Monday, May 30, 2005

 

Svo sem lítið.

Dásemdarlogn. Síðasta maíbloggið. Svo kemur júní. Verð líklega að skrópa í brúðkaupi þann 25. Sveinn bróðursonur minn að ganga í hnapphelduna. En þetta er fyrsti laxveiðidagur minn í sumar. Fékk maðkatínsluleyfi hjá góðri vinkonu minni í gær. Sagt er að ánamaðkar séu próteinríkir og hin hollasta fæða. En hversvegna skyldu þeir vera kallaðir ánamaðkar? Kannski eru þeir bara svona miklir aular. En ég las í Roðskinnu að skýringin er allt önnur. Það var maður á árbakkanum að beita maðki. Þegar því var lokið kastaði hann út í ána og sagði um leið: Í ána, maðkur. Svona varð nú nafnið til. Einu sinni veiddi ég í 2 sumur í röð án þess að nota ánamaðk sem beitu. Gekk reyndar ágætlega. En það er þreytandi að kasta spún eða túpu allan daginn. Ég byrjaði því aftur með maðkinn. Og ég fann fljótt hvað það getur verið óhemjuskemmtilegt. Þegar maður verður var við að rjálað er við maðkinn fer hjartað að slá hraðar. Hvað skyldi djöfsi ætla sér? Er hann bara að stríða mér? Á ég að láta hann eiga sig? Eða á ég að rykkja í hann? Ég bíð yfirleitt rólegur og læt fiskinn um þetta. Og oftar en ekki rennir hann þessari próteinríku fæðu niður í maga. Og þar með hefur hann yfirleitt tapað orustunni. En það er eiginlega sama hvaða agn notað er. Ef hægt er að lokka laxinn á öngulinn er tilganginum náð. Dagarnir líða og fyrr en varir stend ég á árbakkanum fullur vongleði og eftirvæntingar. Sannarlega tilhlökkunarefni. Eða eins og gamli maðurinn orðaði það:

Meðan hamingjan ríkir og holdið rís
er heimurinn sannkölluð Paradís.

Hösmagi, hress sem ess.

Sunday, May 29, 2005

 

Eftirskrift.

Það vantaði aðeins á bloggið mitt í gær. Datt það svona allt í einu í hug. Lyfjabyrlarinn sagði að betra væri að kalla sig þjóðernishyggjukomma en Ólakomma. Og það er kannski alveg rétt. Það voru nefnilega til tvennskonar kommar í gamla daga. Alvöru kommar og gerfikommar. Óli kommi var aldrei kommi. Enda kallaður Óli krati þegar hann var á Laugarvatni. Silkiþrykk af Stalín og fleira fínerí dugar skammt. En ég ætla að segja ykkur frá raunverulegum kommum hér austan Hellisheiðar í gamla daga. Einhverntíma uppúr 1950 kom hér rússneskt knattspyrnulið, líklega Dynamó Kiev. Tveir alvörukommar hér á Selfossi fréttu þetta. Vissu varla hvernig fótbolti leit út. En þeir urðu bókstaflega að komast til Reykjavíkur að sjá þessa menn. Sálarheill þeirra að veði. Og að sjálfsögðu var þeim báðum ekið á leikinn í Reykjavík. Þegar þeir komu til baka höfðu þeir ekki hugmynd um úrslit leiksins. En þeir höfðu séð sína menn. Ekta Sovétmenni. Og svo var það alvörukomminn í Hveragerði. Þegar fyrstu rússajepparnir komu til Íslands 1956 vaknaði áköf löngun hjá þessum ágæta komma að eignast slíkan vagn. En þá var nú allt háð leyfum. Vinstristjórn var nýtekin við völdum og einhvernveginn tókst karlinum að útvega sér leyfi til að mega kaupa svona stríðsvagn. Hann hélt glaður til Reykjavíkur að sækja vígtólið. Og austur aftur.Strax og hann renndi í hlað vatt hann sér út úr jeppanum, kippti varadekkinu með sér inn og hélt til stofu. Lokaði vandlega öllum gluggum og hurðum og hleypti loftinu úr dekkinu. Drakk svo í sig hið Sovéska fjallaloft sem streymdi út. Og hélt því fram að þetta hefði stórbætt heilsuna.Þetta voru sannir kommar. Hlustuðu aldrei á þvætting og níð Moggans um Stalín og félaga. Þeir eru nú allir horfnir og spurnig hvort þeir eru uppi eða niðri. Kannski í kommúnu Péturs? Sæl að sinni, Hösmagi, heitur sem fyrr.

