Thursday, June 28, 2007

 

Niður með KR.

Ég heyrði af hávísindalegri könnun nú í vikunni. Það hefur sem sagt komið í ljós að gengi KRinga í knattspyrnunni hefur fylgni með laxveiði í gegn um árin. Þegar þeir eru á rassgatinu eins og nú í ár gengur laxinn ekki í árnar. Ég ætti því kannski heldur að hrópa áfram KR. En þetta eru nú óttaleg prumphænsn sem ekkert geta í boltanum. Á einhvern óútskýranlegan hátt tókst þeim þó að vinna Fram í gærkvöldi. Það er ört stækkandi straumur nú og ég á veiðidag á morgun. Ef ég fæ ekki lax kenni ég KRingum um. Flestum er nú kunn snilld mín við þessa skemmtilegu iðju. Þekktur fyrir að galdra upp lax úr steindauðu vatni. Jafnvel þó KR sé gjörsamlega í skítnum. Nafni minn hefur örugglega orðið glaður eftir sigur sinna manna. Ég fyrirgef honum nú aðdáunina á þessu liði. En það er einungis vegna fóstbræðralagsins við skáldið mitt. Ég hef svo sem ekki mikinn áhuga á knattspyrnu. Finnst þó í lagi að horfa á markaregn annað slagið. Get ómögulega skilið fólk sem nennir að horfa á 20 fíleflda karlmenn þvæla boltatuðru á milli lappanna í hálfan annan klukkutíma og koma henni aldrei í netmöskvana. En svona er þetta. Þórbergur Þórðarson skildi ekki þrístökk. Fannst það yfirmáta fáfengileg og heimskuleg íþrótt. Ég hef alltaf haft mikið dálæti á meistaranum. Þegar ég varð íslandsmeistari í þessari íþróttagrein árið 1963 var ég ekki byrjaður á Þórbergi. Og ég var hættur iðkun íþrótta þegar ég las texta meistarans um þrístökkið. Verðlaunapeninginn á ég þó enn og finnst vænt um hann. Miklu meiri heiður að honum en orðu frá Ólafi Ragnari. Kannski hengi ég hann á mig þegar ég verð sjötugur.

Vera mín í VG varð ekki mjög löng. Ég gekk í flokkinn í október á síðasta ári. Ég sagði mig úr flokknum í gær.Skoðanir mínar á pólítíkinni hafa þó ekkert breyst. En ég vil ekki vera í sama flokki og Jón Hjartarson bæjarfulltrúi VG í Árborg. Nei takk. Kannski geng ég bara í flokkinn aftur þegar forustumenn hans hafa manndóm í sér til að reka Jón úr honum. Ef hann fær að halda niðurrifi sínu áfram með leifunum af gömlu bæjarstjórninni fær VG ekki mörg prik hér í næstu kosningum. Kannski get ég ekki rekist í neinum flokki. Ég læt sannfæringu mína ráða. Hagsmunir þessa bæjarfélags eru langtum ofar öllum flokkshagsmunum í mínum augum. Garðar og græn svæði eiga ekki uppá pallborðið hjá núverandi bæjarstjórnarmeirihluta. Hann ætlar að byggja 270 blokkaríbúðir hér við brúarsporðinn. Og 11 hæða turn fyrir fyrir sjálfan sig. Líklega með fundarsal á efstu hæðinni svo hann geti horft niður á pöpulinn á götunni. Þetta eru skemmdarverk á þessum fallega og oftast friðsama bæ. Við skulum heldur byggja upp miðbæ með garði, torgi, vinalegum verslunum, veitingahúsum og menningarstarfsemi.. Við viljum ekki steinsteyptan Kínamúr. Skipulagt kaos með tilheyrandi umferðaröngþveiti. Ég heiti á allt gott og skynsamt fólk að koma í veg fyrir þessi fáránlegu áform.

