Sunday, May 31, 2009

 

Fúll á móti.

Ég er hundfúll. Ég er á móti íhaldinu. Og framsókn. Svo er ég enn meira fúll út í samfylkinguna. Og andskoti fúll út í vinstri græna. Ég er rosalega fúll út í Evrópusambandið. Ég þoli ekki Össur, Árna Pál, Jóhönnu, Dag né restina af þingmannaliði SF. Ég þoli ekki Jón Bjarnason, Árna Þór Sigurðsson né ýmsa aðra í VG.Þetta er nú meiri fýlan svona á Hvítasunnudegi. Mér finnst enn vænt um Guðfríði Lilju, Ásmund, Atla og Ögmund. Þetta er alveg voðalegt ástand.Það breytist ekkert við nýja ríkisstjórn. Tími Jóhönnu og Steingríms er liðinn. Þau munu samt stritast við að sitja eins og Njáll forðum. Á fundi í Háskólabíó rétt fyrir kosningar var Steingrímur spurður út í verðtrygginguna. Hann sagðist vilja afnema hana og fékk lófaklapp fyrir. Nú er hann fjármálaráðherra og var að hækka vindlana mína, blessað brennivínið og bensínið á bílana mína. Lánin hækkuðu um 8 milljarða í leiðinni af þessum sökum. Verðtryggingarþjófnaðurinn blómstrar sem aldrei fyrr.Það er engin ný hugsun hjá þessari voluðu ríkisstjórn. Aðgerðirnar eru bara til að hleypa illu blóði á þá sum kusu stjórnarflokkana. Nema auðvitað sauðina sem allt láta bjóða sér. Svo er mér líka meinilla við bæjarstjórnina hér í Árborg. Það er alveg hroðalegur söfnuður. Sumir jafnvel vitlausari en Jón forseti. Varla hægt að komast mikið neðar. Meirihlutinn reynir að bera sólskinið í fötum inní Ráðhúsið. Svo botnar hann ekkert í öllu myrkrinu innandyra. Þegar andstæðingar þessa alræmda meirihluta reyna að koma vitinu fyrir hann þá er forsetinn mikli látinn skrifa grein í blöðin.Góð og gild rök andstæðinganna heita skætingur á máli forsetans. Skólarnir á Árborgarsvæðinu tóku ekki þátt í Skólahreysti í vetur. Það var ekki til aur til að borga rútu undir krakkana í bæinn. Á sama tíma styrkti meirihluti bæjarstjórnarinnar merarkóngana hér um margar milljónir. Svo veltast þeir um og brosa breitt í sjálfumgleðinni. Kannski er ég óhæfur til dvalar í mannlegu samfélagi vegna réttlætiskenndar sem sífellt er að flækjast fyrir mér.
Það er mikið grasveður hér. Miklar regnhvolfur annað slagið og svo skín sólin inná milli. Hún fer ekki í manngreinarálit og dembir sér yfir rangláta og réttláta í senn. Síðasti dagur maí í dag og unaðslegasti árstíminn framundan. Mörg tilhlökkunarefni þrátt fyrir voluð og vond stjórnvöld. Silungur og lax í sjónmáli með tilheyrandi útiveru. Mest hugsa ég þó um komu nýs barnabarns í heiminn. Það verður indælt þó heimurinn sé eins og hann er. Ég ætla að halda fýlunni í skefjum það sem eftir lifir dagsins. Kimi tollir ekki inni þó hann helli svolítið úr sér. Við höfum það ljúft saman. Ég ætla að leggja mig aftur og láta mig dreyma. Eitthvað fallegt í ógleymi rænuleysisins. Við rauðstakkar sendum vinum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Friday, May 22, 2009

 

Þorskur.

