Monday, July 31, 2006

 

Næturkyrrð.

Næturkyrrðin ríkir og Hösmagi vakir. Meira að segja Raikonen er sofnaður aftur. Eitthvert slen yfir undirrituðum eftir Veiðivatnatúrinn. Angi af pest þó ég hafi nú haldið til vinnu á ný í gær. Við komum sáttir heim úr Veiðivötnum. Eins og jafnan áður. Fengum fallega fiska en veðrið var leiðinlegt svona meiripartinn af viðveru okkar þarna. Nokkur vindur og kosturinn við það er sá að friður verður fyrir andskotans mývarginum á meðan. Það lygndi á laugardagsmorguninn og þá var vargurinn í vaffinu sínu. Ég ætla svo aftur inneftir í dagsferð í veiðilok eftir tæpar 3 vikur. Þá er orðið svo áliðið að allur vindur er úr varginum. Og þá er tími þeirra stóru eins og sannaðist í fyrra. Ég er bara einn og hálfan tíma innúr og ætla aftur heim að kvöldi. Nýi vagninn hefur sannað sig sem góður veiðibíll. Líklega með sál eins og flestir mínir bílar um dagana. Það sem angrar mig þessa dagana er framferði Ísraelsmanna í Líbanon. Ætla samt að sitja á mér nú því ég yrði svo sannarlega stóryrtur ef ég byrjaði. Þeir munu halda áfram. Kanarnir hafa engan vilja til að stöðva þetta morðæði. Síonistarnir eru margir í USA. Ég er þó viss um að sagan mun að lokum dæma þessi glæpaverk. En það hjálpar þeim ekki sem nú deyja. Nóg um þetta í bili.
Nú styttist í næsta þátt í farsanum hjá Framsókn. Flokksins sem er í nýrri sókn að áliti Dóra Móra. Og maddömu Jónínu. Þegar véfréttin tekur við mun draugurinn stjórna áfram enn um hríð. Móri mun halda í strengina og kippa í og gefa eftir. Vonandi er þó bara tímaspursmál hvenær flokkurinn geyspar endanlega golunni. Kannski er einn þáttur eftir í þessu sjónarspili fáránleikans. Líklega dramatískur fyrir suma en sorgin verður víðsfjarri hjá undirrituðum. Eins og ég sagði um daginn mun ég ekki verða við útför framsóknarflokksins en geri mér dagamun og fagna heima.
Eftir nokkuð marga frídaga og góða veiði í júlí tekur nú við hinn grái hversdagsleiki á ný. Kvíði þó engu og horfi björtum augum fram á veginn. Ætla reyndar að vera í veiði alla laugardaga í águstmánuði og vertíðarlokin eru 2. september.Ef haustið verð ljúft er þó líklegt að henni verði framlengt.Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, July 24, 2006

 

Laxinn sem hló.

Ein skáldsagan um glæp heitir Löggan sem hló. Ég gríp stundum í Sjöman og Wahlö mér til hugarhægðar. Finnst ákaflega vænt um Martin Beck. Fyrir mörgum árum var ég að veiða í Víkinni í Ölfusá. Ég setti undir litla minitúbu sem heitir Collie dog. Og laxinn stóðst ekki freistinguna að glefsa í þetta silfraða og svarta gerfiskordýr. Hann virtist vera fastur í snörunni og undirritaður var alsæll. En þetta var nú sýnd veiði en ekki gefin. Skyndilega tók laxinn strikið að landi. Upp að berginu við bakkann. Og öllum viðstöddum til undrunar tók laxinn að berja hausnum við bergið. Og viti menn. Fljótlega hrökk túban úr kjaftvikinu á fiskinum. Hann synti aðeins frá landi, rak hausinn uppúr vatninu og ég og aðrir viðstaddir sáum ekki betur en hann væri að hlægja. Hann hefði líka rekið út úr sér tunguna ef hún hefði verið til staðar. Þetta er ein af ótalmörgum skemmtilegum minningum úr veiðisögu Hösmaga. Og þessi lax er ákaflega minnisstæður eins og margir aðrir sem hafa sloppið. Hann var ráðagóður og barg lífi sínu með klækjum sínum. Verður því eftirminnilegri en allir laxarnir sem undirritaður hefur spillt um dagana. Síðasti laxveiðidagurinn í þessari lotu er í dag. Og einmitt í Víkinni. Ég ætla að setja túbú skáldsins undir. Æskrím étur hann. Kannski skeður eitthvað álíka skemmtilegt.
Ég keypti tengdamömmubox í gær. Frábært nafn á farangursgeymslu sem sett er á toppinn á ferðavögnum. Varð mér úti um þessa hirslu á vildarverði fyrir hreina tilviljun. Og strákarnir í Bílanausti voru fljótir að festa hana á hinn gljáandi fína Green Highlander. Ég sagði þeim reyndar sem var að fyrrum tengdamamma væri nýlátin. Hef oft hugsað til hennar að undanförnu. Á henni margt gott upp að unna og aðeins góðar minningar um þessa ágætu konu. Hefði örugglega ekki látið hana dúsa í boxinu á ferðalögum.
Hér ríkir nú næturkyrrðin ein. Ekki einu sinni framsóknarmaður á ferli. Logn og nærri 13 stiga hiti. Það verður ljúft að renna fyrir þann silfraða í fyrramálið Held að dagurinn lofi góðu. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Sunday, July 23, 2006

