Friday, March 30, 2007

 

Saumspretta.

Ég hringdi í Hörð yfirbifvélavirkja í gær. Þennan Húdíni, sem opnaði Grána í hittifyrra. Komið að skoðun á Lancernum og þá er best að byrja á Herði. Hann les stundum bloggið mitt og spurði hvort ég væri búinn að finna kveikjarann. Nei, sagði ég. Hann var þess fullviss að eldfærið væri í bílnum. Ég tók hús á Herði eftir kvöldmatinn. Hann svaf í makindum yfir fréttum sjónvarpsins. Svo hófst leitin. Það er sjaldan sem Hörður verður að viðurkenna ósigur sinn. Hann varð að trúa því að geimveran hefði kveikjarann. Spurði þó að lokum hvort áhaldið væri örugglega ekki í úlpunni. Nei, sagði ég. Ég hélt heimleiðis og hugsaði um reykjandi geimverur. Dundaði heillengi við skattframtal Hösmaga ehf. Síðan gengum við Raikonen til náða. Í morgunsárið leituðu orð Húdínis á mig. Best að gerast fjölþreifinn við úlpuna. Og viti menn. Haldiði ekki að eldfærið hafi verið inní fóðrinu neðst hægra megin. Náttúrulögmálin, eðlis og efnafræðin höfðu betur gegn hinu yfirnáttúrulega. Rétt neðan við vasann var saumspretta. Þangað hafði eldfærið skriðið. Ég varð eiginlega bæði glaður og hryggur í senn. Glaður yfir stálinu mínu, sem notalegt er að velta í hönd sinni. Auk notagildisins. Og hryggur yfir að ímyndunarafl mitt hafði beði hnekki. Líkasttil engin geimvera verið með mér. Og hafi hún verið með mér þá líklega hætt að reykja. Svona geta nú skemmtilegar ímyndanir runnið gjörsamlega út í sandinn. En nú hef ég stálið stinnt í hendi mér.Endurfundurinn varð fyrr en mig grunaði.

Þrítugasti dagur mars runninn upp. Tvöfalt afmæli, Helga og Raikonen. Ég ætla að biðja Sölva minn að knúsa haldreipið sitt frá mér.Mér finnst vænt um þetta snæri, og tel skáldið fullsæmt af samneyti við það. Stoltur af þeim báðum. Sjálfur er ég búinn að knúsa Kimi. Þennan góða og ljúfa vin minn úr dýraríkinu. Veðrið dásamlegt og við báðir búnir að njóta þess. Rækjurnar voru þíddar á meðan. Og dýrið kumraði af gleði þegar skálin var sett fyrir það. Sannarlega indæll morgun. Helgin að renna í hlað. Hin næsta byrjar snemma og verður lengri. Þó ég trúi nú svona mátulega fagna ég þessari hátíð. Ætla að njóta hennar og kannski geri ég eitthvað sniðugt. Herconinn er við öllu búinn og græna þruman einnig. Með blíðum kveðjum frá mér og hinum 2ja ára Kimi, ykkar Hösmagi..

Thursday, March 29, 2007

 

Nauðgun og guðlast.

Ekki batna þeir meðlimir spaugstofunnar. Þeir voru kærðir fyrir guðlast um árið og nú eru ýmsir áfjáðir í að þeir fái kárínur fyrir að hafa nauðgað þjóðsöngnum. Sungu um smáblómið eilífa sem tilbæði Alcan og gæfi síðan upp öndina. Fyrsti maðurinn á moggablogginu sem benti á þetta alvarlega lögbrot var Eyþór Arnalds. Vitnaði í lögin um þjóðsönginn og var ekki í nokkrum vafa um sektina. Ég er að sjálfsögðu þakklátur þegar löghlýðnir borgarar benda mér á glæpagengi sem einskis svífast. Eyþór yrði góður starfskraftur hjá saksóknaraembættinu. Þar eiga menn að hafa vakandi auga á athöfnum borgaranna og grípa inní og góma skálka sem fremja lögbrot.
Mér finnst þjóðsöngurinn lítið skemmtilegur. Þungur og erfiður í flutningi. Og textinn er sálmur frá 19. öld. Lagið hægfara og maður bíður bara eftir að flutningnum ljúki. Ég sæi ekki eftir honum ef ákveðið yrði að breyta til. Helgislepjan og viðkvæmnin gagnvart þjóðsöngnum og fánanum er hvimleið. Þeir sem nú gala hæst og vilja þá spaugstofustráka í tugthúsið sögðu lítið þegar við réðumst inn í Írak. Ef eitthvað var vanvirðing við íslenska fánann og þjóðerni okkar, þ.m.t. þjóðsönginn, var það ákvörðunin um stuðning við hinar staðföstu og morðóðu þjóðir. Ég ætla að vona að ekki gleymist hverjir það voru sem fyrir því stóðu. Þeir eru að nafninu til horfnir úr pólitíkinni. Það kemur þó í ljós annað slagið að þeir eru enn við sama heygarðshornið. Annar annars heims og heldur í spottana og hinn í musterinu og hefur ekki enn lært venjulega mannasiði. Dýrkeypustu menn í gjörvallri pólitískri sögu landsins.
Háðið getur verið biturt. Og hvað er verra nú en að benda á sleikjuganginn gagnvart eigendum álversins í Straumsvík.Það er eiginlega miklu verra en venjulegt guðlast eins og um páskana forðum. Persónunjósnir auðhringsins eru nú til athugunar. Hvernig sem þessi íbúakosning suður í Hafnarfirði fer er hún gott dæmi um skrumskælingu á lýðræðinu. Það sjáum við a.m.k. sem ekki trúum á guðinn Alcan.

Þó hitastigið sé nú við núllið er mikill vorhugur kominn í Hösmaga gamla. Blankalogn og löngu orðið bjart. Á næstu dögum er ætlun hans að láta afmarka fyrirheitna landið með stikum og flöggum. Langar að planta fyrsta trénu þann 27. apríl. Styttist í páskafríið, vor, sumar og sælu. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Monday, March 26, 2007

 

Kveikjarinn sem kvarf...

eða hvarf öllu heldur. Snemma í gærmorgun var ég staddur í einkabifreið okkar skáldsins, Lanca hins smáa. Og bláa reyndar einnig. Það er liturinn að utanverðu en sálin er rauð og græn.Hann hefur stóra sál eins og allir mínir bílar um dagana. Vindlapakkinn og Zippóinn lágu á mælaborðinu. Ég náði taki á hvorutveggja og hugðist setja þessa nytjahluti mína í vasann. Og vindlarnir rötuðu. Orðnir svo vanir þessu. En einvernveginn komst hinn bensínknúni ekki í vasann. Og það merkilega við þetta er, að það kom mér ekki á óvart. Ég fann kveikjarann skríða burtu úr hönd minni. Hvert hann fór veit ég hinsvegar ekki. Í fyrsta lagi hefði ég heyrt hann detta í gólfið ef það hefði gerst. Enda bar leitin engan árangur. Ég hefði líka fundið hann í sætinu. Hann var ekki í öðrum vösum úlpunnar. Hann er bara kveikjarinn sem kvarf. Ég held að þetta sé verulegt rannsóknarefni. Töframenn kunna svona trikk. En mér hefur aldrei tekist að framkvæma nein trikk. Og var heldur alls ekki að reyna það. Sem mikill raunhyggjumaður er mér þetta hulin ráðgáta. Bókstaflega ofvaxið mínum skilningi á tilverunni og eðli hlutanna. Náttúrulögmálum, eðlis- og efnafræði og allskonar öðrum fræðum. Kannski hefur bara verið ósýnileg geimvera þarna með mér. Sárvantað eld og séð sér leik á borði. Ég þykist viss um að geimverur séu til. Og kannski sumar ósýnilegar. Og Zippóinn er mjög merkilegt fyrirbæri. Með æviábyrgð frá verksmiðjunni. Og gengur fyrir nánast öllu sem flýtur nema vatni, mjólk og kóki. Frostvari t.d. ágætur. Flugvélabensín, tré- og rakspíri virka líka. Steinolía og jafnvel dieselolía. En nú gagnar það mér lítið. Eldfærið horfið út í eterinn. En af fenginni reynslu er ég ekki úrkula vonar. Hef upplifað hvarf nytjahluta í lífi mínu áður. Sem hafa svo skilað sér með óskiljanlegum hætti. Vonandi skilar þessi aliens kveikjaranum aftur. Mér þótti vænt um þennan hlut. Notalegt að hafa volgt stálið í hendi sinni. Ég sakna hans og hlakka til endurfunda þegar og ef þeir verða.Það liggur hér gaskveikjari á borðinu. Ekkert í hann varið. Sálarlaust plastdrasl. Ó hvað það væri indælt að hafa stálið hérna hjá sér. Varla að ég geti á heilum mér tekið yfir þessu óþverralega lymskubragði. Kimi er slakur yfir þessu. Sefur nú á stólnum snjáða sem man fífil sinn fegri. Kimi er hinsvegar smávinurinn ígulfagri. Flaggskip fegurðarinnar hér í Ástjörn. Með dularmögnuðum kveðjum, ykkar Hösmagi.

