Wednesday, February 28, 2007

 

Sirkus.

Baugsrevían heldur áfram. Hvert vitnið á fætur öðru er leitt fyrir héraðsdóm Reykjavíkur. Margir muna lítið og sumir ekkert. Það kann nú að vera eðlilegt. Langt er um liðið. Ekki veit ég hvort ákærðir eru sekir eða saklausir. Málið allt er þó lexía um hvernig ekki á að standa að dómsmálum. Ákæruvaldið hefur kastað til þess höndunum. Lögfræðin aukaatriði. Hæstiréttur hefur tíundað afglöp þess. Einn höfuðpauranna er reyndar hættur. Orðin varalögreglustjóri að ég held. Stendur sig vonandi betur á þeim vettvangi. Fyrrverandi einkavæðingarvinur Davíðs er nú stjórnarformaður í Baugi. Og ekki ber þeim nú beinlínis saman. Hreinn Loftsson segir að Davíð hafi sagt að stjórnendur Baugs væru glæpamenn, sem myndu fara í tugthúsið. Og Davíð heldur því fram að Hreinn hafi boðið honum 300 svartar millur fyrir að láta þá í friði. Það er vonandi að hið sanna upplýsist. Kannski á vitnið Davíð Oddsson eftir að segja okkur þetta allt saman. Málið mallar áfram fram á vordaga. Á kostnað þjóðarinnar. Kannski ættum við að setja sérstakan dómstól til að skera úr. Með flýtimeðferð á þingi. Þar gætu t.d. setið Davíð nagari, Palli Vilhjálms blaðamaður og Jónína Ben. Til vara yrðu Styrmir og Kjartan. Þá fengjum við skjóta niðurstöðu og málinu lyki í einum hvelli. Þá kæmi líklega að því að Jóhannes í Bónus fengi að spila á hljóðfærið sem hann gaf á Litla-Hraun um árið. Með þeim orðum að gott væri að vita af hljóðfærinu á þessum stað ef hann lenti þar síðar. Það sem aldrei hefur komið fyrir áður getur alltaf komið fyrir aftur. Þau sannindi eiga vel við hér eins og jafnan áður. Og ég sem hélt að nornaveiðar tilheyrðu fortíðinni. Baugsmálaferlin sanna að svo er aldeilis ekki. Ákærðu skulu á bálið hvað sem það kostar.

Það örlar á skímu þó klukkan sé ekki orðin átta. Og nokkurnveginn bjart kl. 7 í gærkvöldi. Mars hafinn og 3 vikur í vorjafndægur. Það hríslast fiðringur um gamlan veiðimann. Hænufetin lengjast með hverjum deginum. Raikonen birtist skyndilega hér með veiði sína. Litfagurt skrautband sem hann hefur fangað fjúkandi í gjólu morgunsins. Svona gengur nú lífið hér í byrjun marsmánaðar 2007. From Selfoss with love, ykkar Hösmagi.

 

Launsátur.

Það hefur nú ávallt verið talið miður fallegt að vega menn úr launsátri. Mér hefur stundum dottið lögreglan í hug í þessu sambandi. Liggur í leyni og gómar mann svo fyrir að aka of hratt. Mér finnst þetta byrjun á öfugum enda. Farið aftan að hlutunum. Lögreglan á að vera sýnileg. Koma í veg fyrir afbrot. Ég vil efla umferðareftirlit á þjóðvegum landsins. Fjölga lögreglubílunum á vegunum sem víðast og oftast. Sýnileg löggæsla mun skila okkur miklu meiri árangri en feluleikurinn. Góð byrjun væri að leggja umferðarstofu niður. Þessa vitagagnslausu ríkisstofnun. Þar situr afdankað lið í fílabeinsturni og þylur sömu tugguna út í eitt. Hálkublettir á Dynjandisheiði og snjóþekja á Holtavörðuheiði. Við höfum blöðin, sjónvarpið og netið til að segja okkur þetta. Það myndu sparast miklir peningar með því að þagga niður þessa endalausu þvælu. Peninga, sem nota mætti til að efla umferðareftirlit og gera bragarbætur á verstu slysagildrunum. Umferðarstofa er skólabókardæmi um verstu tegund ríkissrekstrar. Hún er miklu verri en ekki neitt. Skilar engum árangri og er hreint tilræði við geðheilsu þjóðarinnar í ofanálag. Þar sitja menn í makindum sínum og eru áskrifendur að peningum úr ríkissjóði. Það ætti svo að verða fyrsta verkið að fjarlægja líktalningarmannvirkið fyrir ofan Draugahlíðina. Hugmyndasmiðurinn að þessari listasmíði þekkir ekki tilfinningar fólks sem á um sárt að binda eftir umferðarslys. Við skulum stöðva blaðrið og nota peningana í þarfari hluti. Ég fullyrði að það mun skila miklu betri árangri. Við skulum gera lögregluna sýnilega. Fólk gengur ekki viljandi í gin ljónsins. Innbotsþjófurinn hættir við ef hann veit að lögreglan er nærri. Það eru miklu meiri líkur á að við högum okkur skikkanlega í umferðinni ef löggæslan er vel sýnileg. Ég ek nú með beltið spennt. Svona yfirleitt. Ef misbrestur verður á því er ég fljótur til ef ég sé lögregluna álengdar. Umferðarlagabrot má ekki gera að tekjustofni fyrir ríkið. Það er miklu vænlegri leið að koma í veg fyrir þau áður en þau eru framin. Þá fækkar slysunum sjálfkrafa. Það er að sjálfsögðu til fólk sem telur sig yfir allar reglur hafið. Fer sínu fram. Þetta er ofbeldisliðið í umferðinni. Skeytir ekki um skömm né heiður. Hér er ég, farðu frá, helvítis bjáninn þinn. Við skulum taka þetta fólk úr umferð. Láta það gjalda fyrir frekjuna, ofbeldið og heimsku sína.
Það er gleðiefni að fyrstu 2 mánuði árisins varð ekkert banaslys í umferðinni. Ef við förum þessa leið er von til þess að við fáum miklu fleiri svona mánuði. Þessi tollur hefur verið stór undanfarin ár. Við skulum öll vera meðvituð í umferðinni. Þá eru betri líkur á að við náum árangri í baráttunni.

Ég fór austur í Mýrdal í gær. Á löglegum hraða. Þeir eru duglegir í lögreglunni á Hvolsvelli. Og sýnilegir eins og vera ber. Ég var að skoða jörð. Þegar ég gekk heim að bænum tóku á móti mér 2 vígalegir Schefferhundar. Þegar ég ávarpaði þá sáu þeir strax að ég var hættulaus. Fundu þelið og vinguðust við gestinn. Innandyra var húsfreyja. Þar voru 2 hundar til viðbótar. Og 3 kettir. Gestinum leiddist það ekki mjög. Svo var haldið að útihúsum. Naut, hross, endur og landnámshænsn. Þetta var indæl ferð og skemmtileg. Landið skartaði djásnum sínum í sól og kælu. Einn besti vinnudagur Hösmaga á árinu 2007. Að vinnudegi loknum heimsótti ég Hörð. Bifvélavirkjann snjalla , sem allan vanda leysir ef eitthvað bjátar á í bílum. Þann hinn sama og ég taldi forðum að hefði orðið afar snjall bílþjófur ef hann væri ekki svona stálheiðarlegur. Hann var snöggur að lagfæra það sem þurfti. Gott að eiga slíkan að fyrir bíladellukarl eins og undirritaðan. Ég sendi ykkur góðar kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Monday, February 26, 2007

 

Della.