Sólin vaknaði á undan mér í morgun. Brosir nú sínu breiðasta og dásamlegur föstudagur runninn upp. Veiði og frí um helgina. Við Kimi sendum öllum, líka KR aðdáendum, okkar bestu morgunkveðjur, ykkar Hösmagi.

Sunday, June 24, 2007

 

Jónsmessa.

Nú er þessari sumarmessu rétt nýlokið. Raikonen gallharður á að fóstri ætti að vakna og opna gluggann. Snöggur að demba sér út í vornóttina, milda og gefandi. Framtíðarlandið var líka gefandi á Jónsmessunótt. Varla að niður Sogsins bærist eyranu. Tveggja tíma svefn þessa nótt er kappnógur ef hugarfarið er rétt. Og núið er dásamlegt. Gangrimlahjólið snýst þó áfram. Við vitum það og mikilvægt að sætta sig við það. Dásemdir sumarsins eru flestar eftir. Góð byrjun með skáldinu í fyrstu hálendisferðinni. Nokkrar bröndur, ljúft veður og fegurð Landmannalauga söm og áður. Góð heimkoma eftir indælan dag. Það er nú rólegt yfir veiðinni í Ölfusá. Aðeins 4 laxar komnir á land. Kannski er hann að bíða eftir mér? Á miðvikudaginn. Það kemur ekki deigur dropi úr loftinu og lítið um ánamaðkinn. Hösmagi hyggst beita öðrum ráðum. Túpan góða, Æskrím étur hann fær að reyna sig. Abdúlla reykir, icecream étur hann, er ekki sál hans skrýtin vítahringur. Útiveran við ána mína góðu verður allavega góð. Margs að njóta á árbakkanum. Nokkuð fjölbreytt fuglalíf sem alltaf er gaman að fylgjast með. Það er sem sagt tilhlökkunarefni að hefja laxveiðitímabilið. Best gæti ég trúað að eitthvað skemmilegt gerðist. Veiðigyðjan hefur oft gengið í lið með mér. Brauðstritið gleymt og grafið þennan dag og gott að fá sér lúr í hinu daglega hléi. Nýveiddur Ölfusárlax þykir nú ekki slormeti. Soðinn á einfaldasta hátt, kartöflur og smjör. Svo getur fólk haft annað meðlæti ef vill. Hitt er þó nóg enda bragðið sérstaklega gott. Nú hafa flest net verið tekin upp svo það verður slegist um hvern fisk. Margir hafa lagt leið sína til Selfossbænda að sækja sér nýmeti í soðið. Nú verður þar Snorrabúð stekkur og stangveiðimenn finna til þess nú þegar. Ég hlakka til og sá fyrsti verður sami happafengurinn og jafnan áður.

Meirihluti bæjarstjórnarinnar situr fast við keip sinn. Ætlar að nauðga nýja miðbæjarskipulaginu í gegn. Við hin söfnum liði og munum þvinga hana til lýðræðislegra vinnubragða. Það er ömurlegt að það skuli vera svokallaður vinstri meirihluti sem vinnur svona. Ég hefði betur hlustað á viðvörunarraddir um fulltrúa VG í fyrra. Nú hreykir hann sér eins og hani á haug á vegtyllunni sem forseti bæjarstjórnar. Vinnur þvert á stefnu VG í umhverfismálum og skeytir engu um skömm né heiður. Fari hann í fúlan pytt, rass og rófu.

Kominn tími til að liðka fætur sína. Reyndar er gamli Faxi klár í slaginn að nýju. Ný ventilgúmmí og loft í dekkjum. Reiðhjólið Icefox stendur við hlið grænu þrumunnar í bílskúrnum. Faxi gæti sem best sagt: Hér er ég, fús til ferða. Við verðum góðir saman í sumar. Jónsmessukveðjur til ykkar allra frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Thursday, June 21, 2007

 

Dagurinn.......

