Wednesday, December 31, 2008

 

Gamla árið senn á enda.

Það er hvít jörð á þessum síðasta degi ársins. Árs erfiðleika af völdum útrásarvíkinga og illrar ríkisstjórnar. Ef nýja árið færir okkur ekki ný stjórnvöld og þjófarnir fá ekki makleg málagjöld er ekkert réttlæti til. Þrásetu forstjóra FME og seðlabankastjóranna verður að linna. Ég fékk tölvupóst á ensku í gær. Þar er DO kallaður the biggest asshole in Iceland. Það er laukrétt. Annar af upphafsmönnum einkavæðingarinnar sem hefur leitt þjóðina á þær slóðir sem hún er nú. Mér dettur Rimbaud í hug. Ríkisstjórnin er kvikfénaður ógæfunnar. Við verðum að losna við þessa lygamerði sem einungis gera axarsköft. Flest af aulahætti en önnur meðvituð. Hugsa um eigið skinn framar öllu öðru. Við skulum festa allt þetta lið upp í næstu kosningum. Láta það dingla öðrum til varnaðar.

Ég hef ekki haft mig í veiðitúr. Hugurinn er hjá Ingibjörgu systur minni.Freysteinn mágur minn lést í fyrradag eftir mikil og erfið veikindi. Ég hef áður hér í þessum pistlum mínum líst aðdáun minni á þessum manni. Fluggreindur, góður heimilisfaðir og sérstaklega góður drengur. Ég hef einnig dáðst að æðruleysi hans sem mér er að vissu leyti óskiljanlegt. Og reyndar gildir það sama um systur mína. Það eru ekki allir sem stæðu þau áföll af sér sem þau hafa orðið fyrir um sína daga. Eftir lifir minningin um góð kynni og vináttu okkar mágs míns, sem aldrei bar skugga á í þá tæpu hálfu öld sem við þekktumst. Líf okkar hinna heldur áfram og ég vona að hið góða verði nálægt systur minni og einkadótturinni.

Það er kyrrð og rólegheit hjá okkur kisa mínum. Þó jörð hafi hvítnað er indælisveður.Ég ætla að bregða út af vananum í mat kvöldsins. Það verður lax á borðum. Það verður ljúft eftir óhemjukjötát síðustu viku. Pækillæri, hangisauður og svo svín hjá IÞM í fyrradag. Allt mjög ljúffengt. Ég strengi nú varla mörg áramótaheit. Þrátt fyrir breytta tíma er ég bjartsýnn sem fyrr. Hlakka til birtunnar og hinnar nóttlausu voraldar veraldar á komandi vori. Útiveru og veiði. Samveru við fólkið mitt sem mér er svo kært. Við Dýri sendum því öllu, ásamt vinum, okkar albestu kveðjur með ósk um farsæld til framtíðar, ykkar Hösmagi.

Monday, December 29, 2008

 

Morðæði.

Enn eru ísraelsmenn byrjaðir. Aðferðirnar eru svipaðar og þýsku nasistarnir notuðu til að ná árangri. Ef einn var sekur af 100 sem þeir stilltu upp við vegginn skutu þeir alla. Voru þá vissir um að hinum seka hafði verið refsað og hinir 99 skiptu engu. Megnið af því fólki sem síonistarnir eru nú að drepa eru venjulegir saklausir borgarar. Þetta er gert í krafti stuðningsins frá USA. Þar hafa gyðingar löngum haft tögl og hagldir í fjármálalífi, hergagnaiðnaði og reyndar í stjórnmálum einnig. Hamas samtökin eru nú kannski ekki nein guðslömb. Ekkert réttlætir þó framferði ísraelsmanna. Þeim er nákvæmlega sama um viðbrögð heimsins. Þeir vita sem er að þeir geta farið sínu fram. SÞ geta ekkert. Kanarnir ráða þar öllu sem þeir vilja. Við verðum að horfa uppá morðæði þessarar þjóðar. Enginn tekur heldur mark á okkur frekar en fyrri daginn þó ISG haldi það ef til vill. Konan sem raunverulega hélt að við ættum mökuleika á setu í öryggisráðinu og eyddi mörg hundruð milljónum í það vonlausa verkefni. Peningum og tíma sem betur hefði verið varið til gagnlegri hluta.

Í gær lauk ég við ævisögu Dags Sigurðarsonar. Ég gef þessari bók ekki háa einkunn. Hálf sundurlaus lesning og maður er ekki miklu nær um þennan þekkta íslending en áður.

Við kisi erum hér í miklum rólegheitum. Enn blíðviðri og við báðir búnir að viðra okkur. Af sérstökum ástæðum sló ég Tangavatnsför á frest í gær. Hef þó alls ekki afskrifað veiðitúr. Spáin enn ágæt þó heldur fari veður kólnandi. Bestu kveðjur frá okkur fósturfeðgum, ykkar Hösmagi.

Friday, December 26, 2008

 

Letilíf.

Við Kimi höfum slappað vel af það sem af er jólum. Vöknuðum þó nokkuð snemma. Hitinn við frostmarkið, grá jörð og blankalogn. Kimi dvaldi utandyra á annan klukkutíma og undirritaður fór í eftirlitsferð um gamla þorpið sitt sem nú er titlað bær. Þegar heim kom lagðist ég flatur í beð minn og lauk við brunabílinn sem týndist. Þá var hæfilegt að leggja sig aftur. Draumalandið kom strax til mín. Gekk svo frá minniháttar uppvaski og þaðan lá leiðin aftur til sængur með Rimbaud. Eftir lestur u.þ.b. 4 hluta kversins lognaðist ég enn útaf. Lauk við að ryksuga hornin sem útundan höfðu orðið og Kimi lagði niður skott sitt og flýði fram á kontórinn. Aldrei hrifinn af óhljóðunum í þessu apparati. Hann situr í glugganum og horfir heimspekilega á Ingólfsfjall. Þar eru skaflar í giljum en stórir flekkir auðir. Jólasólin er komin upp fyrir nokkru og sendir geisla sína á þetta tignarlega fjall sem blasir við hér úr norðurglugganum.

