Sunday, December 31, 2006

 

Gamlársdagur.

Lítið eftir af þessu ári. Hverfur brátt í skaut aldanna eins og öll hin. Mörg okkar líta nú yfir farinn veg á þessum degi. Stundum gott að líta um öxl og staldra við.Fyrir mér hefur þetta verið gott ár. Stundum ekki í góðu skapi yfir pólitíkinni og vonsku mannanna. Látum það liggja á milli hluta í síðasta pistli ársins. Ég er vís með að taka upp þann þráð aftur á næsta ári.
Gjöfult ár. Sonarsonur sem skírður var í Garðakirkju í gær. Ágúst Magnússon, nefndur í höfuð móðurafa síns. Stórbónda í Birtingaholti. Þegar Begga mín gerði mig að afa fyrir meira en 20 árum fékk ég nafn mitt á afastrákinn. Ekki bað ég um það en ósköp þótti mér vænt um það. Og ekki síður að vera trúað fyrir að halda honum undir skírn. Þessi ljúfi piltur er nú orðinn fulltíða maður. Stúdentsprófið í höfn og veisla framundan. Hann hefur fært afa sínum Fiskihrelli ómælda gleði í gegnum árin. Reyndar á það við um allan hópinn minn. Svo var veiðiskapurinn ljúfur að vanda. Nokkuð gjöfult ár og sífelld tilhlökkun að byrja aftur á þessari indælu iðju. Og fyrirheitna landið bíður. Eftir hríslunum sínum og góðum straumum frá mér og fleira fólki. Fólkinu sem Hösmaga finnst svo vænt um. Svo eignaðist ég grænu þrumuna á árinu. Afbragð annara vagna. Fyrir menn sem fæddir eru með bílagenin eru svona vagnar hrein lífsnautn. Sannkallaður draumur í dós. Vinstri grænn að lit og hestöflin nægilega mörg. Ég tel mig líka hafa hugsað bærilega um þennan þarfa þjón.
Og skáldið mitt með nýja afurð. Sem fengið hefur góða dóma. Sem gamli Hösmagi getur tekið undir. Allt er þetta nú til að auka á vellíðan sálarinnar. Ég horfi björtum augum á komandi ár. Ætla að reyna að njóta þess út í ystu æsar. Fagna vorinu og nálinni. Trjánum, grjótinu og vatninu. Fallegum sólardögum og slagverði. Öllum fiskunum, fuglunum og öðrum dýrum. Ekki síst himbrimanum á Ónefndavatni.

Þar sem himbriminn kallar og hamingjan grær
er hugur minn núna með konunni einu........

Það er sól í sinni Hösmaga þó dagsbirtan sé lítil enn. Eins og áður er rósemi hugans honum mikilvægari en allt annað. Hún er nú til staðar og verður vonandi svo á nýja árinu. Árinu sem ég hef svo miklar væntingar til. Ári fögnuðar, gleði og ástar. Við kisi minn sendum ykkur öllum okkar bestu kveðjur og óskir. Ég þakka kommentin á bloggið mitt. Megi nýja árið færa gæfu til allra krúttanna minna. Ykkar einlægur Hösmagi.

Saturday, December 30, 2006

 

Viðbjóður.