Sunday, March 25, 2007

 

Trúarsetningar.

Það er mikið bloggað á Moggablogginu þessa dagana. Sumum er nú fyrirmunað að skilja húmor. Og aðrir eru fastir í trúarkreddum sínum. Verstir eru þeir sem eru fastir í biblíunni. Þeirra rök eru lögmálið sjálft. Við hin eigum auðvitað að hlýða. Nú andskotast einn út í stofnfrumulögin nýju. Hefur allt á hornum sér vegna Gay Pride og Villa borgarstjóra, sem kyssti á hönd einnar dragdrottningarinnar. Það er nú ekki aldeilis amalegt að hafa svona siðgæðisverði. Sem segja okkur hvernig hlutirnir eiga að vera. Ég hef haldið því fram hér áður að ekkert hafi gert mannkindinni neitt verra en trúarbrögðin. Ofstækismaðurinn sem hamast á Moggablogginu mun vera guðfræðingur. Ég hef reyndar aldrei skilið þessa menntun. Það er líka reginmunur á guðfræðinni og öðrum greinum. Hún er á sama stiginu og fyrir 2000 árum. Það er líklega vegna þess að að það er ekki hægt að þróa hin algildu sannindi. Þar er stærsti munurinn á henni og t.d. raungreinunum. Gæfumunurinn. Kristnir guðfræðingar eiga ekki að láta svona. Tileinka sér frekar umburðarlyndið sem Kristur kenndi forðum.

Hin nýja íslandsfylking Ómars Ragnarssonar er að komast á koppinn. Það er auðvitað fagnaðarefni ef eitthvað af hægra liðinu er að verða grænt. Og mesti ávinningurinn yrði ef þetta framboð dygði til þess að koma frjálslynda flokknum fyrir ætternisstapa. Ég treysti Ómari vel til góðra verka. En það eru alltaf gikkir í hverri veiðistöð. Með honum eru nokkrir pólitískir lúserar sem vonast til að komast á þing með þessum hætti. Vinir einkavæðingarinnar t.d. Það verður fróðlegt að sjá næstu könnun Gallup. Það sem mestu máli skiptir er að sjálfsögðu að fella ríkisstjórnina. Hverfa af braut herferðarinnar gegn náttúrinni, auðmannadekrinu og misskiptingunni á lífsgæðunum. Og fyrir hina raungrænu og þá, sem hafa fengið nóg af þeim sem hafa verið að sölsa eigur þjóðarinnar undir sig og vini sína, verður valið auðvelt í kosningunum.

Hösmagi er nokkuð góður með sig eftir þessa nýliðnu helgi. Kom heilmiklu í verk og hélt áfram að elska köttinn sinn. Hið almenna brauðstrit að hefjast aftur og veðrið indælt. Svo er að styttast í páska með kærkomnu fríi. Kimi nýkominn inn og þrífur tær sínar og skott. Við sendum ykkur bestu kveðjur úr blíðunni, ykkar Hösmagi.

Friday, March 23, 2007

 

Feluleikur.

Samkvæmt skoðanakönnunum hefur Sf. misst u.þ.b. þriðjung af kjörfylgi sínu í síðustu kosningum. Og það virðist fátt benda til nokkurs bata. Ég tel mig nú hafa nokkra skýringu á þessu. Þetta er gamla haltu mér, slepptu mér, aðferðafræðin. Engan má styggja fyrir kosningar. Það er slegið úr og í og forustan er ósamstíga. Þetta er örugglega mjög slæmt fyrir flokkinn. Fólk vill vita hvað það er að kjósa. Fyrir hvað flokkurinn stendur. Efsti maður Sf í Kraganum er jafnframt bæjarfulltrúi flokksins í Hafnarfirði.Það var viðtal við hann í útvarpinu í morgun. Ekki nokkur leið að draga uppúr honum hvort hann væri fylgjandi stækkun álversins eða á móti stækkun. Sin prívatskoðin skipti ekki máli.Það er vitað að kratar eru klofnir í málinu. En ekki mega kjósendur fá að vita afstöðu þessa þingmannsefnis Sf. Svona vinnubrögð virka einfaldlega ekki í pólitíkinni nú um stundir. Krötum er að vísu nokkur vorkunn. Þeir eru að vonum ókátir með stöðu sína. Fólk vill bara skýrar línur. Og það virðist vera um seinan fyrir Sf að hysja upp um sig. Þeir sem hafa yfirgefið fleyið snúa ekki til baka að sinni. Stóri flokkurinn sem átti að vera mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn er bara draumsýnin ein. Sem stendur svona eins og helmingurinn af honum. Menn verða að hafa einurð til að hafa skýra stefnu og þor til að standa við hana. Órækasta sönnunin er núverandi staða vinstri grænna. Menn velkjast ekki í vafa um stefnuna þar á bæ. Ég ætla þó að vona að orð Ingibjargar Sólrúnar um pilsnerfylgi framsóknar verði ekki að áhrínsorðum á henni sjálfri. Það er öllum ljóst, nema kannski sumu flokksfólki Sf, að þeir þurfa í naflaskoðun. Gjörbreyta vinnubrögðum sínum m.a. til að fólk viti hvað það er að kjósa. Þegar ég hugsa til baka um það sem ég hef skrifað um Sf hér í þessum pistlum s.l. 2 ár finnst mér í raun með ólikindum hvernig spár mínar hafa gengið eftir. Og það er ekki langt síðan hlegið var að mér fyrir að halda því fram að VG gæti orðið stærri en Sf fyrir kosningar. En gömlu máltækin standa fyrir sínu. Sá hlær best sem síðast hlær. Sendi vinum mínum í Sf batakveðjur.

Snjórinn að hverfa. Föstudagur á fljúgandi siglingu og vorið nálgast. Bestu kveðjur til Parísar, Köben og hreint út um allt, ykkar Hösmagi.

Wednesday, March 21, 2007

 

Lýðræði hverra?

