Monday, October 31, 2005

 

Pest.

Varð fyrir slæmri sendingu í gærmorgun. Einhverskonar flensa. Og ekkert Day Nurse. Besta flensulyf í heimi er að sjálfsögðu bannað á Íslandi. Ég hélt mig að sjálfsögðu í rúminu og svaf linnulítið í 22 tíma. Og Raikonen hefur líklega skynjað að fóstri var heldur slappur. Sat að mestu á sér við gælurnar og hagaði sér eins og fyrirmyndarköttur. Ákvað að vera heima í dag og ná þessum skratta úr mér. Lystarleysið er algjört og eina fæðan sem ég hef í mig látið er Kóka Kóla. Virðist duga ágætlega í bili. Undirritaður er nú ekki eins og hann á að sér þegar engin löngun er í kaffi að morgni dags. Aldeilis fáheyrt. Mér til dægrastyttingar fór ég að lesa Fréttablaðið. Og reyndar DV líka sem borist hefur með því undanfarna 2 daga. Og ekki skánar DV. Sennilega versta sorpblað í heimi hér. Virðist vera að reyna að þjóna ákveðnum hópi fólks með alveg sérstaka siðferðiskennd. Og tekst vel upp við það. Fari það bara norður og niður. Þó ég sé nú ekkert sérstaklega hrifinn af Fréttablaðinu er það þó í allt öðrum klassa. En líklega er nú Mogginn enn besta blaðið þó ég sé hættur að kaupa hann. Hann fór að vísu stundum aðeins út af sporinu. En það fengu allir að viðra skoðanir sínar þar. Jafnvel tegundin Vinstri Grænir. Ég læt nú netútgáfur blaðanna nægja að mestu. Og ef ég þarf að ausa úr viskubrunninum eða skálum reiðinnar geri ég það bara hér. Gott bara. Og síðasta bloggið með 6 comment. Fjandi sniðugt að synirnir skuli velja þennan vettvang til tjáskipta um Bruce Springsteen og fleiri góða. Hann er líka inní hlýjunni Magnús minn. Hvernig væri nú að þú héldir smáfyrirlestur um goðið þitt á eigin bloggsíðu. Það væri nú tilvalin byrjun. Og eftirleikurinn auðveldur.

Nú er spáð hlýnandi veðri. Vonandi stendur það lengi. Kannski endar árið bara með stangveiði í Tangavatni. Væri eiginlega endir við hæfi eftir skemmtilegt veiðiár. Tíminn sker úr um það og ég held ró minni. Nóg að sinni, ukkar einlægur Hösmagi.

Friday, October 28, 2005

 

Gæðastimpill.

Ég hef fengið stimpil á bloggið mitt. Einskonar vottun. Þeir fóstbræður, Blóðbergsbræður, hafa báðir talað. Getur það verið betra? Og aldrei þessu vant tala ég í fullri alvöru. Ég tel mig nú alls ekki vera hégómagjarnan. En mér finnst ljúft að fá hrós frá þessum mönnum. Ég var að lesa bloggið hans nafna míns. Um gargandi snilld, álfa og Björk. Ég verð nú að viðurkenna eitt. Ég hef aldrei kunnað að meta Björk sem tónlistarmann. Tek oft út við að hlusta á hana. En ég met hana mikils sem manneskju. Eldklár stelpa. Hún hefði samt örugglega orðið góð jasssöngkona. Tókst mjög vel upp í Bellu símamær. Kannski er minn tónlistarsmekkur svona hallærislegur. Kann líklega ekki gott að meta. Ég ætla að nefna nokkra sem eru inni hjá mér. Freddy Mercury, Elton John, Megas, Birgitta Haukdal, Pálmi Gunnarsson og Hjálmar. Og reyndar miklu fleiri. Og svo eru nokkrir úti. T.d. Hörður Torfason, Páll Óskar og Stefán Hilmarsson. Sá síðastnefndi alveg ógurlega leiðinlegur. Nóg um tónlistina í bili.

