Saturday, May 31, 2008

 

Gler.

Fyrir margt löngu vann ég við glerskurð. Þá var ég innan við tvítugt og starfaði sem sumarmaður hjá kaupfélaginu. Þetta var skemmtilegt starf en varasamt. Aðallega var ég að skera gler í glugga hjá sunnlenskum bændum. Glerið kom í stórum skífum og umbúðirnar úr tré.Hálmur á milli skífa. Glerið var að mestu 4 mm á þykkt. Einnig 3ja og 5 mm. Þynnsta glerið var langhættulegast. Ekki man ég nákvæmlega stærðina á skífunum en líkleg tala er 200x160 cm. Maður opnaði kistuna, tók fyrstu skífu fangbrögðum og lagði hana á borð. Svo var mælt og skorið með glerskera. Mér er ákaflega minnisstætt þegar ég var eitt sinn á leið með 3ja mm skífu á glerskurðarborðið.Á miðri leið heyrði ég brest og heilinn var fljótur að bregðast við. Ég sleppti skífunni og snöggsnéri mér við. Það varð hvellur. Svo var bara að moka mylsnunni upp og taka næstu skífu. Þetta var nú í gömlum bragga með steingólfi og ég sæmilega skóaður. Sennilega datt mér þetta í hug núna vegna alls glersins sem brotnaði hér á suðurlandi í fyrradag. Fátt er andstyggilegra en brotið gler á gólfum heimilis. Slysahætta veruleg við að ná því upp. Ég veit að það mun takast. Ég mokaði við heimkomu á fimmtudag. Töluvert bættist við í gær. Enn var ég að finna flísar í morgun. Og það verður áframhald. Við Kimi erum þó ósárir enn.Þetta eru þó smámunir hjá mér miðað við mörg önnur heimili. Það brotnaði nánast allt sem brotnað gat heima hjá Herði vini mínum bílameistara. Og sumt er erfitt að bæta. T.d. brotnaði heilt matarstell sem Silla konan hans átti úr eigu langömmu sinnar. Svona spes og spari. Afarerfitt að bæta slíkt. Dagurinn í fyrradag mun seint líða okkur Selfyssingum úr minni. Sama gildir um allt Árborgarsvæðið, Þorlákshöfn, Hveragerði og sveitirnar allar hér í kring. En þrátt fyrir allt eru ljósir punktar með. Það er í raun með ólíkindum að enginn skuli hafa beðið bana. Og engin veruleg slys heldur. Fjártjón má bæta að einhverju leyti en enginn verður vakinn upp eftir að öndin er úr nösinni.

Það er nú nokkuð um liðið síðan ég minntist á bæjarstjórnina okkar. Og forsetann. Snillinginn og kraftaverkamanninn sjálfan. Ég hafði það nú í flimtingum hér stundum að hann myndi stjórna veðri og vindum, vatnshæð Ölfusár og sólinni sjálfri. Ég ætla samt ekki að kenna honum um jarðskjálftann á fimmtudaginn. En það er stór spurning hvort þessar hamfarir kenni honum eitthvað. Ég hef enga trú á því. Það stendur enn til að nauðga nýja miðbæjarskipulaginu í framkvæmd. Turnspíra uppá 11 hæðir nánast ofan á misgenginu. Ég var nú við vinnu mína í hinu fornfræga húsi Sigtúnum þegar djöfulgangurinn byrjaði. Ég get sagt ykkur það í einlægni að ég hefði ekki viljað vera í turnspíru yfirfábjánans þennan dag. Eins og allir sem þekkja mig vita hef ég aldrei elskað íhaldið sérstaklega heitt. En í meirihlutanum, sem enn ber hausnum við steininn er enginn íhaldsmaður. Hann stendur og fellur með fulltrúa VG. Snillingnum áðurnefnda. Ég vona bara að við Selfyssingar og aðrir Árborgarar losnum að lokum úr álögum. Fáum almennilega bæjarstjórn og getum borið höfuðið hátt. Setjum skynsemina í öndvegi en köstum fávitahættinum á haugana.

