Monday, January 25, 2010

 

Skin og skúrir.

Það er stundum ýmislegt skylt með veðrinu og mannlífinu. Skin og skúrir á báðum stöðum. Það var þannig hjá mér í gær. Rigningarhvolfur annað slagið utandyra og beinverkir innandyra. Komst þó vel fram úr deginum með verkjatöflunum, fór snemma í háttinn og svaf eins steinn. Mjög hress í morgunsárið og hlakka til dagsins. Veðrið kyrrt og sæmilega hlýtt og enn er hugurinn á reiki í kringum veiðiskap. Þrátt fyrir ærið verkefni í baráttunni fyrir betri heilsu gengur lífið sinn gang. Það er mikilvægt að láta ekki slá sig út af laginu og halda sínu striki. Nú fer aðalfundur stangveiðifélagsins að bresta á og þá þarf að velja sér veiðidaga. Sannarlega ætla ég að rótonum upp í sumar, bæði hér í Ölfusá, Veiðivötnum og vonandi víðar. Það er tilhlökkunarefni að væntanlega verðum við 6 saman gaurarnir í Vötnunum í sumar. Gamli Hösmagi, 2 synir, 2 sonarsynir og dóttursonurinn. Svo koma Ingunn Anna, Gústi og Hrafnhildur Kristín síðar.Fiskarnir verða sannarlega að vara sig. Ég ætla með nýtt leynivopn í Vötnin í sumar. Hef trú á að það geti hreinlega ekki brugðist. Það er algjört leyndó enn og ég ætla að fara með það alveg eins og mannsmorð á næstunni. Kannski fá innvígðir pata af því bráðum ef þeir biðja nógu fallega. Ég er eiginlega undrandi á sjálfum mér að hafa ekki reynt þetta áður.
Þó aðalstarf mitt um þessar mundir sé að hamast við að endurheimta mína góðu heilsu þá þarf líka að sinna hinum praktísku hlutum. Lífsbaráttan heldur áfram og skuldirnar gufa ekki upp. Eftir hrunið hefur verðtryggingin séð til þess að ég er aftur orðinn öreigi. Verðmæti íbúðarinnar minnkað og skuldirnar hækkað. Margir eru þó verr settir, því miður. Mér sýnist að þetta muni allt saman fljóta áfram hjá mér. Gamli Lancerinn, 19 ára, rann í gegnum skoðun í gær og græna þruman þarf ekki skoðun fyrr en á næsta ári. Í fyrradag hafði þessi eðalvagn verið í eigu Hösmaga ehf í nákvæmlega 4 ár. Ótrúlegt en satt. Enn sem ný og aðeins ekin rúmlega 8.000 km. pr. ár.
Það er ró og friður yfir okkur Kimi á þessum ljúfa vetrarmorgni.Eftir útiveru og æfingar á handriði svalagangsins hefur Kimi misst meðvitund á ullarteppinu góða. Teppinu, sem þau Helga og Sölvi gáfu mér í hinni eftirminnilegu Edinborgarheimsókn um jólin 2004. Við, þessir vinstrirauðhausar, sem ekki þolum óréttlæti, sendum öllum okkar vinum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Sunday, January 17, 2010

 

Vellíðan.