Saddam Hussein hefur verið aflífaður. Réttlætinu væntanlega fullnægt. Réttlæti bandaríkjamanna, sem stjórnuðu sýndarréttarhöldunum yfir þessum fyrrum forseta. Hann var svo sem ekkert saklaust guðslamb. Lét t.d. myrða 2 eiginmenn dætra sinna þegar þeir voru svo bláeygðir að snúa aftur heim til Íraks. Auk alls annars sem hann hafði á samviskunni. Samt var aftaka hans einungis ógeðslegt morð sem bandaríkjamenn einir bera ábyrgð á. Bush og félagar éta kalkún sinn með bros á vör í kvöld af því að guð þeirra er réttlátur. Og Valgerður, íslenski utanríkisráðherrann, virðir ákvörðunina um morðið. Ég hef oft velt því fyrir mér hvað sé eiginlega inní hausnum á þessari kerlingu. Og hvernig það gat eiginlega gerst að hún kæmist til áhrifa í íslenskum stjórnmálum. Líklega einhver hringt í vitlaust númer. Það er að vísu ekki langt eftir af valdatíma hennar. En skaðinn er skeður samt sem áður. Það fer hrollur um venjulegt fólk yfir þessu morði. Ónotatilfinning eins og Ingibjörg Sólrún talaði um. En sauðkindin í stóli utanríkisráðherrans virðir þessa ákvörðun. Og líklega gráta þau ekki draugurinn, yfirnagarinn og véfréttin. Éta og skála í kvöld. Allt er þetta á versta veg. Og enn verra vegna einkaákvörðunar nagarans og draugsa. Sem eru enn staðfastir. Vigfúsir með Bush og öllum hinum. En ærlegu fólki verður óglatt yfir þessu. Við Raikonen mótmælum báðir og höfum skömm á þessu liði. Við berum vonandi sem flest gæfu til þess á nýju ári að velja okkur betri forystumenn en við höfum mátt þola á undanförnum árum. Forystumenn sem ekki virða ákvarðanir um morð. Hver sem á í hlut. Skálkar eða saklaust fólk. Gamla boðorðið um að þú skulir ekki mann deyða er í fullu gildi. Það er borin von að Valgerður og skoðanabræður og systur hennar skammist sín. Það hefur sennilega gleymst að koma þeirri tilfinningu fyrir í þeim. Megi skömm þeirra ekki gleymast. Sæl að sinni. Meira síðar. Ykkar Hösmagi.

Friday, December 22, 2006

 

Ró.

Það er ró yfir öllu. Starfinu, veðrinu og sál Hösmaga. Áin aðeins að hægja ferðina. Er þó enn fimmfalt meiri en í meðalrennsli. Fór hæst í 2.358 rúmmetra. Í flóðinu 1968 reiknaði mágur minn út að sólarhringsrennslið hefði dugað til að brynna öllum beljum á Suðurlandi í 18.000 ár. Það er bara heilmikið vatn. Þetta er síðasti vinnudagur hér fyrir jól. Fiskihrellir forstjóri í fjarvistum eigendanna. Og Raikonen forstjóri í Ástjörn 7 í fjarvistum fóstra síns. Nú tekur daginn að lengja á ný. Birta þó heldur rýr í hlýindafasanaum. Og bloggganga Hösmaga er líka að lengjast.3ja árið að byrja. Enn sloppið við meiðyrðamál. Enda engin sérstök mannorðsmorð verið framin hér. Og lítið um klám. Minntist einu sinni á tippi og pjöllur á framboðslistum flokkanna fyrir bæjarstjórnarkosningarnar. Enn sömu skoðunar og þar kemur fram. Bloggið dregur dám af ýmsu. Atburðum líðandi stundar í póltíkinni, veiðiskapnum, skepnuskapnum, bíladellunni, kettinum mínum, þeim rauðbröndótta Dr. Raikonen og ýmsu öðru. Og eins og ég sagði í fyrradag þá má gera ráð fyrir að ég haldi mér við efnið. Veiðin, fyrirheitna landið og allt þetta indæla. Og einnig hið gagnstæða, draugsi, véfréttin og yfirnagarinn, sem nú reynir að stjórna úr musterinu. Sem sýnir best að hann hefur ekkert lært og fáu gleymt. Mikið andskoti er ég orðinn leiður á þessum blýantsnagara. Og er örugglega ekki einn um það. En líklega má maður nú ekki missa sig neitt svona rétt fyrir jólin. Sýna umburðarlyndi og mannkærleika. Versla mikið og éta einhver ósköp. Hvað sem því líður þá hlakka ég til komandi frídaga. Og við Kimi sendum ykkur öllum okkar bestu jólaóskir. Við ætlum að láta okkur líða vel og vonum að það verði eins hjá sem allra flestum. Ykkar einlægur Hösmagi.

