Tuesday, June 21, 2005

 

Sumarsólstöður.

Sumarsólstöður í gær. Og Jónsmessa á föstudaginn. Sagt er að gott sé að velta sér upp úr næturdögginni aðfaranótt Jónsmessu. Og allsnakinn, nota bene. Vissara að velja sér rétta staðinn því ekki má særa blygðunarsemi náungans. Getur varðað tugthúsvist. Ég hef aldrei reynt þetta. Oft ætlað að gera það en framkvæmdir orðið því minni. Kannski ég drífi mig bara upp í Hellisskóg og láti verða af þessu aðfaranótt næsta föstudags. Bíð þó enn vonglaðari eftir laugardeginum og laxinum sem ég vona að bíði þá eftir mér. Nú hafa menn reynt fyrir sér í Ölfusá í 2 daga og laxinn lætur bíða eftir sér. Kannski er hann ekki kominn eða veiðimenn ekki nógu snjallir. Sjáum bara hvað setur. Ekkert koníak í verðlaun núna. Reyndar þarf enga gulrót fyrir mig fremur en endranær þegar möguleiki er á fiski. Ég hef þó mjög góða tilfinningu fyrir þessu sumri. Og alltaf er vonin til staðar um " þann stóra" Aldrei tekist að landa 20 pundara en hef þó sett í þá. Og stóru fiskarnir sem tapast hafa stækka alltaf í huga veiðimannsins. Við drögum ekki úr heldur aukum heldur í. En fiskarnir sem við missum verða minnistæðari en hinir sem við náum á land. Ég er t.d. oft að hugsa um stærðina á laxi sem hafði betur 8. júlí 1990. Hrikalegur drellir. Örugglega nær 30 pundum en 20. Verður örugglega yfir 30 þegar ég verð sjötugur. Ég hyggst vinna eins lengi og heilsa og aðrar aðstæður leyfa. En það verður líka dásamlegt að eiga endalaust sumarfrí og dunda við veiðiskap. Þegar þar að kemur. Mun gera það meðan ég stend í lappirnar og jafnvel lengur. Hösmagi sendir ykkur kveðjur í heiðríkjunni.

Monday, June 20, 2005

 

Gerfisumar.

Líklega eru bara gerfisumur á Íslandi. A.m.k. ekki skandinavísk sumur. Hér verður fólk bara að klæðast húfum og vettlingum. Svei því bara. Fyrir 25 árum var ég í Stokkhólmi. Það var skandinavískt sumar og indælt að labba um gamla Stan. Og koma til Dronningholm. Samt fannst mér yfirgengilega gott að koma heim til Íslands aftur. Í þetta íslenska sumar. Flaug heim með næturflugi frá Köben. Kom heim undir morgun og gat ekki látið sofandi skáldið í friði. Reif það upp úr rúminu og faðmaði það að mér. Fékk ákúrur frá þáverandi tengdamóður.Lét mér það í léttu rúmi liggja. Ég hafði saknað skáldsins. Og þegar talað er um tengdamæður kemur mér í hug sagan af prestinum sem þrumaði yfir lýðnum. Úthúðaði áfenginu og sagði það gera menn viti sínu fjær. Sagði að þeir ættu til að grípa til byssunnar og skjóta á tengdamæður sínar. Og það sem verra væri að ölvunin leiddi til þess að þeir hittu þær ekki. Grafalvarlegt mál að sjálfsögðu.
Ég minntist á glansandi æru forsætisráðherrans um daginn. Vonandi hefur ekki komið stór blettur á hana þó hann hafi verið staðinn að ósannindum þegar hann las upp hreinsunardókúmentið. Hann sagði að hann og fólk honum skylt ætti rúm 25% í í fyrirtækinu Skinney-Þinganesi. En gat þess ekki að sama fólk ætti 50% í fyrirtækinu Ketilaugu sem aftur ætti 18% í Skinney Þinganesi. En auðvitað eru þetta smámunir. Bara 9% í viðbót. Ævilaun verkamannsins eru bara smáurar þegar forsætisráðherra á í hlut. Hver sannleikselskandi maður veit að að það eru bara kommúnistar og önnur kvikindi sem eru að " koma höggi á forsætisráðherra" Og framsóknarflokkinn. Ef einhver hefur uppi minnstu gagnrýni þá er bara um pólitískar ofsóknir að ræða. Mér er hulin ráðgáta af hverju ríkisendurskoðandi var fenginn í þessa hreingerningu. Skiptir ef til vill engu máli. Nóg til af öðrum hreingerningamönnum til að þrífa burt aurinn sem kommúnistar ausa yfir ráðherrann. Hjálmar Árnason til dæmis. Og Birkir og Björn Ingi. Allir afburðagóðir í skúringum. Það verður gaman að fylgjast með framvindunni. Og aðferðunum sem notaðar verða. Röksemdunum þekktu að sá sem ekki er með mér er á móti mér. Svona eins og allir andstæðingar Íraksstríðsins voru stimplaðir sem vinir og varnarlið Saddams Hússeins. Aldeilis skotheld rök. Eða finnst ykkur það ekki? Hösmagi, hóflega ánægður með æruþvottinn.

