Sunday, June 29, 2008

 

Hvíldartími.

Í laxveiðinni er alltaf svokallaður hvíldartími. Fyrst má veiða í 6 klukkutíma þ.e. frá 7-13 og svo frá 16-22. Þriggja tíma hvíld sem er bara ágætt. Ég átti veiðidag í gær. Sökum magapestar mætti ég nú ekki til veiða fyrr en rúmlega átta og fór heim um hálfeittleytið. En það er fleira fiskur en blessaður laxinn. Ég veiddi nokkuð vel í hvíldartímanum. Við Hörður bílameistari skutumst niður á Stokkseyri og hittum þar vin hans. Frá honum fórum við nokkuð vel brynjaðir fiskmeti. Í stað laxins lentu í frystikistunni lúða, ýsa, skötuselur og humar. Aldeilis ekkert slorfæði það. Gæti orðið fiskiveisla hér þegar helvítis pestin hefur látið undan síga. Ég yrði ekki undrandi þó Dýri yrði bara nokkuð ánægður með smá tilbreytingu. Nú er bara að vera duglegur í eldamennskunni. Þarf að grandskoða allt sem í kistunni er. Flokka og merkja. Það er skelfilegt að henda góðum mat. Svo er líka sagt að fiskát auki við gáfurnar. Það er líka alkunn staðreynd að það má grilla fisk ekki síður en blessað kjötmetið. Þessi vinur Harðar er í Cherokee liðinu. Hann má vart vatni halda þegar græna þruman er nálægt honum. Hann á sjálfur rauða þrumu af eldri gerð. Sennilega svona skitin 240 hestöfl. Hann langar mjög að fá að prófa þá grænu. Það stóð nú þannig á hjá honum í gær að það gat ekki gengið upp. En það verður bara síðar og ég veit hver launin verða. Meira af gáfumaukandi mat. Svona getur maður haft gott af að kynnast vini vinar síns.

Eftir að hafa sofnað uppúr klukkan átta í gærkvöldi var þess svo sem að vænta að ég vaknaði snemma. Ég reyndi að sofna aftur en gafst upp. Ég var sestur að kaffidrykkju um tvöleytið. Bardúsaði svona hitt og þetta og kisi fylgdist með hverri hreyfingu. Svaladyrnar hafa verið mikið opnar að undanförnu. Allt í einu sá ég skordýr á skriði eftir parketinu. Það var járnsmiður. Þá drep ég aldrei. Ég hélt bara áfram að kasta teningunum. En örlög þessa aumingja voru að sjálfsögðu ráðin. Kimi gerir engan greinarmun á skordýrum. Drepur allt sem kló á festir.

Hann er enn á norðan og fremur svalt. Kemur ekki mikið við mig því ég held dundi mínu áfram innandyra í dag. Kíki svo á veiðimenn síðdegis. Reyni að éta eitthvað sem vel fer í maga. Ráðskonubrauð og kryddsíld í gærkvöldi. Nokkuð gott saman. Líklega tilvalið að elda sér hafragraut. Prýðisfæða sem ég borða alltof sjaldan. Kveðjur frá okkur Rækó, ykkar Hösmagi.

Friday, June 27, 2008

 

Háfur, stöng, veiðitaska og vöðlur...

eru komin um borð í grænu þrumuna. Og stóll að auki. Enginn ánamaðkur í farteskinu.Steini tölvari kom hér aðeins við í gærkvöldi. Geðþekkur náungi sem býr í næstu blokk og er mér stundum innan handar þegar ég lendi í tölvuvandræðum. Starfar í Reykjavík en ekur á milli. Á miðvikudaginn kostaði ánamaðkurinn í höfuðborginni 300kr. stykkið Einhver fyrirhyggjusamur tínslumaður seldi 5.000 maðka á einu bretti. Sem sagt fyrir einaoghálfamilljón. Hjá sumum er engin kreppa. Ég saup eiginlega hveljur við að heyra þetta. Það eru greinilega fleiri bilaðir en ráðherrar ríkisstjónarinnar. Túpurnar og spænirnir verða að duga mér á morgun.
Þessar hugleiðingar minna mig á afmælisdag föður míns sæla, sem er í dag þann 27. Og ævintýrið á þessum degi fyrir 21 ári sem var 85 ára afmæli þess gamla. Þá átti ég engan ánamaðk en veiddi bara á Halta hanann. Ég hef minnst á þennan dag hér áður og ætla ekki að tíunda það hér aftur. Það eru breyttir tímar í veiðinni eins og svo mörgu öðru. Stóri Sogslaxinn horfinn og ég efast um að hann komi aftur. Í morgun voru 6 laxar komnir á land. Kannski bætist eitthvað við í dag. Þetta er ekkert verri byrjun en flest undanfarin ár. Það er spáð heldur svalara veðri á morgun en í dag. Samt sól og blíða áfram.Áin tær og falleg en fremur lítið vatn. Þegar væntingar eru ekki miklar verður ánægjan því meiri ef manni tekst að krækja í fisk.