 

Iðjan eina.

Nú hefur íslenska sumarið sýnt sig. Ekki 35° sem er að drepa suma evrópubúa. Þetta indæla veður sem hér getur orðið þegar best lætur. Hef haldið mig stíft að veiðiskap og gengið nokkuð vel. 9 laxar á einni viku og skáldið krækti í 2 á föstudagskvöldið. Veiðigyðjan hefur sannarlega verið okkur hliðholl.
En stundum fylgir böggull skammrifi. Sumir stangveiðimenn eru þannig gerðir að þeir fara úr límingunum ef aðrir veiða meira en þeir sjálfir. Einkennilegt hvernig þau systkyni illmælgi, rógur, níð og öfund ná stundum tökum á sumu fólki. Sem betur fer eru þeir nú ekki margir. Þeir ættu að stunda eitthvað annað en veiðiskap. Við Sölvi fengum fnykinn af þessu yfir okkur á föstudaginn var. Ég ætla að láta þetta mér í léttu rúmi liggja. Veiði á þriðjudaginn og svo höldum við strákarnir í Veiðivötnin á fimmtudaginn. Það verður örugglega indælt líka. Framsóknarliðið getur fagnað þessa daga. En ég lofa ykkur því að það verður ekki mjög lengi. Þegar um hægist mun Hösmagi taka upp fyrri störf hér á blogginu. Honum er nú fátt heilagt þegar framsókn er annarsvegar.

Við Raikonen tökum því bara nokkuð rólega í dag. Held að hann sé nokkuð kátur með að hafa fóstra sinn heima. Hann kom með veiði hingað inn í morgun.Líklega viljað sýna mér að hann gæti nú fiskað eins og ég. Og ég var í vondri aðstöðu til að skammast. Fór og þvoði grænu þrumuna og síðan tekur uppvaskið við. Ég neyðist til að laga til hér heima áður en frúin sem ætlar að fóstra köttinn góða kemur. Ég er viss um að það mun fara vel á með þeim. Sem sagt allt annkoti gott.
Bestu sumarkveðjur krúttin mín, ykkar Hösmagi.

Monday, July 17, 2006

 

Sumar ?

Einhver kerling spáði því að sumarið byrjaði 15. júlí. Ekki alveg sannspá því veðrið var hálfandstyggilegt þennan dag. 3ja stangadaginn góða. Okkur feðgum tókst þó að hrella 2 laxa og einn sjóbirting. Síðari hluti dagsins drukknaði einfaldlega í rigningu og roki.Gáfumst upp kl. 19. Nú er kominn 51 lax úr ánni auk nokkurra sjóbirtinga. Áin er skolug og nokkuð mikil en þó er vel hægt að reyna fyrir sér. Nú á ég 4 veiðidaga í þessari viku. Vinna í dag og afmæli Ingunnar Önnu í kvöld. Litla snótin hans afa er fjögurra ára í dag. Og kannski er önnur snót á leið í heiminn. Skýrist síðar. Sólin skín nú glatt og varla bærist hár á höfði. Gæti orðið góður dagur til margra hluta. Kannski að spá kerlingar sé bara 2 dögum á eftir áætlun. Þetta væri nú ekki amalegt veður í Veiðivötnin í næstu viku.Þessu ágæta veðri er spáð hér sunnanlands út þessa viku. Við eigum einfaldlega skilið að fá góðan veðurkafla nú. Þá er hægt að snýta úr sér leiðindunum vegna roks og rigningar. Raða geðprýðisgenunum upp aftur. Menn verða þungir og slappir í rosanum. Ef fram fer sem horfir mun fólk ná áttum á ný. Fegurð himinsins nær völdum og allir verða glaðir. Jafnvel draugurinn Dóri Móri mun brosa út í annað. Og voru þau nú ekki mörg brosin hans í lifanda lífi. Hösmagi er með sól í hjarta. Hlakkar til kvöldsins, morgundagsins og allra hinna daganna. Skáldið mun örugglega droppa við einhvern veiðidaganna í vikunni. Gott að standa upp frá andlegheitunum í Fúlagerði. Þetta verður lífleg og skemmtileg vika. Bestu kveðjur úr blíðunni, ykkar Hösmagi.