Veturinn gerði vart við sig í gær. Snjóaði talsvert. Komst að því að Lancer okkar skáldsins er bara seigur í snjó. Enda framdrifinn. Vona að þetta verði bara skot. Hiti er nú yfir frostmarki og vonandi tekur snjóinn upp hið bráðasta. Veldur mér bara depurð eins og stundum áður. Kann ekki á því neina haldbæra skýringu. Við félagarnir erum hér báðir við tölvuna. Raikonen sofandi með hausinn utan í handleggnum á mér. Lagði ekki í að fara út í snjóinn og rokið. Sofnuðum báðir of snemma í gærkvöldi. Honum þótti hæfilegt að vekja fóstra sinn um miðnætti. Gerir svo sem lítið til í helgarfríinu. Með ólíkindum rólegt í vinnunni undanfarna daga. Svo sem allt í lagi ef það varir ekki of lengi. Október að ljúka og árið liðið áður en við er litið. Og þar sem andinn er ekki yfir mér nú kveð ég að sinni, ykkar Hösmagi.

Wednesday, October 26, 2005

 

Ritsnilld.

Undirritaður fór að glugga í sitt eigið blogg svona til að rifja upp atburði og hugleiðingar undanfarinna mánaða. Ýmislegt skemmtilegt rifjaðist upp. Og skyndilega datt mér í hug að gaman væri að eiga bloggið útprentað í möppu. Hugsið ykkur bara ef önnur eins ritsnilld glataðist skyndilega. Gufaði hreinlega upp af því einhver netþjónn í útlöndum tæki upp á kúnstum. Gæti alveg trúað Bush og Rumsfeld til slíkra fólskuverka. Eða íslenskum skoðanabræðrum þeirra.Og svo yrði þetta líka íslenska bókmenntaarfinum mikið tjón. Og áður en við er litið er maður orðinn langafi. Ljótt ef litlu ófæddu krílin sæu ekki hvað langafi þeirra var snjall með pennann. Svo það var bara langbest að kaupa möppu og plastvasa og hefjast handa við útprentun. Raða þessu svo upp í tímaröð svo komandi kynslóðir eigi greiðan aðgang að þessum gersemum.

Kannski varð ég nú að koma þessu á framfæri núna. Alveg hættur að fá comment eða hrós. Og þá grípur maður að sjálfsögðu til sinna ráða. Vekur sjálfur athygli á eigin snilld. En svo er líka gamla máltækið að betra sé illt umtal en ekki neitt í fullu gildi. Líklega er ég nú ekki nógu duglegur að kemmentera á blogg annara. Kemur þó fyrir. Og best gæti ég trúað að ég héldi uppteknum hætti. Yrkja svolítið af hálfkveðnum vísum. Hafa grafalvarlega hluti í flimtingum.Vera svolítið rætinn og illgirnislegur. Kasta skít í landsfeður. Og líka saklaust fólk. En voða góður strákur samt. Svona innvið beinið. Kveðjur úr kuldanum, ykkar Hösmagi.

Monday, October 24, 2005

 

Valkyrjurnar.

Kvennadagurinn mikli liðinn. Man vel eftir þessum degi árið 1975. Frú Hatseput og lille Beggý fóru til Reykjavíkur en við Magnús sátum eftir heima. Tók stráksa með mér í vinnuna. Við hliðina á skrifstofu minni var ferðaskrifstofa. Ferðaskrifstofumaðurinn var líka einn með peyjann sinn. Enginn viðskipti og síminn þagði. Svo við fengum okkur bara í glas. Við hina hlið skrifstofunnar var Siggabúð. Þar stóðu peyjarnir í sælgætinu allan daginn. Tengdamamma var af gamla skólanum. Botnaði ekkert í þessu jafnréttisbrölti ungu kvennanna. Eldaði læri handa tengdasyninum. Mæðgurnar skiluðu sér úr höfuðstaðnum og þetta varð bara ágætur og eftirminnilegur dagur. Það hefur ef til eitthvað áunnist á þessum 30 árum. Hinsvegar hef ég aldrei skilið inntakið í sumu af þessari baráttu. Við erum öll af sömu tegundinni. Köllum okkur homo sapiens. Mismunandi gefin og hæf. Þar skiptir kynferðið engu. Þessvegna er mér t.d. kynjakvóti í stjórnmálum ekki að skapi. Og þar eru vinstri menn enn verri en íhaldið. Það er ekki nokkur lógík í því að skiptingin eigi að vera fifty fifty. Tryggir ekki jafnrétti, sanngirni eða yfirleitt eitt eða neitt. Enda var Bergþóra sögð drengur góður. Hinsvegar er höfuðatriði að jafna launamuninn. Þetta illskiljanlega misrétti sem viðgengst enn. Og ofbeldið gegn kvenfólkinu er að sjálfsögðu ólíðandi með öllu. Vonandi verður þessi upprifjun í gær til þess að árangur náist. Og helst ekki seinna en strax á morgun. Það verða auðvitað alltaf til pungrottur. Karlrembur af verri sortinni. En sem betur fer erum við nú fleiri sem sem viljum uppræta misréttið.