Í mánaðarlokin kjósa Hafnfirðingar um hvort þeir vilji stækkun Straumsvíkurálversins eða ekki.Þeir skiptast nú í fylkingar og hart er barist. Þeir sem vilja stækkun eiga sér sterkan bandamann. Rannveigu Rist og flest hennar lið með ótakmörkuð fjárráð. Upplýsingafulltrúinn í álverinu upplýsti okkur um það í gær að þeir berðust eins og stjórnmálaflokkur. Hringjandi út og suður til að fá fólk á sitt band. Sól í Straumi og aðrir sem eru mótfallnir stækkun eru ekki í sömu stöðu. Þeir hafa að vísu sannfæringu sína og góðan málstað að vopni. En þeir hafa ekki aðgang að neinum sjóðum eins og hinn erlendi auðhringur sem nú sýnir okkur hvernig lýðræðið virkar. Hér gilda ekki lögin sem stjórnmálaflokkar verða að fara eftir. Einungis peningalýðræði hins erlenda auðhrings. Og íbúar sveitarfélaganna við Þjórsá eru ekki spurðir um neitt. Þar á bara að virkja hvað sem tautar og raular. Svo segir umhverfisráðherrann, Jónína frambærilega, að stjórnarandstaðan sé á móti náttúruvernd. Hafi hótað málþófi um náttúruverndarfrumvarpið. Komið í veg fyrir sættir. Sættir um svona 4-5 álver í viðbót og svo megi hugsa málið. Raunverulegir umhverfissinnar sjá í gegnum svona kúnstir. Forustumenn framsóknar virðast gjörsamlega vera komnir úr sambandi við raunveruleikann. Fylgishrunið blasir reyndar við þeim og því eru öll meðul heimil. Og sumir þeirra hafa mynd af Véfréttinni uppá vegg hjá sér. Svona eins og í gamla daga þegar litlar styttur af Stalín voru til á mörgum heimilum á Íslandi.Nú sitja menn við og reikna og reikna. Eins og málið snúist einungis um hvað margar krónur komi inní kassann hjá krötunum í Hafnarfirði. Á það eitt að ráða? Hvað með okkur sunnlendinga og alla aðra landsmenn? Eiga Hafnfirðingar einir að ákveða hvort Straumsvíkurálverið verður að stærsta álveri í Evrópu? Ég segi nú að þetta sé mál okkar allra.
Það er margt rætt á Moggablogginu þessa dagana. Landsmálin, dægurflugurnar og svo framvegis. Sumir segja að ef Vinstri grænir verði jafnöflugir og kannanir benda til sé voðinn framundan. Kjarnorkuvetur og stóra stopp. Þeir eru brjálæðingar. Og einn ungur laganemi segir að þeir séu glæpamenn. Stóra veislan muni taka enda. Allir niður á vesaldarstigið. Þegar fólk er að míga á sig af hræðslu talar það svona.Öll tiltæk ráð leyfileg. Sérstaklega lygin. Og gamla góða aðferðin að gera fólki upp skoðanir. Mjög vinsæl aðferð. Mesti stóriðjuflokkur íslandssögunnar er framsóknarflokkurinn. Nú er ránfugl íhaldsins líka orðinn grænn. Og lausn Sf. er Fagra Ísland.
Sagan er besti vitnisburðurinn um heilindi. Þar hefur bara einn flokkur hreina samvisku. Straumurinn til vinstri grænna verður ekki stöðvaður. Mikill kosningasigur okkar í vor mun verða þjóðinni til farsældar. Og fyrir mig er það gleðiefni að nú munu Sunnlendingar eignast þingmenn sem við þurfum ekki að fyrirverða okkur fyrir. Smáuppbót fyrir að fá líka dæmdan sakamann sem fulltrúa okkar. Það er að vísu skelfilegt en ég firri mig allri ábyrgð á því.

Orðið albjart og veður milt. Umhleypingar í tíðinni nú í byrjun einmánuðar. Dagurinn orðin lengri en nóttin. Ég mun þræla fyrir kapitalistana í dag og á morgun. Svo ætla ég að þræla alveg voðalega mikið um helgina. Fyrir sjálfan mig.Og líklega er ég nú svolítill kapitalisti inn við beinið.Bestu kveðjur í allar áttir frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Sunday, March 18, 2007

 

Sök eða sýkna?

Forstjórar hinnar þríhöfða olíumafíu sluppu fyrir horn í vikunni. Mennirnir sem þverneituðu að hafa nokkurntíma plottað um allt svindlið. Þegar búið var að sauma nægilega að þeim báðu þeir sér griða í fjölmiðlum. Báðu okkur um fyrirgefningu á samræði um svindl. Svindl, sem var ekkert nema rán um hábjartan dag. Og líka að næturþeli. Lagaskógurinn okkar er stundum þykkur. Og auðvelt að villast í honum. Það var á lagatæknilegum forsendum að málinu gegn þeim , sem voru búnir að játa sakir, var vísað frá Hæstarétti. Ég minntist á það hér í fyrra að ég gæti ekki skilið að félag gæti haft sjálfstæða hugsun. Tölvan, bensíntankurinn eða peningakassinn. Það er auðvitað mjög slæmt að menn sem sannanlega eru sekir skuli sleppa. Þeir hefðu átt skilið að fá að dvelja á Eyrarbakka um tíma. Einn þeirra er forstjóri enn í dag. Og samkeppni þessara félaga er engin. Hækka öll verðið á dreitlinum um sömu upphæð á sama klukkutímanum. Síðast var verðið hækkað fyrir örfáum dögum. Hækkandi heimsmarkaðsverð hét það þann daginn. Sama morgun og þetta gerðist hafði verðið hinsvegar fallið töluvert. Þeir sem sífellt tönnlast á trúarsetningum frjálshyggjunnar hljóta að vera glaðir. Einstaklingsframtakið að verki. Sem felst reyndar oftast í ótakmörkuðu frelsi til að svindla á náunganum. Þessir trúbræður vilja líka einkavæða alla samfélagsþjónustu. Þetta á þegar að nokkru leyti við í heilbrigðisþjónustunni, t.d. tannlækningum. Það er svo komið hér á landi að fátækustu fjölskyldurnar hafa ekki efni á að senda börnin til tannlæknis. Þetta sýnir í hnotskurn að kenning mín um frjálshyggjupostulana er rétt. Einkareksturinn verður réttur hinna sterku til að troða á hinum smáu. Og það hefur sýnt sig með óumdeilanlegum hætti að einkavæðingin verður til þess að hækka verðið á þjónustunni. Það sanna t.d. bankarnir og síminn. Við skulum snúa af þessari braut. Stöðva þá ótakmörkuðu græðgisvæðingu sem tröllríður öllu undir stjórn íhalds og framsóknar.

Raikonen fór létt með að landa sigri í Ástralíu í nótt. Þessi sérútbúni Fíat reyndist " bara nokkuð góður" eins og allir bílarnir hans Sverris bílasala. Við nafni hans fylgdumst með og urðum harla glaðir að leikslokum. Við hlökkum báðir til næsta kappaksturs.
Veðrið hér er nú sérlega fallegt. Allt alhvítt og sól hátt á lofti. Svolítið kalt í norðangjólunni. Svo hlýnar aftur þegar líður á vikuna og líklega hverfur snjórinn fljótt. Ég mun ekki sakna hans fremur en vant er. Nokkur framtöl farin á öldum ljósvakans og nokkur í farvatninu. Þrátt fyrir óréttlæti, svindl og svínarí, erum við kisi minn hressir og kátir. Sólbjartar sunnudagskveðjur til ykkar krúttanna, ykkar Hösmagi.

Saturday, March 17, 2007

 

Riddarinn sjónumhryggi.