Thursday, July 13, 2006

 

Varadekkið.

Guðni var í kastljósinu í gærkvöldi. Hann ætlar að láta sér duga að verða varadekk áfram. Varadekk véfréttarinnar frá Bifröst. Það var þó auðheyrt á Guðna að hann var alls ekki sáttur við þessa ákvörðun sína. Nú hlakkar í draugnum sem einu sinni hét Halldór. Alvörudraugur í stað fortíðardraugsins sem stjórnað hefur þessum gæfulitla stjórnmálaflokki undanfarin ár. Gömlu samvinnuhugsjónirnar löngu farnar. Dauðar eins og öll kaupfélögin. Mér hefur ávallt verið hlýtt til Guðna. Og er enn að sjálfsögðu. Var að vona að látið yrði reyna á það hvers kyns fólk það er sem enn styður þennan deyjandi flokk. Með þessu verða sjónarmið Guðna og Kristins Gunnarssonar undir. Við skulum þó ekki afskrifa Kristinn strax. Hann hefur oft andæft í flokknum. Svívirðunni af stuðningi Halldórs við morðæði kana og breta í Írak t.d. Þar sem tugþúsundir saklausra borgara hafa fallið í valinn. Ekki vildi ég hafa slíkt á samviskunni. Draugar eru líklega samviskulausir svo mórallin plagar þá ekki. Niðurstaða þessa sjónarspils fáránleikans mun verða lýðum ljós fyrir haustdaga. Kosningavetur framundan og ríkisstjórnin ekki í ástandi til góðra verka. Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn með alútbrunninn foringja. Engar nýjar hugmyndir og aðeins valdasýkin eftir. Kannski er von til að menn átti sig á þeim bænum ef vin- stri grænir koma vel sterkir út úr kosningunum.
Ekki er nú spáin nógu góð fyrir morgundaginn. Hinn rómaða 3ja stanga dag. Skúrir og rok. Ekki alveg það ákjósanlegasta. Er samt vongóður og alltaf gott að eiga samveru með sonunum tveimur. 43 komnir á land og vonandi verða þeir nokkru fleiri eftir morgundaginn. Green Highlander orðinn dragfínn að nýju. Græna þruman með eiginleika allra bestu gæðinganna. Með afl 330 ólmra stóðhesta undir vélarhlífinni. Öldungis unaðslegt.

Stofnfundur hollvinafélagsins verður í september. Kannski þann 9. Nokkrir Selfyssingar hafa stoppað mig á förnum vegi að undanförnu og lýst mikilli ánægju með þetta. Ef við leggjum saman kraftana getum við örugglega komið góðum áformum í verk. Ég hlakka til að vinna með þessu ágæta fólki. Og við munum afsanna delluna hjá eyðileggingaröflunum. Fjallið góða mun anda léttar. Bestu kveðjur úr sunnlensku slagveðri, ykkar Hösmagi.

Monday, July 10, 2006

 

Enn og aftur.......

