Tuesday, March 29, 2005

 

Hösmagi kominn á koppinn.

Í dag barst langþráð dókument frá Edinborg. Með rétt ritaðri undirskrift varastjórnarmannsins í einkahlutafélaginu Hösmagi ehf. Ég beið ekki boðanna.Skildi stól minn eftir auðan og geysti á Grána til höfuðstaðarins. Skráði félagið og fæ kennitölu fyrir það á fimmtudaginn. Og væntanlega vsk númer á föstudaginn. Hösmagi er því kominn á koppinn. Langfallegasta nafn á einkahlutafélagi í gjörvallri veröldinni og þó víðar væri leitað.Líklega er ást undirritaðs á nafninu svona sterk vegna hins svarta dýrs sem var honum kærari en flest annað. Við brottför úr höfuðstaðnum fyrir margt löngu, er dýrið var enn í fullu fjöri, spurði frú Hatseput mig um hvað ég hyggðist gera er austur kæmi. Ég var að sjálfsögðu fljótur til svars og sagðist mundu halda áfram að elska köttinn minn. Sem ég og gerði. Og geri enn á minn hátt. Ég þurfti sem sagt ekki að velta nafninu á nýja félaginu lengi fyrir mér. Ég segi ykkur ef til vill síðar frá hinum ákaflega sérkennilegu reglum um einkahlutafélög. Ég varð bara alltí einu að félagi í dag. Og þá gilda allt aðrar reglur um skattlagningu tekna minna en áður. Legg væntanlega minna til samfélagsins. Einu sinni var sagt: Löglegt en siðlaust. En er siðlaust að halda sig við lögin? Það held ég alls ekki.Ég átti engan þátt í setningu laganna. Ekki einu sinni óbeint með atkvæði mínu.Það er líklega sammerkt þingmönnum og gvuði að vegir þeirra eru órannsakanlegir. Besta vorkveðja að sinni. Ykkar Hösmagi ehf.

Friday, March 25, 2005

 

Fílingur.

Það er kominn vorhugur í undirritaðan. Á langa Frjádegi lagði ég land undir hjól og hélt til veiða í Tangavatni. Kom að vatninu fullur lotningar og eftirvæntingar. Held að Herconinn hafi verið farinn að titra. Og Ambassadorinn einnig. Indælis veður, þurrt, 8° og nánast logn. Og silungurinn lét strax blekkjast. Kannski ekki búist við að egnt væri fyrir hann á þessum degi. Ég tel það nú samt ekkert sérlega ókristilegt að veiða fisk á föstudaginn langa. Það er alltaf sama ólýsanlega kikkið sem fæst úr fyrstu töku ársins. Ég veiddi 14 ágæta urriða og einn smálax. Fjórum gaf ég líf aftur þannig að ég hélt heim sæll og glaður með 11 fiska. Reyndar engan mjög stóran. 2-3 pund vógu þeir allir. Búinn að hafa það alveg þrælgott það sem af er páskahátíðinni. Begga, eiginmaður og dóttir komu í heimsókn á skírdag. Magnús, Borghildur og synir í gær. Og svo hringdi skáldið mitt í gjarkvöld. Getur gamall fauskur beðið um meira? Eða eins og Jón Grindvíkingur hefði sagt: Sem sagt gott. Ég hef dundað við framtölin svona með öðru. Búinn að senda 50 framtöl á vefnum. Og eitt bréflega. 78 ára gamall vörubílstjóri treystir ekki netinu. Hefur ætíð skilað framtalinu á skattstofuna í eigin persónu. Og þannig mun það verða. Hið besta mál að sjálfsögðu. Reyndar gerði ég framtalið hans á netinu, prentaði það síðan út og þannig fór sá gamli með það.Nú eru tæpir 3 mánuðir í laxinn í Ölfusá. 13 dagar í sumar. Ákaflega góð tilhugsun. Segir svo hugur um að ég muni fáann í sumar.Þó ég sé löngu hættur að skjóta fugla er stangveiðiástríðan söm við sig. Vex jafnvel með árunum. Haglabyssan samt enn inní skáp. Reyndi hana síðast fyrir 3 árum. Gataði bjórdósir í stað fugla.Fullvissaði mig um að ég get enn skotið af byssu. Ég hugleiddi aðeins hvort tæki fyrir veiði þegar ég skipti um bifreið. 1990 tók fyrir alla veiði þegar ég lét Súbarúinn fyrir Bronko jeppa. En eins og Sölvi sagði tók gamli Súbarúinn mig í sátt. Nýi gráni verður góður veiðibíll. Sannaði það í gær með góðri byrjun. Mér kæmi ekki á ávart að hann þyrfti að bera nokkur kílóin úr Veiðivötnunum í ágúst. Eins og þið sjáið er hinn lífsglaði Hösmagi með miklar væntingar til sumarsins. Og veðurspáin er mjög góð langt fram í næstu viku. Vellíðan á sál og líkama. Bestu kvðjur, Hösmagi.