Við Kimi erum hér báðir í rólegheitum. Hann hefur náð sér að fullu eftir áfallið. Sefur reyndar hér í horninu fyrir aftan mig á teppinu góða frá Sölva og Helgu. Ég sendi öllu góðu fólki góðar óskir og sumarkveðjur. Sérstaklega þakka ég börnunum mínum þremur sem öll hringdu í mig í fyrradag. Tvö buðu mér gistingu. Nokkuð langt í það þriðja. Sólarglenna á fjallinu mínu góða. Nákvæmlega 4 vikur í fyrsta laxveiðidaginn. Og þá verða bara nokkrir dagar í skáldið og Helgu. Ykkar Hösmagi.

Tuesday, May 27, 2008

 

Sirkus Geira Smart.

Mér datt þetta gamla dægurlag Stuðmanna í hug í gærkvöldi. Svokallaðar eldhúsdagsumræður í sjónvarpinu. Lét mig hafa það að fylgjast með þeim til enda.Það var eiginlega merkilegra að fylgjast með þeim sem ekki töluðu en hinum. Með nokkrum undantekningum. Ingibjörg Sólrún og Jóhanna helfrosnar í stólum sínum. Enda báðar með vonda samvisku. Björn Bjarnason virtist sofa með hönd undir kinn. Kannski hefur hann verið vakandi og verið að hugleiða persónunjósnirnar sem nú hafa endanlega verið upplýstar.Hann hefur reyndar engar áhyggjur af þeim og mun aldrei biðjast afsökunar á þeim sem dómsmálaráðherra. Svo eru það líka grimmir hundar, mase og taser sem þarf að spá í. Óvinir allstaðar á fleti fyrir. Sirkusstjórinn sjálfur var enn við sama heygarðshornið. Gerir sér enga grein fyrir hinni raunverulegu stöðu í efnahagsmálum. Hann finnur á sér að verðbólgan muni detta niður rétt strax. Hér eru allir jafnir og ríkisstjórnin búin að efna 80% kosningaloforðanna. Össur var drjúgur með sig að vanda. Fagra Ísland t.d. orðið að veruleika. Hann minntist hvorki á Helguvík eða Bakka. Ekkert nema kjafturinn eins og venjulega.Hinir ræðumenn SF voru reyndar engu skárri. Steinunn Valdís bara ánægð með árangurinn. Allavega hrifnari en Kristín Guðmundsdóttir formaður sjúkraliðafélagsins. Einar Már fór geyst um menntamál og samgöngumál. Stærði sig m.a. af tvöföldun suðurlandsvegar. Held að það hefði mátt bíða aðeins. Keflavíkurvegurinn enn hálfköruð slysagildra. Ég ætla samt að hrósa Guðfinnu Bjarnadóttur. Hún talaði alveg tæpitungulaust. Það á að einkavæða bæði mennta og heilbrigðiskerfið. Ég er ekki viss um að sirkusstjórinn hafi verið ánægður með þessa játningu. Ræðumenn stjórnarandstöðunnar úr öllum flokkum bentu á fjölmörg ágreiningsefni innan stjórnarflokkanna. Hrefnuveiðar, ESB og margt fleira.Yfirlýsing Ingibjargar um hrefnuveiðarnar er bara skrípaleikur vegna ótta um að styggja einhverja sem hugsanlega myndu kjósa okkur í öryggisráðið. Og stjórnin er að falla á tíma með að svara SÞ vegna kvótakerfisins. Ég talaði nú yfirleitt ekki fallega um síðustu ríkisstjórn. Þessi er þó engu skárri. Og það sem verra er er að nákvæmlega ekkert var að marka málflutning og loforð SF fyrir síðustu kosningar. Allar fullyrðingar mínar fyrir kosningarnar hafa reynst réttmætar.
Klukkan er nú hálfsex að morgni. Við Raikonen vökum. Það bærist ekki hár á höfði og nú eru hvítu dílarnir í fjallinu bara 2. Ég ætlaði að sofa miklu lengur. Einhver fjandans stingur í hægri síðunni rak mig á lappir. Hann hverfur vonandi í dag enda held ég að hann tengist kvefskratta sem hefur verið að hrjá mig. Við Kimi sendum vinum og vandamönnum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, May 26, 2008

 

Dauðsmannsgröf.