af framsókn. Jónína fékk loks ráðherraembætti hjá Dóra. Hún ætlar að verða samhent með Nonna Sig. Erfðaprinsinum sem Halldór valdi til að ýta Guðna Ágústssyni til hliðar. Guðni var nefnilega ekki nógu samhentur. Jafnvel ekki hrifinn af staðfestunni í Írak. Dröslast með gamlar bændahugsjónir á bakinu og annað sem ekki á lengur við í framsóknarflokknum. Allt saman er þetta ný mynd uppdráttarsýkinnar í þessum flokki. Gefist Guðni upp fyrir hægri öflunum sem Dóri mun stýra áfram er flokkurinn endanlega búinn að gefa upp á bátinn það skásta sem þar var til. Kannski er það bara fagnaðarefni. Þá geta skárri framsóknarmennirnir komið sér fyrir þar sem þeir eiga heima. Og hugmynd Hannesar Hólmsteins gengið upp. Sameina þessa tvo íhaldsflokka. Flokkinn munu fáir trega. Hinn ágæti Simmi sjónvarpsmaður ræddi við nýju maddonnuna í flokknum í kastljósinu í gær. Að dómi Jónínu var uppi á honum tippið. Tók stórt uppí sig. Talaði um vargöld í framsóknarflokknum. Það er auðvitað dæmigert fyrir þessa nýju spákonu framsóknar að ekki má nefna hlutina réttum nöfnum. Flokkurinn er í þann mund að leysast upp í frumeindir sínar. Það er engin uppstokkun að formaðurinn fremji harakiri og heimti að sumir fari að dæmi hans. Draugurinn raðar svo á garðann eins og honum þóknast. Flokkurinn verður ekki skorinn upp við meini sínu. Hann verður bara skorinn niður. Í snörunni en ekki úr henni. Það mun væntanlega koma í ljós á næstunni hvað Guðni gerir. Lætur hann slag standa eða hlýðir hann foringjanum og dregur á kvið sér? Það væri honum nú reyndar ólíkt. Við hin, sem ekki erum í neinum sjálfsmorðshugleiðingum, fylgjumst með þessu fáránlega sjónarspili. Það er komið þannig fyrir framsóknarflokknum að nokkrir kostir eru fyrir hendi. Og allir mjög slæmir. Gamla máltækið um að hver uppskeri eins og hann sáir er í fullu gildi enn.

Áin orðin nokkuð falleg aftur. Mun reyna fyrir mér á morgun. Dimmt yfir nú en spáir norðangjólu aftur á morgun. Döpur veiði síðustu daga en bjartsýnin ein ríkir hjá undirrituðum. Ef við höfum engar væntingar gengur ekkert upp. Bestu kveðjur, Ykkar Hösmagi, árrisull að venju.

Sunday, July 09, 2006

 

Vanagangur.

Grár mánudagur og lífið gengur sinn gang. Kyrrt veður og hiti 9 gráður. Áin gjörsamlega líflaus í gær og enginn fiskur veiddist. Kannski er laxinn seinna á ferðinni nú vegna kalda vorsins. Vona svo sannarlega að líf verði á laugardaginn en þá er hinn rómaði 3ja stanga dagur. Hefur alltaf gengið nokkuð vel undanfarin ár og ég ætla að trúa því að svo verði einnig nú.
Vinna klukkan 9. Síðan er jarðarför fyrrum tengdamömmu kl. 13. Veiði á miðvikudag og síðan 4 veiðidagar í næstu viku. Og Veiðivatnatúrinn árlegi í þar næstu viku. Það er sem sagt allmikið framundan hjá Hösmaga. Hef sannfrétt að Siggi lambakóngur hafi áhuga á að slást í för með okkur feðgum. Sannarlega mun ég stuðla að því að svo verði. Hann er einn af aufúsugestum heimsins hvar sem hann kemur. Rólegur og jafnlyndur eins og afi. Við áttum mkið sameiginlegt að sælda í æsku hans. Piltur að mínu skapi og hann mun ekki spilla félagsskapnum í Veiðivatnagenginu. Vonandi ná Vötnin að hlýna á næstunni. Þau eru nú bara rétt um 5 gráður. Stóri fiskurinn enn á djúpmiðum. Fróðlegt að frétta af Magga og sonum í dag.
Raikonen steinsefur með loppu undir haus. Yfirkisi í Ástjörn 7. Gleðigjafi fóstra síns og varðdýr hið besta. Það er nú ekki slæmt að eiga slíkan vin og félaga. Segir að vísu fátt og kvartar ekki. Lífgar bara uppá tilveruna með nærveru sinni og lífskrafti. Enn kyrrð úti og bara einstaka morgunhanar komnir á stjá. Svo vaknar bærinn og hjólið snýst áfram. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Saturday, July 08, 2006

 

Sumarkuldi.