Wednesday, December 20, 2006

 

Regnið þétt...

til foldar fellur. Nýi veðurfasinn hans Einars Sveinbjörnssonar hefur tekið völdin hér. Samkvæmt fréttum var Hvítá farin að flæða í uppsveitum. Vonandi verður nú ekki skaði af þessum vatnavöxtum og við Selfyssingar erum pollrólegir. Áin hefur þó vaxið verulega frá því í gær. Og alltaf er hún nú tignarleg, blessunin. Leiðin er þó greið til sjávar og við vonum hið besta.
Jólin nálgast óðfluga en Hösmagi er arfaslakur. Lærið komið í pækilinn og sauðahangikjötið í ísskápnum. Skáldið væntanlegt til upplesturs úr Heiminum á morgun.Og engin jólaös á þessum vinnustað. Sem sagt tíðindalítið af vígstöðvum Hösmaga. Hann hyggur nokkuð gott til þessarar komandi hátíðar. Ætlar að njóta hennar vel.Og ekki síður komandi árs. Segir svo hugur um að það verði gott ár. Gjöfult á mörgum sviðum. Og svo eru líka smátímamót á morgun. 2ja ára bloggafmæli Hösmaga. Stundum hef ég nú hugleitt að hætta þessum skrifum. En alltaf verður eitthvað til þess að mér snýst hugur. Myndi líklega verða hálfómögulegur ef ég hætti að geta skammast út í drauginn, véfréttina og alla hina. Kosningavetur framundan og örugglega næg tilefni til að skjóta inn orði og orði á stangli. Og svo kraumar í fleiri deiglum. Meira af því síðar. Kæru vinir, bestu kveðjur að sinni frá okkur Raikonen, ykkar Hösmagi.

Sunday, December 17, 2006

 

Tímamót.

Það eru nú tímamót að verða níræður. Þó ótrúlegt megi teljast var mér boðið í fimmtugsafmæli framsóknarflokksins. Það var í fyrsta og eina skiptið sem ég hitti Hriflu Jónas.Þetta var á meðan enn var smálíf í flokknum. Kaupfélögin blómstruðu og pínulítið af hugsjónum enn blikandi. Nú 40 árum síðar er ekkert eftir. Nema valdasýkin, bitlingagræðgin og sjálfseyðingarhvötin. Þessi flokkur er endanlega búinn að vera. Hann mun ekki eiga fleiri afmæli í lifanda lífi. Andartök þessa hrörlega rekalds verða ekki mikið fleiri. Og eins og ég hef sagt áður mun ég ekki verða við kistulagninguna né jarðarförina. Ég ætla að láta mér líða sérstaklega vel heima. Gera bara virkilega vel við mig í mat og drykk. Væri vís með að bjóða vildarfólki til mín til að samfagna. Véfréttin og aðrir forystumenn flokksins trúa því enn að þeir geti villt á sér heimildir. Samanber ræðu hennar um daginn þar sem minnst var á morðæðið í Írak. Auðvitað ekki heil brú í þvælunni sem valt uppúr þessum karftaverkamanni draugsins. Ætli sauðirnir sem klöppuðu séu ekki hálfvankaðir núna? Þeir þurfa ekki að klappa miklu oftar og hafa áhyggjur af siggi í lófunum. Þegar illgresið hefur umvafið leiðið verða allir búnir að gleyma þessu slysi sem flokkurinn var.

Nú er aðeins vika til jóla. Hösmagi bara í nokkuð góðum málum. Á þó eftir að kaupa jólagjöf handa Raikonen. Og lengi geta nú rykkornin leynst í skúmaskotum. Ég ætla sannarlega að njóta hvíldar á þessum frídögum. Lesa og liggja á meltunni. Svo kemur skrírnarveisla yngsta afkomandans og útskriftarveisla lambakóngsins, nafna míns. Það er semsagt margt gott framundan. Og svo ef til vill það besta sem hent hefur þennan Fiskibana í mörg ár að auki. Leyndóið mitt frá því um daginn. Sá sem finnur það sem hann hélt að væri endanlega glatað er hólpinn. Líklega á Hösmagi eftir að ljóma eins og sól á næsta ári. Bestu kveðjur til allra krúttanna, ykkar Hösmagi.

Friday, December 15, 2006

 

Sá síðasti.

