ekki upp við uppvakningar sínar. Vantaði vatn í skálina sína. Harður húsbóndi meðan ég læt hann komast upp með það. Enn kominn miðvikudagur og tíminn líður með þessum stjarnfræðilega hraða. Gerist alltaf þegar nóg er að starfa í vinnunni. Svo verður áfram út vikuna og peningarnir hreinlega hlaðast upp hjá vinnuveitendum mínum. Það eru sem sagt ekki nagaðir þar blýantar þessa dagana. Ákaflega ljúft. Meira að segja pönnukökur í gær. Ótrúlega gott fæði nýbakaðar pönnukökur. Minnir mig á einn Veiðivatnatúrinn fyrir nokkrum árum er við skáldið ásamt nafna mínum, lambakónginum hans afa, lukum næstum við 63 stykki á leiðinni inneftir. Þær smökkuðust líka dásamlega pönnukökurnar hennar Grétu. Hér ríkir nú kyrrð og ró. Nánast logn og snjórinn sem lagðist hér niður í gær allur horfinn. Enn mánuður í fyrsta vetrardag samkvæmt almanakinu. Gráni minn á stalli sínum í bílskúrnum gljáandi hress að utan og innan eftir veruna hjá Bónfeðgum í gær. Átti þessa hreingerningu skilið eftir dygga þjónustu í sumar, m.a. 5 ferðir í Veiðivötn. Hösmagi ehf. sér um sína. Og svona í framhaldi af blýantsnagi þá flaug mér í hug vísa sem ég tileinka nýjasta yfirnagaranum í Seðlabanka Íslands.

Davíð er slyngur og slóttugur maður
hann slæmir krumlum í allt sem hann getur.
Í bankanum mikla hann verður í vetur
og vermir þar gullið og unir sér glaður.

Og hvað skyldi svo þessi nagari hafa í eftirlaun þegar þar að kemur. Svona kannski 10meðallaun erfiðismannsins. Svona er nú jöfnuðurinn og réttlætið. Sérlegar kveðjur til sænska nafna. Gott að efri vörin skuli komin í lag. Og megi ykkur nú dreyma vel, krúttin mín. Ykkar einlægur Hösmagi

 

Frændsemi.

Pjetur Hafstein Lárusson leit við hjá mér í dag. Bauð í mat á laugardag og var með plön um ferð í Brynjudal í Kjós. Við erum frændur. Af kyni Lárusar G. Lúðvígssonar. Á Ingunnarstöðum bjó afabróðir minn, Lúther Lárusson. Sé alltaf eftir að hafa ekki heimsótt hann meðan enn var tækifæri til þess. Mun hafa verið allsérstæður karakter sem fór sínar eigin leiðir. Ætlaði til dæmis einu sinni að skjóta verðandi tengdason af því honum líkaði ekki við hann. Það tókst reyndar ekki og urðu menn fegnir. Nema Lúther að sjálfsögðu. Við Pjetur hyggjumst rannsaka þetta og fleira í Brynjudal. Ég þekki mjög fáa frændur mína úr þessari ætt. Enda er mér ættfræðin ekki í blóð borin. Læt Svein bróður minn um þetta. Ég veit svona hvað langafar mínir hétu og það hefur dugað nokkuð vel hingað til. Hins vegar er alltaf gaman að frétta um kynlega kvisti í ætt sinni. Og margt getur nú skondið skeð. Einhverntíma fyrir mörgum áratugum tókust tveir menn á á stjórnmálafundi í höfuðstaðnum. Endaði með því að annar henti hinum út úr húsinu. Þeir þekktust ekkert og vissu ekki að þeir áttu eina sameiginlega systur. Hana Klöru blessaða, móður mína sælu. Hálfbræður hennar en allsóskyldir innbyrðis.Fjári sniðugt bara. Móðir mín hélt lengst af að hún væri elst systkyna sinna. Komst þó að því að systir hennar sem hún kynntist á efri árum var tveim mánuðum eldri en hún. Karl afi minn líklega verið fullfjölþreifinn veturinn áður en þær fæddust. En svona var nú leikið í gamla daga. Og líklega spila menn nú af fingrum fram í þessum málum ennþá. Líka bara fjári sniðugt. Eða hvað? Með kveðju, ykkar Hösmagi.