Hér á vinnustað er eins og í dauðsmannsgröf þessa stundina. Enginn kemur og síminn þegir. Það er ekki mitt uppáhaldsástand.Veðrið er þó þokkalegt, hitinn um 11 gráður en sólarlaust. Reyndar myndi ég vel sætta mig við lægra hitastig ef verðbólgan lækkaði að sama marki. Hún hefur ekki verið hærri síðan 1990. Og ríkisstjórnin virðist ekki hafa miklar áhyggjur af ástandinu. Geiri smart nýbúinn að lýsa því yfir að við verðum að leggja íbúðalánasjóð niður í núverandi mynd. Vitnar í einhverja reglu frá ESA sem aðrir segja alls ekki vera til. Eins og er er ríkisábyrgð á íbúðarlánasjóði. Það er alveg voðalegt í augum Geirs. Engin stofnun í landinu hefur þó staðið sig betur í aðstoð í húsnæðismálum. Og fyrir stuttu lýsti Ingibjörg Sólrún því yfir að einkavæddu bankarnir þyrftu ekki að hafa áhyggjur þó þeir lentu í fjárhagsvanda í pókernum. Þá kæmi ríkið þeim til hjálpar. Ekki beinlínis mikið samræmi í svona málflutningi. Bankarnir hafa reynt með öllum tiltækum ráðum að drepa íbúðalánasjóð.Sem betur fer hafa þeir ekki enn haft erindi sem erfiði. Það er að mínu mati geysilega mikilvægt að sjóðurinn fái að starfa áfram á sömu forsendum og áður. Ég hugsa að hver einasti fasteignasali á landinu sé mér sammála í þeim efnum. Jóhanna lofar að standa vörð um sjóðinn. Vonandi getur hún það og gerir. Ég hef samt miklar efasemdir um það. Einkavæðingaræðið og gjafastefnan hefur yfirhöndina enn. Ráðherrar stjórnarinnar blaðra bara út og suður eftir því hvernig vindurinn blæs.Meira um þessi mál síðar. Við Raikonen, hinn dyggi húsvörður, sendum vinum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Saturday, May 24, 2008

 

Laugardagur.

Nú sé ég bara 3 hvíta díla í Ingólfsfjalli. Þeir verða sennilega horfnir um mánaðamótin. Veðrið er ágætt þó trén bærist aðeins. Það er spáð miklum hlýindum á Austurlandi í næstu viku. Allt að 26 gráðum. Þetta mun vera loft ættað frá Karabíska hafinu. Meinið við þetta er að við sunnlendingar verðum alveg af þessu og verðum í 8-10 gráðum.Svona er gæðunum stundum misskipt. Það eru rólegheit yfir okkur Raikonen. Ég sit hér við tölvuna og hann við opinn gluggann. Nokkuð brattur en líklega beygur í honum að demba sér út eftir atburði gærdagsins. Heltin að hverfa eftir hælbítinn. Kannski gæti ég vanið hann á að fara með mér í göngutúra eins við Hösmagi stunduðum töluvert þegar við bjuggum í Sænska húsinu forðum daga. Held þó að það verði erfitt.Hösmagi var algjörlega spes að þessu leyti enda urðu margir undrandi að sjá þennan alsvarta kött á skemmtigöngu með eiganda sínum. Kettir hafa hver sinn karakter líkt og við mannfólkið. Raikonen er um margt sérkennilegur. Ljúfur og hændur að fóstra sínum. Það er helst pappírsnagið sem ég verð að passa uppá. En hreinlætið er mikið og ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Nóg um ketti að sinni. Ég þarf að sýna hús núna um hádegisbilið. Maður leggur það á sig á frídegi vegna ördeyðunnar á markaðnum. Aldrei þessu vant er ég ekki búinn að hella uppá og kominn tími á það. Solla og Geiri verða að bíða enn um sinn. Bestu kveðjur frá okkur rauðliðum, ykkar Hösmagi.

Friday, May 23, 2008

 

Hælbítur.