Við Maggi fórum á sjó á þriðjudaginn var. Það var sól og blíða og frekar fámennt en góðmennt um borð. Við drógum bæði þorsk og ufsa úr hafdjúpunum. Ég held að við höfum fengið 13 fiska. Hvað annað? Þetta var indælis túr og nú er ég kominn á bragðið. Það var bara gerfibeita á færinu. Rauðar, grænar og gular plastlufsur við krókana.Næst þegar ég fer á sjó ætla ég með niðurskorinn makríl eða síld með mér. Ég át þverskorinn þorsk í gær. Kartöflur og smjér með og varð ákaflega gott af. Við Maggi höfðum fyrrverandi ráðherra á milli okkar við dráttinn. Framsóknarkonuna Siv Friðleifsdóttur. Hún er greinilega þaulvön skakinu og var hin ljúfasta í viðmóti og tali. Eftir nokkurn tíma sá hún að fiskarnir tóku gulu lufsuna fram yfir þá rauðu. Hún var með rauða og græna lufsu og það var því eðlilegt að skipta um. Ég sagði að hún veiddi ekkert á vinstrigræna gerfibeitu. Hún svaraði fáu og ég áttaði mig fljótlega á að fammararnir eru hrifnir af græna litnum. Þetta var semsagt skemmtileg tilbreyting en auðvitað tapaði ég þeim stóra. Ég vissi aldrei hvað var á króknum því ferlíkið losnaði af áður en ég næði að sjá það. Næst kræki ég í steinbít og stórlúðu. Ekki nokkur spurning. Það hefur verið dásemdarveður hér undanfarna daga. Bjart yfir og vel hlýtt. Spáir rigningu um helgina og ég drattast þá kannski við að ljúka ýmsum verkum hér heimafyrir. Nú er rúmur mánuðir í laxinn og þeir eru farnir að sjá hann í Laxá í Kjós. Ölfusá tær og falleg þessa dagana og ég hygg gott til glóðarinnar. Það er ró og friður hér og Kimi lúrir í gamla tágastólnum. Það er vorhugur í okkur báðum. Hann hefur nú látið af fuglaveiðum, a.m.k. í bili. Ég las honum pistilinn í hittafyrra og þetta er skynsamur og tillitssamur köttur. Skilur ýmislegt og finnst vænt um fóstra sinn. Það er gagnkvæmt. Bestu kveðjur frá báðum, ykkar Hösmagi.

Monday, May 18, 2009

 

Ömurð.

