Tuesday, November 27, 2007

 

Fátt eitt.

Svona til að róa mína fáu, en tryggu lesendur, þá er ég nú sæmilega brattur í dag. Veikindi á vinnustað og því meira álag á þeim sem eru uppistandandi. Skrapp upp á Skeið fyrir hádegi. Hálka og ísing og eins gott að fara með gát. Og ekki síður þegar stigið er út úr bílnum. Það reyndi ég á sjálfum mér fyrir nokkrun árum þegar ég féll við slík skilyrði. Hálfbraut á mér einn fingurinn og fingurmein eru stundum langvinn. Allt gekk þó vel í dag , enda var ég meðvitaður um veðurfarið þegar ég fór að heiman í morgun. Stéttin hér fyrir utan, stiginn niður og planið eru varasöm. Þetta er hluti af dálæti mínu á birtu og yl sem ég hef svo oft talað um að ég taki framyfir myrkur og kulda. Engin ný sannindi, en jafn sönn og áður. Ég fer nú ekki strax í bælið þó ég sé oftast kvöldsvæfur. Minna gaman að vakna fyrir allar aldir nú en á björtum sumarnóttum. Kimi er nú alveg slakur og mókir á sínum stað að venju. Hefur ekki áhyggjur af neinu og er alveg meðvitaður um návist fóstra síns.
Stundum er það svo, að bloggáráttan víkur til hliðar í nokkra daga. Kannski segi ég bráðum frá dularfulla reykskynjaranum í Ástjörn 7. Það væri alveg efni í heilan pistil. Hann bíður um sinn. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Wednesday, November 21, 2007

 

Titringur.

Jörðin hefur titrað hér undanfarin sólarhring. Nú er allt kyrrt. Enda er kisi orðinn hinn rólegasti á ný. Dýrin eru líklega næmari en við mannfólkið fyrir því óvænta í náttúrunni. Í stóru jarðskálftunum árið 2000 átti ég ekkert húsdýr. En sannarlega var mér brugðið eins og svo mörgum öðrum. Þetta leiðir hugann að því hvar við búum. Erum, og eigum heima. Í landi elds, íss og skjálfta. Þraukum samt áfram á skerinu. Í myrkri og frosti. En við eigum líka ylinn og birtuna. Það breytir öllu. Það er samtengingin milli myrkursins og birtunnar. Við bíðum myrkrið og kuldann af okkur af því að við vitum að það vorar ávallt aftur. Drunginn hverfur og sálin lyftist. Landið ilmar og og það er ekki nokkur leið að verða fúll yfir einu eða neinu. Og alltaf sér maður þetta land í nýju ljósi. Ég kom að Geysi snemma í morgun. Logn og 10 stiga frost. Strókarnir liðuðust þráðbeint upp í himingeiminn. Þó ég væri illa sofinn og svolítið stressaður var þetta indælt og gladdi mitt gamla hjarta.

Svo fékk ég símtal rétt áður en ég hvarf af vinnustað klukkan 5. Það gladdi mig enn meira.
Við kisi minn förum nú svona hvað úr hverju að leggjast útaf þó klukkan sé bara 9. Sendum báðir bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, November 19, 2007

 

Sár og tár.

Ég hef stundum minnst á það hér að ég hóf þessa bloggiðju í útlöndum. Ekkert bloggað frá útlöndum síðan. Margt á dagana drifið frá fyrstu færslunni.. Stundum hefur þessi iðja nálgast þráhyggu. Þó aðallega verið til að skemmta sjálfum mér. Einskonar hluti af tilveru gamals veiðirefs, sem býr einn með ketti sínum og líkar það nokkuð vel. Ég hef oft hugsað til þess að nú sé nóg komið. Ekki vegna þess að ég hafi ekki gaman af þessu lengur. Ein vinkona mín sagði eitt sinn að það væru einkennilegir karakterar sem héldu dagbók um sjálfan sig á netinu. Sennilega alveg rétt. Ég hef þó reynt að halda mig innan svona venjulegra siðferðismarka. Ég hugsa að flestir sem hafi lesið þessa pistla geti tekið undir það. En það hefur komið fyrir að ég hafi fengið salt í ógróin sár. Það er bara vont og getur kallað fram tár. Skrápurinn ekki alltaf nógu harður. Sérílagi nú um stundir eftir nýja reynslu af lífinu. Þú breytir ekki eðli þínu á einu kvöldi. Eg er enn samur og jafn og ætla að halda áfram á sömu braut. Fagna hverjum degi með nýjum væntingum, þrám og lífsgleði. Bjartsýninni og þakklætinu fyrir að sleppa fyrir hornið. Enn eitt. Ég hef alltaf talið mig vera heppinn mann. Held að svo sé enn. Treysti á það og trúi því staðfastlega.
Og svo þetta venjulega. Raikonen búinn að viðra sig rækilega og lúrir nú í gamla stólnum. Hugur fóstra hans á svolitlu reiki. Loka glugganum svo hinn óboðni þjófur komist ekki inn til að vekja okkur fósturfeðga. Bestu kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Thursday, November 15, 2007

