Sunday, October 29, 2006

 

Paradísarhöllin.

Þetta er nýjasta nafnið á kærleikskotið sem rísa mun á fyrirheitna landinu. Púðinn bíður vorsins. Eins og ég sjálfur. Það er þó ekki ástæða til að kvarta yfir veðri um þessar mundir. Síðasti dagur október á morgun og veðrið er enn ágætt. Hitinn 1° og svolítil gjóla. Og að venju erum við Kimi báðir búnir að viðra okkur. Myrkrið er að vísu svart. Ég sagði stundum að ég vildi hafa nóttlausa voraldar veröld allt árið. En síðar var mér bent á að þá gæti ég ekki hlakkað til vorsins. Líklega er okkur bara hollt að hafa gjólu og myrkur um tíma. Þess ljúfara verður vorið með ylnum og birtunni. Ég er viss um að ég mun fagna næsta vori sérstaklega. Nú er það ekki bara veiðiskapur. Laxinn og urriðinn. Nú bætist skógræktin við. Og annað vafstur á framtíðarlandinu. Efni og ástæður munu ráða byggingarhraða Paradísarhallarinnar. Það væri stór áfangi að geta lokið við sökkulinn fyrir næsta haust. Allt mun þetta skýrast smátt og smátt. Hösmagi unir sér nokkuð vel í draumalandinu á meðan. Og þegar kærleikssetrið verður risið getur hann sagt eins og Gunnar forðum. Hér vil ég una ævi minnar daga. Kannski má nema þungan dyn Sogsins úr Paradísarhöllinni á kyrrum síðkvöldum. Og síðar mun ilminn af trjám og lyngi leggja inn um opinn gluggann eftir gróðrarskúrina. Allt saman verður þetta harla gott. Þarna mun friðurinn ráða og fegurðin ríkja. Er hægt að fara fram á meira?

Eins og sjá má af framanskráðu er enginn efi í huga mér vegna kaupanna á þessu fallega landi. Það er gott fyrir sálina að vera sáttur við verk sín. Og veruleikinn mun taka við af draumunum. Þarna verður gott að vaka og þarna mun verða dásamlegt að sofna. Kisi sestur á skrifborðið og sleikir loppur sínar eftir morgunhnusið.Rólyndi hugans ræður ríkjum hjá okkur báðum. Og vináttan fölskvalaus. Bestu kveðjur í morgunsárið, ykkar Hösmagi.

Saturday, October 28, 2006

 

Sköpun og valfrelsi.

Nú eru prófkjör. Kraftmikið fólk vill á þing. Skapandi með valfrelsið í frontinum. Svo er það ábyrgt, hefur reynslu til framtíðar og bókstaflega útbólgið af gáfum. Einhver ungur kurteis maður hringdi í mig í gærkvöldi. Auðvitað þurfti ég að vera að éta rétt þegar þetta gerðist. Þetta var svona agent. Fyrir Björgvin Sigurðsson sem er mjög bólginn af reynslu. Kraftmikill forustumaður til framtíðar. Ég sagði agentinum að ég ætlaði ekki að kjósa SF. Hann lét krók koma á móti bragði og sagði að prófkjörið væri öllum opið. Ég sagði á móti að mér dytti ekki í hug að fara að hjálpa SF við uppröðun á listann og stæði nákvæmlega á sama um hvernig hann væri. Með því lauk samtalinu. Þetta er líklega lýðræðið eins og það á að vera. Unga fólkinu boðið uppá á öl í Pakkhúsinu. Og snittur. Svo það geti raðað rétt. Sannarlega ekta lýðræði, eða hvað. Lýðræði peninganna. Þar sem krónurnar telja en ekki manngildið. Og svo er íhaldið næst. Þar sem sumir telja það sér til gildis að hafa skrautfjaðrir á sakavottorðinu. Í stöðugri betrun en keppinautarnir geta alls ekki orðið að betri mönnum.Og af hverju í ósköpunum er Eyþór Arnalds ekki í þessu prófkjöri. Hann hefur nú töluvert til að státa af og í alveg óstjórnlegri betrun við að koma skikki á dómgreindina. Mér er svo lítið um þetta lið gefið að það hálfa væri nóg. Maður getur ekki einu sinn vorkennt því. Það versta er þó að fá aldrei stundlegan frið fyrir sjálfbirgingshættinum. Allir fjölmiðlar uppfullir af upphrópunum kanditanna um eigið ágæti. Og nokkrir frændur og vinir leika undir. Kannski ég fari bara í betrun og reyni fyrir mér einhversstaðar. Myndi sóma mér andskoti vel í 13. sætinu. Bestu kveðjur úr logni og 7 gráðum, ykkar Hösmagi.

Thursday, October 26, 2006

 

Agúrkur.