Eftir rigningarnar miklu tók norðanáttin völdin. Lafir í 10 gráðum nú um hádegi á laugardegi. Ég var í veiðiskap í gær. Áin mikil og skolug. Tókst þó að krækja í 2 laxa í gærkvöldi. Var farinn að skjálfa af kulda og flýði heim þegar hálftími lifði af veiðitímanum. Ósköp gott að skríða undir sængina þegar heim kom. Þetta voru nú einu laxarnir úr ánni í gær svo ég má vera sáttur. Svipað veður í dag og ég er bara feginn að vera heima í rólegheitum. Enn veiðidagur á morgun og ég mun sannarlega fara vel búinn að heiman. Rokið er ekki mitt veður í veiðiskap. Maggi og synir í Veiðivötnum í dag. Vonandi eru ullarpeysurnar meðferðis. Vöðlurnar eru líka góðar í kulda. Ég hef aldrei verið svo kvalinn af veiðidellu að ég hafi fengið áhuga á vorveiði eða októberveiði. Þegar frýs í lykkjunum og kuldahrollurinn streymir um þig. Líklega er það nú alveg sama hvað við tökum okkur fyrir hendur utandyra á ísaköldu landi. Veðrið skiptir öllu máli. Ég á jafnvel von á skáldinu í veiði á morgun. Það kostar skáldið að vísu að vakna snemma. Sennilega væri kvöld og næturveiði helst við hæfi skáldsins. Gæti þó breyst síðar. Við verðum flest kvöldsvæfari með aldrinum og sprækari upp á morgnana. Kann einhver á því skýringu? Aldrei þessu vant ætlar Hösmagi að elda sér mat nú í hádeginu. Nætursöltuð ýsa, kartöflur og smér. Alveg þrusugott. Kveðjur úr norðanbálinu, ykkar Hösmagi.

Tuesday, July 04, 2006

 

Véfréttin.

Hinn nýi erfðaprins Dóra litla hefur talað. Véfréttin frá Bifröst. Stóriðjustefna framsóknarflokksins var slegin af fyrir þremur árum. Þegar Álgerður skrifaði undir viljayfirlýsinguna við Alcoa fyrir rétt rúmum 4 mánuðum hefur það líklega verið um að virkja miguna úr henni sjálfri. Þetta er allt með ólíkindum. Erfðaprinsinn, sem er reyndar eldri en Dóri, ætlar að hafa sama háttinn á. Nú á bara að breiða yfir stóriðjuæðið af því að kosningar eru á næsta ári. Sigla undir fölsku flaggi og breitt yfir nafn og númer fleytunnar. Árangur vinstri grænna í sveitarstjórnarkosningunum og útkoman í skoðanakönnunum er fyrst og fremst að þakka andófi gegn þessari helstefnu gagnvart náttúrinni. Og við megum alls ekki fá að vita verðið á raforkunni. Það er svo smánarlegt að það má ekki segja frá því. Og rök forstjóra landsvirkjunar eru þau að það skemmi samningsstöðu okkar gagnvart nýjum álherrum framtíðarinnar. Þetta eru hræddir menn á flótta. Landsvirkjun er í almannaeigu. Við eigum fullan rétt á að vita allt um raforkuverðið. Almenningi blæðir vegna skammsýni og undirlægjuháttar þessara aumingja. Það er ekki bjart ljósið frá týrunni á þeim. Fimmtán kerta peran skín skært í samanburðinum. Og ljós nýja vitringsins frá Bifröst er ekki skárra. Það sýndu yfirlýsingar hans frá því í gær. Vonandi tekst honum ekki að blekkja marga til fylgilags. Valdasýkin er sú sama og áður. Og nýi foringinn, útblásinn af mannviti, ætlar að gegna skyldum sínum. Hlýðir harakirimanninum út í ystu æsar. Ég segi nú bara að lengi getur vont versnað.

Nú hefur stytt upp eftir mikla rigningu. Bjartar horfur með veiðiveður á morgun og hinn daginn. Hyggst rótonum upp. Enda útblásinn af veiðivonum. Ætla að gegna skyldum mínum. Standa við heit mín eftir bestu getu. Og það verður sko ekki breitt yfir nafn og númer Hösmaga fremur en fyrri daginn. Þrettán kveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, July 03, 2006

 

Að fá sér í ranann.

