Sunday, February 27, 2005

 

Lítill strákur.

Undirritaður verður 61 árs á laugardaginn kemur. Finnst það nú ekki vera neitt voðalegt. Heilsan sérlega góð. Enginn er eldri en hann vill vera ef góð heilsa er fyrir hendi.Ég er búinn að vera eins og lítill pjakkur síðan á þriðjudaginn. Eignaðist þá nýtt leikfang. Mjög gagnlegt til ferðalaga. Ég fékk sem sé gráan belg fyrir rauðan. Lét minn eðalvagn og fékk annan Cherokee í staðinn. Bíladellan er líklega í genunum. Svona var Langi-Sveinn. Var með delluna frá 1912 til dauðadags 1992.Nýi vagninn er alveg sérstakur gullvagn. Brynjaður 8 strokka V mótor, 235 hestöfl, með sjálfskiptingu, háu og lágu drifi og flest rafknúið. Svo uppgötvaði ég í morgun að það er áttaviti í farartækinu. Gott þegar komið er til fjalla. Sýnir höfuðáttir og milliáttir. Þá sá ég það líka að það var 25 stiga hiti í bílskúrnum en 0° úti. Stafrænn hitamælir. Pláss fyrir 4 farþega( mega vera nokkuð gildvaxnir) og svo er mikið rými fyrir laxa og silunga að auki. Það er líka eins og gott, því mér segir svo hugur að ég muni róóóótonum upp í sumar. Ef veður verður ljúft á afmælisdaginn minn væri kjörið að halda til veiða í Tangavatni. Með flugustöngina meðferðis. Og svo koma páskarnir þegar líður á mars. Hygg gott til glóðarinnar ef vel viðrar. Það kom mér ekki á óvart að nýi vagninn þarf minna bensín en sá eldri. Svo er mjög gott ráð til eldsneytissparnaðar að setja hænuegg undir bensíngjöfina. Eggið má alls ekki brjóta og því verður að stíga varlega á pinnann. Líklega það sem nú er kallað vistvænn akstur. Keyra á jöfnum hraða og forðast snöggar inngjafir. En því er ekki að leyna að það er voða skemmtilegt að stíga snöggt á bensíngjöfina, sérstaklega á leiðinni upp Kambana. Ég bókstaflega varð að prófa það í gær á leið í afmæli Egils sterka. Vagninn var eldfljótur upp. En þar sem svartbakurinn liggur sífellt í leyni þá hægði ég ferðina strax aftur. Það kostar mann dýrt að vera nappaður. Og refsipunkta í ökuferilsskrána.Er með einn eftir að hafa verið nappaður 2002. Kostaði 20.000 og peningunum hefði verið betur varið í aðra hluti. En þessi punktur hverfur í ágúst ef ég haga mér skikkanlega. Sem ég og geri nú flesta daga. Fæ sem sagt uppreisn æru. Nafn mitt hreinsað af þessum voðalega glæp sem ég framdi í ágúst 2002. Eftir skemmtilega ferð með skáldinu mínu í Dómadalsvatn.
Ég sé að frú Hatseput er komin á fullt skrið í bloggiðjunni. Held að MS ætti að taka móður sína sér til fyrirmyndar. Og föðurinn einnig. Minntist líka á þessa ágætu iðju við einkadótturina í gær. Enginn getur með sanni borið við tímaskorti. Það sést best á siggabloggi og sölvabloggi. Gaman hvað þessir önnumköfnu námsmenn gefa sér tíma til að ausa úr viskubrunninum .Á morgun heimsæki ég Borgarfjörðinn. Hlakka til þessarar skemmtireisu á fullum launum. Unaðslegt að geta staðið upp frá tölvunni og látið sig hverfa út á landsbyggðina. Tekið að birta verulega og brátt mun hinn höfugi ilmur landsins leika um vitin. Dásamlegasti árstíminn nálgast óðfluga. Bestu kveðjur frá ykkar einlægum Hösmaga.

Wednesday, February 23, 2005

 

Morð og eyðilegging.