Það er svo voðalega langt síðan ég hef minnst á litla flokkinn að það er vart sæmandi. Nú hefur Hjálmar Árnason tilkynnt að hann vilji velta Guðna Ágústssyni úr 1. sætinu í suðurkjördæmi. Guðni er síðasti móhíkaninn í framsóknarflokknum. Eiginlega það eina sem eftir er af því skásta sem flokkurinn var fulltrúi fyrir. Þessvegna þarf að koma honum burt. Eins og nú standa sakir getur framsókn í hæsta lagi gert sér vonir um 1 þingmann hér. Og véfréttin frá Bifröst kærir sig ekkert um Guðna frekar en draugurinn sem kom henni í þetta embætti. Upplagt að siga Hjálmari á varaformanninn. Hjálmar þessi telur sig merkilegan þingmann. Hefur lengi langað í ráðherrastól.En honum mun ekki verða kápa úr þessu klæði sínu. Það er að vísu svo að flestu framsóknarfólki virðast allar bjargir bannaðar. En ég held að Hjálmar hafi ekkert í Guðna að gera. Mér er minnisstæður kastljósþáttur um daginn. Þar voru Þórunn Sveinbjarnardóttir og Hjálmar þessi af Romshvalanesi.Ég hef aldrei séð framsóknarmanni pakkað svona gjörsamlega saman áður. Vandræðagangur þessa þingmanns var svo yfirgengilegur að það lá við að ég vorkenndi honum.Og hef ég þó ekki sérlega mikið álit á þingmönnum SF svona yfirleitt. Þórunn þó með þeim langskástu. Og yrði miklu betri ráðherra en þessi senditík draugsins.Ég syrgi það svo sem ekki að stjórnarflokkarnir virðast algjörlega heillum horfnir í framboðsmálum sínum. Nú er aðalmálið að þyrla upp nógu miklu ryki. Hinn dýrkeypti samgönguráðherra sem hefur barið haus sínum í grjótið árum saman segist nú allt í einu hafa tekið ákvörðun um alvöru veg milli Reykjavíkur og Selfoss. Og reyndar út um allar trissur. Maðurinn sem staðið hefur fyrir fjáraustri í fánýti og frat eins og Héðinsfjarðargöng. Sem ekki einu sinni heimamenn fyrir norðan kæra sig nokkuð um. Ég held að best væri að senda þetta lið í geðrannsókn. Þessa stöðnuðu sauði sem hafa stjórnað þessu landi allt of lengi. Mennina sem hafa gefið vildarvinum sínar eigur þessarar þjóðar. Mennina sem bera ábyrgðina á ört vaxandi mismunun í tekjuskiptingunni. Fórna náttúru landsins fyrir baunadisk. Ég skammast mín fyrir þá alla þó ég hafi aldrei kosið þá.Sendum sem flesta út í kuldann og látum þá sleikja kaun sín þar til eilífðarnóns.

Samkvæmt bloggsíðu Einar Sveinbjörnssonar, veðurfræðings, erum við að fá nýjan hlýindakafla. Þetta er ákaflega góð og skemmtileg síða fyrir þá sem áhuga hafa á veðri og náttúrufari. Svo góð að ég fyrirgef Einari af öllu mínu hjarta að vera framsóknarmaður.

Við Kimi sendum ykkur okkar hlýjustu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Sunday, December 10, 2006

 

Leggur.