Friday, May 27, 2005

 

Blogg 40.

Fertugasta bloggið mitt. Og þó eiginlega ekkert blogg. Komment á komment bræðra. Ekki veit ég hvernig eldri sonurinn fær það út að ég hafi verið í stjórnmálaflokki og ætlað mér bæjarstjórastólinn á Selfossi. En hann veit það vel að faðir hans mælir aldrei ósatt orð. Börn eiga að bera virðingu fyrir foreldrum sínum. Sérstaklega þó feðrum. Ég var í framboði á óháðum lista í bæjarstjórnarkosningum 1978. Rétt áður en skáldið fæddist. Höfðum ekki erindi sem erfiði, því miður fyrir bæjarbúa. En svona er þetta. Laun heimsins ekkert nema vanþakklæti. Þetta framboð varð til þess að nokkrir allaballar töluðu ekki við undirritaðan í nokkur ár. Lifði það nú af. Lýsti bara sálinni í þeim sjálfum. Foringjar stjórnmálaflokkanna telja sig nefnilega eiga fólkið. Og atkvæðin. Ég studdi líka svona framboð 1982. Og þá var frú Hatseput í framboði. Sú hin sama og nú er heltekinn af samfylkingarveirunni. Þessari skæðu sýkingu sem herjar á nokkuð marga um þessar mundir. Horfum samt fram á veginn og vonum að batinn komi. Og yngri sonurinn var svona að spekúlera í hvort faðirinn væri farinn að predika. Dró þó í land og telur þetta bara þarfa umræðu.Ég er ekki sú týpa sem predikar. En ég tala stundum í hálfkæringi. Yrki ekki allr vísur til fulls. Voða skemmtilegt. Þegar ég fór að vinna á fasteignasölunni og fór að skoða eignir var ég tekinn á beinið fyrir að vera of lengi að þessu. Ég var fljótur að kveða þennan draug niður. Ég sagði grafalverlega við Þröst að það væri nú bara þannig að þetta tæki alltaf lengri tíma þegar frúin væri ein heima. Hann varð hugsi og hefur aldrei minnst á þetta síðan. Seinna kenndi ég honum það að það væri grundvallaratriði í fasteignasölu að láta kúnnan aldrei halda að þú hefðir ekki tíma til að sinna honum. Hann var 10 ára stauli þegar ég byrjaði að selja fasteignir. Lögmaður og fasteignasali verður að hafa snefil af sálfræðiþekkingu. Og hafa diplómatíuna í hávegum. Vera glöggur að lesa fólk. Seljendur og kaupendur. Og skapa gúddvill til frambúðar. Númer 1, 2 og 3 eins og Benni blikk hefði sagt. Það er gott að vera gamall refur. Og soldið ánægður með sjálfan sig. Hvernig haldiði að ég verði eftir 10 ár? Nóg predikað í bili. Hösmagi, geislandi af gleði yfir eigin ágæti.

Wednesday, May 25, 2005

 

Enn af krötum.