Það eru eiginlega hálfgerðir hrellingardagar fyrir Dýra nú um stundir. Það standa yfir viðgerðir á blokkinni. Hvæs, hviss og sarg. Fyrst voru það háþrýstimenn með sprautur sínar og svo komu múrsargararnir í kjölfarið með meitla, hamra og smergel. Skotið góða í þvottahúsinu komið í góðar þarfir. Sargarar sennilega hættir í dag og Kimi þrífur loppur sínar hér í glugganum. Bestu kveðjur frá okkur báðum. Ykkar Hösmagi.

Monday, June 23, 2008

 

Ölfusá.

Ég kíkti í veiðihúsið uppúr kl.4 í dag. Enginn var að veiða þar. Nokkuð bjart en talsverð vestangola. Samkvæmt veiðibókinni hefur veiðst 1 lax. Dagsetningu vantaði en ég geri ráð fyrir að hann hafi veiðst á laugardaginn því veiðimaðurinn, Jómbi, er í stjórninni. Nokkuð þekkt veiðikló og túpumaður. Laxinn var 6 kg. á þyngd og veiddur á Grýlu. Á miðsvæðinu stóð einn maður að verki. Ég er svona hæfilega bjartsýnn fyrir laugardaginn næsta. Byrjaður að safna nýjum kröftum. Enginn fótbolti í kvöld svo það verða bara rólegheit hér heima hjá okkur Kimi. Læt duga að sinni, ykkar Hösmagi.

Friday, June 20, 2008

 

Veiðitöfrar.

Eftir rúman klukkutíma munu margir veiðimenn kasta agni í Veiðivötn. Þessa paradís sem ég hef lofað svo lengi á þessu bloggi. Í gamla daga var ég þarna um Jónsmessuleytið. Með tvo afkomendur mína með mér. Sölva og Sigga Þráinn.Eitt árið er mér sérstaklega minnisstætt. Það var ár hvíta víkingsins, timburmannanna, og allra hinna sem ég hef gleymt hvað við nefndum. Smáfrost og fjúk þann 24. Morgundagurinn miklu betri og við rótuðum honum upp í Litlasjó. Nú bíða Veiðivötn um stund. Hlakka þó enn til að keppa við vin minn, Himbrimann, þegar þar að kemur.

Ölfusá verður opnuð á morgun með hefðbundnum hætti. Oftast verið þar klukkan 7 og spjallað við vini og kunningja. Bæjarstjóranum forna, Karli Björnssyni, tókst stundum að ná urriðatitti í land.Ef fólk hefur veitt slíka fiska undanfarin ár hafa þeir verið nefndir bæjarstjórar.Í fyrra var það bæjarstjórinn Ragnheiður sem byrjaði.Eftir því sem ég man best fékk hún ekki einu sinni bæjarstjóra. Ég ætla ekki að vera á bökkum minnar kæru ár í fyrramálið. Ég efast ekki um að riddarinn sjónumhryggi verði þar mættur. Forsetinn mikli. Það er sannarlega fullgild ástæða fyrir fjarveru. Með bestu kveðju frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Wednesday, June 18, 2008

 

Hitamælir.

Ég held að ég hafi stundum hér á bloggi talað um að eitthvað sé mín hálfa sál. Kær hlutur, kona eða barn. Jón Jónsson jarðfræðingur og fyrrum útkastari á börum í Svíþjóð orðaði þetta svona við mig þegar hann sendi mig í drulludýki fyrir norðan fyrir margt löngu.Með hitamæli til að mæla hitann í drullunni. Ég yrði að fara vel með hann því þetta væri sín hálfa sál. Margt getur orðið manni kært. En í augnablikinu á ég mér ekki hálfa sál þó ýmsiegt sé mér kært enn. Kannski á ég eftir að blogga einhverntíma síðar. Sæl að sinni og megi gæfan vera með ykkur, ykkar Hösmagi með Raikonen í gluganum.

Tuesday, June 17, 2008

 

Djöfulsins morðingja hyski.

Undanfarna daga hefur umhverfisráðherra, frú Þórunn,látið drepa 2 ísbirni. Borið við andans þvælu um að ekki hafi verið um annað að gera. Það var lítið mál að deyfa þessi dýr og örstutt að skutla þeim til Grænlands.