Í gær fór ég að skoða nýjasta afleggjarann minn. Flottur gaur að sjálfsögðu. Átti góða stund með vístölufjölskyldunni í Garðabæ. Og ég var eiginlega búinn að gleyma því hvað nýfædd börn eru nú smá. Litla afapeyjanum lá nú líka á í heiminn og fæddist því smærri en von var til. En það á eftir að togna úr stráksa. Væri illa í ætt skotið ef það gengi ekki eftir. Fór líka í hina árlegu jólaheimsókn í Rúmfatalagerinn. Keypti svona sitt lítið af hverju. Ótrúlega mikið fyrir fimmarann í þessari verslun. Það versta við höfuðborgarferðirnar á þessum árstíma er tjaran og saltið. Eðalvagninn var orðinn skrautlegur þegar heim kom. Svartur eins og fjárans íhaldið og hvítur eins sála framsóknarmanns í afturbata. Það er afskaplega slæm blanda.Þetta verður hálfgerð kleppsvinna. Tjöruhreinsirinn er góður. En hann hirðir bónið af vagninum líka. Fyrst er bónað, svo er það salt og tjara, tjöruhreinsir, vatn og sápa og þá er kominn tími á að bóna. Það varð nú minna úr vondu veðri hér um slóðir en á horfðist. Nokkuð hvasst í gærkvöldi en blíða í morgun. Afskrifaði Tangavatnið þessa helgina enda nokkuð víst að talsverður ís er á vatninu. Að vísu alltaf nokkuð stór vök því þarna er kaldavermsl undan hrauni Heklu. Sé hvernig vikan verður og aldrei má maður segja aldrei. Þeir bíða eftir mér.
Hösmaga líður ákaflega vel þessa dagana. Þiggur gjafir stórar og reynir að endurgjalda þær að einhverju leyti. Sálarnæringin er ekki síður mikilvæg en hin. Gott að fá andlega næringu með nýreyktum laxi og Veiðivatnaurriða. Við Kimi erum báðir sælir og kátir. Unum félagsskap hvors annars á þessum rólega og ljúfa sunnudegi. Kveðjur til allra, ykkar Hösmagi, óhemjuern eftir aldri.

Wednesday, December 06, 2006

 

Kyrrð.

Næturkyrrð. Smágjóla og 3ja gráðu frost. Mér heyrðist detta svartur ullarlagður í gær. Einhversstaðar nálægt Herconinum. Samkvæmt spá verður frostlaust um helgina. Kannski möguleiki á að sveigja stöngina aðeins.Stundum hefur hann nú gefið sig til í desember. Hösmagi er sem sé enn hinn sami að þessu leyti þó hann skammist út af bæjarpólitíkinni. Ætla að hlífa ykkur við meiru í bili. Og bæjarstjórninni líka.
Nú er einungis hálfur mánuður í vetrarsólhvörf. Þá kemur jólahátíðin. Þá éta margir yfir sig. Því miður eru líka margir sem kvíða þessum tíma. Undirritaður var nú í þeim hópi í nokkur ár. Nú hefur rólyndi hugans öll völd og kvíðinn að baki. Hösmagi hefur ástæðu til að hlakka sérstaklega til næsta árs.Fyrirheitna landið, veiðin og samveran við fólkið sem honum finnst vænt um. Og kannski sérstaklega eitt enn. Sem verður að vera leyndó í bili. Kannski það sem stundum er sagt um að sé of gott til að geta verið satt. En satt samt sem áður.
Ég frétti af konu sem ætlaði að fá Fljótandi heim að láni á bókasafni. Öll eintökin voru í útláni. Hún gekk inní næstu bókabúð og keypti bókina. Mér finnst að sjálfsögðu afar vænt um þetta. Eftir að hafa lesið þessa bók hef ég hugsað nokkru meira um ýmsar hliðar á tilveru okkar. Held að það sé öllum mjög hollt að gera það.Hösmagi er bara enn stoltari faðir en áður.
Jólaljósin lýsa nú upp myrkrið. Fallegi lampinn frá Edinborg í glugganum. Rifjar upp ljúfar minningar frá jólunum 2004. Með skáldinu mínu og Helgu. Haldreipi þess og heitkonu. Þá var undirritaður að stíga fyrstu sporin í blogggöngunni. Þetta var árið sem Þorláksmessa hvarf. Hösmagi reis svo upp frá dauðum um hádegi á aðfangadag. Skáldið sá til þess að líftóran héldist í honum eftir heiftarlega árás frá djöflaveiru heimsvaldasinnanna. Svo átum við læri með grænum baunum frá Ora. Töluðum, spiluðum 10.000 og nutum tilverunnar. Kannski voru það helstu mistökin að kaupa ekki skotapilsið. Hugsa að ég væri bara djöfull flottur í svoleiðis fati. Athuga það næst þegar ég verð á ferðinni í Princess Street.
Við Raikonen vökum og njótum tilverunnar hvor með öðrum. Flestir sofa enn. Bæjarstjórnarmenn einnig. Vona að þá dreymi eitthvað fallegt. Með bestu kveðjum, ykkar Hösmagi, hugsandi um ást, gleði og fögnuð.

