Saturday, August 29, 2009

 

Gamalt hross.

Ég er enginn gæðingur lengur. Snerpan horfin. Þó vont sé að velta sér upp úr fortíðinni getur það stundum verið gagnlegt.Líf mitt hefur ekki verið samfelldur rósadans. En ég er ekki bitur maður og tel mig hafa verið ákaflega heppinn. Hef örugglega fengið meira af ómældri ánægju í lífinu en erfiðleikum. Til dæmis blessað barnalán. Þegar talað er um gömul hross dettur mér í hug kvæði Davíðs Stefánssonar og það hefur verið mér ofarlega í huga undanfarna daga.

Er ungir folar fitna inn við stall,
sem flestir verða aðeins markaðsvara,
má gamall jálkur líkt og freðið fjall
á fannabreiðum einn og gleymdur hjara.

Hann krafsar gadd, unz kelur hóf og legg,
og koldimm nóttin ógnar sínum gesti.
En stormakófið kæfir brostið hnegg
á klakabörðum útigönguhesti.

Hart er að verða að híma undir vegg
og hafa verið gæðingurinn besti.

Nú er tuttugasti dagur í pest. Það er verulega fúlt. Ég lýsti síðustu ferð minni á læknisfund hér á þriðjudaginn. Þegar ungi doktorinn sagði við mig: Vertu úti góði. Ekki vildi ég eiga líf mitt undir þessum bartskera. Ég er að leita mér ráða. Góður vinur minn var læknaður með sterum af álíka pest. Ég þekki lækninn sem það gerði og er að reyna að ná sambandi við hann. Rólyndi mitt og alkunn geðprýði eru í hættu ef ég fæ ekkert að gert. Það liggur við að hver dagur sé að verða að martröð. Dunda mér þó við minniháttar verk innanhúss. Það drepur tímann. Ég fór á bókasafnið í fyrradag.
Einar Ben., Sjón, Davíð Stefánsson, Agata Cristee og Jóhannes úr Kötlum. Heilt stórskotalið á náttborðinu.
Það er norðangjóla og hitinn rúmar 10 gráður. Ég dreif mig út í morgun til að brjóta upp ræfildóminn. Kimi beið mín við bílskúrinn þegar heim kom og heldur sig hér nálægt mér sem fyrr. Við sendum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Tuesday, August 25, 2009

 

Með angur í hjarta...

og dirfskunnar móð, ferð þína eigin, ótroðnu slóð. Ég hélt að ég væri orðinn albata í gærmorgun. Því miður reyndist það ekki rétt. Um hádegi var ég orðinn svangur. Nokkuð sem hafði ekki gerst í hálfan mánuð. Borðaði sviðakjamma og 2 bita af kjúklingi og það var ágætt. Þegar leið á daginn jókst slenið á ný. Ég hékk yfir fótboltanum í sjónvarpinu og fór svo nokkuð snemma að sofa. Slappur í morgunsárið og ég tók ekki áhættu með því að fara út. Hringdi á spítalann og sagði mínar farir ekki sléttar. Viðtal við doktor kl. 11. Hann var bergmálið af þeim sem ég talaði við þann 14. Sá hinn sami hefur meiri áhuga á býflugnarækt en lækningum. Hann úthlutaði mér sjálfum sér sem heimilislækni í vetur en ég mótmælti og valdi mér annan. Kannski hefur honum ekki líkað það. Það er hans mál en ekki mitt. Þessi ungi afleysingalæknir sem ég hitti í morgun sagði mér að hætta að reykja. Það væri heilsuspillandi og ég væri á síðustu metrunum. Hætta á lungnaþembu, lungnakrabbameini, kransæðastíflu og heilablóðfalli. Mér hefur lengi verið ljóst að reykingar eru ekki heilsusamlegar. Þessi náungi át upp eftir hinum að ég ætti langa reykingasögu. Ég þurfti bara alls ekki að hitta hann til að fá það upplýst. Ég spurði hvort hugsast gæti að ég væri með verri sýkingu vegna málmsins í vinstra lunganu. Hann starði á mig í forundran, sagði að aðrir biðu eftir sér og ég skyldi fara í apótekið að sækja þangað lyf sem myndu hjálpa mér að gleyma tóbakinu. Sagði mér líka að sumir væru veikir af þessari illkynjuðu pest í viku, hálfan mánuð og aðrir í 3 vikur. Skyldi koma mér heim og hafa hægt um mig. Ég er réttlaus meðan ég hætti ekki reykingunum með öllu. Ég reyki að vísu einn og einn vindil enn. Mér til hugarhægðar og yndisauka í öllum leiðindunum. Ég hef þó stórdregið úr þessu og auðvitað segir skynsemin mér að best væri að hætta alveg. Kannski geri ég það fljótlega. En ég yfirgaf spítalann í morgun með angur í hjarta. Ég fór bónleiður til búðar. Enda bara annars- eða 3ja flokks borgari. Ég vil reyndar óska báðum þessum læknum farsældar í starfi. Ég mun samt reyna að vera án starfskrafta þeirra framvegis. Þó allt sem þeir hafi sagt um tóbakið sé satt og rétt er það vond læknisfræði að afgreiða fólk með þessum hætti.
Ég á pantað viðtal við Eirík Jónsson, minn ágæta skurðlækni, í næsta mánuði. Ég reyni að fá því flýtt. Það er maður sem hægt er að tala við. Maður, sem tekur starf sitt alvarlega, gerir ekki lítið úr fólki, né afgreiðir það með þeim hætti að það gangi burt með angur í hjarta. Það er gott að slíkt fólk sé enn við störf í heilbrigðisgeiranum.
Kimi minn reynist mér betur en enginn í þessum hremmingum. Segir fátt en samvera við lítið dýr getur gefið heilmikið. Hann dormar nú á gamla tágastólnum. Við sendum ykkur okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Saturday, August 22, 2009