Það er gúrkutíð hér. Eða svo gott sem. Myrkrið er alveg kolsvart. Og blautt. Hitastigið 5 gráður og á uppleið. Snjórinn farinn. Og á sama hátt og gamli sýslumaðurinn vildi hafa það. Sá sem setti hann niður tók hann upp aftur. Ég fór í landkönnun á þriðjudaginn eftir handlagningu afsalsins. Las mér ber á landinu í 3ja stiga frosti. Fór að dæmi páfans og mynntist við jörðina. Ók svo glaður til míns heima. Tuttugu kílómetrar nákvæmlega milli fyrirheitna landsins og brúarsporðsins á Ölfusárbrú. Það er nú ekki langur vegur. Malbikaður, og sjálfrennireiðin með 330 hestöfl. Kannski kemur púðinn undir húsið strax í haust. Ætla að kanna kostnaðarhliðina um helgina. Kannski er þetta svolítið skondið nafn, púði. Alltaf haldið að púðar ættu að vera mjúkir. Enn þessi púði á að sjálfsögðu að vera harður eins og Kruppstál. Þjöppuð grús undir sökkulinn. Ætla líka að athuga með teikningar um helgina. Það væri ljúft að hafa útsýniskvist á svefnloftinu. Þar verður gott að sitja á síðkvöldum og fylgjast með sólarlaginu. Hösmagi er sem sagt í draumalandinu nú þegar. Hvað værum við líka ef við ættum okkur enga drauma? Engar vonir eða þrár?Þá væri bara ekkert gaman að þessu vafstri öllu. Og fyrstu hríslunni verður plantað þann 27. apríl 2007. Sú athöfn verður helguð frænda mínum sæla, Gunnari Freysteinssyni, skógfræðingi. Líklega við hæfi að það verði íslenskt birki. Og Búrfell verður líka klifið á vordögum. Herconinn á bakinu. Frí veiði í vatninu sem er nánast beint upp af verðandi óðalssetri. Þó Hösmagi sé nú upptekinn af draumum sínum um landið nýja, skáldahöll og kærleikskot, þá er hann enn við sama heygarðinn ef veiði er annarsvegar. Allt er þetta bara harla gott. Bestu kveðjur frá okkur Kimi og sérstakar til fóstbræðranna sem kommenteruðu á síðasta pistil, ykkar Hösmagi, hress sem fyrr.

Monday, October 23, 2006

 

Óðal.

Hösmagi tilheyrir nú landeigendaauðvaldinu. Ekki lengur hluti af hinum landlausa lýð.Orðinn the lord of Souht Bridge. Landlord. Þetta nýja eignarland var einu sinni hluti af óðali Tómasar Guðmundssonar. Kannski verða einhverntíma til ódauðleg verk á nýja landinu. Innanum bláber, lyng og mosa. Enda heitir landið Lyngbrekka. Þarna hyggst Hösmagi líka planta nýjum trjám. Líklega þó ekki fyrr en næsta sumar því vetur er genginn í garð. Norðangjóla og hitinn mínus 2 gráður á þessum ágæta morgni.Afsal fyrir landareigninni var gefið út í gær og kemur úr þinglýsingu í dag. Og eftir vinnu í dag ætlar Hösmagi til fyrirheitna landsins. Kannski fer hann að dæmi Jóhannesar páfa og kyssir jörðina. Allt er þetta sannarlega indælt.Búrfell í Grímsnesi er fjall sem leynir á sér. Séð frá Selfossi er það eins og hundaþúfa í samanburði við Ingólfsfjall. En munurinn á hæð þessara fjalla er einungis 20 metrar. Og Búrfell státar af stöðuvatni. Og í vatninu synda fiskar. Það eru mikil meðmæi með þessu ágæta fjalli. Fyrir nokkrum árum gekk Hösmagi við 3ja mann á fjallið. Í björtu og fallegu veðri. Það var stórbrotið að sjá allt Sogið í einu. Alveg frá því það rennur úr Þingvallavatni uns það sameinast Hvítá og verður að elfunni Ölfusá. Sem gefið hefur Fiskihrelli fleiri fiska en önnur fljót á Íslandi.Nýja landið er fast við rætur Búrfells. Fjallakofinn, skáldahöllin og friðarhúsið mun rísa efst í landi þessa nýja óðals. Fegurðin mun ríkja í því kærleikskoti. Á því er ekki nokkur vafi.

Heilmikið framundan í starfinu í dag. Fyrst í næstu sýslu. Síðan í Grímsnesið. Og aftur þangað að kyssa land eftir vinnu. Og þegar Skáldahöllin verður fokheld fer ég þangað með Raikonen með mér. Það verður ljúft. Bestu kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi, kóngur í ríki sínu.

Saturday, October 21, 2006

 

Sannleikur eða....

