Wednesday, September 30, 2009

 

Hvellur.

Ögmundur hefur sagt af sér. Mig undrar það ekki. Frekjan í Samfylkingunni er yfirgengileg. Ég hef alla tíð treyst Ögmundi. Sannur lýðræðissinni sem vill þjóð sinni gott eitt. Hann vildi ekki verða viðskila við samvisku sína fyrir hina heilögu frú. Ég hafði líka lengi mikið traust á Steingrími. Það er nú horfið með öllu. Fyrir kosningar vildi hann skila láninu frá AGS.Hann vildi heldur ekki sækja um aðild að ESB.Hann sagðist vilja afnema verðtrygginguna. Og ýmislegt fleira sagði þessi kjaftfori sveitamaður. Nú er sveitamaðurinn gufaður upp með öllu. Stundum mætti halda að silfurskottan í forsætisráðuneytinu hefði beisli á Steingrími. Ekki um hálsinn heldur punginn. Kippir bara aðeins í eftir þörfum. Langbesti ráðherrann í þessari ríkisstjórn er nú horfinn á braut. Það er slæmt fyrir lítilmagnann í þessu þjóðfélagi. Næstu dagar munu skera úr um framhaldið. Ég hafði miklar áhyggjur af þessu stjórnarsamstarfi strax í upphafi. Sjálfhverfan í í SF er algjör. Einstefnuþvermóðskan ríður ekki við einteyming á þeim bænum. Hugsjónaleysið algjört. Markaðsvæðing heilbrigðiskerfisins og ESB einu stefnumálin. Nýjasta útspil félagsmálaráðherrans til bjargar heimilunum eru sjónhverfingar einar. Ég kom í bankann minn í dag. Þar fékk ég upplýst að skuldurum stæðu þessi úrræði til boða nú þegar. Lengja bara svolítið í ólinni. Ég held að þessi ríkisstjórn sé að hrynja. Við skulum ekki gleyma því að Jóhanna og Steingrímur ætluðu að keyra Icesave samninginn í gegn óbreyttan. Samninginn sem smáborgarinn Svavar Gestsson undirritaði af því hann nennti ekki að hafa málið hangandi yfir sér lengur. Sem betur fer eru enn nokkrir þingmenn VG með óbrenglaða dómgreind. Ég treysti enn á þetta fólk. Atla, Ásmund Dalabónda, Ögmund og Liljurnar báðar. Ég er jafnvel að hugsa um að kaupa mér hatt svo ég geti tekið ofan fyrir Ögmundi. Það er gott að hann skuli ekki fara sömu leiðina og vopnabróðir hans í langan tíma, Steingrímur J. Sigfússon.

Það var frost hér í gærmorgun en heldur hlýrra í dag. Við Kimi látum hverjum degi nægja sína þjáningu. Að venju. Hann veit heldur ekkert um Icesave eða AGS. Treystir bara á fóstra sinn og sýnir honum þakklæti fyrir atlætið. Og aldrei þessu vant kúrir hann hér á gamla tágastólnum á móti mér. Við sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Sunday, September 27, 2009

 

Svallbróðirinn afi.