Góðan dag góðir bloggarar. Sama vorblíðan hér, súld og 3 gráður. Fyrir kosningarnar 1999 fékk ég póstkort frá framsóknarflokknum. Með prýðisgóðri mynd af Guðna Ágústssyni. Var svona einskonar liðsbón. Hvort ég gæti nú ekki bara kosið framsókn svona einu sinni. Þeir voru með skrifstofu hinu megin götunnar. Ég sendi þeim tölvupóst og sagði þeim að ég þekkti Guðna persónulega og hann væri alls góðs maklegur. Um þessar mundir var Nató að sprengja Belgrad aftur á steinaldarstig. Ég sagði þeim að Halldór Ásgrímsson bæri fulla ábyrgð á þessu morð- og eyðileggingaræði. Því væri mér nú ekki auðvelt að greiða flokki hans atkvæði í komandi kosningum. Undirskrift mín var svona: Sigurður Sveinsson, veiðimaður, kvennamaður og kattavinur, Selfossi. Ég frétti síðar að þeir hefðu orðið klumsa við þessum tölvupósti. Og líklega afskrifað þetta atkvæði strax. Aftur komu kosningar 2003. Þá fékk ég ekkert kort frá framsókn.Líklega ekki reiknað með liðsauka frá undirrituðum. Þeir voru nefnilega við sömu iðjuna og fjórum árum fyrr. Bara nokkru sunnar. Innrásin í Írak nýhafin. Og að sjálfsögðu á ábyrgð áðurnefnds Halldórs. Hvar skyldi hann bera niður fyrir næstu kosningar? Það er ömurlegt að þurfa að bera ábyrgð á þessu viðbjóðslega og ólögmæta stríði. Háð á algjörlega fölskum forsendum. Og með afleiðingum sem enginn sér fyrir endann á.Í umræðum á þingi um daginn sagði Geir Harði að nauðsynlegt hefði verið að " taka þátt í uppbyggingunni í Írak."Eru til meiri ögugmæli? Er það uppbygging að ráðast á þjóð, eyðileggja flest sem hægt er að eyðileggja og drepa saklausa borgara í tugþúsundavís? Líklega finnst þessum undirlægjum það. 300 milljónir króna voru lagðar fram úr ríkissjóði í þessa "uppbyggingu" Glæsilega að verki staðið.Einu sinni var sagt að allt væri betra en íhaldið. Ég held að framsóknaríhaldið sé ekki betra.Syrgði það ekkert sérstaklega þó það fengi frí frá landstjórninni eftir næstu þingkosningar.Og að öðru. Ég samfagna nafna mínum í Stokkhólmi með bókmenntaverðlaunin. Virkilega ljúft að Sjón skyldi fá þessa viðurkenningu. Gott skáld. Einhvern veginn finnst mér að þeir félagar Einar Kára og Einar Már séu orðnir svolítið sjálfhverfir í seinni tíð. Svolítið værukærir og of sannfærðir um eigið ágæti. Kannski er þetta illa sagt og ekki rétt. Verður bara að hafa það. Á maður ekki að koma til dyranna eins og maður er klæddur?Með bestu kveðjum frá ykkar Hösmaga.

Monday, February 21, 2005

 

Sýslumaðurinn.