Ég hef stundum sagt að við breytum ekki því sem liðið er. Kraftaverkaliðið í stjórn landsins getur það ekki einu sinni. Þar er líka fremur lítill áhugi á að reyna að gera eitthvað vitrænt eftir öll afglöpin. ISG ætlar ekki að skipta út ráðherrum af því íhaldið ætlar ekki að gera það. Það sýnir vel hvað SF er límd föst við þennan flokk. Þetta ættu allir sannir vinstri menn sem glæptust á að kjósa SF á alröngum forsendum að athuga vel. Því miður trúðu of margir á fagurgalann fyrir síðustu kosningar. SF hefur ekki reynst hótinu skárri en gamli alþýðuflokkurinn sem var hækja íhaldsins öll " viðreisnarárin". Það þarf mikla endurnýjun í stjórnmálin. Það gildir raunar um alla flokkana. Hlutverki framsóknar er löngu lokið. Það á bara eftir að róta yfir þetta hræ. Frjálslyndi flokkurinn er klofinn í marga smáflokka. Hann hefur reyndar aldrei gegnt neinu hlutverki í stjórnmálum landsins og á líka eftir að hverfa.Þegar búið verður að taka ærlega til í SF verður kannski von til að hægt verði að mynda vinstri velferðarstjórn í þessu landi. Íhaldið úti í frostinu og ný gildi sett í öndvegi.Græðginni hent á haugana og hinn smái tekinn fram fyrir þann stóra og sterka. Þá munum við ekki þola yfirnagarann í musterinu. Þá verður tekið til í FME. Þá verður miklu betra að lifa hér en áður. Þetta er engin draumsýn. Undiraldan er til staðar. Gremjan og fyrirlitningin á glæpahyskinu. Á stjórnvöldum sem hafa staðið aðgerðalaus. Láta hyskið rannsaka sjálft sig og ræður stjórnendur gömlu bankanna sem yfirmenn í nýju ríkisbönkunum. Stjórnvöld eru með allt niðrum sig. Berstrípuð eins og keisarinn forðum. Ég vona að eitthvað mikið og gott gerist á næsta ári. Nýr fallegur fáni rísi og landinu verði stjórnað með hag almennings að leiðarljósi. Þó nú sé útlitið ekki mjög bjart ætla ég að láta bjartsýnina hafa völdin eins og áður. Vorið kemur enn einu sinni á næsta ári.Útivera,lax og urriði.Langar bjartar nætur. Við Kimi sendum öllum vinum og vandamönnum bestu óskir um farsæld á nýju ári, ykkar Hösmagi.

Thursday, December 25, 2008

 

Jóladagur.

Jóladagur runninn upp. Jörð hefur aftur hvítnað í nótt og það hlýtur að gleðja þá sem vilja hvít jól. Hiti rúm 2 stig og gjóla. Langt síðan Hösmagi hefur sofið fram á dag. Við Kimi rumskuðum ekki fyrr en klukkan var farin að ganga tíu. Morgundöggin smakkast vel en myrkrið hefur enn völdin. Kisi var ósköp kátur þegar ég renndi í hlað um miðnætti í gær. Hann fékk 3 jólagjafir. Herta ýsubita frá Ingu systur minni. Wiskas kræsingar frá hinum aldna ketti Loka, sem er köttur Helgu Soffíu. Hann er nú 17 ára gamall. Biksvartur og afar virðulegur. Ég gaf honum herra Gorm. Einhverskonar tígrisskepnu dinglandi í spotta. Kimi er hálfsmeykur við kauða en samt afar forvitinn. Gærdagurinn var ljúfur og góður. Veðrið indælt. Ég var kominn til höfuðborgarinnar um eittleytið. Grjónagrautur í Hjallaseli hjá foreldrum Helgu Soffíu. Síðan lá leiðin í Fossvogskirkjugarð, til Ingu systur á Kársnesbraut, Greniás til Magga, Boggu og strákanna og svo til Beggu og fjölskyldu í Kjarrmóum. Þar undi ég glaður við mitt frameftir kvöldi. Frábærlega góður matur og ekki spillti samveran við dóttur, tengdason, afastelpu og lambakónginn nafna minn. Það er vandfundinn maður sem er jafn geðljúfur og sá piltur. Ekki spillti það heldur að hann hafði fósturson sinn með sér. Köttinn Júlíus Cesar. Blanda af norskum skógarketti, persa og íslendingi. Með ákaflega virðilegt skott sem stendur jafnan þráðbeint uppí loftið. Ég er því eiginlega orðinn langafi nú þegar. Heimferðin gekk greiðlega. Marauður vegur og indælis veður. Ég las jólapóstinn, naut návista við Kimi og skreið síðan undir sæng mína og hélt áfram með brunabílinn sem hvarf eftir Sjöwall og Wahlöö. Eftir nokkrar síður var unaðslegt að svífa inní draumalandið. Það verða rólegheit í dag. Meiri bóklestur og sauðahangikjöt með viðeigandi meðlæti. Kannski tek ég eins og einn rúnt á grænu þrumunni. Tilveran ljúf og góð. Við Rauðskott sendum jólaóskir til allra vina okkar og vonum að þið njótið dagsins, ykkar Hösmagi.

Tuesday, December 23, 2008

 

Dagur heilags Þorláks.

Þorláksmessa. Kári er glettinn utandyra en inni er hlýtt og notalegt. Ilminn af pækillærinu í ofninum leggur hingað fram. Hlákan kætir Hösmaga þó hann geti nú unnt fólki þess að eitthvað verði eftir af snjónum um jólin. Þetta er ágætisveður en samkvæmt spám á að koma nýr hvellur þegar líður á daginn. Ég viðraði mig í morgun og það var indælt að teyga að sér hreina loftið. Bara smásnjórönd eftir á svölunum. Sagan endurtekur sig. Sá sem setti snjóinn þar er nú langt kominn með að fjarlægja hann. Við félagar sváfum mjög vel og sá yngri lét fóstra sinn alveg í friði. Hér hafa klútar verið á lofti. Ryk og skúm orðið fyrir stórárásum. Frekari umbun fæst þegar skúringum lýkur. Svo kemur nýr og ljúfur ilmur í hýbýlin þegar húsvíska sauðalærið fer í pottinn að áliðnum degi. Aldrei þessu vant hljómar rás 1 í útvarpinu. Jólakveðjurnar minna á forn jól. Þá var gamla gufan það eina sem heyrðist og dugði ágætlega. Ég ætla að gefa henni meira rúm framvegis en undanfarin ár. Miklu meira af menningarlegu efni þar en annarsstaðar.