 

Enn af tölum.

Ég hef oft talað um dálæti mitt á tölum. Sérstaklega tölunni 13. Stundum spunnist umræður um kvaðratrætur, symmetríu, margfeldi og fleira. Ég hef nú aldrei verið sterkur í stærðfræði. Hrifnari af tölunum en sjálfri matematíkinni. Fyrir 1.021 degi fékk ég bréf frá ungum manni. Langt bréf. Engar tölur í því samt. Nema að þetta var svolítil tala, ræða. Það var mikið í þessu bréfi. Heilmikið af ást, hugleiðingum um sálina, og þennan homo sapiens , sem eru umbúðirnar. Veikleika mannsins og styrk hans. Ungi maðurinn hafði fátt eða ekkert á hornum sér. Kannski pínulítil kergja, ergelsi og vanlíðan. Og í bréfinu lýsti hann skoðunum sínum á hinu og þessu. Einfeldninni og margbreytileikanum. Hinu góða og hinu fúla og leiðinlega. Stundum leikur sérhver maður við hvurn sinn fingur. Það er það besta við lífið sjálft. Ég var sammála flestu í þessu bréfi. Ekki öllu samt. Menn geta t.d. verið ágætir þó á móti blási. Góðir, þó að það liggi ekki vel á þeim nákvæmlega í augnablikinu. Ungi maðurinn sagði undir lok bréfsins að svona horfðu hlutirnir við sér og hann vonaði að ég gæti a.m.k. virt það. Sem ég gerði svo sannarlega. Táraðist svolítið við lesturinn. Eins og í kvöld.Það var þó eitt í þessu bréfi sem varð til þess að ég er að blogga um það núna. Fjölskylda er nú teygjanlegt hugtak. Það eru til fleiri fjölskyldur en vísitölufjölskyldan. Sameinaðar og sundraðar. Það þarf varla að ræða það mikið frekar. En það sem ungi maðurinn sagði orðrétt í bréfinu um fjölskylduna var þetta: Maður situr uppi með fjölskyldu sína sama hvernig hún er - og þykir vænt um hana hvort sem er í veikleikum hennar eða stórfengleika. Ég er sama sinnis og vona að hann sé enn sömu skoðunar.

Við Kimi erum að ganga til náða. Hann reyndar verið milli svefns og vöku í allt kvöld. Svona að venju. Annað sem mér liggur á hjarta bíður þar til síðar, ykkar Hösmagi.

Wednesday, November 14, 2007

 

Biðstaða....

á hreyfingu í rétta átt. Það rignir aðeins en hitastigið nokkrar gráður. Búinn að fara út og ganga heilmikið. Myrkrið er jafnsvart en þetta var samt góð hreyfing og lyfti sálartetrinu líka í leiðinni. Þjófur á nóttu vakti mig klukkan 4. Matargatið sem læðist hér inn þegar færi gefst. Ég er viss um að þessi kattarafmán fær nóg að éta heima hjá sér. En sumir eru bara þannig að þeim finnst gaman að fiska innan landhelginnar. Í lokuðu og friðuðu hólfi. Ég rak djöfsa á brott. Mér var ómögulegt að sofna aftur. Einhverskonar drungi og kvíði hefur verið að trufla gamla veiðirefinn nú um skeið. Það hefur verið biðstaðan sem nú er komin á hreyfingu í átt til hins betra. Ég hef þó ekki misst úr vinnudag síðan ég byrjaði að vinna aftur eftir spítalavistina. Þessi sífellda þreyta er pirrandi en ég veit að hún mun hverfa smátt og smátt. Kannski hef ég sagt það hér 100 sinnum að rólyndi hugans er mér mikilvægast af öllu. Ef það er til staðar eru allar leiðir greiðfærar. Engin svefnvandamál og ég hlakka til morgundagsins. Ég er kominn hálfa leiðina og er sáttur með það.