Ég fylgdist með stefnuræðu Jóhönnu og umræðum um hana í gærkvöldi. Ég óttast að þessi ríkisstjórn sé feig. Ég varð fyrir vonbrigðum með Jóhönnu. Kannski var ekki við neinu að búast. Ekki orð um neinar raunhæfar lausnir á vanda þjóðarinnar. Og reyndar engin stefna í efnahagsmálum. Ef fram fer sem horfir eigum við að borga allar skuldir útrásarvíkinganna með vöxtum og vaxtavöxtum. Það mun taka okkur, börnin okkar og barnabörn marga áratugi. Mestur hluti ræðunnar fór í að mæra Evrópusambandið. Þar er allt umvafið rósrauðum skýjum. Með umsókninni einni erum við búin að leysa hálfan vandann og þegar við verðum komin inn er allt í blóma hér. Við munum stjórna fiskveiðistefnu ESB, vextir við núllið og verðbólga engin.Það er eins og Jóhönnu sé algjörlega hulið að þjóðin er þverklofin í málinu. Bloggvinkona mín á Moggablogginu, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, varð að benda forsætisráðherranum á að það eru 2 flokkar í ríkisstjórninni. Yngsti þingmaðurinn, Dalabóndinn Ásmundur Daðason, líka bloggvinur minn, tók í sama streng. Það er skelfilegt að hugsa til þess að meirihlutastjórn vinstriflokkanna skuli fara af stað með þessum hætti. Allt bendir nú til þess að þingsályktunartillagan um aðildarumsókn verði felld í þinginu. Það væri miklu nær að leggja málið í dóm þjóðarinnar strax. Ef þingsályktunartillagan yrði samþykkt, sem litlar líkur eru á, myndi allur krafturinn fara í þær. Kraftur, sem við verðum að nota í allt aðra hluti. Einstefna og hroki samfylkingarinnar geta reynst okkur dýr ef ekkert breytist frá því í gærkvöldi. Ég er alls ekki að halda því fram að allt sé glatað þó við sækjum um. En það er fáránlegt að ætla sér að reyna að telja fólki trú um að allt leysist ef við göngum í ESB. Matur á spottprís og efnahagsmálin leyst til framtíðar. Hið sögulega tækifæri er að renna okkur úr greipum. Ég óttaðist það reyndar löngu fyrir kosningar. Það var alveg ljóst í mínum augum að flokkarnir gátu ekki náð saman í ESB málinu. Til þess hefði annarhvor flokkurinn þurft að byrja á að svíkja kosningaloforð sín. Það er ekki gæfulegt upphaf ríkisstjórnar að taka fyrstu skref sín þverklofin í jafn stóru máli og ESB málið er. Láta það velta á afstöðu annara flokka hvert framhaldið verður.Því miður verður líkleg niðurstaða af ESB trúboði SF að þessi stjórn andist langt fyrir aldur fram. ESB málið var bara eitt af mörgum kosningamálum síðustu kosninga og engin afgerandi niðurstaða kom fram.Flokkarnir 2 sem höfðu sérstaklega gert ályktanir um að við værum betur sett utan ESB fengu 30 þingmenn og eini flokkurinn sem lagði mikla áherslu á aðild fékk 20 þingmenn. Framsókn opin í báða enda að venju.Eina raunhæfa lausnin eins og nú er komið er að gefa þjóðinni kost á að ákveða í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort sækja skuli um aðild eða ekki. Í þeirri kosningu er ekkert annað undir. Ekkert uppgjör í flokkapólitíkinni. Þá verður friður til að ráðast af fullum krafti í uppbyggingu að nýju. Það mun takast ef þjóðin stendur saman og nýtir sameiginlega krafta sína til þess.
Ég ætla á sjó seinnipartinn í dag og hlakka til. Sólin komin hátt á loft. Það er þó talsverð gjóla og ég vona svo sannarlega að það lægi. Ég hef ekki oft komið á sjó en nógu oft til að verða bullandi sjóveikur. Það er hrein andstyggð og það bara má ekki skemma fyrir mér þessa skemmtilegu tilbreytingu. Ég fór á bókasafnið í gær og rakst þar á stóru brandarabókina. Las fyrsta brandarann og fannst hann góður. Nú er ég búinn með 50 síður og enn er bara þessi fyrsti þess virði að lesa hann. Hann er um hárskerann sem var að klippa prest. Þegar hann var búinn vildi hann ekki taka greiðslu fyrir klippinguna. " Nei, séra minn. Þú þjónar guði og ég tek ekki við greiðlsu frá honum." Daginn eftir voru 12 biblíur á tröppunum hjá honum. Nokkrum dögum síðar kom lögreglumaður í klippingu. Rakarinn vildi heldur ekki greiðslu frá honum." Nei, herra lögregluþjónn. Þú verndar mig og fjölskyldu mína." Daginn eftir voru 12 kókosbollur á tröppunum. Þarnæsta dag kom lögfræðingur í klippingu. Enn og aftur vildi hárskerinn enga greiðslu. " Nei vinur. Þú þjónar réttarkerfinu. Næsta dag mættu 12 lögfræðingar í klippingu. Kannski verður klippari með okkur lögmönnum á sjó í dag?
Viði Kimi, rauðir innst sem innst, sendum vinum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Sunday, May 17, 2009

 

Hlýja.