Ég skrapp til höfuðborgarinnar á laugardaginn var. Ók nýja veginn um Svínahraunið. Mér með öllu óskiljanlegt hvernig hægt er klúðra svona nýrri framkvæmd. Ef stór bíll verður vélarvana á veginum kemst enginn framhjá nema fuglinn fljúgandi. Og menn eiga væntanlega að keyra á sprungnu þangað til möguleiki er á að stoppa og skipta um dekk. Vegagerðin reynir að sjálfsögðu að klóra yfir skítinn sinn. En að lögreglan skuli taka undir delluna skil ég ekki. Nema auðvitað lögreglustjórinn á Selfossi. Hann á það nefnilega sammerkt með guði almáttum að vera allsstaðar nærri og vegir beggja órannsakanlegir.Þessi nýi vegur er einfaldlega hættulegur. Auðvitað á vegagerðin að viðurkenna það og gera nauðsynlegar lagfæringar strax.

Sama aðgerðarlitla veðrið. Bara indælt og endist vonandi sem lengst. Gott veður til músaveiða að morgni dags hér í Ástjörninni. Mýsludans hér á stofugólfinu í gærmorgun. Ég var nú grimmur aftur og kom dýrinu burt. Og Raikonen soldið sár. En laun heimsins eru ævinlega vanþakklæti. Og svona í lokin. Ónefndur bloggari lofaði bót og betrun um daginn. Ætlaði að herða sig. En hann er nú ansi linur enn. Sér vonandi þessi orð og bætir úr. Kveðja úr kyrðinni, ykkar Hösmagi.

Thursday, October 20, 2005

 

Viðjar vanans.

Undirritaður hefur lengi reykt sömu vindlategundina. Líklega í 34 ár. Ekki alveg blóðhrár. Og að undanförnu hefur sá hinn sami eiginlega reykt alveg um þverbak. Lágmarkið 20 vindlar á sólarhring. Einhvernveginn fór ég að hugsa um þetta í fyrradag. Það væri nú óþarfi að kveikja í ef mann langaði ekki til þess. Ákvað að verða svolítið meðvitaður. Og mér tókst strax nokkuð vel upp. Reykti 13 vindla á sólarhringnum. 35% niðurskurður. Og árangurinn batnar líka þennan sólarhring. Verða sennilega 10 vindlar og þá er árangurinn kominn í 50%. Nú væri kannski einfaldast að hætta þessu bara alveg. Kannski kemur að því fyrr en seinna. Ég hef nú sagt við þá sem hafa lagt þetta til við mig að lífsnautnamaður eins og ég verði nú að hafa eitthvað eftir. Nánast orðinn bindindismaður á áfenga drykki og skjortejægerinn bærir varla á sér. Það er auðvitað hörkuvinna að drekka og stunda kvennafar. Það þarf því að fylla tómarúmið þegar slakað er á gjálífinu. En það fylgja þessu líka góðir kostir. Það sem best er af því öllu er að vakna alla morgna ótimbraður. Fullur af krafti eins og raketta sem nýbúið er að kveikja í. Bara andskoti gott. Reikna með að þetta verði svona meðan ég stunda núverandi atvinnu. Legg það hvorki á sjálfan mig né aðra að mæta skjálfandi og úrillur til starfa. Held að það sé hverjum manni hollt að brjóta viðjar vanans. Staldra stöku sinnum við og hugleiða lífið og tilveruna. Ég hef að vísu engin áform um að taka upp neinn meinlætalifnað. Enda stundum hugsað á þá leið að lífið yrði nú ekki skemmtilegt ef maður neytti aldrei neins sem talið er óhollt og gerði aldrei neitt sem er bannað. Kannski fær skjortejægeren bara frítt spil bráðum. Sjáum til. Bestu kveðjur krúttin mín, ykkar Hösmagi.