Sunday, June 19, 2005

 

Rekja.

Nú hvolfist regnið úr loftinu. Mjög gott á skraufþurra jörð. Vona að þessi væta dugi til að fá ánamaðkana upp á yfirborð jarðar í kvöld eða nótt. Nú herðir hann sig upp um allan helming og mér kemur í hug vísan Regnið þétt til foldar fellur o.s.frv. Bókstaflega mótar ekki fyrir Ingólfsfjalli. Sólin skein í heiði í gær. Og það var fallegt í Veiðivötnum og alltaf jafn ljúft að koma þar. Svo eru staðir sem eru bara fallegir þegar vel veiðist. Eins og sagt er um Grindavík. Það er nú ekki oft sem dyrabjöllunni er dinglað hér. Gerðist þó í gærkvöldi. Frúin í næstu íbúð. Er á leið til Portúgal í fyrramálið með dóttur sína unga. Og þá er það skógardýrið ógurlega sem er vegalaust heima á meðan. Konan spurði hvort mögulegt væri að ég gætti dýrsins á meðan. Í hálfan mánuð. Og það kom mér náttúrlega í koll að vera með afbrigðum bóngóður maður. Sagði frúnni að ég væri í fullu starfi og svo að veiða á milli. En þetta varð úr. Ég ætla sem sagt að gefa kisa garminum að éta á meðan, en hann verður nú að sjá um sig sjálfur að mestu leyti. Glugginn verður opinn heima hjá honum og ætli ég verði ekki að hafa það eins hér. Engan sá ég laxinn við Ölfusá í dag. Vona að hann komi á slaginu 7 þann 25. Árleg eftirvænting og hugurinn stendur til stórræða. Fékk þann fyrsta í fyrra. Á æskrím étur hann. Mont og mynd í Mogga fylgdi á eftir.Sumarið 1999 var hlaup úr Hagajökli í ánni. Daginn fyrir fyrsta veiðidaginn minn kom ég upp á Miðsvæði og þar voru menn að reyna að veiða í kolmórauðu vatni. Frétti þá að stjórnin hefði ákveðið að veita koníaksflösku í verðlaun fyrir fyrsta laxinn. Þetta var um kl. 8.30 þann 22. júní og því einn og hálfur tími eftir af veiðitíma. Og þá gerði ég það sem ég hafði aldrei gert áður og aldrei síðan, að óska þess að þessir veiðimenn veiddu ekki neitt. Og það gekk eftir. Mætti svo galvaskur kl. 7 um morguninn. Settist að í Klettsvík og dorgaði með ánamaðki og horfði á moraða ána. Kl. 9.30 fannst mér eins og seiði væri að naga ánamaðkinn. Svo hætti bara nartið. Og ég beið rólegur og var við það að sofna á bakkanum. Stóð svo upp og rétti upp stöngina. Og viti menn. Bráðlega lá 13 punda nýgengin hrygna á bakkanum. Hafði bara rennt maðkinum rétt si svona ofan í maga. Og það sannaðist þá að fljótt flýgur fiskisaga. Fyrst kom ljósmyndari og stuttu síðar koníakið. Flaskan var þó ekki afmeyjuð á staðnum. Það beið betri tíma. Enn innihaldið rann að sjálfsögðu ljúflega niður svona smátt og smátt. Svona er nú skemmtilegt að rifja upp fyrir gamla veiðirefi. Og það er líka skemmtilegt að hugsa til jafnskemmtilegra atvika sem eiga eftir að gerast. Hösmagi, með hugann við komandi ævintýradaga.