Við könnumst öll við Don Kíkóta. Bardagann við vindmyllurnar, þjóninn hans og hrossin. Þetta fræga ævintýri Cervantesar minnir nú á foringja framsóknarflokksins. Geir er reyndar ekki langt undan eftir viðtalið í sjónvarpinu í gær. Það er eins og raunveruleikinn sé gjörsamlega hulinn þessum mönnum. Þeir botna ekki neitt í neinu. Enda framsóknarflokkurinn miðjuflokkur og þjóðhyggjan alveg yfirgengilega mikil. Formaðurinn er ákaflega sjónumhryggur nú. Hann fékk auðlindaákvæðið í hausinn af því stjórnarandstaðan sveik gefin loforð. Og varaformaðurinn neitar að trúa því að skoðanakönnun Gallups sýni 6,9% fylgi flokksins. Guðna virðast líka allar bjargir bannaðar. Jafn sjónumhryggur og fyrirbærið í formannsstólnum. Ég hélt að ríkisstjórnarflokkarnir væru með meirihluta á Alþingi. Af hverju knúðu þeir ekki áform sín fram með þessum sama meirihluta? Þá hefðu þeir staðið með pálmann í höndunum og getað sagt að þetta hafi þeim nú tekist þrátt fyrir alla óþjóðhollu fávitana í stjórnarandstöðunni. Málið er líklega ekki svona einfalt. Það kemst stundum upp um strákinn Tuma. Þetta mál snérist einfaldlega í höndunum á þessum mönnum. Enda ákvæðið svo loðið og teygjanlegt að þeir skildu það ekki sjálfir. Handónýtt drasl og að mínu mati algjör andstæða við þann tilgang sem það á að hafa. Þetta finnst reyndar ansi mörgum öðrum júristum líka.Nokkurskonar staðfesting á þjófnaðinum á auðlindum sjávar. Véfréttin mun aldrei styggja drauginn. Það er hennar ógæfa. Upphaf hennar og endir. Og eins og staðan er nú á hún ekki fluguséns á að verða þingmaður. Meðan formaður og varaformaður haga sér eins og trúðar í sirkus er engin von um að flokkurinn hressist. Svo botna þeir ekkert í því að hann skuli vera gjörsamlega á rassgatinu. Mín tilfinning er sú að nú verði aurarnir ekki sparaðir til að reyna að koma nýju andliti á flokkinn fyrir kosningarnar. Þeim tókst það bærilega síðast. En nú munu þeir ekki uppskera á sama veg. Þessi níræði stjórnmálaflokkur er búinn að vera.
Frjálslyndi flokkurinn virðist líka vera að dala. Vonandi þurrkast hann alveg út í kosningunum. Það er enn möguleiki á að Sf. braggist. Sá flokkur verður þó að horfast í augu við staðreyndir ef VG verður stærri. Ef það besta úr báðum nær saman gætum við gert góða hluti. Ef við þurfum frjálslynda flokkinn með í meirihluta þá er eins gott að sleppa tilrauninni. Það yrði vonlaus vegferð frá upphafi.

Kimi Raikonen er kominn á ráspólinn í Ástralíu. Ég er viss um að ef hann hefur góðan bíl mun hann verða heimsmeistari í Formúlu 1 þegar keppni lýkur í haust. Ég hef reyndar aldrei haft neinn áhuga á ítölskum rennireiðum. Aldrei haft neina löngun til að eignast Fíat. Samt sem áður mun ég halda með þessum geðþekka finnska ökufanti. Eins og með Hakkinen forðum daga. Kötturinn Kimi er örugglega sama sinnis. Með ljúfri laugardagskveðju, ykkar Hösmagi.

Thursday, March 15, 2007

 

Heimsmet?

Í gærkvöldi sagði Véfréttin mikla að stjórnarandstaðan hefði svikið gefin loforð um stuðning við búmerangið þeirra Geirs. Henni fer lítið fram. Endalaus endaskipti á sannleikanum. Geir virðist hafa tekist að klóra sig upp úr pyttinum en Véfréttin baðar sig þar áfram . Hún gerir sér enga grein fyrir að þessi brella hafi misheppnast. Það sýnir betur en allt annað að draugurinn var seinheppinn þegar hann handvaldi þessa persónu sem arftaka sinn. Kletturinn, bjargið trausta, er bara froðan ein.

Nú líður aftur að helgi. Þetta verður nú vinnuhelgi hjá mér.Framtöl, tiltektir og kattaruppeldi. Raikonen er reyndar ákaflega prúður og vel upp alinn. Stundum glettinn og galsafullur eins og vera ber. Á sunnudaginn byrjar nafni hans baráttuna hjá nýju liði. Það verður fróðlegt að fygjast með gengi hans þar. Það er kannski fáfengilegt að hafa gaman af kappakstri. Mikið magn af koldioxíði sem spýtist út í loftið úr þessum tryllitækjum. Þó bara lítilræði miðað við öll vígtólin sem ganga á hverjum degi. Ef við drægjum úr öllum vígbúnaðinum myndu mörg vandamál leysast af sjálfu sér. Við virðumst bara allt of fá sem sjáum að lífið væru miklu betra fyrir alla ef friður væri meira metinn.

Nú hefur maður játað á sig mikið af hryðjuverkum. Hann lýsti því yfir á fundi í gær. Bandaríkjamenn eru seigir við að hafa uppá sökudólgum. Ég hef nú samt mínar efasemdir. Þennan mann höfðu þeir meðhöndlað í leynifangelsum sínum nokkuð lengi. Og nú undir það síðasta var hann í Guantanama búðum þessa lýðræðisríkis Bush. Þar gilda einungis þær reglur sem kanarnir setja sjálfir. Er nú alveg víst að sannleikurinn sé þessi? Ég er efasemdarmaður um það.

Þrátt fyrir snjóhulu finnst mér vorið vera að koma. Og svo er að koma kosningavor að auki. Ég vona að sumarið verið gott og skemmtilegt við veiði, brauð og leiki. Skógrækt og snudd á fyrirheitna landinu. Það er til margs að hlakka þrátt fyrir allt. Við Kimi sendum ljúfustu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Wednesday, March 14, 2007

 

Í eldhúsinu.

Ég fylgdist með ræðum þingmanna í sjónvarpinu í gærkvöldi. Ég fór að velta því fyrir mér hversvegna sumt fólk getur ekki komið til dyra eins og það er klætt. Hefur sífelld endaskipti á sannleikanum. Kannski er það bara ómeðvitað. Stjórnarliðar máttu ekki vatni halda yfir velsæld landsmanna. Sumra a.m.k. Manna eins og Bjarna Ámannssonar sem nýlega nýtti sér " kauprétt" sinn og hagnaðist um 360 millur á einum sólarhring. Það verður fróðlegt að sjá hver spilar í fimmtugsafmælinu hans.Það tæki verkamanninn á aðra öld að vinna fyrir þessum peningum. Og myndi borga af þeim þrefalt hærri skatt. Þetta er framtíðarsýn þeirra sem nú sitja við stjórnvölinn. Það er ekki undarlegt að þetta fólk óttist vinstri græna. Ungu framsóknarþingmennirnir, Sæunn og litla gamalmennið, höfðu lítið annað til málanna að leggja en að lýsa vánni ,sem fyrir dyrum yrði, ef þessi voðalegi flokkur fær aukin áhrif. Leiðinlegt að Guðjón Ólafur skyldi ekki líka fá að segja nokkur velvalin orð.Og menntamálaráðherrann sagði að loforð stjórnarandstöðunnar væru bara innstæðulausir tékkar.Nýkominn úr háskólanum sem hún færði nokkra milljarða á silfurfati. Milljarða sem næsta ríkisstjórn og þarnæsta eiga að standa við að greiða. Einber sýndarmennska og algjörlega innistæðulaus ávísun. Véfréttin með nákvæmlega sömu ræðuna. Eins og forritað vélmenni. Aldrei meiri þörf fyrir framsóknarmennsku og einmitt nú. Ekki hefur höfuðið lagast eftir að búmerangið þeirra Geirs lenti aftur í hausnum á þeim. Og búmerangið ónýtt eftir. Þetta er einhver misheppnaðasta kosningabrella í allri stjórnmálasögunni hérlendis. Það er að vísu afrek útaf fyrir sig hjá formanni framsóknarflokksins að hafa tekist að plata Geir með sér út í þennan drullupytt. Langflestir sjá í gegnum svona kúnstir. Og þessir meistarar í dullukökubakstri munu uppskera í samræmi við athafnirnar. Þeim mun ekki takast að snúa óhjákvæmilegri þróun við. Örvæntingin knýr menn stundum til örþrifaráða sem verða til þess að þeir fara úr öskunni í eldinn. Við skulum gera öldu vinstri grænna enn öflugri en hún þegar er orðin. Gerum hana að brimi og stórsjó. Þá getum við átt von á fleiru en fréttum af því hver spilar í afmælum hinnar nýju stéttar á næstu árum.