Monday, October 17, 2005

 

Þingræðið.

Nú hefur íhaldið ályktað um að afnema beri 26.gr. stjórnarskrárinnar. Ákvæðið um rétt forsetans til að neita að undirrita lög frá Alþingi. Þar á bæ tala menn um helgi þingræðisins. Og forsetanum voru ekki vandaðar kveðjurnar í fyrra útaf fjölmiðlafrumvarpinu. Þessu hugarfóstri Davíðs. Og auðvitað fékk þjóðin ekki að kjósa um lögin. Þá hefði ósigur Davíðs orðið fullkominn. En er þingræðið ofar lýðræðinu? Þegar kosið er til þings eru ekki öll mál fyrirséð sem upp koma á kjörtímabilinu. Er það lýðræði ef þingið ætlar að knýja fram lög gegn vilja þjóðarinnar? Aldrei kom neitt fjölmiðlafrumvarp á meðan Mogginn hafði ægivald yfir öllum öðrum fjölmiðlum. Það hefur aldrei farið milli mála að forsetinn hefði þennan rétt. En Davíð og Halldór trúðu því bara ekki að Ólafur Ragnar hefði kjark til að beita þessum rétti. Árás á þingræðið. Embættið sætti ofan og þar fram eftir götunum. Og því var haldið fram í fullri alvöru að forsetinn væri að ganga erinda þeirra Baugsfeðga. Gott ef dóttir hans vann ekki hjá þeim. Og Mogginn féll á prófinu. Hamaðist gegn forsetanum í kosningunum í fyrra. Þá hafði ég keypt þetta blað í 33 ár samfellt. Ég sagði áskriftinni upp. Valdhafarnir í Íslandi hafa ávallt verið hræddir við þjóðaratkvæðagreiðslur. Hægt er að nefna mörg dæmi um mál sem hafa verið knúin fram í andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar. Í nafni hins helga þingræðis. Það verður ekki lýðræði á Íslandi til framdráttar ef 26. greinin verður afnumin. Ákvæðið var sett þarna þjóðinni til varnar.Og ég tel Ólaf Ragnar mann að meiri að hafa haft kjarkinn til að beita ákvæðinu. Sagan mun að sjálfsögðu dæma hann af verkum sínum. En mennirnir sem telja sig unna lýðræði og þingræði meira en aðrir verða reiðir áfram. Það er verst fyrir þá sjálfa. Heilbrigð fjölmiðlun þarf nefnilega alltaf að þjóna hagsmunum valdstéttarinnar. Að sjálfsögðu var það fáheyrð ósvífni að setja sig upp á móti vilja yfirnagarans nýja. Nóg um það að sinni.

Sama blíðan hér. Ekki bærist hár á höfði og hitinn vel yfir 10 stigum. Jafnvel kominn smávíbringur í Herconinn. Væri ekki amalegt að fá svona veður þegar skáldið mitt kemur heim úr draugaganginum. Svona desemberveður eins og var 1997. Myndi stytta meðgönguna í næsta veiðisumar.Allt kemur þetta í ljós. Fyrsti vetrardagur á laugardaginn. Gangrimlahjólið snýst á sama hátt og alltaf áður. Og við Raikonen tökum því bara sem að höndum ber. Megi dagurinn færa ykkur gleði, ykkar Hösmagi.