Monday, June 13, 2005

 

Smáaurar.

Búið að hvítþvo Dóra. Glansandi æra og allt í þessu fína lagi. Hagsmunir hans og fjölskyldunnar voru nefnilega smávægilegir. Bara 87 milljónir. Það er auðvitað þvílík skiptimynt að það eru bara hrekkjusvín og fantar sem finnst taka því að minnast á það. En ég segi nú við Dóra eins og sagt var við Hannes Hólmstein hérna á dögunum: Hefurðu enga sómatilfinningu? Ég er reyndar sannfærður um að ráðherrann telur sína sómatilfinningu í besta lagi. Þegar veruleikafirringin hefur heltekið menn á þennan hátt, þá missa þeir algjörlega hæfileikann til að geta skammast sín. Þetta er auðvitað alltsaman þyngra en tárum taki. Sýnir einfaldlega hvernig siðferðið í íslenskum stjórnmálum er orðið.

Í gær var sumar hér sunnanlands. Hitinn komst í 20,1 gráðu kl. 7 í gærkvöldi. En það er spáð rigningu á föstudaginn. 17. júní lætur ekki að sér hæða. Ég var eiginlega búinn að ákveða að skjótast inní Veiðivötn á laugardaginn. Með einn áttræðan kall með mér. Sá hefur aldrei komið þar svo veðrið skiptir auðvitað öllu. Lítið gaman í þoku og rigningu. Veiðistöngin verður ekki meðferðis nú. Það bíður til 12. ágúst. Kannski breytist spáin og þá drífum við okkur.Fremur rólegt á vinnustað þessa dagana. Hundleiðinlegt að hanga innandyra hálfiðjulaus.Þó mér finnst svo sem ágætt að slappa af annað slagið og vera bara latur, þá er óhemjuleiðinlegt að hanga við skrifborð og bíða eftir að tíminn líði. En það eru hæðir og lægðir þarna eins og í öllu öðru. Lífið er einfaldlega bylgjuhreyfing. Allt eins og það leggur sig. Stundum rótfiskast og svo er ördeyða á milli. Stundum er gaman og í annan tíma bara leiðinlegt. Við verðum líklega öll að sætta okkur við það. Hitti öll systkini mín í gær. Settum sumarblóm á leiði gömlu hjónanna í blíðunni í gærkvöldi. Hittumst nú sjaldan öll 4. Helst við þetta tækifæri. Ég ætti kannski að fara að panta mér leg í garðinum. Vil liggja í norðausturhorni garðsins. Þaðan hlýtur að vera gott að fylgjast með laxinum ganga upp ána. Er nú samt að vona að langt sé í það. Og hyggst festa öngul í mörgum löxum áður. Hösmagi, dreymandi um stóra fiska og aðra aðeins minni.

Saturday, June 11, 2005

 

Skoðanafælni.