Það er létt yfir gömlum veiðref í dag. Rólyndi hugans hefur völdin. Dagurinn í dag er dagurinn hans. Hið slæma úti í kuldanum og það er bara tilhlökkun til komandi daga. Svo verður fylgst með veðurspám fyrir dagana milli jóla og nýárs. Herconinn er á sínum stað og hefði ekkert á móti strengdum línum. Við Kimi sendum öllu góðu fólki okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Saturday, December 20, 2008

 

Vetrarsólstöður.

Merkisdagur í dag. Upphafið að sigri birtunnar á myrkrinu. Það er enn snjóhraglandi en hitastigið vel yfir frostmarkinu. Ef spár ganga eftir verður mikið asald og nauðsynlegt að vera vel skóaður. Stígvélaveður. Þið munið kannski eftir ævintýrinu um stígvélaða köttinn. Kannski ég ætti að útbúa stígvél á Dýra. Við erum báðir búnir að sofa heil ósköp. Sjálfur fór ég í eftirlitsferð um bæinn. Tókst að festa Lancerinn vestan Ölfusár en fyrir eitthvert kraftaverk tókst mér líka að losa hann. Hann er svo aftur kolfastur hér í heimreiðinni í Ástjörn. Beislið komið aftaní grænu þrumuna og nú vantar bara spotta. Það reddast þegar venjulegt fólk vaknar. Ég hef það sem reglu að hringja ekki í fólk fyrir hádegi á sunnudögum.
Ég lauk við lestur laxveiða í Jemen í gærkvöldi. Þessi bók skilur heilmikið eftir sig og ég naut lestrarins afar vel. Fer á bókasafnið á morgun og tryggi mér eitthvað bitastætt að lesa um jólin. Fátt er betra á jóladag en að liggja útaf í rúmi sínu með góða bók í hönd. Svo mókir maður aðeins, nartar í kræsingarnar og skríður aftur uppí. Það nægir að vera á nærbrókinni einni við þessa iðju. Í dag mun ég taka upp þráðinn frá verkum gærdagsins. Þrif og tiltektir. Skatan í gær, ásamt hömsum, kartöflum og rófum reyndist staðgóð undirstaða fyrir allan daginn. Það er sem sé allt nokkuð gott að frétta af Hösmaga og sambýlisketti hans. Pollrólegir bíðum við eftir birtunni á þessum stysta degi ársins. Ég hlakka til að losna við Sollu og Geira. Og reyndar miklu fleiri landsfeður og mæður. Það flökrar ekki lengur að mér að sitja heima í næstu kosningum. Þegar nýi gunnfáninn blaktir við hún og glæponarnir hafa fengið makleg málagjöld verður miklu skemmtilegra að vakna á morgnana. Þá verður græðgisvæðingunni kastað á haugana. Hagsmunir hins smáa verða teknir fram yfir gróðæri þeirra sem traðkað hafa á þeim undanfarin ár. Það mun takast þó tíma taki. Krúttkveðjur til vina frá okkur Rækjunen, ykkar Hösmagi.

 

Skíma.

Klukkan er nú hálfellefu og aðeins að byrja að birta. Hugurinn reikar nákvæmlega 11 ár til baka. Þá bjó ég í sænska húsinu ásamt kettinum Hösmaga.Þetta var laugardagur eins og nú og næststysti dagur ársins. Mér datt allt í einu í hug að liðka Herconinn.Hitastigið var 8 gráður og ekki snjókorn á jörðu. Og hann var sannarlega við í Tangavatni. Þessi dagur mun aldrei líða mér úr minni. Ég hafði vatnið fyrir mig einan. Lognkyrrðin algjör og ekki spillti nálægð Heklu tilveru minni á þessum yndislega degi. Skáldið hafði veitt agnarsmáan Mepps spinner uppúr vatninu um sumarið. Ég hafði ekki kastað oft þegar stórurriði tók spúninn. Stærsti fiskur dagsins, 7 pund. Ég dvaldi þarna fram eftir þessum stutta degi. Ég náði í 2 sexpundara og 2 fimmpundara auk nokkurra minni fiska. Það var alsæll veiðimaður sem hélt heim á leið í rökkrinu um fjögurleitið. Þetta var einn af dögunum sem lifa í meðvitund veiðimannsins. Endurnærandi fyrir sál og kropp. Það er nóg æti í þessu vatni og þó um eldisfisk sé að ræða er hann nánast orðinn villtur eftir nokkrar vikur. Af Veiðivatnakyninu og ljúffengur eftir því. Ef jólaveðurspáin gengur eftir og þokkalegt veður verður milli jóla og nýárs, væri meira en athugandi að skjótast aftur að Heklurótum. Lyfta geði sínu og gleyma hugsunum um bananalýðveldið á meðan. Vonlausum stjórnvöldum, ónýtum eftirlitsstofnunun, óstarfhæfri afgreiðslustofnun eins og Alþingi og öllu glæpahyskinu sem leikur enn kúnstir sínar sínar við að hirða þá bita sem enn eru nothæfir úr rústunum.
Þvottavélin mallar. Ég er að safna kröftum til hreingerninga og ýmissa tiltekta. Kyrrt veður en enn mylgrar hann niður snjó. Kimi leggur ekki í hann út. Það er skötuveisla í Tryggvaskála klukkan tólf. Alveg jafngott að borða skötu í dag eins og á Þorláksmessu. Ég var kominn á fertugsaldur þegar ég loks hafði mig í að smakka skötuna. Ég hafði fordóma gagnvart þessari fæðu eins og svo margir aðrir. Siðurinn leggst aldrei alveg af, því ég hef séð talsvert af ungu fólki í skötupartýum undanfarinna ára. Ég hlakka til að byrja á þrifunum. Þegar ég hef mig í að byrja er björninn unnin og vellíðanin yfir góðu verki er góð umbun. Við Dýri sendum kærar kveðjur til alls góðs fólks. Ykkar Hösmagi.