Um daginn, þegar haugað hafði niður snjó dögum saman, sá ég að svalirnar hjá mér voru orðnar nærri fullar af snjó. Mér datt strax í hug að sækja skófluna í bílskúrinn og moka snjónum fram af svölunum. En þá datt mér Páll Hallgrímsson, fyrrverandi sýslumaður Árnesinga, í hug. Var skipaður 1. janúar 1937 og lét af störfum eftir 45 ár, 1972, þá sjötugur. Hann lifir enn og er 93 ára. Á árum áður, áður en hinir mildu vetur urðu, voru gjanan óhemjusnjóþyngsli við sýsluskrifstofuna. Snjórinn fauk af mýrinni milli Ölfusár og skrifstofunnar og leitaði skjóls framan við hana.Varð af þessum sökum æði torfært að þessum kontór. Á þessum árum þurftu ellilífeyrisþegar að sækja ellilaunin til sýslumannsins. Honum var bent á að erfitt væri fyrir þetta gamla lið að klífa fjöllin og jöklana sem höfðu skotið rótum framan við dyrnar og lögðu til að planið yrði mokað. Sýsli var ákaflega samhaldssamur og dró ekki fram veskið að þarflausu. Rök hans gegn mokstri voru einföld og skýr. Sá sem setti snjóinn þarna ætti einfaldlega að fjarlægja hann. Og við þetta sat. Það var sem sé meira og minna ófært að þessari opinberu stofnun frá hausti til vors. Ekki kæmi mér á óvart þó þetta hafi riðið sumu af gamla fólkinu að fullu. Í morgun var snjórinn horfinn af svölunum. Sá sem hlóð honum þar niður fjarlægði hann.Einfalt og þægilegt. Gamla máltækið" Svona eiga sýslumenn að vera" er í fullu gildi. Margar skemmtilegar sögur eru til af sýslumanni þessum. Segi kannski seinna söguna af því þegar ég átti fótum mínum fjör að launa undan honum. Kunni ekki að meta það sem ég sagði honum. Sennilega af því að sannleikanum verður hver sárreiðastur.Ber samt hlýjan hug til gamla mannsins á ævikvöldi hans. Hann var húmoristi ágætur og slíkum mönnum fyrirgefst nú flest. Hér á Selfossi er nú mikið indælisveður. Blankalogn og 8° og vorið flæðir inn um galopnar svaladyrnar. Kaffið smakkast jafnvel betur á svona morgnum en aðra morgna. Baráttukveðjur til þeirra fóstbræðra,Sigga sænska og Sölva skoska í átökunum við fræðin. Bestu kveðjur til ykkar allra. Svo mælti Hösmagi.( Heyrði brot af Svo mælti Zaraþústra fyrir nokkrum dögum. Dásamlegt)

Sunday, February 20, 2005

 

Hin tæra snilld.

Séð hef ég skrautleg suðræn blóm
sólvermd í hlýjum garði;
áburð og ljós og aðra virkt
enginn til þeirra sparði;
mér var þó löngum meir í hug
melgrasskúfurinn harði,
upprunnin þar sem Kaldakvísl
kemur úr Vonarskarði

Þetta er hin tæra snilld. Einkennilegt hvernig þetta erindi úr Áföngum Jóns Helgasonar höfðar sterkt til mín. Og jafnan er mér dettur það í hug heyri ég skáldið flytja það. Með sinni óviðjafnanlegu rödd. Ef til vill minnir þetta mig á hálendið sem alltaf togar í mig þegar sól fer að hækka á lofti. Kaldakvísl minnir líka á Þórisvatn. Þar eru silfraðar verur á sveimi. Líkt og í nágrenninu, Veiðivötnum, nema þar eru verurnar dekkri á hörund. Heilsa uppá þær 12. ágúst í sumar. Þá verða 96 ár liðin frá fæðingu móður minnar sælu.Finnst vænt um þennan dag. Mér ákaflega happadrjúgur í veiði. Reyndar hefur 27. júni líka verið góður. Afmælisdagur föður míns.
Svo aldurinn segi nú aðeins til sín þá get ég sagt ykkur að þennan dag 1987 dró ég 5 laxa að landi úr Ölfusá. Þeir voru, 5, 13, 14, 16 og 18 punda þungir. Dásamleg minning.Og væntingarnar um stóra fiska eru alltaf til staðar. Bróðir vinkonu minnar er spíritisti. Einhverju sinni vorum við að ræða um lífið og tilveruna. Og dauðann. Ég sagði við hann að það versta við að hverfa héðan úr táradalnum væri að þá lyki veiðiskapnum. Hann svaraði að bragði: Blessaður góði, það er nóg af góðum veiðiám hinumegin. Vonandi er þetta rétt og mæli hann manna heilastur. Vona að árnar og vötnin hinumegin bíði. Hef líka á tilfinningunni að ég eigi eftir að veiða hérnamegin í áratugi í viðbót. Og vonandi með skáldinu mínu og bróður þess sem oftast. Bestu kveðjur frá mér. Hugsandi um stóra fiska( og minni líka) eins og stundum áður, ykkar Hösmagi.

Saturday, February 19, 2005

 

Lífið er harðfiskur.