Ég á heilmikið ósagt um bæjarstjórnarmeirihlutann. Vítahringinn, sem ríkisstjórnin og yfirnagarinn þenja nú út yfir þjóðina. Lymskubrögð Landsvirkjunar, sem ætluð eru til að blekkja almenning. Þau koma þó upp um hana og sanna reyndar margt af því sem ég hef sagt hér áður um raforkuverð. Og ýmislegt fleira.Það verður rifjað upp fljótlega þegar ég hef náð mínum fyrri styrk. Kærar kveðjur að sinni frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

 

Kyrrð og myrkur.

Hér er nú 1 gráða í plús. Nokkurnveginn logn svo það er eiginlega ekki hægt að kvarta yfir vetrarveðrinu 14 nóvember. Hálfgerður drungi yfir öðrum rauðliðanum á bænum en hinn þrælsprækur að venju. Er að læðupokast hér í kring um mig eftir að hafa farið út að hnusa af morgunkælunni. Þó ég vilji nú síður byrja jólin um miðjan nóvember skal ég fúslega viðurkenna að jólaljósin sem senn kvikna hér lýsa upp myrkrið. Þó snjórinn lýsi einnig upp vona ég að það verði langt í hann. Enda er hann bara til óþurftar. Ef veðrið helst í þessa veru ætla ég að verða sáttur. Svolítið vonsvikinn yfir úrslitum kosninganna í Danmörku í gær. En Danir ráða sínum málum sjálfir. Munu væntanlega halda áfram samvinnu við Bush og félaga í Írak. Nú liggur fyrir að góðverkin sem þar hafa verið unnin s.l. 4 ár hafa kostað Bandaríkjamenn 1.500 milljarða dala. Og 4 milljónir Íraka á vergangi fyrir utan mörghundruðþúsund fallna. Og við þegjum flest hér. Davíð og draugurinn jafnvel þagnaðir. Nú er aðalspursmálið um hver jólagjöfin verður í ár. Samkvæmt spám kaupmanna verður aukningin í jólaversluninni 9,4% Líklega heldur meiri en í Írak.

Þetta er nú líklega ekki fallegur morgunpistill. En Hösmagi er að vakna aftur af drunga undanfarinna daga. Vís með að halda bloggpistlum sínum áfram á næstu dögum. Af nógu að taka. Bæjarstjórnarmeirihlutinn mun enn vera til hér. Og Landsvirkjun. Við sjáum hvað setur. Nú er að drífa sig til daglegra starfa, bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Friday, November 09, 2007

 

Stundum...

er svo yndislegt að lesa komment á bloggið sitt. Oft verið að hugsa um að hætta þessu forever. En á meðan ég hef gaman af þessu og bara ein einasta persóna les það sem ég skrifa þá held ég áfram. Mig skiptir litlu hvort fólk er mér sammála um þetta eða hitt. Sanngirnin, trúverðugleikinn og það, að standa við skoðanir sínar, skiptir mig miklu. Stundum er það pólitíkin, í annan tíma persónulegir erfiðleikar. Og lífsgleðin, hamingjan og heppnin yfir að fá að lifa, starfa og njóta þess.Þegar ég byrjaði á þessu í heimsvaldaflensunni í Edinborg um jólin 2004 er mér enn sterkt í huga. Kannski er ég stundum stórorður. Einkum um þá sem ekki standa við orð sín. Það er sá flokkur fólks sem er í minnstum metum hjá mér.Fólkið sem otar sínum tota og meinar ekki neitt af því sem það segir.
Bráðum kominn svefntímí hjá okkur Kimi. Kvöldsvæfu rauðliðunum , góða nótt, ykkar Hösmagi.