lýgi. Ögmundur Jónasson skrifaði grein á Vísi.is í vikunni. Hann telur að þeir Jón Baldvin og Steingrímur Hermannsson eigi að biðja Svavar Gestsson afsökunar. Mér finnst nú að það orki tvímælis. Eigum við að treysta helbláum karakterum á borð við Þór Whitehead og Róbert Trausta Árnason? Heimildir Ögmundar um persónunjósnir um Svafar eru byggðar á þessum 2 mönnum. Nú ætla ég ekki að sýkna þá Jón og Steingrím. Þeir tilheyrðu báðir " lýðræðisflokkunum þremur". Jón Baldvin hefur mótmælt þessu harðlega. En rök yfirsagnfræðings íhaldsins eru að sjálfsögðu skotheld sem fyrr. Það er sem sagt samkvæmt "eðli máls" að fyrirskipun hafi verði gefin um rannsókn á Svavari. Og svo liggur það einfaldlega " í augum uppi". Auðvitað vilja íhaldsmenn klína njósnum á aðra líka. Og kannski með réttu. En úr því Jón B. vísar þessu á bug væri rökrétt að hann léti þessa menn sanna orð sín fyrir dómstólum landsins.Íhaldið reynir að verja sig. Það er svo sem ekki nema mannlegt. Geir segir þetta allt vera árás á Sjálfstæðisflokkinn. Líkt og með framsókn. Högg fyrir neðan beltisstað. Pólitískir andstæðingar að koma höggi á flokkinn. Þyrla upp pólitísku moldvirði. Öll viðbrögð íhaldsins við þessari njósnaumræðu eru á sama veg. Segjast vilja upplýsa allt en reyna um leið að koma í veg fyrir það. Síðast í gær sagði nátttröllið að norska leiðin hefði verið farin við við allt aðrar aðstæður. Af hverju má ekki skipa óháða þingnefnd til að fá sannleikann allan uppá yfirborðið? Svarið er reyndar ofureinfalt. Sjálfstæðismenn óttast slíka rannsókn. Þeir vita uppá sig skömmina og kæra sig ekki um að þessi mál verði krufin til mergjar. Það mun þó verða gert um síðir. Þegar búið verður að koma þessum mönnum frá völdum. Allt er þetta með ólíkindum. Endurspeglar vel hverskonar lið stjórnar Íslandi um þessar mundir. Og hefur gert allt of lengi. Rekum þessa andskota af höndum okkar þann 12. maí n.k.

Veturinn heilsaði okkur með fallegu veðri í gær. Sama staðviðrið enn og verður áfram samkvæmt veðurspámönnum. Þó heldur kólnandi. Óðalsskoðun framundan í dag. Kannski verður Hösmagi orðinn Landlord á morgun? Það er bara hin ljúfasta tilhugsun. En við skulum vera alveg slök og halda áfram að tátla hrosshárið okkar. Krúttkveðjur, ykkar Hösmagi.

Thursday, October 19, 2006

 

Hvalur framundan.

Nú er gamli Hvalur 9 kominn á siglingu aftur. Í mínum huga er enginn vafi á að við höfum fullan rétt til að veiða hval. En það er að sjálfsögðu spurning hvort við eigum að nota þann rétt. Jónína frambærilega hefur efasemdir. Samt segir sjávarútvegsráðherra að ríksstjórnin sé samstíga. Þó allir sjái að svo er ekki. Bretar og Kanar arfavitlausir. Og fleiri reyndar. Kanarnir segja hvalinn á lista sínum yfir dýr í útrýmingarhættu. Held þeir ættu nú að bæta írösku þjóðinni á þennan lista sinn. Sjálfir eru þeir mestu umhverfissóðar í veröldinni en telja sig þess umkomna að segja öðrum fyrir verkum. Enda þrástagast ráðamenn bandarísku þjóðarinnar á því hvað hún sé mikil og merkileg. Undirritaður var sólginn í súran hval í gamla daga. Og steikin var sérlega ljúffeng líka. Það þurfti bara að handera kjötið á réttan hátt. En ég get að mörgu leyti tekið undir það að veiðarnar orka tvímælis.Kannski eiga vinir okkar eftir að refsa okkur harðlega. Það kemur í ljós.
Ég átti ágæta stund með skáldinu í gær. Skruppum að skoða óðul í Grímsnesinu. Hjörtum mannanna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu. Fengum okkur svo snarl og hleyptum Raikonen úr prísundinni heima. Eihvernveginn var Hösmagi hálfdasaður í gærkvöldi og sofnaði enn fyrr en venjulega. Róleg helgi framundan og ég býst við að halda mig heimavið. Norðangjólan þrálát og ekkert nýtt í veðurkortunum. En við þurfum ekki að kvarta. Fyrsti vetrardagur á morgun og útlit fyrir bjart og þokkalegt veður. Og kannski verðum við skáldið orðnir óðalsbændur fyrr en varir? Kimi kominn inn aftur og hringar sig við lappir mínar. Kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Wednesday, October 18, 2006

 

Allt að vonum.

Snillingurinn sem nú er forseti miklu þjóðarinnar fyrir vestan hefur skrifað undir ný lög. Lögin heimila að beita " óhefðbundnum" aðferðum við yfirheyrslur á grunuðum hryðjuverkamönnum. Og þegar heilabúið er á stærð við það sem er í þessum manni og vini hans Rumsfeld þarf nú ekki mikið til að grunur vakni. Í gamla daga voru þetta nú einfaldlega kallaðar pyntingar. Þetta eru mennirnir sem þau Geir og Valgerður heimsóttu um daginn. Upp á eigin spýtur og án samráðs við alþingi. Við skulum vona að nýja " greiningardeildin" hér fái ekki svona heimildir. M.a. segja ungum íhaldsmönnum blöskrar. En að mati Björns Bjarnasonar er nú ályktun ungu mannanna byggð á misskilningi og fölskum forsendum. Hugarfar hans mun ekki breytast.Vonandi dagar þetta nátttröll uppi þegar aftur fer að birta. Það er löngu kominn tími til að við stokkum upp spilin. Tökum upp nýja utanríkisstefnu án nokkurs samráðs við við þá Bush og Rumsfeld. Hættum sneypulegum sendiferðum til ameríku. Stöndum upprétt í stað þess að haga okkur eins og skriðdýr. Framferði þeirra landsfeðra okkar sem nú stjórna landinu er með ólíkindum í þessum efnum. Það er ömurlegt að þurfa stöðugt að skammast sín fyrir að vera íslendingur. Það er þó að vonum meðan þessi ríkisstjórn er við völd. Við skulum jarða hana í maí n.k. Og halda fagnaðarhátíð að því loknu.