Í pistlinum um hina dularfullu hljómkviðu var ég að óska eftir 15° til viðbótar hitastiginu. Nú hefur draumurinn rætst og hitinn er nú nákvæmlega 18,2 gráður. Laufin hellast á trén og allt grænkar. Þessi dularfulla hljómkviða reyndist vera júróvísjón lag eins og mér datt í hug. Þetta var lagið sem keppti um annað sætið við lagið hennar Jóhönnu. Lag Azerbaijan, always in my mind. Það hljómar annað slagið í hausnum á mér. Það hverfur út í eterinn bráðum eins og flest lögin. Eitt og eitt lifir og verður klassík eins og Bítlarnir. Þegar ég var að strjúka grænu þrumunni framan við bílskúrinn áðan renndi til mín veiðimaður sem ég þekki. Ég minntist á stórurriðann sem veiddist í Þingvallavatni um daginn. Hann sagði mérað stórurriðinn væri orðinn eitraður af kvikasilfri. Kvikasilfri frá virkjunum á Hellisheiði. Illt ef satt reynist. Sýnir enn og aftur hvað við þurfum að fara varlega í náttúrunni. Við eigum auðvitað að nýta okkar auðlindir. En það er viturlegra að hugsa áður en framkvæmt er. Það er ömurlegt til þess að hugsa að fyrir 50 árum tókst hérumbil að útrýma þessum urriða með eitri. Eitrið var notað á mývarginn sem var uppistaðan í fæðu urriðans. Nú er eitrunin af öðrum toga en samt af mannavöldum. Eftir nokkur ár, sennilega bara örfá, verður óbeislaða orkan í vatnsföllum okkar orðin margfalt verðmætari en nú. Olían gengur til þurrðar að lokum. Þessvegna eigum við alls ekki að byggja fleiri álver. Álver í eigu útlendra auðhringa sem fá rafmagnið okkar á gjafverði og flytja mestallan arðinn úr landi. Auk þess skilja þeir eftir sviðna jörð í löndunum sem afla þeim súrálsins.Það er eðli auðhringa að hámarka gróða sinn og þeim er nákvæmlega sama um allt annað. Nú heimtar bæjarstjórinn í Reykjanesbæ nýtt álver þar. Þessi náfrændi þjófsins sem nú situr á þingi fyrir okkur sunnlendinga er maður einkaframtaksins. Framtaksins, sem nú hefur gert þennan bæ að skuldsettasta sveitarfélagi landsins. Hann hefur selt nánast allt sem hægt er að selja. Vinum sínum húsnæði bæjarins og leigir svo þetta sama húsnæði af þeim. Atvinnuleysi er helmingi meira þar en annarsstaðar. Þetta er nú aldeilis vitnisburður um góða stjórn. Enda var þessi bæjarstjóri lengi aðalsprautan hjá Stjórnunarfélagi Íslands. Nóg um þennan bæjarstjóra að sinni.
Kimi sefur. Glugginn var opinn í nótt og kauði var á næturgöltri meðan fóstri svaf svefni hins réttláta. Ég vona það a.m.k. Nú eru 2 dagar í þann gula og sex vikur í laxinn. Silungurinn kemur svo í millitíðinni og inná milli í sumar. Brauð og leikir þrátt fyrir kreppu. Stundum verð ég hugsi yfir duttlungum tilverunnar. Tilviljunum að því er virðist en þó býr alltaf eitthvað undir. Lífið heldur áfram og mér finnst enn afar vænt um það. Bjartsýnismaður verður seint kveðinn í kútinn. Bestu kveðjur frá okkur Dýra, ykkar Hösmagi.

Thursday, May 14, 2009

 

Sumarþankar.

Það er sólskin og blíða. Þrettán gráður og rokið á undanhaldi. Græna þruman aldrei flottari en nú eftir sápuþvott í morgunsárið. Litbrigðin í sanseruðu lakki verða margbreytileg í sólskininu. Þegar ég lagðist í flet mitt klukkan hálftólf í gærkvöldi var enn allbjart og albjart þegar ég vaknaði aftur um klukkan 5. Dýri kann sér ekki læti yfir dásemdum tilverunnar hér fyrir utan blokkina. Ég lét loks verða af að hringja í lögmannafélagið í morgun. Sá mjög góða spá fyrir þriðjudaginn og nú er bara að hlakka til. Vonandi verður sá guli við. Ufsinn þykir geysilega skemmtilegur á stöngina og hann getur orðið mikill að vöxtum. Svo er það auðvitað ýsan, soðningin sjálf. Ég bauð Magnúsi með mér og hann varð kátur. Tjáði mér að hann hefði fengið steinbít í fyrra og það hefði ekki verið mjög leiðinlegt. Þegar ég var smápolli veiddi ég oft kola á bryggjunni í Þorlákshöfn. Stöku marhnútur gæddi sér líka á beitunni. Bjarni Sæmundsson sagði að það væri góður matfiskur en ekki étinn.Það er semsagt kominn fiðringur í gamlan veiðimann. Nú er ég kominn með Garmin leiðsögutæki í þrumuna og verð ekki í vandræðum með að rata á nýjar veiðislóðir í sumar. Í tækinu er bæði Evrópukort og Íslandskort. Þetta er ótrúlega snjallt og jafnvel tækniauli eins og Hösmagi var fljótur að læra á það. Það er létt yfir okkur Kimi. Hann er nú lagstur hér á borðið og finnst ekkert eðlilegra. Mal og kumr yfir samveru með fóstra sínum. Tími Hösmaga er kominn. Hin nóttlausa voraldarveröld er að ganga í garð. Landið mitt eins og það er dásamlegast. Ég ætla að njóta þess út í ystu æsar á næstunni. Bestu kveðjur frá okkur fósturfeðgum, ykkar Hösmagi.