Það mun hafa verið kröftugt landsþingið hjá Vinstri grænum um s.l. helgi. Þar voru margar góðar ályktanir samþykktar. En aðrar arfavitlausar. Hvernig getur nokkrum manni dottið í hug að setja á stofn netlögreglu? Hver á að verða lögreglustjóri? Þetta er svo heimskulegt að ég nenni varla að tala um svona fáránlega dellu. Það er dapurlegt að þurfa að horfa uppá svona endemis rugl. Svo mun hafa verið ályktað um að lögfesta svokallaðan kynjakvóta í stjórnarskrá. Í stjórn fyrirtækja skulu vera jafnmargar konur og karlar. Sama á að gilda á alþingi. Ef menn halda að þetta sé skref í jafnréttisátt eru þeir á villigötum. Eigum við ekki fyrst að eyða launamisréttinu milli kynjanna í eitt skipti fyrir öll? Það er vel hægt. Góð byrjun væri að aflétta launaleyndinni nú þegar. Hafa síðan gott eftirlit með því að eftir hinum nýju reglum væri farið. Þetta yrði stórt skref í jafnréttisátt. Það er í sjálfu sér eftirsóknarvert að blanda kynjunum saman á alþingi og víðar. En það er nákvæmlega ekkert jafnrétti í því að það skuli vera nákvæmlega jafnt. Þingmenn eru 63. Kynin eru 2. Ef við hefðum hvorukynið með væri þetta auðveldara. 21 stykki þingmaður á hvern hóp. Ég er alveg viss um að jafnréttið væri alveg eins mikið með 40 konum og 23 körlum. Eða öfugt. Það hefur ýmislegt áunnist. Það hefði t.d. þótt algjörlega fáránlegt um miðja síðustu öld að karlar færu í fæðingarorlof. Nú þykir þetta sjálfsagt og eðlilegt. Foreldrarnir eru 2 þó konan gangi með barnið og fæði það í heiminn. Og eftir að þjóðfélagið breyttist og konan kom út á vinnumarkaðinn hafa líka orðið viðhorfsbreytingar í vinnunni á heimilinu sjálfu. Auðvitað er enn hellingur af karlrembum sem telja að konan sé óæðri vera. Skuli halda sig heima og á mottunni. Þegja og hlýða. En þeim mun fækka. Það miðar í áttina. Það er alltaf hætta á að í jafnréttisflokki eins og Vinstri grænir eru geti kappið stundum borið skynsemina ofurliði. Póltitískir andstæðingar flokksins velta sér nú upp úr þessum ályktunum. Ég hef þó enga trú á að þetta muni gera mikinn skaða. Menn geta líka kallað Steingrím Sigfússon þröngsýnan kommúnistaforingja fyrir mér. Andstæðingar flokksins eru bara hræddir og öfundsjúkir yfir þeim hljómgrunni sem hann fær meðal þjóðarinnar. Þessar ályktanir voru bara skönhedsfeiler. Umhverfissinnar láta þær ekki á sig fá. Vandræðagangur Samfylkingarinnar í Hafnarfirði sýnir að henni er ekki treystandi í umhverfismálum. Og Samfylkingin í Skagafirði og á Húsavík heimtar álver þar. Ég ætla að fyrirgefa Vinstri grænum þessa dellu. Reynslan mun líka sýna að þetta er einfaldlega ekki hægt. Errare humanum est.

Það er lognkæla hér núna. Indælt veður með dálitlu frosti. Við Raikonen vökum og hugsum um lífið og tilveruna. Líklega pælir nú kisi minn lítið í pólitíkinni. Lætur fóstra sinn um það. Báðir láta hverjum degi nægja sína þjáningu og taka því sem að höndum ber. Ég kíkti á landið mitt á sunnudaginn var. Þar var bjart og fallegt og það bíður vorsins eins og við öll. Birtunnar og gróandans sem fylgir komandi árstíma. Tilhlökkunin mikil að venju. Og kanski venju fremur.Jónsmessunótt með konu sem hefur hitað handklæðið á sjálfri sér. Það verður gott eftir baðið uppúr dögg næturinnar. Bestu kveðjur til ykkar allra, í París, Kaupmannahöfn, og öðrum góðum stöðum, ykkar Hösmagi.

Saturday, February 24, 2007

 

Átrúnaður.

Nú um helgina stendur yfir landsþing Vinstri grænna. Þar mun fólk ræða landsmálin, skerpa á áherslum og brýna vopnin fyrir komandi kosningabaráttu. Ég reikna með að formaðurinn verði endurkjörinn með lófataki. Ekki vegna þess að hann sé yfir gagnrýni hafinn.Heldur vegna þess að hann er fremstur meðal jafningja í bestu merkingu þeirra orða. Ég held að hann sé fæddur af rótgrónum framsóknarmönnum. Líklega er hann nú enn svolítill sveitamaður. Það tel ég honum til tekna. Hann var fljótur að átta sig á að hann átti ekki samleið með framsókn. Sem betur fer. Það hefur lengi verið landægur siður hér að mæra foringjana. Ég ætla að vona að Steingrímur verði alltaf gagnrýndur eftir þörfum. Gott dæmi um foringjadýrkunina er mærð Véfréttarinnar um drauginn. Sem þó skildi við flokk sinn í rjúkandi rústum. Þetta er líka nokkuð áberandi hjá hluta Samfylkingarfólks þó undir kraumi í kolunum. Sumir mega ekki vatni halda yfir hrifningu sinni á Ingibjörgu Sólrúnu. Stjórnmálamenn þurfa bara að standa undir traustinu. Það þarf ekki að tilbiðja þá eins og guði. Sannarlega hef ég traust á Steingrími Sigfússyni sem stjórnmálamanni. Mér dettur þó ekki í hug að halda því fram að hann sé vammlaus sem slíkur. Og fyrstur manna skal ég gagnrýna hann ef ástæða verður til þess. Ef Vinstri grænir verða í ríkisstjórn eftir kosningar sem ekki tekur okkur strax af lista hinna vígfúsu þjóða er mínum stuðningi við vinstri græna lokið. Enginn flokkur hefur hreinni skjöld í umhverfismálum. Engum flokki treysti ég betur í jafnréttisbaráttu kynjanna. Ef eitthvað er að marka skoðanakannanir eru margar ungar baráttukonur í öruggum þingsætum á lista flokksins. Og það yrði tekið til hendinni í heilbrigðis og tryggingaráðuneytinu ef Ögmundur yrði sendur þangað. Það er von mín að margir sem eru alls ekki Vinstri grænir muni samt kjósa flokkinn í vor. Sem betur fer erum við enn mörg sem kjósum ekki sama flokkinn á hverju sem gengur. Og lítum ekki á okkur sem sauði í hjörð foringjans. Foringja á að gagnrýna miskunnarlaust þegar ástæða er til þess. Ég sagði það hér í fyrra að ég myndi ganga ákveðinn að kjörborðinu þá. Og ég hef gagnrýnt þann fulltúa sem ég kaus mjög harkalega. Hann á það bara einfaldlega skilið. En ég er líka alveg viss um að ég muni ekki þurfa að gagnrýna Steingrím og félaga fyrir að láta af sannfæringu sinni fyrir baunadisk og ráðherraembætti. Ég óttast hinsvegar að ýmsir séu meira en tilbúnir til þess í baráttunni fyrir pólitísku lífi sínu og áhrifum. Við þurfum á algjörri stefnubreytingu að halda. Í utanríkismálum og nánast öllu hér innanlands. Olíumafíunni líðst enn hið samræmda okur. Bankarnir jafnvel hálfu verri. Og nýju lénsherrarnir gera það sem þeim þóknast.Misskiptingin í tekju og skattamálum hefur aldrei verið verri en nú. Ég vona að sigur Vinstri grænna verði enn stærri en kannanir gefa til kynna. Þá eru meiri líkur á jöfnuði og betri tíð fyrir þá sem höllum fæti standa eftir langvarandi stjórn íhalds og framsóknar.Því miður verður aldrei hægt að breyta öllu sem þessi stjórn hefur gert með óhæfuverkum sínum.Það er þó margt sem enn er hægt að verja.Ég sendi framvörðunum sem nú funda í Reykjavík baráttukveðjur.
Við kisi sendum ykkur öllum góðar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Thursday, February 22, 2007

 

Fundahöld.

