Sunday, February 21, 2010

 

Nepja.

Svolítið kalt í morgunsárið á þessum fallega sunnudegi. Frostið um 5 gráður og gjóla af norðan. Bleik slikja á fjallinu góða og löngu orðið albjart. Kimi sefur í gamla tágastólnum og dreymir um mýsnar í haganum. Þær eru óhultar rétt á meðan.Nú hef ég lokið u.þ.b. einum fjórða hluta af geislameðferðinni á Lsp. Þetta gengur mjög vel og aukaverkanir í lágmarki. Ekkert mál fyrir mig að keyra á milli. Spáin út mánuðinn sýnir enga úrkomu svo þetta verður leikur einn. Þegar vikunni lýkur verð ég búinn með 14 skipti og svo verða ferðirnar í mars 21. Ég fer líka í lyfjagjöf einu sinni í viku og það má segja að þetta sé eiginlega fullt starf hjá mér. Ég er svo heppinn að hafa aldrei haft ofnæmi fyrir neinu. Nema náttúrlega Davíð, Halldóri og nokkrum öðrum. Sumir sem ganga í gegnum þetta verða fárveikir. Ég hef góða matarlyst og nota svo verkjatöflurnar suma daga en aðra ekki. Skal þó viðurkenna að ég verð feginn þegar þessu lýkur. Meinið verður myndað að nýju einhverntíma í mars. Kannski verður það fjarlægt með skurðaðgerð eftir allar árásirnar á það. Ekkert nema fullur bati kemur til greina. Lífsviljinn og baráttuandinn fyrir honum eru alveg óskertir. Ég er jafnbjartsýnn eins og ég hef alltaf verið. Hugarfarið skiptir miklu máli. Það hefur ætið fleytt mér langt. Þekki ekki hugtakið uppgjöf. Þrátt fyrir erfiðleika nýt ég lífsins eins og áður. Nú höfum við þraukað Þorrann og Góan byrjar ágætlega. Mánuður í vorjafndægur og bráðum byrjar hann að vaka á vötnunum. Sannarlega er ég ákveðinn í að njóta vorsins og sumarsins við útiveru, veiði og aðrar dásemdir. Gleyma pólitík og öðrum leiðindum sem mest ég get. Það er afar friðsælt hér í Ástjörn hjá okkur kisa mínum. Notalegt að hafa þetta dýr í grennd við sig. Ekkert þref né þras og við bætum hvorn annan upp. Sendum ykkur okkar albestu kveðjur með norðangolunni, ykkar Hösmagi.

Wednesday, February 10, 2010

 

Vor á miðjum vetri.

Ég fór í fyrsta geislatímann á Lsp. í gær. Veðrið er ótrúlegt þessa febrúardaga 2010Við litli lansi vorum 50 mínútur í bæinn. Hann á sumardekkjunum að venju enda Hellisheiði eins og á sumardegi. Gott að geta sparað grænu þrumuna í góðu veðri og svo gripið til hennar ef veður verða válynd. Ég þarf á spítalann alla virka daga til 30. mars og mér reiknast til að það séu u.þ.b. 4.400 km. Bensínið að nálgast 200 kall svo það munar um hverja ferð. Það birtir með degi hverjum og meðan veðrið helst svona styttir það veturinn mjög. Áður en við verður litið kemur vorið á ný með öllum dásemdum sínum. Veiðileyfin fyrir sumarið bráðum klár og ég hef góða tilfinningu fyrir sumrinu.
Ég skrapp í héraðsdóm suðurlands í morgun. Mætti þar í nokkrum gjaldþrotaskiptamálum fyrir aðra lögmenn. Létt verk og löðurmannlegt. Á leiðinni þangað hlustaði ég á frétt um 2 norðmenn, karl og konu, sem voru handtekin í Leifsstöð. Þau voru klædd eins og geitaostsalar. Eins og lauksalarnir í sjóvarpsþáttunum Allo Allo.Það fylgdi reyndar ekki fréttinni hvernig slíkur klæðnaður lítur út. En árvökulir tollverðir sáu í gegn um þetta lið sem reyndust vera 2 englar helvítis. Svo kom heilmikil útlistun á hvað þetta hefði verið mikilvægt. Þessir andskotar hefðu getað spillt siðferðinu á Íslandi. Skilja mátti af fréttinni að hér mætti enginn vamm sitt vita. Silfurtært eðli og athafnir landans eru öllum ljós. Hér þrífast ekki glæpir eða spilling. Mér varð eiginlega hálfóglatt við að hlusta á þetta. Sérstaklega þegar ég hugsa til þess sem er að gerast hér einmitt þessa daga. Milljarðaþjófarnir eru að endurheimta fyrirtæki sín hverjir af öðrum. Þeir eru svo mikilvægir, gáfaðir og siðferðisstigið svo hátt að þeir eru bókstaflega ómissandi. Það virðist lítið gagna að hafa skipt hér um ríkisstjórn í fyrra. Sama svínaríið grasserar. Jafnvel sem aldrei fyrr. Stjórnin gerir minna en ekkert í að taka til. Hleður bara gæðingum sínum á garðann, sker niður heilbrigðiskerfið, lækkar laun og skattleggur almenning út yfir öll þolmörk. Þúsundir íbúða í uppboðsferli meðan skuldir glæpamannanna eru afskrifaðar sem aldrei fyrr. Það er svo illa komið fyrir þessari þjóð að væri ég ungur maður myndi ég sennilega stinga af héðan ekki seinna en strax í dag. Þetta er stjórnsnilld Jóhönnu og Steingríms. Velferðarþjóðfélag þeirra i hnotskurn. Nú hef ég aðeins traust á einum manni í íslenskum stjórnmálum. Ögmundur Jónasson hefur ekkert breyst. Sami raunsæi lýðræðissinninn og alltaf áður. Slíkur maður á aldeilis ekki uppá pallborðið hjá núverandi valdhöfum á þessu volaða útskeri.

Ég hlakka bara til að renna aftur í bæinn eftir hádegið. Ég þyrfti helst að hafa vængi og geta flogið þennan spöl í góðviðrinu. Líklega verð ég samt að halda mig við jörðina. Hef reyndar lengi verið jarðbundinn maður þó gott sé að vera örlítið dreyminn líka. Við vinirnir sendum kveðjur til alls góðs fólks, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online