Wednesday, May 24, 2006

 

Villigötur.

Það er ömurlegt þegar maður sér fyrrum samherja sína í bæjarpólitíkinni láta hafa sig í það að vitna um ágæti núverandi bæjarstjórnar. Samherja sem risu upp gegn öllu flokksvaldi 1978 og aftur 1982. Þeir eru á villigötum og hafa nú lagt hugsjónir sínar á hilluna fyrir drauminn um stóran flokk. Stóran, hugsjónasnauðan og valdasjúkan flokk. Er þetta ágæta fólk algjörlega búið að týna áttum? Það hlýtur að vera. Sem betur fer erum við þó enn nokkur, sem ekki látum villa okkur sýn. Trúum enn á að hægt sé að breyta um stefnu hér. Erum ekki ánægð með öll afreksverkin sem núverandi meirihlutaflokkar hafa unnið síðustu 4 árin. Ég hef talið þetta allt saman upp áður. Miðjuhneykslið, skipulagsmálin, fjallið og önnur umhverfismál, hið ónýta og rándýra stjórnkerfi o.s.frv. Þar stendur ekki steinn yfir steini. Flennistórt blað frá samfylkingunni barst inní forstofuna í gær. Myndir af mörgum úr hallelújakórnum. Og meðlimirnir vitna hver af öðrum. Og gömlu félagarnir eru nú sammála Sigurjóni Erlingssyni fyrrverandi foringja úr Alþýðubandalaginu sáluga. Sem var þó bara bæjarfulltrúi framsóknarkratanna sem öllu réðu í flokknum í gamla daga. Ég er sannarlega ánægður með sjálfan mig að hafa ekki kosið hann. En Bergþór minn sem nú er genginn missti aldrei sjónar á markinu. Og Iðunn komin heim aftur. Stoltur af þeirri góðu konu í heiðurssæti V listans. Nú á endaspretti kosningabaráttunnar hef ég komist að einu. Fáir, ef nokkur, mun ganga jafnákveðinn að kjörborðinu og undirritaður. Valkostirnir hafa aldrei verið jafnskýrir.

Allt við það sama í veðurkortunum. Strekkingur og 0 gráður. Jafnvel Raikonen nennir ekki að vera úti. Eltist við stráin smástund en flýði svo inní hlýjuna til fóstra síns. Verst að mega ekki taka hann með sér á kjörstað. Hann kysi örugglega rétt. Með fóstra sínum og fjallinu. Ekki rammvilltur eins og sumir áhangendur I og M lista forðum daga. Vonandi rata þeir út úr þokumyrkrinu um síðir.
Hyggst nota frídaginn til að ljúka við 2 síðustu framtölin í ár. Ekkert gaman að halda til stangveiða í þessu tíðarfari. Þrátt fyrir gjóluskrattann úti ríkir hér kyrrð og friður. Ég bið að heilsa ykkur að sinni, ykkar Hösmagi, ákaflega staðfastur nema bara svolítið öðruvísi en Dóri.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online