Sunday, March 29, 2009

 

Krossberi.

Messías hefur verið krossfestur. Rekinn út úr musterinu og norskur fjallamaður með Alsheimer settur í hans stað. Messías grætur þungum tárum yfir örlögum trjánna sem notuð voru í pappírinn til að prenta skýrsluna um afrek hans fyrir þjóðina. Náhirðin heldur ekki vatni yfir þessu. Samkunda íhaldsins um helgina er skrautleg. Þar kemur hið rétta andlit flokksins í ljós. Tilgangurinn hefur snúist upp í andhverfu sína. Það hljóta miklu fleiri að flýja flokkinn en ætluðu sér það. Það eitt og sér er gleðiefni. Messías var reyndar ekki á dagskrá fundarins. Honum var þó ekki varnað máls sem betur fer. Það hefði líka verið illa gert við þennan krossbera. Riddara sannleikans, sem allir hafa verið vondir við. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að tala um hroka, skítlegt eðli, dónaskap og hitt og þetta þaðan af verra. Ég ætla ekki að tala meira um krossberann því mér er að verða óglatt.

Það er kyrrt veður en frostið er 4 gráður. Rólegheit hjá okkur Kimi. Sálarlífið í góðu jafnvægi.Nú er ég með sjöttu bókina um eiginkonu hr. J.L.B Matekonis.Presisous Ramotswe. Ég er pínulítið skotinn í henni.Það er allt í lagi á þessum aldri. Ég er ánægður með allan lesturinn í vetur. Ég ætla að lesa heilan helling meðan mér endist heilsa og aldur. Lesturinn er hluti hamingjunnar. Gamall veiðimaður hefur enn til margs að hlakka. Það styttist í páska og vorið er varla langt undan heldur. Það verður gott að taka létta æfingu í Tangavatni. Þar eigum við Maggi dag inni. Og græna þruman að verða óþolinmóð eftir fjallaferð. Brauð og leikir enn á dagskrá þrátt fyrir kreppu íhaldsins. Næst á dagskrá er kók og vindill, silfur Egils og aldrei að vita nema að harðfiskpoki verði opnaður. Nammidagurinn varð útundan í gær og það verður að bæta upp. Bestu kveðjur til allra krúttanna minna, ykkar Hösmagi.

Thursday, March 26, 2009

 

Pólitíkin.