Það er aðgerðalítið veður hér eins og það er kallað á máli veðurstofunnar. Gott miðað við árstíma. Kannski verður veður til veiði í desember eins og árið 1997. Fiskihrellir er nú svo sem alveg slakur. Sumarið var ágætt og áður en varir kemur nýtt með nýjum ævintýrum í veiðiskapnum. Helgin nálgast og enn toga Laugarnar í mig.Fyrir nokkrum árum fór ég í Ljótapoll á þessum degi, 19. október. Fagrigígur væri nú réttnefni á hann. Við félagi minn veiddum ágætlega og fiskurinn úr þessu náttúruundri er sérlega ljúffengur. Þetta var indæll dagur og mér sýnist þessi stefna í sömu átt. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Tuesday, October 17, 2006

 

Sannleikurinn.......

mun gera yður frjálsa. Þetta sagði Hjálmar Árnason í gærkvöldi. Var að tala um rannsóknir á persónunjósnum. Ef hann og félagar hans í litla flokknum vilja verða frjálsir af sannleikanum ættu þeir að setja íhaldinu stólinn fyrir dyrnar strax. Þeim er það í lófa lagið. En það er bara draugagangur í flokknum. Móri á kreiki og stjórnar véfréttinni frá Bifröst. Hún hefur engan áhuga á sannleikanum. Sammála Geir, Birni og hinum. Sýndarmennskan í öndvegi.Svo var líka viðtal við Björn.Enn sjúkan af kommúnistahatrinu sem hann fékk í vöggugjöf. Sannleikurinn um svívirðu persónunjósnanna á Íslandi mun ekki koma í ljós meðan hann er dómsmálaráðherra. Og það er heldur engin von til þess að Hjálmar og félagar færi stólinn til. Setji hann fyrir dyrnar. Það gæti þó hresst hræið á grafarbakkanum við. Komið í veg fyrir að því verði velt ofaní og mokað yfir. Undirritaður hefur þó enn trú á að upp komist svik um síðir. Að í næstu ríkisstjórn verði fólk sem taki af skarið í þessum efnum.Því fyrr því betra. Nóg komið af skjalabrennum uppí sveit. Björn át líka upp eftir Gíslamarteini að þetta væru bara kjaftasögur. Og samfylkingin væri bara að notfæra sér þetta í pólitískum tilgangi. Ég held nú reyndar ekki uppi vörnum fyrir Sf. En auðséð er að íhaldið vill drepa málinu á dreif. Þyrla upp rykmekki. Og ástæðan er öllum augljós. Sannleikurinn má alls ekki koma í ljós. Hann gæti hugsanlega gert einhverja íhaldsmenn frjálsa í næstu kosningum. Það væri bara andskotans bömmer.

Hitasigið nákvæmlega ein gráða hér. Loftið hreint og hressandi. Raikonen eltandi hvíta flískúlu hér utandyra. Við báðir fylgjandi sannleikanum. Veisla hjá okkur í gærkvöldi. Þverskorin ýsa og saltað hrossakjöt. Lágum báðir á meltunni til morguns.
Við sendum öllum sannleikselskandi sálum okkar bestu kveðjur og óskir. Ykkar einlægur Hösmagi, hugsandi um sannleikann.

Monday, October 16, 2006

 

Inn úr kuldanum.

Norðanrok og lágt hitastig. Hösmagi með sultardropa eftir útiveru. Fyrsti vetrardagur á laugardaginn og skammdegismyrkrið grúfir yfir. Gott að koma inní hlýjuna aftur. Undirritaður var nú bara að viðra sig aðeins. Engar persónunjósnir. Og líklega er Hösmagi ekki nógu merkileg persóna til að verða hleraður. Kjaftar hvort sem er frá öllum skoðunum sínum hér á vefnum. En hann er örugglega á skrá hjá CIA. Og FBI. Labbaði einu sinni úr Hafnarfirði til Reykjavíkur með herstöðvaandstæðingum. Mætti sendiráðsmanni sem myndaði hvern einasta göngumann. Örugglega flott mynd af mér í safni mynda af glæpahyskinu. Læt mér það í léttu rúmi liggja. Kannski er ég búinn að skrifa nóg um persónunjósnirnar. En alltaf er nýtt og nýtt að koma í ljós. Þessi rannsókn er bara kák og fúsk. Það má til dæmis alls ekki vitnast hver hleraði hvern. Véfréttin sammála Geir. Þar komu Gissur og Geir, Gunnar, Héðinn og Njáll. Guðni virðist þó ekki vera sammála þeim. Kemur mér ekki á óvart. Vont að Guðni skuli vera í liði með þessum mönnum. Finnst hann eigi ekki heima þarna.Spá mín er sú að ekkert muni misjafnt vitnast um njósnarana fyrr en þessi ríkisstjórn geyspar golunni. Það sem nú er verið að gera er sýndarmennskan ein. Svona eins og Þór Whitehead væri falið að segja okkur þetta allt. Þvílík endaleysa.