Veðrið er gott á þessum 17. degi janúarmánaðar. Kimi þrífur klær sínar eftir útiveru í blíðunni. Enn vel sauðljóst þó klukkan sé að verða 5. Mikil rólegheit yfir tilverunni hér í Ástjörn 7. Nú hafa verkjatöflurnar fengið frið í glösum sínum í 4 daga. Það er að sjálfsögðu frábært og bendir til að allt sé á réttri leið. Ég fer í næstu lyfjagjöf á spítalanum á miðvikudaginn kemur. Kvíði því ekkert og er viss um að ég fer létt með það. Lyfin gera að vísu árásir á fleira en æxlið utan á vinstra lunganu. Nú er bara dagaspursmál þangað til ég fer að líkjast sköllóttu steratrölli.Hárið er sem sagt komið á flótta frá höfðinu. Líklega hverfur skeggið líka. Ég ætla þó ekki að láta sauma á mig hauspoka. Þetta verður bara tímabundin fórn. Svo fæ ég kannski aftur mitt dimmrauða skegg. Aðalmálið er að ég ætla með góðri hjálp að ganga að þessu meini dauðu. Ég á svo mikið ógert enn. M.a. verulegt fiskidráp á næstu sumrum. Svo á ég eftir að skammast heilmikið í pólitíkinni. Bæjarstjórnarkosningar í vor og margt bendir til að það verði miklar breytingar hér í Árborg. Ég hef lengi verið þeirra skoðunar að flokkapólitíkin skipti miklu minna máli í sveitarstjórnarkosningum en kosningum til Alþingis. Ég er svo sem óráðinn enn hvað ég muni gera. Nema það er alveg ljóst að ég kýs ekki núverandi meirihlutaflokka.Ég er viss um að nú væri jarðvegur fyrir nýtt skemmtilegt sprengiframboð. Ég bíð. Den tid, den sorg. Kannski verður af þjóðaratkvæðagreislunni. Þessu vonda máli verður að ljúka einhverntíma. Ég vil ekki samþykkja þessar drápsklyfjar sem að mestu munu lenda á barnabörnum okkar. Ég er þó á báðum áttum. Mig langar eiginlega ekki að segja nei heldur. Það mun populistinn á Bessastöðum telja stuðning við sig. Hann getur þó enganveginn falið slóð síðustu ára í blindri þjónkun við glæpamennina sem eiga alla sök á icesave málinu. Við þurfum nýjar leiðir. Nýja stjórnarskrá sem tekur þetta vald af þessu puntembætti. Vald, sem þjóðin fær án atbeina eins manns. Þetta er vel hægt þó það hafi ekki tekist áður. Þetta þarf að gera strax því núverandi húsbóndi á Bessastöðum mun verma þar stóla í 30 mánuði í viðbót. Það sem hann er að gera núna er fyrst og fremst í eigin þágu. Við skulum ekki láta hann komast upp með mikið meira. Íhald og framsókn hampa forsetanum nú. Við vitum nákvæmlega af hverju. Þeir vilja komast aftur að kötlunum. Látum það heldur ekki verða.

Á eftir skipti ég afganginum af harðfiskinum milli okkar heimilislimanna. Í gær las ég bók Hrafns Jökulssonar, Þar sem vegurinn endar. Ákaflega ljúf aflestrar, lýrísk á köflum og hreyfir við hjartanu. Er svo byrjaður á Hótel Californíu eftir Stefán Mána. Lofar góðu. Við rauðliðar sendum ykkur okkar bestu kveðjur úr blíðunni, ykkar Hösmagi.

Wednesday, January 06, 2010

 

Einn er upp til fjalla,....

öllu viti fjær. Skrýtinn karl með skalla, skerpir gular klær. Nei, þetta á ekki við Steingrím J. þó upphaflega hafi ég verið að snúa út úr kvæði þjóðskáldsins um rjúpuna sem gæðakonan góða greip svo fegin við. Steingrímur var í viðtali við Sigmar í gærkvöldi. Það var engin bilbugur á karlinum og mér virtist hann mjög jarðtengdur í þeirri nýju stöðu sem upp kom þegar ÓRG neitaði að undirrita lögin um ríkisábyrgðina.Það er lán þessarar stjórnar að fjármálaráðherrann er andlit hennar miklu fremur en forsætisráðherrann. Ég er reyndar ekki alveg hlutlaus sem fyrrum flokksmaður og samherji Steingríms.Ég hef gagnrýnt hann mjög harðlega síðustu mánuði og að sjálfsögðu alls ekki sáttur við mjög margt af því sem hann hefur staðið fyrir að undanförnu. Samt sem áður erum við heppin að hafa þennan kjaftfora sveitamann í broddi fylkingar nú á efiðum tímum í sögu okkar. Ég vil ekki níða skóinn af Jóhönnu en það sjá það margir, líka fólk í SF, að það er miklu heppilegra að beita Steingrími fyrir vagninn í baráttunni sem framundan er. Mikilvægast af öllu er að íhald og framsókn nái ekki að skjóta sér til áhrifa. Við vitum nákvæmlega hvað það þýðir. Það versta úr hægri stefnu beggja flokka mun ríða húsum á ný. Fólk hefur vonandi ekki alveg gleymt draugnum og yfirnagaranum sem henti 300 milljörðum út um gluggann rétt fyrir hið endanlega hrun sem þeir félagar voru aðalhöfundar að.Þó þessi ríkisstjórn sem í upphafi vildi kenna sig við norræna velferð hafi valdið mér vonbrigðum á mörgum sviðum þá er alveg ljóst að nú er ekkert skárra í stöðunni en að hún sitji áfram. Ég vona að Steingrímur breyti um taktík. Reyni að ná sáttum við Ögmund og slaki á þumalskrúfunum sem hann festi á Guðfríði Lilju og Ásmund Einar Daðason. Það kemur líka sem betur fer að því að við losnum við populistann sem nú er húsráðandi á Bessastöðum. Manninn, sem árið 2005 sagði útlendingum að þeir hefðu nú lítið séð enn af snilld vina sinna. Mannanna, sem í krafti verka formanna íhalds og framsóknar hafa rústað þjóðarhag og í raun gert alla íslendinga gjaldþrota. Ég ætla að fylgjst grannt með næstu daga og vikur. Þó ég hafi verið orðinn leiður á pólitíkinni eins og svo margir aðrir þá má alls ekki leggja árar í bát. Andvaraleysi gagnvart íhaldi og framsókn má ekki rugla dómgreindina sem þó er eftir.