Það er mánuður í þingkosningar.Nú bendir flest til að frjálslyndi flokkurinn hverfi og nýju framboðin fái lítið fylgi.Sumir tala af mikilli fyrirlitningu um fjórflokkinn. Eins og það sé bara einn flokkur. Þetta er auðvitað firra. Sjálfstæðisflokkurinn með dyggri aðstoð framsóknar hefur komið þessu skeri á hausinn.SF á reyndar nokkra sök í þeim efnum. Það hefur verið upplýst að minnisblaðið úr seðlabankanum um dökkt útlit í bankamálum var lesið upp fyrir þau Geir, Árna Matt og ISG í febrúar. ISG hefur sennilega verið of upptekinn við að rembast við að koma okkur inní öryggisráð SÞ. Það var draugurinn sem átti upphaflegu hugmyndina að þeirri fáfengilegu dellu. ISG hefði betur varið kröftum sínum í önnur og betri málefni. Hún hefur nú dregið sig í hlé. Það er sorglegt á sinn hátt. Ég gleymi aldrei þætti hennar í að fella íhaldsmeirihlutann í Reykjavík. Þar átti hún langstærsta þáttinn. Vonandi nær hún heilsu sinni á ný. Af eigin rammleik og með hjálp góðra vætta. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun fréttablaðsins fá SF og VG 38 þingmenn, íhaldið 20 og framsóknarmaddaman aðeins 5.Þetta er þó aðeins niðurstaða könnunar en óákveðnum er þó að fækka. Náhirð íhaldsins skilar sér öll en margir kjósendur þess utan hirðarinnar hafa séð að sér. Ef fram fer sem horfir verður VG stórsigurvegari í kosningunum. Þó ég sé flokkslaus maður yrði það mér mikið fagnaðarefni og ég verð ekki í vandræðum við kjörborðið.Áherslur fólks á borð við Ögmund Jónasson eru mér að skapi. Það er sá stjórnmálamaður sem ég hef langmest álit á nú. Eins og reyndar áður. Ég hef lítillega kynnst Ögmundi persónulega og ég held að lífsskoðanir okkar séu ákaflega líkar. Ég þarf ekki að rekja þær hér.Það er mikið af góðu fólki í SF. Því miður á markaðshyggjan þar líka marga formælendur. Og oftrúin á ESB er líka vond. Ég hef nánast þrástagast á því að það á að spyrja þjóðina áður en aðildarviðræður verða hafnar. Blása til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort við eigum að sækja um aðild. Mér finnst það eðlileg og lýðræðisleg lausn. Krónuræfillinn okkar er nú aumari en nokkru sinni fyrr. Þar er ærið og vandasamt verkefni framundan. Því miður eru engar töfralausnir til í þeim efnum. Mörg nýju ríkin í ESB eru í miklum vandræðum þrátt fyrir evruna. Allt fyrir ekkert eru ein frægustu öfugmæli stjórnmálasögunnar síðustu áratugi. Flati 20% niðurskurðurinn á skuldum heimila er heldur ekki góður. Mér líst miklu betur á niðurskurð í krónutölu. Það er bæði ódýrara og kemur þeim verstsettu best. Og það verður að gæta þess vel að þessir fjármunir verði notaðir til lækkunar húsnæðislánanna eingöngu. Ekki vil ég aðstoð úr almannasjóðum til að greiða lánið á grænu þrumunni.Ef sigur VG verður nógu stór í kosningunum munu hin betri gildi SF verða ofaná í flokknum. Þá megum við eiga von á öflugri umbótastjórn sem breytir algjörlega um stefnu. Náhirðin mun verða úti í kuldanum með lík framsóknar í eftirdragi. Þá verður aftur gaman.
Enn er bið eftir vori. Hitinn oftast við eða undir frostmarki. Við Maggi bíðum bara færis á að bruna í Tangavatn. Það verður örugglega heilmikið vorkikk. Við Rækó erum hressir. Hann er æ meira útivið eftir að birtan hefur ýtt mesta myrkrinu burt. Mér voru gefnir 4 pokar af harðfiski í vikunni. Næstu laugardagar verða nammidagar hjá okkur. Bestu kveðjur frá okkur rauðliðum, ykkar Hösmagi.

Friday, March 20, 2009

 

Viltu vera memm......

