Tuesday, August 19, 2008

 

Vertíðarlok.

Ég sé að nokkuð er um liðið frá síðasta pistli. Við feðgar og langfeðgar skiluðum okkur úr Veiðivötnum síðla fimmtudags. Gerðum ágæta ferð og vorum heppnir með veður. Veiðin var svona la la. Stærsti fiskurinn var 2,6 kg. Allir fengum við fisk, himbriminn var á sínum stað og törfrar vatnanna óbreyttir. Kisi hafði dvalið innandyra allan tímann. Fékk þó heimsókn frá ágætri konu hér í blokkinni. Hann þaut út um leið og ég opnaði íbúðina. Skilaði sér þó fljótt aftur og var hinn besti.Ég lá meira og minna yfir sjónvarpinu á föstudag og laugardag. Nú er ljóst að við leikum við pólverja í fyrsta leik úrslitanna. Árangurinn er mjög ásættanlegur og aldrei að vita hvað gerist. Þó mér þyki nú alltaf vænt um dani finnst mér slæmt að þjóðverjar komust ekki í úrslitin. Gamla seiglan í rússunum er enn til staðar.
Ég átti svo síðasta laxveiðidag sumarsins á sunnudag. Ég náði í einn lax og tvo sjóbirtinga og er mjög sáttur við afla sumarsins. Að kvöldi þess 17.voru 300 laxar á landi eftir sumarið sem er það langbesta í mörg ár. Þegar heim kom ákvað ég að vaka eftir leiknum við Egypta sem byrjaði kl. 1 um nóttina.Þegar hann byrjaði var ég algerlega búinn á því. Dró mig í bælið og svaf þar til endursýning leiksin byrjaði korter yfir átta. Við illan leik hélt ég leikinn út.Fór aftur að sofa og svaf allan gærdaginn og til kl hálfníu í morgun. Engin matarlyst og mikið slen. Er þó skárri nú og hafði mig í að hita mér kaffi. Vona að ég hafi klárað mig af þessari óvæntu pest sem svo skyndilega skaut upp kollinum.Er örugglega hitalaus nú og svitakófið að baki.Það er þó bót í máli þegar pest skýtur upp kollinum að geta sofið. Mér telst til að ég hafi sofið í u.þ.b. 30 klukkutíma síðan á sunnudagskvöld. Hleypti kisa mínum út í morgun. Sama blíðan áfram. Tek því rólega í dag og á von á skáldinu og Helgu nú á eftir. Þau eru á heimleið út Mýrdalnum. Frystikistan orðin troðfull af fiski og skáldið á slatta þar í. Við Kimi sendum vinum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, August 11, 2008

 

Veiðivötn.

