Sunday, November 22, 2009

 

Myrkurkyrrð.

Kimi hamast við að þrífa sig. Situr í glugganum og lítur annað slagið út í vetrarmyrkrið. Jólaljósin eru reyndar komin upp nokkuð víða.Ég ætla líka að vera fyrr á ferðinni en venjulega með nokkrar perur. Maður birtunnar sem jafnan fyrr. Helgin hefur verið róleg. Ég vona að mér fyrirgefist að hafa sofið af mér útgáfuteiti skáldsins míns á laugardagskvöldið. Vaknaði þegar það var að byrja.Brjóstverkurinn hrjáir mig enn og ég reikna með að fara 5tu ferðina á Borgarspítalann í vikunni.Ég ætla mér að ná góðri heilsu á ný.Enginn bilbugur á mér hvað það varðar. Þrátt fyrir kreppu og misvitra stjórnmálamenn er lífið enn skemmtilegt. Margir óveiddir fiskar. Nýjasta viðurnefni mitt, tengt fiskum, er Lúðuhrellir. Mér áskotnaðist það í áritun skáldsins á Síðustu daga móður minnar. Ég held líka að ég hafi hrellt stóra lúðu úti á Faxaflóa síðastliðið sumar. Hún hefur stækkað síðan og verður enn stærri þegar ég næ henni næsta sumar.Þá verður hægt að blása til lúðuveislu á svölunum í Ástjörn 7. Grilluð lúða og nokkrir dropar af Stroh með.Það er aldrei of seint að halda innflutningspartý. Kimi verður heiðursgestur á eigin heimili og fær humar en ekkert Stroh. Er þetta ekki bara myljandi góð hugmynd?

Það er smágjóla af norðan. Engin merki um snjókomu á næstunni og því varla hægt að kvarta neitt.Við Kimi höldum okkur inní hlýjunni og bíðum birtu dögunar.Viðgerð á grænu þrumunni loksins áformuð eftir óhappið um daginn. Afturljósið komið frá USA. Þessi eðalvagn verður ánægður eftir meðhöndlun Helga Sigurðssonar sem er afar flínkur bílameistari. Við vinirnir, þessir rauðu, sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, November 16, 2009

 

Síðustu dagar.......

móður minnar er góð bók. Ég er reyndar ekki alveg hlutlaus dómari.Skáldið mitt gaf mér bókina á mánudaginn var. Áritunin ákaflega falleg og gladdi gamlan föður. Ég hef hugsað margt við lestur bókarinnar. Þó ég hugsi orðið að mestu framávið núorðið er líka óhjákvæmilegt að horfa stundum til baka. Þegar mér var tilkynnt fyrir rúmum tveimur árum að ég væri með krabbamein var fyrsti þankinn sá að ég yrði að skipuleggja það sem ég þyrfti að gera áður en ég myndi deyja.Svo fór ég í ríkið og náði mér í öl og snafs. Samt langaði mig eiginlega ekkert í áfengi. Það fór líka svo að þetta varð ekki stórdrykkja. Ég einbeitti mér að batanum. Og þegar ég kom heim af spítalanum keypti ég mér nýjan flatskjá fyrir jarðarfararpeningana. Ég hef líka farið miklu lengra til baka. Til mánaðanna desember 1985 til maí 1986. Þá lá ég tíðum á dauðadeildinni 11 G á landsspítala. Kynntist þar mörgum sem voru að deyja. Ég undraðist æðruleysi þessa fólks og það kenndi mér margt.Það besta við þessa nýju skáldsögu hans Sölva míns er að hún er ljúfsár. Ljúf og í senn sár. Tregafull og líka full af húmor. Sannarlega get ég tekið undir með Steinari Braga og Auði sem tala um mergjaða sögu og ofboðslega sérstaka. Þau Dáti og Eva voru indælir förunautar í síðustu viku. Ég hef sjálfur margreynt að það er hægt að láta sér líða afskaplega vel í eigin kvöl. Furðulegt en satt. Ég er viss um að ég hefði notið mín vel innanum allt kartöflubrennivínið og á hasssafninu.Bestu þakkir Sölvi minn.