Monday, September 19, 2005

 

Haustþankar.

Það er komið haust. Frost sumar nætur og vindurinn napur. Svo sem enginn fimbulvetur ennþá. Og verður vonandi ekki. Hafði mig ekki í fjallaferð um helgina. Drungi og leti á laugardag og rigning á sunnudag. Það er eiginlega hálf öfugsnúið að vera í fluggírnum á daginn og þræla sleitulaust fyrir kapitalistana og leggjast svo í leti um leið og heim er komið. Gerði nákvæmlega ekkert um síðustu helgi. Lét mig ekki einu sinni dreyma dagdrauma. Líklega er þetta haustdrungi sem hefur heltekið mig þessa dagana. Alltaf með pælingar um að gera eitthvað nytsamlegt og vitrænt. Og ekki verður neitt úr neinu. Kannski fæ ég vitrun einhvern daginn. Vonandi. Ekki alveg búinn að afskrifa alla veiði á árinu. En ég hef aldrei notið veiðiskapar í kulda og trekki. Þegar frýs í lykkjunum og kuldinn smýgur í merg og bein. Þessvegna hef ég aldrei farið í dorgveiði. Sem hlýtur þó að hafa sinn sjarma. Sumir tjalda bara yfir vökina og kynda tjaldið. Kannski upplifi ég það einhverntíma. Og sjóstöngin enn útundan. Hvernig væri nú að blása til sjóferðar á næsta ári? Þar er enginn kvóti og þeir sem reynt hafa eru kátir þegar í land kemur. Og svo hjálpar Raikonen til við að koma aflanum fyrir kattarnef sitt. Um þessar mundir er dagurinn jafnlangur nóttunni. Haustjafndægur mun það kallast. Gangrimlahjól tímans snýst sinn vanagang. Enn verðum við að þrauka Þorrann og Góuna. Vonum að landsfeður vitkist þó lítil von sé til þess. Hringleikarnir við Austurvöll að hefjast. Halldór reyndar í fríi. Vonandi verður hann þar sem allra lengst. Með haustkveðju, ykkar Hösmagi.

Saturday, September 17, 2005

 

Sanngirni.