Hösmagi hefur átt náðuga helgi. Skrapp í Kópavog á laugardag og kom aðeins við hjá skáldinu á Njálsgötu. Hvorttveggja ánægjulegt að venju. Hélt svo aftur eftir nýja snilldarveginum Sturlu heim á Selfoss. Þar sem fjármununum er sóað í tóma dellu. Vegurinn enn hættulegri en nokkru sinni áður. Skyldi nokkur þjóð önnur hafa svona mann sem samgönguráðherra. Hann verður vonandi leystur frá störfum eftir næstu kosningar. Alveg rakið að senda hann til starfa hjá Umferðarstofu. Þar yrði hann fremstur meðal jafningja. Ykkar Hösmagi, hress á mánudagsmorgni.

Sunday, October 15, 2006

 

Enn af njósnum.

Geir hefur talað. Hann var jafnvel með stærri skeifu í gær en vanalega. Það er auðvitað hreinasti óþarfi að láta óháða rannsóknarnefnd skoða hvernig leyniþjónusta íhaldsins njósnaði um fólk sem var því ekki þóknanlegt. Það mátti helst skilja á ráðherranum að nú skipti mestu að komast að því hvaða kommúnistar fengu rúblur frá vinum sínum í Sovét. Það væri svo sem fróðlegt og ágætt. Jagland hinni norski var hér fyrir nokkrum dögum og skýrði út hvernig norðmenn hreinsuðu hið eitraða andrúmsloft sem ríkti í Noregi vegna persónunjósna þarlendra stjórnvalda í kalda stíðinu. En þetta má alls ekki gera hér. Það gæti hugsanlega svert minningu manna sem íhaldið hefur á dýrlingaskrá sinni. Sennilega fæst enginn botn í þetta fyrr en búið er að koma ríkisstjórninni frá völdum. Við eigum fullan rétt á að fá þessa hluti á hreint. Í öðru orðinu segja ráðamenn að allt verði lagt á borðið. Í hinu segja þeir að horfa eigi til framtíðar en ekki velta sér upp úr fortíðinni. Allt er þetta á sömu bókina lært. Losum okkur við þetta lið í maí á næsta ári. Hringjum ekki í vitlaust númer eins og álfar út úr hól. Þekkir einhver einhvern sem telur Valgerði vera rétta manneskju á réttum stað? Eða Sturlu og alla hina ? Ég spyr nú bara si sona. Og heldur einhver að hinn nýi formaður í litla flokknum muni gera einhver kraftaverk. Svona eins og María mey í Mexícó ? Hann mun einungis halda áfram að baka sömu lummuna og mæra drauginn sem réði hann í núverandi starf. Það er engin von um breytingar til batnaðar í íslensku þjóðfélagi ef þetta lið verður áfram við stjórnvölinn. Gefum þeim frí. Ykkar Hösmagi, hundleiður á framsóknaríhaldinu.

Thursday, October 12, 2006

 

Draugagangur.

Þeir eru fleiri draugarnir en Dóri Móri. Nú eru þau frú Álgerður og herra Skeifugeir í sendiför í Ameríku. Hjá þjóðinni miklu. Á þriðjudaginn var áttu þau að hitta frú Rice kl. 16. En frúin gleymdi þeim. Eða mátti ekki vera að að hitta þau. Burns varð að duga. Það er auðvitað hægt að sleikja sig upp við hann líka. Svo sá frúin að sér og kyssti báða þessa biðla. Og einhversstaðar var Donald Rumsfeld þarna líka. Þessi gamla afturganga. Arfurinn frá Nixon. Yfirfangavörður í Guantanamo. Þar sem lýðræði drauganna ræður ríkjum. Þar sem saklaust fólk er pyntað og svívirt af því yfirfangavörðurinn segir að það séu réttlaus úrhrök. Þetta er nú liðið sem forystumenn okkar brosa svo blítt til. Það er nú aldeilis reisn yfir þessu. Verst að þau skötuhjúin fengu ekki að hitta Bush sjálfan. Snillinginn með ofurheilann. Bara 665.000 dauðir í Írak. Allt hryðjuverkamenn að sjálfsögðu. Þeir eru vonandi jafn staðfastir enn þeir Davíð og Draugsi. Hvað eru líka 3% þjóðar? Svona eins og 9-10 þúsund manns hér. Og ekki einu sinni kristnir menn. Bara rusl sem engu skiptir. Það er því miður ekki mikil von til að neittt breytist meðan þessir heiðursmenn stjórna. Við skulum vinna að því öllum árum í vetur að koma þessari ríkisstjórn fyrir kattarnef. Taka upp nýja stefnu. Í utanríkismálum og öllum þjóðþrifamálunum hér innanlands. Láta af undirlægjuhættinum, flaðrinu og sleikjuganginum við gömlu afturgöngurnar.Taka upp stefnu sem við getum verið stolt af sem sjálfstæð þjóð. Hætta að leika af okkur drottningunni í hverri skákinni á fætur annari. Þá verður miklu betra og skemmtilegra að vera íslendingur.