Eftir fund Samfylkingarinnar um daginn fékk nýi formaðurinn að koma í sjónvarpið. Svo sem eðlilegt miðað við venjuna. Ýmsar spurningar voru lagðar fyrir hinn nýja formann. M.a. um keppinautinn Össur. Lofaði honum ráðherrastól í nýrri stjórn sinni þegar þar að kæmi. Og svo ætlar hún líka að halda áfram að þekkja hann. Fara í afmæli dætranna og fleira. En þegar kom að spurningum um stefnu flokksins varð færra um svör. Svo sem við mátti búast. Þetta stefnulausa rekald er að "róta sig". Auðvitað algjörlega vonlaust að hafa stefnu meðan ræturnar eru enn að fálma eftir fótfestu. Bara að komast til valda og veiða stóra og feita bita upp úr kötlunum eins og siður krata hefur verið alla tíð. Sagan sannar þetta. Ef horft er til viðreisnaráranna, sem reyndar voru engin viðreisnarár, þá sést vel að aðaláhugamál kratanna voru feit embætti handa broddum þeirra. Þeir hafa löngum þakkað sjálfum sér uppbyggingu velferðarkerfisins og annars þess skásta í íslensku samfélagi. Þetta er þó ekki annað en fölsun. Það er fyrst og fremst róttækt baráttufólk sem á heiðurinn af velferðarkerfinu og ýmsu öðru sem hefur áunnist með miklum fórnum fátækasta hluta þjóðfélagsins. Þegar Vilmundur Gylfason barnaði Valgerði, dóttur Bjarna Ben, varð honum að orði: Alls staðar koma kratarnir sínum að. Rataðist þar satt á munn. Ég er reyndar sannfærður um að þegar fram í sækir munu vinstri menn átta sig. Yfirgefa þetta stefnulausa rekald og fylkja sér um raunverulega róttæka umhverfis og velferðarstefnu eina flokksins sem hefur þau stefnumið í alvöru. Undirritaður hefur aldrei verið í stjórnmálaflokki. Hefur þó alltaf verið róttækur. Og umhverfissinnaður. Eftir langan starfsferil hjá Orkustofnun er undirritaður lika virkjunarsinni. Þetta fer ágætlega saman. En það er ekki sama á hvern hátt er virkjað. Kárahnjúkavirkjun er mesta umhverfisslys í okkar sögu. Þegar íslenskir umhverfisvinir fóru til Noregs að kynna almenningi þar hvað Norsk Hydro hyggðist fyrir, kölluðu forustumenn SF á austurlandi þetta fólk landráðamenn. Menn eins og Einar Sigurðsson og Smári Geirsson. Sumir eru líka tilbúnir að fórna sálu sinni fyrir baunadisk. Fólk getur kallað mig þröngsýnan þjóðernishyggjukomma. Ég tek það bara sem hól. En ég vona að ég verði aldrei vændur um að vera krati. Bless í bili. Hösmagi, herskár í morgunsárið.

Tuesday, May 24, 2005

 

Vor ?

Mesti norðangarrinn genginn niður. Og hitastigið heldur hærra í morgun en undanfarna daga. Indælt að koma út í morgun. Lognið er gott. Og vorgolan reyndar líka. Gráni minn er nú í fyrsta sinn á verkstæði. Engin bilun reyndar en mér tókst að bakka utan í bjarg eitt mikið sem einhver snillingurinn kom fyrir í Hjallaseli í Breiðholti. Og af því Gráni er svo fínn ákvað ég að láta laga þessa rispu. Tuttuguþúsund krónum verð ég fátækari á eftir. En svona er að þykjast vera fínn maður. Virðulegur lögmaður og fasteignasali hlýtur að vera vel akandi. En það er líka ágætt að aka um á 13 ára gamalli japanskri pútu. Kannski er það bara snobb niður? Um síðustu helgi fór ég að finna einkennilega lykt í Grána. Þorði ekki annað en gá í skottið, en þar var ekkert lík. Ótrúlega megn ýldulykt sem ég botnaði ekkert í. En einhver skýring hlaut að vera á þessu. Og svo rak ég augun í veiðituðruna. Haldiði ekki að þar hafi verið rækjur frá því um hvítasunnu. Ógeðslegt. Kom þeim fyrir á viðeigandi stað og spreyjaði Grána allan með lavander. Vantaði bæði reykelsi og myrru. Mér dettur í hug saga af vini mínum sem er bölvaður prakkari. Einu sinni fyrir margt löngu vann hann á skrifstofu kaupfélagsins. Það var á meðan KÁ var og hét. Fjölmenn skrifstofa. Og allt í einu dettur honum afar kvikindislegt bragð í hug. Hann kom fyrir bita af hákarli inní ritvél eins starfsmannsinns. Fljótlega varð lykt á skrifstofunni. Nánast banvænn fnykur. Enginn kunni skýringu á þessu. Og það var skúrað. Og skúrað meira. Allt kom þó fyrir ekki. Lyktin vildi ekki hverfa. Starfsmaðurinn orðinn að taugahrúgu og fátt til ráða. Að lokum fjarlægði vinurinn hákarlinn. Gæti best trúað að hann hefði bara étið hann. Og smátt og smátt hvarf daunninn. Menn pældu lengi í þessum ósköpum. Sumir töldu bara að lyktin hefði alls ekki verið þessa heims. Og starfsmaðurinn taldi víst um tíma að lyktin stafaði frá honum sjálfum. En sumir eru bara svona. Hafa sérstakan húmor og eru með afar frjótt ímyndunarafl þegar hrekkir eru annarsvegar. Aldrei hefði mér dottið svonanokkuð í hug. Enda annálað góðmenni. Bestu kveðjur að sinni, Hösmagi, kátur og hress að morgni dags.