í gær var lengsti dagur ársins. Ekki langur eins og föstudagurinn langi heldur dagur hinnar nóttlausu voraldar veraldar. Það ríkir staðviðri og litlar horfur á breytingum. Varla að vindur strjúki vanga. Það var sönn lífsnautn að viðra sig í morgun. Kisi kann sér ekki læti af fögnuði. Það er sammerkt með okkur báðum. Nú ber Jónsmessunótt uppá aðfararnótt sunnudags. Það verður ákaflega ljúft að vaka. Döggin freistar. Sá sem ekki finnur neitt gott á þessum tíma hér á norðurhjara er líflaus. Það eina sem vantar er góð regnskúr. Svona hellidemba sem fær landið og gróður þess til að ilma enn sterkar. Hún mun þó örugglega koma. Ég hlakka til að mæta til starfa klukkan 9. Ég hlakka þó enn meira til að hætta brauðstritinu kl. 17. Helgarfrí með birtu í sálinni og vellíðan í kroppnum. Og meiri væntingar til morgundagsins en venjulega. Spennandi dagur af ákveðnum ástæðum. Aldrei að vita nema ég ræði það nánar síðar. Heita handklæðið Jónsmessunæturinnar hefur skipt um hendur. Sumir draumar rætast ekki. Það verður eilítið tómarúm fyrst í stað. Svo koma aðrir enn betri draumar í staðinn. Draumar einlægninnar og heiðarleikans. Heiðarleikans, sem er undirrituðum svo mikils virði. Ég vil að fólk viti hvar það hefur mig. Og ég vil geta treyst öðrum. Aðgátin í nærveru sálar er enn mikilvæg. Það er miklu betra að þegja en segja eitthvað án nokkurrar meiningar. Það getur að sjálfsögðu komið fyrir að aðstæður breytist og hlutir fari öðruvísi en ætlað var. Við þekkjum það öll.

Nú eru allir gluggar opnir hér hjá okkur Kimi. Örlítinn andvara leggur í gegn. Hurðir uppá gátt.Ég hef sagt það áður hér að kaffið smakkast enn betur á svona morgnum. Meira að segja hugsunin um dellu bæjarstjórnarmeirihlutans víkur fyrir fögnuðinum af að vera vakandi, kátur og hress. Það styttist í laxinn. Ég verð á bakkanum þann 27. júní. Áin lítil og tær. Þetta er afmælisdagur föður míns sæla. Þá verða 34 ár liðin frá fyrsta laxinum mínum. Og nákvæmlega 20 ár frá stórlaxadeginum mikla. Sannfærður um að þetta mun verða indæll dagur. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar einlægur Hösmagi.

Monday, June 18, 2007

 

Súld og orður.

Nú súldar hann aðeins. Þetta mætti nú verða að verulegri rigningu þegar líður á daginn. Þá koma stóru ánamaðkarnir uppúr jörðinni til ástaleikja. Og vondur karl kemur til að hremma þá við þessa indælu iðju. En það er gamla sagan. Eins dauði, annars brauð. Veiðin hófst í Ölfusá á laugardaginn. Fyrsti laxinn var 16 pund að þyngd. Skínandi björt og falleg hrygna. Það veit vonandi á gott fyrir sumarið. Skrapp í Garðabæ um kvöldið og samfagnaði meistaragráðunni með eldri syninum. Indælt þar eins og venjulega. Leti í gær. Formúla og handbolti og síðan leit ég við í Grímsnesinu í gærkvöldi. Fyrirheitna landið á sínum stað. Kærleikskotið er nú ekki risið. Skáldahöllin, þar sem hin ódauðlegu verk eiga eftir að verða færð í letur. Er ekki sagt að góðir hlutir gerist hægt? Þeir gerast nú samt. Undir fjallinu sem er heljarmikið þó það virki bara eins og þúfa héðan úr norðurglugganum í Ástjörn 7.
Það var orðuboð á Bessastöðum í gær. Forsetinn hefur vart undan við staðfestingar á mannkostum og afrekum. Mér hefur stundum verið hugsað til þessarar hefðar. Að upphefja sumt fólk fyrir að hafa mætt í vinnuna. En líklega eru sumir bara miklu merkilegri en aðrir og eiga rétt á staðfestingu á því. Geta svo skreytt sig með glingrinu á tyllidögum. Við hin bara eins og óskreytt jólatré. Svona er nú ranglæti heimsins yfirgengilegt. Einhvernveginn er ég samt slakur yfir orðuleysinu. Líður bara alls ekkert illa þó ég hafi verið sniðgenginn þarna suður á Álftanesi. Þrátt fyrir öll afrek mín í lífinu til þessa. Veiðimennsku, þrístökk og skáksnilld svo eitthvað sé nefnt. Ég vona að orðuþegar gærdagsins hafi gengið glaðir til náða í gærkvöldi. Enn betra fólk en áður.