Friday, December 19, 2008

 

Pækillinn...

er að kólna á svölunum. Jólalærið góða bíður í ísskápnum. Þó harðara sé í ári en oft áður, er lærið ómissandi þáttur í jólahaldinu. Daginn fyrir Þorláksmessu 2001 féll vinstra lungað í Hösmaga gjörsamlega saman og hann þurfti nauðbeygður á spítala í grænum hvelli.Lærið var tilbúið til steikingar og voru nú hin góðu ráð dýr. Vinkona mín frysti lærið sem skipti um hlutverk og varð Páskalæri í staðinn. Bragðaðist dásamlega eins og ævinlega. Ég ætla að steikja lærið þann 22. og reykti sauðurinn fer í pottinn á Þorláksmessu. Þá kemur rétta anganin í vistarverurnar. Ég legg ekki í að sjóða skötu. Það hefur líka verið bannað í flestum fjölbýlishúsum. Ég hef etið skötu hjá Kiwanismönnum undanfarin ár og geri það örugglega nú. Enn er hann að puðra niður snjó. Samt vel fært um götur. Nú er logn og þetta myndi væntanlega vera vinsælt jólaveður. Því miður er spáð mikilli rigningu og hvassviðri á aðfangadag.Það verða því flekkótt jól. Ég kvíði þó ekki ferðalagi til höfuðborgarinnar. Græna þruman enn í eigu Hösmaga og hún mun skila honum heilum heim. Dýri gætir hússins og fær svo eitthvað virkilega gott í gin sitt. Planið er nú að eyða helginni í þrif og tiltektir. Svo verður letilíf um jólin. Bóklestur, krossgátur og sífellt rennerí í kræsingar jólanna. Skáldið og Helga komin heim á gamla Frón. Vonast eftir að sjá þau á Selfossi áður en þau halda aftur af landi brott. Ég fór of snemma að sofa í gærkvöldi og vaknaði á óguðlegum tíma. Fór í eftirlitsferð um bæinn snemma morguns. Vegheflar og önnur snjóruðningstól á fullu. Kyrrt veður og lítið frost. Ef vind fer að hreyfa að ráði verður aftur þæfingsfærð. Þegar birtir fer ég í annan leiðangur og sæki laxinn í reyk. Hann verður örugglega sama lostætið og áður. Flínkir strákar hjá Krás ehf. Við Kimi Högnason sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Wednesday, December 17, 2008

 

Kæla.

Rúmlega 5 stiga frost. Nánast logn og það breytir miklu. Ég hitti þau ágætu hjón, Bryndísi og Rúnar, veiðiverði í Veiðivötnum, í gær. Átti við þau gott spjall.Þau dveljast jafnan nokkuð innfrá eftir að veiðitíma lýkur. Í október fór vindhraðinn þar í 43 metra á sekúndu. Í fyrravetur komst frostið niðurfyrir 30 gráður á sömu slóðum. Undirritaður var þarna með skáldinu sínu í ágúst 2004. Logn og 27 gráður. Þetta er nú blessað landið okkar. Þó harnað hafi á dalnum vonast ég til að mér auðnist að veiða þarna næsta sumar. Bryndís sagði mér að margar fyrirspurnir hefðu borist frá veiðimönnum sem hafa veitt á urriðasvæði Laxár í Þingeyjarsýslu undanfarin ár. Kostnaðurinn við það er kominn úr böndunum. Það er allt fullbókað í Veiðivötnin næsta sumar. Hætt er þó við að nokkrir gangi úr skaftinu. Gömlu bankarnir skulda 10.000 milljarða erlendis. Þessi afkvæmi Davíðs og draugsins. Svokallaðir eigendur þeirra halda óáreittir áfram að gambla. Ingunn Anna, Gústi og öll hin eiga að erfa skuldirnar. Arfleifð þessara manna mun verða þung í skauti. Skauti þeirra sem enga ábyrgð bera á henni.Rangindi og ráðaleysi núverandi stjórnvalda eru allsráðandi. Þetta blasir við flestum nema þeim sjálfum. Þó innan við þriðjungur þjóðarinnar séu fylgjandi ríkisstjórninni samkvæmt könnunum, mun hún stritast við að sitja meðan sætt er. Ráfandi stefnulaust um rústirnar.
Kimi enn lagstur hér á borðið. Hann hefur enn traust á vini sínum og fóstra enda ekki aðrir fyrir hendi. Merkimiðar, jólapappír og límband eru ákaflega freistandi í augum þessa rauðskotts. Líklega verð ég að loka Dýra útí kuldanum ef ég á að fá frið til að ljúka vafstrinu. Bestu kvaðjur frá báðum, ykkar Hösmagi.

Tuesday, December 16, 2008

 

Skór.