Alhvít jörð á Selfossi í morgun. Dánardagur Júlúsar keisara í dag. Ég ætla á fund í kvöld. Hitta 3 verðandi þingmenn VG. Og það skemmtilegasta við það er að þeir munu verða þingmenn í kjördæmum sem ekki hafa áður státað af röddum VG. Ég vona allavega að þau Alma Lísa og Atli verði bæði þingmenn Suðurkjördæmis í vor. Og Guðfríður Lilja á sannarlega erindi í Kraganum.Það er bara ofureðlilegt að það fari skjálfti um talsmenn ríkisstjórnarflokkanna. Þeir tala um stopp stopp stefnu VG. Það er aldrei þessu vant sannmæli. Við ætlum að stoppa þá af.

Bestu kveðjur úr næturkyrrðinni, ykkar Hösmagi.

 

Sjálfhverfur júristi?

Þegar ég lauk síðasta prófinu í lagadeildinni 31. maí 1972 var ég óskaplega glaður. Ekki vegna þess að ég teldi mig eitthvað meiri og stærri af því að geta titlað mig lögfræðing. Candidati juris. Það var sólskin og hiti þennan dag. Og veisla um kvöldið. Begga 4ra og Maggi 2ja. Heilmikið fagnaðarteiti á Vitastíg 7 ,með mömmu, eiginkonu og börnum og góðum vinum. Eftirminnilegur og indæll dagur. Ég hef aldrei þolað menntahroka og tel mig ekki vera haldinn af honum. Líður best í gallabuxum og rúllukragapeysu. En ég fer ekki þannig klæddur í réttarsali. Þegar verið er að tala um auðlindaákvæðið sem þau Véfréttin og Geir ætla að nauðga gegnum þingið nú í vikunni hafa ýmsir löglærðir, menn og konur, varað við því. Við uppskerum svo ályktanir um að við séum sjálfhverfir júristar sem séum ekki marktæk. Lögfræðin er huglæg vísindi. Þar eru engar staðreyndir einhlítar. Eins og að 2x2 séu 4.Það sést t.d. vel á öllum sératkvæðunum þegar dómstólar klofna. Það er því afar mikilvægt að flana ekki að breytingum á stjórnarskránni. Þetta er líka einungis ómerkileg kosningabrella Véfréttarinnar. Sem ekki er einu sinni kjörin á þing. Skrípaleikurinn er flestum augljós. Hótanir um stjórnarslit og fleira á fundinum um daginn eru ekki annað en fíflagangur til að fela eymd þessarar flokksnefnu. Enda eru þingmenn flokksins farnir á taugum yfir afhroðinu sem bíður þeirra. Það sást vel á upphrópunum varaformannsins í þinginu í gær. Örvæntingin skein úr orðum hans. Hvernig skyldi honum líða ef Vinstri grænir verða stærri en framsókn hér í Suðurkjördæmi? Hann er svo sem ekki einn um að míga á sig af skelfingu. Nú boða hörðustu íhaldmennirnir kjarnorkuvetur í efnahagsmálum hér ef Steingrímur og við félagar hans komumst til áhrifa í ríkisstjórn eftir kosningar. Þeir kalla líka stuðningssmenn VG brjálæðinga. Sama er mér. Léttklikkaður fyrir hvort eð er. Enda sjálfhverfur júristi. En það þarf samkvæmt þessu að byggja ansi stóran geðspítala ef fram fer sem horfir. Varla á að láta alla vitleysingana ,sem kjósa VG í vor, ganga lausa. Helst vildu þeir loka okkur öll inni fyrir kosningar. Við skulum bara sýna þeim hvað í okkur býr. Þeir mega kalla réttlætiskennd okkar kjarnorkuvetur fyrir mér. Og svo tínum við náttúrlega mikið af fjallagrösum í sumar. Kærar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, March 12, 2007

 

Apríllinn.

Apríl hefur mér alltaf fundist góður mánuður. Frá því ég var smápatti. Það var nú ekki ofgnótt auðæva í búi foreldra minna í gamla daga. En ævinlega fengum við krakkarnir sumargjafir. Mömmu fannst sumardagurinn fyrsti vera mikill hátíðisdagur og þennan dag var alltaf eitthvað gott á borðum. Sannarlega minnist ég þessara daga með gleði og þakklæti. Nú er þessi smápatti nýorðinn 63 vetra. Og sumra. Og tilhlökkunin til fyrsta sumardags byggist á því að eiga aukafrídag. Þegar páskar bera uppá apríl er þetta alltaf sá mánuður sem gefur flesta frídaga. Þeir eru 13 í ár og voru 14 í fyrra. Landið byrjar líka gjarnan að ilma á þessum árstíma. Páskahretin nánast úr sögunni. Við búum nú samt á sömu breiddargráðunum og sagt var að heimsskautsbaugurinn hafi legið eftir miðju hjónarúmi hreppsstjórahjónanna í Grímsey. Annað sunnan við og hitt norðan við. Kannski hafa börnin þeirra bara orðið til nákvæmlega á baugnum. Ég ætla að vona að byggðin haldist á þessari eyju á norðurhjara. Og það jaðrar eiginlega við að það sé skömm að því að hafa ekki komið þarna. Gæti trúað að ekki væri leiðinlegt að fara á sjóstöng þaðan á fallegum vordegi. Með skáldi, lyfjafræðingi og fleiri afkomendum. Verst ef aflinn yrði gerður upptækur af liðinu sem telur sig eiga fiskinn í sjónum. Mér finnst samt erfitt að skilja hvernig ég geti stolið eigin fiski. Kannski bara berrassaða parið sem skilur það.
Nú er bara rétt um vika í vorjafndægur. Hænufetin lengjast og hér ríkir nú kyrrð og hitinn vel yfir frostmarkinu. Sama rútínan hjá mér og kisa. Snemma á fótum og samkomulagið gott. Að venju er ég að huga að skattskilum þessa dagana. Keisarinn þarf sitt eins og vant er. Af kökunni sem þjóðin bakar. Misskipting auðsins heldur þó áfram að vaxa. Við skulum taka til hendinni og minnka óréttlætið í þessu þjóðfélagi. Við getum það. Tækifærið er framundan.

Við Kimi, sem nú horfir fránum augum sínum á hrafninn á ljósastaurnum, sendum ykkur öllum góðar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Friday, March 09, 2007

 

Puntblóm.