Dóttir Þórðar rakara var í gær kjörin formaður félags fasteignasala. Hún heitir Ingibjörg. Mikill meirihluti félagsmanna eru karlar. Segiði svo að okkur sé allsvarnað. Ég óska henni til hamingju með kjörið og óska henni verlfarnaðar í starfi. Það þarf t.d. að bæta ímynd stéttarinnar. Við erum upp til hópa heiðursmenn. En því miður eru gikkir í flestum veiðistöðvum og við þurfum að taka ærlega í lurginn á þeim. Og allt gekk eftir með okkur Árna Vald. Hann með þennan fína hatt en ég státaði hári mínu og skeggi. Að venju tókum við báðir til máls. Árna mæltist vel að venju og undirritaður var meira en sáttur með sjálfan sig. Síðan héldum við heimleiðis án viðkomu á barnum. Vorum fljótir austur á þorparafundinn í Hótel Selfossi. Þar var nýja verðlaunatillagan um miðbæinn kynnt. Og nú gaf á að líta. Þarna voru 4 skipverjar af skútu gömlu bæjarstjórnarinnar. Fastir í gapastokknum sem þeir smíðuðu sjálfir á síðasta kjörtímabili. En þeir höfðu fengið félagsskap. Fulltrúi vinstri grænna hafði líka fengið gapastokk. Og það sem meira er að hann hafði komið sér fyrir í honum sjálfviljugur. Það er bókstaflega með ólíkindum. Hvernig má það vera að menn leiki svona hroðalega af sér. Ekki kaus ég þennan mann til þessara verka. Ég sagði það hér í aðdraganda kosninganna í fyrra að við sætum uppi með mjög slæma bæjarstjórn. Vonaði að hún yrði felld í kosningunum og mér varð að ósk minni. Nokkrum mánuðum síðar stendur bæjarfulltrúi flokksins sem ég kaus fyrir því að endurreisa þetta fólk til valda á ný. Það urðu mér mikil vonbrigði og sérstaklega vegna þess að hann gerði það með ólýðræðislegum hætti. Mér er fullkunugt um að hann tók þessa ákvörðun án samráðs við félag Vinstri grænna hér á staðnum. Ég ætla að vona að honum líði vel í gapastokknum með félögum sínum í Samfylkingu og Framsóknarflokki. En ég hef sagt það hér áður að oft gilda önnur lögmál í kosningum til bæjarstjórnar en í þingkosningum. Ég ætla ekki að láta flokk Steingríms Sigfússonar gjalda aulaháttar eins manns hér á Selfossi. Flokkurinn er eini kostur róttækra vinstrimanna í komandi kosningum. Hann hefur einn flokka barist gegn stóriðjustefnunni sem hefur tröllriðið núverandi stjórnarflokkum um langt skeið. Ef þeir fá umboð til að stjórna landinu áfram munu þeir verða langt komnir með að ráðstafa öllu virkjanlegu vatnsafli á Íslandi til erlendra auðhringa þegar næsta kjörtímabili lýkur. Og fyrir smáaura.Sem betur fer eiga Vinstri grænir þó nokkra góða bandamenn í öðrum flokkum. Þetta fólk á vonandi eftir að berjast með okkur þó það kjósi sína flokka áfram. Óvirkjaða aflið sem við eigum enn hleypur ekki frá okkur. Við skulum staldra við. Æ fleiri eru að átta sig. Nema náttúrlega Véfréttin og og verulegur hluti sjálfstæðismanna. Flokkur Vinstri grænna er eini flokkurinn sem barðist hatrammlega gegn Kárahnjúkavirkjun. Heill og óskiptur. Virkjuninni, sem mun reynast íslendingum erfiður biti í hálsi. Meirihluti Samfylkingarinnar studdi þessa framkvæmd. Núverandi formaður þess flokks vildi ekki " setja fótinn fyrir þetta mál." Nú veifar hann nýjum fána. Fagra Ísland heitir hann. Það er góðra gjalda vert, en sporin hræða. Ef við viljum sporna við frekari umhverfisafglöpum eigum við bara einn ótvíræðan og góðan kost. Hann blasir við mér og mörgum öðrum. Stöðvum æði afglapanna strax í næstu þingkosningum. Drekkjum ekki fögrum byggðum svo Alcan fái meira af gjafarafmagni. Berjumst með kjafti og klóm gegn þessari hryðjuverkastarfsemi. Með kveðjum úr gjólunni, ykkar Hösmagi.

Wednesday, February 21, 2007

 

Mengunarskattur.

Fyrir nokkrum árum var skipaður starfshópur sem kanna skyldi nýjar leiðir til að draga úr mengun vegna útblásturs bíla. Skynsamlegt og ágætt. Ég heyrði ávæning af að til stæði að skattlegga stóra bensínfreka bíla sérstaklega. Þeir menguðu meira en litlir bílar. Það er að sjálfsögðu rétt séu báðir keyrðir jafnmarga kílómetra. En það eru fleiri hliðar á málinu. Ég legg til að mengunarskattur verði settur inní eldsneytisverðið. Ef ég ek jeppanum mínum 10.000 km og hann eyðir 16 lítrum menga ég jafnmikið og maðurinn sem ekur 20.000 km á sínum smávagni sem eyðir 8 lítrum. Við höfum brennt jafnmiklu eldsneyti og mengað jafnmikið. Greiðum því sama gjald í mengunarsjóðinn. Þróunin er í þá átt að minnka mengunina frá bílvélunum. Jafnvel umhverfissóðarinir í bandaríkjunum eru löngu byrjaðir á þessu. Vetnis- og rafmagnsbílum fjölgar. Bílar sem nota hvorttveggja, bensín og rafmagn eru nú þegar í umferð. Hemi bensínmótorinn í jeppanum mínum er angi af þróuninni. Hann er með 8 strokka en notar ekki nema 4 þegar ekki er þörf á hinum. Það minnkar bensíneyðsluna verulega. Dieselvélin sendir frá sér minna koldíoxíð en bensínvélin. En það kemur meira sót frá henni og svifmengun verður meiri. Þá mættu margir eigendur dieselbíla láta af þeim landlæga ósið að drepa varla á þeim frá morgni til kvölds. Nagladekkin eru líka mikill mengunarvaldur. Svifmengun minnkar verulega ef þau yrðu bönnuð. Við höfum líka nokkrar góðar lausnir í staðinn. Harðkorna- og loftbóludekkin hafa reynst mjög vel. Við skulum hafa mengunarskattinn í eldsneytinu. Það er sanngjarnasta leiðin. Eigandi smábílsins sem ekur lítið borgar lítinn skatt. Sá sem ekur stóra jeppanum mikið borgar mikinn skatt. Og svo skulum við ekki gleyma öðrum mengurum. Hvað með álfurstana? Væri ekki sanngjart að leggja mengunarskatt á þá? Við fengjum þá smávegis uppí niðurgreiðslurnar á rafmagninu. Þetta er að vísu borin von meðan núverandi stjórnendur landsins sitja. En við erum í þann mund að leysa þá frá störfum. Þá skulum við athuga málið. Það má ekki einblína á bílana í þessum efnum. Bara fyrirhuguð stækkun álversins í straumsvík mun valda jafnmikilli mengun og allur núverandi bílafloti íslendinga. Svo er alls ekki útilokað að við gætum sumsstaðar notað rafmagnslestir. En við verðum þá líka að hætta að selja erlendum auðhringjum rafmagnið fyrir nánast ekki neitt. Stundum getur reynst erfitt að breyta hugarfarinu. En neyðin kennir naktri konu að spinna. Við skulum ekki heldur gleyma reiðhjólunum okkar. Né vespunum. Skipuleggjum okkur betur. Og við skulum forðast hugsanagang Loðvíks 14. Það lafir meðan ég lifi.

Í dag ætla ég á aðalfund í félagi fasteignasala. Með Árna Vald með mér. Hann verður með hatt en ég hattlaus. Við munum örugglega báðir taka til máls á fundinum. Og það verður klappað fyrir þessum frábæru ræðumönnum. Kannski komumst við svo á þorparfund í Hótel Selfoss í kvöld. Miðbæjardellan til umræðu. Allt er það mál með ólíkindum. Þar er helst við fyrrverandi bæjarstjórn að sakast. Þá hina sömu og Jón Hjartarson, vinstri grænn, endurreisti í desember s.l.
eftir að hún missti 3 skipverja fyrir borð í bæjarstjórnarkosninunm í vor. Ekki vildi ég þurfa að axla þá ábyrgð.