Wednesday, March 23, 2005

 

Samfylkingin.

Undirritaður er kominn í páskafrí. Dásamlegir dagar framundan. Brauð og leikir. Reyndar nokkur bréf til skattmanns að auki. Ég var að lesa bloggið hans nafna míns í Stokkhólmi. Hvetur fólk til að kjósa Ingibjörgu Sólrúnu til formanns í Samfylkingunni. Nú er það svo að mér stendur á sama hver stjórnar þessum flokki. Ef flokk skyldi kalla. Lengi vel var eina stefnumið flokksins að koma íslendingum í evrópusambandið. Í fyrra eignaðist þessi hugsjónalausa moðsuða nýtt stefnumál. Sem sé að markaðsvæða heilbrigðiskerfið. Ég hélt nú að vinstri menn þekktu afleiðingarnar af slíku. T.d. í Bandaríkjunum. En hvað hefur Ingibjörg fram yfir Össur? Kynferðið ef til vill? Ég man vel eftir Össuri í sjónvarpinu fyrir mörgum árum. Þá var hann í framboði fyrir Alþyðubandalagið í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík. Hann grátbað um stuðning svo hann gæti " haldið áfram að slást við íhaldið" Honum varð ekki að ósk sinni. Síðar gekk hann í Alþýðuflokkinn. Væntanlega með von um skjótari frama þar. Og honum varð að ósk sinni. Var gerður að umhverfisráðherra í einni íhaldsstjórnininni. Og það varð lítið um slagsmál við íhaldið. Undi vel hag sínum með því og skrifaði uppá það sem fyrir hann var lagt. Ég hafði lengi vel nokkra trú á Ingibjörgu. En það er liðin tíð. Eftir að hafa opinberað yfirgengilegt dómgreindarleysi sitt fyrir síðustu Alþingiskosningar og að auki gengið á bak orða sinna sáu þeir sem sjá vildu að hún hefur fengið sinn skerf af ákveðnu geni. Það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar fólk hefur oftrú á sjálfu sér og telur sig geta nánast hvað sem er. Vera páfann sjálfan eða jafnvel guð almáttugan. Þessir aumingjans nytsömu sakleysingjar sem malla í moðsuðunni hafa reyndar bara tvo kosti. Og báða slæma. Verði þeim að góðu. Veit að margir þeirra vitkast þó síðar verði. Gleðilega páska. Ykkar Hösmagi.

Thursday, March 17, 2005

 

Verðstríð.