Mér fannst það skondið þegar ég hlustaði á nafna minn A. Magnússon í Kilju Egils nú í vikunni að þar kom afi minn við sögu. Sigurður var að rekja æsku sína. Fátækt og basl. Bók hans, Undir kalstjörnu, er nú nýkomin út í aftur í safni úrvalsbókmennta.Faðir hans var kallaður Merar-Mangi. Hestamaður, drykkju- og kvennamaður mikill. Sigurður sagði frá því að oft hefði Benedikt Sveinsson verið í slagtogi með föður sínum. Benedikt var faðir Bjarna Ben, afi Björns Bjarna og langafi Bjarna,núverandi formanns sjálfstæðisflokksins. Ennfremur upplýsti nafni minn að afi minn, Karl Lárusson, Lúðvíkssonar skókaupmanns hefði oft verið með þeim í slarkinu. Ættfeðrum mínum í móðurætt þótti víst brennivín nokkuð gott. Merarmangi var iðinn við kolann í kvennamálum. Hann átti 23 börn með 7 eða 8 konum. Afi virðist hafa átt þetta til líka. Á efri árum komst móðir mín að því að hún átti systur sem var 2 mánuðum eldri en hún. Mér er sagt að móðir mín hafi einu sitt föður sinn. Hann mun hafa gefið henni skó úr verslun gamla Lárusar G. Það voru hennar einu kynni af honum og skórnir það eina sem hann lét þessari dóttur sinni í té um ævina. Klara Karlsdóttir átti heldur engan þátt í að drekka út allan auðinn sem þessi skóverlsun skóp. Ég hef svosem aldrei haft mikinn áhuga á ættfræði en mér fannst skemmtilegt að Sigurður skyldi minnast á þennan afa minn.
Það haustar hratt að þessa dagana og september að kveðja. Það er þó snjólaust enn hér sunnanlands þó aðeins hafi gránað til fjalla. Herconinn rólegur í bílskúrnum og línur mínar munu líklega ekki strengjast oftar á þessu ári. Ég fer til höfuðborgarinnar í fyrramálið. Sneiðmyndataka á landspítala og vonandi hitti ég svo eitthvað af afkomendum mínum á eftir. Þá á ég erindi við Nínu systur mína. Hún á afmæli í dag og fær bestu kveðjur frá litla bóa. Það voru nokkuð stríð veisluhöld hjá okkur Kimi í síðustu viku. Harðfiskur, humar og ýsa og í þessari röð. Við erum því nokkuð brattir í dag og sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Wednesday, September 16, 2009

 

Toccata og fúga í d moll.

Hösmagi laumaðist aftur til kirkju í gærkvöldi. Það var að vísu lítið um guðsorð en þeim mun meira af öflugum tónum. Þetta voru sem sagt tónleikar. Hinir 3ju í septembermánuði og 2 eru eftir enn. Þetta hófst einhverntíma í kringum síðustu aldamót og ég fór þá á allmarga tónleika. Svo lenti þetta í útdeyfu þar til í ár. Ég lá reyndar fyrstu tónleikana af mér í móki og þreytu eftir flensuskrattann. Það var organistinn í Akureyrarkirkju sem spilaði í gærkvöldi. Ung kona, Sigrún Magna að nafni. Það mátti heyra að hún hefði einhverntíma tekið í pípuorgel áður. Byrjaði á Bach, síðan Arvo Pärt, Jesper Madsen, Felix Mendelsohn og lauk svo spilverkinu með þekktasta verki kirkjutónlistarinnar, tokkötu og fúgu í d moll sem er líklega samin fyrir hátt í 300 árum. Bach var fæddur 1685. Þetta er magnað tónverk og ég held að sá sem ekki hrífst af því sé sálarlaus, tilfinningalaus og kannski heilalaus líka. Pípuorgelið er líka eiginlega mörg hljóðfæri í einni og sömu græjunni. Ég óttaðist á tímabili að þakið lyftist af þessu guðshúsi og svifi út á Ölfusá. Þegar tónleikunum lauk klöppuðu áheyrendur þessum ágæta listamanni lof í lófa. Þetta er kærkomin tilbreyting þegar haustmyrkrið er að færast yfir. Spjall,kaffi og nammi á eftir. Þá er ekki verra að þetta er ókeypis sem kemur sér vel í kreppunni. Ég hyggst koma mér upp diski með þessu fræga verki. Það mun örugglega hljóma vel í græjum grænu þrumunnar á bökkum Ónefndavatns. Þar hef ég stundum gefið Freddy Mercury lausan tauminn. Ég er líka hrifinn af Albinoni. Hann var sannur listamaður eins og Bach en er nú flestum gleymdur því miður.
Það er haustlegt og búið að rigna heilmikið í dag. Ég er nú að verða allhress og verð að fara að taka til hendi. Bókhald og undirbúningur undir málflutning norður í landi um miðjan næsta mánuð. Það er orðið æði langt síðan ég hef komið norður fyrir Holtavörðuheiði og það er bara tilhlökkunarefni að eiga það í vændum. Kimi heldur sig innandyra og virðist geta sofið endalaust.Bestu kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Monday, September 14, 2009

 

Septembergrámi.