Sama veður og í gær. Kimi mættur inn aftur. Malar hátt og sleikir skegg fóstra síns. Heilmikið líf í báðum. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Tuesday, February 20, 2007

 

Jafnrétti.

Eitt af eilífðarumræðuefnum dægurmálanna er jafnrétti kynjanna. Það er augljóst að mikið vantar enn uppá að það sé fyrir hendi. Mest sláandi er launamunurinn. Þar þarf að taka til hendinni strax. Hinsvegar hef ég aldrei skilið umræðuna um stjórnendur í fyrirtækjum og stjórnmálamennina. Þar hlýtur atgervi einstaklingsins að skipta mestu máli en ekki kynferðið. Þetta er svona álíka gáfulegt og að sjávarútvegsráðherra verði að vera rauðhærður. Dómsmálaráðherrann með hökuskarð og félagsmálaráðherra sköllóttur. Það er fáránlegt að halda því fram að við fáum bestu einstaklingana með því einu að skipta jafnt eftir kynferði. Ég er alveg viss um að við gætum fengið mjög góða ríkisstjórn sem eingöngu væri skipuð konum. Eða bara körlum. Það hefur sannast áþreifanlega að margir aular hafa komist í ríkisstjórn hér á landi.Sumir eins og álfar út úr hól og segja bara að hringt hafi verið í vitlaust númer. Hver hringdi eða í hvern hafa þeir ekki hugmynd um. Kötturinn minn yrði miklu betri ráðherra. Það er líka landlægur siður hér að ráðherrar sitja sem fastast þó þeir verði uppvísir að ýmsu sem sjálfkrafa myndi leiða til afsagnar í löndunum í kringum okkur. Við þurfum að vanda val okkar betur. Við skulum ekki setja fyrir okkur hvort næsti forsætisráðherra verður karl eða kona. Við þurfum bara að koma öllum þessum ráðherrum frá. Fá nýja og öfluga ríkisstjórn sem breytir um stefnu. Í umhverfismálum, efnahagsmálum og ekki síst í utanríkismálum. Og það er mikilvægt að valdasjúkum einstaklingum verið haldið í skefjum. Hvar í flokki sem þeir eru. Það þarf að láta verkin tala. Kveða í kútinn áráttuna í að sitja við katlana og veiða bestu bitana upp úr til að hygla sjálfum sér og vildarvinum sínum. Kannski er þetta draumsýn ein. En verk núverandi ríkisstjórnar er skólabókardæmi um hvernig ekki á að stjórna þessu landi. Ef ekki verða straumhvörf í kosningunum í vor er það ávísun á sömu stefnu. Einkavinavæðinguna og sérhagsmunina. Misrétti þegnanna, ótrúlega skammsýni í umhverfismálum og margt fleira. Þá væri kannski von til þess að Guðni bakari myndi kynda ofnana sína á ný með rafmagni. Hann kyndir nú með dieselolíu í sparnaðarskyni. Íslendingar verða að greiða mjög hátt verð fyrir rafmagnið af því meirihlutann er búið að láta Alcan og Alcoa hafa á spottprís. Af hverju haldið þið að hér séu senditíkur auðhringanna sífellt á ferðinni? Svarið er einfaldlega það að hér sitja stjórnvöld sem þær geta vafið um fingur sér. Nú er tækifæri til breytinga. Við skulum standa upp og hætta að skríða. Kjósum ekki þetta handónýta og örþreytta lið. Það hefur nú þegar setið allt of lengi. Við skulum bera gæfu til að losa okkur við það þann 12. maí. Þá yrðu sannarlega tímamót til hins betra fyrir landið og þjóðina. Við höfum fullt af fólki til að taka við. Rauðhært, sköllótt, með hökuskarð og spékoppa. Konur og karla.

Gjóla og hitinn við núllið. Hér eru íbúar hressir að morgni dags. Hæfilega vindbarðir af útiveru og vináttan söm. Vinstri grænir rauðgranar senda ykkur bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Sunday, February 18, 2007

 

Sætar stelpur.

Fræg eru ummæli Skeifugeirs um staðgengil sætu stelpunnar sem hann missti af á kanaballinu s.l. haust. Hann náði sér í aðra sem gerði " sama gagn". Líklega hefur hún gagnast þessum stórbrotna forsætisráðherra vel. Og nú veltir hann því fyrir sér hvort ungu konurnar sem voru misnotaðar í drottins nafni í Byrginu hefðu ekki orðið óléttar hvort eð var. Er þessi ráðherra ekki með fulle fem? Honum finnst þetta kannski sniðugt?. Mér finnst þetta nú lélegur brandari ef svo er.Kvenfyrirlitningin æpandi og fyrirlitleg. Sætar stelpur bara til að gagnast strákum. Og svívirtar stúlkur í skjóli hefðu orðið óléttar annarsstaðar. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir konur að greiða þessum manni atkvæði sitt. Hann ætti að skammast sín og biðjast afsökunar á bjálfahættinum. Ég efast m.a.s um að nagarinn mikli hefði látið svona út úr sér.

Tangavatnsferð í blíðunni í gær. Engin varð veiðin en útiveran var ágæt. Annaðhvort var enginn fiskur í vatninu eða að hann var einhversstaðar í felum. Vatnið er nú kaldara en áður var. Sveinn bóndi telur að breytingar hafi orðið á því eftir jarðskjálftana árið 2000. Það leggur meira á vetrum og lengur að taka af því. Kikkið brást því í gær svo meðgöngutíminn heldur áfram. En Góan heilsar með hlýindum. Og spáin segir þau halda áfram. Það er að sjálfsögðu ljúft og gerir biðina eftir vorinu bærilegri. Og nú fer að styttast í aðalfund stangveiðifélagsins og úthlutun veiðileyfa. Allt er þetta tilhökkunarefni gömlum veiðiref. Bolludagur í dag. Fiskibollur og rjómabollur. Saltket og baunir á morgun. Hvað skyldi verða étið á öskudag?

Héðan frá tölvunni fylgist ég með Raikonen yfirketti þvo sér í framan í baðvaskinum. Mér finnst alltaf notalegt og róandi að fylgjast með þrifum katta. Sleikir loppu sína og strýkur svo á bak við eyrun. Við erum báðir mjög slakir og afslappaðir. Kyrrð yfir og jafnvægi beggja gott. Vinna að hefjast á ný eftir rólega helgi. Sem sagt gott. Með góðum kveðjum frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Thursday, February 15, 2007

 

Réttarfar.

Í gær stöðvaði dómari í Baugsmálinu saksóknarann í miðri setningu. Og moggabloggari einn á ekki orð yfir svívirðunni. Yfirheyrslum yfir ákærða Jóni Ásgeiri átti að ljúka um miðjan dag á miðvikudag. Vandlega er búið að skipuleggja yfirheyrslur og vitnaleiðslur í þessu máli. Það er búið að boða á annaðhundrað manns til vitnisburðar. Strax í upphafi er dagskráin í uppnámi. Saksóknarinn var sjálfur með í ráðum við skipulagninguna. En tekur ekkert tillit til hennar. Allt er þetta á sama veg. Eitt alsherjarklúður af hálfu ákværuvaldsins. Og ég fæ á tilfinninguna að lögfræðinni sé vikið til hliðar fyrir ákafanum um að sakfella hina ákærðu. Með hrikalegum tilkostnaði. Kannski eru hinir ákærðu allir sekir. En þeir eru saklausir uns sekt þeirra er sönnuð. Þessi regla gildir um þá eins og alla aðra sem ákærðir eru hér á landi. Það má ekki keyra þetta mál áfram á þráhyggjunni einni saman. Það er að verða öllum augljóst hvernig aðdragandinn var að þessu eilífðarmáli. Það á sér pólitískar rætur. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Það ættu menn að hafa í huga áður en dómari er ásakaður um hlutdrægni. Við skulum vona að næsta kjörtímabil dugi til að fá botn í málið.