Kannski er Dagur B. Eggertsson skoðanafælinn. Og fer í kringum hlutina. Neðst í skotgröfunum. Og líklega ofmetinn. Er það nokkur furða.Kemst þó ekki í hálfkvisti við ofmetnasta stjórnmálamann landsins, Ingibjörgu Sólrúnu.Það virðist vera sammerkt með allri þessari hjörð að geta ekki tjáð skoðanir sínar í nokkru máli. Hjörðin er nefnilega að róta sig. Fálma eftir einhverri fótfestu. Vonandi tekst henni það þó lítil von sé til þess. Þegar allar hugsjónir vantar, andleysið er algjört og úrræðin engin er ekki á góðu von. Þó núverandi landsfeður séu nú ekki upp á marga fiska efast ég um að ástandið skánaði ef valdasjúkir, hugsjónalausir og rótlausir moðhausar tækju við. Vonum þó hið besta og að fjöldi vinstri manna, sem nú ráfa ráðvilltir um, nái áttum á ný. Þá væri einhver von til þess að ranglætið í þessu þjóðfélagi minnkaði. Maður sem ég þekki verður 67 ára þann 2. júlí n.k. Hann vinnur fulla vinnu, 8 stundir 5 daga vikunnar. Hann ætlar að hætta á afmælisdaginn. Og hvers vegna. Jú hann hækkar í launum við það. Veit þó nánast hvert mannsbarn hver kjör aldraðra eru. En svona eru nú laun verkamannsins á Íslandi í dag. Smánarblettur á þjóðarsálinni. Hér er nóg handa öllum ef við skiptum því bara á réttlátari hátt. En þar sem frelsið til að troða á hinum smáa er óheft verður útkoman þessi. Fámenn stétt auðsafnara, nokkur hópur sem hefur það ágætt og svo restin sem gert er að lepja dauðann úr skel. Hæfilegur skammtur að sinni, Hösmagi, helvíti fúll út í öll rangindi.

Thursday, June 09, 2005

 

Þýðist löngum þjófakyn.

Kominn 10. júní og dásemdarveður. Fyrir mörgum árum tók ég að mér málsvörn fyrir bónda, sem var stefnt fyrir meiðyrði. Hann skrifaði sveitunga sínum einkabréf þar sem hann kallaði hann þjóf. Náunginn var alræmdur fyrir hvinnsku. Sem sagt hirðusamur í meira lagi. Skjólstæðingur minn var mjög pennafær. Bréfið var þrælskemmtilegt aflestrar en þjófurinn kunni ekki að meta það. Réð sér lögmann og stefndi bónda. Og það fór eins og oft áður að erfitt varð um sannanir gegn þessum fingralanga sveitunga bóndans. Bóndi varð að greiða honum fé fyrir árás á hans óflekkuðu æru. Og greiða tveim lögmönnum þóknun að auki. Það sama gerðist í þessu máli eins og í flestum dómsmálum á Íslandi. Ranglætið bar sigurorð af réttlætinu. Annar sveitungi bóndans sagði mér að nú skyldi ég eiga von á jólakorti frá honum. Og sér kæmi ekki á óvart að það yrði vísa með því. Leið svo að jólum og ég fékk mitt kort. Á því voru hlýjar kveðjur til mín og vísa á miða.

Þýðist löngum þjófakyn
þykir að frómleik ringur,
þó við tállaus tilskrifin
talsvert styttust fingur.

Ég fann þennan miða í flutningunum í haust. Reyndar marga aðra skemmtilega miða. Lausavísur sem ég var löngu búinn að gleyma. Skemmtilegt.

Það var virkilega gaman að sækja þau skáldið og heitkonuna til Keflavíkur á þriðjudaginn var. Fórum Krýsuvíkurleiðina heim á Selfoss og þau héldu síðan á litla Lanca til Reykjavíkur. Skáldið er nú að stangveiðum í Baugsstaðaósi. Gott veiðiveður. Tel víst að að skáldið njóti sín þarna núna. Hvaðan skyldi það hafa áhugann á veiðiskap? Gettu tvisvar. Hösmagi, harla hress að morgni dags.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online