Á morgun er 12. ágúst. Afmælisdagur móður minnar sælu. Nokkrum sinnum haldið á Vatnaslóðir þennan dag. Síðast í fyrra þegar ég sofnaði með stöngina í fanginu. Líka eftirminnileg ferð árið 2004 með Sölva mínum og norninni Misery. Þá var 26 gráðu hiti í forsælu á þessum dásamlegu slóðum sem eru í um 600 m hæð yfir sjávarmáli. Við skáldið fengum 33 urriða í Ónefndavatni. Það var í fyrsta skipti sem rækja var meðferðis sem beita. Mér verður ætið minnisstæður síðasti urriðinn sem ég veiddi um hádegisbil þann 13. Örlítil lufsa af rækju var eftir á króknum. Ég var að draga inn færið og sá lufsuna svona 6 metra frá mér. Ég sá urriðann koma á urrandi ferð og steypa sér á góðgætið. Hann nánast tók þessa örbeitu eins og flugu. Hann var svo fastur á króknum að mér tókst með herkjum að ná honum úr. Fiskurinn var nákvæmlega 3 og hálft kíló eða 7 pund. Slíkum fiski gleymir maður ekki. Ég keypti lúxusrækju í dag svo það verður ekkert slor á borð borið. Siggi Þráinn kemur með makríl, maðkur úr garði Immu, og svo verða flugur og spúnar einnig meðferðis. Hluti af farteskinu er nú þegar komið í tengdamömmuboxið á toppi grænu þrumunnar. Synir og afastrákar koma um hádegisbil og þá verður ekki langt í brottför. Gott fólk hér í blokkinni ætlar að líta til með Kimi á meðan fóstri verður af bæ. Það eru u.þ.b. 135 km inneftir og þar af eru 110 með bundnu slitlagi. Það er því í rauninni engin langferð framundan. Hestöfl eðalvagnsins jafnmörg og áður. Veðurspáin er ágæt, enn daginn styttir. Það er gangrimlahjólið sem ég hef svo oft minnst á hér.
Þokkalegt ról á laxveiðinni í Ölfusá. Í morgun voru komnir 270 á land. Nokkru færri stangir í ánni að undanförnu enda komið fram úr úthlutunardögum og leyfi nú seld á netinu. Þó má ætla að laxarnir verði á 4ða hundrað eftir sumarið. Ég var við dorg á laugardaginn og var einn á efra svæðinu. Hélt mig að mestu í Kettsvík en þar var aldrei þessu vant ekkert líf. Tókst svo að krækja í einn í Víkinni seinnipartinn. Fallegur hængur, 3,2 kg. Hann var alveg kakkaður af lús og verið á hraðferð upp ána.
Ég gekk því til náða nokkuð drjúgur með mig.
Við Kimi göngum nú snart til sængur. Hann hefur reyndað mókt í 3-4 tíma. Voða notalegt að liggja á ullarpeysu fóstra síns. Gerir heldur ekki háar kröfur. Éta og sofa eða einskonar Sovét. Við sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Thursday, August 07, 2008

 

Friður.

Rólegheit og friður yfir mér og Kimi.Líklega báðir jafn húðlatir í dag. Heldur svalara nú en undanfarna daga og áin að verða svona sæmilega veiðandi. Þegar ég fór í eftirlitsferð um 10 leytið voru komnir 3 á land. Kannski er veiðin að færast í fyrra horf, þ.e. svona 10-18 á dag. Ég er allavega með heilmiklar væntingar til laugardagsins. Að honum loknum er stutt í Veiðivötnin. Nú er ég búinn að finna upp nýtt leynivopn á stórrurriðann. Það er svona rússneskur taumur. Var að útbúa þetta nýja veiðitæki í bílskúrnum í morgun. Hlakka til að prófa það og kæmi ekki á óvart að það svínvirkaði. Kannski er maður líka of fastheldinn í veiðinni. Þó ég sé nú róttækur í pólitíkinni er ég íhaldsmaður inn við beinið. Hjátrúarfullur líka. Flestir veiðimenn eru það. Það fylgir bara. Fæ líka þvingunarþanka í veiðiskapnum. Og ljúf hugboð stundum. Ég get verið sáttur með veiðina það sem af er sumri.Reyndar er það nauðsynlegt hverjum veiðimanni að sætta sig við aflann. Þar gildir rólyndi hugans ekki síður en á öðrum sviðum.

Það er semsagt nokkuð bjart yfir tilverunni þó letin ráði ríkjum hér í kyrrðinni. Veðurspáin ágæt fyrir næstu daga. Fékk bréf frá Lsp. í dag um að mæta í eftirlit í september. Það er bara ágætt og mér ekki áhyggjuefni. Letingjarnir í Ástjörn 7 senda bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Wednesday, August 06, 2008

 

Strípihneigð?