Aldrei hefur mér dottið í hug að leggja þá Halldór formann og Sigga sænska að jöfnu. Þar er að sjálfsögðu reginhaf á milli, Sigurði Ólafssyni í hag. Ég lenti reyndar í því fyrir nokkrum misserum að verða allt í einu skoðanabróðir Davíðs, verðandi seðlahirðis. Það var þegar mikill fjöldi ungmenna var sviptur sjálfræði sínu með hækkun sjálfræðisaldurs. Tveir heilir árgangar.Þetta líkaði okkur báðum stórilla. Þarna var kannski forræðishyggjan að verki. Til að auðvelda barnaverndarstofu að taka unglinga sem lent höfðu í vandræðum að koma þeim undir manna hendur var farin þessi leið. Hvers átti meirihluti þessarar ungu og glæsilegu æsku landsins að gjalda? Þetta var bara löðurmannlegt. Engum er nú alls varnað. Jafnvel ekki Dóra og Davíð. Furðulegt er að fylgjast með vandræðaganginum út af hugleiðingum um framboð íslendinga til setu í öryggisráði SÞ. Auðvitað er þetta tómt prump. Nær að verja peningunum í annað nærtækara. Halldór að enda við að lýsa yfir framboði fyrir árin 2009-2010. Davíð ekki samstíga, Guðni varaformaður ekki heldur. Og meira að segja Hjálmar Árnason, einn þessara sauðtryggu fylgisveina Halldórs, er líka efasemdarmaður. Það er yfirgengilega fáfengilegt markmið að eyða svo sem einum milljarði til að fá ef til vill að monta sig í eitt ár í öryggisráðinu. Stórveldin ráða þar öllu svo sem jafnan áður. Ef eitthvað er samþykkt þar sem ekki hentar Bandaríkjunum eða öðrum stórþjóðum er samþykktin einfaldlega sniðgengin. Þarna hefur Einar Oddur alveg laukrétt fyrir sér. En auðvitað hangir öll Samfylkinginin í rassinum á Halldóri. Og það hangir sjálfsagt á spýtunni von um að fá að spóka sig í makindum hjá kjaftaskjóðunum síðar. Ef við ætlum endilega að eyða þessum peningum á alþjóðavettvangi skulum við nota þá í þágu mannréttinda í heiminum. Þar er ærið og verðugt verkefni að fást við.
Hvenær skyldi koma að því að fagmaður verði skipaður seðlabankastjóri? Enn eitt hneykslið nýriðið yfir. Í bankanum er nú bara einn bankastjóri sem getur talist fagmaður. Ágætur drengur, sem heitir Eiríkur Guðnason. Jón Sigurðsson svona á mörkunum. Fyrst og fremst framsóknarmaður. Og dettur einhverjum í hug að Davíð Oddsson verði allt í einu hlutlaus maður. Bara rétt si svona. Auðvitað ekki. Gerir bara það sem honum þóknast eins og jafnan áður og nagar blýanta fyrir 1,4 millur á mánuði. Allt er þetta purkunarlaus misnotkun valds. Og því miður lítil von um breytingar á næstunni. Hef sannarlega skömm á þessu. Ykkar hösmagi, með Raikonen sofandi á skrifborðinu.

Wednesday, September 14, 2005

 

Forræðishyggja.

Það er skondið að kratar og framsóknarmenn eru ætið sammála ef vistri grænir eru nefndir á nafn. Þeir eru stjórnglaðir forræðishyggjumenn. Vilja engar breytingar og eru á móti öllu. Þannig tala þeir skoðanabræður Halldór formaður og Siggi minn í Svíaríki. Þetta er að sjálfsögðu viðsnúningur á staðreyndum. Vinstri grænir eru að vísu á móti ýmsu. Eins og t.d. Íraksstríðinu og Kárahnjúkavirkjun svo eitthvað sé nefnt. Líklega er það moðhausunum í Samfylkingunni og Framsóknarflokknum óskiljanlegt. Það er bara gott fyrir okkur vinstri menn að þetta lið láti svona. Tala eins og geðstirðar túrkerlingar. Þá erum við á réttu róli á meðan. Það er alkunn staðreynd að verði menn rökþrota í pólitík verða menn reiðir. Tuða og nöldra og gera andstæðingum gjarnan upp skoðanir. Þegar vinstri grænir tíunduðu rök sín gegn Kárahnjúkavirkjun, mesta umhverfisslysi Íslandssögunnar, sagði Halldór formaður að þeir væru bara á móti öllu. Þar með þurfti ekki að ræða það meira. Þegar skotheld rök eru fyrir hendi þá svara moðhausar á þennan hátt. Aldeilis fín póltík. Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindunni í pólitíkinni næstu mánuði. Ekki síst í höfuðborginni. R listinn andaður og íhaldið með höfuðlausan her. Þeir hafa reyndar Gísla Martein. Sagnfræðing og heilaskurðlækni. Líklega framúrskarandi hæfur til að taka að sér sauðshlutverkið. Framsókn líkleg til að þurkast út. Ætli menn sjái ekki voðalega eftir yfirskransala ameríska hersins á Íslandi? R listinn gerði marga góða hluti síðan íhaldið hrökklaðist úr valdastólum höfuðborgarinnar. En hann var einfaldlega orðinn þreyttur og því hvíldinni feginn. Og sá sem átti stærstan hlut í falli íhaldsins 1994, Ingibjörg Sólrún, átti líka meginsök á dauða þessa samstarfs. Eftir að hún gekk á bak orða sinna og fór sínar eigin leiðir gat aldrei gróið um heilt. Ég hef ekki mikla trú á að íhaldið nái völdum í borginni. Kannski skjátlast mér. Það skiptir alla íslendinga máli hver stjórnar höfuðborg landsins.
Ykkar Hösmagi.