Hér hefur geysað stríð að undanförnu. Milli Bónuss og Krónunnar. Svo sem ágætt að fá mjólkurpottinn á eina krónu og kókið fyrir slikk. Ég kom við í Bónus á leið heim í gær. Keypti 2 kg. af Maxvell House, 1 mjólkurpott, 4 lítra af kóki, pakka af Prins pólo og lítinn poka af harðfiski. Og verðið? Þúsundkall. Liggur við að maður óski þess að vera með stóra fjölskyldu svo gróðinn verði meiri. En líklega greiðum við þetta bara síðar. Auðvitað tóm della að selja mjólkurlítra á eina krónu. Meira að segja krakkarnir notuðu tækifærið og keyptu mjólk til að fara í mjólkurslag. Sprauta úr fernunum hvert á annað. Mjög snyrtilegt. Rólegt hér á Bakka eins og er og ég laumaðist hér inn á vefinn. Nú er "hann" loksins að breyta um átt. Kominn með storm á austan og hiti um frostmark. Búið að vera hér norðanbál og uppí 12 stiga gaddur.Skírdagur eftir viku og vonandi er vorið að koma. 13 veiðidagar í Ölfusá í sumar.Og svo blessuð Vötnin í ágúst.Dásamlegt. Og aldrei að vita nema ný svæði verði könnuð. Kvíslarveiturnar geta stundum gefið. Fjöllin heilla og gott farartæki til reiðu.Gráni er frábær og Hösmagi litli hlakkar alltaf til að losa hann af stallinum á morgnana. Að lokum minni ég Sölva minn á hana Bryndísi. Kannski allt í höfn með það mál. Bestu kveðjur, Hösmagi.

Monday, March 14, 2005

 

Háðungin.

Gott kvöld gott fólk. Það er örugglega ekki sá 13. í dag. 14. mars mun það vera 2005. Hress og kátur karl hélt til vinnu sinnar í morgun. Skítakuldi að vísu en lundin létt eftir afrek helgarinnar. Dagurinn leið og störfin gengu að óskum. Ég þurfti að ljúka erindum í þessu sunnlenska smáþorpi áður en heim yrði haldið. Að því búnu renni ég í hlað á mínum eðalvagni. Opna bílskúrinn af færi og bruna inn. Önnur fjarstýringin er sem sé í vagninum en hin í forstofunni í íbúðinni. Sem ég hef lokað bílskúrshurðinni með rofa sem er rétt innan við dyrnar og skotist út, ætla ég mér að taka upp lyklana að íbúðinni. En þar voru bara engir lyklar. Varalykill í hanskahólfi bílsins sem ég hafði nýlæst inní skúrnum. Vegalaus maður í frosti og norðanbáli. Allar bjargir bannaðar. Enginn aðgangur að lykli eða fjarstýringu.Nú voru góð ráð dýr. Var þó með farsímann í vasanum og hringdi í Þröst, annan þeirra Bakkabræðra. Rifa var á glugga á norðurhlið bílskúrsins. Hann er nógu stór til að skríða innum. Eftir vangaveltur var ákveðið að rífa stormjárnið í tvennt og skríða inn. Það tókst vonum framar og nú var hægt að opna skúrinn innanfrá. Ég leitaði í hanskahólfinu. Og viti menn. Þar var varalykillinn. Þröstur hélt á brott og ég tríttlaði léttstígur að útihurðinni og stakk lyklinum í skrána. Hún opnaðist undralétt. Eitthvað fannst mér þetta þó undarlegt. Við mér blasti plastpoki með skattframtali Sigurgeirs Hilmars. Hvernig hafði hann laumast inn um læstar dyrnar. Skýringin var augljós. Vegna tíðra mannaferða hingað um helgina hafði ég tekið lásinn af og íbúðin því ólæst síðan á laugardaginn. Ef ég væri pínulítið geðstirður hefði ég sjálfsagt orðið alveg kolóður. En þar sem ég er kunnur geðprýðisstöngull brosti ég bara út í bæði. Minnti mig á þvottinn á fjarstýringunni um daginn. En háðulegt var þetta. Á morgun mun ég planta lykli hjá bróður mínum á Birkivöllum. Eða bara á vinnustað. Líklega væri lífið bara leiðinlegt ef svona hlutir kæmu aldrei fyrir. Og mikið lifandis ósköp var notalegt að koma inn í hlýjuna. Leggst til hvílu í kvöld með sól í sinni. Megi gleðin vera hjá ykkur, krúttin mín. Ykkar Hösmagi.

Friday, March 11, 2005

 

Fegurð himinsins.