Það þykir voða fínt að njörva niður ýmis réttindi í stjórnarskrá. Í sjálfu sér góðra gjalda vert. En það er alþekkt staðreynd að verstu einræðisríki heims eru með flottustu stjórnarskrárnar. Þar eru mannréttindi tryggð í bak og fyrir. Idi Amin hafði nú aldeilis flott plagg. Hann var þó ekki annað en morðóður einræðisherra. Sagan segir að hann hafi jafnvel étið samborgara sína. Skrípaleikurinn á Alþingi þessa dagana er lítið annað en lýðskrum af versta tagi. Véfréttin telur sig hafa slegið pólitíska keilu. Og Geir fær pre frá sumum fyrir að vera ígulsnjall og yfirvegaður. Við höfum ekkert með þetta auðlindaákvæði að gera í stjórnarskrána. Reyndar miklu verra en ekkert. Festir aðeins kvótakerfið í sessi. Mörg okkar eiga sína eigin íbúð. Hversu mikils virði væri það ef nýtingarrétturinn væri annara? Þegar við kæmum heim úr vinnu sæti þar ókunnugt fólk sem hefði afnotaréttinn. Vertu úti góði. Halda menn virkilega að það verði einhver ávinningur af þessum bjálfagangi? Af hverju erfði draugurinn fiskinn minn? Sameign mína með öðrum þegnum samkvæmt lögunum um stjórn fiskveiða. Finnst ykkur sanngjarnt að menn labbi út úr útgerðarfyrirtækjum með hundruð milljóna? Eða 3 milljarða eins og einn samherjinn?Lifi í vellystingum praktuglega suður á Spáni fyrir fiskinn minn og þinn? Kvótakerfi draugsa er svívirðilegasti þjófnaður íslandssögunnar. Við þurfum að sjálfsögðu að hafa stjórn á fiskveiðum okkar eins og öðru. En við skulum ekki lögfesta ákvæði í stjórnarskrá sem í bókstaflegri merkingu sýknar þjófinn. Aflaheimildirnar ganga kaupum og sölum. Aðeins útvaldir njóta hagnaðarins. Ef ég sel íbúðina mína á ég þá að una því að einhver annar hirði andvirðið? Þegar vitlaust er gefið þarf að stokka spilin og byrja uppá nýtt. Því miður eru engar líkur á að við endurheimtum þýfið sem þegar er búið að koma í lóg. En það mætti nú gera tilraun til að stemma stigu við áframhaldandi þjófnaði. Því hefur verið haldið fram að Frjálslyndi flokkurinn hafi verið stofnaður til höfuðs kvótakerfinu. Því fer víðs fjarri. Hann var stofnaður af því Sverrir Hermannsson var rekinn úr Landsbankanum. Þessi flokkur hefur aldrei haft neinar hugsjónir eða nokkra stefnu. Það er ekki einu sinni hugmyndafræði á bak við rasismann í flokknum. Þetta er bara sorptunna fyrir lúsera í pólitík. Það sanna menn eins og Valdimar Leó og Jón Magnússon. Það væri landhreinsun að því að jarða þennan flokk við hlið framsóknar.

Hér er nú bókstaflega yndislegt veður. Sólin varpar geislum á hvíta slikju Ingólfsfjalls og Rakikonen stundar loftfimleika á handriðinu við svalaganginn á milli þess að hnusa af fóstra sínum hér innandyra. Kannski er hann áhættufíkill eins og Sölvi sagði.
Mér þótti nú hólið frá eldri syninum ágætt. Að sjálfsögðu ætti öll þjóðin að lesa þessa snilldarpistla mína. Ég les nú heilmikið af moggablogginu. En ég hef nú ekki lagt í að blogga þar. Þá sæi fólk kannski að því væri best að hætta. Svona eins og Bjarni Thorarensen hugleiddi að hætta að yrkja eftir að hann las Gunnarshólma Jónasar.

Ég kasta á ykkur kveðjum, krúttin mín, ykkar Hösmagi.

Thursday, March 08, 2007

 

Getnaður.

Í gær skriðu þau undan sæng sinni, Véfréttin og Geir. Vonandi hafa samfarir þeirra verið góðar eins og hjá Njáli og Bergþóru forðum. Og þetta par er nú ekki að tvínóna neitt við hlutina. Ávöxtur rúmfaranna strax kominn í ljós. Þau hafa tryggt okkur auðlindirnar. Við eigum fiskinn í sjónum, fossana og fjöllin. Þjóðin öll getur fagnað. Þetta er nú aldeilis árangur. En, en. Kannski fylgir nú böggull skamrifi. Þingið verður að samþykkja. Nema það eigi að gilda sama regla og hjá forverum þeirra varðandi stríðið í Írak. Allt er þetta með slíkum ólíkindum að furðu vekur. Annars á maður kannski ekki að verða undrandi þegar þessir menn eiga í hlut. Véfréttin getur nú sagt. Sjáiði hvernig ég tók hann piltar. Hér er sko alvöru formaður í alvöru flokki. Auðvitað er þessi krógi þeirra félaga algjört prump. Enda segja þeir sjálfir að þetta sé bara táknrænt. Svona puntblóm í stjórnarskrána. Fiskurinn í sjónum verður áfram eign vina þeirra. Draugurinn þarf ekki að óttast neitt.Í lögunum um stjórn fiskveiða er líka ákvæði um að við eigum þennan fisk. Svona fíflalæti breyta nákvæmlega engu. Enda ekki til annars en þyrla upp ryki rétt fyrir kosningar. Dreifa athygli lýðsins frá umhverfismálum, vaxandi misskiptingu , óréttlæti og einkavinavæðingu. Og " verkstjórn" Geirs var frábær að sögn Véfréttarinnar miklu. Hann hefur sennilega ráðið stellingunni í ástaleik þessa samlynda pars. Þetta töfrabragð og öll syndarmennskan í kringum það mun engu breyta. Þetta minnir á nýju fötin keisarans. Parið er ekki í neinu.Verk þessara manna og flokka þeirra æpa á okkur.Sauðagæran sem þeir lágu undir við þessa athöfn sína breytir ekki úlfssvipnum á fésum þeirra. Við vitum alveg hvað þeir munu gera ef þeim verður treyst fyrir áframhaldandi völdum. Landsvirkjun mun verða afhent réttum aðilum. Það mun ekki verða mikils virði fyrir okkur að eiga fjöllin, fossana og allan jarðhitann. Fiskinn og allt annað sem lífsgæði okkar byggjast á.Enda bara táknrænt. Einskisverð puntblóm.
Því miður verða einhverjir sem ekki sjá í gegnum svona trikk. Það voru líka margir sem dáðust að nýju fötunum í ævintýrinu. Vonandi fáum við alvöruríkisstjórn eftir kosningarnar. Losum okkur við trúða og töframenn. Loddara sem einskis svífast í að villa á sér heimildir og reyna að vera eitthvað annað en þeir raunverulega eru. Rekum þá af höndum okkar þann 12. maí n.k.

Við kisi erum jafnhressir og venjulega. Og vináttan mun endast meðan báðir lifa. Hann hefur þó það fram yfir mig að þurfa ekki að fylgjast með þessu fáránlega leikriti sem nú er á fjölunum. Leikriti, sem við skulum púa á og leysa aðalleikarana endanlega frá hlutverki sínu.

Með vorkveðju, ykkar Hösmagi.

Tuesday, March 06, 2007

 

Samtrygging.