 

Sól í heiði.

Rólegheit hér á vinnustað. Svo sem allt í lagi inná milli. Sólin skín annað slagið og lofthiti 7,7°. Rauður dagur í Kauphöllinni. Mikil lækkun á hlutabréfamarkaði. Undirritaður getur þó ekki tapað á því. Aldrei átt hlutabréf nema í milljónarfélaginu sáluga. Félaginu hans Eyvindar Erlendssonar. Gaf ekki mikinn arð enda keypti ég ekki bréfið til þess. Og ég má nú ekki gleyma þessu eina hlutabréfi í Hösmaga ehf. Tel það nú gróðavænlegasta hlutabréf landsins og ætla að halda fast í það. Þó nú sé aðeins miðvikudagur og lífið gangi sinn gang eins og skáldið sagði, er ég strax farinn að hlakka til helgarinnar. Vonast til að veður verði skaplegt og ég geti skroppið aðeins til fjalla. En það hefur rignt hér á suðurlandi um helgar ansi lengi. Lengur en elstu menn muna. Það væsir svo sem ekki um mig heima. Voða gott að leggjast í nirvana og láta hugann líða um draumaveröldina. Læt kannski verða af því svona til tilbreytingar að éta lax um helgina. Soðinn, steiktan eða grillaðan. Það er allavega af nógu að taka. Ég er nú farinn að elda æ oftar heima hjá mér. Löngu orðinn leiður á mat Nóatúns. Sjaldan venjulegur heimilismatur.Og ég drepst örugglega úr einhverju öðru en pastaáti. Liggur við að manni verði flökurt af að horfa á fólk gófla þessu í sig. En það er víst fleira matur en feitt kjöt. Og nú fer ég í mat og hitti matargatið Raikonen. Sæl að sinni, ykkar Hösmagi.

Thursday, September 08, 2005

 

Kötturinn sem hvarf.

Eftir stigamennskuna í fyrrinótt hleypti undirritaður kettinum Raikonen út. Geri það nú flesta morgna og hann skilar sér eftir svona klukkutíma. Ég þurfti til starfa klukkan 9 og þá bólaði ekki á kisa. Ég skildi eftir opið svo dýrið kæmist inn. Lauk við kaupsamninginn og skrapp heim um hálfellefu. Enginn köttur heima. Lauk við næsta kaupsamning og kom heim rétt fyrir 12. Og enn var kisi ekki kominn. Ég lét skrá hann í fyrradag og hann fékk númerið 183. Átti eftir að setja það um háls hans og nagaði sjálfan mig í handarbökin. Ég varð að fara upp að Vaðnesi að skoða sumarhús eins og ég hafði lofað. Kom þaðan uppúr 2. Þegar ég renndi í hlað sýndist mér vera einhver hreyfing í forstofunni. Og þegar inn var komið sá ég 2 ketti. Raikonen galvaskur með litla læðu hjá sér. Hann hafði sem sagt verið á kvennafari allan morguninn. Eða að læðupokast öllu heldur. Ég varð nú að sjálfsögðu glaður að sjá dýrið mitt á ný. Og fyrirgaf því líka úr því að þetta var ástæðan. Kom litla kvendýrinu út sem virtist á aldur við Raikonen. Kisi fékk sér vel í svanginn og var síðan dasaður það sem eftir lifði dagsins. Hann liggur hér fram á lappir sér og bíður örugglega eftir nýju tækifæri til að læðupokast úti. Með hálsól og númerið 183.
Vinnuvikunni að ljúka og yndislegt helgarfrí framundan. Ætla að láta veður ráða gerðum mínum um helgina. Langar inní Landmannalaugar og kannski með viðkomu í Dómadalsvatni. Líka nóg að gera hér heima. Hösmagi, hress sem ætíð áður.