Lífið gengur sinn vanagang hjá okkur Kimi. Pólitíkin jafn andstyggileg og svo oft áður. Fæ mig varla til að minnast á hana.Nú bíð ég eftir símtali frá Borgarspítalanum. Ég er þó ekkert stressaður. Ég bíð bara eftir að losna við þennan leiðindaverk.Síðustu ferðir mínar á spítalann færðu mér heim sanninn um að enn eigum við frábært starfsfólk í heilbrigðisgeiranum. Einkum blessað kvenkynið.Samt er maður alltaf jafn feginn að komast heim aftur. Bestu kveðjur frá okkur vinunum, ykkar Hösmagi.

Sunday, November 01, 2009

 

Morðæði.

Alveg er yfirgengilega sorglegt að fylgjast með fréttum af stríði nokkura manna gegn fáeinum rolluskjátum í fjallinu Tálkna fyrir vestan.Þetta ku vera erfitt land til smölunar og allt frá 1950 hefur verið þarna hópur af kindum allt árið. Ekki verður annað séð en að dýrin hafi lifað léttilega af öll vetrarveður og haft nóg í sig að éta.Fyrir 4 árum var gerð ásás á þessar skepnur. Þyrlur voru notaðar til að skjóta dýrin úr lofti og hræin látin liggja þar sem þau voru komin. Kannski voru sum þeirra marga klukkutíma að berjast við dauða sinn. Það kom ekkert við góðmennin sem stóðu fyrir þessum líknarverkum. Rökin voru að mannúðarsjónarmið knýðu menn til að haga sér með þessum ótrúlega hætti. Blessuð dýrin gætu liðið skort þarna. Umkomulaus og án hirðis. Þetta eru þó bara yfirgengileg níðingsverk, auk þess að vera gróf brot á lögum um dýravernd. Það eru sérkennileg vinnubrögð að þverbrjóta lög og réttlæta það með því að þykjast vera að framfylgja sömu lögum. Það hefur komið í ljós að þessi dýr sem fönguð voru nú eru í mjög góðum holdum. Þeir sem best til þekkja á þessum slóðum telja þar nóg til að bíta og brenna. Af hverju mega ekki nokkrar kindur ganga um villtar og njóta frelsis síns? Hvað með hreindýrin, minkinn og refinn? Gætu þessi dýr ekki soltið líka? Þurfa dýravinir að safna liði til að koma þessum skepnum til varnar og hjálpar? Ég er bálvondur yfir þessum hryðjuverkum og lýsi mikilli andstyggð á fólkinu sem fyrir þeim stendur. Það eru nokkur dýr lifandi ennþá. Stöndum vörð um þau og lofum þeim að lifa í friði.

Nóvember heilsar með svölu og fallegu veðri. Sólin skín, hitinn 2 stig og trén bærast varla. Það er ró og friður hér í Ástjörn 7. Allavega yfir íbúunum í íbúð 205. Í síðustu viku varð ég að vera fjarverandi í rúman sólarhring. Kimi einn næturlangt. Hann beið með hausinn út um gluggann þegar ég renndi í hlað undir kvöld á fimmtudag.Hann gerði enga tilraun til að leyna fögnuði sínum yfir endurheimtunum á fóstra sínum. Við gengum svo snemma til náða og allt komst á sama stig og venjulega.Í gær áskotnaðist mér kjöt úr Selvoginum. Þar eru beitarlönd góð og andi Eríks Vogsósaprests hvergi horfinn enn. Stórt sauðalæri verður heimareykt hér í nágrenninu og ég fæ strax vatn í munninn við tilhugsunina um jólamatinn. Það verða engin kreppujól hjá mér hvað mat varðar og Kimi fær bæði humar og harðfisk. Hann lúrir nú í einkafleti sínu í svefnherberginu. Gamall veiðimaður og köttur hans senda öllum vinum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online