Thursday, May 19, 2005

 

Þurrpumpa.

Sæl. Ósköp er ég nú feginn að vera ekki þurrpumpulegur sósíaldemokrat. Eða bara krati yfirleitt. Fátt er til hugsjónasnauðara en íslenskur krati. Það sannast best á Samfylkingunni. Það er einkennilegt að hafa þá hugsjón eina að verða stór flokkur og ná völdum. Og til hvers. Markaðsvæða heilbrigðiskerfið og ganga í evrópusambandið? Eiga menn að ganga í sjórnmálaflokk svo hanni verði voða stór og fínn? Fórna sannfæringu sinni og hugsjónum fyrir völd og aðgang að kjötkötlunum? Hundurinn sagði ekki ég og kötturinn einnig. Og ég líka. Fyrir þingkosningarnar 1999 fór ég á fund Samfylkingarinnar í Tryggvaskála. Það var kannski rætinn og illgjarn tilgangur að þessari fundarsetu. Þá var Nató, Halldór, Davíð og hinir að gera loftárásir á Belgrad. Í nafni frelsisins eins og ævinlega þegar þetta lið stendur fyrir manndrápum og eyðileggingu. Ég fór á fundinn til að spyrja forystumenn SF um afstöðu hennar til þessara verka.Þarna voru m.a. Össur, Magga Frímanns og Bryndís Hlöðversdóttir. Og það fór líkt og mig hafði grunað. Ekki nokkur leið að draga neitt út úr þessu fólki. Ekki með og auðvitað ekki á móti. Engan mátti styggja rétt fyrir kosningar. Og skýringin hjá Bryndísi var alveg einstök. Það hafði verið svo mikið að gera hjá SF að undanförnu að ekki hafði gefist tími til að álykta um málið. Og nú er búið að senda hana uppí Borgarfjörð svo Ingibjörg Sólrún fái að blaðra að vild í þinginu. Mest vorkenndi ég þó Margréti. Hafði oftar en einu sinni kosið hana á þing og var bara stoltur af því. En hún kaus að fórna góðum hugsjónum til þess að vera í " stórum " flokki. Ömurlegt hlutskipti. Og eftir fyrirspurn mína stóð upp gamall allaballi og sagði að hér ættu menn ekki að vera að vekja upp gamla drauga. Dæmigert. Hugsjónirnar til hliðar fyrir þægilegra andrúmsloft í hallelújakórnum. En sem betur fer eru enn til vinstri menn á Íslandi sem þora og vilja standa við sannfæringu sína.Menn eins og Steingrímur og Ögmundur. Líklega mælskustu og rökföstustu þingmennirnir nú um stundir. Þar eru ekki þurrpumpulegir sósíaldemonar á ferð. Og halda örugglega vatni yfir George Galloway. Kannski halda þeir báðir með KR. Vona þó ekki. Og að lokum ætla ég að taka fram að mér finnst voða vænt um hann nafna minn í Stokkhólmi. En ég myndi samt aldrei fórna sannfærinu minni og skoðunum fyrir hann. Hösmagi, sem virðist hafa vaknað svona pólitískur í morgun.

Tuesday, May 17, 2005

 

Fegurð og kuldi.