Hitinn komst í tæp 14 stig í gær. Og hér er hið ljúfasta veður í dag. Föstudaginn 13. Mér líkar vel við föstudaga. Og töluna 13. En mér er illa við drauga og afturgöngur. Við skulum kveða þau niður.
Ykkar einlægur Hösmagi.

Tuesday, October 10, 2006

 

Kommentin.

Kommentin eru hluti af bloggiðjunni. Bloggarar verða, að ég held, nokkuð kátir þegar þeir fá smáviðbögð við skrifum sínum. Ég ætla að þakka nafna mínum sérstaklega. Og það er rétt hjá honum að fólk virðist nú frekar halda að sér höndum í þessu nú um stundir. En ég vona samt að ég verði ekki alsíðasti móhíkaninn. Ég fór nú að glugga í kommentin í gær. Sum eru heilar ritgerðir. Önnur stutt og laggóð og allt þar á milli. Brenndi sokkurinn skilaði heilmiklu. M.a. þessu:

Sokka brenndi sá er gaf út
sérstætt rit með mér, ó því
er költið stóra heimti á haf út
hestaflaknúinn Cherokee.

Ég hef nú bloggað mikið um uppáhalds sumariðjuna, veiðiskapinn. Eftir reisu í Borgarfjörðinn síðla sumars, í dalinn þar sem áin litla rennur fékk ég þetta komment:

Klukkan 11.15 aðeins að breyta um stað
og eigra í skyndi, líkt og brjálæði tekinn
að fláa þar sem fiskurinn lokkast að
fagurri, lítilli túpu, nýr og þrekinn.

Og svo var ósköp ljúft að fá gullverðlaun og hamingjuóskir frá skáldinu mínu eftir Söknuðinn 15. mars.
Sumum finnst nú hálfbjánalegt að vera með einskonar dagbók um sjálfan sig á netinu. Ég lít nú ekki svona á þetta. Held að margt annað sé nú hálfu bjánalegra.
En að öðru. Ég var að þvælast á vefjum byggðalagsins í gær. M.a. stokkseyri.is. Þar er verið að lýsa eftir höfundi brags frá miðri síðustu öld. Kosningabrags. Ég ætla að hnupla einni vísunni frá höfundi þessa ágæta brags og tileinka hana ráðherrunum í núverandi ríkisstjórn.

Nú þegar valda sígur sólin
setur að hroll og skjálftaflog.
Fá eru í að skríða skjólin
skrifað er allt á syndavog.
Hópurinn fullur hugraunar
horfir nú fram á kosningar.

Þeir eru nú þegar gripnir örvæntingu. Enda ástæða til þess. Vonandi verður uppskeran í samræmi við sáninguna.

Mildur andblær úti 10 gráður. Mér kom í hug upphaf að ljóði sem ég orti einu sinni fyrir margt löngu...

Það er dásamlegt þegar depurðin hverfur á braut
eins og dögg fyrir sólu og gleðin ríkir á ný
og aftur strýkur um vanga vorgolan hlý........

Þó myrkrið sé svart úti er Hösmagi kátur og hress. Við Raikonen sendum að venju góðar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, October 09, 2006

 

Fortíðin.

Það hefur stundum verið sagt að menn skuli ekki velta sér upp úr fortíðinni heldur horfa til framtíðar. Margt til í því. En það verður stundum að rifja upp óþægilegar staðreyndir. Einn af svörtu blettum kalda stríðsins hér á landi eru persónunjósnirnar sem íhaldið og fylgifiskar þess stunduðu um pólitíska andstæðinga sína. Nú segir dómsmálaráðherrann að láta eigi sagnfræðinga um þetta tímabil. Líklega helst sagnfræðinga íhaldsins sem blanda sífellt saman fræðimennsku og eigin póltískri sannfæringu. Auðvitað á að leggja þessi spil á borðið fyrir okkur öll. Einn helsti sagnfræðingur íhaldsins hefur haldið því fram að hér hafi verið vopnaður her manna sem hafi fengið þjálfun hjá Stalín og félögum austur í Sovéti. Tilbúinn til óhæfuverka. Hann hefur þó ekki lagt fram eitt eða neitt þessu til sönnunar. Allt er þetta nú ekki mjög stórmannlegt. Við eigum sem sé ekki að tala um helförina, gúlagið eða annað sem tilheyrir fortíðinni heldur horfa til framtíðar. Við skulum horfa til framtíðar. En við skulum líka fá það upp á borðið hvernig njósnað var um samborgara okkar. Jafnvel þó einn njósnarinn væri náinn núverandi dómsmálaráðherra. Þetta fólk hafði það eitt til saka unnið að vera ekki sammála yfirvöldunum í pólitík. Keypti ekki allt hrátt frá kananum. Og vildi alls ekki sleikja á honum afturendann eins og þessir "þjóðhollu" njósnarar. Og nú er Björn Bjarnason að stofna greiningardeild í lögreglunni. Að tillögu ríkislögreglustjórans. Tilgangurinn er auðvitað sá sami og áður. Njósnir um náungann. Skrásetning á þessum óþjóðholla glæpalýð. Lýð sem á sömu lög skilið og fangar kananna á Kúbu. Algjörlega réttlaus úrhrök. Því miður er enn fullt af fólki sem telur þetta ofureðlilegt. Meðan svo er skulum við ekki þegja um fortíðana. Leiðum sannleikann fram í dagsljósið. Sannleikann um persónunjósnirnar og mannréttindabrotin sem leynilögregla íhaldsins hér stundaði á saklausu fólki. Kannski tekst það ekki fyrr en við höfum skipt um ríkisstjórn í þessu landi. Drífum í því og kjósum okkur nýja þann 12. maí á næsta ári.