Við Kimi erum báðir hressir. Í góðu skapi og tilbúnir til átaka dagsins. Biðjum fyrir bestu kveðjur til alls heiðursfólks, með eða án orða, ykkar Hösmagi.

Friday, June 15, 2007

 

Fegurð himinsins. Og svört ský..

Við skáldið gerðum góða ferð í Landmannalaugar á miðvikudaginn var. Veðrið var mjög gott og jafnvel hlýrra þarna á hálendinu en hér á flatneskjunni. Dómadalsleiðin orðin greiðfær og Sölvahraunið enn á sínum stað. Við tókum daginn í rólegheitum. Slakir og ánægðir á þessum slóðum. Því miður var eldri sonurinn bundinn af öðru þennan indæla og fallega dag. Bætum það upp síðar. Við komum aftur á Selfoss um hálftíuleytið alsælir með daginn. Sölvi hélt til síns heima og undirritaður stuttu síðar undir sæng sína. Svaf vel og lengi og mætti óvenjugalvaskur til vinnu í gær. Þetta er nú ekki amaleg byrjun á útiveru sumarsins. Aðeins 12 dagar í laxinn og það er sérlega indælt líka.

Það eina sem plagar verulega nú um stundir er meirihlutinn í bæjarstjórninni hér. Nýjasta afrekið er að fella tillögu minnihlutans um að íbúarnir verði spurðir um álit. Meirihlutinn segir tillöguna vera tímaskekkju. Líklega er lýðræði bara tímaskekkja í augum fulltrúa framsóknar, SF og VG. Það er ljótt að segja það en ég er farinn að halda að fólkið í meirihlutanum hafi allt smitast af einhverskonar fávitabakteríu. Varla er það allt fætt svona. Við höfum nú hér Hótel Selfoss í miðbænum. Eina ljótustu byggingu heimsbyggðarinnar. Að vísu ber meirihlutinn ekki ábyrgð á henni. Nú er búið að brjóta niður Krónuhúsið og gamla sláturhús Hafnaríhaldsins. Það sér enginn eftir þeim byggingum.Hefði verið upplagt að afmá Hótelið í leiðinni. En sumum okkar er nú ekki sama hvað kemur í staðinn. Þar og í tengslum við þær byggingar hér við sporð brúarinnar. Af hverju má ekki spyrja íbúana hér álits? Af hverju þarf að keyra þessa dellu í gegn með eins miklum hraða og hægt er? Ef ég væri trúmaður myndi ég biðja um að viti yrði komið fyrir vesalingana sem nú hafa tögl og hagldir í bæjarstjórninni. Það er þó líklega borin von til þess að þeir breyti um stefnu. Vegurinn til baka er þó fær ennþá. Miðjusamningurinn er ekki heilagt plagg. Kannski eru fulltrúar framsóknar og SF nú loksins að átta sig á hvernig Miðjumennirnir snéru á þá fyrir kosningarnar í fyrra. Þeir eru nú í gapastokknum með Jóni Hjartarsyni. Hvernig væri að taka afleiðingum gerða sinna? Láta kjósa um málið. Það liggur nákvæmlega ekkert á. Hér eru engar náttúruhamfarir. En þær verða hér af mannavöldum ef stefna meirihlutans nær fram að ganga. Tökum hagsmuni íbúanna framyfir hagsmuni örfárra peningamanna. Allir núverandi bæjarfulltrúar meirihlutans eru gjörsamlega útbrunnir og á útleið úr pólitíkinni. Minnisvarðinn sem þeim er svo umhugað um að reisa sér verður bara skipulagt kaos steinkumbalda, bílastæða og umferðaöngþveitis. Það er aldeilis glæsileg framtíðarsýn. Eða hvað?