Það er lognblíða og við Kimi báðir hressir með það. Jólum formlega lokið og nú fer að birta smátt og smátt. Verkurinn út í vinstri handlegginn er horfinn. Það er góðs viti. Aukaverkanir af lyfjagjöfinni eru smámunir einir miðað við marga í sömu stöðu og ég er í. Hið góða er nálægt mér. Ég finn það og það styrkir mig mjög í baráttunni við þetta vonda mein. Næstu mánuðir verða baráttutími. Ég er tilbúinn og ákveðinn í að vinna sigur. Uppgjöf kemur ekki til greina. Ég hlakka til vorsins og sumarsins eins og áður. Kannski aldrei meira en einmitt nú. Bestu kveðjur frá okkur Dýra, ykkar Hösmagi.

Sunday, January 03, 2010

 

Blikur á lofti.

Enn er nýtt ár gengið í garð. Einhvernveginn komumst við í gegnum árið 2009 þó margt hafi verið okkur mótdrægt.Margir eru þó enn í algjörri afneitun. Megnið af sjálfstæðis- og framsóknarmönnum eru í þeim hópi. Þrátt fyrir lítið dálæti mitt á núverandi stjórnvöldum væri það allraversta að þessir flokkar kæmust aftur til áhrifa í bráð. Þá fyrst gætum við farið að biðja fyrir okkur. Andi Davíðs svífur enn yfir sjálfstæðisflokknum. Gömlu íhaldsmennirnir munu aldrei læra neitt. Aldrei viðurkenna óumdeilanlegar staðreyndir. Og margt af unga fólkinu í flokknum er á sama rólinu. Framsókn er ekki trúverðug heldur. Arfur Halldórs markar flokkinn enn. Það er ekkert eftir af hinum gömlu gildum þessa flokks. Það má segja að erindið sé þrotið og ekki myndu margir sakna flokksins þó hann liði undir lok. Það er margt sem bendir til þess að átakatímar séu framundan í pólitíkinni og vandséð hvað verður á bráðanæstunni. Kannski er ekki rétt að afskrifa þessa stjórn strax. Stjórnina, sem vill kenna sig við norræna velferð þó lítil merki sjáist um það. Ef stjórnin hefur sig í að snúa sér að aðstoð við heimilin í landinu á þann veg sem fólk vænti eftir síðustu kosningar á hún sjens. Þetta er vel hægt og augljóst að verði það ekki gert mun fara afar illa fyrir mörgum. Steingrímur sagði fyrir kosningar að hann vildi afnema verðtrygginguna. Hann hefur reyndar gert það að einu leyti. Það er búið að afnema vísitölutrygginguna á persónuafslættinum. Stórbrotnar efndir á kosningaloforði eða hitt þó heldur. Það versta við þessi stjórnvöld er valdahrokinn.Deilum og drottnum hvað sem skömm eða heiðri líður. Það hefur hvergi gefist vel að stjórna með þessum hætti. Það vantar líka viljann til að gera upp við fortíðina. Spillingin grasserar enn. Einkum hefur Samfylkingin raðað gæðingum sínum á jötuna. Stjórnsýslulögin þverbrotin daglega. Flokksskírteinið gerir þig hæfan. Hreingerningar er ærin þörf og það strax. Líklega getur maður bara vonað og það er þó jákvætt að geta leyft sér það.

Fyrir mig persónulega verður nýja árið ár baráttu og vonar á fleiri sviðum. Ég er byrjaður í lyfjameðferðinni við meininu efst í vinstra lunganu. Síðan tekur 7 vikna geislameðferð við. Ég held ró minni og bjartsýni. Treysti á hið góða og að lukkan verði mér hliðholl áfram. Ég mun aldrei gefast upp enda engin ástæða til þess. Við eigum frábæra lækna hér á landi og sem betur fer fá margir bata nú sem litla möguleika áttu fyrir nokkrum árum. Það er líka gott að finna samkenndina frá börnum mínum, systkinum og fjölda af öðru góðu fólki. Ég hlakka til dvalar á bökkum Ölfusár og fleiri veiðilendna á næsta sumri. Ástin á lífinu er söm og áður og því fær ekkert breytt. Þrátt fyrir blikur á lofti held ég vonglaður og bjartsýnn inní nýja árið. Það mun örugglega fleyta mér langt. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online