Í gær var umræða í þinginu um vaxtaokrið á Íslandi. Hún hélt áfram í Kastljósi sjónvarpsins. Þar var bankastjóri Landsbankans og Ögmundur þingmaður vinstri grænna. Ég er nú einn af viðskiptavinum þessa banka. Líklega mjög góður af því ég skulda þeim heilan helling. Og verð að sæta þeim kjörum sem stjórnendur bankans ákvarða einhliða. Sæta því að greiða 300% hærri vexti af íbúðarlánum mínum en t.d. norskur íbúðareigandi. Þetta er einföld staðreynd sem liggur fyrir. Mér er alveg sama hvernig Sigurjón bankastjóri þyrlar upp ryki til að reyna að sína fram á hvað Landsbankinn sé mikil góðgerðastofnun. Gróði bankanna samanlagt var yfir 200 milljarðar á síðasta ári. Það er nú nokkur upphæð þegar stjórnendur þeirra telja þá vera góðgerðastofnanir. Ég er ekki að kvarta yfir þjónustunni í mínum banka. Þar vinnur prýðisfólk. Ég er að tala um verðlagið á þjónustunni. Og ég er að tala um okurvextina. Því miður er búið að afnema okurlögin. Ef þau væru enn í gildi væri hægt að festa þetta lið upp. Liðið, sem misst hefur allt raunveruleikaskyn og fær Elton John til að spila undir dinnernum. Menn sem mæta í kastljós sjónvarpsins og skilja ekki einu sinni sjálfir að þeir eru rökþrota. Og munu aldrei gera það. Þetta er liðið sem núverandi ríkisstjórn hefur þjónað mjög dyggilega. Það er enn ein ástæðan til þess að skipta um stjórnendur landsins. Fyrir utan allar hinar. Látum ekki fara svona með okkur. Notum eina vopnið sem dugar. Kosningaréttinn. Með kveðjum úr vorveðri í Þorralok, ykkar Hösmagi, Hemi og Kimi.

Tuesday, February 13, 2007

 

Sátt.

Enn hefur Véfréttin hafið upp raust sína. Hún vill þjóðarsátt um að virkja sem nemur svona eins og 2 Kárahnjúkavirkjunum. Svo má athuga málið árið 2010. Látum hana virkja miguna úr sjálfri sér. Þannig fást svona u.þ.b. 2 millivött sem er nokkurnveginn í samræmi við fylgi þessa nýja foringja framsóknarmanna. Það er nákvæmlega sama aðferðafræðin í álæðinu og áður. Fyrst er skotið og svo er spurt. Nú á að fara að hanna virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár. Enginn hefur spurt landeigendur eða íbúa sveitarfélaganna sem hlut eiga að máli. Ríksstjórnin þjösnast áfram líkt og naut í flagi. Samt er vitað að efasemdarmenn eru í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna. Sigríður Anna Þórðardóttir kom mér t.d. mjög á óvart þegar hún lýsti því yfir að rétt væri að doka við. Okkur lægi ekkert á. Orkuverðið myndi hækka á næstu árum. Þróunin er líka ör í tækninni. M.a. í djúpborunum og þróun á nýjum skautum fyrir álverksmiðjur. Það á auðvitað að blása öll áform um frekari stóriðju burt af borðinu. Strax. En núverandi stjórnarherrar eru áfram sannfærðir um að þeir séu á réttri leið. Þeir munu aldrei sjá að þeir eru rammvilltir. Þessvegna skulum við losa okkur við þá ekki seinna en 12. maí n.k. Og látum fall þeirra verða mikið, hátt og afgerandi. Máltækið um að farið hafi fé betra á sannarlega vel við hér.
Við Raikonen erum snemma á fótum eins og flesta daga. Rólegt yfir veðrinu sem fer hlýnandi.Bryndís vinkona mín, veiðivörður í Veiðivötnum, hringdi í gær. Verð þar 2.-4. ágúst og svo sennilega aftur 12.-14. águst. Þá mun himbriminn kalla og hamingjan gróa. Fyrst með stóru strákunum mínum og síðan með kokkinum góða, konunni einu. Það er bókstaflega mannbætandi að dvelja þarna. Þú kemur ævinlega sáttur til baka. Góð veiði er að sjálfsögðu bónus en skiptir alls ekki öllu máli. Það er líka gott að koma heim aftur. Láta þreytuna líða úr sér. Þessa góðu þreytu sem fylgir þessum ferðum. Hvað sem pólitík, virkjanabrjálæðingum og hinnum nýju lénsherrum líður, hlakkar Hösmagi til komandi sumars. Ást hans á þessu landi og nálægðin við það er honum kær sem fyrr. Á leiðinni inní Veiðivötn er ekið fram hjá 4 virkjunum í Þjórsá. Það er alveg kappnóg.Sláum hinar 3 af strax. Látum tún og engi bænda í friði og eirum hinum strórbrotnu fossum árinnar. Það er búið að eyðileggja allt of mikið nú þegar.
Nýi teljarinn á blogginu mínu komst í gagnið í gær. Skáldið á heiðurinn af honum. Hösmagi er nú ekki beinlínis snillingur í svona fiffi. Takk fyrir þetta, Sölvi minn. Kærar kveðjur frá rauðhausunum, ykkar Hösmagi.

Monday, February 12, 2007

 

Andskotans.

Það er víst ljótt að blóta. Ókristilegt athæfi í meira lagi. Mér verður þetta nú samt á annað slagið. Kannski kemst ég ekki inní himnaríki fyrir bragðið. En ég er líka bara venjulegur almúgasauður. Þræll bankanna í fullu starfi eins og þeir flestir.En svo eru menn eins og Steingrímur Sigfússon, formaður í flokki Vinstri grænna. Sannkristnir þingmenn eins og Guðjón Ólafur, Magnús Þór og fleiri halda því fram að þessi þingmaður bölvi og ragni í þinginu. Alveg finnst mér voðalegt að heyra þetta. Og einn hægri bloggarinn á moggablogginu, skátaforingi úr Heimdalli, fyrirmynd ungra drengja, spyr hvort nokkur kristinn maður geti kosið mann sem hefur bæði sagt andskotinn og helvíti. Nærri fjórðungur þjóðarinnar virðist, samkvæmt könnunum, samt ætla að gera það. Þar á meðal undirritaður. Það er kannski illa komið fyrir mönnum ef eina gagnrýnin á pólitíska andstæðinga felst í að benda á að þeir kunni að hafa blótað. Og sumt sem sagt hefur verið í þinginu gleymist ekki. Eða hefur einhver gleymt þingmanninum sem einu sinni sagði um annan þingmann að hann hefði skítlegt eðli? Mér hefur stundum dottið í hug í því sambandi að oft ratast kjöftugum satt á munn. Það hefur beinlínis sannast á þeim tíma sem liðinn er síðan þessi orð féllu. En þau sitja enn eins og steinbarn í hjörtum sumra manna. Við verðum samt að gæta orða okkar. Steingrímur verður líklega ekki skátaforingi úr þessu. Enda miklu betur kominn þar sem hann er nú. Gagnrýni á hann á þessum nótum mun engin áhrif hafa í komandi kosningum. Og það er auðvitað andskotans bömmer fyrir guðhrædda skátaforingja íhaldsins.

Nýjasta hjálpræði Jónínu Ben í hremmingum sínum er stólpípan. Hún segir meinhollt að fá sér í þannig pípu annað slagið. Gamalt máltæki segir að leiðin að hjarta mannsins liggi í gegnum magann. Einn moggabloggarinn umsnéri þessu um daginn og sagði að leiðin að pyngju mannsins lægi í gegn um rassgatið. Það er í raun yfirgengilegt hvað fólk getur gert að söluvöru. Nú er í tísku að losa sig við vonda vökva úr líkamanum með fótabaði. Rafskaut draga þá út. Jafnvel er hægt að reka út illa anda með þessu apparati. Sölumaðurinn var í sjónvarpinu um daginn. Eitthvað virkaði þetta nú illa í tilrauninni sem gerð var. En þá var bara að skipta út gamla rafskautinu og illu andarnir ættu sér engrar undankomu auðið. Gamla skautið orðið mettað af vessum og illum öndum.Og vessarnir vondu sem eru að plaga okkur myndu hverfa eins og dögg á sólríkum morgni. Og hætt er við að Jónína þurfi í fótabað eftir að Baugsfeðgar og allir hinir glæpamennirnir verða sýknaðir enn einu sinni. Og gott að fá sér í pípu líka. Það væri synd að segja að hvergi sé líf í tuskunum í íslensku þjóðfélagi nú um stundir. Hösmagi heldur sig enn við vindilinn. Ef honum tekst að hætta ósið þessum mun hann líka halda sig frá pípunni fínu. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Sunday, February 11, 2007

 

Sól í sinni.