Nóg um þetta hörmungarlið í bili. Helgi og þjóðhátíð að ganga í garð. Við Kimi verðum bara slakir í Ástjörninni. Kannski ég ætti að taka hann með mér í bíltúr. Hösmagi minn kom stundum með mér í bíl og það gekk ágætlega. En Kimi er sérstakur. Líklega bestur heimafyrir.Góðar kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Tuesday, June 12, 2007

 

Góðir dagar.

Í gær fór hitinn hér í 19,9°. Heldur svalara í dag eða 15,9°. Það styttist í Jónsmessu og þetta eru yndislegir dagar. Maðkaleyfið í höfn eftir heimsókn til sómahjónanna á Mánavegi í síðustu viku. Hálendisleiðangur á morgun og ég hlakka mjög til að koma í Landmannalaugar á ný. Ákaflega notalegur staður og náttúrufegurð mikil. Leiðin austur Fjallabak í Eldgjá er líka ákaflega skemmtileg. Að vísu er allmikið vatn á þessari leið en það kemur nú lítið að sök á grænu þrumunni. Þetta er nú bara dagsferð svo Eldgjá bíður. Það er eins og þessi árstími endunýji frumurnar í sálinni. Og örugglega í gömlum skrokkum einnig. Kannski verður hægt að komast um Dómadal til baka.Heillandi leið og landslagið sumstaðar hrikalegt. Á laugardaginn tók ég reyndar smáforskot á sæluna og komst inní Fellsendavatn. Þaðan er nú bara spölur í Veiðivötnin. Þau og Himbriminn, stórurriðinn og töfrarnir bíða í bili. Ekki varð ég nú var við fisk í Fellsendavatni. Skipti mig svo sem ekki miklu því ég naut góðrar útiveru á ágætisveðri. Kíkti svo á uppistöðulón Sultartangavirkjunar í bakaleiðinni. Við heimkomuna fagnaði mér lítið dýr. Gott að vita að einhver skuli stundum sakna manns. Sæl að sinni, ykkar Hösmagi.

Friday, June 08, 2007

 

Fjallaloft.

Það er nú afráðið hjá okkur feðgum að halda til fjalla á miðvikudaginn. Það er 13. dagur júnímánaðar og ekki ætti það að spilla för. Ég hefi fengið það staðfest að nú sé orðið fært í Landmannalaugar en líkast til ekki í Kirkjufellsvatn. Vatnið er u.þ.b. 15 km austan við Laugarnar, á leiðinni austur í Eldgjá. Sú leið bíður því betri tíma. Vonandi er ísinn farinn af Frostastaðavatni og Dómadalsvatni. Nú hefur verið nokkuð hlýtt í nokkra daga og spáð er verulegum hlýindum á mánudag og þriðjudag. Stangirnar eru farnar að titra í bílskúrnum og græna þruman ólm í að komast af stað. Eins og udirritaður. Í mörg ár hef ég ætlað í Landmannalaugar en einhvernveginn hefur það orðið útundan. Þessi för er því tilhlökkunarefni og ef eitthvað veiðist er það að sjálfsögðu góður bónus á ferðalagið. Kimi verður herra hússins á meðan. Hann fær vel í skálar sínar að morgni og gætir eigna fóstra síns. Ekki amalegt að hafa slíkan húsvörð. Það er nú orðið nokkuð síðan undirritaður hefur eytt heilum degi með sonum sínum. Nóg að gera hjá öllum og því ágætt að geta skotist til fjalla svona einn dag á þessum indæla árstíma. Þegar þú kemur heim úr slíkum leiðangri ertu ef til pínulítið þreyttur. Sofnar enn betur og vaknar að morgni hlaðinn nýrri orku. Og svo kemur laxinn, Veiðivötnin og allt hitt. Það er sem sagt létt yfir Hösmaga gamla í dag. Helgarfrí og rólegheit. Kannski einhver heimavinna með góðri samveru við Kimi hinn rauðhærða. Og svo hyggst ég skreppa upp að Syðri-Brú og líta á óðal mitt. Vonandi fer að draga til tíðinda þar. Kærleikskotið enn í hillingum. Það verður þó að veruleika þó síðar verði. Teikningin fundin og það er áfangi. Með sumarkveðjum, ykkar Hösmagi.