Góðan dag góðir bloggarar.Yndislega kyrrt og fallegt veður hér í dag.Klukkan er níu og orðið albjart. Og verður fram undir kvöldmat. Hvítir taumar renna enn niður Ingólfsfjall sem blasir við hér úr glugganum á kontornum mínum. En þeir munu brátt hverfa ef veðurspáin rætist. Er að hugsa um að bregða undir mig betri fætinum í dag. Til höfuðstaðarins í fyrsta sinn á þessu blessaða ári. Hyggst hitta Helgu Soffíu og koma á hana sýslumannakonfekti til Skotlands. Fæðu fyrir skáldið og hana sjálfa. Harðfiskur er væntanlega vandfundinn í Edinborg. Skáldinu veitir örugglega ekki af vítamínum í baráttunni framundan. Ljúffengri og orkuríkri fæðu sem hélt lífinu í mörgum landanum í gamla daga. Þyrfti endilega að semja við einhvern harðfiskmann um að gera tilraun með að herða lax og silung. Held að þessar fisktegundir myndu bragðast frábærlega, mátulega hertar og saltaðar. Þegar heim kemur er það lóin undir rúminu. Búinn að taka allt í gegn hér nema hluta af gólfunum. Ég ætla að gera svo fínt hér að ég verði bara feiminn og fari hjá mér þegar ég kem úr vinnu á mánudaginn. Kemst í einskonar sæluvímu þegar slíkum verkum er lokið.Þar sem ég finn andleysið nálgast( kannski var það til staðar fyrir) slæ ég hér botninn í og sendi ykkur góðar hugsanir i amstri dagsins. Ykkar Hösmagi.

Thursday, February 17, 2005

 

145 ár.

Jæja góðir hálsar.Ekki dugar að slá alveg slöku við bloggið. Svo sem ekkert sérstakt gerst síðan síðast. Nema bara allt nokkuð gott. Í dag eru 145 ár liðin síðan hún amma mín í föðurætt fæddist.Hún dó í september 1960 og varð því ríflega 100 ára.Hún hét Hallbera. Nokkuð gott nafn, finnst mér. Systir hennar, Þorbjörg, varð 104 ára. Langlífi í föðurættinni. Hef sjálfur ekkert á móti því að verða háaldraður ef heilsan helst góð. Gæti vel hugsað mér að sitja flötum beinum og dorga á 99 ára afmælinu. Og ég er alveg ákveðinn í að verða ekki erfitt og leiðinlegt gamalmenni. Kannski svolítið skondið að hugsa til þess að við feðgarnir þrír færum saman í veiði og allir komnir á ellilaun. En það á mikið af vatni eftir að renna til sjávar áður. Það eru miklar annir hjá undirrituðum á vinnustað. Ákaflega gott því ekkert er leiðinlegra en að sitja við skrifborð og hafa ekkert fyrir stafni. Enda aðgerðaleysi almennt slæmt fyrir geðheilsuna. Samt afskaplega gott að slappa af í góðum stól, lygna aftur augunum og láta sig dreyma svolítið. T.d. um laxa og silunga. Og jafnvel um bleikjur. Ég hef líka stundum hugleitt að fara á sjóstöng. Hvernig væri það? Er einhver til? Ufsinn ku vera geysilega sprækur á færi. Enda stundum kallaður sjólax. Geysilega góður reyktur og og þannig niðursoðinn í olíu.Því miður áratugir síðan ég hef smakkað hann þannig. Við skulum bara drífa okkur í sumar. Eftir ríflega 16% kauphækkun í gær er undirritaður svo léttstígur að það jaðrar við flug. Aldrei að vita nema hann ég bjóði valinkunnum heiðursmönnum á sjóstöng í sumar. Og ef veiðin verður í samræmi við snilld veiðimanna má bara leggja hluta aflans inn á næsta fiskmarkað. Einkennilegt þetta veiðieðli mannsins. Jafnsterkt og hitt eðlið. Sbr. " þegar Adams eðli, innra kennir sín" Og reyndar miklu meira líf í veiðieðlinu hjá gömlum mönnum eins og undirrituðum. Vorið og sumarið eru svo sannarlega tilhlökkunarefni. Kærar kveðjur til allra bloggara frá ykkar einlægum Hösmaga sem dreymir um 40 punda ufsa.

Monday, February 14, 2005

 

Hversdagsleikinn.

