Tuesday, January 11, 2011

 

2011.

Nýtt ár og nýr áratugur að auki eru gengin í garð.Hjá mér byrjaði þetta með guðsvelsignaðri pest á gamlárskvöld. Er að verða nokkuð góður eftir sýklalyf og inniveru. Annars gengur lífið sinn gang að venju. Við sunnlendingar að mestu leyti lausir við snjó og tíðin almennt ekki til að kvarta yfir. Það er rólegt yfir öllu hér í Ástjörn. Sjónvarpsdagskráin vonlaus eins og flesta aðra daga. Endalaust bandarískt rusl í boði. Yfirgengilegt metnaðarleysi á þeim bænum. Þetta versnaði um allan helming þegar ríkisútvarpið var gert að opinberu hlutafélagi. Allir nauðbeygðir til að greiða kostnaðinn hjá þessari leiðindastofnun. Mér kæmi ekki á óvart þó kötturinn fengi bráðum rukkun líka. Honum gæti sem best orðið á að kíkja á skjáinn.
Við höfum það annars ágætt saman, ég og Kolbakur minn. Ósköp ljúfur kisi sem vill helst halda sig nærri fóstra sínum eins og Kimi áður. Eins og ég hef svo oft sagt hér áður er enginn einn sem hefur lítið dýr hjá sér. Það er líka gott fyrir einbúa að þurfa að hugsa um eitthvað. Gera ráðstafanir ef farið er af bæ í lengri tíma. Það er reyndar orðið sjaldgæft í seinni tíð nema Veiðivatnatúr einu sinni á ári.
Þetta ár leggst bara nokkuð vel í mig. Verð löggilt gamalmenni í mars. Kemst þá á próventu hjá Steingrími J. Skerta, vegna nokkurra króna úr lífeyrissjóði. Norræna velferðarstjórnin hefur fryst tekjur öryrkja og gamalmenna ásamt því að miða persónuafslátt við sömu krónutölu og áður. Vísitalan má leika lausum hala á sumum sviðum en ekki öðrum. Allt annað hækkar. Bifreiðagjöld, bensínskattar, brennivín, tóbak og nefndu það bara. Allt er réttlætt með því að verið sé að taka til eftir íhald og framsókn. Það er m.a.s. eins og ráðherrar samfylkingarinnar hafi gleymt því að þeir sátu sjálfir í hrunstjórninni. Þetta er þó engin tiltekt. Sama spillta stjórnsýslan og bankakerfið enn gegnsýrt af spillingu og eiginhagsmunum. Vonandi líður ekki of langur tími uns kosið verður. Þá fær fjórflokkurinn þungan skell. Sem hann óttast nú meira en allt annað. Þá verður Steingrímur að draga gamla blágræna Volvóinn fram á ný. Enginn svartur ráðherrajeppi með bílstjóra og næs. Þetta kemur allt í ljós síðar.
Kolbakur kúrir hér á borðinu hjá mér. Tiltölulega spakur. Líklega í draumalandinu því lappirnar hreyfast með taktföstum hætti. Við sendum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.














að verða

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online