Monday, May 08, 2006

 

Metnaður.

Þegar undirritaður kom heim úr vinnu í gær var blað í forstofunni. Litprentað og myndskreytt. Stefnuskrá Samfylkingarinnar hér. Þar kennir margra grasa. Og mörg eru þar gullkornin. M.a. segir þar að samfylkingin hafi mótað hér metnaðarfulla umhverfisstefnu. Er hægt að hafa öllu meiri endaskipti á hlutunum? Fellst metnaðurinn í ákalli til Þorlákshafnar um að halda áfram hryðjuverkunum gegn fjallinu.? Líklega. Íþróttamannvirki, menningarhús, félagsmiðstöðvar, háskóli og þar fram eftir götunum. Korteri fyrir kosningar lækka fasteignagjöldin. Þetta er allt saman ótrúverðugt. Það sannar ferill þessa fólks undanfarin 4 ár með framsókanmaddömuna sér til fulltingis. Og stjórnkerfi þessa sveitarfélags er eitt allsherjar kaos. Rándýr yfirbygging. Hvert skipuritið ofan á annað. Og ekkert virkar. Hvergi á landinu er jafnerfitt að afla upplýsinga um einföldustu hluti. Og þessi kosningasnepill er eitt alsherjarhúrrahróp um afrek bæjarfulltrúanna undanfarin ár. Sjálfsánægjan flæðir úr hverjum bókstaf. Hér vill ungt fólk búa af því samfylkingin stjórnar. Og gamalt fólk væntanlega líka. Ég er reyndar fæddur hér á árbakkanum. Hef búið hér lengst af og mun líklega deyja hér einnig. Vona að samfylkingin verði ekki alveg búin að klára Ingólfsfjall áður. Ég tek undir með sjálfstæðismönnum um að breytinga sé þörf. Það er knýjandi nauðsyn á að losna við þessa bæjarstjórn. En ég auglýsi eftir stefnu íhaldsins í umhverfismálum.
Stefna vinstri grænna er ljós. Eina flokksins sem treystandi virðist í þessum málum. Hver sem niðurstaða kosninganna verður mun góð útkoma vinstri grænna verða þessu sveitarfélagi til góðs. Aðhald er nauðsynlegt. Sagan sýnir að íhaldið er varasamt. Það er þó ljóst að meirihluti myndaður af vinstri grænum og sjálfstæðismönnum er miklu betri kostur en liðið sem nú stjórnar bænum. Sendum það í langt frí. Lofum þeim að liggja í draumalandinu og hugsa um afrek sín undanfarin 4 ár. Fjallið og kaosið í ráðhúsinu. Miðjuna og síðasta afleikinn í skákinni við hana.

Djöfull held ég að ég hafi verið flottur á rauðu vespunni í gær. Blátt áfram unaðslegt að líða um göturnar á þessu farartæki í blíðunni. Þó er nú Tryggvagatan enn sama torleiðið. Kannski má Siggi Kalla vera að því að laga hana á næsta kjörtímabili? Vonandi. Bestu kveðjur til ykkar allra úr vornóttinni, ykkar einlægur Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online