 

Laugardagur til lukku?

Í dag er síðasti laxveiðidagur Hösmaga í sumar.Hann situr þó heima og sötrar Kók. Lítil lyst á morgunkaffi þessa dagana, sem sýnir betur en allt annað að heilsufarið er bágborið. Ég vona að vendipunktur verði í dag. Að öðrum kosti verð ég að leita alvörulæknis á mánudaginn. Þetta er þrettándi dagur í pest. Miklu meira en nóg komið. Skáldið mitt nýtir sennilega hluta af seinniparti veiðidagsins.Undirritaður tekur enga sjensa í dag minnugur síðasta mánudags. Rúmlegur umfram brýna nauðsyn eru ákaflega hvimleiðar. Aukinheldur þegar maður hefur varla haus til að lesa með. Þegar bráð hefur af mér hef ég gripið í Skipið eftir Stefán Mána.Ég hef lokið við þriðjunginn. Margir vafasamir karakterar hafa komið við sögu. Kannski get ég tekið svolitla törn í dag. Matarlyst er nánast engin og ég lifi ekki lengi á varaforðanum en ég á þó enn bjartsýnina að vopni. Hún hefur lengst af reynst mér heilladrjúg og ég mun komast yfir þessa illkynjuðu pest. Á því er enginn vafi. Lítið um jákvæðar fréttir úr pólitíkinni. Þingið virðist fast í öngstræti og enn alveg óljóst um úrslit Icesave málsins. Nú getur maður aðeins vonað það besta þó traustið til þingmanna sé í lágmarki. Sá sem tapar voninni á ekkert eftir.
Þetta er nú hálfömurlegur morgunpistill. Líðan mín er þó með skásta móti utan leiðans sem sækir á mig í þessu vesældarástandi. Ég er orðinn svo staðfastur bindindismaður að ég get ekki einu sinni fengið mér snafs til að hressa mig við. Ég ætla að endurheimta heilsu mína á annan og öruggari hátt. Illskást í vondri stöðu.
Það virðist afar rólegt hér utandyra. Sólarglæta en samt nokkuð skýjað. Kimi sefur í sófa inní stofu. Áhyggjulaus að venju í draumalandinu. Nú velti ég teningunum nokkrum sinnum mér til hugarhægðar. Við félagarnir sendum ykkur bestu kveðjur okkar, ykkar Hösmagi.

Wednesday, August 19, 2009

 

Raunir Hösmaga.

Stundum vilja verða hlé á bloggáráttunni. Sennilega ágætt. En Hösmagi er búinn að vera óttalegur aumingi í 10 daga.Mánudaginn 10 vaknaði ég ómögulegur snemma morguns. Fór þó á lappir og í mína dagvissu morgunreisu. Þegar heim kom lagðist ég til hvílu aftur og var hálfrænulaus allan daginn. Þann 11. voru góð ráð dýr. Veiðivötnin biðu og ég varð að sjálfsögðu að halda í hann. Ég hafði lambakónginn minn sem bílstjóra inneftir. Þar hittum við Magga fyrir og við héldum til veiða. Gerðum góða veiði um kvöldið og daginn eftir komu Sölvi,Eyþór og 2 frændur hans. Við slitum upp nokkra fiska og héldum svo heimleiðis þann 13. Við Siggi renndum í hlað í Ástjörn kl. 5 og ég tíndi það helsta úr grænu þrumunni og Siggi hélt áfram í bæinn. Ég svaf í 12 tíma. Staulaðist á fætur til að fara fljótlega í rúmið aftur. Föstudagurinn leið í eymd og volæði. Ég fór á læknavaktina og fékk sýklalyf. Þau hafa lítið virkað enn. Á sunnudaginn var litlu stúlkunni þeirra Helgu og Sölva gefið nafn. Hún heitir Hrafnhildur Krístín. Þessi litla snót mun bera bæði þessi rammíslensku og fallegu nöfn með sóma og sann. Ég tók enga áhættu og hélt mig heima. Hugur minn var hjá lítilli stúlku og foreldrum hennar. Það hefði verið lagleg uppákoma að dreifa smitbakeríum yfir alla viðstadda. Litla stúlkan á nafngjafirnar inni hjá Hösmaga afa sínum. Ég vona að þessi pestarskratti gangi ekki af mér dauðum. Ég stóðst ekki mátið og hélt til veiða á mánudagsmorgun. Náði fljótlega 4 punda sjóbirtingi. En refsingin lét ekki á sér standa. Ég fór heim um hálfellefu orðinn fárveikur aftur.Hríðskalf í 3 peysum undir dúnsænginni. Skárri í gær en aftur orðinn veikur eftir hádegi í dag. Ég er orðinn hundleiður á þessu. Bálvondur bara. Ég get varla sagt að ég hafi borðað neitt þessa erfiðu daga. Ég þrauka þetta af mér. Af gömlum vana. Sólarljósið á þessum bæ í dag er Sólblómið góða. Fræ sem ég setti í pott einhverntíma í vor. Ég hef nostrað við þessa jurt og í morgun var brosandi sólblóm í stofuglugganum hjá okkur Kimi. Hann ber virðingu fyrir þessu blómi og hefur algjörlega látið það í friði þó ég hafi staðið hann að verki við blómaát utandyra. Bróðir minn gætti hans meðan Veiðivatnatúrinn stóð yfir. Þeir þekkjast og er vel til vina. Sendiði mér nú góða strauma, krúttin mín kær. Mér finnst meira en nóg komið af hremmingum að sinni. Við rauðu sambýlingarnir sendum ykkur okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Wednesday, August 05, 2009