Enn er þessi rjómahaustblíða hér. Við Kimi óhemjuhressir í morgunsárið. Báðir búnir að viðra okkur í blankalogni. Og nokkuð ánægðir og sáttir innbyrðis sem fyrr. Með kveðjum úr kyrrðinni, ykkar Hösmagi.

 

Álfgerður.

Ég hef stundum kallað núverandi utanríkisráðherra Álgerði. Álfgerður væri kannski réttara núna. Ég horfði á viðtal við hana í sjónvarpinu á föstudaginn. Út af rússneskum sprengjuflugvélum sem voru að sniglast hér í nágrenninu. Og ráðherrann álelskandi var alveg eins og álfur út úr hól. Vissi ekkert nema einhver hafði líklega hringt í vitlaust númer. Hver það var eða út af hverju vissi hún ekki. Og ekki ég heldur. Þetta var svona álíka og viðtalið um skýrslu Gríms Björnssonar á dögunum. Mér er fyrirmunað að skilja hvernig nokkur þjóð getur notast við svona lið í æðstu embætti. Sýnir betur en allt annað hversu brýn nauðsyn er að skipta um ríkisstjórn. Hver ráðherrann um annan þveran er í sínum eigin draumaheimi. Þegar bent er á aukið misrétti í þjóðfélaginu svara þeir allir að kaupmáttur hafi aukist svo og svo mikið. Og venjuleg rök hrína ekki á þeim. Valdþreytan er öllum augljós nema þeim sjálfum. Við skulum veita þeim hvíldina á komandi vordögum.
Enn er haustblíða hér. Svolítil væta. Ekki varð af ferð í Laugarnar enda dimmt yfir þar sem spáin rættist ekki. Róleg helgi. Tiltektir í bílskúrnum. Pestarsýkillinn á hröðu undanhaldi og Hösmagi eldhress að morgni dags. Ný vinnuvika að byrja og allt með svona nokkurnveginn kyrrum kjörum. Skáldið átti afmæli á laugardaginn og fær bestu árnaðaróskir. Kveðjur með skímunni, ykkar Hösmagi.

Wednesday, October 04, 2006

 

Vindlar og kynlíf.

Ég var að lesa um nokkra eldgamla skarfa í einhverju héraði á Kúbu. Þeir eru svona 100 ára og þar yfir. Þeir segjast hafa lagt brennivín til hliðar en drekka því meira af kaffi. Og reykja vindla. Svo ku þeir stunda kynlíf nokkuð stíft. Lykillinn að langlífi og góðri heilsu. Þetta er kannski vert allrar athygli. Svona að hluta til á þetta nú við um lífsstíl Hösmaga. Kannski verður hann bara hundgamall. Það er alltaf gaman að lesa svona fréttir þó ekki sé nú mark takandi á öllu. Margt getur skemmtilegt skeð eins og þar stendur.
Fjármálaráðherrann kynnti nýja fjárlagafrumvarpið á Selfossi að þessu sinni. Það má reyna allt. Hann langar að verða fyrsti þingmaður sunnlendinga. Svo er líka Sparisjóður hérna. Það eru margir tilkallaðir en fáir útvaldir hjá íhaldinu í þessu kjördæmi. Það er að vísu með ólíkindum hvað hinir venjulegu flokksmenn þess hér láta bjóða sér. En það er að sjálfsögðu höfuðkostur á sumum frambjóðendanna að þeir eru í betrun. Alveg sérstaklega góðir menn. Miklu betri en þeir voru áður. Og enn betri en allir hinir. Kjósendum í komandi prófkjöri er mikill vandi á höndum. Slíkt er nú mannvalið. Kannski vantar bara oddvitann í Árborg?
Hitinn hér er nú bara 0,3 gráður samkvæmt veðurstöðinni hans Palla Bjarna. Logn, og myrkrið grúfir enn yfir. Enn að hugsa um að skjótast í Landmannalaugar og spáin er nokkuð góð fyrir næstu helgi. Og ekki sakar að hafa Herconinn með í farteskinu. Hæfilegur endir á ágætu sumri.
Hösmagi er að hressast. Hitti á andskoti góðan doktor í gærmorgun. Skrifaði uppá sýklalyf sem vonandi grandar þessari bölvaðri pestarbakertíu sem verið hefur að angra karlgarminn. Vonandi enn meiri betrun framundan en nokkurntímann hjá hinum vígreifu frambjóðendum íhaldsins.
Við Kimi sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Tuesday, October 03, 2006

 

Stefnuræða.