Wednesday, September 07, 2005

 

Stigamaður að næturþeli.

Alltaf er eitthvað skemmtilegt að gerast. Eftir mína daglegu útför uppgötvaði ég enn einu sinni að lyklarnir að íbúðinni voru ekki meðferðis. Góð ráð dýr sem fyrr. Lykill í jeppanum en báðir lyklarnir að honum læstir inní íbúðinni. Snyrtilegt og snjallt. En fljótlega örlaði fyrir týru á perunni. Ég hafði sem sé hleypt Raikonen út á svalirnar. Rifa á svalahurðinni. Og þá var stigamennska næsta skref. Alltaf svolítið spennandi að klifra upp stiga. Ég er að vísu voðalega lofthræddur en nokkuð kræfur í stigum. Engan á ég stigann. Klukkan bara rúmlega 5 og allar stigaleigur lokaðar. Þá var ekki um annað að ræða en skipuleggja glæp. Hegningarlagabrot og brot á einu af gömlu boðorðunum. Stela bara næsta stiga sem á vegi mínum yrði. Ég ók brott frá blokkinni. Kom að ónefndu húsi og sá þar þennan líka fína stiga. Stoppaði vagninn og leit vel í kringum mig. Gekk síðan föstum skrefum að húsinu og hugðist grípa þennan forláta grip og hafa á brott með mér. En haldiði ekki að stigaskrattinn hafi verið bundinn fastur við húsið. En glæponar gefast nú ekki upp fyrir smámunum. Tókst að leysa þennan Gordíonshnút og komast með þýfið að bílnum. En skottið á litla Lanca er nú fremur lítið. Kom stiganum fyrir þversum þannig að Lanci var orðinn tvíbreiður. Með lagni komst ég heim og bókstaflega naut þess að koma stiganum fyrir við svalirnar. Þá var bara að hlaupa upp stigann og svipta sér yfir handriðið. Þetta gekk að óskum og Raikonen varð aldeilis forviða á að sjá fóstra sinn koma inn af svölunum. Ég ætla reyndar að skila stiganum aftur á sama stað. Ef glæpurinn kemst upp mun ég verja mig sjálfur. Ég ætla hreinlega að bera fyrir mig svonefndan neyðarrétt. Auk þess er þetta nytjastuldur sem er ekki jafn alvarlegur glæpur og þjófnaður. Mér líður eiginlega alls ekki eins og ég sé þjófur. Finnst afbrot mitt bara vera andskoti sniðugt. Kannski svona voðalega forhertur. En þetta allt saman sýnir að lífið er ekki bara tóm grámygla. Miklu skemmtilegri dagur framundan en hann annars hefði orðið. Og nú verður smíðaður aukalykill sem komið verður fyrir á leyndum stað í litla Lanca. Óska ykkur öllum velfarnaðar á þessum fallega haustdegi, ykkar Hösmagi.

Tuesday, September 06, 2005

 

Dögun.