Góðan dag góðir hálsar. Geysifallegt veður og sól hátt á lofti. En samt er nú hitastigið mínus 4°. Og kominn 18. maí. Gott að koma aftur inní hlýjuna efir morgunrannsóknirnar. Mikil blessun heita vatnið sem við eigum. Undirritaður vann í 10 sumur við að leita að heitu vatni fyrir landsmenn. Til sjávar og sveita. Þetta var gott starf. Langur vinnutími og mikil ferðalög um landið. Fórum oft Sprengisand eða Kjöl ef við áttum leið norður. Sáum því mikið af landinu og það var gaman að kynnast fólkinu í byggðum þess. Oftast vorum við aufúsugestir. "Blessaðir mennirnir, sem vildu veita birtu og yl í mannanna híbýli". En það kom líka fyrir að við þóttum tortryggilegir með tól okkar og tæki. Jafnvel heyrðum við talað um " þessa andskota að sunnan". En það var undantekning. Flestir voru gapandi af virðingu fyrir þessum vísindamönnum sem fundu heitt vatn undir mold og grjóti. Tæknin við þessa vatnsleit byggðist á viðnámsmælingum. Heita bergið leiðir rafmagn miklu betur en það kalda. Eftir að mágur minn staðsetti borholu norður í Aðaldal og upp kom mikið af heitu vatni varð hann þjóðhetja þar um slóðir. Ef við áttum leið um Aðaldalinn, renndum við ætið heim að Hafralæk. Þar var tekið á móti þessum höfðingum með kaffi og Johnny Walker. Og þegar við vorum að störfum þarna voru stanslaus veisluhöld. M.a. mikið af frábærlega góðu hangikjöti. Gaman að rifja upp þessa tíma nú.Kominn á sjötugsaldurinn en þó bráðungur enn að mér finnst. Það var afar fátítt að aðrir en raunvísindanemar fengju störf við þessa hluti. En ég og Jónas Gústavsson, júristar, vorum undantekningin. Og báðir flokksstjórar. Mér þótti ákaflega gott að heyra dr. Guðmund Pálmason, forstöðumann jarðhitadeildar segja að við værum báðir bara fjandi seigir við þetta. Guðmundur var einstakur maður. Eðlisfræðingur og doktor í hálfleiðurum. Skrifaði mikið um jarðhitarannsóknir og var einn af merkari vísindamönnum þjóðarinnar. Hann var líka frábær skákmaður og ég er viss um að hann hefði orðið einn af sterkustu skákmönnum heims ef hann hefði helgað sig skákinni. Hann sýndi oft frábær tilþrif við skákborðið og lagði margan stórmeistarann að velli. Hann var fæddur 1928 og lést úr krabbameini fyrir 2 árum. Minnist hans alltaf með þakklæti og virðingu.Ég kynntist mjög mörgum raunvísandamönnum á þessum árum þó ég væri eiginlega annarlegt sprek í þessari veröld. Hefði vel getað hugsað mér að verða jarðfræðingur en lenti bara í lagadeildinni. Var annarlegt sprek þar líka vegna skoðana minna í pólitíkinni. Þá var lagadeildin útungunarstöð ungra og upprennandi pólitíkusa á hægri vængnum.Lögfræðin var bara þrep í þessum stiga. Og reyndar talvert af stigamönnum þarna. Ég eignaðist þó góða kunningja með þessar skoðanir. Og ég held að við eigum ekki að velja okkur vini eftir pólitískum skoðunum. Menn geta nefnilega verið ágætir þó þeir séu með afleitar stjórnmálaskoðanir. Og svona í lokin. Hvernig er með MS, frú Hatseput og hitt liðið? Er engin von til þess að Eyjólfur fari að hressast? Heyrumst og sjáumst, Hösmagi.

Monday, May 16, 2005

 

Gráni kominn heim.

Svona er að vera bænheitur. Og eiga snillinga að vinum. Við Hörður lögðum í hann á litla Lanca brynjaðir alls konar tólum. Lögreglan sagði að ekki væri hægt að opna þessa jeppa nema spenna upp hurðina og pota með priki í læsingartakkann inni í bílnum. Þeir buðust líka til að koma með qbein í haust þegar ég læsti mig úti hið fyrsta sinni. Ég afþakkaði boðið og trésmiður sem ég þekki leysti málið. Fékk afslátt á skattframtalinu fyrir afrekið. Og Hörður var með sannkallaðan galdrastaf. Það tók hann 4 minútur að opna vagninn. Væri örugglega skratti góður að stela bílum ef hann væri á þeirri línunni. Mér fannst það vera fagnaðarsöngur þegar þjófavarnarkerfið í Grána fór í gang. Þá var björninn unninn og kyrrð fjallanna naut sín eftir að slökkt var á kerfinu. Glaður Hösmagi heldur til náða. Allt er gott sem endar vel. Bless, ykkar Hösmagi.

 

Enn meiri háðung.