Saturday, June 14, 2008

 

Enn af ryksugum...

eða ryksuguskröttum einsog Magnús minn orðaði þessi bölvuð drápstæki.Held að það sé betra að liggja bara í drullunni en að eiga svona heimilistæki. Sem sitja fyrir manni og ráðast að manni gjörsamlega tilefnislaust þegar maður ætlar sér að taka aðeins til á heimilinu.Eftir heimsókn Harðar í fyrrakvöld kom í ljós að það var stífla í rörinu og vel hægt að nota þessa haugsugu. Stífla í rörinu rekin úr með venjulegum tommustokk. Hörður hvarf svo á braut eftir hjálparstörf að venju. Auk góðs spjalls um bíla, vissa karaktera og ýmislegt annað. Ég slappaði af yfir fótbolta, frétum og öðru. Gekk svo til náða einhverntíma síðla kvölds. Og flækti mig í drullumaskínunni. Sprunginn augabrún vinstramegin, stór kúla hægra megin. Mjöðm blá fremur venju og þykkildi á vinstra handlegg. Gæti verið glerbrot. Ég sá ekki ástæðu til að hringja á neyðarlínuna út af þessum skrokkskjóðum.Hef lifað annað eins af. Og á það öruglega eftir núna. Núna ætla ég að setjst út á svalir og reyna að njóta góða veðurins sem stundum hefurverið mér kærar en nú. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi

Saturday, June 07, 2008

 

Fram úr rúminu öfugu megin.

Það hendir nú besta fólk. Enda ekki skrýtið efir að hafa verið á leið í leikhúsið með Condólísu ræs. Ekkert bílastæði við þjóðleikhúsið. Einungis pláss fyrir eitt reiðhjól við borgarleikhúsið. Lítið gagn í því. Ég hef nú ekki mikið álit á utanríkisráðherra bandaríkjamanna.Skvísa samt sem áður. Er það sem mér sýnist að hún sé hölt? Mér leið þó ekki illa í þessum furðulegu draumförum. Stundum dreymir mann eitthvað óskemmtilegt.Mér leið ekkert sérstaklega vel eftir draum á Mallorka 1981 þegar ég hafði étið aðra löppina af skáldinu mínu. Hef sagt frá því áður hér og læt duga. Vona sannarlega að Sölva mínum sé ekki illt í löppinni núna. Áður en ég lagði mig og dreymdi dökka mær gekk ég frá opnum og lokuðum gluggum. Að venju. Eftir draumana vaknaði gamall maður á besta aldri. Allt eins og það átti að vera, nema Raikonen vantaði. Sértakt dýr þessi afmán minnar sældar.Enginn köttur á svöluunum. Ekki í kærakoti í þvottahúsinu. Ég opnaði norðurgluggann. Kimi beið og var snöggur inn. Stórt handklæði til taks.Ekki þurrt þráð á Dýra. Hann lét sér, aldrei þessu vant sér ákaflega vel líka meðan ég þurkkaði feldinn góða. Kúrir nú í horninu sínu góða. Undirstaðan teppið frá Helgu og skáldi sem nú eru víðs fjarri.Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Friday, June 06, 2008

 

Barátta.

Cervantes lét sína áhrifamestu persónu berjast við vindmyllur. Flest bókmenntafólk kannast við söguna. Hrossið góða og riddarann sjónumhrygga á þeysireið. Mér er svona álíka farið í dag. Stórbarátta við ryksugur. Litla ryksugan sem ég stærði mig að hafa fengið fyrir lítið fé hérna um árið pokalaus. Sú eldgamla systir Nilfisk ónýt útí bílskúr. Ég er bara stórastopp yfir þessum ósköpum. Fór í allar ryksuguverslanir í dag og keypti poka. Enginn passaði svo næsta vers var að skera hæfileg op. Og sníða. Árangurinn bara andskoti og djöfull. Ég ætla að henda þessu drasli í fyrramálið. Vanda valið við kaup á nýrri ruslasugu.
Ég er búinn að hirða mörg glerbrot í burtu úr íverustað okkar Raikonens í dag. Í fyrramálið ætla ég að kaupa mér nýja ryksugu. Ef veðrið helst svona gott hleð ég mínum fátæklegu húsgögnum út á svalir og reyni með hjálp nýju ryksugannar að losna við brotið gler að sinni.

Nú eru happatölurnar á sama rólinu. Þ.e.a.s X-1313 og X-13. Gamli Lancer, rann í gegnum skoðun í dag. Gamall og góður vagn.
Sumir pistlar mínir að undanförnu hafa verið lengri. Margt er breytt en Siggi Sveins, Hösmagi, ætlar að halda ró sinni. Róin er inni. Langt síðan ég hef fengið rós.Í hnappagatið. Bestu kveðjur frá mér til allra verðugra,einkum sumra, ykkar Hösmagi.

Wednesday, June 04, 2008

 

Sól og 16,4 gráður.