Undirritaður vaknaði snemma í morgun eins og stundum áður. Mjög hress, enda komin hláka á ný. Fór í morgungöngu. Að henni lokinni fann ég allt í einu hvöt hjá mér til að þvo úlpuna mína. Tók úr henni veskið, lykla og fleira smávegis og tróð henni svo í vélina. Ekki löngu síðar, á 3ja kaffibollanum, kviknaði löngun í vindil. En þá vantaði vindlana og Zippóinn.Það rann upp fyrir mér ljós. Þeir voru í úlpunni. Þegar vélin var búinn sá ég Zippóinn gægjast út um gluggann. Og vindlapakkinn var í frumeindum sínum á úlpunni og um alla vélina. Líklega hafði ég farið öfugu megin framúr eins og hendir besta fólk. Þegar haldið var til vinnu kom upp nýtt vandamál. Ég hafði sem sé verið með aðra fjarstýringuna að bílskúrshurðinni í sama vasanum. En hvar var hún nú. Ekki í vasanum og ekki í tromlunni. Var hún einnig komin í öreindir sínar? Ég fínkembdi tromluna en áhaldið var gufað upp. Ég á aðra svo ég náði Rauð mínum af stallinum. Í hádeginu tók ég síuna úr vélinni. Fannst vera þar leifar af frönskum rennilás líkt og fjarstýringin hafði státað af. Hringdi svo í fyrrverandi eiganda og sagði mínar farir ekki sléttar og leitaði upplýsinga um hvar hann hefði keypt þennan útbúnað. Í Húsasmiðjunni. Viðar Bjarnason væri sérfræðingur í þessu. Samtalinu lauk nú á léttu nótunum og ég hugðist gera mér ferð í búðina eftir vinnu. Svo líður kortér. Þá hringir Eiríkur lögga aftur. Segir útilokað að batteríið í græjunni hafi gufað upp og segir mér að hefja rannsókn á úlpunni. Við fyrsta þénanlega tækifæri stalst ég úr vinnunni. Snaraði mér upp stigann og beint í þvottahúsið. Upphófust þar talsverðar þreifingar. Líkt og á meyjunum í dentíð. Og viti menn. Haldiði ekki að græjan komi í ljós í annari erminni. Gljáandi fögur eins og nýhreinsaður hundur á vordegi. Ég varð að sjálfsögðu allur uppveðraður yfir þessu. Stakk þessum dýrgrip í vasann, hljóp niður stigann og beindi honum óðara að dyrunum á þessu eftirlæti mínu sem hýsir Rauð minn um nætur. Og það var eins og við manninn mælt. Þetta sem sé svínvirkaði eftir þvottinn og dyrnar lukust upp. Og lokuðust að sjálfsögðu við næsta klikk.Svona getur nú lífið verið skemmtilegt á Selfossi. Og það á mánudegi. Svona eiga góðar græjur að vera. Bestu kveðjur frá ykkar einlægum Hösmaga.

Sunday, February 13, 2005

 

Dauðinn og sorgin.

Ég fór að hugleiða þessa hluti eftir að hafa lesið bloggið hennar Helgu Soffíu. Þar sem hún er að tala um nýlátna ömmu sína. Þegar Langi-Sveinn, faðir minn dó 1992 fann ég ekki til nokkurrar sorgar. Hann var nýorðinn 90 ára gamall. Kominn á langlegudeildina á Ljósheimum. Ekkert framundan nema biðin eftir að deyja. Hún varð ekki löng. Og mér kom það ekki á óvart. Þessi lífsglaði maður vildi ekki liggja lengi og geta ekkert annað. Hversvegna skyldum við syrgja svona gamalt fólk. Faðir minn hafði lifað langa og farsæla ævi. Hann hafði lokið sínu hlutverki hér á jörðu. Og dauði hans var bara í samræmi við það. Í stað sorgar fann ég bara hvað ég var þakklátur fyrir að hafa átt slíkan föður. Fyrir að hafa átt mig og alið og komið mér til manns. En að sjálfsögðu saknaði ég hans fyrst í stað. Fannst skrítið að heimsækja mömmu á Birkivellina og stóllinn hans auður. Það var svipað uppá teningnum þegar hún lést 8 mánuðum síðar. Kom mér þó á óvart að nokkru leyti. Hélt að hún myndi eiga nokkur góð ár eftir. Ég held að ég hafi erft rólyndi mitt og jafnlyndi frá henni. Mér verður ávallt í huga hjartanlegur hlátur hennar. Það var alltaf ærið tilhlökkunarefni þegar von var á móður hennar. Sæunni, " ömmu í Reykjavík". Ekki spillti góðgætið sem hún hafði jafnan meðferðis. En mesta tilhlökkunarefnið var að fá að sitja í eldhúsinu á kvöldin og hlusta á samræður þeirra mæðgna. Þær töluðu um allt milli himins og jarðar. Og þær grétu oft af hlátri. Þessum einlæga dillandi hlátri sem leysir svo yndislega hluti úr læðingi. Ég hafði heyrt um fólk sem gréti úr hlátri. Átti erfitt með að ímynda mér það. En svo sannarlega skildi ég hvað við var átt eftir að hafa setið með þeim mömmu og ömmu kvöldlangt í eldhúsinu á Selfossvegi 5. Ég hef þó kynnst sorginni. Flokka hana stundum. Ástarsorgin varir nú yfirleitt stutt. Félagslega sorgin getur verið þungbær. Og sorgin yfir ástvinnamissi náins ættinga, vinar og sálufélaga sem deyr skyndilega þegar allt lífið er framundan er erfuðust af þessu öllu.
Sagt er að tíminn lækni öll sár. Það er þó alls ekki þannig . Hinsvegar hjálpar tíminn okkur við að sætta okkur við það sem orðið er. Því fáum við ekki breytt. Og lífið heldur áfram með vonum okkar, væntingum og þrám. Sendi öllum bloggurum hér mínar bestu kvðjur. Og hvernig væri að bloggarinn MS færi nú að útdeila svolítilli speki. Ykkar Hösmagi.

