Thursday, September 20, 2012

 

Endurlífgun.

Einhvernveginn tókst mér að komast hér inn á mína gömlu slóð. Þeir voru dagar sem ég ritaði hugleiðingar mínar hér svona 2-3 í viku og sumir vinir mínir áttu það til að kvarta ef lengra leið á milli. En allt er í heiminum hverfult. Ég fór að blogga á mogganum og það dró úr ritgleðinni hér. Svo tók facebook við og þá nánast lognuðust bæði bloggin mín útaf. Þó fésbókin sé um margt ágæt er hún þó allt öðruvísi en bloggið. Bloggið mitt er eintal sálarinnar. Var fastur og þéttur þáttur í tilverunni og ég hef oft hugsað mér að byrja aftur. Síðasti pistillinn var skrifaður fyrir 20 mánuðum og var eini pistill ársins 2011. Nú er langt liðið á árið 2012 og mikið vatn til sjávar runnið síðan síðast.Árið 2012 hefur um flest verið mér gott og skemmtilegt. Heilsa mín ágæt og ég vona að ég sé laus við krabbameinið. Fer í tékk á mánudaginn kemur og hitti svo krabbameinslækni á fimmtudaginn eftir myndatökuna.Stærsti atburður ársins var 5. ágúst í sumar er ég varð langafi. Ákaflega ljúf upplifun og ég er stórhrifinn af þessum nýja titli. Lambakóngurinn minn, Siggi Þráinn varð pabbi þennan dag og móðirin heitir Anna Bergmann Björnsdóttir. Ég heimsótti litlu stúlkuna og foreldra hennar 2. september á notalega heimilið þeirra í Grjótaþorpinu og upplifði aftur tilfinninguna um hvað lítil börn eru nú óskaplega lítil en gefa þó mikið af sér. Það á að gefa stúlkunni nafn þann 7. október og ég hlakka mikið til þeirrar stundar. Ég byrjaði veiðivertíðina 28. júní og fékk fyrsta laxinn minn 30. júní. Bætti svo 16 löxum við í júlí og 7 löxum í ágúst. Veðrið yfirleitt frábært og ég mun lengi muna þetta dásamlega sumar. Við feðgar og langfeðgar vorum svo í Veiðivötnum 16.-18. ágúst og það var líka indæl ferð þó við veiddum minna en síðustu sumur. Veiði lýkur svo í Ölfusá á mánudaginn en aðeins 2 laxar hafa veiðst í ánni í september. Heildarveiðin 271 lax sem er ágætt miðað við fremur slaka veiði almennt á landinu í sumar. Kolbakur minn hefur þrifist vel hjá fóstra sínum. Þrifinn og skemmtilegur köttur sem veitir mér ánægju og mikinn félagsskap. Lífið gengur sem sagt sinn gang og Hösmagi gamli er nokkuð sáttur við hlutina þó árin færist yfir. Nú er að þrauka af veturinn og taka svo á móti nýjum ævintýrum á nýju ári. Við Kolbakur sendum öllum vinum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Tuesday, September 18, 2012

 

Endurlífgun.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online