Ófétið sem ég sagði frá í vetur hjó aftur í sama knérunn í morgun. Kannski hefur hann verið óvenju illskeyttur vegna ársafmælis ríkisstjórnarinnar. Um 8 leytið hleypti ég mínum friðsama ketti út í góða veðrið. Svona í smáviðrun og rannsóknir. Það leið ekki á löngu þegar ég heyrði skaðræðisvein. Rauk út á svalaganginn en sá ekkert athugavert. Enda heyrðist mér veinið koma sunnan frá. Og stuttu síðar kemur mitt kæra heimilsdýr inn um gluggann aftur. Draghaltur eftir hælbítinn. Þessi kattarafmán er að verða hrein plága á svæðinu kringum Ástjörnina. Það er hart að geta ekki haft þá glugga opna sem maður kærir sig um. Þessi sérdelis ódannaði þrjótur er sínálægur, stelur mat og áreytir Dýra minn. Ég er nú rólyndisnáungi svona yfirleitt en nú er farið að síga í mig. Verð að upphugsa einhver ráð til að handsama þetta ofbeldisketti svo við Dýri getum um frjálst höfuð strokið. Kannski er hann með örmerki og þá er hægt að finna eigandann. Nú er svalaglugginn einn opinn og Dýri kúrir í kassanum með teppinu mjúka. Þetta er nú helst í fréttum í dag.Það væri kannski ekki úr vegi að segja nokkur vel valin orð um stjórnarherrana á þessum degi, en ég hef ekki geð í mér til þess. En það kemur örugglega að því. Bestu kveðjur að sinni, ykkar Hösmagi.

Wednesday, May 21, 2008

 

Blíða.

Hér er nú blíða á íslenskan mælikvarða. Logn en sólarlítið og hitinn í 12 gráðum. Líklega ekta gott veiðiveður þó ég fari nú ekki í veiði í dag.Það væri þó alveg hægt því hér er með eindæmum rólegt. Mér skilst að margar fasteignasölur á höfuðborgarsvæðinu séu að leggja upp laupana. Erfitt að halda úti dýru batteri ef ekkert kemur í kassann.Undirritaður hefur nú verið nokkuð lengi í þessum bransa og man nú ekki eftir svona tímabili áður. En lífið er nú allt ein bylgjuhreyfing svo það þýðir ekki að vola. Svo er Geiri farinn að tala útí annað en Solla út í hitt. Það sem mest vantar nú er stjórn sem situr ekki auðum höndum og horfir bara í gaupnir sér. En líklega er lítil von um kraftaverk frá þessu fólki. Og svo má heldur ekki gleyma riddaranum í musterinu. Það skyldi þó ekki vera að hann hækkaði stýrivexina enn á morgun. Kreddan blífur. Með bestu kveðju frá okkur Raikonen. Ykkar Hösmagi.

Thursday, May 08, 2008

 

Detta úr lofti....