Wednesday, February 09, 2005

 

Kjarval og kaupfélagsstjórinn.

Undirritaður vinnur í sögufrægu húsi á Selfossi, Sigtúnum. Egill Thorarensen, fyrsti kaupfélagsstjóri Kaupfélags Árnesinga byggði þetta hús 1936. Á einum veggnum hangir uppi mynd af karlinum og líklega svífur andi hans enn um húsið.Honum er þó líklega ekki rótt eftir að íhaldið náði tökum á kaupfélaginu og kom því fyrir kattarnef. Útförin hefur þegar farið fram og íhaldið grætur þurrum tárum. Kjarval og Egill voru kunningjar. Þegar Egill átti eitt sinn stórafmæli kom Kjarval í heimsókn. Kjarval fékk rútu frá Steindóri til að flytja sig austur. Bara nokkuð stór leigubíll. Meðferðis hafði hann stóran pakka c. 2x3 metrar. Allir gestirnir biðu að sjálfsögðu í ofvæni eftir að pakkinn yrði opnaður til að berja málverkið augum.Það kom nú að því. Inní pakkanum var stór rammi, síðan annar minni og svo margir aðrir. Innst var lítill rammi og í honum miði. Á miðanum var lítið ljóð sem hljóðaði svo:

Hrossaskítur hrossatað
hvað er nú það?
Jú, hrossaskítur hrossatað
það er nú það.

Það varð nú víst heldur vandræðalegt upplitið á afmælisgestunum. Að þessu loknu kvaddi Kjarval og hélt með stóru rútunni til Reykjavíkur. Hún hafði að sjálfsögðu beðið á meðan eins og góðir leigubílar gera ef um er beðið. Svona getur nú venjulegt hrossatað verið skemmtilegt. Það fylgir ekki sögunni hvernig Egill tók þessu. Hann þekkti málarann vel og hefur sennilega skemmt sér yfir þessu tiltæki.

Og að öðru óskyldu. Einkadóttirin verður 37 ára á morgun og sonur hennar og nafni minn, lambakóngurinn hans afa, verður 18 á laugardaginn. Sjálfræði og kosningaréttur fylgir.Ósköp finnst mér samt stutt síðan ég hélt honum undir skírn og hann ældi á öxl mér. Líklega er fátt sem skiptir meira máli í lífinu en jafnvægi hugans og að uppgötva hvað það er sem gerir mann sáttan við tilveruna. Þessir litlu hlutir eins og eitt blóm að vori og ilmur þess. Og fuglinn sem syngur fyrir þig einan ef þú ert að hlusta og nota skilningarvitin. Það er gott að finna það nú hvað ég er í raun hamingjusamur maður í dag þrátt fyrir andstreymi á stundum á liðnum árum. Að eiga þrána enn. Þrána eftir vorinu og birtunni og að hlakka til komandi daga og þess hvað þeir bera í skauti sér. Meira síðar, ykkar Hösmagi.