í dag. Vorjafndægur og blíða. Samkvæmt stjörnuspánni eru fiskar hamingjusamir í dag. Og það vilja allir vera með hamingjusömu fólki. Kannski kemst ég bara á séns? Aldrei að vita hvað dagurinn ber í skauti sér. Í gær kom hér einn íbúi í þessari ágætu Ástjarnarblokk. Vantaði minniháttar aðstoð við að koma frá sér framtalinu. Það var ekki stórmál. Vanur maður hér við skrifborðið. Við sátum og spjölluðum og þar kom að ég kveikti mér í vindli. Með sálarlausm plastkveikjara sem kominn er að fótum fram. Þegar alíensinn náði af mér kveikjaranum í febrúar láðist honum að taka eldsneytið með. Það stendur hér á borðinu og gesturinn rak augun í það. Ég rakti raunir mínar fyrir honum og lýsti fólkubrögðum ódósins í smáatriðum. Hann komst við en sagði að lítið mál væri að bæta úr. Hann ætti nokkra Zippóa, hljóp niður og kom að vörmu spori með þetta ekta eldfæri. Ég var snöggur að dæla eldsneyti í púðann og það var hrein lífsnautn að tendra eld með þessu frábæra tæki. Stálið volgt og dásamlegt að kreppa um það hnefann. Gesturinn sagði mér að hann hefði verið gjarn á að " týna" Zippóum. Hafði oftar en einu sinni verið búinn að kaupa nýja en síðan "fundið" þá sem "glatast" höfðu. Ég sagði fátt þó ég vissi upp á hár hvar maðkurinn lægi í mysunni. Hrekkjabrögð ódóanna lýsa sér í ýmsum myndum. Ég naut þó góðs af og er þessvegna ákaflega hamingjusamur í dag. Það var ljúft að leggja í hann í morgun með glitrandi stálið meðferðis. Veðrið dásamlegt og Raikonen hnusandi í móanum hér sunnan við blokkina. Þegar heim kom hafði Dýri skilað sér inn um gluggann og fagnaði mér ógurlega. Nú er Lancerinn kominn með rauða 10 miðann á sitt flotta númer. Hann er nú ekinn rúmlega 180.000 km. Ég keypti nýja tímareim í gær. Allur er varinn góður. Ef tímareimin bilar er illt í efni. Enginn ekur bíl með kengbogna ventla. Það veit herra J.L.B. Matekoni manna best.Galdramaðurinn Hörður hefur lofað aðstoð við að skipta um reimina.Og hann verður snöggur að því ef ég þekki hann rétt. Svona ámóta og þegar hann skipti um miðstöðina í gamla Volvóinum mínum um árið. Hann gerði það á þremur tímum en kaupfélagsverkstæðið framkvæmdi slíkar aðgerður á tveim heilum dögum. Það er eins og ég hef sagt áður gott að þekkja svona snillinga. Hamingjan ríkir hjá gömlum veiðimanni sem enn er þungt haldinn af bíladellu. Græna þruman á stalli sínum. Gljáandi eftir nostursamlegan sápuþvott í gær. Tilbúinn til veiðiferða hvenær sem er. Spíttmótorinn á sínum stað. Þegar ég les um Tlokweng spíttmótora, fyrirtæki hr. J.L.B. Matekonis, kemur mér græna þruman ævinlega í hug. Verðandi eiginmaður kvenspæjarans yrði hrifinn ef hann kynntist slíkum vagni.
Það verður nóg að starfa um helgina. Hinn almenni frestur til framtalsskila rennur úr á mánudaginn. Ég er á góðu róli í þeim efnum. Gef mér örugglega tíma fyrir Fullan skáp af lífi, 5. bókina um kvenspæjarann og allt hitt skemmtilega fólkið.
Andvari vorsins leikur um íbúð okkar Kimis. Svaladyrnar uppá gátt. Dýrið liggur í gluggakistunni og ég með volgt stálið í greip minni. Megi dagurinn færa ykkur gleði. Ykkar Hösmagi.

Tuesday, March 17, 2009

 

Þíða.

