Sunday, May 14, 2006

 

Hvað gerist ?

Samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins fellur meirihlutinn hér í Árborg. Þetta er sem sé mjög jákvæð könnun að því leyti. Ég var reyndar löngu búinn að spá því að sjallar fengju 4 og vinstri grænir einn. Þetta er að sjálfsögðu ekki óskaniðurstaða. Gott hefði verið að þurrka framsóknarflokkin algjörlega út. En þetta er gamalt framsóknarbæli og líklega ekki von til þess. Og ef vinstri grænir hlaupa strax í fangið á þessu þreytta liði úr gamla meirihlutanum, án þess að róttækar breytingar verði gerðar á stefnunni, eru þeir búnir að vera hér til frambúðar. Ég vil sjá vinstri græna mynda meirihluta með sjálfstæðismönnum. Gera traustan og góðan málefnasamning. Vegna oddaaðstöðunnar er hægt að gera miklar kröfur. Skilyrðislausa kröfu um nýja stefnu í umhverfismálum. Koma á skilvirku kerfi í ráðhúsinu. Taka menntamálin til gagngerrar endurskoðunar. Tryggja farsæla lausn þeirra fyrir íbúana á ströndinni. Ef íhaldið gerir kröfu um pólitískan bæjarstjóra er vel hægt að samþykkja Snorra Finnlaugsson. Versti ljóðurinn á íhaldslistanum er auðvitað foringinn, Eyþór Arnalds. Ef honum er haldið á mottunni getur þetta vel gengið. Og ef aðrir fara út af sporinu þá er auðvelt að slíta samstarfinu. Ef lagt er af stað af fullum heilindum er ég viss um að þessi meirihluti getur gert góða hluti. Vonum bara það besta.
Sérlega fallegt veður þessa dagana. Nokkuð kalt á nóttunni en sæmilegt á daginn. Fór á þorpsmarkað á Eyrarbakka í gær. Keypti mér ekta silfurbaug fyrir 1.500 kr. Ýmsar uppákomur hér í tilefni Vors í Árborg. Keypti líka nýja hleðsluborvél í Húsasmiðjunni. Hægt að nota hana eins og slípirokk. Ætla að gera litla Lanca svolítið til góða. Hreinsa burtu ryðið, grunna og sprauta svo yfir. Gengur alltaf eins og klukka og þjónar mér vel. Og eðaljeppinn Cherokee er alltaf jafn unaðslegur. Kannski er aðalmunurinn á bandarísku jeppunum og þeim japönsku sá, að það fer miklu betur um fólk í þeim fyrrnefndu. Þessvegna er mér óskiljanlegt hvað margir kaupa Toyota Land Lúser. Mér er reyndar nákæmlega sama. Verði þeim að góðu. Einn starfsmaður fasteignasölunnar á nýja Subaru Trebica bifreið. Mjög ánægður með hana. En hann hlýtur að hafa afar sérstætt fegurðarskyn. Bíllinn er eins og nashyrningsrassgat að aftanverðu og úldinn þorskhaus að framan. Mér verður næstum flökurt á að horfa á þetta japanska sköpunarverk. En japanir geta vel hannað gott útlit á bílum. Það sannar Nissan Murano sem er sérlega fallegur vagn. Og örugglega góður líka.
Kaffið uppurið og líklega nóg kveðið að sinni. Ætla að njóta dagsins í rólegheitum. Formúlan í dag og Raikonen byrjar í 9. sæti. Tekst vonandi að vinna sig upp. Þá verðum við nafni hans glaðir. Sá hinn sami er nú nýtur veðurblíðunnar utandyra. Skottið mitt sem ætíð er til yndis. Bestu kveðjur til allra bloggara, líka þeirra sem mér finnst nú orðið helvíti linir, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online