Tuesday, December 05, 2006

 

Skrípaleikur.

Farsinn heldur áfram í bæjarstjórninni. Við Selfyssingar orðnir að athlægi um allt land. Og eigum það skilið. Þrír bæjarstjórar á fullum launum. Og íhaldið segir framsóknarmenn ljúga. Og öfugt. Og við sauðirnir göpum bara. Sum okkar eru þó löngu búin að sjá hvernig þetta fólk umgengst sannleikann. Og heldur einhver að ástandið muni lagast við þennan nýja meirihluta? Kannski fólkið sem stendur að honum. Og svona í leiðinni væri fróðlegt að fá svör frá Jóni Hjartarsyni um það hvort hann tók þessa örlagaríku ákvörðun einn. Voru félagar hans hér honum sammála um endurreisn strandkafteinanna frá því í vor? Þar með talið að gera þennan stórlúser að bæjarstjóra. Ég efast um kvalitet hans í þetta starf. En hann geislar reyndar af sjálfsáliti og fer ekki leynt með það. Fulltrúi VG í bæjarstjórninni ber mikla ábyrgð. Vonandi stendur hann undir henni en ég held að það verði honum erfitt. Mér er þetta illskiljanlegt. Það hefði verið miklu nær að setja þessa 4 afdönkuðu fulltrúa í saltpækilinn. Þeir sýndu það á síðasta kjörtímabili að þeir eru allir með tölu óhæfir. Íhaldið hefði gengið að nánast öllum kröfum VG. Og með þeirri skynsemi sem ég hef talið Jón Hjartarson búa yfir, hefði hann haldið þeim í skefjum og við fengið miklu betri bæjarstjórn. Bæjarstjórnin á að vera fyrir fólkið í þessu sveitarfélagi. Til þess kusum við þetta fólk. Við verðum reyndar lengi að gjalda skipulagsklúðurs síðustu bæjarstjórnar. Kannski ekki heiglum hent að ráða fram úr þessari stöðu. Og bæjarstjórnin á að þjóna öllum íbúunum. Ekki bara framsóknarmönnum og Seljatunguíhaldinu. Og við viljum gegnsæi í því sem gert er. Orðin leið á pukrinu og leyndinni. Það er alkunn staðreynd að menn breiða yfir vond verk sín í skjóli þess að allur andskotinn sé trúnaðarmál.Það sannast á landsstjórninni. Kárahnjúkavirkjun og fleiri myrkraverkum. Og svo brosir bara fulltrúi VG sínu breiðasta. Eins og nýi bæjarstjórinn. Ykkar Hösmagi, lítið hress með nýjan meirihluta.

 

Framhaldssaga.

Jólasveinunum úr Ingólfsfjalli dytti ekki í hug að spilla svæðinu hér við brúarsporðinn á þann veg sem til stendur. Miðjuhneysklið frá síðustu bæjarstjórn mun ekki lagast með þessari bæjarstjórn. Því miður. Hvaða ástæða er til að hlaða öllum þessum byggingum hér niður á smábletti? Við þurfum ekkert Manhattan hér. En nokkrir vinir bæjarstjórnarinnar vilja græða peninga. Heilmikla peninga. Og auðvitað eiga bæjarfulltrúarnir að hlýða. Eða hvað? Hvað með okkur hin sem viljum alls ekki þétta íbúðabyggð á þessu svæði. Turnspírur á leið til þess sem skóp manninn á nótæm. Og svo voru þessir larfar í fleiri daga að búa til eitt stykki Frankenstein. Aumingja íhaldið getur ekki leynt vonbrigðum sínum. Og við mörg hinna ekki heldur. Það er eins og okkur sé ekki viðbjargandi. Það á að moka þessu íbúðafargani burt af miðjunni í eitt skipti fyrir öll. Við skulum bara hafa hér verslanir, ölkrár og tré. Og blóm. Ýtum gróðahyggju nokkurra einstaklinga út í hafsauga. Látum menninguna blómstra og hættum að deila um þessa úrsérgengnu þvælu. Bless í bili, ykkar Hösmagi.