Undirritaður ritaði hér smástúf um daginn um háðungina. Læstur útí kuldanum og varalykillinn læstur inní bílskúrnum. Fór þó allt vel. En ófarir mínar ríða ekki við einteyming. Skömmu fyrir hádegi fékk ég hugljómun um að halda til veiða í Tangavatni. Samdi við sjálfan mig um að mega fara á jeppanum góða. Var fljótur að bruna þessa 62 km, greiddi mitt veiðileyfi og hélt vonglaður að vatninu. Steig út úr bifreiðinni, opnaði afturdyrnar, fór í stígvél og úlpu, og teygði mig í rækjur og veiðistöng. Lokaði dyrunum. Mundi þá eftir vindlunum mínum sem eru jafnómissindi við veiðiskap og endranær. En þá dundi ógæfan yfir. Allar hurðir bifreiðarinnar harðlæstar. Lykillinn í kveikjulásnum, nestið mitt, síminn og allt heila hafurtaskið. Ég bölvaði nú ekki upphátt. Sagði bara í huganum; Djöfulsins bömmer.Fór samt að veiða. Og að sjálfsögðu gekk það ekkert. Hugarástandið sá til þess. Að lokum gafst ég upp og gekk til bæjar. Húsráðendur tóku mér vel. Buðu í kaffi og þessi stóri vandi var ræddur. Ég sagði að líklega yrðu þau bara að taka mig í fóstur. Þau eru að vísu yngri en ég en tóku þessu þó ekki víðsfjarri. Lofuðu mér að hringja í minn aðalbílavitring, Hörð Óskarsson. Hann var þá staddur í Borgarnesi á suðurleið.Gat lítið gert úr þeim stað. Að lokum var það afráðið að frúin skyldi aka mér til Selfoss. Og það vildi svo undarlega til að 3ji lykilinn að íbúðinni var í vasa mínum. Fyrir einskæra tilviljun. Líklega það sem kallað er lán í óláni. Ég treysti mér ekki til að ráðast á Grána minn með qbein að vopni. Verð líklega að fara með bænirnar mínar. En það er von á Herði. Legg allt mitt traust á hann. Talaði um að fá lánaðar græjur hjá löggunni. Hinsvegar eru þessir bandarísku nútímavagnar þannig að erfitt er að komast inn í þá án lykils. Karlhólkurinn sem seldi mér þennan eðalvagn var búinn að týna varalyklinum. Reyndar ágætur karl og ætlaði að fara með jeppann og láta skanna inn rétta sort af nýjum lykli. Þegar ég hringdi í hann var hann staddur í Barselóna. Lofaði enn að bæta úr skák en það leysir að sjálfsögðu ekki þennan vanda. Mér er reyndar hulin ráðgáta hvernig þetta mátti gerast. Hef oftast skilið lykilinn eftir í bílnum á nóttunni þegar hann er læstur inní skúrnum. Held að það sé full langsótt að kenna Hannesi og Rumsfeld um þetta. Eða Dóra og Davíð. Þeir eru þó til alls vísir eins og alkunna er. Í ólund minni tókst mér þó að skúra svefnherbergið, baðið og forstofuna. Heilmikið afrek út af fyrir sig. Ætla ekki að hafa Grána á beit þarna við Heklurætur til eilífðarnóns. Leggst nú á bæn. Amen. Hösmagi.

Wednesday, May 11, 2005

 

Dásemdir júlímánaðar.

Það söng í Herconinum í gjarkvöld. Þegar undirritaður birtist aftur heima hjá sér með slatta af veiðidögum. Laxaspillir og Fiskihrellir sannarlega í báðum essunum sínum. Lördag for lykke. Veiði hefst laugardag 25. júní. Og aftur 30. júní. Og þá er nú stutt í júlí. 2., 3., 6., 7., 8., 10, 11., 16., 20., 27., 28., og 29. Og hinn rómaði 3ja Herconstangadagur er 16. júlí. Verst að vinnan á eftir að trufla dásemdirnar. En kapitalistarnir fara sínu fram. Stilla okkur upp við vegg eins og þeim þóknast. Er þó ekkert að kvarta og hlakka bara óhemjumikið til þessarar indælu iðju.Það hlýnar hægt á ísaköldu landi. Reyndar 5° í morgun og sólin kominn hátt á loft. Styttist í Hvítasunnuna og ekki ólíklegt að Herconinn bogni aðeins. Og líklega væri líka þjóðráð að taka smátörn á ryki og skúmi. Reyni að magna mig upp í það. Og að öðru. Heldur að róast yfir fasteignamarkaðnum. Engar lækkanir þó fyrirsjáanlegar. Ég efast um að sú þróun sem hefur orðið á fasteignaverði hér á landi síðan í haust eigi sér nokkra hliðstæðu annarsstaðar. Ég keypti íbúðina mína í september í fyrra. Líklega á besta tíma því dansleikurinn var að byrja. Ég tel mig vera með höndina á púlsi markaðarinn og mér sýnist íbúðin hafa hækkað um u.þ.b. 18.500 kr. á hverjum einasta degi síðan. Það er ekki undarlegt þó slíkir hlutir gerist í íslensku þjóðfélagi nú um stundir. Og þó verðbólga sé nokkur er hún þó ekki nema brot af hækkun markaðarins. Við skulum bara vona að þetta endi ekki með ósköpum. Aldrei þessu vant horfði ég á nokkuð af umræðum frá eldhúsdeginum í fyrrakvöld. Fannst heldur dapurlegt að horfa uppá Davíð og Halldór með ánægjusvip í algjörum fílabeinsturni. Sannfærðir um eigið ágæti sem jafnan fyrr. Þó ég sé nú að mestu hættur að skipta mér af pólitíkinni svona dagsdaglega er mér það ljóst að það er þjóðarnauðsyn að gefa þessum mönnum frí frá valdastólunum. Vonandi ber þjóðin gæfu til þess í næstu þingkosningum. Það er eina vonin til þess að rangindin í þessu þjóðfélagi verði lagfærð. Kærar kvðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, May 09, 2005