Sit hér enn í vinnunni. Óvenjurólegur dagur. Sólin skín og himininn er alveg skír og bjartur. Skýin í felum. Norðanátt og svolítil kæla. Nú er stutt í vorjafndægur og reyndar páska í leiðinni. Þó frost sé nú og verði væntanlega næstu daga er vorhugurinn allsráðandi. Þessi yndislegi árstími nálgast með albjörtum nóttum og angan gróðurs. Þá fer silungurinn að vaka í vötnum og ám. Líklega fagnar hann vorinu líka. Og eins gott að hann veit ekki að Hösmagi er farinn að liðka stöngina. Og það er best að tilkynna það hér með að hinn rómaði þriggjastangadagur verður laugardaginn 16. júlí anno 2005. Verður gaman að vita hvort synirnir hafi roð við föðurnum. Sjálfur hefði faðirinn ekkert á móti því að verða neðstur á vertíðinni þennan dag. En það verður að koma í ljós. Hann er nú einu sinni galdramaður með prikið svo úrslitin verða spennandi.
Skattavertíðin er nú á fullu. Ótrúlegt hvað netframtalið er þægilegt og vinnusparandi. Engin vélritun, sjálfvirk villuprófun og svo bara rafræn undirskrift. Og þú eignast þína heimasíðu hjá ríkisskattstjóra og getur sótt þangað staðfest afrit, ásamt ýmissi annari þjónustu. Og pappírinn sparast verulega. Um að gera að afþakka pappírinn. Nóg er nú bruðlið með hann. Mér tókst ekki með nokkru móti að kemmentera á bloggið hans Sölva. Það fannst ekki. Sendi honum baráttukveðjur í stríðinu sem nú stendur og óska honum góðrar ferðar á bókamessuna í Lundúnum. Jafnframt óska ég honum til hamingu með nýja starfið og eða titilinn. Sjórnarmaður í Hösmaga ehf. Ekki aldeilis dónalegt. Bestu kveðjur frá Hösmaga, bæði hinum eina og sanna og einkahlutafélaginu með göfuga tilganginn.

Sunday, March 06, 2005

 

Andleysið.

Hef slegið slöku við bloggið að undanförnu. Sennilega eins með bloggið og margt annað. Það má aldrei láta deigan síga. En það er líka tilgangslítið að setjast við tölvunna ef andinn er ekki reiðubúinn til átaka. Það er þó svo að það geislar nú ekki beinlínis andagiftin af mér í dag. Blíða úti en svartaþoka og mótar ekki fyrir Ingólfsfjalli. Er á leiðinni í þrítugsafmæli Ragnhildar systurdóttur minnar. Við áttum bæði afmæli í gær. Systir mín góð býður stórfjölskyldunni til veislu á Kársnesbrautinni í dag.Þar verður örugglega hægt að úða í sig góðgæti. Líkt og hjá Boggu minni í Garðabænum. Alltaf tilhlökkunarefni að fara í veislur til hennar. Ég hef eignast góðan vin hér í blokkinni. Býr í íbúðinni við hliðana á mér. Kynntist honum nýlega. Með ákaflega loðið skott. Sem sagt fressköttur. Hann situr stundum um mig þegar ég kem heim. Ég lét það nú eftir honum að kíkja inn til mín. Rannsakaði íbúðina hátt og lágt. Og sló ekki hendinni á móti harðfiski. Varð bókstaflega kolóður í hann. Svo elti hann mig í bílskúrinn og þar hófst önnur viðamikil rannsókn. Sennilega besti granninn hér í blokkinni. Og án þess ég sé að kvarta yfir hinum. Það varð nú ekki af Tangavatnsför í gær. Læt vora soldið meira. En hugurinn er fyrir hendi. Fimm daga frí um páska. Upplagt að skreppa þá. Aðalfundur stangveiðifélagsins nú í vikunni. Fæ mér örugglega nokkuð marga daga í Ölfusá. Og þá er spurningin um hinn rómaða þriggjastangadag. Þeir synir mínair kommentera kannski á hann. T.d. 9. eða 16 júlí. Jafnvel 23. ef það hentar betur. Enn eitt er alveg víst. Ég mun róótonum upp. Bestu kveðjur að sinni. Hösmagi sem brátt verður einkahlutafélag.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online