Monday, May 11, 2009

 

Hér er........

súld og svínarí, en sól í Skagafirði, stendur í einni vísu Langa-Sveins. Það er hinn forni lokadagur vertíðar í dag. Skyldu sægreifarnir muna eftir deginum? Við Kimi höfum að mestu verið innandyra í dag. Svona drungi getur orsakað myglubletti á sálinni. En þeir verða ekki varanlegir því spá næstu daga er góð. Austanátt og sólskin með hlýindum. Kominn tími til eftir norðangarrann í síðustu viku.
Við fengum nýja ríkisstjórn í gær. Ég er hæfilega bjartsýnn á langlífi hennar. Það er líka afar sérstætt við stjórnarmyndun að flokkarnir séu nánast alveg á öndverðum meiði í stóru máli. Kannski var þetta eina lausnin sem til var til að ná samkomulagi.En SF er ólíkindaflokkur sem ég treysti svona mátulega. Vona samt að þessi stjórn nái árangri í endurreisnarstarfinu sem framundan er. Landið í rústum eftir óstjórn íhalds og framsóknar. Síðasta ríkisstjórn var nú ekki beysin heldur og þar ber SF mikla ábyrgð.
Á laugardaginn fór ég í bæinn að sjá Draumalandið. Þetta er merkileg og góð kvikmynd. Mér duttu margir pistlarnir mínir í hug. Pistlar, sem ég skrifaði þegar mest gekk á þarna fyrir austan.Þegar við verðum búin að virkja allt fyrir álfyrirtækin getum við framleitt 2.5 milljónir tonna af áli. Það er nákvæmlega magnið sem bandaríkjamenn kasta á haugana á hverju ári. Urða það án þess að endurvinna það. Þetta er nú ekki mjög falleg framtíðarsýn. En söngurinn heldur áfram. Það var ömurlegt að heyra í gömlu draugunum. DO á spalli við Bush. Valgerður og Dóri himinsæl. Aumast fannst mér að fylgjast með hátíðahöldum austfirðinga. Hinni blindu trú á Alcoa. Bjargvætt fólksins. Einn er með einkanúmerið ALCOA á bílnum sínum. Ætli dætur þessa fólks fái ekki nafnið líka? Hvert starf í þessu álveri kostaði yfir 200 milljónir króna. Landsvirkjun er nú á hvínandi kúpunni.Nokkur hundruð íbúðir auðar á svæðinu. Það skiptir auðhringinn auðvitað engu máli. Meðan arðurinn rennur úr landi fyrir smánarlegt rafmagnsverð er þessi góðgerðarstofnun ánægð. Þetta er allt saman óhugnanlegt og það verður að breyta um stefnu. Kannski mál til komið að SF rifji upp svik sín um Fagra Ísland og reyni að koma því á flot aftur.
Ég er að spá í sjóstangaveiði þann 19. Lögmannafélagið ætlar í róður á fengsæl mið á Faxaflóa. Maður lætur nú ekki mikið eftir sér í kreppunni. Þetta er þó gamall draumur. Kannski ætti ég bara að drífa mig? Kveðjur frá leitidraugunum í Ástjörn 7, ykkar Hösmagi.

Wednesday, May 06, 2009

 

Skítlegt eðli.