Monday, February 07, 2005

 

Menningin.

Einhvern veginn finnst mér að bloggarar séu menningarlega sinnaðir. Svona ljóðelskar leikhúsmýs. Hafa ef till vill gaman af að hlusta á Bach, Freddy Mercury og fleiri góða. Verst að bloggið var ekki komið til sögunnar á dögum Jónasar Hallgrímssonar. Ég held líka að Jóhann Gunnar Sigurðsson hefði orðið drjúgur bloggari.

Dirfist þú að skora' á skáld að skrifa og yrkja
þótt það sitji þurrum kverkum
þreytt á lífsins fjósaverkum.

Myglað brauð og " margarín" og merarkæfu
þjóðin skammtað skáldum hefur
skylt er að lofa þann sem gefur.

Þjóðin skipar skáldunum að skemmta og kveða,
andann vill þó ekki glæða
út hún lætur flestum blæða.

Eins vilt þú nú að ég fari að yrkja latur
sá má yrkja sem það getur
síþyrstur í hálfan vetur.

Ekki fæ ég deigan dropa af dýrum vínum
eða koss af vörum vænum
vistlegt er nú hérna' á bænum.

Andskotinn má yrkja ljóð á okkar landi
einhver honum úrlausn sendi
ef það færi vel úr hendi.

Líkt og Keats varð Jóhann Gunnar ekki langlífur. Fæddur 1882 og deyr 24 ára gamall. En andinn lifir og ljóðin hans eigum við öll. Maður hefði örugglega beðið spenntur eftir bloggi frá slíkum manni. Og svo eru það hinir svokölluðu menningarvitar. Margir á móti menningunni en eru að þvælast um á þessu leiksviði til þess að sýnast vera meiri og stærri en þeir eru.Slíkir menn verða alltaf til staðar. Og hafa vit á þessu öllu fyrir okkur hin, þennan venjulega pöpul.Það er þó svo að við erum ekki öll eins. Sem betur fer. Það sem einum finnst gott finnst öðrum lakara. Og öfugt. En skelfing væri nú tómlegra í þessari veraldarpíku sem við þraukum í ef engin væru ljóðin í henni. Og Bach og Albinoni hefðu aldrei verið til. Og enginn van Gogh. Þetta eru nú bara hugleiðingar Hösmaga að morgni dags. Líklega vaknað svona voðalega menningarlegur í morgun. Bestu kveðjur til ykkar allra.

Wednesday, February 02, 2005

 

Stjörnumerki.

Lengst af hafði ég enga trú á stjörnumerkjum. En liklega er eitthvað til í þessu kukli. Ég er í fiskamerkinu miðju. Fiskar þykja værukærir en geta orðið skæðir þegar þeir loksins fara af stað. Eins og laxinn sem dormar í hylnum og lætur sig bara dreyma. Um hrygnur og fleira skemmtilegt. Allt í einu tekur hann viðbragð, rýkur af stað og stekkur upp straumþungan fossinn. Og hefur ekki mikið fyrir því. Ég sit stundum og læt mig dreyma. Einskonar nirvana. Horfi á skítinn á gólfinu, rykið á sjónvarpinu og allt er óuppvaskað. Geri ekkert í því. Og þó. Allt í einu sprett ég á fætur og ræðst með offorsi á hroðann. Voða skemmtilegt þegar sýnilegur árangur næst. Ég er búinn að trassa ákveðið verkefni í marga mánuði. Hefur oft legið á mér eins og mara og jafnvel haldið fyrir mér vöku. Um hádegi í gær tók ég ákvörðun. Skipaði sjálfum mér að ljúka þessu verki. Byrjaði kl. 5 þegar ég kom heim úr vinnunni. Sat við til kl 01 og lauk svo verkinu á 2 tímum í morgun. Mjög uppbyggilegt fyrir sálina. Hef alltaf verið svona. Í seinni hluta laganámsins las ég bara Halldór Laxness fyrri veturinn. Tók síðari veturinn með áhlaupi og komst skammlaust út úr lagadeildinni. Kannski væri betra að vera að sífelldu nuddi. Held samt ekki. Og það er líka erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Meira síðar, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online