dropar stórir, dimmt er yfir sveitinni. Tvisvar sinnum tveir eru fjórir, taktu í hornið á geitinni. Þessi gamli húsgangur á ágætlega við núna. Nokkuð vætusamt á þessum indæla morgni. Svo sem allt í lagi því, græna litnum vex ásmegin við vætuna.Þriggja daga frí framundan. Nægur tími til að hugsa um lífið og tilveruna. Sem er gott og nauðsynlegt annað slagið. Læt veður ráða gerðum mínum. Það þarf að halda í horfinu. Tiltekir eru ekki leiðinlegar þegar maður hefur manað sjálfan sig í þær. Enn nokkur pappírsvinna eftir og svo er alltaf hægt að bregða undir sig betri fætinum. Græna þruman hefur fengið að dorma í bílskúrnum alla vikuna. Bensínið komið í 150 kall með afslættinum. Lancerinn gengur eins og klukka og er hentugur í snattið hér á milli húsa. Hann er þó ekki til stórræðanna inná hálendið. Meðstjórnandinn þarf ekki að hafa áhyggjur af farkosti til hálendisferðar í byrjun ágúst. Þau eru nú heldur fátækleg stjórnarlaunin hvort eð er.
Það er fleirum en mér sem blöskrar sjálfumgleði SF ráðherranna í ríkisstjórninni.Einn toppkrata landsins hefur upplýst að það var meira gert fyrir gamla fólkið og öryrkjanna árið 2006 en nú. Goðsögnin um silfurskottuna í stóli félagsmálaráðherra er bara þvæla. Ekki monta ég mig af að hafa veitt alla fiskana sem ég ætla að veiða á næstu árum. Óunnin afrek eru varla til þess fallin að stæra sig af þeim. Mikið ofsalega verður gaman þegar við losnum við þessa ríkisstjórn og höfum gert hreint í svarta musterinu við Arnarhól. Losað okkur við allt þetta úrsérgengna lið og fylkt liði um betri tíma. Fólkið, sem sífellt laumast í vasa okkar eftir meiri fjármunum í pókerinn. Sama fólkið og hefur tryggt sér margfalt betri eftirlaun en við hin. Þó ég hafi nú sagt mig úr þjóðkirkjunni detta mér í hug orð meistarans um um þá sem höfðu gert musterið að ræningjabæli. Það kann ekki góðri lukku að stríða þegar ferðalög og stríðsleikir eru ær og kýr stjórnarherranna. Kannski vitkast þeir og byrja að hugsa. Ég efast samt mjög um það.Við Kimi eðalköttur sendum ykkur bestu kveðjur. Nema Jóni Hjartarsyni. Ykkar Hösmagi.

Wednesday, May 07, 2008

 

Vornótt.

Blæjalogn hér árla morguns. Ég fór í mjög langan göngutúr og naut kyrrðarinnar. Hitastigið er að vísu ekki nema 6,5 gráður. En lognið og vorbirtan ræður ríkjum. Hlé á úrkomunni í bili. Vætusamir dagar framundan en spáð verulegum hlýindum í næstu viku. Hvítasunnuhelgi að nálgast. Mér dettur í hug að skunda á Þingvöll á laugardag ef veður verður skaplegt. Herconinn fær að hvíla sig. Ég sannreyndi það í fyrra með skáldinu mínu í Frostastaðavatni að það er skemmtilegt að veiða smábleikju á flugu. Murtan er líka lostæti heilsteikt á pönnu. Það er heldur ekki langt í ósa Ölfusár. Nokkur ár síðan ég hef reynt fyrir mér þar. Sjóbirtingurinn er á dóli inn og út ósinn. Best er veiða á liggjandanum eða á byrjuðu útfalli. Nálægt síðustu aldamótum setti ég í 80 sjóbirtinga á rúmum klukkutíma á þessum slóðum. Fiskurinn tók mjög grannt en ég hafði þó að landa 17 stykkjum. Ég fór aftur á háflóði eftir miðnætti og bætti þónokkrum við. Hunterinn réði ríkjum og drápseðlið fékk að njóta sín. Það er þó sportveiðimaðurinn sem yfirleitt hefur völdin. Gleðst yfir litlu og getur alveg komið sáttur heim þó aflinn sé lítill. Ég hef sagt það hér einhverntíma áður að ég hef komið fisklaus en alsæll úr Veiðivötnum. Ég er viss um að línur okkar feðga og langfeðga eiga eftir að strengjast í Veiðivötnum í sumar. Ég fer bráðum að telja niður. Hlakka til að heilsa uppá Himbrimann á Ónefndavatni. Keppinautinn, sem samt er gott að hafa einhversstaðar nálægt. Í huganum heyri ég þessa fallegu fugla kallast á. Þeir eru hluti dásemdanna á þessu töfrum fyllta svæði. Sá sem ekki hefur komið í Veiðivötn á heilmikið eftir. Ég var kominn undir fertugt þegar ég leit þetta landsvæði augum í fyrsta sinn. Það var mikil upplifun að koma í þessa vin í eyðimörkinni. Svartir sandar og grjót svo langt sem augað eygði en skyndilega ertu kominn í græna hvönn og fjöllin speglast í vötnunum. Undanfarin ár hef ég skotist inneftir í júní. Stangarlaus. Heilsað upp á Vötnin, Bryndísi og Rúnar. Það verður ekki undantekning á því í ár. Aðeins rúmur mánuður í vertíðarbyrjun.