Skemmtilegt myndskeiðið þegar maður grýtti skóm að Bush í sjónvarpinu í gær. Forsetinn mikli er greinilega ekki alveg heilalaus. Hann vék sér eldsnöggt frá fyrra skotinu. Annað skotið stefndi beint í fésið á kauða en hann varði snilldarlega með höndunum. Þetta er örugglega það skásta sem hann hefur gert á forsetatíð sinni.Fólk er guðsfegið að losna við Bush. Það verður fróðlegt að sjá hvort Obama stendur við loforðin. Einkum og sér í lagi hvort hann lokar fangabúðunum í Guantanamo. Þetta fangelsi hefur reyndar verið tákngervingur gerfilýðræðisins í BNA um áraraðir. Þar hefur fólk verið pyntað og kvalið. Engar ákærur. Hið algjöra réttleysi þessa fólks hefur ekki vafist fyrir Bush og félögum. Svartasti bletturinn á BNA og er þó af mörgu að taka. Vonandi fær þetta blessaða fólk frelsi sitt að nýju.
Ég fór á bókasafnið í gær. Hef sennilega ekki komið þar í ein 2 ár. Ég hef lesið nokkuð mikið að undanförnu. Gefið krossgátunum frí að mestu. Lesturinn víkkar sjóndeildarhringinn og ég gleymi vondri ríkisstjórn á meðan. Seðlabankanum, FME og glæpahyskinu. Þórbergur er sígildur. Ási í Bæ skrifar skemmtilega. Gluggað heilmikið í Þórarinn Eldjárn og Einar Kárason. Ég er rúmlega hálfnaður með Stoðir FL bresta eftir Óla Björn Kárason. Hef orðið fyrir vonbrigðum með þetta rit. Þurr upptalning á tölum, nöfnum, prósentum og skúffuhlutafélögum. Þó er ritið upplýsandi um þankagang útrásarvíkinganna. Græðgi þeirra og fullvissu um að tilgangurinn helgi meðalið. Þeir eru nú nánast allir erlendis og njóta þar ávaxtanna af iðju sinni. Peningarnir okkar sem þeir stálu, í öruggri höfn þeirra. A.m.k. meðan við höfum núverandi valdhafa yfir okkur. Það er ekki hægt að spóla tímann til baka. En það er hægt að skipta um valdhafa og hætta að vernda glæpamennina. Hin bókin sem ég fékk að láni er Laxveiðar í Jemen í þýðingu skáldsins míns. Hún bíður næstu kvölda. Nú eru líka stórubrandajól. Fimm frídagar í röð. Ég þarf að vísu að ljúka nokkrum verkefnum hér heima en tíminn er nægur. Nú styttist í heimkomu Sölva og Helgu. Það er tilhlökkunarefni. Ég mun líka hitta hin börnin mín og öll barnabörnin á aðfangadag.Það verður einnig ljúft. Þrátt fyrir allt er ég með væntingar til nýja ársins. Það verður örugglega betra en það sem nú er að enda. Bjartsýnin, vonirnar um betri tíð og ástin til lífsins eru enn til staðar. Lífsbaráttan að vísu þyngri en undanfarin ár. Við breytum ekki gangi hins liðna. En það er hægt að bretta upp ermar og berjast. Berjast fyrir réttlátara þjóðfélagi með annari tekjuskiptingu en tíðkast hefur. Berjast með kjafti og klóm gegn rotnuninni og spillingunni í þjóðfélaginu. Treysta á að ungt og velmenntað fólk með hreint mannorð taki við. Nýr gunnfáni og ný gildi. Þrátt fyrir gamla hyskið eru enn tækifæri á þessu blessaða skeri. Þau eigum við að nýta í þágu allra en ekki bara örfárra.

Við Dýri minn höfum það bara nokkuð gott. Vöknuðum eldsnemma og tókum hvor öðrum fagnandi að venju. Veðrið verður svipað út vikuna. Hitinn dansar í kringum núllið. Nokkuð bætst í snjóinn en ég ætla að sætta mig við það þó ég sé nú ekki par hrifinn af honum. Sem sagt gott. Bestu kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Sunday, December 14, 2008

 

Mánudagur.

Róleg helgi liðin í aldanna skaut og lítið eftir af árinu 2008. Það hefur bætt í snjóinn en hitastigið er yfir frostmarkinu. Gott að viðra sig í morgunsárið eftir indælan nætursvefn. Samkvæmt útvarpinu í gær verða hræringar í ráðherraliðinu fyrir áramót. Báðir ráðherrar suðurkjördæmis, þeir Björgvin og Árni Matt, eru sagðir á förum. Farið hefur fé betra. Þá er talað um að Björn Bjarnason víki fyrir frænda sínum Bjarna Ben. Nokkuð gott.En verra er ef Þórunn Sveinbjarnardóttir, skásti ráðherra SF, verður sett út í kuldann. Nær væri að gefa samgönguráðherranum frí. Kannski skiptir þetta nú ekki höfuðmáli. Það verður kosið á næsta ári. Annað væri ótækt eins og komið er. Við þurfum endurnýjað þing og nýja ríkisstjórn. Þá fyrst er von til þess að hreinsað verði til í ríkisbönkunum, seðlabanka og fjármálaeftirlitinu. Smávon til þess að stærstu þjófar Íslandssögunnar verði dregnir til ábyrgðar og eitthvað af milljörðunum, sem þeir hafa stolið, komi í leitirnar. Meðan ríkisstjórnin er að mestu skipuð vonlausum geðluðrum er lítil von til þess að skíturinn verði fjarlægður.
Ég verslaði smávegis í gær. Norðlenskt sauðalæri, grænar baunir, rauðkál og fleira smávegis. Laxinn kemur úr reyk á föstudaginn. Jólalærið verður keypt síðar í vikunni.Ég hefi vikið jólakvíðanum á brott. Þó ekki sé hægt að segja að bjart sé framundan ætla ég samt að hafa væntingar til nýja ársins. Tíminn verður að leiða í ljós hvað það ber í skauti sér. Ást mín á landinu er jöfn og áður. Svona í öfugu hlutfalli við landsfeðurna og glæpagengið sem þeir vilja ekki hreyfa við. Vonandi verður vakning meðal þjóðarinnar. Það er aldrei of seint að taka upp nýjan gunnfána. Nýja hugsun sem minnkar möguleika glæpalýðs sem nú hefur að mestu flúið land eftir að hafa skilið eftir sig sviðna jörð í skjóli frjálshyggjuliðsins sem stýrt hefur þessu skeri í 17 ár. Uppskeran blasir við okkur öllum. En það er alþekkt að bráðin, sem komin er upp að vegg, bítur frá sér. Við skulum glefsa í hælinn á þessum sjálfumglöðu stjórnvöldum sem hafa komið okkur á þennan stað í tilverunni.
Dýri liggur hér á borðinu við hlið mér. Sæll að vita hvorki eitt eða neitt um Sollu og Geira. Drauginn eða yfirnagarann. Né alla glæponana. Við ætlum að snjóa það saman áfram. Vongóðir með bjartari tíð. Við sendum öllum vinum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Friday, December 12, 2008

 

Kartafla.