Tíminn flýgur áfram og það eru vorjafndægur á föstudaginn. Það er komin hláka og það er spáð 6-8 gráðum næstu daga. Kominn fiðringur í gamlan veiðimann eins og alltaf þegar vorið nálgast. Þrátt fyrir kreppu og óáran eftir andskotans íhaldið er til margs að hlakka. T.d. ófara sjálfstæðisflokksins í næstu kosningum. Dræm þáttataka í prófkjörum er að mínu mati vísbending um að margir íhaldsmenn ætli að refsa flokknum í vor. Það þarf að senda hann í endurhæfingu. Í nokkra áratugi. Það virðist svo að allur flokkurinn sé í álíka afneitun og hinn dæmdi þjófur sem vermir 2. sæti listans hér í suðurkjördæmi. Allt tæknileg mistök sem eru öðrum að kenna en þeim sjálfum. Að fólk skuli hafa geð í sér til að kjósa íhaldið eftir það sem á undan er gengið er mér hulin ráðgáta. Niður með sjálfstæðisflokkinn. Og norður líka.
Við Dýri vorum komnir á stjá fyrir allar aldir. Bardúsuðum ýmislegt og lögðum okkur svo aftur. Nú er komið hlið á veginn að óðalinu undir Búrfelli. Ég skrapp uppeftir á sunnudaginn. Þetta er rafrænt hlið og opnast þegar maður hringir í það úr GSM síma. Brauðsniðugt og varnar þjófum inngöngu á svæðið. Landið kúrði undir snjónum en nú styttist í að það ilmi á ný. Eftir Gímsnesför lagði ég leið mína niður á strönd. Nánar tiltekið á Eyrarbakka. Þar skoðaði ég agnarsmátt dýr. Kettling sem fæddist á laugardaginn. Hann kom hárlaus í heiminn. Þetta mun vera þekkt erlendis en er afar fátítt hér. Þessi anganóri lifði þó aðeins í 2 sólarhringa þó móðirin og eigendur hennar gerðu sitt besta. Kannski átti hann aldrei möguleika. Hann er nú kominn á önnur tilverusvið með mörgum öðrum.
Það gengur allt sinn vanagang hér í Ástjörn. Vinnutarnir og letilíf inná milli. Nú er ég með 4ðu bókina um Mmm Ramotswe. Skemmtileg lesning og hver bók er akkúrat mátulega löng. Krossgáturnar eru í algjöru fríi. Ég þarf svo í Hveragerði einhverntíma í dag. Þar er verið að gera Lancernum smávegis til góða. Ótrúlega seigur vagn þrátt fyrir þjóðernið. Ekta snattari sem getur dugað í nokkur ár enn.
Kimi var að stinga sér út um gluggan. Aldeilis gott að hnusa smávegis af góða veðrinu. Bestu kveðjur til allra vina okkar, ykkar Hösmagi.

Thursday, March 12, 2009

 

Harðfiskur.....

er ákaflega holl og góð fæða. Við Kimi gæðum okkur stundum á svona lostæti. Ég keypti nokkra poka af Eyrarfiski í gærmorgun. Sérlega ljúffengur fiskur sem verkaður er af kunnáttumönnum á Stokkseyri. Þegar heim kom setti ég pokana í ísskápinn. Þeir voru umluktir öðrum poka. Kimi lá í dyngju sinni og tók ekki eftir neinu. Sem betur fer. Hann er ákaflega sólginn í þennan dýra mat.Kannski væri við hæfi að kalla þetta Dýramat. En þessi snilldarafurð sjávar var ætluð öðrum. Undir kvöldmat tók ég pokann úr skápnum því ég var á leið til Reykjavíkur. Þrátt fyrir góðar umbúðir var kötturinn ekki í neinum vafa um innihaldið. Það var enginn friður með þennan poka. Hnus og hnus. Svo starði dýrið á mig. Ætlaði fóstri virkilega ekki að opna posann og gefa smakk? Ég var búinn að koma sjálfum mér í vandræði. Ég átti ekki meira. Mér leið bara alls ekki vel þegar ég yfirgaf íbúðina. Kisi starandi á mig. Spyrjandi með depurð í augum. Hvernig gat fóstri verðið svona harðbrjósta og andsyggilegur? Ég hélt til Harðar bílameistara sem fór með mér í bæinn. Kom fiskinum af mér og hann er svo á leið til Skotlands í fyrramálið. Hélt áfram að hugsa til gæludýrsins sem varð að láta sér nægja reykinn af réttunum. Þegar við komum aftur á Selfoss skilaði ég Herði til síns heima. Síðan renndi ég að Samkaupum. Leist vel á bitafiskinn frá Harðfisksölunni og fjárfesti án hiks í einum poka. Mér var að sjálfsögðu vel fagnað að venju við heimkomuna. Svo var pokinn opnaður. Þá glaðnaði yfir litlu dýri. Við skiptum innihaldinu bróðurlega á milli okkar svo sem góðra vina er siður. Þegar við gengum til náða var mikið kumr og mal. Alsælir fósturfeðgar sofnuðu von bráðar. Þegar sá eldri vaknaði í morgun var sá yngri kominn á stjá. Hann hafði gætt þess vel að lofa þeim eldri að sofa í friði. Örugglega minnugur harðfisksins í gærkvöldi.
Það er sól hér. Úti og inni. Ingólfsfjall með gráan koll. Hitastigið aðeins ofan við núllið. Kyrrð og friður yfir öllu. Nú er svo málum komið að ég mun áfram eiga grænu þrumuna. Það er gott fyrir sálina. Ég hef hugsað vel um þennan dásamlega vagn og mun gera það áfram. Með sama akstri og síðastliðin 3 ár mun hann endast mér vel næstu 25 árin. Þá verð ég níræður. Ég mun bruna áhyggjulaus til fjalla á þessari sjálfrennireið næstu sumur. Bílagenið er meðfætt og dellan ólæknandi. Það er nóg fyrir stafni hjá Hösmaga þessa dagana. Nú held ég áfram þar sem frá var horfið í gær.
Vellíðanin hefur völdin og tilhlökkunin til sumarsins einlæg. Veiði og útivera. Samvera við þá sem mér finnst svo vænt um. Og sólargeislinn. Sólargeislinn litli. Ný grein á ættartrénu. Mesta tilhlökkunarefnið.Við harðfiskæturnar í Ástjörn 7 sendum ykkur bestu kveðjur. Þetta verður góður dagur. Ykkar Hösmagi.