Wednesday, June 06, 2007

 

Liðleskjur.

Ég fór á kynningarfund í gærkvöldi. Um nýjustu tillöguna um uppbyggingu miðbæjar hér á Selfossi. Þessi fundur sannaði enn fyrir mér hverskonar hörmungarbæjarstjórn við Selfyssingar höfum nú. Eða við Árborgarar. Þetta er gamla og þreytta liðið sem Jón Hjartarson bæjarfulltrúi VG kom til bjargar í desember. Reyndar lít ég ekki á hann sem bæjarfulltrúa VG lengur. Hann hefur sýnt það og sannað að hann fer einungis eigin leiðir í bæjarstjórninni. Ef nokkur manndómur væri í honum bæðist hann lausnar nú þegar. Hann er nú í gapastokknum með hinum í meirihlutanum. Samningurinn við Miðjuna, companýs Einars Elíassonar, sem fyrrverandi bæjarstjórn SF og framsóknar gerði, mun reynast dýrkeyptur. Hversvegna Jón Hjartarsson hefur flækt sig í þessi afglöp er mér og mörgum öðrum hulin ráðgáta. Það eru örugglega fáir, ef nokkrir, sem kusu hann 2006, sem styðja hann í verkum sínum nú. Það sama gildir líka um skipulagsafglöpin í mjólkurbúshverfinu. Íbúarnir þar héldu að eitthvað væri að marka það sem þessi maður segði. Því miður fyrir þá og marga aðra var það bara ekki rétt. Það er nefnilega, eftir kalt mat þessa snillings, ekki ábyrg stjórnsýsla að standa við orð sín. Það er sagt að of seint sé að iðrast eftir dauðann. Ég kaus þennan mann í kosningunum í fyrra. Það gerði ég í góðri trú um að ég leggði mitt lóð á vogarskálarnar til að fella bæjarstjórnina. Hún beið afhroð í kosningunum og missti 3 bæjarfulltrúa. Nokkrum mánuðum síðar kastar svo fulltrúi VG björgunarhringnum til yfirstrandkafteinsins sem nú er orðinn bæjarstjóri á ofurlaunum. Hvernig hefði nú verið að þessi" lýðræðissinnaði" fulltrúi VG hefði óskað eftir félagsfundi til að ræða málin? Heyra hljóðið í þeim sem kusu hann. En það hentaði honum auðvitað ekki. Skoðanir okkar margra koma honum ekki við. Ef hann viðurkenndi mistök sín og segði af sér ekki seinna en nú þegar er kannski einhver von að VG geti boðið fram hér í næstu bæjarstjórnarkosningum.Ég er reyndar viss um að Jón Hjartarson segir ekki af sér. Hann mun sennilega iðka "ábyrga stjórnsýslu" með lúserunum í síðustu bæjarstjórnarkosningum. Verði honum að góðu.