Það er nú ekki bráðskemmandi veður. Kári hefur fyllst galsa í þessu veðri og hert verulega á sér. Raikonen er illa við rokið og ég held að hann sé að verða gróinn við baðvaskinn.Þó finnst mér sérkennilegt að sitja heima á þessum tíma dags. Vaninn er sterkur og stjórnar mörgu. Ég hef lokið störfum á fasteignasölunni Bakka eftir að hafa starfað þar í sexoghálft ár. Ekkert við því að segja því samdráttur hefur verið mikill og ekki bættu atburðir síðustu viku stöðuna. Ég hef verið að endurmeta ýmislegt s.l. 2 sólarhringa. Það er það fyrsta sem gera þarf þegar breytingar verða í lífi og starfi.Ég gerði þetta líka þegar ég notaði jarðarfararpeningana í fyrrahust til að kaupa nýjan flatskjá. Það gengur nokkuð vel og rólyndið er til staðar enn. Ég hef talað við nokkuð marga undanfarna daga. Heimsótt skrifstofur verkalýðsfélaga, vinnumiðlunar og í dag kom ég við í Tryggvaskála. Þessu gamla og nýja húsi. Þar eru bæði sjálfboðaliðar og launað starfólk til húsa nú um stundir. Þetta hefur allt verið mjög ánægjulegt og létt mér óvissuna sem framundan er. Ekkert hefur þó sannað mér meira þessa daga hversu mikilvægt það er sem ég hef svo margsagt hér á þessu bloggi að orð skuldi standa. Sumir hugsa lítið um slíka hluti en aðrir meira. Við litli stóri vinur í baðvaskinum sendum vinum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Sunday, June 01, 2008

 

Júní.

Enn nýr mánuður hafinn. Minn uppáhaldsárstími. Birtan ræður ríkjum. Ég fer örugglega uppí Grímsnes í dag. Á skikann minn sem kúrir undir Búrfellinu. Eins og efnahagsástandið er núna reikna ég nú tæplega með miklum framkvæmdum þar í sumar. En landið hleypur ekki í burtu. Jólagjöfinni frá skáldinu og haldreipi þess mun verða plantað þar í júlí. Það er tilhlökkunarefni. Ég hitti seljandann í síðustu viku og hann lofaði að ljúka við ræsisgerðina sem nauðsynleg er þegar til stórframkvæmda kemur. Ég vaknaði klukkan 6 í morgun. Fremur svalt og ég sá að hitinn hafði farið niður í 2,3 gráður. Enda fór ég í ullarpeysu áður en ég fór út að líta eftir sauðum mínum. Ró yfir bænum. Eftirskjálftarnir eru aðallega í Ölfusinu. Einhvernveginn var gærdagurinn mér afar erfiður.Erfitt að lýsa því. Og kannski ástæðulaust líka. Stundum finnst manni allt ómögulegt þó í raun sé ekkert að. Ég hengdi allar myndirnar mínar upp aftur í gærkvöldi. Raðaði í skápinn sem allt hrundi úr í síðustu viku. Það hjálpaði nokkuð. Þetta ætti bara ekki að vera svona. Ég var heppinn í þessum ósköpum. Við kisi báðir heilir á hófi og tjón mitt smámunir einir. Ég kannast við þetta sálarástand úr fortíðinni. Þá voru augljósar ástæður fyrir því sem ekki eru fyrir hendi nú. Stundum virðist maður alltíeinu verða meyr.Án nokkurrar ástæðu. Einhverntíma ræddi ég hér um hið ljúfsára. Það sem ég kalla ljúft og sárt í senn.Vissa gleði en mikla þjáningu og vanlíðan samtímis. Kannski eru þetta dulin eftirköst atburða síðustu viku. Ég vinn mig frá þessu. Enginn efi í mínum huga í þeim efnum. Enda hef ég alltaf verið bjartsýnismaður og tel það hafa bjargað mér margsinnis. Ekkert er fólki mikilvægara en andlegur styrkur ef eitthvað fer úrskeiðis. Það hef ég sannreynt um mína daga. Ég held að ég hafi fengið rólyndi og jafnlyndi í vöggugjöf. Verð sjaldan reiður og finnst hræðilegt að upplifa það. Það er undarlegt að vera að tala um þetta hér og nú. Svona opinbera dagbók um einkalífið og tilfinningar sem eru að brjótast um í sálartetrinu. Ég ætla samt að þrykkja pistlinum út.
Raikonen situr nú hér í glugganum og horfir til Ingólfsfjalls. Spekingslegur á svip en jarðfræðiþekking í lágmarki. Þrífur löpp sína annað slagið aldeilis ómeðvitaður um hvað skelfdi hann svo mjög í vikunni. Ég ætla ekki að rugla hann í ríminu með því að taka hann með í Grímsnesið, sem þó hefði verið skemmtilegt. Hann verður bara í sínu daglega starfi sem húsvörður á meðan. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online