Ég fór á fund í gær. Í Ánesi var fundur Sólar á suðurlandi og náttúruverndarsamtaka suðurlands. Þetta var mjög góður fundur. Fræðandi, upplýsandi og mjög skemmtilegur.Þetta var baráttufundur rúmlega 400 manna og kvenna sem áfram vilja sjá Urriðafoss, Búðafoss, Hestafoss og fleira fallegt. Fundurinn var hluti af þeirri vakningu sem er að verða meðal þjóðarinnar. Vakningu gegn endurteknum nauðgunum á náttúru landsins. Yfirgnæfandi meirihluti fundarmanna voru heimamenn. Fólkið sem sterkast á eftir að upplifa eyðilegginguna ef af henni verður. Þarna voru líka góðir gestir og margar baráttukveðjur bárust á fundinn. Þarna var Ómar Ragnarsson og fór hreinlega á kostum. Sýndi mynd sem hann hafði tekið á flugi yfir Þjórsá. Fór með ljóð og talaði um virkjunarfíknina. Ég vona að virkjunarflokkarnir fái ekki mörg atkvæði frá fundarmönnum þessa fundar. Þarna var Labbi í Glóru með gítarinn. Sýndi það og sannaði að hann hefur aldrei verið betri en nú. Það var sannarlega sól í sinni mér þegar ég hélt til míns heima að áliðnum degi. Sem var líka merkisdagur í mínu eigin lífi. Frumburðurinn, dóttla litla, Berglind Anna, átti 39 ára afmæli þann 11. febrúar. Og í dag, þann 12, er lambakóngurinn minn, Siggi Þráinn, 21 árs. Þau fá bæði hamingjuóskir, kossa og knús frá mér. Ég hitti þau reyndar bæði á laugardaginn. Þá var afi Garðar jarðsettur. Hann var Sigga mínum alltaf ákaflega kær. Ljúfur og indæll maður. Léttur, skemmtilegur og jákvæður. Hitti hann síðast kátan og hressan í stúdentsveislu Sigga okkar á þrettándanum. En þetta er leiðin okkar allra. Og Garðar var heppinn að þurfa ekki að liggja á sóttarsæng. Kannski verður höggið þyngra þegar það kemur óvænt. Megi hið góða verða með Ellu ömmu áfram eins og hingað til.

Ég frestaði sem sagt veiðiferð í Tangavatn. Enda hitastigið lægra en spáð var. Koma tímar, koma ráð. Góa kemur um næstu helgi og Þorri að kveðja. Í heildina séð hefur þetta verið góður vetur. Svolítið kaldur nóvember en mjög hlýr og indæll desember í staðinn. Birtan að vinna á myrkrinu og það er kyrrð í sálinni.Og kannski eru stórtíðindi væntanleg í stjórnmálum. Ég ætla að vera hæfilega bjartsýnn. Ánægður með gengi míns flokks sem stendur. Ekkert er öruggt eða fast í hendi. Ríkisstjórnarflokkarnir munu reyna allar leiðir sem hægt er. Breiða yfir flakið og reyna að villa fólki sýn enn einu sinni. Látum ekki blekkjast. Setjum þá út í kuldann og höfum þá þar sem allra lengst. Fjallagrasasöngurinn er m.a.s. byrjaður nú þegar. Ég sagði um daginn að Bjarni Harðarson reyndi nú hið vonlausa. Að komast á þing fyrir framsókn. Mér er sagt að hann hafi verið í fjallagrösunum í silfri Egils í gær. Hann var líka á fundinum í Árnesi. Býst ekki við að hann fái mörg atkvæði fundarmanna. Jörðum flokkinn. Hann á ekki annað skilið eftir öll afglöp forustumanna hans. Og við skulum hætta að tala um umverfisslys. Þetta eru bara afglöp. Forustumenn íhalds og framsóknar hafa ekkert lært.Munu verða sömu afglaparnir alla tíð.Þeir eru enn á virkjunarbuxunum.Ef við stöðvum þá ekki í vor munu þeir halda hryðjuverkum sínum áfram. Lofum sólinni að skína áfram á það sem þeir hafa ekki eyðilagt nú þegar.
Við Raikonenen sendum ykkur öllum árnaðarkveðjur. Vinstri grænu rauðhausarnir tveir, ykkar Hösmagi.

Thursday, February 08, 2007

 

Gullgæsir.

Geir Haarde hefur talað. Talað um að menn slátri ekki gullgæsum. Það má alls ekki hækka fjármagnstekjuskatt og það þarf endilega að lækka skatta á fyrirtækjum. Sérstaklega ef það eru nú bankarnir. Ef skattar lækki á bankastarfsemi verði það hvati til enn meiri gróða. En Geir talar ekki um það þegar þessir sömu bankar voru nánast afhentir "réttum" mönnum í þjóðfélaginu fyrir smáaura. Það var flokkur hans með hjálp afturgöngunnar sem það gerðu. Davíð sagðist ætla að selja þjóðinni Landsbankann. Sem hún átti nú hvort eð var. En svo hringdi bara í hann maður sem sagðist vilja fá bankann. Og hann fékk hann. M.a.s. fékk hann öll Kjarvalsmálverkin með honum. Og fleiri verðmæt listaverk. Bankann fékk hann fyrir smábrot af gróða hans síðasta ár.Öll þjónustugjöld bankanna hafa hækkað upp úr öllu valdi síðan þeir voru einkavinavæddir. Vaxtaokrið hefur aldrei verið meira. Hinn venjulegi alþýðumaður er að sligast í þrælakistunni sem þessir nýju herrar hafa komið honum í. Og hann verður að greiða helmingi hærra skatthlutfall af tekjum sínum en bankarnir af sínum tekjum. Hann er engin gullgæs. Bara andskotans aumingi.Þessvegna er eðlilegt að hann greiði hærri skatt en bankinn. Ef ríkisstjórnin heldur velli í kosningunum mun sjálfstæðisflokkurinn enn notast við framsókn næstu 4 ár. Og það verður haldið áfram á sömu braut. Litli flokkurinn fær að raða útvöldum sauðum sínum á garðann. Landsvirkjun verður afhent "réttum" mönnum. Mér kæmi t.d. ekki á óvart þó Finnur Ingólfsson yrði einhversstaðar nálægur. Eins og stundum þar sem feitt er á stykkinu. Það virðist vera stefnan að þessir réttu menn eignist allt í þjóðfélaginu. Fólkið þar meðtalið. Þá verðum við bara hjörð í eigu þessara manna. M.a.s. húsnæðið endar í höndum þeirra ef fram fer sem horfir. Bankarnir eru nú þegar farnir að eignast hluta af húsnæði almúgamannsins. Verðbólgan og vaxtaokrið sjá til þess að þróunin er í þessa átt. Það er þó enn von til þess að snúa þróuninni við. Fyrsta skrefið í þá átt er að kjósa ekki þessa flokka í næstu kosningum. Og halda í gullgæsirnar sem enn eru óseldar. Hætta að gefa útlendum auðhringjum rafmagnið okkar.Látum þá bara loka Straumsvíkurálverinu ef þeir fá ekki að stækka það. Farið hefur fé betra. Við íslendingar höfum sýnt að við erum ekki alls ónýtir í hátækni. Heilabúið spúir ekki koltvísýringi út í andrúmsloftið. Við eigum að hætta flaðrinu fyrir auðhringjum. Hætta að afhenda þeim orku á smánarverði eins og virkjunarflokkarnir hafa verið að gera í áratugi. Ef við fellum ríkisstjórnina og stöndum vel að myndun nýrrar rennur upp nýr og bjartari dagur fyrir okkur. Þá verða gæsirnar í okkar búri og við skiptum gullinu bróðurlega á milli okkar.Þá mun stirna á framtíðarlandið. Með kveðjum til allra frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Wednesday, February 07, 2007

 

Barneignir.