 

Litla sæta ljúfan góða.

Á laugardaginn var skrapp ég í bæinn til að líta á litlu stúlkuna þeirra Helgu og Sölva. Hún er lítil og sæt með greindarlegt andlit. Ég varð eiginlega aftur jafnundrandi og þegar Ingunn Anna fæddist fyrir 7 árum. Undrandi á, hvað nýfædd börn eru smá. Algjörlega háð foreldrum sínum í einu og öllu. Þau eru fljót að braggast og dafna. Áður en varir verður þessi frumburður þeirra Helgu og Sölva orðin að státinni stelpu. Foreldrarnir geta sannarlega verið stoltir yfir stelpunni sinni. Saga lífsins heldur sífellt áfram og fæðing þessa litla barns er Hösmaga gamla ákaflega kær.

Það er rífandi gangur í laxveiðinni í Ölfusá.Í gærkvöldi voru komnir 330 laxar á land og 62 sjóbirtingar að auki. Megnið af birtingnum er á bilinu 2-7 pund svo það er ekki litil ábót á laxinn.Áin tær og falleg og það stefnir í besta laxveiðisumar í Ölfusá í áratugi. Veðurblíðan varir enn og fyrripart síðasta mánudags þegar undirritaður dvaldi á bakkanum var neðri hluti líkamans hálfsoðinn í vöðlunum. Á seinni vaktinni í Víkinni réð hafgolan ríkjum. Ég krækti í 2 góða laxa og sjóbirting að auki. Fiskarnir mínir úr ánni eru því orðnir 13 í sumar. Það er nú sérdeilis góð tala þó ég sé að sjálfsögðu ekki aldeilis hættur.Hélt heimleiðis glaður í sinni eftir indælan dag á bökkum Ölfusár í ágætum félagsskap. Yfirleitt er ég ánægður með veiðifélaga mína þó þar séu undantekningar eins og í flestu öðru. Ég gerði hálfpartinn ráð fyrir að fara inná Arnarvatnsheiði í dag en af ýmsum ástæðum varð ekki af því. Kannski frestast sú för til næsta sumars en mig langar mjög að koma þarna. Njóta nýrra dásemda við útiveru og veiði. Ánægjan af veiðiskapnum minnkar ekki með áunum og ég vona að ég fái notið hennar í mörg sumur til viðbótar. Ég reyni enn fyrir mér í ánni minni á sunnudaginn og svo taka Veiðivötnin við þann 11. Afkomendur móður minnar, Gunnþórunnar Klöru, ætla að hittast austur í Fljótshlíð á laugardaginn kemur. Þann 12. ágúst næstkomandi eru 100 ár liðin frá fæðingu hennar. Mér verður tíðum hugsað til hennar. Dillandi hlátursins og allra hennar gegnumheilu gæða. Þakklæti er mér alltaf efst í huga. Þakklæti fyrir allt sem ég henni að gjalda. Rólyndið, glaðlyndið og eðlisgreindina.

Eftir rigningu í morgun hefur glaðnað til. Kimi hnusar af blíðunni utandyra og ég er að dunda mér við ýmislegt sem gera þarf. Kannski skvettir hann úr sér seinnipartinn og þá gæti ég laumast út og kíkt eftir nokkrum ormum í viðbót. Lífið gengur sinn gang og ég hef ekki misst trúna á því þó ýmislegt sé mótdrægt eins og stundum áður.
Við kisi minn sendum ykkur öllum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online