Stekkjastaur gaf Össuri kartöflu í skóinn í fyrrinótt. Hann er búinn að vera óþægur. Það er þó skömminni skárra að fá kartöflu en ekki neitt því það má éta hana. Solla og Geiri hafa sennilega fengið lambaspörð. Það væri a.m.k. við hæfi. Ríkisstjórnin hamast nú við að skera niður útgjöldin, hækka skatta og nauðsynjavörur. Og álögurnar bitna að sjálfsögðu mest á þeim sem minnst hafa. Á sama tíma er stjórnin að falla á tíma með málaferli gegn bretum. Sjálfstæðisflokkurinn er að klofna og fólk segir sig unnvörpum úr SF. Gott útaf fyrir sig. En auðmennirnir eru rólegir. Vita sem er að þeir fá frið meðan núverandi stjórnvöld sitja. Og yfirmenn bleðlabankans og fjármálaeftirlitsins sem allir hafa skitið á sig munu aldrei viðurkenna það þó fnykurinn standi af þeim í allar áttir. Þeir fá líka frið í musterum sínum. Musterum hrokans og valdagræðginnar. Þó ég sé löngu flokkslaus maður sýnist mér Steingrímur og hans fólk þau einu sem andæfa. Nokkrar hjáróma framsóknarraddir heyrast annað slagið. Enn örlítið lífsmark með líkinu. Framsóknarflokkurinn ber þó mikla ábyrgð á hvernig komið er eftir 12 ára legu með íhaldinu undir stjórnarsænginni. Arfur draugsins verður ekki dulinn. Sægreifans, sem skildi flokk sinn eftir í rjúkandi rústum og flúði land. Handvaldi nýjan formann sem komst ekki einu sinni inná þing.Flokkurinn er nú feigt rekald og kemst vonandi aldrei aftur til áhrifa hér enda löngu búinn að týna hugsjónunum á sinni endalausu spillingargöngu.
Hér stöðvaðist morgunpistillinn. Búinn að leggja mig í millitíðinni. Sambandsleysi á einum þræði í tölvunni. Létti sannarlega er mér tókst að finna það sem úrskeiðis hafði farið. Alhvít jörð og nokkurra gráðu frost. Það mun verða svipað veður fram undir jól. Stormur nafni minn á stöð 2 spáir 10-12 stiga hita þann 22. og rauðum jólum. Það gleður mann með snjófóbíu. Ég ætla að sækja grænu þrumuna á eftir. Fáir í bílakaupahugleiðingum þessa dimmu daga. Heimsæki kannski dóttlu og systur mína í leiðinni. Dýri húsvörður í fullu starfi á meðan. Hann er nú á sínu rjátli hér í kringum mig og við biðjum að heilsa vinum okkar, ykkar Hösmagi.

Thursday, December 11, 2008

 

Grámi.

Ósköp finnst mér allt vera litlaust í dag. Grátt, tilbreytingarlaust og leiðinlegt. Þurraþræsingur, en hitinn samt yfir frostmarkinu. Sennilega væri þjóðráð að fara í heilaþvott. Ef það gæti losað mig við ergelsið og óróleikann. Reiðina út í fólkið sem setti þetta sker á hausinn. Reiðina yfir að megnið af þessu hyski er með allt sitt á þurru meðan almenningi blæðir. Allir yfirmenn nýju bankanna voru á kafi í drullunni í þeim gömlu. Ráðherrarnir muna ekkert, gera helst ekkert, nema þá axarsköftin ein. Aðeins toppurinn af ísjakanum er uppúr. Svindlið og svínaríið blasir þó allstaðar við neðan hans. Sumt af því á eftir að birtast okkur. En mestu svindlarnir hafa haft nægan tíma til að hylja slóð sína. Enda verndaðir af stjórnvöldum. Og rökin fyrir því að þeir fá að starfa óáreittir eru að þeir hafi svo mikla reynslu og innsýn á vandamálin að við getum ekki án þeirra verið. Embættismenn sem komust að hvað í vændum var í krafti síns embættis nýttu sér það til að verja eigin hag. T.d. ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu. Þetta er fullsönnuð staðreynd. Allsstaðar annarstaðar í heiminum hefði hann verið knúinn til afsagnar. En ekki á Íslandi. Þeir láta ekki snúa á sig, pilsfaldakapitalistarnir. Spillingin blívur.
SF firrir sig ábyrgð á seðlabankastjóranum DO. Hann situr þó í skjóli hennar. Trúverðugleiki SF er nú heldur klénn. Strax eftir áramót þarf að boða til kosninga. Stokka upp embættismannakerfi ráðuneytanna, reka allt gamla spillingargengið úr bönkunum, fjármálaeftirlitinu og öðrum eftirlitsstofnunum. Við eigum nóg af velmenntuðu ungu fólki sem getur tekið við. Árangurinn yrði ekki lengi að skila sér. Stórþjófarnir yrðu festir upp og eigur þeirra gerðar upptækar. M.a. annars þeir gífurlegu fjármunir sem hurfu af Icesave reikningunum sólarhringana áður en spilaborg þeirra hrundi til grunna. Þessir fjármunir eru vel faldir. Kynslóð barna og barnabarna á að ekki að greiða reikning þessara glæpona.
Þessi pistill er nú ekki uppörvandi fyrir marga og allra síst höfund hans. Samt sem áður er þetta sýn hans á ástandið hér í árslok 2008. Skaðinn sem unnin hefur verið á sálarlífi allra heiðarlegra íslendinga verður seint bættur. Það er þó flestum ljóst við hverja er að sakast.

Komin mugga í lofti og grillir vart í Ingólfsfjall. Kom heim um tíuleytið í gærkvöldi. Kimi svaf meirihluta gærdagsins. Þegar ég hafði sofið í rúman klukkutíma fannst honum kominn tími á að vekja mig. Ég hélt mildilega áminningarræðu yfir þessu dýri. Sofnaði að vörmu spori og svaf í 5 tíma í viðbót. Viðraði mig aðeins en Kimi hefur haldið sig innandyra í morgun. Reyni að halda verkum gærdagsins áfram eftir hádegi og ýta gremju og ergelsi til hliðar. Bestu kveðjur frá rauðhausunum, ykkar Hösmagi.

Tuesday, December 09, 2008

 

Kleppur - hraðferð.