Lauf trjánna eru farin að flyksast um loftið.Haustmerkin augljós enda stutt í jafndægri á hausti. Það rétt mótar fyrir fjallinu góða í þokumistrinu.Það er þó sæmilega hlýtt og vonandi verður lítill snjór í kortunum í vetur.
Nú stefnir í að Íslandsbanki verði afhentur kröfuhöfum sínum. Ríkið ætlar að eiga 5% hlut áfram og leggja bankanum til 25 milljarða í " víkjandi" lán. Víkjandi lán er annað nafn á gjafapeningum. Hinn 1. nóvember n.k. ætla svo sýslumenn landsins að hefja uppboðin að nýju. Við sýslumannsembættið hér á að selja 400 eignir. Engin víkjandi lán á þeim eignum. Ríkisstjórn lítilmagnans ætlar að láta kné fylgja kviði. Það er svo dýrt að hjálpa almenningi þó nægir peningar séu til til að moka í gjaldþrota fyrirtæki glæpahyskisins.Forsætisráðherrann er í felum. Heldur sig til hlés eins og einn sykurdrengja hennar orðar það. Kannski er Jóhanna svona upptekin við að svara hinum 2.500 spurningum evrópusambandsins? Mikið óskaplega er ég orðinn leiður á formönnum ríkisstjórnarflokkanna.Fólkinu sem lofaði að slá skjaldborg um heimilin sem nú á að fara að splundra með nauðungaruppboðum. Þessu fólki dettur ekkert skynsamlegt í hug. Sömu gömlu íhaldsúrræðin og við þekkjum svo alltof vel. Hækka neysluskatta daglega. Skatta, sem bitna harðast á þeim sem minnst hafa.Handrukkarar AGS ráða stýrivöxtunum. Laun lækka og verðbólgan æðir áfram. Fólkið sem fyrir nokkrum árum átti dágóðan hlut í eignum sínum stendur á núlli og margir reyndar komnir í stóran mínus. Steingrímur hefur lýst því yfir að hann sé píslarvottur. Hans verði þó minnst síðar fyrir afrek sín. Hann sitji nú ystur til borðs, smáður og hrakinn. Skúrkurinn í kúrekamyndinni. Fólk kann ekki gott að meta og rífur bara kjaft. Menn eins og undirritaður sem ekki kann að meta svikin loforð eru ekki hátt skrifaðir hjá þessum fjármálaráðherra. Það er illt í efni hjá okkur íslendingum. Yfir 90% alþingismanna algjörlega óhæfir. Hina er hægt að telja á fingrum annarar handar.
Þessi pistill er skrifaður á nánast nýja tölvu. Mér áskotnaðist þessi græja í síðustu viku. Hewlett Pacard með 19 tommu flatskjá. Það kemur sér stundum vel að þekkja menn sem muna eftir manni þegar eitthvað gott rekur á fjörur. Gamla Dell tölvan mín var reyndar í ágætu lagi. Hún fær þó að hvíla sig í bili.
Kimi liggur frammi á gangi. Ég held að hann sé í andlegri íhugun. Vonandi er hann ekki að hugsa um landsfeður og mæður. Við snjóum þetta saman eins og áður.Biðjum að heilsa vinum okkar, ykkar Hösmagi.

Monday, September 07, 2009

 

Gikkur í guðshúsi.