Ef ég væri ekki svona voðamikill reglumaður myndi ég hafa fengið mér ærlega í ranann eftir að portúgalir sendu englendinga til síns heima. Nú fer að styttast í lokin og spá mín er sú að Þjóðverjar fari létt með Ítali. Kæmi ekki á óvart að þeir léku til úrslita við Frakka. Portúgalar eru þó óútreiknanlegir og gætu komið á óvart.
Nú er aftur komið veður hér. Sannkallað slagveður. Gott að bæta við maðkabirgðirnar í kvöld. Nú eru komnir 27 laxar á land úr Ölfusá. Enginn laxlaus dagur enn og byrjunin því ein sú besta í mörg ár. Vonandi verður framhaldið enn betra. Sérstaklega væri æskilegt að fá stórgöngu á fimmtudag og föstudag. Spáin er enn óljós en liklega verður nú væta. Rokið er leiðinlegt við veiðiskapinn. Regnið klæða veiðimenn af sér með vöðlum og regnkápum. Nú verður Lancerinn notaður sem veiðibíll. Green Highlander fer í aðhlynningu. Búið er að meta tjónið uppá 150.000 Það er auðvitað hið versta mál. Þegar bílar verða gamlir og hæfilega krambúleraðir skiptir svona lagað engu máli. En þessi nýja 5 millu mubla verður að fá að halda reisn sinni. Tryggingafélögin eru líka til þess að bæta svona hluti. Ekkert er eðlilegra en fá eitthvað í staðinn fyrir alla aurana sem ég þarf að ausa út. Hátt í 300.000 á ári. Auðvitað væri þó betra að þurfa aldrei á neinum bótum að halda. Svona eins og þegar vissir hlutir eru keyptir og manns helsta ósk er að þurfa aldrei að nota þá. Slökkvitæki og eldvarnarteppi til dæmis. Eignatjón eru þó smámunir einir ef fólk sleppur. Slæm slysahelgi nýliðin og margir eiga um sárt að binda. Ég hugsa til þeirra og finn til með þeim. Og blaðurskjóðurnar hjá umferðarstofu tuða áfram. Nær væri að nota alla þá fjármuni sem þar er á glæ kastað til að laga verstu slysagildrurnar á þjóðvegum landsins. Efla lögregluna í baráttunni við umferðarofbeldið sem hér tíðkast. Við þurfum ekki að reka battarí eins og umferðarstofu til að segja okkur að verið sé að malbika Snorrabrautina. Segja okkur að keyra á löglegum hraða og sleppa akstri ef ákveðinn vökvi hefur runnið niður ranann. Mér er mikil raun að hlusta ár eftir ár á þessa síbylju. Enda skilar hún nákvæmlega engum árangri. Notum skynsemina og nýtum þessa fjármuni á annan hátt. Það mun skila árangri.

Nú sofa þeir báðir vinirnir, Raikonen og Pési. Þreyttir eftir útveru og áflog innan dyra. Drungi yfir öllu og ekki mótar fyrir fjallinu góða í þokunni. Svo vaknar bærinn og við höldum til starfa. Streðum fyrir brauði. Og leikjum. Eru það ekki okkar ær og kýr. Bestu kveðjur úr morgunsárinu, ykkar Hösmagi.

 

Seinni hálfleikur...

ársins er hafinn. Sá fyrri fremur fljótur að líða eins fara gerir nú hin síðari ár. Svinghjólið herðir stöðugt á sér. Veðrið er eiginlega hvorki gott né vont. Eiginlega ekkert veður að kalla. Laugardagur leið við tilraunir í veiði. Enginn árangur og Hösmagi var jafnvel hálfleiður þegar deginum lauk. Sá engan fisk og varð ekki var við neitt. Um kvöldmatarleytið í gær skrapp ég að ánni til að leita frétta. Hitti þar mann sem var að fara heim að borða annan laxanna sem hann hafði veitt.Bauð mér að nýta leyfið sitt. Ég sagðist ekki nenna því. Fór heim en fékk skyndilega bakþanka. Svona anga af hugboði. Dreif mig að ánni og var fljótur að krækja í einn. Hann verður á borðum hjá Immu á Mánavegi í dag. Það er nú ekki nýlunda að ekkert gangi á eigin veiðidögum en betur í annara manna leyfi. Laxinn er óútreiknanlegur og það er nú það skemmtilegasta við þetta. Þessi vinnuvika verður í styttra lagi hjá undirrituðum. Eftir vinnu á miðvikudag er árleg ferð í Haukadalsskóg. Þar er oftast gott veður og ljúft að koma í Gunnarslund. Veiði á fimmtudag, föstudag, afslöppun á laugardag og enn veiði á sunnudag. Kem hreinlega ekki höggi á framsókn fyrir önnum. Vonast eftir skáldinu til að hvíla mig aðeins á stönginni. Það er sem sagt allt ljúft eða svo gott sem. Einn skuggi á tilverunni. Nokkrar skemmdir á nýja glæsivagninum. Spurning hvað Krónusamloka laugardagsins kostar mig. Líklega ekki undir 50.000 Dýrt myndi brauðið allt. Bestu kveðjur að sinni, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online