Geir Haarde hefur talað. Það er allt í fínasta lagi hér. Bankarnir græða heilmikið. Engin ástæða til að standa sig í starfinu meðan það ástand varir. Flestir landsmenn sjá þó að þetta er ekkert nema della. Illa lyktandi kúadella. Geir er berstrípaður og sýnir að menntun er sumum til lítils. Hagfræðingurinn telur enga ástæðu til neinna aðgerða þó þúsundir fólks hafi misst atvinnuna og því fjölgi dag frá degi. Mörg fyrirtæki kominn á hausinn nú þegar og hrun blasir við hjá mörgum til viðbótar. Þetta er hrikalega slæm ríkisstjórn. Henni kemur hagur landsmanna lítið við. Solla spókar sig í vesturheimi. Það heyrist hvorki stuna né hósti frá SF. Til hvers var þetta fólk kosið á þing? Það væri hollt vinstri mönnum að hugleiða hvað þeir gerðu með því að kjósa SF í síðustu kosningum. Hin heilaga Jóhanna er nú, eftir meira en árs setu í ráðherrastóli, að átta sig á því að öryrkjar fá einungis einnþriðja af lagfæringunni sem þessi ráðherra hefur verið að stæra sig af. Rúm 8.ooo af tuttuguogfimmþúsundkallinum. Sjálf hirðir hún mismuninn. Þessi ráðherra er löngu útbrunninn og hefði átt að fá kistu frá vörubílstjórunum eins og hinir. Það er ekki einn einasti af ráðherrum þessarar stjórnar verðugur starfs síns. Samkvæmt skoðanakönnunum hefur fylgi við fáráðana í þessari stjórn minnkað um 60%. Vond var nú síðasta stjórn en lengi getur vont versnað. Ég var eiginlega ákveðinn í að kjósa ekki í næstu kosningum. Ég hef skipt um skoðun og mun kjósa gegn núverandi stjórnarflokkum. Og vona að það verði fyrr en seinna, því ekkert er nauðsynlegra en að veita núverandi stjórn nábjargirnar. Stóri " vinstri" flokkurinn lyftir ekki hendi gegn óréttlætinu. Vonandi uppsker hann í samræmi við það í næstu kosningum. Ég hef oft lýst eðli hans hér í þessum pistlum og allt sem ég hef sagt um hann hefur reynst vera rétt. Völdin ein skipta hann öllu. Hugsjónir engar og loforðin látin lönd og leið. Það eru samt til góðir vinstri menn í flokknum. Ég vona að þeir krefjist uppgjörs við stefnuleysið. Veri þeir velkomnir í lið með okkur andstæðingum hinna ferðaglöðu og berstrípuðu ráðherra í þessari óþolandi ríkisstjórn. Fari hún öll til fjandans, því þar er hún vel geymd í góðum félagsskap.

Þokunni er að smálétta af fjallinu góða. Hellirigning í morgun. Kíkti eftir ormum í gærkvöldi og fatan þyngdist heilmikið. Veiðidagur í Ölfusá á laugardag og líka gott að eiga orm í Veiðivatnatúrinn í næstu viku. Frekar dræm urriðaveiði þar að undanförnu svo það er kominn tími á breytingar. Ég er alveg viss um góða ferð. Ég stóð í mokstri fljótlega eftir að ég sofnaði í nótt. Þessi draumaveiði er líka skemmtileg eins og raunveruleikinn. Kimi með trýnið út um gluggann. Morgungalsi í okkur báðum. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, August 04, 2008

 

Sá flottasti.

Stundum hef ég talað um grænu þrumuna sem flottasta vagninn í Selfossflotanum. Svo vita nú flestir hvað Hösmagi sjálfur er flottur. En það er laxinn sem ég veiddi í gær sem ég er að tala um. Hann var nákvæmlega 3 kg. að þyngd en einungis 62 cm. á lengd. Örugglega af gamla Sogslaxakyninu. Svona fiskar eru orðnir afar sjaldséðir í Ölfusá og því enn skemmtilegra að krækja í þá. Þetta var skínandi fagur hængur. Þykkur í meira lagi, hausinn rennilegur og styrtlan sver. Ég gaf nú veiðinni að mestu leyti frí á fyrri vaktinni. Áin enn eins og kakó á litinn. Örlítið skárri á efra svæðinu. Allt virtist líflaust og uppúr klukkan átta var ég farinn að hugleiða uppgjöf. En ég hef áður minnst á þolinmæði. Korter yfir átta renndi laxinn sér á ánamaðkinn. Það skemmtilega við það að ég varð ekkert var við tökuna. Óklárt á hjólinu og ég hafði rakið nokkra metra ofan af því. Ég rak upp siguröskur þegar slakinn hvarf og laxinn rauk af stað. Enn og aftur gerast skemmtilegir hlutir í Klettsvík. Eða Lögmannshlíð. Það var ánægður gamall veiðirefur sem hélt til síns heima klukkan 10. Rauðskott fagnaði fóstra sínum að venju. Þetta varð því góður sunnudagur og sumarafli undirritaðs náði 2ja stafa tölunni. Veiði aftur á laugardaginn, Veiðivötnin 12.-14. og síðasti laxveiðidagur í Ölfusá þann 17.
Það rigndi töluvert í nótt en nú hefur sólin rutt þokuloftinu burtu. Vona að Sölvi, Helga og vinir fái gott veiðiveður í dag. Héldu héðan á grænu þrumunni um eittleitið í gær. Sjálfur hlakka ég mjög til endurfunda við Vötnin mín fögru, fjöllin, Himbrimann og svo að sjálfsögðu stórurriðann. Það er líka alltaf gott að hitta veiðiverðina, hjónin Bryndísi og Rúnar. Þau eru örugglega vinamörg. Alltaf boðin og búin til aðstoðar og eru rétt fólk á réttum stað. Það er semsagt heilmikið af dásemdunum eftir þó tekið sé að skyggja á kvöldin. Við Kimi sendum fagnaðarkveðjur til vina okkar, ykkar Hösmagi.