 

Vika...

er ekki langur tími. Ekki í pólitík, bloggi, heimspeki eða mannfræðum. Ég hafði nánast í heitingum við MS fyrir þögnina. Stundum þarf bara særingar eins og nornirnar nota. Þó minn ágæti MS hafi nú ekki verið fallinn í ónáð og gerður að yfireiturbyrlara austur í Síberíu þá er ég bara nokkuð hress með að vita hann enn meðvitaðan um ritsnilld föður síns. Bíð að sjálfsögðu afar spenntur eftir næstu viðbrögðum. En ég hef engan kínverja í vasanum núna. Til að sprengja svo allt fari í háaloft. Enda enn langt í Gamlárskvöld.
Það var ósköp notalegt að yfirgefa vinnustaðinn nú síðdegis og koma heim í 2ja daga frí. Raikonen á verði sem jafnan fyrr. Ég hef nú unnið í einn mánuð eftir hremmingarnar. Gengið nokkuð vel en þetta er nú ekki minn uppáhaldsárstími. En allt þokast. Hann verður örugglega við á næsta ári. Vonandi á réttum stað á réttum tíma. Ég hlustaði í gærkvöldi á viðtal við Bubba Mortens. Hann er að gefa út bók. Ég er ákveðinn í að glugga í hana áður en ég kaupi hana. Það sem höfðaði sérstaklega til mín var óðurinn til náttúrunnar. Stundum er lóuungi, himbrimi, eða bjarminn yfir fjallinu miklu meira virði en fiskurinn sem þú reynir að veiða. Ég hef oft notið tónlistar Bubba. En ég hef líka oft velt fyrir mér hvað er á bak við hana. Snilld, heilabú af stærð við lítið egg eða eitthvað þaðanafmeira. Nægilegt rugl að sinni. Bestu kveðjur frá okkur Rækjunen, ykkar Hösmagi.

Friday, November 02, 2007

 

Ár og dagur.

Gamalt máltæki segir að það sé ár og dagur síðan þetta eða hitt hafi gerst. Í dag eru 6 ár og dagur síðan ég byrjaði að vinna á Fasteignasölunni Bakka ehf. Tíminn líður hratt. En það hefur margt gerst á þessum tíma. Lífið hefur breyst og ég orðinn 6 árum eldri. Það breytir þó ekki því að staða mín er nú miklu betri en 2001. Efnahagslega og andlega. Þegar ég byrjaði að vinna þarna sparkaði ég í afturendann á sjálfum mér. Það er örugglega gott ráð þegar á þarf að halda. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þetta gerðist. Nýjar vistarverur, bílar og kettir. Svartnættið sem ég þekkti stundum á árum áður að mestu horfið. Tvær spítalalegur breyta ekki neinu í því sambandi. Held því fram að máltækið um að kötturinn hafi 9 líf eigi við um mig. Og þeir sem þekkja mig vita vel að ég gefst ekki auðveldlega upp. Ég hitti minn snilldarlækni á Lsp á miðvikudaginn var. Frábær læknir og að auki einhver sá geðfelldasti sem ég hef kynnst úr þeirri stétt. Menningarlega sinnaður og kunni vel að meta sonnettur Keats. Þýðandi þeirra og gamle far hittumst svo á Café Paris og fengum okkur snarl.Þetta var sannarlega indæll dagur. Skutlaði skáldinu á Þjóðarbókhlöðuna og hélt heimleiðis. Allt bendir til þess að ég sé laus við meinið sem uppgötvaðist fyrir algjöra tilviljun eftir Veiðivatnaförina 12-13. ágúst. Stundum er heppnin með manni. Kannski er það verndarengill? Hollvættur? Innsæið var líka með mér þegar ég kom úr Veiðivötnunum þann 13.

Ég hef stundum kallað köttinn Raikonen húsvörð hér í Ástjörn 7. Enda var hann heima og gætti eigna okkar þegar ég kom heim úr vinnu í dag. Fagnaði mér vel að venju, fékk sér að éta og vissi sem var að nú væri óhætt að skreppa aðeins út í blíðuna. Það er 2. nóvember, hitinn við 10 gráður og allur snjórinn horfinn. Unaðslegt og hvíldarhelgi framundan. Bestu kveðjur frá okkur rauðskinnum, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online