Sunday, March 08, 2009

 

Raunir Dýra.

Í pistli gærdagsins sagði ég frá leik Kára utandyra. Silfur Egils var að byrja þegar ég lauk pistlinum. Þegar því lauk var ég orðinn vindlalaus. Ég átti vindla í bílskúrnum.Tók lásinn af útidyrahurðinni þó ég væri með lyklana í vasanum. Allur er varinn góður eftir að hafa marglæst mig úti. Ég hef ekki lokað nógu vel. Hurðin fauk upp og Kári skaust inn og feykti svalahurðinni upp líka. Myndin í forstofunni lá á gólfinu. Þetta hefur verið heljarhvellur. Ég kom mér þægilega fyrir í gamla letistólnum í stofunni. Klóskerpunni sjálfri. Fékk mér vindil og lét mig dreyma um dásemdir sumarsins. Færði mig svo fram að tölvunni og sá að Dýri hafði yfirgefið ból sitt á teppinu góða. Kippti mér ekki upp við það þvi hann breytir um legustað annað slagið. Eftir dund á kontornum fékk ég mér annan vindil. Svo fór ég að leita að gæludýrinu. Það virtist gufað upp. Mér komu ódóin í hug. Gat það verið að þau hefðu numið þennan góða vin minn á brott? Þau eru nú þekkt fyrir annað eins.Dýri var bara alls ekki innandyra. Þrátt fyrir rokið opnaði ég gluggann á kontornum. Fékk mér að éta og tíminn leið. Eftir sirka 2 tíma birtist mitt kæra gæludýr. Með kollhúfur og heldur framlágt. Vindhvellurinn hefur líkst jarðskjálftanum mikla í fyrra. Kisi dúndraði sér fram af svölunum og flýði. Hann var þó fljótari að jafna sig nú. Það urðu engir eftirskjálftar í kjölfar hvellsins. En dýrið hafði vara á sér það sem eftir lifði dagsins. Hélt sig að fóstra sínum. Svo mjög að aldrei voru nema nokkrir sentimetrar á milli. Nú erum við hér báðir við borðið klukkan 7 að morgni. Vindurinn er að ganga niður og kaffið smakkast vel að venju. Framundan er stórframtalsgerð sem ég hyggst ljúka fyrir hádegi. Ég er eiginlega hættur að skilja hvernig ég hafði þrek í framtalsgerðina áður en netframtalið kom til. Mikill vinnusparnaður og öryggið líka meira.
Það er að verða dúnalogn. Kimi með trýnið út um gluggann. Kaffið búið og nú er bara að hefjast handa við möppurnar. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

 

Sólskin og norðanátt.