Það er ekki fallegt að hafa geðsýki fólks í flimtingum. Það hefur þó verið gert lengi. Þegar fylgst er með því sem er að gerast og hefur verið að gerast í þessu bananalýðveldi að undanförnu rifjast þó upp sögur af Kleppi. Þar ku eitt sinn hafa verið maður sem hélt að tannburstinn hans væri hundur. Hafði hann í bandi á spásseringum sínum um húsið og talaði heilmikið við hann. Hersingin sem kom á stofuganginn á morgnana heilsaði Nonna og Snata. Það varð að ávarpa báða. Sæll Nonni, góðan dag Snati. Svo bar þó við einn morguninn þegar yfirlæknirinn hafði heilsað samkvæmt venju að Nonni brást sérkennilega við. Hann spurði lækninn hvort hann væri orðinn bilaður. Það hlytu allir að sjá að þetta væri ekki hundur heldur tannbursti. Læknirinn varð undrandi á skjótum bata sjúklingsins. Hugsaði sitt og viðurkenndi strax að auðvitað væri þetta bara tannbursti. Þegar dokksi hélt á brott ásamt fylgdarliði sagði Nonni við tannburstann: Þarna lékum við laglega á hann Snati. Önnur sagan var um sjúklinginn sem fylgdist með utanhússmálningu á þessu fræga húsi inn við sundin bláu. Gekk til málarans og kallaði: Haltu þér fast í pensilinn því ég ætla að taka stigann. Ástandið er svona í ætt við þessar sögur. Enginn sem ber ábyrgð á ástandinu viðurkennir hana. Ríkisstjórnin er að bjarga því sem bjargað verður og við eigum að þegja og vera þakklát. Innherjaviðskiptin halda áfram.Embættismenn, stjórnmálamenn og allir sem enn hafa aðstöðu til hamast við að skara eld að eigin köku.Bófarnir eru sjálfskipaðir sem rannsóknarmenn á eigin glæpaverkum. Sé fólk ekki ánægt með niðurstöðuna má láta aðra glæpona yfirfara hana. Skyldi einhverntíma koma að því að fólk axli ábyrgð á gerðum sínum hér? Ekkert bendir til þess eins og er. Hér segja menn ekki af sér að ástæðulausu. Sitja meðan sætt er. Deila og drottna yfir okkur þó við möglum. Við verðum að beita okkur hörku til að halda geðheilsunni.Lögbrotin, rangindin og blindan hjá ráðamönnum þessarar þjóðar verður mörgum nánast ofviða. Siðferði þessa fólks er vandfundið, enda erfitt að finna það sem ekki er til. Verst að vera í sporum Lúthers. Hér stend ég og get ekki annað.

Mér er hugarfró að veðurlagi dagsins. Rok, rigning og 6 stiga hiti hafa fjarlægt snjóinn í nótt. Hugurinn reikar og ósjálfrátt hugsa ég til Tangavatns og þess hvað næsta sumar muni bera í skauti sér. Ýti jólakvíðanum burt og ætla að reyna að vera hress og jákvæður í dag þó ástæður til þess séu ekki mjög ærnar. Reynslan hefur kennt mér að það er besta leiðin. Uppgjöf kemur ekki til greina. Landið er enn á sínum stað og vonin um batnandi ástand er enn til. Jólaklipping eftir hádegi og svo skreppum við Hörður bílameistari og fjölfræðingur í bæinn síðdegis. Kimi á rjátlinu en tollir vart úti í vætunni. Veisluhöld hjá okkur báðum í gærkvöldi því sjófryst ýsuflök voru til kvöldverðar. Megi auðnan elta ykkur, krúttin mín kær, ykkar Hösmagi.

Monday, December 08, 2008

 

Þjóðlegheit.

Það er þjóðlegt að þjóðnýta hrun bankakerfisins. Leggja þúsundir milljarða á komandi kynslóðir meðan útrásarvíkingarnir eru stikkfrí. Þotur, snekkjur og luxusíbúðir þessara þjófa að sjálfsögðu allar ósnertanlegar. Noli tangere. Lykilfólk gömlu bankanna allt á sínum stað í hinum nýju. Allt mjög þjóðlegt. Nú heimta sumir að lögin um mat á umhverfisáhrifum verði afnumin strax. Vegna " kreppunnar ". Á sama tíma hefur verð á áli fallið úr 3.400 dollurum tonnið niður í 1.440 dollara. Og heldur áfram að falla.Rafmagnsverðið er tengt heimsmarkaðsverði á áli. Lágt hefur það verið en sumir vilja líklega gefa með því. Þórunn stendur enn í lappirnar og þeir æstustu segja hana vera ráðherra VG í núverandi ríkisstjórn. Sennilega tínir hún fjallagrös á laun þegar færi gefst. Eins og stundum áður finnst mér ég vera staddur í miðju leikriti Dostojevskís. Á hverjum einasta degi koma nýjar hliðar á spillingunni í ljós. Þúsundir íslendinga mótmæla þó. ISG segir bara að þeir séu ekki þjóðin. Það er ekki hlustað á bestu hagfræðinga okkar. Enda óþarfi, því stóra rottan á Svörtuloftum veit þetta allt mikið betur. Davíð væri góður sem sá alklikkaðasti hjá Dostojevskí. Þyrfti ekki að leika neitt nema sjálfan sig. Eða öllu heldur vera bara hann sjálfur. Þegar allt er orðið drulluskítugt heimafyrir neyðumst við til að þrífa. Enn trúi ég því að það sé hægt. Árið 2009 verður vonandi ár athafna á þessu sviði. Það verður að byrja á byrjuninni. Leysa alla sem nú hafa verið skipaðir til að kafa í drulluforinni frá störfum. Þeir voru allir þar fyrir. Á að láta þjófinn rannsaka eigin brot og una svo niðurstöðu hans? Það er örugglega þjóðlegt í augum sumra.

Ég fór vestur yfir heiði í gær. Heimsótti systur mína yngri og mág minn. Spjall og kræsingar í 4 tíma. Græna þruman stendur á bílasölu í Reykjavík. Gamli Lancerinn fór létt með að flytja mig þennan spöl og heim aftur. Skreið undir sæng mína um hálfellefu með Þórberg í hönd. Hnoðaður og malaður að venju. Svaf draumlaust í eina 6 tíma og er nokkuð ern í dag. Það styttist í vetrarsólstöður og birtan eykst á ný. Ekki einu sinni kraftaverkamennirnir geta komið í veg fyrir það. Ef ég tryði á helvíti óskaði ég þeim öllum þangað því þar ættu þeir heima. Bestu kveðjur til ykkar hinna frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Sunday, December 07, 2008

 

Stuttir dagar.