Saturday, October 15, 2005

 

Vor á haustdögum.

Sveifla í hitastiginu. Hækkun um 15 gráður frá því í fyrradag. Gott að fá nokkra svona daga eftir kuldakastið. Myrkrið er að vísu enn svartara. Alskýjaður himinn og allt á floti á Höfn í Hornafirði. Bíð nú eftir síðasta kappakstrinum í Formúlunni. Líklega er það bílagenið sem stjórnar því.

Og nú er lítið mál þó fólk fái harðlífi. Ég var að lesa um sænska rannsókn á áttræðum kellingum. Lausnin við hægðatregðu er að bregða sér bara á næsta listasafn. Góna svolítið á málverkin og þú færð þessar fínu hægðir. Svíarnir eru alltaf jafnsnjallir. Listin nærir sem sé ekki einungis sálina heldur hefur líka þessar ágætu aukaverkanir. Það er margt skrýtið í kýrhausnum. Lengi lifi svíar.
Geir Haarde, þessi sem er að taka við Flokknum, sagði í gær að blöðin snéru út úr ræðunni miklu sem haldin var í fyrradag. Telur líklega að þessi hrekkjusvín séu bæði sjón- og heyrnarlaus. Ég tel mig enn hafa sæmilega heyrn. Nógu góða til að hafa heyrt þvæluna sem vall út úr yfirnagaranum nýja. Nógu góða sjón til að sjá pirringinn og geðvonskuna sem einkenndi þessa tölu. Götustrákarnir eiga alltaf erfitt með að sitja á strák sínum. Það er alltaf slæmt þegar vopnin snúast í höndum manna. Þegar allskonar skítalið notfærir sér hið frjálsa framtak. Hið frjálsa framtak sem einungis var ætlað útvöldum. Engin furða þó Kim Il Jung verði pirraður. Svona getur nú lífið leikið menn grátt.
Raikonen mættur innúr blíðunni. Sleikir tær sínar vandlega. Horfum saman á nafna hans vinna síðasta mótið á árinu. Vonandi allavega. Kærar kveðjur til allra bloggara og hinna líka, ykkar Hösmagi.

Thursday, October 13, 2005

 

Að halda ræðu.

Davíð hefur talað.Og hirðin klappað.Karlálftin verður líklega að burðast með þetta steinbarn í hjarta sínu uns yfir lýkur. Sumir þola alls ekki að tapa. Opinbera þá sitt innra sálarlíf. Og þó ég sé nú lítt hrifinn af Ingibjörgu Sólrúnu þá er ég henni sammála um ræðuna miklu í gær. Hatur og beiskja geislaði af þessum yfirnagara þegar hann talaði um pólitíska andstæðinga sína. Og afgangurinn lofrulla um eigin verk. Mjög tilhlýðilegur endir á stjórnmálaferli þessa manns. Megi hann eiga góða daga í draumaheimi sínum.

Stjórnaskrárnefnd hefur hafið störf. Ræðir um forsetaembættið. Og ný hugdetta komin í ljós. Að 5-10 alþingismenn þurfi að vera á meðmælendalista forsetaefnis. Hvaðan skyldi þessi snilldarhugmynd vera komin? Af hverju alþingismenn? Eða 20 sauðfjárbændur? Og 3 djáknar hið minnsta? Kannski verður næsta tillaga á þá leið að forsetaframbjóðandi verði að fá blessun frá yfirnagara í seðlabankanum. Væri vel við hæfi. Kannski álpast núverandi stjórnarformaður í hinu nýja dótturfélagi þeirra Baugsfeðga i framboð. Þá sjá menn nú að þetta er alls ekki vitlaus hugmynd.

Nýtt Kastljós lýsir nú í haustmyrkrinu. Lágkúra í hávegum höfð. Sendingin frá Stöð 2 hefur hitt beint í mark. Einkennilegt að sjá þá Sigmar og Kristján velta sér upp úr drullunni með þessum nýju herrum. Þórhalli og Páli. Nýtt og gott íslenskt efni heitir það. Liggur við að maður leggist á bæn. Biðji um að þessir menn fari heim til sín aftur. Eða bara til DV. Sorglegt hvað lágkúran og sorinn eiga sér marga formælendur.