Stundum rekst maður á stökur á Moggablogginu. Mikið af rusli en ein og ein góð. Þessi var á ferðinni núna.

Hólmsteins þanka þrotabú,
þagnað hefur loksins.
Jafnvel skepnan skynjar nú,
skítlegt eðli flokksins.

Þegar fram líða stundir verður ÓRG líklega helst minnst fyrir hin fleygu orð um skítlegt eðli. Bless aftur, ykkar Hösmagi.

 

Hljómkviða.

Það er ljúft að leggjast í flet sitt á kvöldin. Sérstaklega er notalegt ástandið þegar undirvitundin marar í hálfu kafi og maður veit varla hvað er raunveruleiki og hvað er draumur. Milli svefnsins og vökunnar. Svona var þetta eitt kvöldið fyrir nokkrum dögum og þá heyrði ég lágan tón. Svo hækkaði tónninn og varð að mikilli hljómkviðu. Hvað var að gerast? Það var slökkt bæði á útvarpi og sjónvarpi. Augnablik duttu mér aliensarnir í hug. Höfðu þeir stofnað kór til höfuðs mér? Ég steig uppúr mókinu og Raikonen þaut fram til að forvitnast um þessa symfóníu. Hljóðin bárust frá tölvunni sem ég hafði skilið eftir í gangi. Þetta gæti hafa verið lag úr væntanlegri júróvísjón keppni. Ég slökkti og hvarf fljótlega aftur í land rænuleysis og drauma. Ég kann ekki skýringu á þessu en þetta hefur endurtekið sig tvisvar sinnum. Ég hlustaði á allt lagið í fyrradag og fannst það bara nokkuð gott. Líklega niður ársins 2009 en ekki aldanna eins og í Bergshúsi forðum.
Það er dásamlega fallegt veður. Sólin komin hátt á loft og lognið hefur öll völd. Hitastigið er komið rétt uppfyrir frostmarkið. Það vantar svona 15 gráður í viðbót.
Nú virðist margt benda til nýs stjórnarsáttmála um næstu helgi. Samfylkingin hefur tapað orustu. Það var nánast öllum ljóst að SF og VG gátu ekki náð samkomulagi í ESB málinu. Það er þó líklegt að það verði áfram á dagskrá og verði útkljáð með einhverjum skynsamlegum hætti á næstu misserum. Kapp er best með forsjá. SF og VG eru ekki öfundsverðir af þeim verkum sem framundan eru. Landið í rjúkandi rústum eftir sjálfstæðisflokkinn. Það sem ég óttast mest er að ríkisstjórnin sé í heljargreipum alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Saga hans og verk hræða. Passar upp á hagsmuni sinna. Við eigum enn okkar auðlindir en það eru margir sem renna hýru auga til þeirra. Vonandi tekst okkur að verja þær og komast smátt og smátt út úr verstu hremmingunum. Við bíðum og vonum hið besta.
Ég hef verið með nokkrar í takinu undanfarna daga. Ekki alveg dauður úr öllum æðum. Eða þannig. Ég er að tala um bækur. Lauk við Kuðungakrabbana í gær. Anne K. Rogde er ágætur höfundur. Fyrr í vetur las ég Berlínaraspirnar. Þriðja bókin hlýtur að vera á leiðinni. Þetta er saga Neshov fjölskyldunnar sem er arfaklikkuð. Með smá undantekningum. Nú hefur ágrip af sögu traktorsins á úkraínsku tekið við og rökkurópera Þórbergs er á náttborðinu. Skelfing væri nú tilveran fátækari ef engar væru bækurnar. Ég hlakka til lesturs margra góðra bóka í elli minni. Þær gleðja við öll tækifæri. Reka burt kvíða og eru líka góðar þegar rólyndi hugans hefur völdin.Raikonen hefur lagt loppu yfir haus sér. Nú legg ég mig aftur og gríp í Þórberg. Bestu kveðjur krúttin mín kær, ykkar Hösmagi.

Sunday, May 03, 2009

 

Gamalmenni.