Friday, August 01, 2008

 

Ágúst.

Nýr mánuður byrjaður. Hitinn tæp 19 stig og áin enn ófögur á litinn. Skammturinn þessa daga er 1 lax. Ef það verður svo á sunnudaginn ætla ég að fá hann. Kannski reynist Sölvi Björn sannspár og veiðin glæðist þegar líður á vikuna. Við Kimi erum báðir innandyra sem stendur. Ég fór með Grand Cherokee í smurningu og olíuskipti í morgun. Græna þruman er því tilbúin fyrir skáldið og vini. Ég hugsa að þessi glæsilega sjálfrennireið rati orðið inneftir.
Það hefur verið skemmtilegt að sjá viðbrögð stóriðjusinna við úrskurði Þórunnar umhvefisráðherra um heildstætt mat umhverfisáhrifa fyrir norðan.Þingmenn íhaldsins eru æfir. Sveitarstjórinn í N-Þing. botnar ekkert í þessu. Frikki Sóf alveg í rusli og talar um vandamál. Ég las skrif ágætrar konu á moggablogginu sem sagði Landsvirkjun vera vandamál og stærsta vandamálið væri forstjórinn sjálfur. Ég get tekið undir þetta og nýyrðið um þessa stofnun. Illvirkjun. Það verður fróðlegt að fylgjast með hjaðningavígunum sem framundan eru. Kannski verður Þórunn látin fjúka. Fleygur í stjórnarsamstarfið segir Kristján Júlíusson. Það heyrist þó ekki stuna frá Sollu eða Geira. Þau sofa áfram í mjúku stólunum. Líklega vakna þau ekki fyrr en við hvellinn þegar stjórnin springur. Ef fram heldur sem horfir er stjórn þessa aumingja fólks búin að vera. Það hefur aldrei gerst áður í sögu þjóðarinnar að ríkisstjórn með stóran þingmeirihluta hafi afrekað minna á heilu ári. Kannski er ekki alveg ljóst hvað við fáum í staðinn. Ástandið getur þó ekki annað en batnað við andlát þessarar fádæma lélegu stjórnar. Hún verður ekki mörgum harmdauði. Nema ráðherranna sjálfra. SF hefur ekki staðið við eitt eða neitt. Velferðarmálin og umhverfismálin sanna það best. Af íhaldinu var aldrei neins að vænta. Vonandi munu áhrif þess dvína hratt í þessu þjóðfélagi. Flokksins, sem verndar hag tiltölulega fárra á kostnað margra. Auðmenn landsins eru með allt sitt á hreinu meðan þrengir að almenningi. Arðránið sem íhald og framsókn stóðu fyrir heldur áfram með aðsoð SF. Burt með ranglætið. Skerum upp og fjarlægjum meindýrin. Þá er von til að ná sáttum í pólitíkinni og gera góða hluti. Sumarkveðjur frá okkur Dýra, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online