Monday, May 22, 2006

 

Hryssingur.

Andskoti er hann leiður núna. Hávaðarok og hitastigið rétt yfir frostmarki. Kannski verð ég bráðum sammála Sigga sænska um veðrið hér og hafi allt á hornum mér af þeim sökum.Kominn 23. maí og allt við það sama í kortunum. En kannski er nú plús við þetta allt. Við íslendingar fögnum gífurlega þegar blíðan brestur á. Sem mun að sjálfsögðu gerast. Svona þegar þar að kemur. Ég er búinn að hafa kisa minn fyrir rangri sök. Hélt hann væri óttalegur auli. Gæti ekki lært að fara inn og út um glugga. Auðvitað var þetta ekki rétt. Ég skildi stundum eftir opnar dyrnar á morgnana svo kisi kæmist nú örugglega inn aftur úr rannsóknarleiðöngrum sínum. Líklega er það nú ekki mjög varlegt. Hér gengu þjófar hús úr húsi fyrir skömmu og stálu því sem þeir náðu til. Vonandi nær löggan þessum skálkum og tekur ærlega í þá.
Ég ætla uppí Hreppa nú í morgunsárið. Á nýja farkostinum fasteignasölunnar. Suzuki jimmy. Búinn að prófa hann aðeins. Fyrir mann með bíladellu er einn stór ókostur við að eiga jafnfrábæran vagn og Jeep Grand Cherokee. Allir aðrir vagnar verða bara prump. Mér líkar þó alltaf prýðisvel við litla Lanca. Traustur og seigur. Ég sá einn notaðan Toyota Land Lúser í morgun. Til sölu á einni bílasölunni. Og verðið? 7.690.000 Ég held það hljóti að vera eitthvað meira en lítið að í heilabúi þess sem kaupir slíkan vagn. Nema hann sækist sérstaklega eftir eiginleikum hestakerrunnar. Og nú verður Hörður minn líklega sár við mig. Þessi sem hefði orðið skæðasti bílþjófur landsins ef hann hefði lagt það fyrir sig. Minn yfirbílreddari og bjargvættur þegar eitthvað fer úrskeiðis. Hitti hann í gær og þá var hann á leið að athuga með kínversku vespuna. Hlakka til að frétta af því. Og þær kínversku hljóta bara að vera rauðar. Svo má líka athuga hvort Piaggio eru fáanlegar hér. Mér finnst eiginlega hálftómlegt í bílskúrnum eftir að ég skilaði rauðu Vento vespunni.
Borgarfulltúinn sem ræður framtíð Reykjavíkur næstu 4 árin rokkar nú milli flokka. Er hjá íhaldinu eins og er. Það getur allt gerst. Mín von er að skiptingin verði 6 6 2 og 1. Kannski óskhyggja. En kannski líka traust á dómgreind Reykvíkinga. Þetta verður allt ljóst aðfaranótt þess 28. Vona það besta. Ingólfsfjall enn brúnaþungt. Sem von er. Það á þó enn nokkra vini. Og vonandi fjölgar þeim ört á næstu dögum. Verði þeir nógu margir er enn von til þess að þróuninni verði snúið við. Hryðjuverkunum verði hætt. Fjallið nái aftur kröftum sínum og dularmagni.
Góðar kveðjur úr vindhryðjunum, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online