Nú er doktorsritgerðinni til skattmanns að ljúka. Aðeins 5 hausar eftir. Auk Hösmaga ehf. Undirritaður vonar að umsvifin í hinu daglega starfi fari að aukast aftur. Það er þó ekki ástæða til bjartsýni. M.a.s. húsnæðisráðherrann er uppí rjáfrinu eins og hinir.Jóhanna segir ekkert að. En hún lifir ekki á ímyndaðri fornri frægð. Nákvæmlega sama rassgatið undir henni og hinum. Sammála formanni sínum að greiða 100 millur fyrir vernd "loftrýmisins" í nokkrar vikur. Þegar Frakkarnir fara koma aðrir í þeirra stað.Fleiri hundruð milla handa þeim líka. Það er undarleg ríkisstjórn sem mokar mörg hundruð milljónum í stríðsleiki en kemur ekki með eina einustu tillögu um lausn á efnahagsvandanum. Kannski skiptir það mestu máli að eiginfjárstaða íslensku bankanna hefur stórbatnað síðan um áramót. Þeir græddu líka 42 milljarða á sama tíma.Ríksstjórnin millifærði þessa peninga beint til þeirra úr okkar vösum. Bara 189 þúsund frá undirrituðum núna í apríl.SF er jafnvel enn aumari en framsókn. Og þá er sannarlega langt til jafnað.

Við rauðliðar sendum vinum okkar bestu kveðjur úr blíðunni. Annar dormar í gamla stólnum með framloppu undir kinn. Hinn situr við tölvuna og nýtur tilhugsunar um komandi sumar um leið og hann hugsar ráðherrum landsins þegjandi þörfina. Ykkar Hösmagi.

Sunday, May 04, 2008

 

Helgarlok.

Ágæt helgi að kveðja. Við Kimi höfum nú aðallega gert lítið þessa daga nema að njóta samverunnar. Ég þurfti að sýna hús á Stokkseyri í gærmorgun. Þegar heim kom hringdi ég í Svein fiskibónda á Galtalæk. Hann tjáði mér að þar væri hið besta veður og nýlega hefði hann sleppt 100 urriðum í vatnið. Þetta var nóg fyrir mig. Fljótur austur á grænu þrumunni. En það var eins og vatnið væri líflaust. Ekki högg eða nart. Eftir u.þ.b. 3 klukkutíma var ég búinn að fá nóg. En, viti menn, allt í einu var tekið í og línur mínar strengdust. Gamli góði firðringurinn var endurvakinn. Fallegur urriði ca. 2 og hálft pund. Svo liðu 5 mínútur og þá gein annar við rækjunni. Rúmlega 3 pund. Þegar ekkert hafði gerst næsta klukkutímann ákvað gamli veiðirefurinn að halda heimleiðis. Vel sáttur eftir ágæta útiveru og með 2 fallega fiska. Sveinn bóndi taldi vatnið í kaldara lagi. Næturfrost þar eystra flestar nætur að undanförnu. Hann telur að urriðinn taki betur þegar hitastig vatnsins er komið í 10 gráður. Þetta var samt sem áður nokkuð góð byrjun á veiðisumrinu og Rækjunen gæddi sér á restinni af rækjunum. Laxinn í júnílok og Veiðivötnin í ágúst. Hvorttveggja leggst vel í mig.

Allt við það sama hjá landsfeðrum vorum. Og mæðrum. Algjörlega úti á þekju. Musterisriddararnir við sama heygarðshornið. Yfirnagarinn nagar og nagar. Hæstu stýrivextir í heimi sem einungis skrúfa upp verðbólguna.Vextirnir á láninu sem ég tók við kaupin á Jeep Grand hafa hækkað úr 6,5% í 10,2% eða um 56,9% Verðbólgan étur stóran kepp af eigninni í íbúðinni í hverjum mánuði. Nagarinn er fastur í gömlum hagfræðikreddum sem löngu eru úreltar eins og Ragnar Árnason prófessor benti á í gær. Nagarinn mikli heldur sínu striki. Og það versta er að ummæli Ragnars stappa bara stálinu í þenna Þvermóð. Það hefur aldrei mátt gagnrýna hann. Að eigin áliti óskeikull. Þetta fyrirbæri munum við þurfa að þola í nokkur ár enn. Enginn innan musterisins mun nokkurntíma þora að andæfa. Þeir munu verða okkur dýrir að lokum, draugurinn og hinn óskeikuli. Og lufsurnar í landstjórninni verða áfram út á þekju og hangandi uppí rjáfri. Það hrín ekkert á þeim. Það eru 6% aðspurðra ánægð með störf fjármálaráðherrans. En auðvitað er hann jafnánægður með eigið ágæti og Solla og Geiri.Kjósendur eru bara fífl til að hlæja að. Það vantar bara fiðluna svo allt sé fullkomið.