Ekki fer nú nýja íslenska leitarvélin vel af stað. Blogleit.is. Allavega fann hún ekkert sem ég spurði hana um. Lagast vonandi. En greinilega langt í google og yahoo. Annars allt við það sama. Fiskihrellir nýtur lífsins enda löngu hættur að kippa sér upp við smámuni. Lætur hverjum degi nægja sína þjáningu áfram og hlakkar til að vakna til nýs dags. Eða öllu heldur vera vakinn með blíðuhótum. Sæl að sinni, ykkar Hösmagi.

Monday, October 10, 2005

 

Tvíburaturnar.

Það nýjasta í skipulagsmálum hér á Selfossi er að byggja 2 sextán hæða turna við brúarsporðinn. Svona nokkurnveginn ofan á stóru jarðskjálftasprungunni. Vona nú að snillingnum sem datt þetta í hug verði ekki að ósk sinni. Legg til að turnarnir verði reistir við höfnina í Vestmannaeyjum. Hinsvegar má vel rýmka til í miðbænum. Við verðum víst að kalla þetta miðbæ þó Selfoss sé nú enn bara smáþorp í mínum huga. Og ég óttalegur þorpari. Tel þetta þó alls ekki vera minnimáttarkennd. Örugglega skynsamlegri afstaða en hjá mörgum Reykvíkingum sem halda að borgin sé miðja alheimsins. Sumir varla komið innfyrir Elliðaár. Mér finnst nú reyndar vænt um borgina. Átti þar ágæta vist í nokkur ár. Stutt á Mímisbar og Astrabar frá Nýja-Garði. Frítt í Háskólabíó og það var óspart notað. Mikið vatn runnið til sjávar síðan og þetta einungis hluti af hinni liðnu tíð.
Allar sameiningartillögur kolfelldar hér á svæðinu. Dróst á kjörstað til að segja nei. Það hefði ekki verið par gott að vakna upp á sunnudagsmorgni og vera orðinn að fúlgerðingi. Ég get ekki séð nokkra ástæðu til að sameina Hveragerði og Selfoss. Hvergerðingar vilja ekkert með okkur hafa og við ekkert sérstaklega hrifnir af þeim. Samt langt í frá að ég hafi nokkuð á móti þessu fólki. Best að það fái að stjórna sínum bæ og við okkar. Raikonen liggur hér á borðinu. Ástfanginn af nýrri flískúlu sem honum hlotnaðist í fyrradag. Hefur hana hjá sér á nýjum svefnstað. Baðvaskurinn er hinn nýi beður. Ekki held ég að ég vildi sofa í baðkarinu. Hann heldur uppteknum hætti við uppvakningar sínar að næturþeli. Lofa honum að vera húsbónda enn um sinn. Ég vona sannarlega að hún Helga mín losni fljótt við lungnabólguna. Bara aldeilis bráðnauðsynlegt hið snarasta. Getur þó aðeins bloggað annað slagið. Meira en sagt verður um suma aðra bloggara. MS og frú Hatseput endanlega þögnuð. Og hið 27 ára skáld ekki bráðduglegt heldur. Stendur vonandi til bóta. Með kveðju frá okkur morgunljónunum, ykkar Hösmagi.

Wednesday, October 05, 2005

 

Gæsaspillir?