Kári er öflugur þessa dagana. Hitastigið reyndar rúmar 11 gráður. Þurrt í dag eftir mikið grasveður í gær. Starfið á fasteignasölunni gengur vel. Þá eru dagarnir fljótir að líða og ánægjan ríkir. Ég hef sagt frá því áður að ég vinn í sögufrægu húsi í miðbæ Selfoss. Það er rúmlega 70 ára gamalt en núverandi eigandi hefur gætt þess vel. Ef núverandi bæjarstjórn fengi að ráða yrði það jafnað við jörðu. Og þegar Árni Valdimarsson spurði um það á fundinum í gærkvöldi hvort bæjarstjórnin hér væri að vinna fyrir íbúa þessa bæjarfélags eða Miðjumenn móðgaðist bæjarstjórinn. Ég vona að þessi bæjarstjórn hafi ekki alveg bitið úr nálinni í samskiptunum við vin minn Árna Vald. Það fer ekki milli mála hvar ég stend í þeirri baráttu. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Monday, June 04, 2007

 

Afsláttur.

Í augum sumra eru svik á kosningaloforðum bara 2% afsláttur fyrir ráðherrastól. Völdin eru sæt á bragðið og þau spilla. Gerir kannski ekki mikið til þegar fólk er spillt fyrir og meinar lítið með því sem það segir. Og sumum stjórnmálamönnum nægir að túlka hlutina á eigin hátt. Eins og ISG sagði að í hjarta sínu væri hún viss um að Norðlingaölduveita hefði verið blásin af. Og hún "vissi ekki betur en kanarnir mættu ekki fljúga hér yfir" á leið til góðverka sinna í Írak. Þetta er goðið sem nú situr í stól utanríkisráðherra landsins. Goðið, sem ekki má gagnrýna án þess að sauðir hennar fari á límingunum af vandlætingu. Að hluta til er þetta vegna þess að búið er að breyta stjórnmálum á Íslandi í trúmál. Söfnuðurinn ærist ef guðinn er gagnrýndur. Slóð svikinna loforða er léttvæg fundin. Enda verður að reyta af sér spjarirnar til að komast uppí rúmið með íhaldinu. Þar að auki gat SF ekkert gert annað. Guðfaðirinn neyddi hana til þessara athafna. Og það skiptir engu máli í þessu sambandi að framsókn hefur lýst því yfir að vinstri stjórn hafi ekki komið til greina eftir úrslit kosninganna. Guðfaðirinn er ábyrgur fyrir uppáferðum íhaldsins. Og svo er hann bara fúll yfir að hafa ekki sjálfur fengið að taka þátt í ástarleiknum. Hann hefði nú fórnað flestu fyrir að fá að vera þátttakandi. Það er kannski mannlegt að réttlæta svik með þessum hætti. En stórmannlegt er það ekki. " Uppbyggingin" í Írak heldur ekki vöku fyrir SF. Einhverju verður hvort eð er að víkja til hliðar fyrir völd og vegtyllur. Stóri jafnaðarmannaflokkurinn, mótvægið við Sjálfstæðisflokkinn, er nú eins og keisarinn í ævintýrinu. Kviknakinn, stefnulaus og valdasjúkur. Þetta sjá flestir nema tryggustu sauðirnir.

Vætutíð. Við vinirnir vökum og njótum tilverunnar. Úti gnauðar vindurinn og hitinn í rúmum 10 gráðum. Gamla borðstofuborðið er nú orðið sem nýtt. Það var smíðað fyrir 35 árum og hefur verið í fríi í 15 ár. Það fékk afréttara og geislar nú aftur af gleði. Hösmagi verður að bjóða völdu fólki til veislu þegar stólarinir hafa endurheimt fyrri fegurð. Það kemur að því fyrr en varir. Gýs, brennivín, 50, helvíti og steinleið yfir hann eins og góður karl sagði í den. Eftir nýdrukkið kaffi og með sól í sinni, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online