Það sést í rætur fjallsins undir þokuslæðunni. Ég brá mér upp Grafning í dag, yfir Sogið við Ýrufoss, og leit yfir landið góða. Það kúrir undir Búrfelli eins og það hefur gert lengi. Með þessa landsfeður er ólíklegt að kærleikskotið rísi á bráða næstunni. En Hösmagi er óbilandi bjartsýnismaður. Við skulum sjá hvað setur.Tölvan segir að þetta sé 5hundraðasti pistill Hösmaga frá því á jólum í Edinborg 2004.Kannski bara nóg komið. Við Táfeti sendum ykkur öllum bestu sumarkveðjur, ykkar Hösmagi.

Thursday, May 01, 2008

 

Rok.

Nú er hann enn á norðan eins og segir í gömlu kvæði.Hitinn kominn í 6 gráður og sól hátt á lofti. Ég er að vona að lægi. Tangavatn bíður eftir mér. En það er hundfúlt að strengja línur í hávaðaroki. Sé til fram að hádegi.Kimi nennir ekki einu sinni að vera úti í þessum gjóluskratta. En límkássan er klár. Sú er nú ekki aldeilis að fara á límingunum. Fimmkjamma suða í gærkvöldi, plokkun og pressun í plastbox. Svo er skorið í hæfilega skammta og það sem ekki er etið strax er geymt í frystinum til betri tíma. Ég ætla að kaupa meira. Ég sá um daginn KS svið á 299 kr. kg. Mín sviðasulta er því miklu ódýrari enn SS afurðin og auk þess bragðbetri. Ég viðraði mig snemma morguns. Ég var eins og vindþurkaður harðfiskur þegar heim kom. Þá var gott að bæta á sig kaffi, velta teningum í lófa og leggja sig aðeins aftur. Rólegt yfir mannlífinu enn og líklega væri ráð að leggja til atlögu við meiri pappír. Ég sé orðið fyrir enndann á þessari árlegu törn og það er gott.Hreint borð svo hægt sé að beita sér af alefli í útiveru og veiði.
Ekki veit ég hvað kom fyrir sauðinn sem nú skipar embætti heilbrigðisráðherra. Hann pakkaði saman og gafst upp í gærkvöldi. Þetta sýnir að ýmislegt er hægt ef samstaðan rofnar ekki. Skurðhjúkrunarfræðingarnir standa með pálmann í höndunum. Sannarlega óska ég þeim til hamingju með glæstan sigur. Þetta eru nær eingöngu konur. Ég hef persónulega reynslu af því að þær eru réttar konur á réttum stað. Hlýja í orðum og athöfnum er veiku fólki ákaflega mikils virði. Við skulum halda vörð um Lsp. og allt heilbrigðiskerfið. Það er tilræðismaður sem nú er heilbrigðisráðherra. Dýrkar einkavæðinguna eins og trúaður maður guð sinn. Hann hugsar þessum konum þegjandi þörfina og mun halda áfram á sömu braut. Sálufélagi Hannesar. Draumurinn er að afhenda einkaaðilum spítalana. Eftir það er vissara að eiga aura í veskinu ef eitthvað bjátar á. Leggjumst öll á eitt til að koma í veg fyrir þessi áform.

Ég held að Kári sé enn að herða á sér. Kannski er lygnara í Landssveitinni. Upplagt að ganga frá taumum núna og hringa svo í frúna á Galtalæk. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online