Tuesday, May 18, 2010

 

Vor.

Það hefur aldrei skeð áður að pistlarnir mínir hér hafi fallið niður í heilan mánuð.Kannski er ástæðan sú að maður fær útrás á facebook og Moggablogginu. Eitt tekur við af öðru og svo er í mörg horn að líta. Veðrið er indælt. Smásúld og hitinn 9 gráður. Miðvikudagur og lífið gengur sinn gang. Kisi minn lúrir hér á borðinu hjá mér. Hann fékk gjöf frá mér í gær. Veiðistöng. Hún er svona hálfur metri á lengd og línan annað eins. Á línunni er stór beita. Loðin mús með rautt trýni og bleik augu. Þetta finnst kisa óhemjuskemmtilegt tæki. Kemur með músina í kjaftinum og heimtar leiki. Brauð og leikir eru líka okkar ær og kýr.
Ég mun sitja heima í kosningunum eftir 10 daga. Dettur ekki hug að bera neina ábyrgð á einum einasta bæjarfulltrúa. Fráfarandi bæjarstjórnarmeirihluti er reyndar gjörsamlega glataður. Með menn eins og Jón Hjartarson innanborðs. Manninn, sem stakk loforðum sínum undir stól eftir síðustu kosningar. Óþarfi að standa við nokkur loforð þegar kalt mat hans sjálfs var að betra væri að svíkja loforð sín en að halda þau. Það eru svona menn sem verða til þess að fólk fær algjöran viðbjóð á pólitík. Á tímabili var ég að hugsa um að kjósa íhaldið í fyrsta sinn á ævinni. Eingöngu til að stuðla að því að bæjarstjórnarmeirihlutinn félli. Svo sá ég að mér. Ég get þá að minnsta kosti dáið án þess að hafa það á samviskunni. Syndir mínar nógar fyrir.
Enn hef ég ekki farið neitt með Herconinn. Kemur að því fljótlega. Ætla að rifja upp kynnin við ósa Ölfusár. Þar er von í hinum göfuga fiski, sjóbirtingnum. Ég ætla að stunda veiðina stíft í sumar. A.m.k. ef heilsan leyfir. Ekkert bendir til annars en að svo verði. Ég er aðeins á milli vita sem stendur. Líður ágætlega. Krabbameinslæknirinn dvelur nú í Danmörku. Ég fór í sneiðmyndatöku 30. apríl og hef bara óljósar fregnir af henni. Eftir krókaleiðum. Finnst svolítið slæmt að ná engu sambandi við þann sem átti að sjá um mig í fjarveru míns ágæta læknis, Hlyns Grímssonar. Á reyndar traustan bakhjarl hér austanfjalls, Óskar Reykdalsson. Prýðisdrengur, sem ég hef fullt traust á. Þetta skýrist allt á næstunni og ég er alltaf jafn bjartsýnn. Við Kimi sendum ykkur öllum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online