 

Draumarnir.

Góðan dag, góðir bloggarar. Það er stundum svo indælt að láta sig dreyma svolítið. Á morgunferðalaginu sá ég rauða bifreið. Glæsivagn á góðu verði. Aðeins rúmlega 5 milljónir. En hvað eru 5 milljónir fyrir draum. Líklega þónokkuð ef maður á þær ekki til. Svo ég læt mig bara dreyma áfram um þennan 330 hestafla vagn. Cherokee 2005, 5,7 lítra. Kannski endar þetta með því að ég verð að leita mér lækninga við bíladellunni. En það er eiginlega gott að vera með þessa dellu. Margar miklu verri dellur til. Það er aldrei að vita hvað gerist. Eða eins og sú gamla sagði við Sigurjón " eitinn": Sigurjón eitinn, það sem aldrei hefur komið fyrir áður getur alltaf komið fyrir aftur. Veiðileyfin verða sótt annað kvöld. 13 dagar í Ölfusá í sumar. Hún er nú óvenjulega falleg þessa dagana. Nánast silfurtær og hæfilega vatnsmikil. Sogið með yfirhöndina yfir Hvítá. Enn frost á hverri nóttu á hálendinu. Og reyndar hér líka. Hrím á litla Lansa í morgun. Spáir hægt hlýnandi veðri næstu daga. Hvítasunnan framundan sem þýðir aukafrídag. Alltaf gott að stytta vinnuvikuna. Kannski fer ég bara norður í land að sækja mér kött. Eða bara til að rifja upp gömul kynni af norðurlandi. Veðrið skiptir þó öllu. Best að halda sig heima við ef veðrið bregst. Í áætlun Óla Ket frá Laugarvatni í gamla daga var tekið fram að einungis væri farið í " færi og veðri" Ólafur var einn af nokkrum sem varð þjóðsagnapersóna í lifanda lífi. Virtist sígeðvondur en var í raun hinn ljúfasti karl. Hann hafði bara þann stíl að vera hranalegur. Var greiðvikinn og hafði prýðilegan húmor. Og það er góður kostur í fari hvers manns. Enda þótti okkur menntskælingum vænt um karlinn. Ef hann átti í deilum við yfirvöld stóðum við að sjálfsögðu með honum. Nokkur ár síðan hann yfirgaf táradalinn, þá á tíræðisaldri. Karlar eins og Ólafur, og reyndar kerlingar líka, auðga tilveruna.

Þann 27. mars s.l. voru 10 ár liðin frá fæðingu kattarins kæra, Hösmaga, hins eina og sanna,

Viðsjárverð þykir mér glyrnan gul
geymir á bak við sig marga dul,
óargadýranna eðli grimmt
á sér í heilanum fylgsni dimmt.

Alla tíð var þó með okkur vel,
einlægt mér veittist þitt hugarþel,
síðan ég forðum þig blindan bar,
breiddi á þig sæng þegar kaldast var.

Fimm voru systkinin fædd í heim,
fagnar þú degi hið eina af þeim;
hinum var öllum í æsku drekkt,
ósköp er kattlífið dapurlegt.

Lifað nú hefur þú árið eitt,
oddhvöss er vígtönnin, klóin beitt;
stundum á kvöldin með kurteis hljóð
kveðurðu af munni fram ástaljóð.

Andvakan þykir mér yfrið löng
uns ég í garðinum heyri söng,
hugurinn glaðnar þá heldur til,
hlægir mig dillandi raddarspil.