Það er alþjóðabaráttudagur kvenna í dag. Ég sendi öllum stelpunum góða strauma.
Það er sólskin og svolítið kalt
ég sit bara hér og hugsa um þig.
Ég er eins og gíraffinn.
Ég hef ekkert nema tár mín að gefa þér.

Sá rauðbröndótti liggur á teppinu frá Edinborg. Það er miklu betra að kúra hjá fóstra sínum en að þvælast útí rokinu. Það er einstaklega friðsælt í Ástjarnarhreiðrinu í dag. Það er gott. Úti næðir stormurinn. Hlaupinn galsi í Kára og hann kann sér varla læti. Það er nauðsynlegt að leika sér annað slagið. Ég ætla að leika mér mikið í sumar. Meðan vindurinn geysar læt ég mér draumana nægja. Í dag hugsa ég ekki um kreppuna. Né heldur hyskið, sjálfstæðisflokkinn eða framsókn. Mér líður sérstkaklega vel. Nú fer silfrið að byrja og þvínæst siðprýði fallegra stúlkna.
Hösmagi skrifar ekki alltaf svona. En hann er umvafinn góðum hugsunum í dag. Hugurinn bjartur og tær. Það hafa sumir sunnudagar verið erfiðari. Það var gott að vakna í morgun eftir draumlausan nætursvefn. Ég vona að ykkur líði öllum svona vel. Við Kimi sendum blaktandi kveðjur til allra vina, ykkar Hösmagi.

Friday, March 06, 2009

 

Niðurtalning.

Ég er kominn á sextugastaogsjötta aldursárið. Niðurtalningin er hafin. 729 dagar í löggildinguna. Fallegur morgunn þó frostið bíti aðeins. Ég borðaði kjötbollur í sósu í tilefni gærdagsins. Raikonen fékk Eyrarfisk og ég fékk líka að smakka úr pokanum. Báðir harla ánægðir. Í gær birtist skoðanakönnun frá Gallup. SF og VG með hreinan meirihluta. Það sem mér fannst afar athyglisvert í þessari könnun var það, að 41% kjósenda 30 ára og yngri ætla að kjósa VG. 25% sama hóps ætla að kjósa íhaldið. Þó það sé auðvitað alltof hátt hlutfall gleður þessi niðurstaða gamalt vinstrihjarta.Mogginn hefur ekki enn minnst á þetta. Og Rúv er við sama heygarðshornið. Þeir báru könnunina bara undir Geir og Jóhönnu. Ég held að núverandi ástand brenni heitast á þessu unga fólki. Fólkinu, sem hefur skuldsett sig mikið undanfarin ár og á slatta af börnum. Margt af þessu fólki á mjög erfitt eftir skaðræðisstjórn íhaldsins á þessu blessaða landi undanfarin ár. Þó ég sé flokkslaus maður er ég enn sama sinnis í pólitíkinni. Ég vil ekki " grunngildi sjálfsstæðisflokksins" né " mannúðarlega markaðsstefnu" hans. Því miður mun hann fá allt of mikið fylgi. Hann mun þó verða í sögulegu lágmarki og vonandi verður hann áhriflítill um stjórn landsins um langa framtíð. Þó margt skilji SF og VG að er það þó von mín og trú að þeir muni starfa saman eftir kosningar. Það yrðu söguleg tímamót á Íslandi. Blátt áfram unaðslegt að hafa íhaldið í frosti með framsóknarflokknum. Frjálslyndir hafa tekið upp iðju termítanna og eru búnir að tortíma flokknum. Farið hefur fé betra. Ég hef heldur ekki mikla trú á nýjum framboðum. Þau eiga að sjálfsögðu fullan rétt á sér en ég held að uppskeran verði rýr. Þó ekki skipti meginmáli hvort SF eða VG hafi forystuhlutverkið í nýrri stjórn tel ég þó miklu eðlilegra að VG fengi það, verði niðurstöður kosninganna svipaðar og í könnuninni. SF stæði í stað en fjöldi þingmanna VG færi úr 9 í 17. Það yrði einn stærsti sigur stjórnmálaflokks á lýðveldistímanum.