Hösmagi lagði það á sig í gærkvöldi að horfa á beina útsendingu frá nýbyrjuðu þingi. Og get tekið undir með Ingibjörgu Sólrúnu að stefnuræðan var nú fremur daufleg. Slakari var þó ræða véfréttarinnar frá Bifröst. Nýja formannsins í litla feluflokknum. Fólst að mestu í að snúa við alkunnum staðreyndum. Og mæra drauginn. Þetta sýnir áþreifanlega að það er nákvæmlega engin þörf á þessum rekandi draugadalli lengur. Það væri þjóðþrifaverk að sökkva honum endanlega þann 12. maí á næsta ári. Ræður þingmanna voru nú svona upp og ofan. Ég er nú líklega svolítið hlutdrægur. Fannst nú að Steingrímur sannaði enn og aftur að hann er einn albesti ræðumaður þingsins um þessar mundir. Halldór gamli Blöndal enn í kalda stríðinu. Enda systursonur Bjarna Ben. Frjálslyndir á svipuðu róli og vant er. En það er að vissu leyti ánægjulegt að stjórnarandstaðan hefur stillt strengi sína saman. Ekkert er þjóðinni nauðsynlegra en að koma þessari ríkisstjórn fyrir ætternisstapa. Það gæti vel tekist ef þessi valkostur er settur upp. Og ef nýrri ríkisstjórn þessara flokka tekst vel upp gæti frí núverandi stjórnarflokka orðið langt. Vonandi berum við gæfu til þess að svo verði.

Haustið er enn ágætt. Svolítil væta en sæmilega hlýtt. Við Kimi erum nokkuð hressir að venju. Þó er lurðuskrattinn að angra Hösmaga annað slagið. Hann er nú ekki vanur að hlaupa til læknis þó hann fái sting. Enda ekki auðhlaupið að því. Eftir að hafa farið úr vinnu um hádegi í gær og dregið sig undir sængina góðu hálfskjálfandi ákvað hann að láta reyna á þetta frábæra heilbrigðiskerfi okkar. Það varð til þess að komast að því hver hans heimilsdoktor er. Ætla að reyna að fá sýklalyf til að drepa þessa pestarbakteríu endanlega. Hringi svo í MS til að fá staðfestingu á hvað mér verður byrlað. Það er alltaf betra að hafa vaðið fyrir neðan sig eins og þar stendur. Bestu kveðjur krúttin mín öll, ykkar Hösmagi.

Sunday, October 01, 2006

 

Söðullinn.

Stundum hefur Hösmagi kvartað yfir að fá ekki komment á bloggið sitt. Sú nýlunda gerðist í morgun er ég leit á síðasta pistil að þeir fóstbræður, yngri sonurinn og nafni minn, skrifa báðir stór innslög. Það er auðvitað mikið ánægjuefni. Tók þó þann kostinn að skrifa nýjan pistil. Og það er líka gott að heyra að þeir ætla ekki að kjósa núverandi stjórnarflokka í komandi kosningum. Ég er þeim sammála um margt sem þeir segja. Ósammála um annað. Lífið væri líka leiðinlegt ef við værum ætið sammála um hlutina. Ég hef áður sagt það hér að ég mat Ingibjörgu Sólrúnu afar mikils á árum áður. Hún felldi íhaldsmeirihlutann í Reykjavík 1994. Hennar hlutur var þar langstærstur. Það verður aldrei frá henni tekið. Þessvegna fannst mér enn verra er hún gekk á bak orða sinna og fór í þingframboð fyrir Sf. 2003. Þegar konur sitja í háum söðli verður fallið hærra þegar þær detta af baki. Og það er eins og henni hafi fatast flugið. Í pólitískri umræðu dagsins. Sumt bara mjög vandræðalegt.Það hefur heldur aldrei flökrað að mér að Vinstri grænir séu hafnir yfir gagnrýni. Því fer víðsfjarri. Það eru einkennilegar fuglar í öllum flokkum. Kannski er stuðningur minn við þá aðallega byggður á nokkuð hreinni samvisku þeirra í umhverfismálum. Og meiri trúverðugleika þeirra í baráttu fyrir jafnrétti. Það er ömurlegt í öllum hagvextinum hér að skipting lífsgæðanna skuli þróast með þeim hætti sem orðið hefur.
Ég get líka tekið undir nauðsyn þess að fá umbótasinnaða vinstri stjórn. En ég vona að nafni minn verði ekki fenginn til að úthluta ráðuneytunum. Það kann ekki góðri lukku að stýra ef einn flokkurinn á að ganga handjárnaður að samningaborðinu. Og hvaða " gamaldags sósíalisma" er hann að tala um? Vonandi ekki sósíalisma andskotans.Það eru ennfremur ný tíðindi fyrir mér að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hafi " samþykkt" Persaflóastríðið 1990. Og þar með nafni hans líka. Það er bara einföld sögufölsun að halda því fram að núverandi formaður VG beri einhverja ábyrgð á því stríði. Kannski ætlunin að jafna honum við þá Davíð og Draugsa. Þá staðföstu skoðanabræður.
Annars allt ágætt í dag. Sól hátt á lofti um þetta leyti. Hösmagi stálhress og nokkuð kátur með tilveruna. Bestu kveðjur til þeirra fóstbræðra og allra hinna líka, ykkar Hösmagi, horfandi fram á veginn.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online