Það hefur lengi verið lenska hér á Íslandi að þingmenn og ráðherrar sem hætta störfum fái einhver feit embætti í staðinn. Utanríkisþjónustan, seðlabankinn og tryggingastofnun eru góð dæmi um slíkt. Samt er þetta sama fólk búið að tryggja sér miklu betri eftirlaun en nokkur önnur stétt þjóðfélagsins.Nema kannski hæstaréttardómarar. Þetta er auðvitað rakið svínarí. Svo halda pólitíkusarnir því fram að þeir séu hæfari en aðrir. Bólgnir og hoknir af reynslu. Þeir hafa að vísu margir mikla reynslu í að maka krókinn. Við eigum að vinna gegn þessari samtryggingu. Þetta fólk getur bara bjargað sér eins og við hin þegar það fellur í prófkjörum eða yfirgefur pólitíkina af einhverjum öðrum sökum. Ég hef enga samúð með því. Það hefur sjálft séð um að tryggja sig í bak og fyrir og hefur ævilanga áskrift að peningum úr almannasjóðum. Nú er t.d. alveg voðalegt ástand hjá Hjálmari Árnasyni og Sigríði Önnu. Hvernig á þetta blessaða fólk að komast af ? Sannleikurinn er sá að margt af þessu liði hefur gert þjóðinni meiri skaða en gagn. Halda menn virkilega að menn verði sjálfkrafa einhverjir snillingar af að hafa verið í pólitík? Að það sé einhver sérstök nauðsyn að troða þeim í einhver hálaunastörf þegar þeir hverfa af þingi? Aðvitað er þetta tóm tjara. Ég heyrði viðtal við 2 unga þingmenn Sf. í gærmorgun. Þeir voru að lýsa vinnudeginum sem mér skildist að byrjaði um 6 leytið og lyki svona kringum miðnættið. Og nánast aldrei frí um helgar.Við eigum sennilega að vorkenna þeim yfir vinnuþrælkuninni. Það er ef til vill misskilningur minn að þeir hafi sjálfir sóst eftir þessu starfi. Mér finnst að reynslan sýni, a.m.k. nú undanfarin ár, að allt of mikið af meðaljónum hafi verið við stjórnvölinn. Og þeir hafa verið iðnir við að koma trúarsetningum sínum í pólitíkinni í framkvæmd. Bankarnir gefnir. Og síminn. Og einhver ung kona, formaður Heimdallar eða SUS, lýsti því yfir að nú væri strærsta baráttumálið að einkavæða Landsvirkjun. En forustumenn íhalds og framsóknar þora ekki að viðurkenna þessi áform. A.m.k. ekki núna fyrir kosningar. En við þekkjum þá orðið af ávöxtunum sem þeira hafa skenkt okkur undanfarin 12 ár. Sjávarafli íslendinga fyrstu 10 mánuði ársins 2006 var 71 milljarður. Gróði bankanna sama ár var yfir 200 milljarðar. Svona verða nú afleiðingarnar af að selja bestu mjólkurkýrnar fyrir nánast ekki neitt.Þeir sem vilja þessa stefnu áfram kjósa ríkisstjórnarflokkana. Svo þeir geti líka gefið vinum sínum Landsvirkjun. Við hin kjósum þá ekki.

Þó klukkan sé ekki orðin 8 er verulega farið að birta af degi. Logn og hitinn vel yfir frostmarkinu. Aðalfundur stangveiðifélagsins annað kvöld og það leiðir hugann að komandi vertíð. Nú er búið að semja um upptöku á flestum netalögnum á vatnasvæðinu hér. Við vitum að laxinn sem veiðist í net veiðist ekki á stöng. En því miður óttast ég ég þessi aðgerð skili ekki miklu. Það eru allt aðrar ástæður fyrir minnkandi veiði undanfarin ár. Kem kannski að því síðar.

Bestu kveðjur frá okkur litla ljóninu, ykkar Hösmagi.

Monday, March 05, 2007

 

Aulafyndni.

Bara örstutt um Véfréttina. Í sjónvarpinu í gærkvöldi eins og vant er. Fréttamanninum sem talaði við þetta fyrirbæri í stjórnmálunum fannst nú augljóst að einhverskonar ágreiningur væri í ríkisstjórninni vegna auðlindaákvæðisins. Og Véfréttin sagði að það væri eðlilegt af því fréttamaðurinn stæði á öðrum stað en hún sjálf og hefði því aðra sýn á málið. Er þetta það sem koma skal ef framsóknarflokknum tekst að koma brókunum upp fyrir hné í kosningunum? Ætli skemmtikraftinum Guðna hafi verið skemmt yfir þessum fíflalátum? Ætlar fólk yfirleitt að taka mark á svona mönnum? Við skulum bara vera minnug þess hvernig framsóknarafturhaldið hefur hagað sér undanfarin ár. Rassskellum það ærlega nú þegar kostur er á því.

Ég hef stundum líkt fasteignasölu við stangveiði. Stundum er hann að narta og maður veit ekki hvort hann tekur. Svo kemur fyrir að sá stóri sleppur þegar löndun er alveg að takast. Inn á milli rótar maður honum upp. Ég er búinn að vera með einn nokkuð þokkalegan á síðan fyrir helgi. Þegar ég kem í vinnuna á eftir mun fljótlega koma í ljós hvort mér tekst að ná honum á land. Ég á nú ekkert í firmanu sem ég vinn hjá. En ég hef alltaf haft það að leiðarljósi í starfinu að hagsmunir þess eru mínir um leið. Sálfræði og diplómatía eru afar mikilvæg í þessu starfi. Þú verður að geta lesið viðskiptavininn svolítið. Veiðimaðurinn sem kann að lesa vatn veiðir meira en hinn. Og þú mátt alls ekki fara á taugum. Þegar þér hefur tekist að ná málamiðlun milli seljanda og kaupanda og þeir virðast báðir hálfóhressir með hana er nokkurnveginn víst að þér hefur tekist að ná góðri niðurstöðu. Báðir eru ánægðir undir niðri. Og þú ert enn ánægðari með árangurinn í starfinu. Og ef ég held samlíkingunni áfram þá er þolinmæðin ákaflega mikilvæg á báðum stöðum. Flýttu þér hægt og gefðu þessu þann tíma sem þarf. Ég reikna nú ekki með að ég skipti um starfsvettvang úr þessu. Nú eru bara 4 ár í að undirritaður verði svokallað löggilt gamalmenni. Ég hyggst nú vinna eins lengi og mér verður auðið. A.m.k. meðan einhver vill nýta sér krafta mína. Og mér finnst nú sjálfum að ég sé enn í fínu formi. Ekki farinn að kalka neitt að ráði. Á meðan svo er finnst mér þetta allt vera afar indælt. Að vakna hress og hlakka til dagsins er nú ekki sjálfgefið. Tel mig þekkja það af eigin raun. Þetta verður enn betra þegar við höfum jarðað þessa ríkisstjórn. Cató hinn gamli lauk nú öllum sínum ræðum með því að leggja til að Karþagó yrði lögð í eyði. Ég legg til að framsóknarflokkurinn og umferðarstofa verði lögð niður.
Með hunangskveðjum frá okkur Raikonen, ykkar Hösmagi.

Sunday, March 04, 2007

 

Pínulítil þjóðhyggja í viðbót.