Hér ríkir ró og friður. Vellíðan íbúanna í Ástjörn 7, 205 er mikil. Annar sefur í dyngju sinni og dreymir um veiðilendur. Hinn með fullri rænu við tölvu sína og hugsar líka um veiðilendur. Góan er enn köld en það eru bara 2 vikur í jafndægri á vori. Ég hef á tilfinningunni að apríl verði góður mánuður. Tangavatn með Magga og kannski verður sjóbirtingurinn snemma á ferðinni eins og stundum í gamla daga. Óskir um indælan dag til ykkar allra, ykkar Hösmagi.

Wednesday, March 04, 2009

 

Tár gíraffans.

Þegar gott fólk er farið að kvarta undan bloggleti verður að bæta úr. Eftir að hafa lokið við Þráinn Bertelsson, Sjón, Þórberg og herra Pip tók Alexander McCall Smith við. Búinn með kvenspæjarastofu nr. 1 og kominn á leið með tár gíraffans. Þessi höfundur er góður og þýðandinn er undirrituðum ákaflega kær. Kærari en nokkurntíma fyrr af alveg sérstökum ástæðum. Fyrir þá sem ekki þekkja til skal upplýst að þýðandinn er heitkona skáldsins míns. Ég hugsa til þeirra í dag. Þessi höfundur á allt það lof skilið sem hlaðið hefur verið á hann. Það er mikið tilhlökkunarefni að leggjast í flet sitt þegar kvölda tekur og njóta þessa yndislega lesturs. Einkadóttirin lánaði mér allar 7 bækurnar svo bókasafnið fær frí frá mér í bili. Nú er ég aðeins byrjaður á framtölunum og brátt fer fólk að taka við sér. Líðan okkar fósturfeðga er alveg geysilega góð í dag. Sá yngri horfir spekingslega út um gluggann. Ingólfsfjall að mestu grátt. Gjóla og lítilsháttar frost úti. Löngu orðið albjart og nú bíð ég eftir hlýjunni. Öll veiðileyfi sumarsins í húsi. Því miður fékk ég færri daga í Ölfusá en ég átti von á. Mikil ásókn í veiðileyfi þrátt fyrir kreppu.Menn reikna með góðri veiði og hugsa til sumarsins í fyrra. Þetta verður til þess að ég mun örugglega reyna fyrir mér í Kaldaðarnesi. Það er í rauninni afar einkennilegt að ég skuli aldrei hafa bleytt færi á þessum víðkunna veiðistað. Örstutt að fara og þarna eru einhver bestu sjóbirtingsmiðin á svæðinu. Sumir halda því fram að megnið af sjóbirtingnum sem gengur í Ölfusá fari ekki lengra. Sannarlega mun ég láta reyna á þetta í sumar og haust. Þegar Hösmagi hættir að hugsa um bakka ár og vatna verður hann orðinn ansi aumur. Þó aldurinn færist yfir og nú séu bara 2 ár og dagur í löggildinguna er ég sæll með tilveruna. Þrátt fyrir tekjufall skrimtir þetta allt saman og græna þruman verður a.m.k. enn um hríð í eigu Hösmaga ehf. Félagið varð 4urrra ára á sunnudaginn var. Nokkuð bratt og á framtíðina fyrir sér. Kaffið er uppdrukkið og Kimi hefur aftur dregið sig í dyngju sína. Við erum báðir alveg arfaslakir á sál og líkama. Ég hlakka til komandi daga með sól í sinni. Í einlægni, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online