Friday, December 31, 2004

 

Hösmagi.

Gamlársdagur runninn upp. Hér er nú sem stendur yndislegt veður. Logn og hiti um frostmark. Það eru ekki allir sem vita hvað Hösmagi táknar. Dyggir lesendur Grettissögu kannst þó örugglega við nafnið. Hösmagi var sem sé hrútur þeirra bræðra, Grettis og Illuga í útlegðinni í Drangey. Hann hafði þann sið að stanga dyrnar á kofa þeirra til að sníkja. Hrúturinn var grár á maga og þannig varð nafnið til. Þegar óvinir Grettis fóru að þeim í Drangey til að vega þá varð hark fyrir dyrum. Þá mælti Grettir: Knýr Hösmagi hurð vora bróðir? En málið var alvarlegra en svo og flestir þekkja framhaldið. Árið 1994 hóf undirritaður sambúð með ágætri konu. Hún tók fljótlega kettling, læðu, sem var alltaf kölluð Kisa. Svo sem ágætisnafn á kött. Ég tók strax nokkru ástfóstri við dýrið, enda laðaðist það að mér. Jafnvel svo að ég fékk ákúrur fyrir að strjúka það meira en sambýliskonunni. Var jafnvel farinn að sitja á mér við gælurnar ef konan var heima. Eins og fara gerir kom að því að læðan eignaðist kettlinga. Þrjú stykki, eina dóttur og tvo syni. Frumburðinn var Lýsingur eða öllu heldur Sólblómi sem aðeins 7 vikna gamall lagði land undir fót með undirrituðum til Reykjavíkur. Hann var sem sagt á leið til nýrra heimkynna. Til skáldsins míns og móður hans í Þingholtsstræti.Þar var hann sannarlega í góðu fóstri. Hinn bróðirinn var biksvartur. Strax og hann var í heiminn borinn laust nafninu niður í heila undirritaðs. Hösmagi! Þetta var 27. mars 1995. Undir árslok hvarf undirritaður úr sambúðinni og Hösmagi fylgdi með. Við hófum búskap í sænska húsinu. Ég sagði dýrinu strax að hérna ættum við nú heima framvegis og skýrði því frá hvernig komast mætti inn og út úr húsinu. Kötturinn skildi þetta allt til fullnustu enda vorum við vinir og sálufélagar. Ég held að ástin hvor á öðrum hafi verið alveg fölskvalaus. Ég býst við að þetta sé langgáfaðsti köttur sem ég hef kynnst. Ég kann af gáfum þessum margar sögur og segi kannski frá þeim síðar. Kötturinn hélt, að ég held, að hann hafi verið hundur. Eða jafnvel maður. Við áttum margar ánægjulegar stundir saman meðan við bjuggum þarna. Og aldrei í eitt einasta skipti kom hann á sitt fyrra heimili þó það væri aðeins 300 metra í burtu. Minnugur þess hvað ég hafði sagt honum þegar við fluttumst í hið fornfræga hús, Sænska húsið. Kemur við sögu í Radíó Selfoss. Hösmagi hvarf úr lífi mínu í september 1998. Hann hefur þó aldrei horfið mér úr huga og er þar enn mjög sterkur eins og þessi skrif mín sýna. Og nafnið er ég með á heilanum. Ég fékk mér netfang skömmu eftir að kötturinn hvarf. Ekkert nema hosmagi kom til greina. Og þannig er nú notandanafn mitt hér tilorðið.Tími til að nema staðar nú. Verður væntanlega síðasti pistill minn hér á árinu 2004. En vonandi dettur mér eitthvað gáfulegt í hug á næsta ári. Og ég lofa nafna mínum, Sölvavini, veiðifréttum þegar tilefni gefst. Þakka honum líka kærlega kommentið. Og bestu áramótakveðjur til ykkar allra, elskurnar mínar, einkum og sérílagi í sundið mitt í Edinborg. Megi 2005 færa ykkur gæfu og farsæld. Ykkar einlægur Hösmagi alías Sigurður Sveinsson.

Tuesday, December 28, 2004

 

Hannes eða Rumsfield.

Aldrei þessu vant er undirritaður heima hjá sér á þessum tíma dags. Ákvað að taka mér frí og freista þess að endurheimta mína góðu heilsu. Sá það hér áðan að sonur minn yngri hefur étið yfir sig. En ekki af Hannesi. Allir búnir að fá nóg af honum fyrir löngu. Hins vegar gæti ég alveg trúað að hann hafi komið pestarsýklinum fyrir í mér. Eða dólgurinn Rumsfeld. Er ekki frá því að útsendari frá þessum andskotum hafi verið í vélinni til Edinborgar. Hafa líklega grun um skoðanir mínar á Íraksstríðinu og tilbúnir til alls.Fari þeir báðir í fúlan rass. ( Annar þrælvanur þar hvort eð er.) Af hverju þurfum við að sitja uppi með landsfeður sem verða til þess að við skömmust okkar fyrir að vera íslendingar? Menn sem sífellt tala svo fjálglega um frelsi og lýðræði. Og ákveða svo privat og persónulega að gera okkur öll ábyrg fyrir þessu morð- og eyðileggingaræði sem stundað er í Írak. Ógeðslegum hryðjuverkum. Svo sannarlega. En svona getur nú lífið verið dapurlegt á köflum. Megi skömm þessara manna vara að eilífu. Dæmigert var svar Halldórs Ásgrímssonar við áliti eins þingmanns frjálslyndra. Þingmaðurinn vogaði sér að segja að kanarnir hefðu fengið þá mótspyrnu í Írak sem þeir ættu skilið. Halldór sagði hann vera með hryðjuverkamönnum. Einu hryðjuverkamennirnir í Írak eru kanarnir sjálfir og fylgifiskar þeirra í þessu ólögmæta og ógeðslega stríði. Einu eiturvopnin sem fundist hafa í Írak eru bandarískar fornminjar frá 1980 þegar Saddam var góði strákurinn. Allt er þetta þyngra en tárum taki. Meira síðar, með kærum kveðjum til allra góðra manna

Monday, December 27, 2004

 

27.des.

Sit hér í vinnunni við guðsvolaða heilsu. Komst hingað klakklaust í gær og var að mestu rænulaus frá kl. 20 - til 8 í morgun. En dauðir munu upp rísa. Í Edinborg var það day nurse. Ég fæ vonandi night nurse til mín í nótt. Dásamlegt að kúra undir sæng við gnauð vindsins úti. Snjórinn þyrlast hér um allt og ég bíð aðeins eftir því að klukkan verði 17. Ég bið að heilsa ykkur, krúttin mín, og kem inn aftur þegar pestarsýkillinn hefur lotið í lægra haldi.

Tuesday, December 21, 2004

 

Í Lögfræðingasundi

Á Selfossi í morgun og nú í góðu yfirlæti hjá skáldinu mínu og Helgu í Lögmannasundi hér í Edinborg. Svipað veður hér og heima og enginn jólasnjór. Gerir svo sem lítið til því undirritaður er búinn að slíta barnsskónum. Gleði jólanna felst líka mest í því hjá okkur þessu gamla liði að éta nógu mikið og hugsa fátt um Jesú Krist. Og svo kemur nýja árið með hækkandi sól, angan gróðurs og nóttlausri voraldar veröld. Og veiðiskap. Gaman, gaman.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online