Það var viðtal við öfugmælasmiðinn að loknu flokksþingi. Hann var við sama heygarðinn. Ábúðarmikill, með alvarleg augu og með allt á hreinu. Allir sem fylgdust með þessari samkomu sáu það á föstudaginn að Siv heilbrigða hótaði stjórnarslitum út af auðlindaákvæðinu í stjórnarskrá. En Véfréttin kannaðist ekki við það. Engar hótanir um stjórnarslit. Siv var bara að "skerpa á áherslum" Þessi sálufélagi draugsins talar ævinlega út og suður. Alveg gjörsamlega út í hött. Hann er örugglega með dæmigerðan framsóknarheila. Við skulum fylgjast með næstu skrefunum varðandi auðlindaákvæðið. Össur Skarphéðinssson er í stjórnarskrárnefndinni. Hann sagði að framsóknarmenn hafi ekki lyft litla fingri til að fá ákvæðið inn. Og framsóknarmenn hafa ekki mótmælt þessu. Það er nú ekki sérlega trúverðugt að krefjast stjórnarslita á þessum forsendum. Það er verið að þyrla upp rykskýjum rétt fyrir kosningar í von um að nægilega margir láti villa sér sýn og þannig komist þau Nonni og Siv inná þing. Ástandið í öldrunarmálum kemur heilbrigðisráðherranum lítið við. Það er sveiftarfélögunum að kenna. Hvernig væri nú að stokka aðeins upp þar. Ríkið tekur hverja einustu krónu af fjármagnstekjuskattinum til sín. Sveitarfélögin fá ekkert. Eftir aðgerðir stjórnarinnar síðustu ár eru æ fleiri sem engan tekjuskatt greiða. Einungis 10% fjármagnstekjuskatt sem allur rennur í ríkissjóð. Ráðherrarnir eru stikkfrí í deilunni um kjör kennara. Samt halda þeir sveitarfélögunum í fjársvelti með því að taka miklu stærri bita af skattatertunni. Það urðu til ýmis skrautblóm á þessari neyðarráðstefnu framsóknarmanna. Þar var til dæmis ályktað að við skyldum nýta auðlindir af varúð og virðingu. Á sama tíma vill þessi stóriðjuflokkur fá svona 4-5 ný eiturspúandi álver. Eyðileggja náttúruperlur og heimalönd bænda hér í nágrenninu. Þeir segjast vilja styrkja þá sem minna mega sín. Á sama tíma og margir þessara smælingja eru á hungurmörkunum vegna stefnu framsóknar með dyggum stuðningi íhaldsins.Og álfrúin sjálf, Valgerður, segir að aðalatriði sé að gera það sem best er fyrir Ísland. Það velkist ekkert fyrir mér heldur. Losum okkur við framsókn í eitt skipti fyrir öll. Það væri sannarlega gott fyrir Ísland.Látum þennan ferðaglaða ráðherra leika sér á eigin kostnað í framtíðinni. Hún var í grænu í gær. Og Siv. Véfréttin og félagsmálaráðherra með grænt bindi. Ránfugl íhaldsins er líka orðinn grænn. En það er hætt við að liturinn fölni fljótt þegar búið verður að kjósa. Græni liturinn á mínum flokki er hinsvegar ekta. Líklega ættum við að taka Véfréttina alvarlega svona einu sinni. Við skulum varast ódýrar eftirlíkingar.

Það eru nokkur snjókorn að mylgrast niður úr loftinu. Nánast logn og ástæðulaust að að kvarta nokkuð. Raikonen sat fyrir mér við bílskúrshornið í morgun. Galsafullur að venju. Mér varð hugsað til þess á leið upp stigann hve gaman væri að vera jafnléttur á fæti og hann. Hvílíkt fjaðurmagn. En ég þarf nú alls ekki að bera mig neitt illa. Góð heilsa þó árin haldi áfram að telja.Enginn er eldri en hann vill vera meðan heilsan er góð og jafnvægi hugans hefur undirtökin.
Með kveðju frá okkur á sunnudagsmorgni, ykkar Hösmagi.

Friday, March 02, 2007

 

Meira af þjóðhyggju.

Enn hefur Véfréttin hafið upp raust sína. Nú sem formaður á flokksþingi framsóknarflokksins. Samfylkingin og vinstri grænir eru vondir flokkar. Lélegar eftirlíkingar af framsóknarflokknum. Eru jafnvel að teygja sig inná miðjuna þar sem framsóknarflokkurinn hefur einkaleyfi. Og ég sem hélt að það væri svo þjóðlegt að tína fjallagrös. Það er nú eina stefnumál vinstri grænna að mati margra pólitískra andstæðinga þeirra. Og líklega eru nokkrir tínslumenn í samfylkingunni líka. Véfréttin hefur nú ekki útskýrt hvað felst í þjóðhyggjunni sem henni verður svo tíðrætt um. SF og VG lögðu fram þingsályktunartillögu í vikunni um að við strikuðum okkur nú þegar út af lista yfir hinna morðglöðu þjóða. Lítil þjóðhyggja í því og véfréttin sagði tillöguna vera flokkunum til skammar. Hún væri búin að útskýra þetta allt fyrir þjóðinni. Samkvæmt yfirlýsingu frá Hvíta húsinu erum við á þessum lista. Þökk sé Davíð og Halldóri. Draugnum, sem nú á öðru tilverustigi virðist vera sú sól sem nú, eins og áður, lýsir Jóni formanni á þjóðhyggjubrautinni. Þegar draugurinn hafði engan sem hann þurfti að losa sig við úr pólitíkinni hringdi hann í Nonna og spurði hvort hann gæti ekki vermt stól seðlabankastjóra svolitla stund. Jú það vil ég sagði litla gula hænan. Svo þegar draugsi var orðinn leiður á pólitíkinni valdi hann þessa sömu pútu í stól sinn. Allar hennar ræður eru í stíl véfréttar. Stóriðjustefnunni var mokað út af borðinu fyrir mörgum árum. Írak kemur okkur ekkert við. Þjóðhyggjan felst í að gefa útvöldum framsóknarmönnum eigur þjóðarinnar. Erlendum auðhringum rafmagnið. Vera í framsóknarflokknum til þess eins að maka krókinn. Koma sínum mönnum fyrir á réttum stöðum þar sem von er til að eitthvað gott sé á beininu. Þetta eru ær og kýr forustumanna flokksins. Flokksins, sem nánast öllu trausti er rúinn nú og hefur völd og áhrif langtum úr hófi.Mér finnst einhvernveginn það eina sem þjóðlegt er við þetta sé skegg véfréttarinnar. Flestir bændur landsins voru með ámóta skegg á 19. öldinni. Nokkuð þjóðlegt bara. Jón formaður er einhver mesti öfugmælasmiður í allri hinni pólitísku sögu hér. Örvæntingarfullar tilraunir hans við að gera SF og VG ótrúverðugan kost munu renna út um þúfur. Við skulum hafa framsóknarflokkinn í höfuðborginni undir smásjá næstu vikurnar. Það verður allt reynt til að gera véfréttina að þingmanni. Nógir eru aurarnir. Vonandi tekst það samt ekki. Jafnvel Sif er skárri. Hún er líka í vonlítilli stöðu um þingsæti. Sem betur fer. Það hefur komið fram í könnunum að þessi 5-10% sem hyggjast kjósa framsókn hafa aldrei kosið neitt annað og gera það bara af gömlum vana. Svona vélrænt eins og róbótarnir. Þannig vilja líka forystusauðir flokksins hafa það. Fara svo sínu fram að vild eftir kosningar. Látum þetta sorglega nátttröll í íslenskri pólitík bara daga uppi í kosningunum. Dysjum það svo og sjáum til þess að það gangi ekki aftur. Það væri mikil landhreinsun.

Logn, væta og 3 gráður. Hösmagi ákaflega vel fyrir kallaður að morgni dags. Dýrið góða á vappi hér í kring, ýmist utan eða innan dyra. Laugardagsmorgnar eru alveg yndislegir. Þó ég kunni að öllu jöfnu vel við mig í starfinu eru helgarnar góðar og nauðsynlegar. Þá gefst tími frá amstri daganna til að dunda sér hér heimafyrir og hugsa um lífið og tilveruna. Ég hef t.d. komist að því í þessum pæingum að heilinn í framsóknarmönnum hljóti að vera öðruvísi en í venjulegu fólki. Það bókstaflega getur ekki annað verið. Ég og hinn rauðhausinn, þessi með skottið fagra, sendum ykkur bestu kveðjur á þessum indæla morgni, ykkar Hösmagi, eilítið vinstrigrænn.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online