Ég fór í kvöldmessu í Selfosskirkju í gærkvöldi. Með vinkonu minni og fyrrum sambýliskonu, Grétu. Það verður nú ekki sagt um mig með réttu að ég sé beinlínis þrunginn trúarhita. Og hvað er utanþjóðkirkjumaður að strekkja til kirkju að kvöldlagi? Ástæðan var gamli popparinn Þorvaldur Halldórsson. Hann hefur hin síðari ár gengið á guðsvegum. Fólk man örugglega eftir lögunum Á sjó og Þú ert svo sæt. Ég skemmti mér líka oft í Sjallanum á yngri árum. Þegar ég var hjá Orkustofnun í gamla daga og haldið skyldi norður í land voru brennivínsfötin ávallt meðferðis.Ég var bara í venjulegum buxum, rúllukragapeysu og jakka í gærkvöldi. Þorvaldur getur svo sannarlega sungið enn og lunkinn mjög með skemmtarann. Ég hafði mikla ánægju af söng hans. Og konu hans, Margrétar, einnig. Presturinn og djákninn voru þarna líka og fengu að skjóta inn einu og einu guðsorði. Þegar Þorvaldur söng, drottni sínum til dýrðar og vegsauka, hugsaði ég mitt. Gikkurinn í mér setti allt í einu Steingrím J. í stað Jésúsar.
Steini, við lofum þig og þér lútum
og við lyftum höndum okkar
og við upphefjum þitt nafn.
Þú mikill ert
máttarverk þín stórkostleg
enginn jafnast á við þig.
enginn jafnast á við þig.

Ég sá þetta fyrir mér á einkafundi klíkunnar í kringum Steina. Andaktugt liðið, Kötu, Svandísi, Árna Þór og Álfheiði. Mænandi á aðalritarann mikla. Sjálfan formanninn. Sæluhrollurinn hríslandi um blessað fólkið yfir afrekum leiðtogans. Þetta er auðvitað voðalega ljótt af mér. Eins gott að ég staldraði stutt við í flokki vinstri grænna. Þetta var ágæt kvöldstund. Í lokin gengu allir í halarófu að prestinum og djáknanum. Með útbreidda lófana. Ég fékk krossmark með ferðablessun í báða lófa. Lét mér það vel líka og svo var þessi fína lykt af smyrslinu sem fylgdi blessuninni. Ég var bara betri maður þegar heim kom eftir kvöldkaffi með Grétu minni.

Heilsa mín er að batna. Á miðvikudaginn kemur hitti ég minn ágæta lækni, Eirík Jónsson. Ég hitti líka Sturlu Johnsen á miðvikudaginn var. Góður læknir og ákaflega viðræðugóður maður. Honum fannst líklegt að ég hefði fengið svínaflensuna alræmdu. Hann sagði mér eftir að að hafa skoðað mig að ég væri alveg að klára þessa pest. Það er auðvitað hundfúlt að hafa eytt heilum mánuði af þessu yndislega sumri í að berjast við þessa vondu sendingu. Aðalatriðið er þó að endurheimta heilsu sína á ný. Kannski kemst ég einn dag í Ölfusá núna í september. Laxarnir eru nú orðnir 408 sem er mjög gott, ásamt einstaklega góðri sjóbirtingsveiði. Það er að koma haust og veturinn kemur líka. Þrátt fyrir Steingrím og Jóhönnu ætla ég ekki að leggjast í sút. Það mun vora aftur. Gamli veiðimaðurinn ætlar að halda ró sinni og bjartsýni. Ég vonast til að hitta Hrafnhildi Krístínu í vikunni. Og foreldra hennar. Það verður indælt.
Kisi minn liggur á bakinu í gamla tágastólnum. Honum fannst notalegt að fá stroku eftir maganum frá fóstra sínum. Klukkan 4 í dag ætla ég að sjá þýsku stelpurnar rúlla þeim norsku upp. Svona fimm núll. Þó ég sé nú engin fótboltafrík hefur það stytt mér stundir að fylgjast með þessu evrópumóti. Selfoss hefur í fyrsta sinn tryggt sér sæti í úrvalsdeildinni og ég er líka bara montinn yfir því. Við Kimi sendum ykkur öllum okkar albestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online