Á afmælinu mínu um daginn talaði ég um að telja niður í löggildinguna, 67 ára aldurinn. Nú er 671 dagur eftir. En ég er nú þegar byrjaður að njóta arðs af aldrinum. Þann 1. maí barst mér lífeyrir frá greiðslustofu lífeyrissjóða. Þetta eru svosem ekki miklir peningar en samt meira en ég bjóst við. Góðir með hinum aurunum.Við Kimi komumst af sem stendur. Afturhaldskommatittirnir sjálfir.Nóg að éta, birtan að aukast og bráðum eykst græni liturinn. Ekki hef ég nú enn séð hann vaka í Ölfusá. Ég ætla að kaupa mér veiðikortið á morgun. Reyna fyrir mér í Þingvallavatni einn fallegan morgunn í maí. Þá hugsa ég um eitthvað fallegt og gott og læt pólitíkina eiga sig. Ef ekkert breytist þar á næstunni mun ég aldrei kjósa aftur. Þessu þrátefli verður að linna. Ef vinstri flokkarnir geta ekki komið sér saman um hvað gera skuli verður að reyna einhverjar aðrar leiðir. Þessi sjálfhelda er öllum til tjóns. Stýrivextir eru enn 15.5%. Martröð venjulegra heimila heldur áfram. Atvinnuleysið alltof mikið. Margir stjórnmálamenn eru þó í algjörri afneitun.Þeir eru til í öllum flokkum. Heiðbláir íhaldsmenn, aturhaldskommar og allt þar á milli. Kannski verðum við að kjósa á ný. Þá gætum við sett upp ESB mæli í leiðinni. Ég segi bara eins og Steingrímur Hermannsson forðum: Ég hef áhyggjur af þessu, ég verð að segja það.
Gráminn sem var efst í Ingólfsfjalli í morgun er horfinn og hitinn kominn í 7 gráður.Nánast logn og sólin brýst gegnum skýin annað slagið. Það verður ágætt að bregða sér uppí Haukadal í dag. Kannski sé ég lækjarlontu í læknum sem rennur í gegnum skóginn. Herconinn verður þó ekki meðferðis í dag. Hans tími mun þó koma eins og hjá fleirum. Ég er bjartsýnn á strengdar línur. Enn hlakka ég til Veiðivatnanna eins og smástrákur. Hefðbundna túrsins í ágúst, skottúrs með skáldinu mínu og ef til vill 3ju ferðarinnar í öðrum góðum félagsskap. Við eigum landið okkar enn þó þjóðin sé á heljarþröm. Arkitektarnir, draugurinn og yfirnagarinn, hafa engar áhyggjur. Við skulum aldrei fyrirgefa þeim gerðir þeirra.
Ég vona að þið njótið þessa ágæta sunnudags. Kimi var að birtast úr rannsóknarleiðandri og er nú með trýnið í sjófrystu ýsunni sem ég eldaði í gærkvöldi.Við sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Friday, May 01, 2009

 

Fjallagrasakórinn.