Þið getið verið róleg. Ég er ekki á barneignarbuxunum. Í reglugerð með stoð í lögum um fæðingarorlof var ákvæði um skerðingu orlofsins ef fólk átti barn með innan við 3ja ára millibili. Auðvitað fáránleg regla en þó í samræmi við áráttuna um að þurfa sífellt að klípa utan af hlutunum. Félagsmálaráðherrann, Magnús Stefánsson, framsóknarmaður, kippti þessari dellu úr sambandi í gær. Með afar skemmtilegri yfirlýsingu um að hann vildi stuðla að barneignum á Íslandi. Hann fær pre frá mér fyrir þetta. Mér datt strax í hug að kannski væri vissara fyrir konur í barneign að passa sig á þessum trausta vini. Eins og maðurinn sem mælti: Hér kem ég fús til starfa. Ég held að Magnús sé einn af fáum framsóknarmönnum sem á það til að taka rökum og vera nokkuð málefnalegur. Finnst að hann hafi sýnt það oftar en ekki í viðtölum. Vonandi getur hann smitað félaga sína aðeins af þessu. Það er þó örugglega borin von um að Véfréttin nái áttum. Mér finnst líka út í hött að vera að nefna afsögn þessa ráðherra í tengslum við Breiðuvíkurheimilið. Þegar hinir dapurlegu atburðir gerðust þar var hann bara smápolli. Vonandi verður þetta mál krufið til mergjar. Og reynt með öllum hugsanlegum leiðum að bæta skaðann þó það sé ekki hægt nema að litlu leyti. Við skulum öll biðja fórnarlömbin fyrirgefningar. Eins og öll önnur fórnarlömb svívirðingar og ofbeldis sem viðgengist hefur og viðgengst enn, því miður. Smánarblettur á þjóðfélaginu sem við skulum öll berjast gegn með öllum tiltækum ráðum.

Ég hugsa nokkuð gott til glóðar um helgina. Það er spáð 4urra stiga hita á sunnudaginn. Þrátt fyrir lurðuskratta langar mig að halda að Tangavatni með stöng mína. Hluti vatnsins er ávallt auður vegna kaldavermslisins undan Hekluhrauninu. Það væri örugglega hægt að verja sunnudeginum með verri hætti en að bleyta í færi. Gæti hreinlega orðið indæll dagur. Það er kyrrð og ró hér. Indælisveður og hitinn rétt undir frostmarkinu. Við Raikonen njótum samvista og hugur beggja í miklu jafnvægi. Kippum okkur ekki upp við smámuni og látum hverjum degi nægja sína þjáningu. Það styttist í Góu og birtan hraðvaxandi. Og það eru ekki minni væntingar til sumarsins en undanfarin ár. Ölfusá, Veiðivötn, skógrækt í Grímsnesi. Og allt hitt. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi, hættur barneignum en vill samt stuðla að þeim.

Monday, February 05, 2007

 

Ný könnun.

Í Blaðinu í morgun, 6. febrúar, birtast niðurstöður úr könnun á fylgi flokka sem gerð var á laugardaginn var. Niðurstöðurnar eru athyglisverðar. Gleðilegar og sorglegar í senn. Svarhlutfall var 88% en 39% neituðu að svara. Samkvæmt þessu hrynur fylgið af frjálslynda flokknum. Það eru ákaflega góð tíðindi. Og það eru líka ánægjuleg tíðindi að Vinstri grænir fá 22,9% og eru þar með orðnir annar stærsti flokkurinn. Slæmu tíðindin eru að sjálfsögðu fylgi íhaldsins, 45,5% og framsóknar 9,4%. Þetta þýðir bara að stjórnin heldur velli. Samfylkingin nær ekki vopnum sínum. Og það eru litlar líkur á að hún geri það ef ekkert verður að gert á þeim bæ. Það kann ekki góðri lukku að stýra að vera nánast án nokkurrar stefnu annarar en að komast til valda. Og ef örlar á stefnu þá er hún breytt daginn eftir. Hann virðist stundum vera erfiður uppdráttarsýkillinn. Mér hefur á stundum orðið tíðrætt um Sf. í þessum pistlum. Spár mínar virðast allar vera að ganga eftir. Því miður, liggur mér við að segja. Ef við vinstri menn uppskerum ekki nægilega og núverandi ríkisstjórn fær áfamhaldandi traust eru það sannarlega slæm tíðindi. Mikið af vatni á eftir að renna til sjávar fram að næstu kosningum. Og þetta er bara ein könnun af mörgum. Við skulum vona að breytingar verði á þann veg að ríkisstjórnin falli. Það er mikilvægast af öllu í komandi kosningum.
Eitt finnst mér athyglisvert í sambandi við greiningu á þessum könnunum. Það hefur sem sé komið í ljós að konur flýja Sf. í stórum stíl. Það er þó eini flokkurinn sem hefur konu sem formann. Kannski höfða hinar glæsilegu konur sem Vinstri grænir hafa valið til framboðs betur til þeirra. Ingibjörg Sólrún þarf að bretta upp ermar. Og losa sig við þráhyggjuna um að hún ein komi til greina sem forsætisráðherra ef ríkisstjórnin fellur. Kjósendur eru einfaldlega að undirstrika þetta þessa dagana.Flokkarnir sem kunna að fella þessa ríkisstjórn eiga ekki að útiloka neitt í þessu sambandi. Þar er ekkert sjálfgefið. Þó ég hafi að nokkru misst trúna á Ingibjörgu myndi ég aldrei setja mig upp á móti henni sem forsætisráðherra ef það yrði niðurstaða viðræðna eftir kosningar. Ég tel það hinsvegar afar ólíklegt eins og komið er fyrir flokknum nú. Ég er enn vongóður um að við berum gæfu til að koma þessari afleitu ríkisstjórn frá. Það bókstaflega verður að takast. Það eru bara rúmir 3 mánuðir í niðurstöðuna. Kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

 

Mafía.

Ég hef stundum skrifað um starfsemi olíumafíunnar hér á landi.Hún er reyndar enn á fullum dampi. Samráðið um okrið enn til staðar. Vonandi verða forstjórarnir sem nú hafa verið ákærðir dæmdir af verkum sínum. Sumir hafa talað um landbúnaðarmafíu. Kannski er eitthvað til í því að hún sé til. Landbúnaðarráðherrann og fjármálaráðherrann eru báðir í framboði hér í Suðurkjördæmi. Einu mesta landbúnaðarkjördæmi landsins.Fyrir flokka sína sem stjórnað hafa þessu landi undanfarin ár. Nýlega skrifuðu þeir undir skjal um greiðslu u.þ.b. 16 milljarða króna til að niðurgreiða lambakjöt. Þegar þú kemur að kjötborðinu í búðinni og ætlar að fá þér helgarsteikina ertu þá þegar búinn að borga 450 krónur fyrir kílóið. Fyrirfram í gegnum skattana þína. Þessir herrar hafa réttlætt þessar aðgerðir með því að bændur séu að aðlaga sig. Búa sig undir samkeppni. Þetta hefur verið sagt árum saman. Nú geta þeir sem stunda sauðfjárbúskapinn slappað af næstu 4 ár. Og þakkað þeim Guðna og Árna góðverkin á sér. Það er sem sagt líka margt skrýtið í sauðarhausnum. Mér finnst lambakjöt góður matur. Og mér er yfirleitt nokkuð hlýtt til bænda. Það er þó ljóst að það verður að skera þetta kerfi upp með einhverjum hætti. Enda fá bændur sjálfir ekki nema brot af þessum aurum. Tímasetningin á þessum góðgerðum þeirra ráðherranna er varla tilviljun.

