Saturday, March 27, 2010

 

Ljúfur laugardagur.

Vika liðin frá vorjafndægrum.Birtan ræður ríkjum. Hitinn er reyndar nýskriðinn uppfyrir frostmarkið svo það er eiginlega gluggaveður. Snemma morguns var hér 3ja stiga frost og norðangjóla. Það var bara hressandi að viðra sig. Raikonen tolldi þó ekki úti nema stutta stund. Betra að hlýja sér í nálægð fóstra síns. Nú safna ég veiðidögum eftir bestu getu. Það sem nú er í húsi í laxinum í Ölfusá er 1 dagur í júní, 7 í júlí og 7 í ágúst. Tveir sólarhringar í Veiðivötnum með sonum, sonarsonum og dóttursyni 10. - 12. ágúst.Þá eru uppi áform um að sækja nokkra fiska inná Arnarvatnsheiði en þangað hef ég aldrei komið. Ég hef aldrei verið staðráðnari en einmitt núna, að njóta komandi sumars til fullnustu. Ég verð að treysta á veðurguðina eins og aðrir og hef á tilfinningunni að það verði gott veður á ísaköldu landi sumarið 2010. Einhver gæti ályktað út frá þessu að ég telji þetta sumar mitt síðasta og því enn meiri ástæða til að nýta það vel. Því fer þó víðsfjarri. Ég er sannfærður um að ég er að komast yfir veikindi mín. Næsti mánudagur er lokahnykkurinn á geislameðferðinni. Það verður 55. ferðin mín til Reykjavíkur frá því þetta ferli byrjaði. Ég hlakka til mánudagsins og heimkomunnar. Þetta hefur tekið á og er mikið álag á gamlan skrokk. En þetta hefur líka gengið frábærlega vel.Það er eitthvað gott í kringum mig. Læknirinn minn og allar konurnar sem hafa snúsit í kringum mig þennan tíma hafa reynst mér ákaflega vel. Ég hef líka hitt fullt af fólki í svipuðum sporum og það er líka ágætt. Nú bíð ég bara rólegur næstu vikurnar og fer svo í aðra sneiðmynd. Nýt hvíldar um páskana og hugleiði lífið og tilveruna. Ekkert hefur haggað ró minni síðan þetta kom upp í haust. Það er mikilvægt að gera sér hlutina ekki erfiðari en þeir þurfa að vera. Ég hef líka verið afar heppinn. Þolað lyfin og geislana betur en margir aðrir þó ég gangi bara á öðru nýranu og hafi ekkert milta. Lífið heldur áfram og það er dásamlegt.
Kimi er farinn að hrjóta á teppinu hér fyrir aftan stólinn minn. Ég hyggst bregða mér út í búð í gjólunni.Það verður reykt nautatunga á borðum hjá mér í kvöld. Ódýr og ljúffengur matur. Á þriðjudag verður svo sameignleg máltíð hjá okkur Kimi. Humar á 5 ára afmæli þessa ljúfa vinar. Við sendum ykkur okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Friday, March 12, 2010

 

Þungameðferð.

Þeir strjálast nú pistlar mínir hér. Svo sem nokkrar ástæður fyrir því. M.a. fer mikill tími í þungameðferðina á Landspítalanum.Ég hef nú lokið lyfjameðferðinni sem hófst 29. desember. Búinn að fara 24 sinnum í geislamaskínuna og þá eru 11 skipti eftir. Þetta er mikið álag á skrokkinn og svo keyri ég líka á milli Selfoss og Reykjavíkur. Daglega alla virka daga. Ég er þó ekki að kvarta. Þetta gengur með ólíkindum vel. Hef heyrt sögur af fólki í sömu stöðu sem er fárveikt á meðan á þessu stendur. Ég er bara svolítið dasaður stundum og tek nú bara eina og eina verkjatöflu annað slagið. Horfur mínar eru taldar mjög góðar. Ég lýk við geislameðferðina í marslok. Þá fæ ég 6 vikna frí frá þessum hernaði og að því loknu verður tekin ný sneiðmynd. Ég hef, allt frá því þetta kom upp, haldið ró minni og bjartsýni. Það fleytir mér langt og léttir þessa baráttu mikið. En barátta er það. Barátta fyrir lífinu sjálfu og mér finnst enn gaman að lifa þó árin telji.Það er örugglega rétt sem einn kunningi minn sagði við mig um daginn: Það er seigt í þér. Útlitið hefur áður verið dökkt en alltaf hef ég sloppið fyrir horn. Hið góða aldrei langt undan og ég er viss um að það er svo enn. Ég horfi fram á veginn þó óhjákvæmilegt sé að líta stundum um öxl. Nú er klukkan bara rúmlega 8 á laugardagsmorgni og orðið albjart fyrir nokkru. Rúm vika í jafndægur á vori og verðrið er dásamlegt. Öll veiðileyfi í Veiðivötnum í höfn og Ölfusárleyfin verða afhent í næstu viku. Sannarlega ætla ég að stunda þessa iðju stíft í sumar og vonandi fæ ég líka mörg sumur í viðbót. Jafnlyndið og rólyndið skipta sköpum. Ég þakka mínum sæla fyrir að hafa þrek til að höndla það. Ég þakka líka krabbameinslækninum mínum, Hlyni Níels Grímssyni, fyrir frábæra þjónustu við mig. Rólegur, yfirvegaður og fær læknir. Þegar nýja sneiðmyndin hefur verið tekin um miðjan maí verður tekin ákvörðun um framhaldið. Æxlið er á hröðu undanhaldi og kannski tekst að drepa það alveg með aðferðunum sem beitt hefur verið. Það er líka hugsanlegt að leifarnar verði skornar burtu. Það verður þó ekki gert nema talin verði ástæða til þess. Það liggur í augum uppi að það hlýtur að vera fólki áfall að greinast með krabbamein. En það vinnur enginn sigur með því að leggja árar í bát og gefast upp. Hösmagi er bara glaður og hress á þessum fallega morgni. Sannfærður um sigur í þessari orustu. Viði Kimi sendum öllum vinum okkar albestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online