Líst nokkuð vel á hugmynd nafna míns um nýjan smurgæsastað. Kannski þann fyrsta í heiminum. Flott skilti með mynd af mér og haglabyssunni. Ég hefi átt þetta forláta morðvopn í áratugi. Reyndar ansi langt síðan ég drap gæs síðast. Fór fyrir fáum árum niður á skotæfingasvæðið og æfði mig á bjórdósum. Og ég hafði ekki alveg gleymt hvernig á að skjóta. Aldrei að vita nema ég blási rykið af haglaranum góða. Amerískur Wincehester. Yfirburða skotvopn svona eins og Cherokeejeppinn ber af öllum hinum jeppunum. Líklega væri rétt að efna til samkeppni meðal bloggara um uppskriftir. Og um alla meðhöndlun lostætisins. Krydd og sósu. Kemur í hug hvannarót og fjallagrös. Og ekki má gleyma Blóðbergi þeirra fóstbræðra. Svo yrði ég að ráða til mín smyrjara. Svona álíka mann og gömlu smyrjarana sem voru á togurunum í den. Hugsið ykkur hina mjúku og meyru gæsasteik með alíslenskri sósu , réttri kryddblöndu og meðlæti af ýmsu tagi. Jachtsnaps að auki. Kannski að bílskúrinn fái bráðum nýtt hlutverk. Flotta skiltið á þakinu : SMURGÆS a la Hösmagi. Dásamlegt. Held að nafnið Gæsaspillir myndi bara sóma sér vel með hinum nöfnunum. Hugleiði þetta allt saman svolítið. Ekki er flas til fagnaðar. Og fyrstu gestirnir þurfa ekkert að borga enda verður einungis útvöldum bloggurum boðið. Hvernig líst ykkur á? Með smurgæsakveðju, ykkar kannski verðandi Gæsaspillir.

Monday, October 03, 2005

 

Smurgæs.

Ég var að kíkja á bloggið hans Sigga í Málmey. Stækkaði myndina af honum Lasse.Þessum með hormottuna stóru. Þá kom upp minning frá Mallorka árið 1977. Ég sá einhversstaðar skilti sem á stóð: Smörgås. Og hugsaði með mér að þarna þyrfti ég að fá mér að borða. Smurgæs hlyti að vera alveg sérstakt lostæti. Búið að mýkja kjötið alveg sérstaklega með smjöri. Svona var nú málakunnáttan þá og hefur ekki skánað mikið síðan. Auðvitað varð ég að athlægi fólks fyrir heimsku mína. Og engin gæs. Nærðist áfram á hamborgurum, kjúklingum og öðru álíka ruslfæði. Og þegar minnst er á rusl og fæði dettur mér Latibær í hug. Þeir nafni minn og fleiri voru að ræða um þessa framleiðslu. Ég er þeim hjartanlega sammála. Búinn að leggja á mig nokkra þætti. Og slappastur af öllum er íþróttaálfurinn sjálfur. Smáglæta í Glanna glæp einstaka sinnum. Margt af þessu svokallaða barnaefni er nú ekki uppá marga urriða. En hér keyrir alveg um þverbak. Höfundur Dallas vissi vel að hann var að framleiða rusl. En meðan hann gæti grætt á ruslinu væri þetta bara ágætt. Skiljanlegt sjónarmið. En ég er viss um að Magnúsi gúmmítarsan finnst þetta raunverulega mjög gott.Átakanlegt og ömurlegt. Hugmyndafátæktin í hnotskurn.
Við Raikonen búum hér nánast í útjaðri Selfoss til suðurs og austurs. Góðar veiðilendur við bæjardyrnar. Fann lík á stofugólfinu í gærmorgun. Vona að hagamúsin sé nú á himnum en líkið fjarlægði ég snarlega. Hann situr nú hér og sleikir tær sínar eftir könnunarleiðangur í rigningunni. Og ég held svei mér þá að hann sé enn liðugri en Magnús Latabæjarstjóri.

Smá vopnahlé í Baugsmálinu. Hæstiréttur að hugsa ráð sitt. Fróðlegt að heyra niðurstöðuna. Og nokkuð merkilegt að hlusta á viðskiptaValgerði í kastljósinu. Varpaði sannarlega ljósi á afstöðu íhaldsins til óháðra eftirlitsstofnana. Ekkert hægt að gera fyrr en fjármálaráðherra kæmi aftur til landsins. Samkvæmt þessu er svo að sjá að eftirlitsstofnun skuli bíða eftir því hvort íhaldið segi urdann bíttann. Kemur reyndar ekki á óvart. Nóg um það að sinni. Og kannski orðið nóg bloggað af minni hálfu yfirleitt. Með bestu kveðju, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online