Það væru öfugmæli að segja að eldri sonur minn væri merktur pabbapólitíkinni. Það er gott í sjálfu sér. Fólk á að mynda sér skoðanir sjálft og þora að standa við þær. Honum er að sjálfsögðu heimilt að hafa sömu skoðanir á vinstri grænum og Hannes Hólmsteinn, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Ekki vildi ég ylja mér við að deila skoðunum með þessum herrum. Reyndar eru skoðanabræðurnir miklu fleiri. Útrásarvíkingarnir t.d. Glæpalýðurinn sem kom landinu á hausinn á meðan við vinstri græn tíndum fjallagrös eftir að hafa beðið sumarlangt eftir að þau yrðu þroskuð.Þau næmustu okkar hlustuðu líka á grasið gróa eins og Heimdallur forðum. Við erum baráttuglöð og sífellt fleiri styðja þennan "afturhaldsflokk dauðans". Ef einhverjir eru saklausir af því hvernig komið er fyrir þjóðinni nú erum það við. Flest okkar hafa heldur ekki tekið ESB veiruna sem nú hefur heltekið samfylkinguna svo mjög að ekkert annað kemst að. SF ætlar sér að koma okkur í ESB hvað sem tautar og raular.Með þetta markmið fékk hún minna fylgi nú en 2003 þrátt fyrir að hafa innlimað Íslandshreyfinguna í heilu lagi. Rúmlega 13.000 manns hafa skrifað undir á sammála.is Gegndarlaus áróður fyrir undirskriftum hefur skilað 7% kosningabærra manna á þennan undirskriftalista. Þetta mál er nú þjóðarböl og engin önnur lausn en að lofa þjóðinni að kjósa um það. Það liggur fyrir að við fáum engar undanþágur frá sjávarútvegsstefnunni. Spánverjar, Belgar, Þjóðverjar, Frakkar og Bretar bíða með öndina í hálsinum eftir að komast í landhelgi Íslands. Það er heldur ekkert skrýtið því þeir hafa nú þegar nær þurrausið öll fiskimið sem ESB hefur ráð yfir. Ég kæri mig ekki um þessar þjóðir inn í okkar landhelgi. SF og VG hafa báðir lagt drög að endurheimt kvótans. Því miður verður aldrei hægt að endurheimta alla milljarðana sem gjafþegar kvótans hafa dregið út úr þessari atvinnugrein. Peningar sem liggja m.a. í glæsilegustu sumarhúsunum í Grímsnesinu og lúxusvillum í BNA. Það er t.d. helvíti flott hjá einum sem stjórnar hitastiginu í sumarhöllinni í Grímnesinum með fjarstýringu úr villunni í Bandaríkjunum. Þetta getur hann af því að hann seldi hluta af kvótanum " sínum". Þetta er auðvitað ekkert annað en hið eina afturhald dauðans. Afturhald sem við vinstri græn viljum brjóta á bak aftur. Við viljum líka hætta við að gefa rafmagnið okkar. Koma í veg fyrir að Guðni bakari sjái sér hag í því að baka með orku frá olíuofnum. Virkja á skynsamlegri hátt en við höfum gert hin síðustu ár og fjölga körfunum fyrir eggin. Skjalfesta þjóðareign á öllum auðlindum í stjórnarskrá.Það var líka maklegt að umhverfisráðherrann féll af þingi í kosningunum. Það sýnir að bjálfasjónarmið um rannsóknir á Drekasvæðinu fengu ekki hljómgrunn. Kannski verð ég alltaf óalandi og óferjandi í pólitíkinni. Ég tel mig þó ávallt hafa verið sjálfum mér samkvæmur. M.a. baðst ég afsökunar á að hafa kosið VG í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Ég vil ekki fólk sem villir á sér heimildir. Bókstafirnir eru orðnir nokkuð margir hjá mér. G, H, I, M,U, V og Z. Það er illt til þess að vita að SF og VG eru að klúðra úrslitum kosninganna. Það bendir a.m.k. allt til þess. Við eigum á brattann að sækja vegna fádæma óstjórnar landsins undanfarin ár. Og það gengur hægt að gera upp við þá sem alla ábyrgð bera á núverandi ástandi. Þetta er nú hin pólitíska sýn mín á verkalýðsdeginum 1. maí 2009. Gamli afturhaldsseggurinn er enn við sama heygarðshornið. Kannski bætist svo nýr bókstafur við í næstu sveitarstjórnarkosningum?
Það er afar friðsælt hér. Kimi lúrir í stofunni og hugsar ekki um pólitík. Ég er á síðustu tárunum af kaffi morgunsins. Sannarlega held ég ró minni yfir skoðunum barna minna í pólitíkinni. Ást mín á þeim væri söm þó þau kysu öll íhaldið. Ég hef heldur aldrei valið mér vini eftir pólitískum skoðunum þeirra. Það væri líka andstætt heilbrigðri skynsemi. Einu sinni var ég studiosus juris. Ég sá afar skondna lýsingu á fyrirbærinu laganemi á vefnum í gær: Laganemi er illmenni í þjálfun. Ég held nú samt að ég sé enn voða góður strákur. Kannski að ég sé bara illmenni inn við beinið?
Allra bestu kveðjur frá rauðgrænu vinunum í Ástjörn 7, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online