Stilla og 1°. Aðeins farið að birta. Við Raikonen löngu komnir á stjá. Báðir bara nokkuð ánægðir með tilveruna. Gott kaffi frá Kaffi-Tári. Morgundögg heitir það og líklega frá miðameríku. Siðasti laxinn í veiðibókinni var veiddur á laugardaginn var. Septemberlax hefur ekki veiðst í Ölfusá í mörg ár. Fer ef til vill einu sinni enn að þjóna veiðiáráttunni. Yfir landið er metveiði. Yfir 4000 laxar í Þverá/Kjarrá og slíkt hefur aldrei hent áður. Og einnig mokveiði í Rangánum. Annars þarf ég að fara að hugsa um hvað gera eigi við aflann. Þýðingarlaust að hafa fulla frystikistu af fiski. Læt að vísu reykja slatta. Og svo má nú éta laxinn oftar en maður gerir. En einhvernveginn er það svo að nætursaltaða ýsan verður nú oftar uppá teningnum Líklega verður bleiki fiskurinn leiðigjarnari til lengdar. Laxinn er nú oft talinn konungur fiskanna. Og það er merkilegt hvað hann virðist stundum skynsamur en voðalegur auli þess á milli. Þekkt er sagan af mönnunum sem renndu í hyl bunkaðan af laxi. Strax og ánamaðkurinn nálgaðist torfuna ráku stóru laxarnir þá minni í burtu. Það myndaðist geil í torfuna og hvernig sem reynt var tókst ekki að fá laxinn til að taka. Hann hefur líka átt það til að vefja línuna um stein til að hafa frið til að nudda agninu úr sér. Ég reyndi einu sinni svona kúnstir. Ég fékk lax á túpuna í Víkinni. Hagaði sér strax einennilega. Var greinilega ósáttur að vera fastur með þennan fluguskratta í kjaftvikinu. Mér þóttu það firn mikil er laxinn synti að berginu og sló hausnum tvisvar utan í það. Og ætlunarverkið tókst. Túpan hrökk úr honum. Synti svo hróðugur á brott og við horfðum á þetta allt í forundran. Og eins og ég hef sagt áður man maður meira eftir svona fiskum en hinum sem hremma agnið og maður dregur svo að landi. Svona upplifun er ákaflega skemmtileg. Einn þáttur í þessari indælu veiðiveröld. Allar lygasögurnar sem til eru um veiði og veiðimenn eru nefnilega hjóm eitt í samanburði við atburði sem raunverulega gerast. Hösmagi er eins og þið sjáið enn að snudda við heygarðinn. Kvísarveitur ekki afskrifaðar enn og Tangavatn alltaf á sínum stað. Til hamingju með tilveruna, krúttin mín, ykkar Fiskihrellir.

Saturday, September 03, 2005

 

Urriðaskelfir.

Skrifari þessara pistla gengur undir ýmsum nöfnum. Skáldið í Skotlandi er höfundur nafnanna Laxaspillir og Fiskihrellir. Eftir síðustu Veiðivatnaferð kom undirrituðum í hug nafnið Urriðaskelfir. Fannst það mjög viðeigandi eftir vel heppnaða ferð. Líst ykkur ekki bara vel á nafnið? Það er á mörkunum að mér takist að skrifa þennan pistil. Raikonen með áhuga á fingraleikfiminni á lyklaborðinu.Við setjumst svo að sjónvarpsskjánum í dag og fylgjumst með finnanum nafna hans stinga hina af í kappakstrinum. Nú eru endanleg vertíðarlok runnin upp hjá Urriðaskelfi í sumar. Nokkuð sáttur við afrakstur sumarsins. 18 laxar, 12 Veiðivatnaurriðar, 4 sjóbirtingar og slatti af Tangavatnsurriða.Það er að vísu búið að nefna við mig veiðiferð í Kvíslarveitur. Sjáum til. Stundum er september rólegur og góður mánuður veðurfarslega. En það er allra veðra von á hálendinu á þessum árstíma. Reyndar í öllum mánuðum ársins. Einu sinni varð Sprengisandur kolófær í júlímánuði vegna snjóa. Veðrið var alveg meiriháttar í gær. Logn og sól og þokkalegt hitastig. Hafði það náðugt heimavið. Horfði aldrei þessu vant á fótbolta í sjónvarpinu. Íslendingar byrjuðu vel gegn Króötum en voru svo teknir í bakaríið í seinni hálfleik.Mér detta stundum í hug orð kerlingar þegar ég horfi á fótbolta. Af hverju láta þeir ekki hvern mann hafa sinn bolta svo þeir þurfi ekki sífellt að vera að rífast um þennan eina? En lifið gengur sinn gang og við þurfum áfram brauð og leiki. Bestu kveðjur frá Raikonen, Urriðaskelfi og öllum hinum, ykkar Hösmagi,

Thursday, September 01, 2005

 

Þar sem áin litla rennur.