 

Ný bæjarstjórn...

hefur verið mynduð hér. Vinstri grænir hafa lappað uppá fleyið sem missti 3 fyrir borð í síðustu kosningum. Ég ætla ekki að afskrifa þessa tilraun strax. En ekki líst mér gæfulega á hana. Hásetar krata og framsóknar þeir sömu og síðast. Hverra ær og kýr í síðustu kosningum voru að mæra eigið ágæti. Og auðvitað fékk yfirkratinn bæjarstjórastólinn. Bitlingasýkin söm við sig á þeim bænum.Þeir eru þá orðnir 3 á launum hjá okkur bæjarstjórarnir. Íhaldskerlingin sem ráðin var úr höfuðborginni labbar í burtu með 14 millur uppá vasann. Og íhaldið hér í algeru rusli. Frankenstein sjálfur er upprisinn samkvæmt frétt í sjónvarpinu í gær. Það virðist vera vandlifað í þessu blessaða bæjarfélagi. Ég er viss um að það væri ekki verra að fá fuglana sem nú fara að tínast af fjöllum til að stjórna hér. Þeir myndu örugglega gera eitthvað skynsamlegra hér við brúarsporðinn en þetta útjaskaða og dauðuppgefna lið sem stjórnað hefur bænum undanfarin ár. Og þegar kratar og framsókn fara í hár saman á næsta ári stendur Jón á hliðarlínunni og botnar ekki neitt í neinu. Kannski verður hann bara bæjarstjóri næst. Við fáum þó útsvarið hans í kassann. Eina ljósglætan í þessu svartnætti er að Eyþór Arnalds er endanlega úti í kuldanum. Með bæjarstjórakveðju, ykkar Hösmagi.

Saturday, December 02, 2006

 

Ærukærleikur.

Ég minntist á það um daginn að ég teldi flesta kjósendur íhaldsins venjulegt og sómakært fólk. Stundum verða menn að endurmeta skoðanir sínar. Samkvæmt skoðanakönnunum nýtur sjálfstæðisflokkurinn meira fylgis í Suðurkjördæmi en öðrum kjördæmum. Sumir hafa einstakt lag á að hafa endaskipti á hlutunum. Hér dansa íhaldshöfuðin eftir tugthúslimunum. Ég lýsi hér með frati á kjósendur íhaldsins hér í kjördæminu. Hafa líkast til farið að dæmi Pílatusar og skolað af lúkunum. Þetta er bara ámáttlegt. Þessir kjósendur vilja greinilega að maður sem brotið hefur lögin í skjóli trúnaðar þeirra sjálfra skuli aftur komast á þing til að setja þeim lög til að fara eftir. Þeir hafa líklega gleymt a.m.k. einu af gömlu boðorðunum. Þú skalt ekki stela. Mættu alveg rifja það upp.
Meirihlutinn í Árborg sprunginn með hvelli. Ástæðan er nú ekki ljós hinum almenna borgara hér. Ég trúi öllu með fyrirvara sem þetta fólk segir. En það er þó víst að íhaldið ber enga ábyrgð á skipulagsklúðri síðustu bæjarstjórnar. Þar sem þeir Frans fasteignasali og Einar El vöfðu henni um fingur sér. Sá skaði verður seint bættur. Það verður fróðlegt að vita hvað gerist í dag. Þó Jón Hjartarson sé hinn vænsti maður óttast ég að nýr meirihluti með þessum 4 fyrrverandi og núverandi bæjarfulltrúum vinni nú ekki nein stór afrek. Við verðum að bíða og sjá hvað setur.

Hér komu þau skáldið og heitkona þess í gær. Indælisheimsókn. Spjall um lífið og tilveruna og fleira skemmtilegt. Varla friður hér við tölvuna fyrir athyglissýki litla ferfætta vinarins. Myrkur, logn og hið ljúfasta desemberveður. Hlýjar kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online