Það er tæpast hægt að segja að það hafi dagað í gær. Dimmt í lofti en snjóinn tók upp að mestu. Aftur alhvít jörð í morgun og lognið hefur unnið sigur á storminum. Kimi nýtti sér það í klukkutíma utandyra en situr nú hugsi hér á borðinu hjá vini sínum og fóstra. Mér varð nú minna úr verki í gær en til stóð. Lauk við útgerðarsögu Ása í Bæ í gærkvöldi. Fljótur að sofna uppúr miðnætti en friðurinn var úti uppúr kl. 5. Kimi óvenjuharðskeyttur í morgunsárið. Linnti ekki látum fyrr en ég reis upp við dogg.Legg mig bara á eftir í staðinn. Spaugstofan nokkuð góð í gær. Þar kom yfirnagarinn við sögu að venju. Atferli hans að undanförnu hefur sannfært mig enn og aftur um að hann gengur ekki heill til skógar andlega. Sólkonungar haga sér í samræmi við andlegt ástand. Enginn ber meiri ábyrgð á hvernig komið er fyrir okkur skerverjum nú en einmitt þessi maður. Hann segist hafa fullt starfsþrek og hefur í hótunum við lufsurnar sem nú sitja í ríkisstjórn um hvað hann muni gera verði hann þvingaður út úr musterinu. Hvað með okkur hin sem höfum líka starfsþrek? Þúsundum saman höfum við misst okkar starf. Hér er hnípin þjóð í vanda. Það er brýnt að fjarlægja þessa yfirrottu Svörtulofta og ýmsar smámýslur í leiðinni. Það væri fyrsta skrefið í rétta átt. Ætli hann sér í stjórnmál aftur vil ég benda á góða leið fyrir hann. Það vantar nýjan formann í framsóknarflokkinn. Suðurkjördæmi væri alveg rakið fyrir þetta ofurmenni. Guðni og Bjarni báðir flognir og sunnlendingar hafa löngum verið lagnir við að kjósa rétta fólkið á þing. Hann þarf ekki einu sinni að hafa fyrir því að fá æru sína uppreista.Formlega hefur hann hana ennþá. Skítlegt eðli vefst heldur ekkert fyrir okkur íslendingum. Siðferðismat okkar í stjórnmálum er óbreytt.O tempora o mores.

Það væri sennilega heillaráð að viðra sig aðeins.Teyga að sér tæra loftið og reyna að víkja leiðindunum burtu. Depurðinni yfir ástandinu og reiðinni útí þá sem mér finnst bera höfuðábyrgð á því. Einu sinn var mér sagt að það væri dyggð að geta fyrirgefið. Það átti vel við þá og ég fór eftir því og leið betur í kjölfarið. En það er bara ekki hægt að fyrirgefa sumu fólki. Því miður. Ykkar Hösmagi.

Friday, December 05, 2008

 

Döpur augu.

Klukkan er nú rúmlega 5 að morgni þess 6. desember anno 2008. Við Raikonen snemma á fótum. Hitinn um frostmarkið og það muggar annað slagið. Þegar Hösmagi gekk til náða í gærkvöldi með Ása í Bæ í höndunum var mikið hnoðað og malað. Það var tæplega lestrarfriður. Gerði svo sem ekki mikið til því ég var þreyttur og sofnaði fljótlega. Það hefur stundum hent undirritaðan um ævina að verða dapurlegur til augnanna. Reyndar lítið verið um það á undanförnum árum. Ég sé að nóvemberpistlarnir eru aðeins 3. Augndepurðin augljós. Þegar á mánuðinn leið var hugurinn kominn í öngstræti og fátt til ráða. En Hösmagi hefur aldrei týnt lifsgleði sinni alveg. Þrátt fyrir svartnætti hugans á stundum hefur honum alltaf lagst eitthvað gott til. Það eru ekki aldeilis allir sem hafa jafn gott bakland og ég. Börnin mín 3 og eldri systkini mín 3 standa öll þétt að baki mér. Í blíðu og stríðu. Það er þeim að þakka að ég fann leiðina út úr öngstrætinu og það er komið nýtt blik í augun döpru. Það er indælt eins og jafnan áður. Þó ég sé friðsamur að eðlisfari er ég bardagamaður líka. Það hefur stundum reynt verulega á það í gegnum árin. Stundum er sagt í fréttum að þessi eða hinn séu góðkunningjar lögreglunnar. Í fyrra þurfti ég að rifja upp kunningsskapinn við skurðstofulæknana. Í annað skiptið á nýrri öld. Þá var gott að eiga skáld sem frestaði för sinni af ísaköldu landi uns gamli bardagamaðurinn var orðinn heill heilsu á ný. Það er geymt og mun ekki gleymast. Þegar ég ætlaði að tala við skáldið í gær var það nýfarið úr húsi. Ég átti indælt samtal við heitkonuna góðu. Þau koma til landsins þann 18. og það verður ljúft að sjá þau aftur. Langt og gott samtal við einkadótturina í fyrrakvöld og reyndar við yfirtengdasoninn líka. Hitti Magnús minn í gær og 2 systkini mín og átti gott samtal í síma við það þriðja.Og lítið dýr gladdi Hösmaga við heimkomuna í gær. Gleðin var gagnkvæm. Þó hér inni sé hlýtt og notalegt sit ég hér við tölvuna í ullaranum. Klærnar á hnoðandi framlöppum ná ekki í gegnum slíka verju. Lognið er algjört úti. Jólaljósunum fjölgar og þau eru kærkomin á þessum myrku og stuttu dögum. Hugsa mér til hreyfings þegar kaffidrykkju lýkur. Ætla mér svo að nota daginn til góðra verka hér heima. Nú stóðst Kimi ekki mátið og skellti sér út um gluggann. Bestu kveðjur til ykkar allra, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online