Thursday, May 18, 2006

 

Játning.

Undur og stórmerki hafa gerst.Einn frambjóðenda exbé listans eða lista Barborgara eins og ég hef kallað hann hefur játað að vera framsóknarmaður. Þetta gerði hann á einum sunnlenska vefnum. Á myndinni var ekki hægt að sjá hvort hann gerði þetta kinnroðalaust. Hann er nú svolítið rauðbirkinn svo erfitt er að sjá það. En svo virðist sem þetta sé heiðarlegur kjarkmaður. Annar frambjóðandi á sama lista skrifar líka á vefinn. Um umferðaröngþveitið á Selfossi. Á vissum álagstímum komast ekki nógu margir viðskiptavinir hans yfir brúna. Og ekki nógu hratt. En hann hefur lausnina. Breikka Austurveginn og fækka gangbrautum verulega. Blikkkýrin í öndvegi sem fyrr. Það kemur reyndar ekki fram í þessari ritsmíð hvort höfundurinn sé framsóknarmaður. Kannski laumukommi eða eitthvað þaðan af verra. Ósköp hlýtur að vera erfitt að vera í framboði þegar ekki má nefna stjórnmálaflokkinn sem grunaður er um að standa fyrir því. Það verður líklega að hafa sömu aðgát hér og gagnvart sjallagreyunum sem eiga svo bágt núna. Svei þessum andskotum sem eru að gantast með grafalvarlega hluti. Eins og að Árborg verði nefnd upp. Túborg. Og hættulegt sé að lýsa upp Hellisheiði því ljósastaurarnir geti orðið fyrir einhverjum.Sem eru á leið heim til sín að næturþeli. Og jafnvel með skerta dómgreind. Þetta svona jaðrar við guðlast. En svona eru sumir voðaleg kvikindi.
Enn er kominn föstudagur. Vikan búin að vera nokkuð annasöm á vinnustað. Enda nokkur forföll hjá genginu. En allt hefst þetta. Það er munur að hafa Hösmaga í vinnu hjá sér. Kraftmikinn starfsmann í fremstu röð eins og það yrði orðað í samfylkingunni.
Og Magnús minn hefur afneitað framsókn. Gott að hann getur sagt kinnroðalust að hann hafi aldrei kosið framsóknarflokkinn. Ég hreinlega verð að biðjast forláts á að hafa haldið þessu fram.Öll skulum við láta sannfæringu okkar og hugsjónir ráða þegar við komum í kjörklefann.Látum ekki blekkja okkur til annars.
Norðaustanáttin er köld. Veðrið þó þokkalegt. Gjóla og sólskin. Mér sýnist brún Ingólfsfjall vera dálítið þung í dag. Gæti trúað að fjallið hefði sál og hugsi bæjarstjórninni þegjandi þörfina. Ég ætla að standa með Ingólfsfjalli í kosningunum. Megi dagurinn færa ykkur gleði, ykkar Hösmagi.

Comments:
Góður brandarinn frá Túborg. Þakka þá sendingu.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online