Þegar ég ók yfir Uxahryggi í gærmorgun fór mig að gruna að ekki væri mjög mikið vatn í litlu ánni sem rennur um Lundarreykjadal. Og það reyndist líka svo. Þegar ég kom að Myrkhyl og fór að leita að strengjunum mínum góðu fyrir ofan hann voru þeir einfaldlega ekki til staðar. Þar sem ég veiddi 3 laxa fyrir 6 árum var nú bara ca. 10 cm vatn. Og eftir að hafa skyggnt hylinn af brúnni hvarf nánast öll von um fisk. Gaf þessu samt klukkutíma í góða veðrinu. Sneri síðan til baka og hélt að Laugarfossi. Geysifallegur staður og svolítið dýpi. Þar virtist bara vera ein afæta. Og Illakvörn nánast galtóm. Ég tók þessu með jafnaðargeði. Stoppaði þarna í hálftíma og hugleiddi svo að snúa aftur til Árnessýslu. Það var þó einn staður eftir. Englandsfoss var enn á sínum stað og undir fossinum hylur. Ég kom að þessum fallega fossi klukkan hálfníu. Kastaði ánamaðki í fossinn. Og maðkur var varla lentur þegar eitthvað byrjaði að eiga við hann. Þarna er mikið um afætur. En viti menn. Það var togað nokkuð fast og " hann var á" Brátt lá 6 pundari á bakkanum. Fiskihrellir yfirsig sæll með þessa veiðiferð þrátt fyrir vatnsleysið. Nú var bara að beita aftur. Og aftur var hann á. Nokkuð mjósleginn 4ra pundari. Hunterinn glaðvaknaður í sportveiðimanninum. Sá strax bunka af laxi á bakkanum. En nú varð hlé á tökunni. Ég settist á stein og horfði heillaður á vatnið í fossinum steypast niður í hylinn. Þessi fallegi haustdagur hafði sannarlega gefið gömlum veiðimanni mikið. Fljótlega óð ég yfir ána litlu neðar. Hugðist reyna hægra meginn í fossinum. Og í fyrsta kasti tók sá þriðji. Hunterinn hafði nú náð yfirhöndinni. Og þegar sportveiðimaðurinn er þannig yfirliði borinn verða stundum óhöpp. Græðgin varð mér að falli. Ég hreinlega reif út úr fiskinum. Fallegum fiski sem var orðinn örlítið bleikur á hliðinni. Svona 6 pundari. Ég sá hann synda út í hylinn. Ég óð aftur yfir ána. Fékk mér normalbrauð með osti, hallaði aftur sætinu í Grána og steinsofnaði. Svaf í klukkutíma. Ákvað að reyna aftur við þann bleika. Og ég sá hann fjórum sinnum. Hann hafði lært sína lexíu og lét ekki blekkjast á ný. Og laxaspillir hélt heim á leið. Afar ánægður með þennan indæla morgunn. Kom við í fiskbúðinni. Á þar góða kunningja sem er flínkir að flaka lax. Sæki svo flökin í dag og þau fara í reykinn. Skipti um föt og hélt til starfa. Mikil vinnutörn í vikunni og salan vel á annaðhundrað milljónir. Hlakka til vikulokanna síðdegis. Og mér kæmi ekki sérlega á óvart þó Fiskihrellir yrði enn við sama heygarðshornið í fyrramálið. Þykist vita um nokkra laxa í Víkinni. Ekki myndu bjartsýnisverðlaunin spilla þessu sumri. Og eins og fisksæll maður segir: Bið að heilsa ykkur, krúttin mín. Ykkar Hösmagi. Með Raikonen sofandi fram á borðið.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online