Undanfarna daga hefur verið fjallað um svonefnt Breiðuvíkurheimili í fjölmiðlum. M.a. með viðtölum við menn sem voru sendir þangað ungir til dvalar.Samkvæmt frásögnum þeirra var þetta heimili nánast helvíti á jörðu. Andlegt og líkamlegt obeldi í fyrirrúmi. Níðingsháttur á hástigi. Og varnarleysi þessara ungu pilta algjört. Þeir stóru fóru sínu fram gagnvart þeim sem minna máttu sín. Og stjórnendur og annað starfsfólk tók þátt í þessum ljótu athöfnum. Margt hefur sært réttlætiskennd mína í gegnum árin. Eitt það viðurstyggilegasta er þó níðingsháttur gagnvart börnum. Dýraníðingar eru reyndar í sama flokknum. Varnarleysi barna og dýra er algjört. Börn sem lenda í slíkum hremmingum bera þess aldrei bætur. Sumir þessara pilta eru horfnir héðan. Fyrir eigin hendi. Og við höfum séð viðtöl við nokkra af hinum. Það er ekki hægt að bæta fyrir þessi brot. Því miður. En það er gott að þetta skuli gert opinbert þó langt sé um liðið. Vítin eru til að varast þau. Samúð mín er öll með þessum mönnum. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim. Sumir þeirra hafa fyrirgefið kvölurum sínum meðferðina. Það er gömul staðreynd að svona staðir virðast oft á tíðum kalla það versta fram í mannseðlinu. Obeldi, kvalalosta og takmarkalausa grimmd. Þetta er alþekkt um allan heim. Látum þetta aldrei henda okkur aftur. Gætum að börnunum okkar, verndum þau og elskum þau.

Bestu kveðjur úr kyrrðinni, ykkar Hösmagi.

Saturday, February 03, 2007

 

Elsku kusa mín....

komdu nú hérna og karaðu á mér nefið. Svo ég losni við kvefið. Veitti ekki af stórri kusu til að hjálpa uppá mig. Hundleiður á endalausu nefrennsli þannig að hver eldhúsrúllan af annari gengur til viðar. Kannski myndi þetta lagast ef ég hætti að reykja. Efast þó um það. En það myndi spara. Og loftið verða betra. Það eru nokkuð góðar og gildar ástæður til að hætta þessum ósið. Þessar viðjar sem vaninn skapar eru sterkar. Fyrst og fremst vantar þó ákvöðunina um að komast út úr kófinu. Kannski kemur hún bara allt í einu. Nú veit ég líka betur en áður hvernig skal fara að þessu.Í hremmingum fyrir jólin 2001 þegar annað lunga Hösmaga féll saman var reykingunum sjálfhætt. Svona á spítalanum allavega. Þetta var daginn fyrir Þorláksmessu. Svo liðu jólin og áramótin og ég saknaði tóbaksins furðulítið. Með mér á stofu voru 2 gamlir gaurar. Báðir höfðu fengið hjartaáfall og máttu ekki reykja. En þeir tuggðu og tuggðu. Einhverskonar nikótíntyggigúmmí. Stundum þegar manni leiðist er betra illt að gera en ekki neitt. Ég þáði jórturleður frá þessum ágætu gamlingjum. Ekki leið á löngu þar til löngunin í vindil blossaði upp á ný. Ég lét nú ekki undan. Komst heim á Þrettándanum. Og hélt áfram að tyggja. Þegar komið var fram í febrúar byrjaði ég að vorkenna sjálfum mér. Fannst að ég ætti bara verulega bágt. Ég sannfærði mig um að allir væru vondir við mig og svo væri ég í ástarsorg að auki. Ég ætti svo sannarlega skilið að fá mér vindil. Sem ég og gerði einhverntíma um miðjan mánuðinn. Sá fyrsti var mjög bragðvondur. En ég var fallinn. Sokkinn aftur á þrítugt djúpið. Síðan eru 5 ár liðin. Og mökkurinn enn nærri. Kannski kemur kusa bara og hjálpar mér við þetta. En það verður ekkert leður í spilinu. Það er bara annaðhvort eða í þessum efnum. Leðrið heldur fíkninni við.Eini munurinn er minni mengun. Smáplús þar, að vísu. Sama fíknin og svipuð fjárútlát. Ég ætla að hugleiða þessi mál. Hrapa ekki að ákvörðun sem kann að mistakast. Það er svo voða vont fyrir sálina. En fyrsta skrefið er hér með stigið. Þannig byrja allar góðar ferðir. Langar og stuttar.

Við Raikonen höfum báðir viðrað okkur í morgunkyrrðinni. Alhvít jörð á ný. Vinskapurinn svo mikill að vart er flóafriður hér við tölvuna. Hefur nú hent áður. Við sendum ykkur hlýjar kveðjur og vonum að þið kjósið ekki ríkisstjórnarflokkana í vor. Ykkar Hösmagi.

 

Getspeki.

Nú er HM í handbolta að klárast. Þetta verða úrslitin:

1. Þýskaland.
2. Pólland.
3. Frakkland.
4. Danmörk.
5. Króatía.
6. Rússland.
7. Spánn.
8. Ísland.

Þá vitið þið það og þurfið þessvegna ekki að horfa á leikina 4 sem eftir eru.

Þorri er nú u.þ.b. hálfnaður. Hefur hagað sér nokkuð skikkanlega og hitastigið verið að mestu yfir núllinu. Furðu rólegt yfir pólitíkinni þó ein og ein bomba sé að falla. Svona á stangli. Það nýjasta er að ekki mátti hrófla við starfsemi Byrgisins í Rockville af því það var svo góð auglýsing fyrir varnarliðið. Samt vissu a.m.k. sumir ráðherrar af öllu sukkinu og óreiðunni. Þeir afsaka sig með því að þetta hafi ekki tilheyrt þeirra ráðuneyti. Líklega verið allt í lagi úr því svo var. Að sjálfsögðu mátti ekki skyggja á sól varnarliðsins. Svo var keypt jörð fyrir á annað hundrað milljónir undir starfsemina. Og peningar streymdu áfram úr ríkissjóði til þessa góða máls. M.a. til að forstjórinn gæti endurnýjað Range Roverinn árlega.Og þegar spurt er um ábyrgð segir Véfréttin frá Bifröst að félagsmálaráðherra hafi "axlað ábyrgð". Hann hafi stöðvað greiðslur dýralæknisins til Byrgisins. Siðferði okkar íslendinga er afar sérstakt. Svo ekki sé meira sagt. Kannski kemur að því að við fáum dæmdan þjóf sem dómsmálaráðherra. Það væri í góðu samræmi við annað.
Samkvæmt nýjustu upplýsingum mun stækkun álversins í Straumsvík valda meiri mengun en allur núverandi bílafloti íslendinga. Verði af stækkuninni þarf að færa Keflavíkurveginn til. En Sturla ætlar að borga. Hvað er líka einn milljarður úr vasa okkar þegar stóriðja á í hlut ? Og svo er það Helguvík, Húsavík, Skagafjörður og Þorlákshöfn. Þar var nýlega farfugl frá Norsk Hydro. Og var tekið fagnandi. Og svo segir Véfréttin mikla að stóriðjustefnunni hafi verið mokað út af borðinu fyrir þremur árum. Það sem nú er verið að hugsa um myndi taka alla orku frá óvirkjuðu vatnsafli hér á landi. Orku, sem er nánast gefin en ekki seld. Enda engin von til að stjórnvöld upplýsi okkur um verðið þó við eigum nú Landsvirkjun enn.
Við þurfum að breyta um stefnu. Andi draugsins og nagarans svífa enn yfir vötnunum. Mannanna, sem mesta ábyrgð bera á óhæfuverkum undanfarinna 12 ára. Mannanna, sem afhentu vinum sínum ríkisbankana fyrir smáaura. Einnig símann. Og ef ekki verður breyting í stjórnarfarinu mun afgangurinn fara sömu leið. Það er löngu farið að undirbúa söluna á Landsvirkjun. M.a. var eitt skrefið stigið af fulltrúum afturgöngunnar og nagarans þegar hlutur Reykjavíkur var seldur til ríkisins. Fulltúar hinnar nýju stéttar eru í startholunum. Tilbúnir að taka á móti orkugeiranum eins og Bjarni Ármannsson sagði nýlega.
Kosningarnar í vor eru óvenjulega mikilvægar nú. Því miður er nú margt sem aldrei verður hægt að bæta fyrir. Og vinstri menn þurfa að slíðra sverð sín innbyrðis. Höggva sem aldrei fyrr í aðrar áttir.Vonandi eru okkur ekki allar bjargir bannaðar.
Bestu kveðjur og óskir frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online