Til munu þeir sem tónverk líst
tilkomulítið, en eitt er víst;
læðan sem kúrir á leyndum stað
leggur við eyrun að hlusta á það.

Mjúkur, með kyrfileg kampahár
kemurðu að dyrum í morgunsár,
upp þig úr munnvatni allan þværð,
augunum lygnir í sæld og værð.

Ólundin margsinnis úr mér rauk
er ég um kverk þér og vanga strauk,
ekki er mér kunnugt um annð tal
álika sefandi og kattarmal.

Trýnið þitt starfar og titrar kvikt,
tekst því að skynja svo marga lykt,
þar sem mér ekki með allt mitt nef
unnt er að greina hinn minnsta þef.

Bugðast af listfengi loðið skott,
lyftist með tign er þú gengur brott;
aldrei fær mannkindin aftanverð
á við þig jafnast að sundurgerð.

Greinilega hefur Jóni Helgasyni ekki verið illa við ketti. Við lesturinn rifjast upp ýmislegt skemmtilegt. Kettir eru sjálfstæðir, fara sínar eigin götur, og þegar þeir hafa fengið nægju sína að éta bjóða þeir öllum byrginn. Líklega nokkuð tækifærissinnaðir. Erum við það ekki sum líka?

Með bestu kveðju til ykkar allra, Hösmagi.

Sunday, May 01, 2005

 

Öreigar allra landa......

sameinist. Einhvernveginn er 1. maí eiginlega kulnaður út. Lítið um kröfugöngur og fólk jafnvel hætt að gæða sér á kaffi og pönnukökum. Engin spjöld og bara allt fútt úr þessu öllu. Tíbráin í Síberíu var óvenjumikil í dag. Brá mér í leiðangur á litla Lanca. Hluti mýrarinnar milli Selfoss og Eyrarbakka hefur lengi verið nefndur Síbería. Vegurinn virtist allur undir vatni. Og húsin á Eyrarbakka iðuðu í skinninu. Eða öllu heldur bárujárninu. Líkt og rugluð mynd á sjónvarpsskjá. Ég geri mér oft ferð niður á strönd. Gott að þefa af sjónum. Loftinu og þanginu. Frá Bakkanum hélt ég að ósum Ölfusár. Þar var einn maður að veiðum. Og tíbráin enn á veginum niður í Þorlákshöfn. Þar bættist við unaðsleg lykt af fiskimjöli. Fannst alveg sérstaklega notalegt að finna þessa lykt. Minnti mig á Siglufjörð sumarið 1959. Þá þrælaði undirritaður í Rauðku í nokkra daga. Ákaflega góð lífsreynsla fyrir 15 ára Selfyssing. Þessa daga nærðist ég einungis á vínarbrauðum, mjólk og síldarméli. Kjarngott en ekki mjög lystugt. Unnið var frá 7 að morgni til miðnættis. Stúaði 100 kg mjölsekkjum. Og það var þreyttur ungur mað sem sofnaði í öllum fötum á kvöldin. Haugdrullugur og lyktandi af méli. En þetta var bara unaðslegt. Vildi ekki hafa misst af því. Reyndar vann ég stundum 27 og hálfa klukkustund á sólarhring nokkrum árum síðar. Það leika nú ekki margir eftir. En svona var nú dugnaðurinn og eljan í den tíð. Nú drullast maður bara í þessa 8 klukkutíma 5 daga vikunnar. Og stundum búinn að fá alveg nóg. Nú er Leiðindakvöldum með Gísla Marteini að ljúka. Sá að nafni minn í Svíþjóð kallaði þættina þessu nafni. Óskaplega leiðinlegur Vökustaur þessi GM. Ef ég væri ekki svona mikill bindindismaður myndi ég drekka mig alveg blindfullan á laugardaginn þegar leiðindakvöldum lýkur. En það má auðvitað líka drekkja sorgum sínum. Líkt og Björn Þorsteinsson skákmaður. Hann tefldi í mörgum skákmótum. Að móti loknu fór hann ævinlega á mikið fyllerí. Þegar vel gekk drakk hann til að fagna. Og ef illa gekk drekkti hann sorgum sínum. Blessað áfengið hefur lengi verið til margra hluta nytsamlegt. Ég sendi bestu kveðjur til allra, Berlínargesta sérstaklega. Hlýtur að vera fallegt á Unter den Linden.

Við brunninn bak við hliðið
stóð blómskreytt linditré.
Í forsælu þess fann ég
svo friðsælt draumavé.......


Ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online